24.3.2013 | 15:54
Endar Ögurvika þjóðarinnar með upprisu hennar á páskadag??
"Þjóðarbúið getur ekki að óbreyttu aflað útflutningstekna til að leyfa útstreymi snjóhengjunnar, segir Lilja. ,,Snjóhengjuna verður að skrifa alla niður en hún samanstendur af aflandskrónum, krónukröfum erlendra aðila í þrotabú gömlu bankanna, eignarhlutum kröfuhafa í nýju bönkunum og erlenda skuldabréfi Landsbankans til gamla Landsbankans. Um 75% niðurskrift til að undanskilja erlenda skuldabréf Landsbankans mun ekki duga til".
Kjarni þeirrar ógnar sem blasir við þjóðinni kemur fram í þessum orðum Lilju Mósesdóttur.
Þjóðin er að þrotum komin.
Fyrirtæki og heimili eru föst í skuldakreppu sem þau sá ekki fram úr. Afskriftir á skuldum ná aðeins þeim mörkum að heimili og fyrirtæki skrimti, þau fjárfesta ekki, þau lifa frá degi til dags til að redda næstu afborgun. Sagan segir að slíkt þjóðfélagi nái sér aldrei á strik, það er fast í skuldakreppu með viðvarandi samdrætti og stöðnun.
Við bætist að aðeins er um gálgafrest að ræða, lán þúsunda fyrirtækja voru fryst í þrjú ár, á þessu ári er komið að skuldadögum þeirra. Í haust voru um 26 þúsund heimili í alvarlegum vanskilum, síðan þá hefur ástandið aðeins versnað. Lauslega áætlað er þetta um þriðjungur þjóðarinnar.
Heilbrigðiskerfið okkar er komið í þrot, aðeins er deilt um hvort síðasta neyðarkallið hafi verið sent út, eða hvort það síðasta verði sent út eftir kosningar. Almennt má segja það sama um aðra innviði samfélagsins, þetta hefur gengið en gengur ekki mikið lengur.
Viðskiptakjörin eru versnandi, kreppan út í hinum stóra heimi er farin að bíta.
Ástandið er eins um sé að ræða barmafulla stíflu sem þolir ekki einn rigningardag í viðbót, þá mun flæða yfir barma hennar og hún mun að lokum bresta.
Lilja er að lýsa því hamfaraflóði, þjóðin þolir ekki einbeitt áform valdastéttarinnar að semja við vogunarsjóðina. Þeir eru banvænt krabbameinsæxli sem þarf að fjarlægja, ef þjóðin á að eiga minnstu von um að komast út úr núverandi hremmingum sínum.
Það er ekkert seinna, það þarf að hindra atlögu þeirra núna.
Stjórnmálastéttin sem samdi við AGS, sem samdi við breta, mun ekki verja framtíð barna okkar, ekki verja framtíð þjóðar okkar.
Gangi niðurstaða skoðanakannana eftir þá er þetta búið.
Þá verður fljótlega eins komið fyrir okkur og Grikkjum í dag, við verðum þjóð án framtíðar, rænd og svívirt af blóðþyrstu fjármagni. Náttúruauðlindir okkar, hvort sem það er til sjávar eða sveita, landið eða miðin, orkan í fallvötnum eða iðrum jarðar, verða yfirteknar á hrakvirði af alþjóðlegum stórfyrirtækjum, erlendu fjármagni.
Við verðum ekki einu sinni leiguliðar í eigin landi, ánauð mun lýsa hlutskipti þeirra sem ekki forða sér.
Þessi lýsing þótti mönnum fjarri lagi í upphafi fjármálakreppunnar haustið 2008.
Þetta er það sem hefur gerst í Evrópu hjá þeim þjóðum sem lent hafa í hramminum á hinu dauða fjármagni.
Og við erum aðeins stödd í upphafi þess sem koma skal.
Seinna stríð hófst ekki með kjarnorkuárásinni á Japan, eða eyðingu þýskra borga. Auswitch var ekki upphaf gyðingaofsóknanna.
Fólkið sem dó í þessum hildarleik, hafði ekkert til þess unnið, vildi aðeins fá að lifa lífi sínu í friði, fá að koma börnum sínum á legg, fá að byggja upp fyrir framtíðina. En það dó vegna þess að ofstopaöflum var sleppt lausum, þau voru ekki stöðvuð í upphafi, þegar þau voru ennþá það vanmáttug að það var hægt.
Það var ekki gert vegna þess að hinn venjulegi maður sat hjá, sinnti ekki hættumerkjunum, gerði ekki ráðstafanir til að vernda líf sitt og sinna. Horfði þegjandi á þegar annað fólk var pínt og kvalið, skyldi ekki að næst kæmi röðin að honum.
Við sem þjóð höfum horft þegjandi á aðfarir banka og fjármálstofnana að náunga okkar.
Þúsundir á þúsundir ofan hafa verið svipt heimilum sínum, enn fleiri lifa lifa í skuldaánauð, eygja enga von, enga framtíð.
Við hlustum ekki þegar starfsfólk heilbrigðiskerfisins senda okkur hvert neyðarkallið á fætur öðru, ætlumst aðeins til að börnin okkar fái aðhlynningu eða foreldrar okkar umönnun.
Og viðhorf okkar gagnvart vogunarsjóðunum er eins og hjá danskinum forðum þegar fréttir bárust að skipum Tyrkja við strendur landsins. Við gerum ekkert, verjum ekki þjóðina, verjum ekki landið.
Látum verkfæri þeirra stjórna vörnum okkar.
Niðurstaðan er framboð hinna ótal framboða.
Framboð sundrungar og óeiningar.
Tapað stríð áður en lagt er til orrustu.
Það má vera rétt hjá stjórn Samstöðu að fólk eigi að forðast eftirlíkingar og þeir sem bjóða fram eiga hafa þekkingu á þeim málum sem þeir tjá sig um.
En vart getur það talist lausn að bjóða ekki fram, að gera ekki neitt.
Að bíða með hendur í skauti eftir hinu óumflýjanlega.
Hvorki Samstaða né nokkurt annað framboð hefur sent út ákall til þjóðarinnar um að standa saman.
Enginn hefur boðað til fundar þar sem framboðið eina, Samstaða um lífið er tilkynnt.
Enginn hefur treyst þjóð sinni að svara kalli um samstöðu, um réttlæti, um von, um framtíð.
Við höfum viku núna til að ná sátt um slíka herhvöt.
Það mun takast ef fólk spyr sig hvað það er sem skiptir það mestu máli í lífinu.
Og svarar því á heiðarlegan hátt, að það er ekki egóismi, frami þess, hégómi eða stolt. Heldur sjálft lífið, líf barna þess og barnabarna. Það góða sem við eigum sameiginlega, það góða samfélag sem við viljum ala börn okkar uppí.
Þetta mun takast ef einhver stígur fyrsta skrefið.
Hindrunin er ekki stærri en það.
Vonandi verður það skref stigið, vonandi látum við lífið njóta vafans.
Ef ekki þá er lítið við því að gera, þá er þetta allt búið.
Og aldrei þessu vant, þá er ekki annað tækifæri.
Þar sem þessi pistill minn er þegar orðinn langur, og ég leiður orðinn á að pistla um hið augljósa. Þá ætla ég að endurbirta hluta af pistli mínum um Framboð um réttlæti.
Hann kemur inn strax á eftir þessum.
Það má orða herkallið á margan hátt, en það verður að innihalda þessi atriði.
Kveðja að austan.
![]() |
Beiti blekkingum til að afla stuðnings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2013 | 10:27
Heimilin brenna.
Þúsundir mæðra og barna hafa verið borin út heimilum sínum.
Hin helgi griðastaður fjölskyldunnar, heimilin, hefur verið brotinn upp á svívirðilegastan hátt. Gjaldþrot nokkurra auðmanna var afsökunin fyrir því hervirki.
Þá funda nokkrar ungar konur, stuðningsmenn hervirkjanna, stuðningsmenn útburða barna og kvenna, um stelpur í stjórnmálum.
Þær funda ekki um mæður í neyð, börn á vergangi.
Þær funda ekki um niðurbrot samfélagsins í þágu hins skítuga fjármagns, um atlöguna að velferðinni sem er skjaldborg samfélagsins um lífið sem við ólum og okkur ber skylda til að koma á legg.
Nei, þær fá sér tebolla og ræða um stelpur í stjórnmálum.
Heimurinn stefnir óðfluga inní áður óþekkt átök.
Vargöld og vígöld er þegar skollin á.
Vopnaglymurinn frá Mið Austurlöndum breiðist út.
Í sjálfri Evrópu, hjarta nútíma velmegunar, líða milljónir skort. Ungu fólki er neitað um vinnu og framtíð, tugmilljónir atvinnuleysingja er boðið upp á samkeppni dauðans, að fá vinnu á sömu kjörum og hið skítuga fjármagn býður uppá í þrælaverksmiðjum alþjóðvæðingarinnar.
Evrópa er púðurtunna, við það að springa. Talsmenn öfga og mannhaturs eru byrjaðir að uppskera.
Fólk án vonar og framtíðar leita til þeirra sem bjóða lausn. Jafnvel þó sú lausn sé mörkuð ofbeldi og yfirgangi.
Framtíð lífsins sem við ólum er ógnað.
Þá koma baráttukonur saman á fund með vinnukonum hins skítuga fjármagns og ræða stjórnmál.
Vogunarsjóðirnir ógna framtíð þjóðarinnar og þá er drukkinn kaffibolli með verkfærum þeirra.
Konunum sem tóku þátt í að kveikja í heimilunum, konunum sem hundsuðu neyðaróp kynsystra sinna sem brunnu inni með börnum sínum.
Ef einhver atburður er táknrænn fyrri firringu nútímans og þá úrkynjun að geta ekki varið lífið sem við ólum og sórum að vernda, þá er það þessi fundur og fréttin af honum.
Þessar konur lifa ekki núið, þær lifa í sínum eigin hugarheimi.
Þær eru til en eru ekki.
Ekki fólk, ekki manneskjur.
Því fólk finnur til með náunganum, manneskjur hundsa ekki neyðaróp náungans.
Þær eru til en aðeins sem skel um ekki neitt.
Tómið.
Kveðja að austan.
![]() |
Stelpur ræddu stjórnmál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
24.3.2013 | 09:08
Flottir listar.
Með flottu fólki.
Ekkert nema gott um það að segja.
Kveðja að austan.
![]() |
Framboðslistar Dögunar í 5 kjördæmum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.3.2013 | 17:13
Eitt er að vera bjáni, annað að vera lygari.
Víkjum fyrst að meintum bjánaskap Bjarna.
Það er rétt hjá honum að á krepputímum þarf hagkerfi síst á auknum sköttum að halda.
En það sama gildir um niðurskurð sem Bjarni boðar.
Hvorutveggja dýpkar kreppu og seinkar bata.
Gangi niðurskurðarstefna Sjálfstæðisflokksins eftir, þá er það rothögg fyrir hagkerfið.
Það þarf ekki að deila um það, það dugar að sjá hvað er að gerast í Evrópu í dag.
En lygin er öllu alvarlegri. Lygin sem er lýðskrum af verstu gerð;
Hagvöxtur sé enginn, vextir háir sem og verðbólgan. Það sé afsprengi þeirrar skattastefnu sem fólkið í landinu hefur mátt þola.
Ríkisstjórnin hefur í einu og öllu farið eftir aðgerðarplani AGS, sem Sjálfstæðisflokkurinn samdi um á sínum tíma.
Þegar samstarfinu við AGS lauk, þá fór AGS yfir samstarfið og það eina sem sett var út á, var að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa gefið það skýrt út að ekki yrði um frekari aðgerðir í skuldamálum heimilanna. Eitthvað sem allir geta lesið í skýrslu AGS.
Hávaxtastefnan var eitt lykilatriðið í aðgerðarplani AGS. Og virkaði alveg eins og hún átti að gera, drap niður hagvöxt.
Það var bent á þetta fyrirfram, allar þær spár hafa ræst.
Verðbólgan er vegna launahækkana þar sem launþegar reyna að elta skottið á verðhækkunum.
Undirliggjandi er ofurskuldsetning heimila og fyrirtækja.
Sem leiðir til skuldakreppu sem engin sér fram úr fyrr en skuldir eru afskrifaðar og hagkerfið endurræst.
Að kenna skattheimtu um ástandið í dag, er ekki einu sinni heimskt, það er lygi.
Sem skýrir hið frjálsa fall Sjálfstæðisflokksins.
Kjósendur hafa fengið uppí kok af frösum og hálfsannleik, af heimsku og bjánaskap.
Og kjósa því ekki Sjálfstæðisflokkinn undir núverandi forystu.
Kveðja að austan.
![]() |
Enginn skattlagt sig úr kreppu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.3.2013 | 09:18
Evrusvæðið að styrkjast segir Össur.
Látum það liggja milli hluta hvort það sé rétt eða rangt, það er allavega lifandi ennþá, þegar á reynir virðist evrópski seðlabankinn prenta næga peninga til að halda því gangandi.
Spyrjum okkur frekar, hvert er gjaldið við þessa styrkingu??
Alþjóða Rauða krossinn líkir ástandinu í dag varðandi þörfina á mataraðstoð við ástandið sem var í stríðslok, þegar Evrópa var ein ríkjandi rúst.
Samt hefur ekkert gerst annað en það að einn gjaldmiðill lenti í erfiðleikum, eða réttara sagt, þjóðir Evrópu lentu í erfiðleikum vegna þessa gjaldmiðils.
Össur segir að á því eru skýringar, og nefnir "skuldakreppu ríkja og banka".
En standast þau rök??
Í sögulegu samhengi eru skuldir þeirra evruríkja sem eiga í erfiðleikum, ekki miklar. Forsendur evrunnar voru jú hóflegar skuldir. Og til að komast í evrusamstarfið þurftu ríki að ná tökum á ríkisfjármálum sínum áður en þeim var hleypt inn.
Þegar evrukreppan skall á var aðeins hægt að benda á Grikkland sem skuldugt ríki, og þó hefur gríska ríkið sjaldan skuldað minna. Gríska ríkið hefur nokkrum sinnum lent í greiðsluþroti án þess að það hafi haft nein teljandi áhrif á efnahaginn eða fólk hafði þyrpst í matarbirgðir.
Japan skuldar margfalt meira í dag en Grikkir, og þar er enginn í matarbiðröð.
Röksemd Össurar, sem hann af vanviti sínu lepur upp eftir öðrum, er því tilbúin, hún stenst ekki skoðun þekktra staðreynda.
Þá er það skuldakreppa bankanna, sem vissulega er alvarleg.
En hún er ekki einsdæmi, vandinn er ekki minni í Bandaríkjunum eða Bretlandi.
Samt líkir Rauði krossinn ástandinu í þeim löndum við ástandið á stríðsvæðum Evrópu eftir seinna stríð.
Munurinn er sá að gjaldmiðlinum er beitt í þessum löndum til að hindra samfélagslegt hrun, ólíkt því sem evruvaldið gerir við jaðarlönd sambandsins.
Þar er samfélagið látið borga fyrir mistök fjármálakerfisins.
Gjaldið við styrkingu evrunnar er eyðing samfélaga.
Og í dag finnst fólk á Íslandi sem finnst það alltí lagi.
Og er æst í samskonar eyðingu á íslensku samfélagi.
Svipaður andlegur sjúkleiki og hjá þeim sem æstir vildu flytja inn eymd Stalíns á sínum tíma.
Ómennskan í sinni tærustu mynd.
Sína hvorki samhygð eða samúð með náunganum.
Völd hvað sem það kostar, jafnvel þó eymd þjóðarinnar sé gjaldið.
Össur má þó eiga að hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur, hann játar ást sína á eymdinni.
Hann játar að honum er nákvæmlega sama um örlög náungans.
Hann játar að tekur gjaldmiðil æðri samfélagi, fjármagn æðri fólki.
Hann játar ómennsku sína og mannhatur.
Þó líklegast áttar hann sig ekki á hvað hann er að segja.
Hann er jú einu sinni bara Össur.
Kveðja að austan.
![]() |
Evrusvæðið að styrkjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.3.2013 | 22:50
Er eitthvað mikilvægara en fólk??
Eitthvað æðra en mennskan??
Hverju er alltaf bjargað fyrst úr háska??
Vestræn siðmenning á aðeins eitt svar við þessari spurningu.
Ekkert.
Og fólki er alltaf fyrst bjargað áður en hugað er að björgun verðmæta.
Verðmæti eru forgengileg, mannslíf er heilagt.
Þar til ESB fann upp evruna.
Evran er mikilvægara en fólk.
Fjármagni er bjargað, fólki fórnað.
Samkvæmt vestrænni siðmenningu er þetta siðvilla.
Eitthvað sem er ómennskt.
Og er ekki kennt við björgun.
Kveðja að austan.
![]() |
Kýpverjar samþykkja samstöðusjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.3.2013 | 13:55
Skinhelgi VinstriGrænna á sér engin takmörk.
Forsenda þessa ræfla fyrir ICEsave samningnum var fjárfestingar í virkjunum og stóriðju fyrir um 300 milljarða árlega út kjördæmatímabilið.
Og það átti ekki að virkja sjóinn.
Allt sem var virkjanlegt, hvort sem það var í jörðu, eða rennandi eftir jörðu, átti að virkja.
Og það átti ekki að breyta fyrri samningum.
Þjóðin sagði Nei og herferðin gegn landinu gekk ekki eftir.
En þeir reyndu, þeir reyndu þessi ræflahjörð.
Aumt er það fólk sem vitnar í þetta pakk, núna í dag, þegar þau reyna að afla sér fylgis út á stóriðjustefnu fyrri ríkisstjórna, þau sem gerðu sitt besta til að toppa allar fyrri hörmungar.
Aumt er það fólk sem vitnar í fótgönguliða Vinstri Grænna sem láta eins og það eigi sér enga fortíð, að það hafi ekki stutt ICEsave stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.
Aumt er það fólk sem berst við drauga fortíðar í stað þess að hindra óhæfu nútíðarinnar, þess sem er að gerast í dag.
Það er rétt að Lögurinn var drepinn, Kárahnjúkar voru hörmungar, erlendu auðhringarnir spiluðu með viljuga ráðherra Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.
En það er liðið.
Gagnrýni ICEsave pakksins er gagnrýni þess sem skorti afl til að selja þjóðina endanlega.
Spyrjið Láru Hönnu Einarsdóttir af hverju hún studdi ICEsave, spyrjið Árna Finnsson af hverju hann studdi ICEsave.
Og ég skal vitna í Jóhönnu Sigurðardóttir, um af hverju það þurfti að samþykkja ICEsave 2.;
Forsætisráðherra boðar fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og tengdum virkjanaframkvæmdum upp á þrjú til fjögur hundruð milljarða á næstu þremur til fimm árum. Stefnt er að amk tveimur umfangsmiklum fjárfestingaverkefnum í orkufrekum iðnaði auk þeirra umfangsmiklu framkvæmda sem þegar eru komnar á stað við Búðarhálsvirkjun, álverið í Straumsvík, Kísilverksmiðju í Helguvík, Gagnaver á Suðurnesjum, álverið á Reyðarfirði og víðar. Ég reikna með að nú styttist verulega í að tilkynnt verði um framkvæmdir í tengslum við orkufrekann iðnað á Norðurlandi. Ég er líka orðin mun bjartsýnni en áður, um að Norðurál nái semja við HS orku og Orkuveituna um nægilega orku til að álver þeirra í Helguvík geti orðið að veruleika með tilheyrandi framkvæmdum við Hverahlíðarvirkjun, Reykjanesvirkjun og línulagnir í tengslum við orkufrekann iðnað á Suðurnesjum. Ef ofangreind verkefni ganga öll eftir gætum við því verið að tala um fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og tengdum virkjanaframkvæmdum uppá 300-400 milljarða á næstu þremur til fimm árum og sex til sjö þúsund ársverk við uppbygginguna," sagði forsætisráðherra." (Vísir 29. mai 2011)
Jóhanna leyndi aldrei áformum sínum, hinir skinheilögu hræsnarar vissu alveg hvert var gjaldið við ICEsave samningana.
Þeir vissu nöfnin, þeir vissu hvað virkjanir var um að ræða. Reykjanesskaginn eins og lagði sig, svæðið milli Mývatns og Húsavíkur, Þjórsá, Jökulsá á Fjöllum, nefnið það bara.
Um tugir virkjana var að ræða til að standa við þessi ICEsave áform ríkisstjórnarinnar.
Fólkið sem laug, fólkið sem sveik, á ekki að fá fylgi út á lygi sína og svik, þó það þjóðin hafi forðað mestu hörmungunum með því að segja Nei við ICEsave.
Pakkið sem reynir að afla VinstriGrænum fylgi út á stóriðjum fortíðar, á ekki að komast upp með áform sín.
Sjálft landið okkar er í húfi.
Þjóð okkar er undir.
Kveðja að austan.
![]() |
Tókust á um ívilnanir til stóriðju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2013 | 22:42
Alþingi smánar þjóðina.
Það ræðir dag og nótt um pappír, um orð á pappír.
Um stjórnarskrá af öllum hlutum.
Yfir 400 milljarðar hafa verið stolnar af heimilum landsins frá Hruni með röngum útreikningum á verðbólgu. Tekjutap þjóðarinnar vegna fall fjármálakerfisins kom fram í gengisfalli, sem kemur verðbólgu ekkert við. Að hækka lánin á þeim forsendum er beint brot á eignarréttarvernd stjórnarskráarinnar.
Alþingi ræðir það ekki.
Yfir 4.000 íbúðir hafa verið seldar nauðungarsölu frá Hruni. Segir á vef verkalýðsfélags Akranes.
Eftir góðum manni hef ég þessi orð:
...og hversu margt fólk, hversu mörg tár, brostnar vonir og óörugg börn. Hvar eru þeir fjármunir sem fólkið greiddi í útborgun og afborganir og svo rekið út af heimilum sínum að kröfu Mammons og af þjónum samfélagsins.- Allt vegna verðtryggingarvélarinnar sem gefur eigendum sínum " eðlilegt verðgildi fjármuna sinna" Það er mikið að í samfélagi sem fer svona með þegna sína,-því þarf að breyta.
Alþingi er ekki að ræða þennan napra raunveruleika fjölda fjölda fólks.
Á þetta var bent á í athugasemd á Feisbók í kvöld.
". hvað kemur það til með að kosta þjóðfélagið að gera ekkert, þegar 26 þúsund heimili fara á uppboð það er enginn sem talar um það eingöngu hver á að borga leiðréttinguna. Ástandið er vægt til orða tekið skuggalegt".
Rökin voru þessi; "staða alvarlegra vanskila hjá Creditinto. En ef þetta er reiknað upp með meðalfjölskyldu skv. Hagstofu Íslands þá eru þetta um 110.000 Íslendingar eða um 1/3 þjóðarinnar.".
Alþingi ræðir ekki þessa skuggalegu staðreynd. Það er að ræða stjórnarskrána.
Og þegar eini hagfræðingurinn á þingi vekur athygli hvað felst í þeim orðum seðlabankastjóra að undirliggjandi vöruskiptajöfnuður dugi ekki til að þjóðin standi í skilum á lánum sínum, að hún þurfi að treysta á endurfjármögnun á hluta þeirra, að þá þegir þingheimur. Eða réttara sagt, hann ræðir stjórnarskrána.
Í stað þess að ræða hina miklu vá sem blasir við og þá einu lausn sem kemur til greina ef á að bjarga samfélagi okkar frá glötun.
Ég ætla að enda þennan pistil með því að vitna í frétt á Smugunni, frétt sem Kastljós telur ekki ástæðu til að fjalla um, enda komin í kaf í kosningabaráttuna fyrir ríkisstjórnarflokkana.
að ræða nauðsyn þess að afskrifa snjóhengjuna svokölluðu í ljósi upplýsinga sem fram koma í nýrri skýrslu bankans um erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins. ,,Þjóðarbúið getur ekki að óbreyttu aflað útflutningstekna til að leyfa útstreymi snjóhengjunnar, segir Lilja. ,,Snjóhengjuna verður að skrifa alla niður en hún samanstendur af aflandskrónum, krónukröfum erlendra aðila í þrotabú gömlu bankanna, eignarhlutum kröfuhafa í nýju bönkunum og erlenda skuldabréfi Landsbankans til gamla Landsbankans. Um 75% niðurskrift til að undanskilja erlenda skuldabréf Landsbankans mun ekki duga til.
Af hverju látum við bjóða okkur þetta???
Eigum við ekki börn sem eiga rétt á framtíð??
Hvað er eiginlega að okkur??
Af hverju gerum við ekki neitt??
Ég bara spyr.
Kveðja að austan.
![]() |
Jóhanna leggur til þingfrestun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2013 | 19:39
Er þetta fáviti??
Það verður einhver að fara spyrja þessarar spurningar.
"Vegna verri viðskiptakjara og þungrar afborgunarbyrði á erlendum lánum " þá brást Seðlabankinn við með því að hækka vexti, til að reyna að kyrkja niður það litla líf sem var í hagkerfinu.
Það eru 1.000 milljarðar sem bíða eftir að gjaldeyrishöftunum sé aflétt, og þetta hefur seðlabankastjóri að segja um höftin.
"Hingað til hefur verið litið svo á að höftin séu til þess að veita skjól á meðan undið er ofan af ójafnvægi greiðslujafnaðar sem leiddi af hruni fjármálakerfisins."
Ójafnvægi var það heillin.
Samt er seðlabankastjóri nýbúinn að viðurkenna að við ráðum ekki við að greiða erlendar skuldir þjóðarbúsins, hinn mikli vöruskiptajöfnuður dugi ekki til. Og það er heil flóðgátt af tækjum og tólum sem bíða eftir endurnýjun. Það er ekki langt í að bílafloti landsins verður eins og var á blómatíma Castris á Kúbu, heimilstæki flest farin að hökta, og framleiðslutæki eru að ganga úr sér. Flotinn kominn á aldur og svo framvegis.
Og 1.000 milljarðar i viðbót aðeins smá ójafnvægi.
Það vantar fólk með jarðsamband.
Strax.
Kveðja að austan.
![]() |
Verðum að losna við höftin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2013 | 18:41
Þegar hávaðinn heldur að hann sé fjöldinn.
Þá skilur hann ekki sinn vitjunartíma.
Dögun fannst það sniðugt að taka þingheim í gíslingu, og hindra þar með framgang nauðsynlegra mála.
Og er fyrir vikið stimplaður sem flokkur vitleysinga.
Samt er ofsalega margt þarft og gott í stefnuskrá Dögunar, og mikið að hæfu og góðu baráttufólki.
Fólki sem vill vel, baráttumál sem skipta þjóðina miklu máli.
Það er því ekki einleikið hvað Dögun hjakkar í stjórnarskránni, eins og nokkur meðal almennings sé að hugsa um hana, hér og nú.
Þó fylgið hrynji af flokknum, úr heilum 4% niður í og niður fyrir 1%, þá er samt haldið áfram.
Eftir því sem fækkar í hópnum, þá kalla hinir hærra.
Og hærra.
Eins og mesti ótti þessa fólks sé að fá fylgi, að málefni þess fái brautargengi.
Þetta er ekki einleikið.
Ekki nema menn þekki til sögu CIA í Suður Ameríku eða lesið bók John Perkins um efnahagsböðla.
Þá veit maður að það sem er ekki einleikið.
Er ekki einleikið.
Ekki ef miklir hagsmunir eru í húfi.
Svona er Ísland í dag.
Þjóðin er varnarlaus gagnvart því ógnarafli sem fjárfest hefur í verðtryggingunni, og ætlar að fá ránsfeng sinn úr landi eftir kosningar.
Sundrungin er keypt, heimskan er kostuð.
Og vonin á vergangi.
Kveðja að austan.
![]() |
Tómur fíflagangur á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.10.): 15
- Sl. sólarhring: 31
- Sl. viku: 3182
- Frá upphafi: 1494337
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2688
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar