6.4.2011 | 09:29
Skírteini FSA No.207250
Skírteini FSA No.207250 er trygging Landsbanka Íslands hjá breska tryggingasjóðnum FSCS. Það er gefið út sem viðbótartrygging (top-up) trygging þar sem breski tryggingasjóðurinn tekur við þar sem trygging heimaríkis þrýtur.
"Incoming EEA firms which obtain cover or 'top up' under the provisions of COMP 14 are firms whose Home State scheme provides no or limited compensation cover in the event that they are determined to be in default". (Handbók FSA, breska tryggingaeftirlitsins)
Við eðlilegar aðstæður þá tekur þessi trygging við þegar hámarki tryggingasjóði heimaríkis er náð, og það hámark er 20.887 evrur en ef það mark næst ekki af einhverjum ástæðum, þá tekur cover tryggingin við sbr no or limited compensation.
Skýring þess að þetta er orðað svona er mjög einföld, cover tryggingin á að veita fulla neytendavernd, og þetta sem við köllum alltaf lágmarks bætur, 20.887 evrur eru það hámark sem tilskipun ESB kveður á um að tryggingasjóðir veiti.
"Kerfi sem tryggir fulla greiðslu innstæðutryggingar að fjárhæð EUr 20.887 er takmark sem ná skal innan eðlilegs tíma en veitir ekki lagalegan rétt frá fyrsta degi að telja" bendir Peter Örebech lagaprófessor í Tromsö alþingismönnum á.
Þetta veit breski tryggingarsjóðurinn og því telur hann að breskir neytendur fái ekki fulla tryggingavernd nema að bankar EES landanna séu líka með cover tryggingu hjá sjóðnum. Í bréfi breska fjármálaeftirlitsins er talað um að ICEsave útibúið var "required" til að vera með þessa cover tryggingu, og þá örugglega með tilvísun í smæð íslenska tryggingasjóðsins miðað við stærð breska markaðarins.
Þessi trygging Landsbankans, No. 207250 er raunveruleg, hún er til, og hún hefur verið staðfest af bréfi breska fjármálaráðuneytisins til Lofts Altice Þorsteinssonar, meðlims í Þjóðarheiðri sem er samtök fólks gegn ICEsave. Þar segir að viðskiptavinir ICEsave njóti fullrar verndar og fá greitt út tryggingu sína að fullu.
"Consumers in the United Kingdom could (thus) be sure of the level of protection they had. We would confirm that the FSCS will pay compensation to the maximum limits".
Þegar ég pistlaði um þessa tryggingu í pistli mínum Sprengjan í ICEsave þá vakti það athygli mína að flest viðbrögðin sem ég fékk var frá fólki sem hafði réttmætar efasemdir um tilvist og tilgang þessar covertryggingar. Umræðuna má lesa þar en Loftur Altice sló á hana með ítarlegum rökstuðningi.
Ég held að það sé öruggt að fullyrða að þessar upplýsingar Lofts veki upp réttmætan vafa, sem verður að fá úr skorið. Þeir sem hundsa slíkan réttmætan vafa hafa því annan tilgang með samþykkt ICEsave frumvarpsins en að gera það sem rétt er samkvæmt lögum og eðli málsins.
Það hljóta allir að sjá að bresk stjórnvöld geta ekki rukkað Íslendinga um lögbundna tryggingu Landsbankans hjá breska tryggingasjóðnum þar sem hún á að greiðast af tryggingariðgjöldum starfandi fjármálafyrirtækja á breska fjármálamarkaðnum. Og upplýsingar Lofts benda til að það hafi breski tryggingarsjóðurinn þegar gert.
Það er því verið að tvírukka fyrir sama tjónið, fyrst hjá þeim sem ber að borga, síðan hjá íslenskum almenningi sem kemur málið akkúrat ekkert við.
Landsbankinn starfaði eftir breskum reglum þar sem tryggingarverndin er skýr, og tryggingarkerfið virkt þrátt fyrir þau áföll sem dunið hafa yfir á fjármálamörkuðum. Gjaldþrot íslenska tryggingasjóðsins kemur þessu máli ekkert við, hann er aðeins skyldugur til að greiða meðan einhver peningur er til í honum og það er engin lógík á bak við það að íslenskir skattgreiðendur setji pening i hann til að tryggja stöðugleika á breskum fjármálamarkaði.
Skyldur ná ekki yfir landamæri, það er grundvallaregla alþjóðlegs réttar.
Ég segi að það hafi vakið athygli mína að fá flest viðbrögðin frá Já fólki því ég hélt að hinn almenni maður sem vill ekki enda sem breskur skuldaþræll, að hann myndi stökkva á upplýsingar sem afhjúpa þann blekkingarhjúp sem vafinn var um meint lögmæti ICEsave krafna breta.
Mælingartæki Mbl.is námu allavega ekki það stökk.
Það er eins og fólk sé fast í baráttunni, við versus þeir. Þar sem þrasið sé aðalmálið, en ekki efnisrök málsins. Og að við séum svo sljó fyrir tölum eftir útþenslu útrásarinnar að við skiljum ekki hvað lágmark þess sem við þurfum að greiða, um 60 milljarðar eru miklir peningar, líka þegar er góðæri og bæði tekjugrundvöllur ríkisins og skuldastaða er í viðunandi lagi.
Hvað þá þegar allt er í kalda koli, og þjóðarbúið þolir ekki frekari álögur, er nú þegar að kikna undan þeim sem þegar eru.
Ef þúsundir manna taka undir kröfuna um frestun þjóðaratkvæðagreiðslu (sem ég vona að Samstaða um Íslandi beri gæfu til að senda fjölmiðlum á eftir) á meðan óháð rannsókn fer fram á hinni raunverulegu tryggingu Landsbankans, og ástæðum þess að stjórnvöld hafa þagað yfir henni þunnu hljóði, þá verður ekki hægt að hundsa þá kröfu.
Þá er ljóst að vilji íslenskra alþingismanna til að borga er meiri en vilji breta til að rukka.
Í þessu samhengi skiptir engu máli þó við Nei menn séum með sigurinn vísan því þó margt sé rangt í málflutningi Já manna, þá fara þeir ekki með fleipur að ICEsave sé ekki úr sögunni þó Nei-ið verði samþykkt. Í því felast aðeins stundargrið, sem ná kannski ekki fram yfir helgi.
Aðilar vinnumarkaðarins hafa hótað þjóð sinni og segjast setja allt í uppnám ef þjóðin hafnar lögleysunni.
Einnig er mjög líklegt að ESB muni hóta einhverjum kárínum. Og ekki má gleyma Moodys.
Eina ráðið til að fá þetta mál út af borðinu, er að það verði rannsakað, og síðan dæmt í því.
Þá fær íslenska þjóðin loksins uppreisn æru og lausn undan hótunaroki stuðningsmanna breta.
Og upplýsingarnar um þessa cover tryggingu Landsbankans eigum við að nota strax til að þrýsta á stjórnvöld um réttar upplýsingar, um opinbera rannsókn.
Stjórnvöldum er málið skylt því þau hafa aldrei minnst einu orði á að Landsbankinn hafi líka verið með löglega tryggingu i Bretlandi.
Alþingi er málið skylt því samninganefndin um ICEsave er skipuð af Alþingi og í henni sitja fulltrúar allra flokka.
Og samninganefndin samdi án þess að taka neitt tillit til tryggingar Landsbankans hjá FSCS og formaður samningarnefndarinnar var svo ósvífinn að tala um að bresk stjórnvöld hefðu þurft að taka lán til að greiða út ICESave trygginguna þegar hið sanna er að bresk fjármálafyrirtæki greiddu hana samkvæmt ákvæðum breska tryggingarsjóðsins en tryggingarvernd neytenda er fjármögnuð með tryggingariðgjöldum fjármálafyrirtækja.
Breski ríkissjóðurinn tók ekki lán til að greiða út ICEsave, hann greiddi ekki krónu sjálfur.
Það er undir okkur komið, okkur almennings í landinu hvort krafan um frestun þjóðaratkvæðagreiðslunnar á meðan opinber rannsókn stendur yfir, verði það hávær að stjórnvöld geti ekki hundsað hana.
Við vitum að auðmiðlar, Ruv og fjölmiðlar Jóns Ásgeirs munu hundsa hana, og ef þöggunin dugar ekki, þá munu þeir fá fólk sem vill borga hvað sem það kostar, til að gera lítið úr henni, skrumskæla hana eins og þeir skrumskæla vilja okkar til að vera fólk en ekki þrælar.
En auðmenn eru ekki almáttugir guðir, þeir geta ekki þaggað niður kröfu fjöldans, ekki frekar en rússneskir skriðdrekar gátu kæft frelsisvilja fólks í Austur Evrópu.
Það er aðeins einn aðili sem getur gert þessa þöggun mögulega, og það erum við sjálf.
Þess vegna læt ég þennan bloggpistil standa, án þess að bæta við færslum ,í bili. Fái hann engin viðbrögð, breiðist boðskapur hans ekki út, þá er ljóst að við höfum ekki kjark til að taka slaginn beint við ófétin, og þá verður svo að vera.
Af nógu er að taka samt, og hér verður áfram hamrað á meðan einhver eldur er til að kynda undir steðjanum.
En allt ICEsave stríðið væri miklu auðveldara ef við fylktum liði og skunduðum á þing til að verja vora þjóð. Að við héldum í beina orrustu við fjandmenn Íslands.
Það er ekki nóg að segja að við séum fólk en ekki þrælar, við þurfum líka að trúa því.
Og sýna það í verki.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:07 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 10
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 456
- Frá upphafi: 1412818
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 395
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þrælgóð samantekt. Segjum NEI. Sannleikurinn kemur í ljós í málaferlum þ.e.as. ef þau verða. Annars þarf að rannsaka allt þetta mál og draga til ábyrgðar þá menn sem hafa haft gögn undir höndum sem styðja við málstað Íslendinga, en hafa haldið leyndum.
Möguleiki verður á að Landsdómur starfi um ókomin ár.
Eggert Guðmundsson, 6.4.2011 kl. 10:50
Algjörlega sammála Eggerti og hef alltaf haft þá skoðun að þetta mál sé rannsakað að einhverju viti en ekki að menn séu með allskonar skoðanir sem ekki standast.
Böðvar Ingimundarson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 11:20
Sæll Ómar ! Glæsilega uppsett og að vissu marki skiljanlegra en á "Sprengju" innlegginu (mitt álit allavega).
Tókst eftir þrjár atrennur að fá link á þetta til að sitja á FB síðu "Áfram" ekkert mál að setja á mína og Nei síðuna, hvet fólk til að kommenta á þetta á báðum síðum, sjáum bara til Ómar !
MBKV
KH
Kristján Hilmarsson, 6.4.2011 kl. 11:32
Blessaður Eggert.
Smá leiðrétting á því sem segir en hún snertir grundvallarkjarna ICEsave deilunnar, og mun valda straumhvörfum í henni.
Sannleikurinn er kominn í ljós.
En hann er beittur þöggun.
Það sem ég segi í þessum pistil er rétt. Verður ekki véfengt, bretar eru að rukka þjóð okkar um lögbundna tryggingu Landsbanka Íslands, tryggingu sem bresk fjármálafyrirtæki eiga að borga, og hafa borgað með iðgjöldum sínum.
Spurningin er hins vegar, viljum við láta sannleikann hljóma, eða viljum við þrasa til að þrasa.
Á því er grundvallarmunur.
Fólki sér kannski ekki tilganginn í því að kalla eftir opinbera rannsókn því það verður ekki orðið við þeirri kröfu.
En þá áttar fólk sig ekki á kjarna málsins, þöggun eða hundsun ríkisstjórnarinnar er staðfesting alls þess sem ég er að segja í þessum pistli og að stjórnvöld treysti sér ekki til að vefengja gögn Lofts.
Það staðfestir að ríkisstjórnin hefur vísvitandi tekið þátt í blekkingunni og að hún viti að sannleikurinn, sú staðreynd að LÍ var tryggður í London, afhjúpar allan hennar málatilbúnað, og afhjúpar breta sem ómerkilegustu þjófa. Fyrir voru þeir fjárkúgarar, en um það var deilt þar sem enginn hafði stefnt þeim fyrir dóm.
En gögn Lofts sanna þjófnað.
Aðeins eitt getur bjargað stjórnvöldum, ef krafan nær að hljóma, er að taka undir hinn réttmæta vafa og láta fresta þjóðaratkvæðinu á meðan rannsókn óháðra aðila fer fram, bæði á eðli tryggingar LÍ, sem og af hverju þjóðin var aldrei, á öllum stigum málsins, upplýst um tilvist hennar. Og svo framvegis.
Og ríkisstjórnin mun ekki átta sig á stöðu sinni, og hlátur hennar og hæðni mun aðeins gera stöðu hennar verri. Því þá játar hún að réttmætu vafi skiptir engu, heldur aðeins eitt að borga bretum, jafnvel þó hann hafi verið tryggður i LÍ, og breski tryggingasjóðurinn á aðeins kröfu á þrotabú LÍ samkvæmt tilskipun ESB, ekki heimaland bankans.
En Eggert, ég sé það á fögninni sem fylgir þessum pistli, að helsti óvinur sannleikans, erum við sjálf. Við erum svo hrædd að taka að skarið, að verja okkur sjálf í stað þess að teysta á aðra, að við viljum frekar framlengja ICEsave kúgunina í stað þess að eyða henni.
Það tekur ekki nema dag fyrir 30.000 manns að klikka á I like it og fjölmiðlar geta ekki lengur hundsað þessar upplýsingar.
Þeim er öllum kunnugt um skrif okkar Lofts, en þeir þegja, þegja fyrir valdið, því hugleysið er ekki bara bundið við okkur í andstöðunni.
Það er hugleysi fjöldans sem útskýrir kúgun fárra, sem útskýrir að sama fólkið sem rændi okkur, er að koma ICEsave og AGS á herðar okkar, þannig að 160 milljarðar áttu að fara í vexti á þessu ári, ef ICEsave 2 hefði verið samþykkt.
Svo eru menn að tala um heilsugæslu og menntun barna sinna.
Nei, Eggert orrustan er hér og núna, ekki í Landsdómi eftir einhver ár. Þá verður það of seint, því það er aðeins beðið eftir samþykkt IcEsave til að AGS kasti af sér grímunni líkt og hann er búinn að gera á Írlandi og í Grikklandi.
Lokun sjúkrahúsa og útburður fólks af heimilum sínum byrjar um leið og ICEsave er frá.
Það er faktur sem fólk heldur að hverfi, ef það lokar aðeins augunum.
Og það er sorglegt þegar það eina sem þarf er eitt lítið klikk.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.4.2011 kl. 12:06
Blessaður Kristján.
Sprengjan var hönnuð sem sprengja, átti aldrei að vera annað en að opna umræðuna. Þessi pistill var síðan framhaldið sem átti að nýta athyglina, og svo er málið úr mínum höndum.
Hver er sinnar gæfusmiður, gæfa þjóðarinnar verður reynd í dag og á morgun.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.4.2011 kl. 12:10
Já það er ekki akkúrat "tronðingur" í kommentunum hér Ómar ! en innlitin í dag eru komin yfir 1000 !!
Hef annars skemmt mér konunglega á síðunni hjá "Áfram" með smá trega þó, en hvað þýðir það, við erum misjöfn og sum okkar svo auðtrúa að ótrúlegt þá heita.
En hendu að gamni inn einu "plakati" frá Ragnari Hall, sem "Áfram" síðan skartar síðuna með.
"
Ragnar Hall:"Ég tel að það sé ekki lagaleg skylda okkar að borga þetta, en ég tel hinsvegar að áhættan af slíku dómsmáli sé það mikil að við eigum ekki að taka hana"
Ef þetta er ekki að hvetja til lögbrots gegn betri vitund, veit ekki ég ? linkur á þetta og önnur álíka HÉR
MBKV
KH
Kristján Hilmarsson, 6.4.2011 kl. 14:01
Fólk er að melta þetta Kristján, og hugsanlega einhver að kynna þetta. Næsta skrefið er að Loftur sendi frá sér yfirlýsingu í fjölmiðlana, spurning hvenær hinir skrifa undir, vonandi fyrr en seinna.
Ef ekki þá hef ég allavega lagt á mig kynningu á lítilli mús.
Já, mér skilst að Laddi sé orðin afbrýðissamur, núna kastar fólk Áfram húmor sín á milli.
En ég ætla að slappa af, gærdagurinn var erfiður og tilgangi mínum náð.
Bið að heilsa.
Ómar.
Ps. það er samstaða sem sendur út bombuna, kröfuna um tafarlausa rannsókn á rangfærslum samninganefndarinnar eða eitthvað, en Loftur er heilinn, betri en enginn.
Ómar Geirsson, 6.4.2011 kl. 14:22
Ómar: "En allt ICEsave stríðið væri miklu auðveldara ef við fylktum liði og skunduðum á þing til að verja vora þjóð. Að við héldum í beina orrustu við fjandmenn Íslands."
Er það viljandi eða "óvart" að fjandmenn Íslands virðast vera á Alþingi í þessum texta þínum?
Ég tek það skýrt fram, að ég er sammála slíkri túlkun.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 14:35
Já, það er nú eins og það er, samhengið verður að skoða.
En það er jú þingið sem samþykkti þessi ólög, sem og mörg önnur. Og ég tel að við eigum að stríða núna, ekki seinna, Nei-ið sem slíkt er aðeins bið eftir næstu atlögu.
En ég átti samt við þann samfélagsþrýsting sem við sem fjöldi, getum myndað gagnvart IcEsave liðinu, ef það hundsar þessa staðreynd að bretar eru að rukka fyrir útgjöld breska tryggingasjóðsins, þar sem LÍ var með fullnægjandi tryggingu.
Ég sé ekki hvernig það er hægt fyrir auðleppana á Ruv að horfa fram hjá kalli almennings.
Og þegar þessi krafa er komin i fjölmiðlanna, þá sé ég ekki hvernig ríkisstjórnin geti látið eins og ekkert hafi gerst. En heiðarleg rannsókn ætti að aflétta þrýstingnum á stjórnvöld og þá held ég að ýmislegt breytist, en aðeins tíminn veit það.
En svo ég leggi út af spurningu þinni, þá er ég til friðs í þessu bloggi, tel að það sé krafa beggja fylkinga að fá þetta mál á hreint.
En byltingin er önnur Elle, og ekki lengur innan míns áhugasviðs, vil þetta ICEsave burt úr íslenskri umræðu og punktur. Um annað er ég löngu hættur að tala og geymi mína sérvisku fyrir mig.
Kannski erum við allir vinir, fólk bara veit það ekki og skilur ekki þessa sammannlegu ógn sem við blasir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.4.2011 kl. 15:15
Ómar minn,
Lestu nú grein Gylfa Magnússonar, og bentu á eitthvað sem þar er rangt. Þar stendur m.a.
x-JÁ - fyrir framtíðina!
Einar Karl, 6.4.2011 kl. 15:43
...voðalega skammast maður sín fyrir kellingar með skegg eins og Einar Karl sem er að reyna að sannfæra fólk um að jörðin sé flöt!
Góð rökfræði eru til sölu um allt. Góð rök til að ljúga að almenningi er verslunarvara í hinum pólitíska heimi...Gylfi Magnússon á að kynna sér staðreyndir og skrifa um það enn ekki að púsla þeim saman eins og þegar fjandin les Biblíunna sér í hag..
Óskar Arnórsson, 6.4.2011 kl. 16:53
Einar. Þú gleymir að skuldirnar á bak við þessa eignaaukningu fólks, liggja enn á fólki og fyrirtækjum sem tóku lán frá bönkunum. Ef þú ert að tala um fjármagnsskattinn sem ríkið fékk, þá er sá LÖGLEGI skattur ekki nein réttlæting, fyrir Íslendinga, að fara að samþykkja ólögvarða kröfur sem felast í þessum Icesave 3 samkomulagi.
Síðast en ekki síst, þá er Breska Ríkið ekki málsaðili að þessum kröfum, hvað þá Íslenska Ríkið. Krafan ætti að koma frá þeim sem greiddu Icesave innistæðurnar þ.e. Breska tryggingasjóðnum en ekki Breska Ríkinu.
Eggert Guðmundsson, 6.4.2011 kl. 16:56
Einar Karl biður um að bent sé á það sem er rangt í grein Gylfa og það gerir Eggert svo sómi er að, ekki svo sem að þetta með Land Cruiser jeppana sé rangt, heldur er tengingin röng. þ.e. að það sé sama og að "dælt" hafi verið inn fé í íslenska hagkerfið, jepparnir eru ekki framleiddir á Íslandi og enginn greiddi þá út í hönd og hvert virðr þeirra er dag á móti skuldunum, er hverjum og einum frjálst að giska á.
Og svo að "grunnurinn að Icesave deilunni sé.." osfrv. neyðarlögin sem slík eru löngu búin að fá sína viðurkenningu sem lögleg í stöðunni sem Ísland var í við hrunið, hjá ESA, eftir stendur álitið varðanadi ríkisábyrgð á innistæðureikningum, sem ekki er útkljáð enn, það er grunnurinn, sem sjaldan eða helst aldrei má nefna í "JÁ" búðum.
Svo þetta sem Eggert segir í lokin um að Breska ríkið sé ekki né eigi að vera málsaðili, það er einmitt lykillinn í innleggi Ómars, það er verið að rukka Íslendinga um þetta eftir að búið er gera þetta upp samkvæmt reglum úr réttum sjóðum, takist þeim þetta er þjófnaðurinn orðinn að veruleika, á meðan er þetta þjófnaðartilraun sen ber að stöðva sem fyrst.
Annars er hlægilega auðvelt að rífa grein Gylfa niður málsgrein fyrir málsgrein, ekki vegna þess að hann sé svo lélegur "penni" onei, en vegna tenginga á alls óskyldum hlutum á "þvers og kruss" þar sem hann fær lygina til virka trúverðuga, en er búin að fá nóg af því að elta bæði mitt skott og annarra svo nú horfi ég bara þá sem gleypa svona orðaleikfimi hráa, og elta sitt eigið skott.
MBKV
KH
Kristján Hilmarsson, 6.4.2011 kl. 17:59
Nei fyrir framtíðina. Munum líka það að nú eiga Bretar næsta leik. Þeir eiga að sækja á okkur en ekki við að byrja að verja okkar fyrr en þeir eru komnir af stað. Þeir báðu aldrei um fund vegna ICESAFE það voru alltaf við sem betluðum fundina út úr þeim.
Valdimar Samúelsson, 6.4.2011 kl. 18:38
Takk fyrir innlitið heiðurskallar hér að ofan. Ætla mér að melda seinna en vil vekja athygli á að málfarsráðunautur síðunnar vildi að ég stafsetti skírteini rétt, og er það hér með gert.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.4.2011 kl. 20:55
Sjá.:´Hér er þetta svart á hvítu.
In Iceland- Landsbanki Islands hf (FSA No. 207250 / approved July 2006)
- Kaupthing Bank hf (FSA No. 222968 / approved February 2008)
Please note: Although Kaupthing Bank hf has topped up into FSCS, the bank currently operates under the full FSA authorisation status granted to Kaupthing Singer & Friedlander Limited (a UK registered company), which means its depositors are fully protected by FSCS up to £50,000.http://www.fscs.org.uk/what-we-cover/products/investments/eea-top-ups/Valdimar Samúelsson, 6.4.2011 kl. 21:38
Bankarnir fóru á hausinn þá átti þessi trygging að taka yfir. Hverskonar aula fólk er hér við stjórn. Þetta eru þjóðarskemmarar öðru nafni terroristar á þjóðina.
Valdimar Samúelsson, 6.4.2011 kl. 21:40
Blessaður Einar.
Ég var nú eiginlega búinn að ákveða að fjalla ekki um ICEsave sem slíkt undir þessum pistli, er að benda á einfalda staðreynd, LÍ var tryggður í London, og bretarnir eru að tvírukka sama hlutinn, fyrst hjá fjármálafyrirtækjum eins og ákvæði breska tryggingasjóðsins gerir ráð fyrir, og síðan íslenska skattgreiðendur þó þeim komi málið ekkert við. Heitir þjófnaður á góðri íslensku og þykir ekki til eftirbreytni.
En ég sagði einhverjum strákum í athugasemdum við sprengju pistil minn að ég skyldi svara þeim um ICEsave, ef þeir bæðu mig fallega, sem þeir gerðu ekki reyndar, en ég ætla mér sömu regluna hér, og þar sem þú biður fallega, þá skal ég aðeins eyða nokkrum orðum á pistil Gylfa. En bar mjög fáum.
Aðeins tvennt, ég sé ekki samhengið í að ég borgi ICEsave þó að nágranni minn eigi Land Cruiser, veit að hann er búinn að borga hann. En ég veit að frændi minn á einn, með áhvílandi bílaláni, veit að hann er i skilum með það lán. Ég hins vegar á Kiu, skuldlausa, fínir bílar, og eftir að ég eignaðist hana, þá hef ég ferðast meira með minni verkjum. En hvort það tengist eitthvað ICEsave, það er spurning en á meðan Gylfi sleppir að nota það sem rök í málinu, þá ætla ég ekki taka afstöðu til þess, held samt að ég myndi ekki sjá samhengið.
Það seinna er bein lygi Gylfa. Þú mátt alveg fábúlera um lága upphæð af ICEsave, veist örugglega ekki betur, en þegar prófessor í hagfræði segir að hún sé 30 milljarðar, jafnvel lægri, þá veit hann betur og fullyrðing hans því bein lygi.
Og Einar, það er ljótt að ljúga, eitthvað sem ég hef til dæmis ekki rekið mig á að þú gerir viljandi, þegar þér er bent á að eitthvað sem þú segir standist ekki, og þú viðurkennir rökin þar að baki, þá breytir þú rökfærslu þinni að staðreyndum mála.
Þess vegna skil ég ekki að þú sért að vitna í lygara.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.4.2011 kl. 23:27
Blessaður Valdimar.
Takk fyrir þínar upplýsingar, vil reyndar fara í smá sparðatíning, þú segir að þá hefði trygging LÍ átt að taka yfir, vil leiðrétta þig, hún tók yfir, og um það fjallar þessi pistill.
Loftur er með staðfestingu frá breska fjármálaeftirlitinu þar um.
Þannig að þetta eru þjófar, og þeir sem hylma yfir með þeim þjófsnautar, ekki nema að þeir hafi ekki vitað betur.
En þá hljóta þeir að bregðast við þessari grein og fresta þjóðaratkvæðinu, á meðan málið er rannsakað.
Allt annað er staðfesting þess að þeir eru vitorðsmenn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.4.2011 kl. 23:39
Og þið heiðursfélagar, Eggert, Óskar og Kristján, takk fyrir að passa bloggið á meðan ég var að sýsla í öðru.
Verðum samt að meta það við Einar, að hann þorir, hinir þegja. Og væla svo á öðrum síðum, greyin, segi bara eins og Eiríkur Hauksson, "sekur um glæp, útskúfaður".
Það er ljótt að þurfa að eyða restinni af ævi sinni að þvo æru sína daglega af þeirri smán að hafa stutt breska þjófnaðinn, ofaná stuðninginn við fjárkúgun þeirra.
Spurning hvort maður ætti ekki að fjárfesta í sápuframleiðslu, hlýtur að verða multí eftirspurn þegar sannleikur málsins rennur upp fyrir þessum þjófsnautum.
Allavega heyri ég ekki ennþá hrópin á rannsókn, þó staðreyndir málsins liggi fyrir, LÍ var að fullu tryggður út í London, og málið á engan hátt á forræði íslenska ríkisins.
En Nei fólk skil ég ekki, að það skuli þegja líka, það kom mér meira á óvart.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.4.2011 kl. 23:46
Ómar, góð umfjöllun. Mér finnst það skjóta skökku við, að þetta hafi aldrei verið rætt í tengslum við samningsgerðina. Við höfum verið látin halda að eina tryggingin hafi verið sú íslenska. Núna kemur í ljós að Landsbankinn var með þessa "top-up" tryggingu, þ.e. tryggingu ofan á þá íslensku.
Þetta breytir samt ekki minni grunnhugsun varðandi greiðslur úr þrotabúi Landsbankans. Fyrst á að greiða til íslenska tryggingasjóðsins (TIF), þar til krafa hans hefur verið greidd upp. TIF sér síðan um að greiða öðrum tryggingasjóðum og innstæðueigendum sem hafa ekkert fengið bætt að hámarki upp í lágmarkstrygginguna. Næst er greitt það sem vantar upp í 35.000 pundin hjá breska sjóðnum og sambærilegt til annarra. Þá er greitt það sem vantar upp í 50.000 evrurnar hjá Hollendingunum og sambærilegt til annarra. Loks er greitt upp í þær kröfur sem út af standa. Ef þessari aðferð er fylgt, þá fæst upp í kröfu TIF í síðasta lagi fyrir lok næsta árs.
Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 00:46
Blessaður Marínó, það er nú margt í þessu og hægt að hafa skoðanir á ýmsu.
Til dæmis ef það hefði verið satt, sem okkur var sagt, að eina tryggingin hefði verið hjá íslenska tryggingasjóðnum, þá eru reglurnar skýrar hvernig á að úthluta úr þrotabúinu og það er eins og þú bendir á, fyrsta krafa, önnur krafa, þriðja krafa og svo framvegis, og það styðst ekki bara við íslensk gjaldþrotalög skilst manni, heldur líka reglugerð ESB um innlánstryggingar.
En samningurinn er þvingun, og tekur ekki tillit til neinna reglna, heldur er samið við breta og Hollendinga um að þeir slái eitthvað af einhliða kröfum sínum, og slái af vaxtakröfu sinni.
Lykilatriðið í þessu er þvingun, þetta eru ekki samningar, heldur niðurstaða þar sem annar aðilinn er neyddur til að samþykkja einhliða kröfur hins aðilans.
Og þess vegna er svo skrýtið að menn tali um dómsstólaleiðina sem einhverja ógn, að hún sé verri en þessi þvingun, það mætti ætla að dómsstólar dæmi eftir viðurkenndum reglum og lögum.
En Marínó, í raun er þessi umræða orðin fortíð.
Vegna þeirra upplýsinga sem ég vek athygli á í þessum pistli, LÍ var með lögbundna tryggingu og það hefur legið fyrir allan tímann. Og það er búið að rukka bresk fjármálafyrirtæki um þessa tryggingu. Þar með á breski ríkissjóðurinn ekki neina kröfu á þeim íslenska, því hann lagði aldrei út fyrir neinu, hann borgaði aldrei neitt.
Breski tryggingasjóðurinn á aðeins kröfu á þrotabúið, eins og stendur skýrt í tilskipun ESB, og því er málið dautt. Eða réttara sagt, það var aldrei forsenda fyrir kröfu breta vegna ICEsave. Hvorki lögleg eða ólögleg.
Og þetta er svo augljóst þegar maður fer að hugsa út í þetta, að maður skilur ekki að maður skuli ekki hafa fattað þetta samhengi fyrr. Og ég sé að þessi grein er mikið lesin, án athugasemda, þannig að ég tek því að fólk er að melta þetta.
Við erum stödd í ævintýri og lítið barn benti á að keisarinn væri á nærfötunum einum klæða. Og við sem vorum að rífast um hvort fötin væru gul eða græn, hvort þetta væri smóking eða kjólföt.
Þá var hann bara fatalaus blessaður.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.4.2011 kl. 01:14
Góður pistill, þökk fyrir að austan
Magnús Ragnar (Maggi Raggi)., 7.4.2011 kl. 04:17
Aha stund.....hver á kröfur á hvern ? Plato hefði a.m.k. talið þetta ástæðu fyrir suma til að gægjast aðeins út úr hellinum ;)
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 12:46
Takk fyrir góðan pistil og hreint ótrúlega afhjúpun.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 7.4.2011 kl. 22:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.