16.8.2020 | 01:30
Sagan kennir margt.
Til dæmis að þegar vágestur var við borgarhliðið, þá var frelsi ekki skilgreint sem réttur til að opna borgarhliðin svo vágesturinn gæti sótt inn og lagt undir sig borgina.
Enda í kjölfarið voru borgarbúar yfirleitt drepnir, nema náttúrulega þeir sem voru seldir í þrældóm.
Hafi þá verið til frjálshyggjumenn sem héldu fram rétti einstaklingsins til að sýkja eða svíkja, þá dóu rök þeirra út með dauða þeirra.
Því fíflin eru jú alltaf þau fyrsta sem falla fyrir vágesti, efist nokkur þar um, og þekkir hvorki til sögu eða heilbrigðar skynsemi, og trúi að sóttvarnaryfirvöld setji heiminn á hvolf fyrir 0,1% dánarhlutfall, þá er máttur feisbókar það mikill að hægt er að lesa um síðustu andvörp þeirra í Bandaríkjunum, undir yfirskriftinni, "Við héldum að þetta væri feik".
Sagan kennir líka hvernig sóttvarnir virkuðu.
Þær virkuðu til dæmis vel í sjóborgarríkinu Feneyjum áður fyrr á öldum, ef sjómenn virtu ekki reglur, og héldu að hálfvitaháttur þeirra og vitglöp væru efni í frétt eins og þessa, þá náðu þeir aldrei að segja hana.
Því fífl sem brutu sóttvörn voru hálshöggvin á staðnum.
Fífl hafa nefnilega ekki rétt til að drepa hundruð eða þúsundir.
Og frelsið til þess er ekki þeirra.
Gömul viska.
Sem úrkynjun fær ekki breitt.
Þó hún sé kennd við frelsi eða frjálshyggju.
Þá býr alltaf eitthvað dýpra að baki.
Gróði, sérhyggja, mannfyrirlitning.
Kveðja að austan.
![]() |
Sjö smituð Virtu ekki heimkomusmitgát |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.8.2020 | 17:55
Ég styð Kára.
Þórólfur styður Kára, þjóðin styður Kára.
Rök hans eru kristaltær.
Eðlilegt líf er undir og við þurfum að stöðva vágestinn við landamærin.
En hvað með ríkisstjórnina, hvort verður það sérhagsmunir eða almannahagsmunir??
Kári trúir á vit hennar og skynsemi og það boðar gott að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fékk þau Gylfa Zoega og Tinnu Laufey Ásgeirsdóttur á sinn fund og kynnti sér málflutning þeirra.
Boðar gott því þar er kjarninn af því fólki sem er slétt sama um líf og heilsu náungans á meðan arðgreiðslurnar streyma inn.
Þess vegna er það formanni flokksins mikill styrkur að fá til liðs við sig óháða einstaklinga sem hafa þekkingu og getu til að vega og meta hin efnahagslegu rök í þessari deilu sem annars ætti aðeins að standa um líf og heilsu fólks sem og hin samfélagslegu áhrif af lokun landamæranna án undangenginnar sóttkvíar versus hin lamandi áhrif á allt mannlíf ef veiran verður af samfélagslegu smiti líkt og þessi faraldur er orðinn að sögn Kára.
Núna reynir á gott fólk í öllum flokkum, jafnt í stjórn sem og í stjórnarandstöðu að það rísi upp og lýsi yfir stuðningi við þá Kára og Þórólf svo það fari ekki á milli mála að hinar raddirnar eru fámennar og einangraðar.
Því í dag er hin æpandi þögn sem glymur um allt samfélagið vísbending um annað.
Að arðgreiðslurnar og fjármunir í vasa séu almannahag æðri.
Núna reynir á að allir styðji Kára.
Og Þórólf.
Og þjóðina.
Og hlýði Víði.
Þannig mun mannlífið aftur taka sinn eðlilega gang, óttinn mun halda út í óbyggðirnar og halda áfram að hræða þar, hugsanlega ef ímyndaraflið er sterkt mun sjást í einn og einn útilegumann, eða jafnvel forynju á skuggalegum slóðum, en hann mun ekki herja á samborgara okkar, þá eldri og þá sem glíma við undirliggjandi sjúkdóma.
Tíminn mun svo halda áfram að fljúga eins og hann hefur alltaf gert, allavega eftir að ég varð fimmtugur.
Innan ekki svo skamms mun mannsandinn hafa fundið örugga tækni við að skima á landamærum og sóttkví verður þá óþörf.
Þetta er eins og að bíða af sér harðindafrostið og stórhríðina, pirrandi vissulega en lítil skynsemi að flækjast út í slíku verðri, hvað þá að leggja upp í langferðir um heiðar og firnindi.
Það lægir alltaf, það styttir alltaf upp, það hlýnar.
Það vorar.
Og áður en við vitum af er kóvid að baki.
Trúum því og treystum.
Styðjum Kára.
Styðjum okkur sjálf.
Og það vorar á ný.
Kveðja að austan.
![]() |
Stjórnvöld neyðist til aðgerða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.8.2020 | 12:37
Klukkan tifar.
Veiran gengur laus og boltinn er hjá stjórnvöldum.
Þórólfur neitar að bera áfram ábyrgð á pólitík,
Segist aðeins styðja Kára.
Og þjóðina.
En það er óvíst í hvaða liði ríkisstjórnin er.
Hún hefur sýnt það áður í mikilvægum málum að hún taki sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni, líkt og frægt var í Orkupakkamálinu.
En ég styð Kára.
Líkt og Þórólfur.
Og vona að landið endi ekki í herkví á ný.
Kveðja að austan.
![]() |
Sex ný innanlandssmit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.8.2020 | 08:20
Vopnaður friður.
Er það kallað þegar herir gráir fyrir járnum standa andspænis öðrum en aðhafast ekkert í augnablikinu.
Slíkur friður er hér á Íslandi í dag, smitleiðir veirunnar eru opnar, en undir virku eftirliti, og samfélagið er í höftum, þó ekki eins alvarlegum og í vor, til að draga úr smitleiðum hennar.
Veiran er þarna en virðist vera undir stjórn.
Samt er vitað að það þarf ekkert út að bregða, augnabliks aðgæsluleysi eða hreina og klára óheppni, til að veiran geri árás á ný, nái yfirburðarstöðu á víglínunni og sæki hratt fram yfir landamærin líkt og skriðdrekar Hitlers forðum.
Og þá eru góð ráð dýr, líklegast það dýr að öll höft verða stórlega hert.
Á Nýja Sjálandi er hins vegar opið stríð, veirunni skal útrýmt með öllum ráðum.
Þess vegna er skorið á smitleiðir hennar við landamærin, og ef hún nær samt að laumast framhjá vörnunum á landamærunum, þá skal hún elt uppi og skotin á færi hvar sem til hennar næst.
Skorið er á allar smitleiðir á stórum svæði með útgöngubanni og allar sóttvarnir hertar í öðrum hluta landsins.
Eins og alltaf í stríðum þegar óvinurinn finnur uppá nýjum brögðum til að sleppa framhjá vörnum, tekur tíma að þefa hann uppi, og læra á bellibrögð hans.
Var smitið í viðkomandi fjölskyldu tilviljun vegna óþekkts smitbera, eða er það staðbundið, tengist vinnustað og umhverfi.
Fyrstu upplýsingar benda í þá átt þar sem staðfest smit hafa innbyrðis tengingu, en ekkert er vitað og þess vegna er skellt í lás í Auckland.
Ekki um aldur og ævi, heldur þann tíma sem tekur að þefa upp allar sýkingar og útrýma þeim.
Sóttkvíin er fyrirfram til að hindra alvarleg veikindi og dauðsföll, ekki eftirá þegar faraldurinn er óviðráðanlegur með tilheyrandi mannfalli að ekki sé minnst á allan þann fjölda sem veiklast og lifir aðeins í voninni um fullan bata og eðlilegt líf.
Ný Sjálendingar ætla ekki að lifa með veirunni, heldur án hennar.
Það er munurinn á vopnuðum friði og beinu stríði til að yfirbuga vágestinn, gjörsigra hann svo mannlífið geti haft sinn eðlilega gang.
Báðar leiðirnar kalla á samfélagslegan kostnað á meðan allt er læst og lokað.
Lokun landamæra skaðar alltaf innlenda ferðaþjónustu en hins vegar ferðast enginn óbrjálaður til landa þar sem smit er viðvarandi enda slíkir brjálæðingar alltaf lokaðir inni við heimkomuna svo niðurstaðan er svipuð nema sá augnbliks ávinningur sem fæst við opin landamæri inná ósýkt svæði, það tekur ákveðin tíma fyrir veiruna að breiða úr sér áður en landið lendur á rauðum lista.
Speki sem kennd er við að pissa í skóinn sinn.
Á öðru og mikilvægu er reginmunur.
Alvarleg veikindi og dauðsföll annars vegar og EKKI alvarleg veikindi og dauðsföll hins vegar.
En menn þurfa að þekkja til siðar til að skilja muninn.
Sem og þar sem veirunni er útrýmt koma þau augnablik þar sem fólk getur lifað án ótta og lífið gengur sinn vanagang.
Sóttvarnirnar eru tímabundnar en ekki viðvarandi þar sem vopnaður friður ríkir við veiruna.
Svo maður spyr sig.
Af hverju er val hjá þjóðum??
Um líf með veiru þegar það er alveg hægt að vera án hennar.
Varla er bissness í óttanum??
Kveðja að austan.
![]() |
14 ný smit á Nýja-Sjálandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.8.2020 | 13:34
Ásættanleg áhætta.
Sagði ferðamálaráðherra um helgina án þess að færa nokkur rök fyrir máli sínu önnur en þau að henni fyndist það.
Skyldi fólkið sem skikkað er í sóttkví núna um hásumar vera sammála henni, eða fyrirtækin sem verða fyrir röskun á starfsemi sinni, skyldu þau líka vera ánægð með hina ásættanlegu áhættu.
Eða fólkið sem er illa veikt og öruggt að margir munu glíma við vanheilsu um langan tíma.
Því hin þöglu fórnarlömb veirunnar, fólkið sem veiktist, sumt bara lítillega, glímir við alvarleg eftirköst, er veiklað, á erfitt með daglegt lif sitt.
Samkvæmt rannsókn í Whuan er 90% covid sjúklinga ennþá að glíma við eftirköst vegna lélegrar lungnastarfsemi, eina vonin er að reynsla af SAR veirunni bendir til þess að þetta gangi yfir á 3 árum.
Að veikla fólk, að meiða fólk viljandi, kallar ráðherra ferðamála ásættanlegu áhættu.
Að loka gamalt fólk inni og meina því um heimsóknir, eftir langa og stranga einangrun fyrri faraldursins, kallar hún ásættanlega áhættu.
Að eyðileggja allt sem tengist mannfagnaði núna seinni part sumars, kallar hún ásættanlega áhættu.
Og til hvers??
Til að aðrar þjóðir loki á ferðir hingað??
Til að landið lendi á rauðum lista landa sem taka sóttvarnir alvarlega og vilja ekki innflutning á smiti inn fyrir landamæri sín??
Eystrasaltslöndin um helgina.
Grænland í gær.
Noregur í dag.
Aðeins Þýskaland og Danmörk eftir og aðeins tímaspursmál hvenær þau skella líka í lás.
Eftir stendur hnípin þjóð, innilokuð, ærulaus, smituð.
Án ávinnings.
Án nokkurs annað en glataðra tækifæra.
Að fá lifa í landi án ótta.
Kveðja að austan.
![]() |
Ísland rautt í Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.8.2020 | 16:16
102 dagar án ótta.
Dagar sem verða ekki metnir til fjár í miðjum heimsfaraldri.
Ekki án kostnaðar, því landamærum var lokað, og fólki aðeins hleypt inní landið að undangenginni 14 daga sóttkví.
Þungt högg fyrir ferðaþjónustuna sem er mikilvæg atvinnugrein á Nýja Sjálandi.
Stjórnvöld á Nýja Sjálandi vissu samt að veiran gæti borist inní landið og voru tilbúin með viðbragðsáætlun sem strax var gripið til. Hægt er á öllu mannlífi í Auckland á meðan reynt er að rekja veiruna og finna upptök smitsins. Þar beinist grunur að sóttkvínni við landamærin;
"In addition, we are working over the next few days to test all people that are working at our borders and everyone that works at a managed isolation facility.". (Úr fréttatilkynningu sóttvarnaryfirvalda).
Og það á ekki að gefast upp fyrir veirunni, að fyrst hún kemst óboðin inní landið, að þá eigi að bjóða hana velkomna líkt og gert er hér á Íslandi.
"As weve been saying for several weeks, it was inevitable that New Zealand would get another case of community transmission. We have been working on the basis that it could be at any time and that time is now. The health system is well prepared for this eventuality and the important thing now is that we dont let the virus spread in our community. As we did in the early days of this virus emerging, we need to stamp it out.".
Veirunni verður ekki leyft að dreifa sér um samfélagið, það á að útrýma henni.
Sem er grundvallarmunur og á þeirri stefnu að sætta sig við að landamærin leki inn smiti því það sé aldrei hætt að útiloka það.
Þegar Gylfi Zoega skrifaði grein sína voru liðnir 100 dagar frá síðasta innanlandssmiti á Nýja Sjálandi, urðu 102 þegar smit blossaði upp á ný.
Stjórnvöld þar rannsaka snertiflöt við útlönd, það er í gegnum sóttkvína, og ætla að sjá til þess að slíkt endurtaki sig ekki.
Vitandi það að það þarf bara eitt smit til að smita samfélag.
Samt virðast einhver öfl á Morgunblaðinu sjá ástæðu til að tengja þessi nýsmit við röksemdir Gylfa Zoega um afhverju almanna hagsmunir kalli á lokun landamæra, að mannlíf og þjóðlíf sé undir, og kostnaðurinn við innflutning á smiti sé margfaldur á við þann sem hlýst við að landinu sé lokað.
Lágt leggst Mogginn i þessari aðför sinni.
Fyrir utan aulaskapinn og ómerkilegheitin, þá er það bara svo að fleiri hafa vakið máls á sömu röksemdum og Gylfi, þar á meðal Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands sem segir í viðtali við Ríkisútvarpið að "Það er mikil áhætta fyrir lítinn ávinning að hleypa fólki inn í landið".
Hún segir líka að "eftir því sem tíminn leið hafi orðið ljóst að kostnaðurinn af áhættunni sé svo mikill að það borgi sig að viðhafa mjög strangar reglur um ferðir fólks yfir landamærin og þær sóttvarnir sem hver og einn farþegi þarf að hlíta".
Eins spyr hún ferðamálaráðherra kurteislega hvað búi að baki fullyrðingum hennar um að áhættan sé ásættanleg.
"Aðspurð um ummæli ráðherrans segir Tinna Laufey þau fyrst og fremst vekja forvitni sína um hvernig ráðherra eða stjórnvöld meti áhættuna: Ef það liggur einhver greining þarna að baki þá finnst mér forvitnilegt að reyna að skilja af hverju hennar niðurstöður stangast svo mikið á við mínar. Ég hef verið að reikna út virði þessarar áhættu með mjög hefðbundnum aðferðum hagfræðinnar og fæ út mjög háar tölur. Jafnvel miðað við íhaldssamasta mat mitt, þá er kostnaður vegna áhættunnar mjög mikill. Ég spyr mig fyrst og fremst: Hvað gerir það að verkum að mat okkar stangast svona mikið á?, segir hún. ".
Já hver eru rökin??
Svarið er: Engin.
Hvernig vitum við það??
Jú, það er ráðist á sendiboðann.
Með skít.
Miðað við að rauði listinn sér sjálfkrafa til þess að hinn litli ávinningur af komu erlendra ferðamanna gufar upp, þá spyr maður sig hvaða hagsmunir búa þá að baki sem skýrir heiftina sem gýs nú upp gagnvart þeim sem gagnrýna opnun landamæranna??
Minni á orð Katrínar Jakobsdóttur þar sem hún sagði að "Því fari fjarri að hagsmunir ferðaþjónustunnar hafi verið í fyrirrúmi" og viðurkennir þannig að eitthvað annað skýri þá ákvörðun.
Á meðan lifum við í ótta.
Sem enginn endir virðist vera á.
Því smit skal flutt inn hvað sem tautar og raular.
Þannig er Ísland í dag.
En ekki Nýja Sjáland.
Kveðja að austan.
![]() |
4 ný innanlandssmit á Nýja-Sjálandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.8.2020 | 13:55
Ég styð Kára.
Og þó Kári sé um margt sérstakur og magnaður, þá bjó hann ekki til veiruna og ber ekki ábyrgð á núverandi faraldri.
Það er hreinlega með ólíkindum að það hafi verið lagt af stað með landamæraskimun án þess að stjórnvöld hafi haft nokkra burði til að standa að þeirri skimun, og hafi þurft að treysta á einkafyrirtæki út í bæ þar um.
Sem og ósvífnin að gera það fyrirtæki eða manninn sem leiðir það að blóraböggli.
Við eigum Íslenskri erfðagreiningu það að þakka hvað fyrri faraldurinn gekk hratt yfir eftir að hið nauðsynlega skref að loka landamærunum var tekið, vegna þess að skimunargeta fyrirtækisins þefaði uppi einkennalausa einstaklinga sem gátu borið með sér smit, útí samfélaginu, þannig tókst að vinna bug á hópsýkingunni fyrir vestan sem og í Vestmannaeyjum.
Skíturinn útí Kára er engin tilviljun, sérhagsmunaöflin hafa virkjað skítadreifara sína og blása til gagnsóknar svo hægt sé að reka síðasta naglann í líkkistu ferðamannalandsins Ísland, með því draga úr sóttvörnum á landamærunum frá því sem nú er.
Landið á rauða listann áður en sumarið er úti og hver er þá ávinningurinn??
Það mætti halda að lokun landamæranna hefði truflað aðra og ábatasamari starfsemi, og því allt lagt undir til að halda þeim opnum.
Allavega hjálpar þessi þráhyggja ekki ferðamannaiðnaðinum, það eitt er víst.
Munum síðan að þó skimun á landamærum hafi tekist vel að sögn Kára, og ekkert bendir til að meint örugg lönd hafi ekki ennþá lekið inn smiti, að þá eru björgunarbátar ekki um borð í skipum vegna þess að þau flest fljóta.
Þeir eru um borð vegna þess að sum sökkva, líka þau stærstu.
Það var því rangt hjá útgerð Titanic að spara þann kostnað, það sem átti ekki að geta sokkið, sökk nú samt.
Eitthvað sem Kári hefur í raun viðurkennt og þarf að klæðast sóttvarnargalla öllum stundum til að auðveldara sé fyrir hann að þrífa af sér drulluna og skítkastið að kveldi.
Vegna þess að hann sagði sannleikann, ef við viljum lifa án ótta, þá lokum við landamærunum.
Með 5 daga sóttkví.
Það var nú allur glæpurinn.
Kveðja að austan.
![]() |
Heilbrigðiskerfið gerði ekkert til að efla getuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.8.2020 | 10:42
Játningar Þórólfs.
Í fréttum helgarinnar missti Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir það út úr sér að í tillögum sínum um hertar aðgerðir til að hindra frekari útbreiðslu kórónuveirunnar þyrfti hann að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem vilja hafa landamærin opin án sóttvarna eða skimunar.
Eða með öðrum orðum að það sé eitthvað annað en fagþekking sem móti tillögur hans.
Þær snúist ekki í raun um sóttvörn heldur pólitík, að það sem lagt er til þurfi að þóknast ákveðnum öflum eða hagsmunum svo líkur sé á að það sé samþykkt.
Það er ótrúlegt að fjölmiðlafólk hafi ekki fiskað eftir þessum orðum Þórólfs og spurt hann nánar út í þau, því sérhagsmunirnir sem knúðu á hina ótímabæru opnun landamæranna, hafa skýlt sér í því skjóli að tillögur sóttvarnalæknis séu faglegar og teknar án utanaðkomandi þrýstings.
Orð Þórólfs eru líkt og neyðaróp manns sem er í þeirri óbærilegri stöðu að vera knúinn til óhæfu og tekur þátt í til að þó að geta bjargað því sem bjargað verður.
En vill samt að það sé upplýst að hann sé ekki frjáls.
Sérstaklega núna þegar bæði Morgunblaðið og Ríkisútvarpið er farið að spyrja réttmætra spurninga og sætta sig ekki lengur við augljóst bull úr munni ráðamanna eða hagsmunaaðila.
Betur er seint en aldrei, og þessa helgina hafa hinir stóru fjölmiðlar endurvarpað rökstudda gagnrýni sérfræðinga á hina ótímabæru opnun landamæranna og í raun stendur ekki steinninn eftir uppréttur í rústum málflutnings innflytjendanna á nýsmitinu til landsins.
Nauðvörnin er; "Þórólfur sagði þetta, hann er skúrkurinn".
Spurningin er því hvort þessu verði fylgt eftir á blaðamannafundi dagsins þar sem Þórólfur tilkynnir uppgjöf sína varðandi sóttvarnir við landamærin.
Þórólfur játaði líka í gær heimskuna að baki þess að krefjast ekki sóttkvíar við landamærin þegar hann sagði að "Það þarf ekki nema einn einstakling til þess að sleppa inn til þess að valda svona faraldri eins og við erum búin að vera með,".
Í þessu samhengi er gott að átta sig á þeirri hugsun sem felst í aðvörunarorðum Kára Stefánssonar að línuleg hætta á að smit sleppi inní landið eykst í réttu hlutfalli eftir því sem fleiri koma inní landið án undangenginnar sóttkvíar.
Í því samhengi skiptir ríkisfang fólks ekki máli enda sýkja veirur ekki eftir þjóðerni eða vegabréfi fólks.
Þumalskrúfan á Þórólfi fékk hann til að bæta við að hann telji það "mjög ólíklegt að það sé hægt að loka landinu þannig að við fáum ekki veiruna inn" og þau orð eru haldreipi þeirra sem vilja áfram opin landamæri án undangenginna sóttkvíar.
Það er rétt, það er ekkert útilokað í þessum heimi, en þó það kvikni í þrátt fyrir brunavarnir þá er það ekki greindarlegt að gagnálykta á þann hátt að þar með séu þær óþarfar. Enda reyndin sú að með aukinni þekkingu fækkar alvarlegum eldsvoðum, af sem áður var þegar heilu borgirnar fuðruðu reglulega upp fyrr á öldum.
Ástralir misstu veiruna út í samfélagið þrátt fyrir sóttkví við landamæri, skýringin er þekkt, og verður ekki endurtekin.
Við Íslendingar náðu hins vegar að útrýma veirunni, það sama gerðu Nýsjálendingar og borgaryfirvöld í Whuan borg í Kína, þrátt fyrir stjórnlausan faraldurs á ákveðnum tímapunkti.
Allt þetta veit greindur maður eins og Þórólfur, og hann veit að það er auðvelt að fá fólk með sér í stríð við faraldur sem herjar vegna einhvers sem ekki var við ráðið, eða ekki vitað um að gæti valdið smiti, en því sem næst vonlaust ef skýr yfirlýsing fylgir hinum hertu sóttvörnum, að þetta sé allt til einskis því við munum örugglega aftur hleypa smitinu inní landið.
Vísvitandi og viljandi.
Heimskan þarf að vera djúp til að menn átti sig ekki á muninum.
Beirút var sprengd í loft upp vegna óafsakanlegs kæruleysis þarlendra yfirvalda.
Og almenningur kallar á ábyrgð.
En ekki þá ábyrgð að fyrst að ein sprengjugeymsla sprakk, að þá sé sagt; "shit happens", og borgin sé markaðssett sem borgin sem geymir sprengjuefni og það þurfi ekki einu sinni hátalara til að hvellurinn heyrist.
Það þarf ekki nema eitt smit að sleppa framhjá sóttvörnum landamæranna til að nýr faraldur brjótist út. Og línleg áhættan eykst eftir því sem fleiri koma inní landið án undangenginnar sóttkvíar.
Sóttkví lágmarkar hins vegar áhættuna.
Og raunveruleikinn sannar að hún virkar.
Þetta veit Þórólfur sóttvarnarlæknir.
Og sú vitneskja skýrir játningar hans.
En það þarf einhver að hlusta.
Áður en samfélag okkar lamast.
Kveðja að austan.
![]() |
Verða fyrir mjög þungu höggi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.8.2020 | 08:18
Prófessor kaghýðir ráðherra og ríkisstjórn.
"Þegar þjóðfélag okkar stendur frammi fyrir einhverju alvarlegasta vandamáli lýðveldistímans þá er mikilvægt að leyfa mismunandi sjónarmiðum að koma fram og ráðamenn þurfa að sýna ábyrgð með því að bregðast við umræðu í samræmi við embætti þeirra og ábyrgð.".
Þó Þordís Kolbrún, ráðherra ferðamála hafi þó haft þá döngun að reyna að verja hið óverjanlega, að opna landamærin fyrir smiti og bjóða þannig nýja bylgju farsóttarinnar velkomna, þá er orðum Gylfa Zoega ekki síður beitt gegn ríkisstjórninni allri.
Og það er hún sem á að taka þau til sín.
Það er hún sem á að skilja þessi skilaboð Gylfa sem hann orðar á svo einföldu og skiljanlegu máli að fólk á öllum aldri ætti að skilja.
"Valkostir okkar sem búum á eyju eru því þessir: Öflugar sóttvarnir við landamæri líkt og Nýsjálendingar hafa gert og sóttvarnir sem eru minna hamlandi á efnahagsstarfsemi innan lands, eða takmarkaðar sóttvarnir við landamæri og miklar sóttvarnir innan lands eins og nú virðist stefna í. Ef ráðamenn eru að horfa á neyslu, atvinnustig og stöðu ríkissjóðs þá þarf ekki hagfræðing til að benda á að fyrri kosturinn gæti komið betur út. Hættulegt er að gera að einu hagsmuni ferðaþjónustu, annars vegar, og efnahagslífsins alls, hins vegar. ".
Það þarf ekki hagfræðing sagði Gylfi, aðeins þroska og heilbrigða skynsemi.
Katrínu greinilega svíður undan gagnrýni Gylfa en fer Albaníu leiðina í að svara henni, ybbar sig eitthvað við samþingmann sinn sem vissulega og réttilega kastar steinum úr glerhúsi, hin æpandi þögn þingmanna og hin óskiljanleg meðvirkni þeirra gagnvart þeirri ákvörðun að opna landamærin fyrir veirusmiti er þingheimi til vansa og skammar.
Málsvörn hennar er að slá keilu, "Það eru mörg dæmi í heiminum um stjórnmálamenn sem þykjast hafa öll svör um faraldurinn á reiðum höndum. Við erum ekki í þeim hópi", ha ha, ég er ekki Trump. En þetta snýst ekki um að vita allt, þetta snýst um að vita það sem er vitað, og íslensk sóttvarnaryfirvöld náðu ekki tökum á fyrri faraldrinum fyrr en innflutningur á nýsmiti var stöðvaður.
Reynslan borgaryfirvalda í Whuan áttu síðan að vera sterkur leiðarvita um að það er hægt að sigra veiruna með því að skera á smitleiðir hennar, og loka síðan á nýsmit með sóttkví á landamærum, héraðsmörkum, borgarmörkum eða á mörkum allra smitlausra svæða sem menn vilja halda smitfríum.
Það var ekki verið að finna upp hjólið, við lifum ekki í formyrkvun miðalda.
Síðan gerist hún fyndin og ætlar að slá vopnin úr höndum prófessorsins með því að segja; "Í þessum efnum séu ótal erfiðar spurningar og þeim verði ekki svarað með hagfræðiúttekt eingöngu" sem er broslegt því í hýðingu Gylfa má lesa þetta; "Ef ráðamenn eru að horfa á neyslu, atvinnustig og stöðu ríkissjóðs þá þarf ekki hagfræðing til að benda á að fyrri kosturinn gæti komið betur út".
Aðeins ein önnur rök þurfa stjórnvöld að hafa í huga og það er heilsa og heilbrigði þjóðarinnar, og það er ekkert heilnæmt við illvígar veirusýkingar eða samfélag í höftum sóttvarna.
Enda fordæmdu heilbrigðisstéttirnar þessa ákvörðun ríkisstjórnar hennar, og það þýðir ekkert fyrir hana að vísa í að sóttvarnarlækir hafi samþykkt þessa ákvörðun, svipur hans var eins og svipur Galileos þegar hann kom út pyntingarklefa rannsóknarréttarins og sagði kvalinn, "hún er flöt".
Vissulega merkilegt fyrir áhugamenn um sögu að fá að sjá flashbakk til horfins tíma en ekkert umfram það.
Loks játar Katrín að fleiri hafi þrýst á bak við tjöldin en ferðaþjónustan; "Því fari fjarri að hagsmunir ferðaþjónustunnar hafi verið í fyrirrúmi", einhverjir með ríkari hagsmuni en hún.
Og hverjir skyldu það vera??
Hvaða starfsemi þrífst ekki nema við galopin landamæri??
Það eina sem ég veit um er mannsal og félagsleg undirboð sem og innflutningur á ólöglegum efnum ýmiskonar en það er Katrínar að útskýra orð sín.
Hverjir eru svona leyndó að ferðaþjónustan tekur á sig sök þeirra og er þjóðaróvinur númer eitt í dag að ósekju??
En þetta skiptir ekki máli.
Þannig séð.
Röng ákvörðun var tekin.
Hana þarf að leiðrétta.
Ekki bæta í afglapaháttinn með því að auka streymi á nýsmiti til landsins líkt og sóttvarnalæknir virtist sárkvalinn með þumalskrúfu á fingri reyna að útskýra í fréttum sjónvarps í gær.
Ef svo er þá er ljóst að eitthvað mikið er að í stjórnarráði Íslands, jafnvel svo manni grunar þvingun einhverra leyndarafla.
Röng ákvörðun einu sinni er ekki tilviljun ef hún er tekin aftur.
Ég myndi kalla út sérsveitina.
Það þarf að stöðva þá sem ábyrgðina bera.
Kveðja að austan.
![]() |
Katrín furðar sig á tækifærismennsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.8.2020 | 19:13
Önnur bylgja veirunnar er ekki útilokuð
Segja stjórnvöld á Nýja Sjálandi sem hafa leyft landsmönnum að lifa án ótta og án innilokunar núna í 100 daga, sama tíma og við hefðum getað lifað án veirunnar ef henni hefði ekki verið vísvitandi hleypt inn með ótímabæri opnun landamæranna.
Hvað sem verður í framtíðinni þá verða þessir 100 dagar aldrei metnir til fjár, líf án ótta í miðjum heimsfaraldri.
Almenningur þarf að vera á varðbergi en að öðru leiti getur hann lifað sínu eðlilegu lífi, nema sú heimska að ferðast óhindrað til annarra landa í miðjum heimsfaraldri er bönnuð.
Heimska er nefnilega ekki lýðréttindi á dauðans alvöru tímum, heldur ógn gegn heilsu og heilbrigði, lífi og limum samborgaranna.
Önnur bylgja veirunnar er óhjákvæmileg segir Þórólfur sóttvarnarlæknir, og það er réttlæting hans á því að vera ábyrgðarmaður þess faraldurs sem við glímum við í dag, og ógnar öllu daglegu lífi fólks.
Undir eru skólar, menning og listir, að ekki sé minnst á daglegt líf án ótta.
Við glímum við faraldur en Ný Sjálendingar ekki.
Skýringin er ákaflega einföld.
Það er grundvallar eðlismunur á sóttvörn sem útilokar ekki faraldur en reynir að hindra smit við landamæri, og sóttvörn sem telur faraldurinn óhjákvæmilegan, eins konar náttúrulögmál líkt og sólarupprás, og reynir því ekki að hindra smit á landamærunum nema að nafninu til.
Til hvers að berjast við það sem verður ekki forðað??
Þessi uppgjöf, þessi afneitun á möguleikum mannsandans til að sigrast á farsótt, er skýring þess að við sem samfélag erum smituð en Ný Sjálendingar ekki.
Og fyrst að við gátum ekki smitast af sjálfum okkur, þá fluttum við inn smit til að staðfesta kenninguna um að næsta bylgja væri óhjákvæmileg.
Getum þá bent á þjóð sem gætir ekki nógu vel að sóttvörnum sínum, ásökum fólk, skömmumst svo í því, og lökum síðan á öll samskipti þess.
Þannig er Ísland í dag.
Og þó æ fleiri rísi upp og mótmæli, þar fremstur í fararbroddi Kári Stefánsson, þá er samstaða stjórnmálastéttarinnar í takt við múlbundna fjölmiðlamenn næstum algjör, þjóðina á að smita, og hún skal haldast smituð þar til yfir líkur og lækning finnst við vágestinum.
Bakhjarl þessarar smitstefnu er síðan hjörð hinna jarmandi meðvirku sauða, sem labba gæsataktinn inní dilka sóttkvíarinnar.
Taka þegjandi á sig skaðann og tjónið, loka með bros á vor aldraða foreldra sína inná hjúkrunarheimilum, og sjálfa sig á eftir þegar grunur um smit fer hraðar um samfélagið en sinueldur á þurru vorkveldi.
Enda hver þarf lifandi samfélag þegar hægt er að hafa helgi eftir helgi með Helga í sjónvarpinu??
Fjöldinn ber síðan harm sinn í hljóði, bítandi á jaxlinn, vitandi að hann þarf að hlýða Víði ef nokkur von sé til að sigrast á vágestinum.
Fólk óttast að opinská mótmæli skaði Víði og varnirnar gegn vágestinum.
Sem er rétt að því marki að hlýðni við Víði er forsendan, og mótmæli gegn smitstefnunni mega ekki snúast uppí andhverfu sína, að stuðla að nýsmiti meðal þjóðarinnar.
Það breytir því samt ekki að við þurfum líka að styðja Kára.
Vegna þess að hann hefur rétt fyrir sér.
Raunveruleikinn skar úr um að önnur bylgja farsóttarinnar er ekki útilokuð, en hún er alls ekki óhjákvæmileg.
Líkt og að raunveruleikinn hefur svo margoft sagt, að það eina sem stuðlar örugglega að ósigri er uppgjöfin, að það sé hætt að berjast.
Vissulega hafa vágestir oft sigrað, og þegar er talað um ósigrandi andstæðing eða því sem næst ósigrandi andstæðing, þá er það vegna þess að hann hefur alltaf sigrað eða hefur þá yfirburði að ætla mætti að vonlaust væri að kljást við hann.
Líkt og Bretar upplifðu vorið 1940 þegar illskan virtist vera allsráðandi í Evrópu.
En þá var maður sem sagði í Bretlandi, við gefumst ekki upp, þó rök hans fyrir frekari baráttu með heykvíslum gegn skriðdrekum voru frekar ósannfærandi.
En eldmóður hans fylkti liði um allan heim og illskan var brotin á bak aftur, þó í bili væri.
Og hver hefur ekki heyrt um Davíð sem sigraði Golíat eða Leicester sem braut ofurvald peninganna á bak aftur.
Að ekki sé minnst á Nýja Sjáland og sigur þeirra yfir vágestinum.
Þetta er hægt.
En ekki undir stjórn uppgjafarinnar.
Þá er eins gott að gefast upp strax og bjóða veiruna velkomna án andspyrnu.
Það er valið í dag.
Þar er enginn millivegur.
Ég vel Kára.
Þó ég hlýði Víði.
Kveðja að austan.
![]() |
Hundrað dagar án innanlandssmits á Nýja-Sjálandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 37
- Sl. sólarhring: 1060
- Sl. viku: 4767
- Frá upphafi: 1486907
Annað
- Innlit í dag: 28
- Innlit sl. viku: 4079
- Gestir í dag: 28
- IP-tölur í dag: 28
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar