27.11.2012 | 12:07
Hvað er þessi maður að gera í Sjálfstæðisflokknum???
"Smáskammtalækningar duga ekki lengur."
"Þegar allt er tekið af þeim, sem reynt hafa að standa í skilum til að verja heimili sín og kostað til þess séreign sinni, þá er fátt eftir. Erlendis yrði gerð uppreisn. Reiðin er svo megn, að æ fleiri telja réttlætanlegt að svíkja lög og reglur landsins, þess ríkis sem hefur svikið fólk í neyð".
Allt satt og rétt, staða þjóðfélagsins er grafalvarleg.
Þegar fyrirhuguð yfirtaka ameríska vogunarsjóða á bankakerfi landsmanna, og í raun öllu efnahagslífi þeirra, er höfð í huga þá er ljóst að sjálf framtíð þjóðarinnar er í húfi.
Og allt siðað fólk, allt skynsamt fólk, allt góðviljað fólk snýst til varnar.
En sú vörn er vonlaus ef fólk sér ekki hvað er að gerast, hvaða öfl eru að verki og hvað þarf að gera til að hindra atlögu þeirra að þjóð okkar, sjálfstæði hennar og framtíð.
Sjálfstæðismenn sjá ekki hvað er að gerast. Í barnaskap sínum halda þeir að allt hið illa sé núverandi ríkisstjórn að kenna, og allt muni breytast til batnaðar ef skipt er um ríkisstjórn.
En hvernig getur það orðið????
Flokkurinn hafnaði þeim frambjóðendum sem settu málefni heimilanna á oddinn. Þeir sem þó ekki annað en tæptu á skuldaleiðréttingu, fengu hraklega útreið.
Sigurvegarar prófkjara flokksins í Reykjavík og Kraganum voru þekktir andstæðingar skuldaleiðréttingar, Vilhjálmur Bjarnason, Brynjar Níelsson og Pétur Blöndal.
Brynjar Níelsson hefur kynroðalaust sagt að gjaldþrot, það er útburður barna og mæðra, sé eina leiðin til að gera upp skuldir fólks. Hinn stóri sigur hans er staðfesting þess að Sjálfstæðisflokkurinn er sammála honum. Efist menn þá er upphefð Péturs Blöndal, mannsins sem kom Jóhönnu og ríkisstjórninni til varnar þegar almenningur sat um þinghúsið haustið 2010, og krafðist réttlætis, að þá varð stefna Péturs ofaná í flokknum, enga leiðréttingu á skuldum, aðeins plástur í formi vaxtabóta, "smáskammtalækning" eins og Halldór Gunnarsson orðar það. Og Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórn hennar var skorin úr snöru kröfunnar um skuldaleiðréttingu.
Og hvað vill flokkurinn gera gagnvart amerísku vogunarsjóðunum.
Fyrir utan Illuga Gunnarsson, þá minntist enginn frambjóðandi í prófkjörum flokksins á þann vanda eða kom með tillögur sem hugsanlega gætu bjargað þjóðinni frá algjöri örbirgð.
Illugi beið hraklegan ósigur fyrir manneskju sem sagði ekki neitt og á sitt bakland hjá talsmönnum frjálshyggjunnar, mönnum sem sjá ekkert rangt við framferði vogunarsjóðanna.
Er ráðið gegn illskunni að brosa og gera ekki neitt???
Hindrar kona nauðgarann með því að brosa og fletta sig síðan klæðum????
Nei sagði Winston Churchil og fékk bágt fyrir hjá forystu breska íhaldsflokksins. Ræða Chamberlain eftir svikasamningana við Hitler gæti alveg eins verið ræða Hönnu Birnu sem færði henni stórsigurinn í prófkjöri flokksins.
Því spyr ég, hver getur talað svona og samt kosið Sjálfstæðisflokkinn.
Flokkinn sem ætlar ekki að gera neitt.
Ég veit hvað Churchil hefði gert.
Kveðja að austan.
![]() |
Í hvers konar þjóðfélagi búum við? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2012 | 08:52
Hræðsluáróðurinn á sér engin takmörk.
Evrópa er að hverfa í svarthol evrunnar, sundrung og upplausn blasir við.
Það mun hafa alvarleg áhrif á íslenskan efnahag, það mun valda samdrætti og atvinnuleysi.
Evran þjónar aðeins einum húsbónda, fjármagninu, og þá sérstaklega skítuga fjármagninu sem hefur óhindrað flætt um fjármálamarkaði álfunnar.
Evran er eitt form áætlunarbúskapar sem þjóðir Austur Evrópu fengu að kenna á í áratugi. Áætlunarbúskapar sem klippir á sambandið milli framboðs og eftirspurnar. Orð og yfirlýsingar eru undirstöður evrunnar, ekki raunveruleiki efnahagslífsins.
Evran mun því deyja eins og Sovétið á sínum tíma því fólk sættir sig ekki við örbirgð forræðishyggjunnar.
Dauði evrunnar er upprisa Evrópu, í kjölfar mynta sem endurspegla hinn efnahagslega raunveruleika mun heilbrigð samkeppni drífa þjóðir Evrópu áfram.
Og þróttmikið hagkerfi Evrópu mun hafa jákvæð áhrif á íslenskt efnhagslíf.
Það er ekki skrítið að núverandi ríkisstjórn skuli kveða þá öfugmælavísu að hrun evrunnar muni hafa "skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt efnhagslíf", öfugmælavísur eru hennar eini kveðskapur.
En það er skrítið að Mogginn skuli birta svona bull athugasemdarlaust.
Vekur enn og aftur upp spurningar hvort ESB gullið hafi síast í pyngju Óskars. Að blaðamenn Morgunblaðsins séu neyddir til að birta svona bull svo þeir fái frið til að sinna alvöru blaðamennsku eins og að upplýsa þjóðina um fyrirhugaða yfirtöku ameríska vogunarsjóða á íslenska bankakerfinu.
Það er full ástæða til að vera á verði, það liggur í eðli mútfés að það hefur víða áhrif.
Og það eru 1.000 milljarðar í húfi.
Kveðja að austan.
![]() |
Þriggja ára samdráttarskeið á Íslandi við uppbrot evru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2012 | 08:01
Vandi VG er ekki flókinn.
Það er til fólk, hefur verið til á öllum tímum, sem svíkur allt fyrir völd.
Hugsjónir sínar, lífsskoðanir, náungann.
En það eru aldrei margir.
Kveðja að austan.
![]() |
VG lítur í eigin barm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.11.2012 | 13:37
Vonarstjarna fædd!!
En hverra???
Hvað sagði Hanna Birna í aðdraganda prófkjörsins??? Hvað sagði hún um helstu málin sem brenna á þjóðinni. Um þær ógnir sem blasa við og munu gera út um sjálfstæði þjóðarinnar og lífskjör ef hegðun strútsins ræður för.
Hvað sagði hún um skuldir heimilanna??'
Um yfirtöku hrægamma á bönkum þjóðarinnar???
Um ríkisfjármálin???
Um snjóhengjuna????
Man það einhver????
Ég man það, og get haft það eftir.
"
"
Lesi svo hver sem lesa vill.
Og svari svo spurningunni hverjum hún þjónar.
Kveðja að austan.
![]() |
Sigur Hönnu veikir stöðu Bjarna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
26.11.2012 | 09:48
Funda um "Björgun" Grikklands!!!
Hefði blaðamaður Mbl.is skrifað fyrirsögn þessarar fréttar í hlutleysi gæsalappanna þá væri ljóst að hann hefði ekki tekið afstöðu til þeirrar afskræmingu tungumálsins að kalla Helför grísku þjóðarinnar "Björgun".
En hann gerði það ekki, fyrirsögnin er hans, og þar með tók hann afstöðu, með mannvonsku og illsku í sinni tærustu mynd.
Að kalla aðför ESB að grískum almenningi Björgun er líkt og að þyrla Landhelgisgæslunnar hefði ekki sent sigmann að hinum strandaða bát fyrir vestan, heldur varpað niður snöru eða dós með blásýrupillum. Og kallað það "Björgun".
Þessi fréttamennska er í anda hinna upplýstu kommúnista sem sáu bústin börn á götum Kiev þegar hungursneyð Stalíns hafði fellt milljónir. Um það eigum við Íslendingar sorgleg dæmi í skrifum Halldórs Laxness, smán sem skáldið náði aldrei að þvo af mannorði sínu.
En í leyndum afkima uppí Móum er ennþá skrifaður texti sem Eurokratinn hefur ekki náð að afskræma.
Þeir sem lesa þessa Ófrétt Mbl.is ættu að kynna sér hann, en hér að neðan er brot úr honum sem sannar að Evrugullið hefur ekki yfirtekið alla frjálsa hugsun á íslenskum fjölmiðlum.
"Forsætisráðherrann gríski sagði efnislega að yrði þessi skammtur ekki samþykktur (Björgun Grikklands, innskot skrásetjara) þá væru ekki aðeins ógurleg eymd og voðalegt volæði hin óhjákvæmilega afleiðing þeirrar þrjósku, heldur myndi efnahagslegt svarthol djöfulsins, eldtungur og eitraðar gufur þess að lykjast endanlega um Grikki.".
Og á meðan hrægammar og eurokratar ná ekki að þefa uppi þennan leynda afkima í Móunum, þá mun tæpitungan ennþá verða sögð á Íslandi.
Henni til heiðurs ætla ég að gera hennar orð að lokaorðum þessa pistils.
"Illa meðferð á þjóðum ætti líka að banna".
Jafnvel þó að um meinta Björgun sé að ræða.
Kveðja að austan.
![]() |
Funda í dag um björgun Grikklands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.10.2012 | 01:27
Ljóð til heiðurs Fári.
Þó hér á þessum síðum hefur margt verið sagt, og haft skoðanir á mörgu, sérstaklega í aðdraganda allra þeirra þjóðaratkvæðagreiðsla sem forseti vor og ríkisstjórn hafa útvegað okkur á kjörtímabilinu, þá er það regla, næstum án undantekninga, að ég held friðinn á kosningadag.
Og ríf hann ekki fyrr en úrslit liggja fyrir.
En gott ljóð skaðar ekki og stundum segir gott ljóð meir en maður sjálfur hefur mátt til.
Mesta furðuverkið á jörðinni.
Þú ert eins og sporðdreki,
bróðir, lifir í þínu huglausa myrkri
eins og sporðdreki.
Þú ert eins og spörfugl, bróðir,
alltaf á sífelldu flökti.
Þú ert eins og skeldýr, bróðir,
lokaður í skelinni, sjálfum þér sæll.
Þú ert skelfilegur, bróðir,
eins og munnur gígsins, útbrunninn.
Ekki einn,
ekki fimm, því miður, þú ert einn af milljónum.
Þú ert eins og sauður, bróðir,
flykkist í hjörðina,
þegar smalinn hóar ykkur saman
og hleypur svo fagnandi,
jarmandi stoltur,
beinustu leið til slátrunar.
Þú hlýtur að skilja orð mín.
Þú ert mesta furðuverkið á jörðinni,
meira að segja furðulegri en fiskurinn
sem sér ekki hafið fyrir dropunum.
Kúgun valdhafanna er vegna þín, bróðir.
Og ef hungrið, sárin og nagandi þreytan
sækja okkur heim
og við erum kramdir í spað,
eins og berin í víni okkar,
er það vegna þín, bróðir.
Ég get varla fengið mig til að segja það,
en mestu sökina kæri bróðir - átt þú.
N. Hikmet þýðing: Pétur Örn Björnsson.
Já, það rænir enginn óviljugan, ekki aftur og aftur.
Kveðja að austan.
19.10.2012 | 15:00
Þjófnaður í skjóli ríkisstjórnarinnar.
"Á grundvelli reiknireglu sem hafi verið leidd af óskiljanlegum ákvæðum laganna hafi bankar reiknað út gengistryggð lán og á þeim grundvelli hafi þeir yfirtekið eða eyðilagt fjölmörg lítil, meðalstór og stór fyrirtæki. Þetta byggist allt á ólögmætum forsendum."
Þessi orð eru höfð eftir lögmanni Borgarbyggðar, ekki eftir íslenskum stjórnmálamönnum, hvort sem þeir eru innan fjórflokksins eða utan.
Íslenskir stjórnmálamenn eru að ræða um drög að stjórnarskrá og til að tryggja að sú umræða færi útí hið óendanlega þá stofnuðu þeir til kosninga um þessi drög, og höfðu allt svo óljóst að enginn veit hvað hann er að kjósa um.
Með velskipulögðum áróðri hafa þeir náð til að rugla þjóðina algjörlega svo umræðan um drögin að einhverju sem hugsanlega gæti verið haft til hliðsjónar við mögulega endurskoðun stjórnarskráarinnar er farið að snúast um setningu laga um kvótakerfið frá árinu 1983 eða síðbúna hefnd á Sjálfstæðisflokknum vegna stjórnarára Davíðs Oddssonar.
"Þetta er risamál" sagði lögmaður Borgarbyggðar, og það er vægt til orða tekið.
Engin dæmi eru úr íslenskri samtímasöguum að fjölmörg lítil eða meðalstór fyrirtæki hafi verið yfirtekin eða eyðilögð á ólögmætum forsendum.
Engin dæmi eru heldur til í nútímasögu vestrænna ríkja um slíkan ribbaldaskap síðustu 80 árin, eina dæmið sem vitað er um er frá því um 1932 þegar að fyrirtæki í eigu gyðinga í Þýskalandi voru "yfirtekin eða eyðilögð"en það var gert með löglegum hætti, þýska ríkisstjórnin setti lög þar um sem voru ekki dæmd ólögleg af þýskum dómsstólum.
Íslenski þjófnaðurinn, íslenski ribbaldaskapurinn er því eina dæmið í allri nútímasögu vestrænna ríkja þar sem ræningjar og ribbaldar gátu eyðilagt fjárhag fjölskylda og fyrirtækja í skjóli stjórnvalda sem settu vísvitandi lög sem heimiluðu þjófnaðinn, þó fyrirfram væri vitað að slíkt væri ólöglegt.
Núna þegar þegar þriðja valdið, dómsvaldið dæmdi ólögin ólög, staðfesti að um þjófnað var að ræða, þá gerist ekkert.
Það gerist ekkert vegna þess að framkvæmdarvaldið tekur ekki hið minnsta mark á dómi Hæstaréttar, og gerir ekkert í að koma lögum yfir þjófana.
Þjófarnir komast ennþá upp með að níðast á almenningi, að eyðileggja tilverugrundvöll þúsunda og valda tugþúsundum miska sem fólk rís vart undir.
Framkvæmdarvaldið kemst upp með stuðning sinn við þjófana því íslenskir jafnaðarmenn telja þjófnað í þágu ameríska vogunarsjóða réttlætanlega ef það gæti hugsanlega flýtt fyrir inngöngu landsins í Evrópusambandið.
Og vegna þess að almenningur segir ekkert.
Andófið sem leiddi mótmæli hans er út á túni að slást við ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem fór frá völdum 2004. Ætlar að klekkja á þeirri "ógnarstjórn" með því að fá almenning til að samþykkja drögin að hugsanlegri nýrri stjórnarskrá sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hafði af náð sinni ákveðið að bera undir þjóðaratkvæði.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vissi að þessi dómur Hæstaréttar kæmi núna í haust.
Mótleikur hennar var tilbúinn.
Og heppnaðist vel.
Sem aftur vekur upp spurningu, er fyrirsögn þessa pistils ekki röng.
Í hvaða umboði starfa vaxtaþjófarnir?????
Svarið við þeirri spurningu skýrir af hverju þeir hafa náð öllum sínum markmiðu frá Hruni.
Nema einu, þeim tókst ekki að tryggja inngöngu landsins í ESB, þjóðin sagði Nei við ICEsave.
En þeir munu reyna aftur.
Á laugardaginn.
Kveðja að austan.
![]() |
Sendi kröfubréf á bankana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.10.2012 | 09:06
Mandran á bak við stjórnlagafárið.
Má finna í hnotskurn í þessum orðum leigupennans Jóns Kristjánssonar.
"Umboðsmenn kvótagreifa og annarra ríkiseigenda vilja ekki, að þú notir rétt þinn til að færa þjóðinni stjórnarskrá. Frumvarpið er byggt á þjóðfundi og einróma samþykkt í stjórnlagaráði. Taktu þátt í tækifæri til að færa valdið frá bófaflokkum til þjóðarinnar. ;".
Og undir þetta taka þúsundir manna í Netheimum, á kaffistofum, og annars staðar þar sem mál líðandi stundar eru rædd af ákafa og tilfinningu.
Af þessum þúsundum er margir sem tóku undir þess orð Jónasar af sömu sannfæringu og tilfinningahita í öðrum þjóðarkosningum, ICEsave kosningunum hinni fyrri, þessir stoltu í 2% hópnum, sem einarðir mættu á kjörstað og kusu gegn bófaflokknum og sögðu því Já við ICEsave.
Fleiri af þessum þúsundum tóku hins vegar ekki mark á þessum orðum Jónasar, og urðu jafnvel ill þegar hann nýtti aðstöðu sína í morgunútvarpi Rásar 2 og kallaði það vitleysinga og bjána, að láta bófaflokkana glepja sig til að standa gegn réttmætum kröfum breta og Hollendinga í ICEsave deilunni.
Jónas hefur ekkert breytt orðalagi sínu, notar ennþá sömu orð og sömu frasa, höfðar ennþá til sömu hvata fólks, andúðar og reiði á Sjálfstæðisflokknum.
Jónas hefur ekkert breyst, hann kemur til dyranna í sínum fötum, merktum sínum húsbóndum, fólkinu sem fóðrar hann.
Andstaðan við auðránið og skuldaþrældóminn hefur hins vegar breyst.
Hún er auðplataðri, trúgjarnari.
Hún sættir sig við skuldahlekki amerísku vogunarsjóðanna sem blóðmjólkar almenning í gegnum eignarhald sitt á bönkunum, svo vel að hún telur það meira skipta að fá að vera reitt, að fá að hrópa vígorð gegn andstæðingum fortíðar.
Þeirra sem stjórnuðu en stjórna ekki í dag.
Og uppsker hið endanlega þrælaþjóðfélag sem er handan hornsins þegar snjóhengjan verður öll komin á almenning í formi erlendra gjaldeyrislána, líkt og auðránsvaldið er að gera almenningi á Spáni, Írlandi, Grikklandi og víðar í Evrópu.
Að skattar fari í greiða gjaldeyriskuld sem fór öll í vasa braskara sýndarfjármálakerfisins sem hrundi með ósköpum haustið 2008.
Að skattar fari ekki í almannaþjónustu eins og menntun og heilsugæslu.
En hún uppsker líka útrás fyrir tuð og óánægju, fær jafnvel að skrifa undir plagg sem tjáir mótmæli við kvótalögin frá 19hundruð og eitthvað. Hugsanlega, ef leppar amerísku vogunarsjóðanna eru mjög örlátir þá er hægt að mótmæla í leiðinni óréttlæti einokunarverslunarinnar eða aftöku Jóns Arasonar.
Hver veit.
En uppskeran, skuldaþrældómurinn er öruggur því hver berst við hið dauða fjármagna ef það er ekki fólkið í Andstöðunni??
Um þetta snúast kosningarnar á laugardaginn, er hægt að plata fólk út í hið óendanlega, ef menn nota möndrur í stað raka, úthugsaðan áróður í stað vitrænnar umræðu.
Þær snúast ekki um stjórnarskrána.
Þær snúast um hvort hægt sé að plata fólk, með lygi, rakalausum þættingi, linnulausum áróðri þar sem andstæðingar þrælahaldarana er endalaust spyrtir við sægreifa og bófaflokka.
Þær eru æfing fyrir stóru kosninguna, þegar ríkisstjórnin stendur við undirritaða skuldbindingu sína í aðildarviðræðunum við ESB.
Skuldbindingu sem segir, "ríkisstjórn Íslands mun lúta dómi EFTA dómsins í ICEsave deilunni.
Þessi kosning er svipan sem á að nota á Ólaf Ragnar svo hann þori ekki að senda hin endanlegu svik í ICEsave deilunni í þjóðaratkvæði.
Því uppgjöf í ICEsave er forsenda aðildar að Evrópusambandinu.
Kosningin snýst ekkert um væntanlega hugsanlega nýja stjórnarskrá, hún snýst um hvort ICEsave þjófarnir sem eru í bandalagi við nýdæmda vaxtaþjófa, hafi náð að þróa áróðurstækni tómhyggjunnar á það stig, að ekkert fái staðist hana.
Hvorki vit, skynsemi, staðreyndir eða framtíð barna okkar.
Munum að sá sem styður þjófa, sá sem vinnur með þjófum, verður alltaf annað af tvennu.
Þjófur, eða fórnarlamb þjófa.
Aldrei frjáls heiðarlegur maður.
Kveðja að austan.
19.10.2012 | 07:47
Hvað gat Alþingi gert annað???
Annað en að setja ólögleg lög????
Spyr Árni Páll Árnason, höfundur ólaganna.
Svarið er mjög einfalt, Alþingi gat sett lög í þágu heimila og lántaka, ekki lög sem gengu út frá að styggja ekki hina nýju eigendur bankanna, amerísku vogunarsjóðina.
Árni Páll á engar málsbætur, sérfróðir menn eins og Marínó Njálsson, bentu stjórnvöldum og Alþingi strax á að hin nýju lög væru ólögleg. Vísuðu ekki í dómsfordæmi, þess þurfti ekki því þeir vísuðu í skýran lagatexta.
Ástæða þess að ekki var til dómsfordæmi var sú einfalda staðreynd að ekkert fyrri stjórnvald hafði haft það ímyndarafl að brjóta lögin með þeim hætti sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gerði í þágu auðs og fjármagns.
Það þarf nefnilega mikinn brotavilja til að ávinna sér titilinn vaxtaþjófur.
En málið liggur ljóst fyrir, Árni Páll kemur uppum strákinn Tuma.
"[E]nda skildu allir bankar fordæmi Hæstaréttar á sama veg og Alþingi."
Það var álit bankanna sem skipti máli, öllu máli. Banka sem voru þegar dæmdir gengislánaþjófar.
Gengislánaþjófnaðurinn og síðan vaxtaþjófnaðurinn hefur valdið óendanlegum þjáningum fólks sem stóð höllu fæti fjárhagslega. Hrakið fólk af heimilum sínum, sundrað fjölskyldum sem hafa bugast undan álaginu.
Er illvirki sem seint gleymist.
Og þó, er þegar gleymt því áróðursfólk þjófanna, gengislána, vaxta og ICEsave þjófanna fann upp snjallan mótleik.
Það keypti upp hluta Andófsins og fékk það til að sprikla um nýja stjórnarskrá.
Með þeirri afleiðingu að í dag talar enginn um þjófa. Það tala allir um sægreifa og sjalla, um hefnd og uppgjör við liðna atburði.
Og á meðan heldur ránið áfram.
Sniðugt??
Kveðja að austan.
![]() |
Lögin tóku ekki rétt af nokkrum manni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.10.2012 | 14:50
Fár til að fífla fólk.
Tillögur stjórnlagaráðs hafa aðeins einn og aðeins einn tilgang.
Að fífla þjóðina.
Að taka athygli hennar frá brýnum málum sem snerta framtíð hennar og lífsgrundvöll og fá hana í stað þess að rífast um eitthvað sem ekki er.
Tillögurnar eru illa ígrundaðar, þær byggjast mikið á lýðskrumi og bábiljum sem endurspegla stjórnmálaumræðu dagsins í dag og eru ætlaðar sem innlegg inní þá umræðu þó yfirskynið sé einhver meint þörf á að þjóðin þurfi nýja stjórnarskrá.
Þær eru því á sviði stjórnmála, ekki stjórnlaga.
Og það vita þeir alveg sem að fárinu standa, þeir hafa ekki nokkurn áhuga að endurskoða stjórnarskrána, vita alveg eins og er að þeir hafa ekki fylgi til þess.
Þjóðaratkvæði þeirra er liður í valdabaráttu þeirra við gömlu borgarastéttina sem að einhverjum ástæðum virðist ekki fylkja sér nógu vel um hina nýju auðstétt og það markmið hennar að koma þjóðinni í Evrópusambandið.
Fórnarlambið er síðan þjóðin og framtíð hennar.
En það sorglega í öllu þessu máli er blind fylgispekt margra í svokölluðum Andófi við fárið eins og að það sjái ekki hvaða hagsmunir búi að baki eða hver rauntilgangur þessa skrípaleiks er.
Hvers vegna vinnur það með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur????
Ríkisstjórnar sem reyndi að þrælsetja þjóðina í ICEsave vegna hagsmuna Evrópusambandsins, ríkisstjórnar sem kom skellinum af Hruni sýndarhagkerfis útrásarinnar alfarið yfir á almenning, ríkisstjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ríkisstjórnar hins dauða fjármagns sýndarhagkerfisins.
Og sér það ekki sömu fingraförin á baráttu stjórnarskráarfélagsins eða hvað sem þetta kostaða skoffín heitir og eru á samtökunum Já Ísland. Fingraför Evrópusambandsins. Sem með fjármunum sínum reynir að hafa áhrif á ákvarðanatöku þjóðarinnar í brýnustu hagsmunamálum hennar.
Sér það ekki að þegar allt hjómið og málskrúðið er tekið út úr tillögum stjórnlagaráðs þá stendur aðeins eitt eftir. Atlaga að sjálfstæði þjóðarinnar. Að lærdómur valdklíkunnar af ICEsave óförum sínum er að afnema það ákvæði stjórnarskráarinnar sem gerði þjóðinni kleyft að grípa framí ákvarðanir hennar.
Til hvers þessi blindi stuðningur við Óvininn eina????
Allavega veit ég að loksins þegar hinn almenni gyðingur Varsjárgetthósins reis upp, þá var það ekki til að knýja á hraðari flutning í útrýmingarbúðirnar, svo mikið er víst.
Og eins sorglegur og þessi stuðningur er, þá er siðferðisgjaldþrot Andófsins ennþá alvarlegri.
Hvað voru menn að gagnrýna eftir Hrunið 2008??
Var það ekki spilling, gerrræðisleg vinnubrögð, nánast alræði framkvæmdarvaldsins??? Og það með réttu því íslenskur efnahagur var orðinn einn allsherjar vogunarsjóður og ríkisstjórn landsins dyggur stjórnandi hans.
En hvað eru menn að styðja í dag????
Aðför gjörspilltrar valdklíku að dómsvaldinu??? Sniðgöngun stjórnarskráarinnar???
Byggðist gagnrýnin sem sagt á þeirri lógík að "þeir" máttu ekki en "við" megum því tilgangur okkar er svo göfugur??? Hin klassíska réttlæting ofríkis og kúgunar.
Og hvernig vinnubrögð leggur Andófið lag sitt við???
Eru þessi drög stjórnlagaráðs tækar til efnislegrar umræðu, eða hvað þá ákvarðanatöku???
Ef marka má gagnrýni lögspekinga þá er svo ekki. Og það er mjög alvarlegt mál. Jafnvel þó tilgangur sé góður, sem hann er ekki því öll aðförin er sjónhverfing til að vega að sjálfstæði þjóðarinnar, þá verða menn að vanda til vinnubragða, komi fram gagnrýni þá verða menn að bregðast við, með rökum.
En einu viðbrögðin eru skítkast af lægstu sort. Að það sé verið að verja gömlu stjórnarskrána í þágu hefðbundinnar valdaklíku Sjálfstæðisflokksins. Að það sé verið að verja kvótakerfið og svo framvegis.
Jafnvel þó sá hvati lægi að baki hinni efnislegri gagnrýni þá svara menn slíkri gagnrýni með rökum, ekki skítkasti. Það er jú verið að breyta stjórnarskrá landsins. Ekki að semja ályktun landsfundar einhvers stjórnmálaflokks.
Síðan má efast alvarlega um dómgreind þess fólks sem trúir að forsenda valda Sjálfstæðisflokksins sé stjórnarskrá landsins, ekki kjörfylgi hans.
Ríkisstjórnin hefur það sér til afsökunar á dómsdagsvitleysunni að hún þjónar húsbændum sínum sem vilja landið inní ESB.
Þá afsökun hefur íslenska Andófið ekki.
Samt hefur enginn flokkur Andófsins ályktaði gegn vitleysunni og þar með sýnt að hann á eitthvað erindi á Alþingi Íslendinga. Sá sem þorir ekki að bregðast gegn lýðskrumi í grundvallarmáli eða samþykkir gerræðisleg vinnubrögð hugsanlega meirihluta gegn minnihluta í jafn mikilvægu máli og endurskoðun stjórnarskráarinnar er, hann mun brotna þegar raunveruleg baráttan fyrir framtíð landsins byrjar. Hann hefur ekki nokkuð það sem þarf að hafa til að fjármálamafían láti undan í skuldamálum heimilanna. Eða annað það sem skiptir þjóð þessa máli.
Og ef grunnhyggnin er svo mikil að hann sér ekki ógnaröflin sem að baki búa, ógnaröflin sem hann þykist ætla berjast gegn, hvernig þykist hann þá geta barist við þau þegar útí alvöruna er komið ef það dugar Valdinu að henda beini út í móa og segja, "Sjáðu Snati, sjáðu!"
Þetta er ofsalega sorglegt, sorglegra en nokkur orð fá lýst.
Því hver berst fyrir framtíð barna okkar ef við bregðumst????
Ég ætla samt að vitna í orð framkvæmdarstjóra hins kostaða stjórnarskráaráhugamannafélags eða hvað sem ESB kostunin kallar áróðurstæki sín þessa dagana, og hafa þau sem lokaorð þessa pistils.
Það er hugsanlegt að einhver sæi að sér, að einhver hætti að elta beinið út í móa.
"Stjórnarskráin er grundvallarsáttmáli þjóðarinnar".
Gleymum því aldrei.
Slíkur sáttmáli er aldrei settur í ófriði.
Ekki einu sinni "Við" höfum rétt til þess.
Kveðja að austan.
![]() |
Yfir 8.600 búnir að kjósa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.10.): 35
- Sl. sólarhring: 577
- Sl. viku: 1241
- Frá upphafi: 1494959
Annað
- Innlit í dag: 31
- Innlit sl. viku: 1057
- Gestir í dag: 31
- IP-tölur í dag: 31
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar