Trúverðugleiki.

 

Er tískuorð þeirra sem styðja háa vexti, vilja sem minnst afskipti af fjármálamarkaði, vilja að auðmenn og spákaupmenn hafi sem frjálsastar hendur í hagkerfinu.

Þá myndast þessi svokallaði Trúverðugleiki sem fær öll viðskipti til að blómstra á fjármálamarkaðnum með tilheyrandi hagsæld fyrir allt þjóðfélagið.  Eða þannig.

Trúverðugleiki beið skaða við Hrunið en er að öðlast sitt fyrra vægi því allt það sem miður er gert, er gert með tilvísun í þetta orð.  Það er verið að skapa trúverðugleika.

 

Ég var að renna yfir gömul bloggskrif og rakst þá á þennan pistil sem var skrifaður snemma árs 2009 í athugasemdarkerfi á Eyjunni.  Þau eiga við aðstæður þess tíma þar sem reynt var að réttlæta efnahagsstefnu AGS, hávaxtastefnu hans og endurskipulagningu fjármálakerfisins í þágu auðmanna, með þessum meinta trúverðugleika.  Núna þegar þjóðin er komin að fótum fram og engin von í kortunum þá er ágætt að rifja upp þessi orð.  Það eru mistök fortíðarinnar sem útskýra það sem er að gerast í dag.

Allt sem hefur farið úrskeiðis er ekki núverandi ríkisstjórn að kenna heldur kolröngum aðgerðum eftir forskrift AGS.  Aðgerðum sem voru samþykktar af ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins.

Því var spáð að hagkerfið myndi koðna niður, og það gekk eftir.

En tilefnið var skýrsla Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega þar sem þeir eftir á greindu aðdraganda Hrunsins.  Hefðu betur gert það fyrirfram.

 

"Hvort skýrsla þeirra félaga verði Stóri dómur eða sjálf sagan verður að taka það verk að sér, veit ég ekki, En niðurstaðan er skýr. Allir brugðust, sem höfðu einhver tök á því að bregðast. Þess vegna var ég t.d. svo innilega á móti Barbabrellunni um Davíð á sínum tíma. Með henni voru aðilar sem báru ekki minni ábyrgð en Davíð Oddson, að frýja sig á kostnað hans og skapa með því illdeilur og ólgu.

Einnig fannst mér fáránleg sú krafa að Árni og Björgvin segðu af sér og þar með væri komið traust á ríkisstjórnina. Sjálfa aðalsökudólgana. Eftir átján ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, átti syndaaflausn flokksins að felast í fórn Davíðs og Árna og síðan áttu þeir bara halda áfram að stjórna vanhæfir, rúnir öllu trausti umheimsins. Auðvitað átti allt þetta lið að segja af sér, STRAX.

Síðan átti forsetinn að láta formann stærsta þingflokksins að mynda þjóðstjórn, sem hefði það eina hlutverk að mynda lagalegar og lýðræðislegar forsendur sérfræðingaráðs, sem færi með hina raunverulega stjórn efnahagsmála og björgunaraðgerða. Til þingkosninga átti síðan að boða núna í vor eða haust og þar með fengi nýtt Alþingi formlegt umboð til að stjórna.

Allt stjórnmálakarp átti að banna með viðurlögum um opinberlega flengingu. Ef þetta hefði verið gert og síðan verið farið eftir tillögum Jóns og Gylfa, ásamt því að frysta verðtrygginguna, og banna aðfarir að heimilum fólks, þá væru mótvægisaðgerðirnar farnar að virka, og fólk sæi vonarglætu í svartnættinu.

Í dag er engin von. Það er ennþá verið að skoða og rífast. Engin alvöru lagafrumvörp hafa verið samþykkt. Hrunadansinn er að verða óstöðvandi, aðeins tímaspursmál hvenær gólfið opnast og jörðin gleypi dansarana. Og óbermin hjá AGS komust í þá stöðu að eyða því sem hægt er að eyða.

 

En ég hjó eftir einu hjá Jóni. Þegar Þóra ( í Kastljósi) spurði hann afhverju AGS hefði ekki þegar hafið vaxtalækkun, þá kom hann með klassískt ósvar. Spurning hvort hann sé að stefna á þing.

Hann sagði að það vanti trúverðugleika, eða AGS telji að það skorti uppá trúverðugleika stjórnkerfisins.

 

Menn þurfa að vera mjög menntaðir í hagfræðinni til að bulla svona. Á sem sagt að drepa niður 10.000 fjölskyldur í viðbót og 5.000 fyrirtæki á meðan við bíðum eftir því að þessi menn telji að nægjanlegur trúverðugleiki sé kominn í stjórnkerfið. Hafa þeir eitthvað sagt um eftir hvað reglum þeir fara? Eru þeir að bíða eftir mútum eins og Rússneskir landamæraverðir, eða fer þetta eitthvað eftir stöðu himintungla eða tíðahvörfum eiginkvenna þeirra?

Hvað er þessi trúverðugleiki? Úr hvaða efnum er hann gerður? Þrífst hann aðeins á mannlegum hörmungum eða þarf hann alltaf sínar daglegu mannsfórnir eins og guðir Azteka. Megum við búast að arsenik eða jafnvel miltisbrandur verði bréfsendur til okkar reglulega svo nauðsynlegar forsendur þessa dularfulla trúverðugleika koma fram.

Eða eru þessir menn sjálfir rúnir öllum trúverðugleika? Hvaða stjórnendur í hinum alþjóðlega heimi kapítalismans verða við völd um næstu áramót. Marga vantaði i Sviss fyrir hálfum mánuði síðan. Erum við að fórna þjóðinni og innviðum hennar fyrir einhvern trúverðugleika manna, sem sjálfir hafa engan trúverðugleika lengur?

 

Hversvegna eru vextirnir ekki lækkaðir strax? Og ekkert bullsvar um trúverðugleika, takk fyrir.

 

Alvara lífsins er alltof alvarleg þessa daganna til að fréttamenn eigi að sætta sig við orðaleiki. Þeir mega hafa það í huga að þeirra tími mun koma. Þeir verða líka bráðlega atvinnulausir og gjaldþrota eins og við öll hin. Svarti dauði drap hálfa þjóðina a sínum tíma. Það er staðreynd.

Enginn “trúverðugleiki” drepur hálfa þjóðina á 21. öldinni.

Orð geta meitt, en þau drepa ekki.

Það eru annaðhvort menn eða plágur sem stráfella þjóðir."

Kveðja að austan.


Þetta gæti verið verra.

 

Formaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, skipaður af Steingrími Joð Sigfússyni, yfirráðaherra, sterka manninum  í ríkisstjórninni, er mjög sérstakt fyrirbrigði.

En ekkert einsdæmi, sagan kann mörg dæmi svipuð honum.

Neró skipaði til dæmis uppáhaldsgæðing sinn sem formann einhverrar þingnefndar í rómversku öldungadeildinni.  Eftir það nota menn orðið gæðingur yfir sérstök uppáhöld einræðisvaldhafa.  

Hjákonur, drykkjufélagar voru líka oft settir í svona embætti hér á árum áður.

Björn Valur er ekki versta dæmið, alveg satt.

 

Hins vegar voru menn neyddir til að virða gæðing Nerós viðlit, lágu við þungar refsingar.

Hver neyðir Illuga til að þiggja afsökunarbeiðni frá Birni Vali???

Eða fréttastofu sjónvarps til að taka viðtal við Björn um vanda Íbúðalánasjóðs???

Bjóst fréttamaðurinn við einhverju öðru svari en því að vandinn sjóðsins væri allur úr fortíðinni, frá því fyrir Hrun.  Eða finnst kannski fréttamaðurinn Björn Valur hafa einhverja þekkingu eða vit til að tjá sig um það sem er að gerast í dag.

Hann hefur kannski ekki lesið fréttatilkynningar Hagsmunasamtaka Heimilanna sem hafa varað við þessu strax og ljóst var að ríkisstjórnin myndi ekkert gera fyrir skuldug heimili landsins. Þær eru ekki svona nema 15-20 sem samtökin hafa sent frá sér frá því árla árs 2009.

 

Hann hefur kannski heldur aldrei rætt við Lilju Mósesdóttur sem hefur bent á þá einföldu staðreynd að heimili landsins myndu komast í þrot, og þar með kerfið líka, fyrst Íbúðalánasjóður.

Líklegast ekki, fréttastofa sjónvarps ræðir ekki við fólk með þekkingu á málum, það gæti skaðað orðstýr hennar.

En við lifum ekki á tímum Nerós, svo það þarf ekki að nota hestahvíslara.  Þó er ég ekki viss um að gæðingur Nerós hefði haft minni vit á vanda Íbúðalánasjóðs en Björn Valur.   Kannski sama, en ekki minna.

 

Já, þetta gæti verið verra.

En ekki mikið.

Kveðja að austan.


mbl.is Þingmenn báðust afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tifandi tímasprengja.

 

Bíður þess að springa með skelfilegum afleiðingum fyrir allt mannlíf, þar sem lífskjör þjóðarinnar geta farið aftur um áratugi.

Hvað segja stjórnmálamenn okkar????  Ekkert, þó vissulega séu raddir á jaðrinum sem hafa rætt þessi mál. 

Hvað segja fjölmiðlar okkar???  Fyrir utan Morgunblaðið, Ekkert.

 

En það sem alvarlegast er, hvað segir þjóðin????

Ekkert.  Nákvæmlega Ekkert.

 

Eins og enginn eigi líf sem þarf að verja.

Eins og öllum sé sama.  

 

Aðeins Már og hans menn í Seðlabankanum eru í veginum en hvaða hindrun er í þeim????

Og á meðan heyrist aðeins Tikk, Tikk, Tikk.

 

Búmmmm.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Beðið eftir samþykki Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistekst allt hjá Samfylkingunni???

 

Getur hún ekki einu sinni lengur útvegað auðmönnum hjáleið framhjá lögum og reglum???

 

Henni tókst að klúðra stjórnarskráarmálinu með svo hraklegum vinnubrögðum að jafnvel Gunnar Helgi treystir sér ekki til að sjá eitthvað jákvætt við vinnubrögðin.

Nýja fiskveiðafrumvarpið er alltaf á leiðinni, greinilegt að landsbyggðarþingmenn hennar treysta sér ekki í kosningar í andstöðu við sægreifavaldið.

Ekkert bólar á ESB samningum, og með hverjum deginum er ólíklegra að eitthvað gerist þar jákvætt sem gæti fleytt flokknum áfram í kosningabaráttunni.

Gummi Steingríms og hans Bjarta framtíð er að stela öllum góðu málunum, það er að vera ligeglad og tómur, segja sem minnst og hafa enga skoðun, nema jákvæðni og hressileika.

Og skjaldborgin  er týnd.

 

Hvað er eftir??, er eitthvað sem hefur heppnast hjá flokknum á kjörtímabilinu???

Ég bara spyr.

Kveðja að austan.


mbl.is Ekki nægar upplýsingar um verkefnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru þessir heiðursmenn að uppskera stuðning sinn við ICEsave???

 

Datt það svona í hug.

Eða er það typpið sem ræður för??

Allavega er það athyglisvert að verktakar í þjónustu breskra hagsmuna skuli fá þessa tilnefningu.  Og það er sláandi að meðalrithöfundur eins og Hallgrímur Helgason skuli fá tilnefningu en ekki til dæmis Gerður Kristný.

Er það kynferðið, er það þjónkun við auðmenn.  

Ég bar spyr,.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Hallgrímur og Guðmundur Andri tilnefndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Osló vanvirðir Nóbel.

 

Með því að veita Evrópusambandinu friðarverðlaun.

Osló gæti lagst lægra með því að veita, með aðstoð miðla, systursambandi ESB friðarverðlaunin.  

Sovétið var líka friðarsamband samkvæmt þeim rökum sem notuð voru til að útskýra veitingu verðlaunanna til ESB.  Það hélt saman þjóðum svo þær slógust ekki á meðan, stuðlaði þannig að friði og öryggi.  

En það gerði það með valdi, og kúgun.

 

Evrópusambandið hefur eftir evrukreppuna miklu beitt sömu meðulum, en í stað öryggislögreglu er samþættu átaki fjölmiðla og keyptra háskólamanna notað til að heilaþvo fólk að ekkert annað sé hægt að gera en að skemma innvið samfélaga, skuldaþrælka fólk og þjóðir, og afnema þá þætti sem gera þjóðir sjálfstæðar.

Eurokratinn talar núna fullum fetum að það eina sem bjargi evrunni sé sambandsríki Evrópu sem fari með alla efnahagsstjórnun.  Og það hvarflar ekki að honum að spyrja almennings álits.

 

Sovétið hafði það  fram yfir Evrópusambandið að í stofnsáttmála þess var gert ráð fyrir að þjóðir gætu yfirgefið sambandið, sem þær gerðu um og uppúr 1990.  Reglur Evrópusambandsins gera ekki ráð fyrir að sjálfstæð þjóð geti farið ef hún eru einu sinni kominn inn þó vissulega skorti sambandinu hervald, ennþá, til að halda þjóðum inni.  En það kemur, öll kúgunarsambönd gera það fyrr en síðar, og vísa þá alltaf í einhverja sögulega nauðsyn.

Sovétið hafði minna regluverk ef eitthvað var, gúrkurnar máttu til dæmis vera í búðum eins og náttúran skapaði þær enda matur matur en ekki fóður fyrir reglupésa.

 

Kúgunarbandalög, reglubandalög ógna friði og á meðan Sovétið var og hét hefði engum dottið í hug að veita því friðarverðlaun.  Nema náttúrulega Fiedel Castro enda langaði honum alltaf að vera memm.  

Eitthvað svipað virðist vera gerast núna í Osló, þar langar mönnum rosalega mikið að verða memm, og væru memm ef það væri ekki þetta leiðinlega lýðræði sem sagði Nei.  

Það næst besta er greinilega að tjá aðdáun sína og ást með svona gjörningi.  

Að veita bandalagi sem hefur valdið almenningi í Grikklandi ómældum þjáningum, friðarverðlaun.

Þetta er aðeins hægt ef menn skrúfa fyrir öll þau tól og tæki sem veita fréttir af því sem raunverulega er að gerast í Evrópu.  Þá sjá menn ekki örvæntinguna, reiðina, vonleysið.

Þá sjá menn ekki allt það unga fólk sem haldið hefur út á götur til að mótmæla regluskrímslinu sem eyðilagt hefur framtíð þess.

 

Og skilja ekki að þetta er aðeins upphafið.

Upphafið af uppreisn fólksins gegn alræði fjármagnsins, gegn yfirráðum regluveldis, gegn þeim sem skilja ekki að margbreytileiki mannlífsins er forsenda vaxtar og grósku.

 

Friðarbandalagið mun loga áður en yfir líkur.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Mótmæla því að ESB fái friðarverðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófessor á villigötum.

 

Það er engin alvara að baki hinum meintu stjórnarskráarbreytingum ríkisstjórnarinnar.

Þetta er kosningamál, og þetta er Sýnd til að draga athygli frá því sem er að gerast, það er fyrirhuguð yfirtaka amerísku vogunarsjóðanna á íslensku efnahagslífi.

Hliðaráhrif er svo dúsan handa þingmönnum Hreyfingarinnar svo þeir haldi áfram að bakstyðja öll óhæfuverk ríkisstjórnarinnar.  Hugsunin er að þeir skapi sér vígstöðu hjá verktakaflokknum sem þeir af smekkvísi sinni kenna við Dögun.  Sem er orðskrípi miðað við þær hörmungar sem bíða þjóðarinnar, ekki nema að húmorinn sé algjör og tilvísunin sé í dögun nýrra tíma fyrir vogunarsjóði sem hafa aldrei áður reynt að skuldaþrælka heilt vestrænt lýðræðisríki.

 

Þess vegna þarf ekki vönduð vinnubrögð, því það er svo erfitt að vanda það sem ekki er.

Sem og hitt að deilur og átök, sundrung og hjaðningavíg er ákkúrat það sem amerísku vogunarsjóðirnir vilja.

Því á meðan sameinast þjóðin ekki gegn þeim.

 

Svo einfalt er þetta.

Blasir við.

Kveðja að austan.


mbl.is Prófessor undrast vinnubrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin þjófstartar jólunum.

 

Kosningajólunum.

Sem þýðir að jólasveinarnir verða mun fleiri en þessir þrettán hefðbundnu.

En það þýðir lítið fyrir okkur meðaljónana að leika sama leikinn, jólavísað sér til þess.  Það er eins og bankinn vilji ekki borga það fyrir mann, sama hvað maður reynir að gleyma því.  

 

En raunveruleiki ríkisjólasveinsins er allt annar, hann þarf engar áhyggjur að hafa af sínu jólavísa.  Það lendir á næsta Alþingi, næstu ríkisstjórn að borga þann reikning.

Sem endar svo á okkur meðalajónunum.  Ásamt okkar eigin jólavísa.

 

Ekki gott, ekki gott,  ég legg til að jólasveinum verði fækkað í ár, ekki fjölgað.

Endar ná ekki nú þegar saman, hvorki hjá mér, meðaljóni eða ríkiskassanum.

 

Hvar ætli Skrámur sé???

Kveðja að austan.


mbl.is Barnabætur verða hækkaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seinheppinn Heiðar.

 

"„Það sem gerist innan svona haftakerfis er að fjárfestingin verður nánast engin“ segir Heiðar, en hann nefnir að sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan og stóriðjan hafi öll fundið fyrir þessu og að fjárfesting í þessum greinum sé mun minni en ef ekki væru höftin."

 

Honum langar í frjálst braskaraumhverfi og var fyrir Hrun þegar þjóðin var rúin inn af skinni.   Hefur verið talsmaður þess að þjóðin taki upp erlendan gjaldmiðil svo menn eins og hann, sem urðu ríkir af engu án þess að hafa skapa neitt, en samfélagið situr uppi með fórnarkostnaðinn, geti haldið þjóðinni í heljargreipum. 

Heljargreipum þeirrar hótunar að geta farið með allt fjármagn úr landi ef skattar eða regluverk, niðurstöður kosninga eða annað sem angrar handahafa fjármagns sé ekki þeim að skapi.

Fyrir því hefur hann rekið áróður með allskonar hálfsannleik í bland við bábiljur og fengið ágætar undirtektir hjá þeim sem eiga og langar ofsalega mikið að sú eign sé á bankareikning í New York.

 

En dæmið sem ég tek hér að ofan er ákaflega mikil seinheppni, að tengja núverandi stig fjárfestinga við gjaldeyrishöftin.  Fyrir því eru margar skýringar, þær helstu heimskuleg vaxtastefna, ofurskuldsett atvinnulíf og almennt fjandsamleg stefna stjórnvalda gagnvart atvinnulífinu.

Þó má geta að stóriðjan hefur fjárfest, bæði hér fyrir austan sem og í Straumsvík.

En þegar Heiðar tengir þessa bábilju sína við að gjaldeyrishöftin hér séu eins ströng og í Kína, þá skýtur hann sig í fótinn.

 

Hvar skyldu vestræn stórfyrirtæki hafa fjárfest mest síðastliðna 2-3 áratugi???

Svarið er Kína.

Þrátt fyrir þessu ofsaströngu gjaldeyrishöft.

Það er nefnilega annað sem ræður fjárfestingum, arðsemi er þar lykilatriði.  

 

En ég skal viðurkenna að gjaldeyrishöft gera féfletturum erfiðara fyrir.

Kveðja að austan.


mbl.is Gjaldeyrishöftin ekki ósvipuð þeim í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir kunna hagfræði.

 

Hinir hafa ekki ennþá fattað af hverju Ísland fór á hliðina haustið 2008.

Spurningin er, af hverju situr þjóðin uppi með þá???

Kveðja að austan.


mbl.is Tveir á móti hækkun vaxta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot (5956)
  • Screenshot (5957)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 11
  • Sl. sólarhring: 553
  • Sl. viku: 1217
  • Frá upphafi: 1494935

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 1035
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband