Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
29.4.2021 | 09:39
Bóluefnin virka.
Það er greinilegt, svona inngrip í ónæmiskerfið er aldrei án aukaverkana.
Þar á meðal lífshættulegra.
Ef við erum ekki sátt við það, og krefjum til dæmis yfirvöld um að feta fótspor forheimskunnar líkt og sumir frændur okkar á Norðurlöndum, og bönnum ákveðin bóluefni vegna sannaðra aukaverkana þeirra, þá eigum við að gera þá sömu kröfu á öll lyf og allar læknisaðgerðir með sömu eða meiri líkur á alvarlegum aukaverkunum.
Segja bless við öll krabbameinslyf, öll hjartalyf þar á meðal gamla góða hjartamagnýlið sem tugþúsundir bryðja daglega til að koma í veg fyrir blóðtappa (aukaverkun er auknar líkur á æðablæðingum), bólgueyðandi lyf hvort sem það eru verkjatöflur eða steralyf, eiginlega allflest lyf sem við notum við astma, ofnæmi, verkjum, sýkingum því ekki eru sýklalyf án áhættu, og svo framvegis og svo framvegis.
Það reynir hins vegar ekki á uppskurði sem krefjast svæfinga því svæfingar eru ekki án áhættu. Þegar ég skrifaði til dæmis í fjórða skiptið á stuttum tíma undir skjal um að ég léti svæfa mig ótilneyddur, vitandi af áhættunni, þá hvarflaði samt að mér hvort núna væri komið af þessu eina prósenti sem hefði afleiðingar, en svo mundi ég eftir tölfræðinni, líkur voru jafnar í fjórða skiptið eins og það fyrsta.
Krafan til bóluefnanna við kóvid er í raun krafa um að afleggja nútíma læknavísindi.
Þó hún sé runnin undan rifjum myrkraafla sem sjá aurinn í dauðanum og djöflinum, þá afsakar hún ekki dómgreindarbrest þeirra sem ábyrgðina bera og taka undir hana.
Jón á götunni má vera þekktur rugludallur, en ekki þeir sem gáfu kost á sér til valda, og fengu völd eftir niðurstöðu lýðræðislegra kosninga.
Þessi einfalda staðreynd virðist stundum gleymast þegar stjórnmálamenn láta undan þrýsting ruglsins og lýðskrumsins, að stundum eiga þeir ekki annað val en að gera það sem rétt er fyrir almannaheill.
Treysti þér sér ekki til þess, þá eiga þeir að segja af sér en ekki hanga til óþurftar í valdastól líkt og börnin sem Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að vanvirða þjóðina með að skipa í ráðherrastól.
Annað sem má heldur ekki gleymast, það skiptir máli hvernig hlutirnir eru settir fram.
Að Lyfjastofnun, með vísan í eitthvert smáaletur, sé að gera bólusetningar grunsamlegar með því að skrá öll andlát bólusettra sem hugsanlega aukaverkun, er vítavert.
Hin skráðu andlát væru líklegast þau sömu þó bólusett hefði verið með gómsætu muffíns, tekið inn með mjólk eða kaffi í lok síðdegiskaffisins.
Já eða bara Síríus suðusúkkulaði í töfluformi, gómsætt bóluefni, alveg án aukaverkana, en líka án virkni, en óhjákvæmilega hefðu einhverjir dáið í kjölfarið, því lífið verður jú að hafa sinn gang.
Þessi forheimska er skaðleg.
Mál að linni.
Nægar eru árásirnar samt sem myrkrið kyndir undir, þá það sé ekki vísvitandi verið að hjálpa til við þær árásir.
Kjarninn er samt sá að bóluefni virka.
Og þau eru eina von okkar um eðlilegt líf.
Klúðrum henni ekki.
Kveðja að austan.
![]() |
16 andlát og níu fengið blóðtappa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.4.2021 | 09:49
Þorlákshöfn í fyrsta gír.
Í fararbroddi er bæjarstjóri sem rífst ekki við raunveruleikann heldur tekst á við hann;
"Öll starfsemi í Þorlákshöfn mun einkennast af varúðarráðstöfun þessa vikuna. Við ætlum að skipta í lægsta gír. Öll sem eitt ætlum við að bera virðingu fyrir stöðunni. Við höldum okkur sem mest heimavið og takmörkum nærveru utan búbblunnar okkar.
Við ætlum að sýna yfirvegun og vera þakklát fyrir þekkingu og reynslu þeirra sem stjórna aðgerðum. Það eru allir að gera sitt besta í mjög krefjandi aðstæðum.".
Þannig hefst þetta og munum að þetta er vegna leka á landamærunum.
Á sama tíma tilkynnir glaðhlakkalegur heilbrigðisráðherra áætlun ríkisstjórnarinnar um opnun landsins, bæði slökun á sóttvörnum innanlands sem og hvernig pappírar verða teknir gildir á landamærunum.
Þrátt fyrir hópsýkinguna í Þorlákshöfn, þrátt fyrir að vitað er að veiran er þarna úti og leitar aðeins að kjöraðstæðum fyrir nýtt samfélagssmit.
Enginn lærdómur er dreginn af reynslu þjóða sem hafa opnað of snemma og hafa aftur þurft að herða sóttvarnir.
Indverjar til dæmis töldu sig vera í góðum málum um miðjan mars, slökuðu á og hafa aftur þurft að herða sóttvarnir og beita jafnvel samfélagslegu lokunum.
Faraldurinn í raun stjórnlaus, og virðist vera mun banvænni en áður, hugsanlega vegna þess að heilbrigðiskerfið ræður ekki við ástandið.
Í frétt hér á Mbl.is er sagt að kórónukrísa Indverja sé krísa heimsins, "Er það vegna þess að smitin geta auðveldlega dreifst til annarra landa og vegna stökkbreytinga sem geta haft slæm áhrif."
Þar sem faraldur fær að grafa um sig, eru stökkbreytingar tifandi tímasprengja, einn daginn kemur afbrigði sem bólusetningar ráða ekki við, og það getur lagst þyngra á yngra fólk en áður.
Eitthvert stjórnvald hefði gengið hægt um gleðinnar dyr.
Beðið og séð til um þróun faraldursins, við höfum hvort sem er beðið svo lengi, það er vanvirðing við þá bið og þær fórnir að missa tökin rétt áður en hjarðónæmi bólusetningarinnar er náð.
Það er það sem Þórólfur átti við þegar hann sagði í hæðni sinni að það væri gott að vera bjartsýnn.
En átti í raun við, bölvaðir vitleysingar, ætla þau aldrei að skilja alvöru málsins.
Í raun er þetta skilningsleysi, þessar skýjaborgir afneitunarinnar, helsta lýðógnin í dag.
Að ríkisstjórn Íslands klúðri málum og ný bylgja fái að grafa um sig.
Bæði með því að slaka á of snemma og með því að stefna að því að fylla landið af ferðalöngum, missmituðum.
Gagnvart þessari ógn þarf þjóðin að vera á varðbergi.
Skaðar ekki að hrista hausinn og láta í sér heyra.
Stöndum vaktina svo við endum ekki öll í fyrsta gír.
Kveðja að austan.
![]() |
Öllu skellt í fyrsta gír |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.4.2021 | 15:29
Spurði Sigríður Andersen ekki prófessorinn í Harward!
Heyrðu, er þetta ekki kvef??
Það eru skýringar á því að veirunni var hleypt lausri.
Glæpsamlegar.
Og þeir sem ábyrgðina bera ganga lausir.
Eru á þingi, eru í ríkisstjórn, eru í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Þetta er fólkið sem mun þurfa að svara til saka.
Kveðja að austan.
![]() |
Datt ekki í hug að hún yrði lögð inn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.4.2021 | 13:12
Túlkað á mannamál.
Þá segir Þórólfur, "óttalega eruð þið mikil börn greyin", hann er sko alinn upp fyrir austan og kann því austfirskt tungutak.
Það er ágætt að vera bjartsýnn en það er raunveruleikinn sem sker úr um hvort áætlanir stjórnvalda ganga eftir, staða faraldursins, því varla er það alvara ríkisstjórnarinnar að sýkja þjóðina á síðustu metrum hans.
Það er ef þetta eru síðustu metrar hans því í grasserandi heimsfaraldri eru sífellt að koma fram nýjar og nýjar stökkbreytingar, af nokkrum milljónum þarf aðeins ein að sleppa framhjá vörnum bólusetningarinnar, og mannkynið er aftur komið á upphafsreit.
Það er eins og ráðherrar ríkisstjórnarinnar átti sig ekki á þessi þegar þeir kotrosknir kynna afléttingaáætlanir sínar, markmiðin eru vissulega góð og gild, svona á meðan enginn tekur þau alvarlega.
Því raunveruleikinn er sá, líkt og Þórólfur bendir réttilega á;
"Þórólfur segir gott að stjórnvöld hafi sína framtíðarsýn. Hans hlutverk sé eftir sem áður að taka mið af stöðu faraldursins og öðrum áhættuþáttum. "Við erum að auka verulega þátttöku í bólusetningum og það er mjög gott. Það er ekkert að því að vera bjartsýnn á að þetta muni ganga svona eftir og svo verður bara að koma í ljós hvort það verður," segir Þórólfur. Spurður hvort áætlanir stjórnvalda séu vísbending um að ekki verði hert aftur á aðgerðum innanlands segir Þórólfur ómögulegt að segja til um það. "Ýmislegt getur gerst sem kallar á að grípa þurfi til aðgerða en við vonum að það verði ekki". "
Auðvita vona menn það besta, en tíminn einn veit hvernig til tekst að ná stjórn á faraldrinum, og síðan útrýma honum í íslenskri landhelgi.
Það væri samt betra að menn gengu hægar um gleðinnar dyr, svo sóttvarnalæknir neyðist ekki að snupra ráðherra opinberlega líkt og hann í raun gerir í þessu viðtali.
Því þrátt fyrir allt þá erum við öll í sama liðinu.
Það er bara þetta með taktleysið.
Kveðja að austan.
![]() |
Ágætt að vera bjartsýnn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.4.2021 | 10:49
Maður verkanna.
Er það fyrsta sem flaug um hugann þegar ég las þetta viðtal við Elliða bæjarstjóra.
Það er ekkert vælt, hvað þá hringt í lögfræðinga og dómara um hvað megi og hvað megi ekki, heldur tekist á við smitið með þeim tökum sem þarf.
Ef leikskólinn er undir, þá er það bara svo, aðalatriðið er að ná tökum á samfélagssmiti sem verður óviðráðanlegt ef menn rífast við raunveruleik verunnar.
Að hún er bráðsmitandi og fer eins og eldur um sinu.
Bæjarstjóri í smábæ út á landi hefur vitið sem svo sárlega skortir á þingi í dag.
Þingmenn voga sér að tala um mannréttindi þegar rætt er um óvin sem fer ekki í manngreinaálit, er ósýnilegur og þegar veiran er full af orku þá fer hún eins og eldurinn um sinuna, verður óviðráðanleg ef faraldurinn er ekki kæfður strax í upphafi.
Það er þetta sem alþingismenn okkar skilja ekki, það verða að vera til tæki og tól fyrir sóttvarnayfirvöld til að bregðast snöggt við ef bráðsmitandi lífshættuleg veira hefur borist til landsins.
Ef þeir skyldu þetta, þá hefðu þeir ekki eyðilagt gild sóttvarnalög með bastarði sínum sem þeir samþykktu undir lok árs 2020.
Við vissar aðstæður er veirufaraldur eins og sinueldur í hvössum vindi eða skógareldur sem getur lagt heilu bæina í rúst á nokkrum mínútum, mesta vörnin er að hindra að eldarnir kvikni ekki, ef þeir kvikna, að þeir séu kæfðir á fyrstu stigum þeirra.
Enginn er svo heimskur, allavega í Kaliforníu, að telja það mannréttindi, varin af stétt lögfræðinga og dómara, að fá að grilla í miðjum þurrum skógi, en hér er til það heimskt fólk og nýtur til þess stuðnings gírugra sérhagsmuna, að það telur mannréttindi einstaklingsins að mega smita aðra æðri rétt fjöldans að forðast slíkt smit.
Enginn er það heimskur, allavega ekki í Kaliforníu, að telja það mannréttindabrot að hægt sé að rýma tafarlaust borgi og bæi sem eldar ógna, en hér er til það heimskt fólk, og það myndaði meirihluta á Alþingi, að telja það mannréttindabrot að sóttvarnayfirvöld hafi heimild til að setja á tafarlaust útgöngubann ef þau telja það eina ráðið til að hemja bráðsmitandi farsótt.
Þetta er meinið við Ísland í dag, fíflin hafa völd og áhrif langt umfram getu þeirra og styrk til að takast á við krefjandi aðstæður.
Fífl sem geta ekki einu sinni sett lög um dauðans alvöru sem virka.
Fífl sem leyfa landamærunum að leka.
Fífl sem trúa því að það dugi að stoppa í stærstu götin, þegar það er vitað að hin smærri duga til að sökkva skipinu.
Þorlákshöfn í dag.
Hvar verður þetta á morgunn?
Eða í næstu viku?
Fólk með pappíra sem eru teknir gildir á landamærunum, getur smitað þegar það er komið út í samfélagið.
Það er staðreynd sem aðeins fífl afneita.
Fólk sem kemur frá minna smituðu svæði, getur samt haft í farateski sínu hið bráðsmitandi breska afbrigði sem fer núna eins og sinueldurinn um Þorlákshöfn.
Veiran er nefnilega ólæs, hún les ekki reglugerðina um að hún eigi bara að koma frá hárauðum svæðum.
Þetta er allt svo augljóst.
Og það þarf rosalega sterkan vilja að sjá ekki þessar staðreyndir.
Á meðan smitast börnin okkar.
Skólum lokað, samfélög í herkví sóttvarna.
Er þetta það sem við virkilega viljum??
Ef svarið er Nei, þá þurfum við kannski að láta fólk stjórna okkur.
Sem kann til verka.
Kveðja að austan.
![]() |
Breska afbrigðið eins og eldur í sinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2021 | 20:52
Mikil er reisnin.
Að ráðast á unglinga sem töldu sig vera gera rétt, og reyndu að gera rétt.
Í landshluta þar sem ekkert smit hefur greinst í tæpt ár.
Ef þetta eru sóttvarnir Íslands í hnotskurn, þá er ekki nema von að þjóðin sé ítrekað að glíma við hópsmit, sem nokkrum sinnum hafa orðið að samfélagssmiti.
Þetta er eins og þegar lögreglan í Reykjavík montar sig af því að hafa leyst upp hasspartí með fjórum, fimm útúrreyktum hasshausum, telur það afrek, en lítur alltaf í hina áttina þegar dópkóngar Íslands, fyrir opnum tjöldum slá um sig, kalla sig athafnamenn, og það þarf jafnvel morð í Rauðagerði til að hún rumski og segist þiggja laun fyrir að gæta laga og reglna.
Að því gefnu að það trufli ekki innflæði á eiturlyfjum til landsins, eða ógni stöðu hinna meintu athafnamanna sem slá um sig eins og fjármálamógúlar, en líkt og þeir, gefa upp tekjur á skattaskýrslur sem jafnvel skúringakona í þremur störfum gæti ekki lifað á.
Hve aumt er þetta.
Hve aumur er þessi fréttaflutningur.
Að finna eitthvað sem er ekkert, í samfélagi sem hefur varið sig smiti í um ellefu mánuði.
Er svona röfl og rugl réttlæting þess að landamærunum er leyft að leka í boði ríkisstjórnar Íslands?
Er svona fréttaflutningur Morgunblaðsins kattarþvottur aumkunarverðs fólks sem hefur barist hatrammlega fyrir frelsi veirunnar til að drepa og veikla samlanda okkar sem komnir eru á aldur eða eru hluti þeirra 60 þusunda sem eru í áhættuhópi.
Er þetta réttlæting eignarhalds stórútgerðarinnar, hinna meintu sægreifa á blaði sem tók þá einarða afstöðu um mitt síðastliðið sumar að berjast beint fyrir ótímabæru andláti hinna öldruðu eða allra þeirra tugþúsunda sem eru í áhættuhópi??
Að finna glæpamenn í hópi unglinga sem ekkert hafa gert að sér frá fyrsta degi kórónuveirufaraldursins.
Þetta er svo aumt.
Þetta er svo lásý.
Það er vissulega vitað að lögreglan okkar hér fyrir austan, með aðsetur á Eskifirði, veður ekki í vitinu, um það geta vitnað rúmensku þjófarnir, sem sluppu frá þjófnaði sínum hér á Neskaupstað, þó bærinn sé varinn með göngum, en samt, að þetta sé frétt, og slegið upp í fjölmiðlum, það segir svo margt um hvernig ófrétt getur orðið að frétt, en það sem skiptir máli, er þaggað, eða rætt á þann hátt að aukaatriði fá allt pláss umræðunnar.
En að slá ófréttinni upp, núna þegar lekinn á landamærunum er enn og aftur að ráðast á skóla, veikla börn og unglinga, hrekja fólk í sóttkví, það er ígildi þess að samþykkja lekann, kasta þeirri umræðu á dreif sem gagnrýnir hann, í þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir að gripið sé til þeirra aðgerða sem grípa þarf til svo svona hópsmit endurtaki sig ekki trekk í trekk, eða verði að samfélagssmiti.
Það má vel vera að kennarar hér fyrir austan hafi ekki vitað betur.
En á árshátíð VMA var hólfaskipting, það var gerð krafa um grímur nema þegar borðað var, það var passað uppá að einstakir hópar blönduðust ekki.
Vissulega komu krakkarnir saman, en í góðri trú, samkvæmt þeim sóttvörnum sem krafist er.
Að glæpavæða þá er til minnkunar fyrir lögregluna og alla þá sem blása upp þessa frétt.
Vanhæfir verða ekki hæfir þó þeir finni sér svona höggstað sem getur ekki varið sig.
Aumkunarvert fólk á ritstjórn Morgunblaðsins verður ekki minna aumkunarvert þó það upphefji sig á kostnað þeirra sem enga sekt bera.
Slíkt er aðeins til þess fallið að láta það órætt sem smitar.
Að láta þá í friði sem berjast einarðlega að smit getur borist inn fyrir landamærin.
Og er réttlæting lögreglu og almannavarna sem kóa með.
Í trausti þess að menn þegi og verji sig ekki.
Á meðan er hópsmit hér og hópsmit þar og hópsmit alls staðar.
Skrýtið.
Kveðja að austan.
![]() |
Sóttvarnabrot á árshátíð á Austurlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.4.2021 | 17:46
Líkin gætu hrannast upp.
Sagði Boris Johnson í haust þegar hann tók slaginn við nagið gegn sóttvörnum.
Og er það ekki rétt??
Frá því að bresk stjórnvöld náð stjórn á faraldrinum fyrir ári síðan, og féllu í þá gryfju forheimskunnar að slaka of snemma á, undir merki þess sem kennt er við að gæta meðalhófs í sóttvörnum, hafa fórnarlömb drepsóttarinnar þrefaldast.
Heimskan, að miða sóttvarnir við meðalhóf, kostaði margfalt fleiri líf óbrettra borgara en Þjóðverjum tókst að drepa með loftárásum sínum á Bretland í seinna striði.
Nema þá var fólk ekki svo útkynjað í velmegun nútímans, að það vissi ekki hvað það þýddi að verjast ekki dauða og djöfli, þegar hann sótti að þjóð og fólki.
Þá hefði enginn vogað sér að ráðast að forystunni vegna þess að hún sagði satt um komandi hörmungar.
Þá vissi fólk betur, það kunni að verja líf sitt og limi.
Þá gátu lögfræðingar og keyptir dómarar ekki brotið varnir þjóða á bak aftur.
Í dag gátu þeir það ekki á Bretlandi, en þeir komust upp með árásir sínar á almannaheill á Íslandi.
Við sitjum í súpunni, þeir telja aurinn sem sérhagsmunirnir borguðu þeim.
Í den voru þeir hengdir.
Á Bretlandi er ekki hlustað á þá.
Á Íslandi brutu þeir sóttvarnir þjóðarinnar á bak aftur.
Svona er gæfa þjóða misjöfn.
En þær lifa af þar sem hún er gæfa.
Kveðja að austan.
![]() |
Líkin gætu hrannast upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.4.2021 | 08:26
Ég ferðast á tímum heimsfaraldurs.
Þá má ég að sögn gefa skít drullu og djöful í alla aðra, samfélag mitt, samferðafólk, það eru mannréttindi mín.
Ég má senda börn í sóttkví, ég má veikja og veikla börn, mér er drullusama þó þau séu vikur og mánuði að ná sér, jafnvel þó þau eigi að hættu að veiklast fyrir lífstíð.
Mér er sama, ég má ferðast.
Ég má valda hópsýkingu, ég má valda samfélagssmiti, ég má veikja, ég má veikla, ég má senda hundruð, jafnvel þúsundir í sóttkví.
Ég má láta loka starfsemi, banna mannfagnaði, ég má, ég má.
Þetta eru mannréttindi mín, það hafa þingmenn sagt mér, það hafa lögfræðingar sagt mér, það hafa dómarar sagt mér.
Þetta er deilan um örugga sóttkví við landamærin í hnotskurn.
Kveðja að austan.
![]() |
Hópsmit komið upp í Þorlákshöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.4.2021 | 14:38
Báknið burt.
Hefur verið stefna Sjálfstæðisflokksins í áratugi, og miðað við umfang regluverksins og allra þeirra hindrana sem skrifræðið setur almenningi og fyrirtækjum hans, þá mætti halda að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið útlagaflokkur í íslenskum stjórnmálum.
Verið svona síðast í stjórn uppúr miðri síðustu öld.
Báknið burt er samt slagorð hans og þingmenn hans kópera grein eftir grein, ár eftir ár, áratug eftir áratug, og svo er komið að enginn man hver samdi þá fyrstu sem allar hinar byggja á.
Sigmundur Davíð kastar sér á þessa hringekju, réttilega, og bendir á hinn bitra raunveruleika sem hamlar og heftir sköpunarkraft þjóðarinnar, er kyrkingaról á alla athafnasemi fólks.
Hann bendir réttilega á "hve íþyngjandi "báknið" væri orðið fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í landinu og sagði að slík fyrirtæki hafi nú þegar verið í vanda stödd áður en heimsfaraldur kórónuveiru skall á.".
Regluverkið er svo flókið og krefjandi hvað varðar alla skriffinnsku, enda hannað af útsendurum Evrópskra stórfyrirtækja i Brussel, að það eitt gerir kröfu um ákveðna stærð fyrirtækja og er því samkeppnishamlandi á lítil og jafnvel meðalstór fyrirtæki.
En ábendingum þarf að fylgja alvara og lausnir, annars er Sigmundur Davíð að róa á sömu mið líkt og Óli Björn eða Suðurbæingnum sem langar svo aftur á þing og skrifar margar greinar í Morgunblaðið gegn bákninu.
Því sá sem bendir ekki á lausnina, meinar ekki orð af því sem hann segir, miðin sem róið er á er hrekkleysi eldra fólks sem trúir sömu greininni ár eftir ár, finnst hún alltaf jafnvel skrifuð, en spyr sig ekki, bíddu við, erum við ekki búnir að stjórna síðustu 30 árin eða svo??, af hverju breytist ekkert??
Og það er akkúrat það sem Sjálfstæðisflokkurinn gerir, hann þykist vara á móti bákninu, en berst ekki gegn því á þann eina hátt sem þarf að berjast gegn því.
Því vandinn liggur í EES samningnum og verður alltaf til staðar á meðan sá hjáleigusamningur við Brussel er æðri íslenskum lögum, og gerir í sífelldu kröfu um innleiðingu nýrra reglna, nýrra kvaða, meiri skriffinnsku, þar til ekkert er eftir.
Hvorki andrými fyrir fólk og fyrirtæki, eða sjálfstæði í lagasetningu og stjórnun landsins.
Þar liggur vandinn og við honum þarf að bregðast.
Báknið burt.
Ísland úr EES.
Ekkert flókið við þetta.
En sá sem segir þetta ekki, röflar eitthvað um að ábyrgðin á regluverkinu og skriffinnskunni sé viðkomandi stjórnarflokka á hverjum tíma, líkt og mér sýnist að sé sá pyttur sem Sigmundur Davíð ætlar að óhreinka sig á, hann er á atkvæðaveiðum.
Vill stjórna, ekki til að breyta, heldur vegna valdanna, vegna kjötkatlanna.
Sigmundur Davíð kom inní íslensk stjórnmál sem rebel.
Hefur síðan marga fjöruna sopið, oft farið gegn samtryggingunni líkt og hann gerði í átökunum við hrægammanna, en líka fetað þrauttroðna slóð íslenskra stjórnmálamanna, að segja eitt til að ná völdum, gera svo eins og allir hinir þegar þeim er náð.
Síðustu misseri hefur hann ekki fundið taktinn, reynt að ná til sín þjóðlegum íhaldsmönnum frá Sjálfstæðisflokknum, í þeirri veiðimennsku hefur hann óþarflega lyktað af Trumpisma og populisma, og árangurinn enginn, hann virkar þreyttur og illa rakaður, líkt og hann sé útbrunninn, fylgi Miðflokksins eftir því, útbrunnið.
Aftur í ræturnar hefur bjargað mörgum tónlistamönnum í þessari stöðu, átti ekki Paul McCartney frábæra endurkomuplötu fyrir um 15 árum síðan, sem og Brúsinn og Dillanninn, aftur í rætur rokksins, einfaldleikann, sálina.
Og hví gæti slíkt ekki bjargað stjórnmálamönnum líka??
Ha!, aftur í rebelinn, hljómar það ekki ágætlega??
Báknið burt er burt með EES samninginn, burt með Orkupakkana, burt með allan reglugerðafrumskóginn.
Verða sjálfstæð þjóð sem á sjálfstæð viðskipti við aðrar sjálfstæðar þjóðir.
Er það ekki það sem hefur reynst þjóðinni best og heilladrýgst?
Stígðu skrefið Sigmundur.
Segðu þetta, báknið burt, burt með EES.
Þú hefur hvort sem er engu að tapa.
Þjóðin hins vegar tapar öllu ef enginn spyrnir við fótum.
Sjálfstæði sínu, auðlindum, framtíðinni.
Því það er engin auðlegð hjá hjáleigum, og þær eru fyrstar til að fara í eyði þegar kreppir að, eða höfuðbýlið ákveður að hagræða.
Báknið burt.
Ísland úr EES.
Fólkið sigraði auðmennina í baráttunni um boltann.
Hví getur það ekki sigrað þá í þessu stríði líka??
Ég bara spyr.
Kveðja að austan.
![]() |
Ósammála um ágæti áherslu stjórnvalda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.4.2021 | 21:24
Rænum og ruplum.
Söng Glanni glæpur, og var fyndinn, enda tók hann enginn bókstaflega, enda persóna í barnaleikriti.
En fólkið sem vildi vega að lífi og heilsu um 60 þúsund Íslendinga, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, dómarar, lögfræðingar, þeir eru ekkert í barnaleikriti.
Þeir hrópa ekki, sýkjum og drepum, en þeir börðust samt fyrir ótímabæru andláti samborgara sinna.
Og fara ekkert í jailið frekar en Glanni glæpur, enda hann sögupersóna sem þarf að ganga laus fyrir framvindu leikritsins, en hvert er hlutverk þeirra sem vega að, og leggja sig fram um að valda samborgurum sínum ótta við að sýkjast, þjáningum ef þau veikjast, og ótímabærum dauða ef veiran nær í gegnum varnir líkamans.
Hvert er hlutverk þessa fólks í leikritinu sem við köllum raunveruleiki, og þar sem um líf og dauða er að tefla fyrir um 60 þúsund samlanda okkar?
Skiptir það engu, því til er fólk með meiri völd og áhrif í Sjálfstæðisflokknum, sem heldur þessum villidýrum dauðans í skefjum, og að þjóðin hlustar ekki á lögfræðinga og fordæmir dómarann.
Lítur á hann eins og hvert annað viðrini sem þannig séð á að vera á safni innan um vaxstyttur af Axlar Birni, Hannibal Lecter og annað stórskrýtið krípí fólk.
Hvað sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins aftur, og lét hundruð fylgjenda sinna fá blæti af æsingi; að sóttvarnir eigi "að höfða til almennrar skynsemi og samstarfsvilja almennings", hve mörg þúsund samlanda okkar væru fallin, ekki lengur meðal vor.
Vinir, ættingjar, jafnvel okkar nánustu fjölskyldumeðlimir, að ekki sé minnst á fólkið allt í kringum okkur, fólkið sem við köllum dagsdaglega samferðafólk okkar.
Eða eigum við að tala um Moggann og myrkrið sem yfirtók ritstjórnarherbergi þess og hvatti til þess í Reykjavíkurbréfi að veiran fengi frelsi til að ráðast á þessa 60 þúsund samlanda okkar.
Hefur síðan ötula nagað gegn sóttvörnum þjóðar okkar, og gert rugli og hálfsannleik jafn hátt undir höfuð og alvöru fréttum, sem vissulega hafa fengið sitt pláss á síðum Morgunblaðsins.
Líkt og blaðið teldi sig vera uppfærslu á leikriti um doktor Jekyll og herra Hyde, annar góðmenni, hinn viðbjóðslegur fjöldamorðingi, en báðir deilandi sama líkama.
Ef maður hugsar út í þetta, hina fjársterku sérhagsmuni, sem ná inní dýpsta valdakjarna Sjálfstæðisflokksins, þetta kolruglaða lið sem berst fyrir frelsi veirunnar til að veikla og drepa, í nafni öfugsnúinna mannréttinda og brenglaðs veruleikaskyns á frelsi, þá getur maður ekki annað en tekið ofan hattinn fyrir manninum í brúnni, Bjarna Ben, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem allan tímann hefur haldið haus, og aldrei samsinnað sig ruglinu.
Hvað það varðar er hann ekki ættleri Engeyingaættarinnar, heldur í raun ættarlaukur á við þá bestu sem þessa merka sjálfstæðisætt hefur gefið þjóð okkar.
Í raun ætti hattlaus maður eins og ég að kaupa hatt til að taka ofan.
Heimsfaraldur kórónuveirunnar er alls ekki búinn, í raun höfum við aðeins séð forstig hans, líkt og svikafriður seinna stríðs sem kenndur var við veturinn 1939-1940, þegar átök voru aðeins forsmekkur þess sem síðar kom, og sterk öfl innan borgarstéttar Vesturlanda hvöttu til friðar, og seinna uppgjafar, fyrir Þýskalandi nasismans, þar væri herfáninn gegn hinum guðlausu kommúnistum Sovétanna.
Blekking sem dró þróttinn úr og seinna eyðilagði varnir Frakklands.
Þá hélt samt kjarni borgarlegra íhaldsmanna haus, og sigur vannst að lokum.
Í dag trúum við því að faraldurinn verði brátt að baki, við sjáum birtuna við sjóndeildarhringinn, en lokum svo augum þegar glittir í svartan kólgubakka í fjarskanum.
Veiran er stjórnlaus í fjölmennum löndum eins og Indlandi, hún mallar í Suður Ameríku, á lokametrum bólusetningarinnar opna heimskir stjórnmálamenn Vesturlanda fyrir leiðir hennar inní samfélögin, enginn veit hvenær stökkbreytta afbrigðið sem bólusetningin bítur ekki á, kemur fram, það eina sem er vitað, þegar það gerist, þá er leiðin greið fyrir nýjan faraldur.
Svikafriðurinn verður að grimmu ófriðarbáli sem margir munu ekki lifa af.
Þetta er að gerast, aðeins kraftaverk getur hindrað, og því miður er lífið ekki Hollywood mynd sem endar vel.
Borgarlegir íhaldsmenn sem halda haus, eru skjól okkar og skjöldur gegn nagi fjársterkra sérhagsmuna sem láta sig dauðan og djöfulinn varða líf og limi samlanda sinna, enda nokkuð augljóst úr hvaða jarðvegi hugmyndafræði þeirra er ættuð.
Aðrir stjórnmálamenn eru svo sundraðir og auðkeyptir, að þeir eru engin fyrirstaða gegn hinum fjársterku sérhagsmunum.
Það sannaði sig í hildarleiknum 1939-1945, og mun sanna sig í komandi stríði við kórónuveiruna.
Hvað þetta varðar hefur Íslands ógæfa ekki orði allt að vopni.
Gæfa þjóðarinnar eru menn eins og Bjarni sem hafa haldið haus.
Það er það sem skiptir máli.
Ekki hitt.
Fögnum því að þessir 60 þúsund samlandar okkar hafa fengið skjól þar til bólusetning handa þeim er tilbúin.
Slíkt er og var ekki sjálfgefið.
En þetta tókst, við færðum öll fórnir.
En þetta tókst.
Svo er ofurdeildin úr sögunni.
Kveðja að austan.
![]() |
60 þúsund í áhættuhópi vegna Covid-19 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.8.): 3
- Sl. sólarhring: 27
- Sl. viku: 116
- Frá upphafi: 1469972
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 100
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar