Endar Ögurvika þjóðarinnar með upprisu hennar á páskadag??

 

"Þjóðarbúið getur ekki að óbreyttu aflað útflutningstekna til að leyfa útstreymi snjóhengjunnar,“ segir Lilja. ,,Snjóhengjuna verður að skrifa alla niður en hún samanstendur af aflandskrónum, krónukröfum erlendra aðila í þrotabú gömlu bankanna, eignarhlutum kröfuhafa í nýju bönkunum og erlenda skuldabréfi Landsbankans til gamla Landsbankans. Um 75% niðurskrift til að undanskilja erlenda skuldabréf Landsbankans mun ekki duga til".

 

Kjarni þeirrar ógnar sem blasir við þjóðinni kemur fram í þessum orðum Lilju Mósesdóttur.

 

Þjóðin er að þrotum komin.

Fyrirtæki og heimili eru föst í skuldakreppu sem þau sá ekki fram úr.  Afskriftir á skuldum ná aðeins þeim mörkum að heimili og fyrirtæki skrimti, þau fjárfesta ekki, þau lifa frá degi til dags til að redda næstu afborgun.  Sagan segir að slíkt þjóðfélagi nái sér aldrei á strik, það er fast í skuldakreppu með viðvarandi samdrætti og stöðnun.

Við bætist að aðeins er um gálgafrest að ræða, lán þúsunda fyrirtækja voru fryst í þrjú ár, á þessu ári er komið að skuldadögum þeirra.  Í haust voru um 26 þúsund heimili í alvarlegum vanskilum, síðan þá hefur ástandið aðeins versnað.   Lauslega áætlað er þetta um þriðjungur þjóðarinnar.

Heilbrigðiskerfið okkar er komið í þrot, aðeins er deilt um hvort síðasta neyðarkallið hafi verið sent út, eða hvort það síðasta verði sent út eftir kosningar.  Almennt má segja það sama um aðra innviði samfélagsins, þetta hefur gengið en gengur ekki mikið lengur.

Viðskiptakjörin eru versnandi, kreppan út í hinum stóra heimi er farin að bíta.

 

Ástandið er eins um sé að ræða barmafulla stíflu sem þolir ekki einn rigningardag í viðbót, þá mun flæða yfir barma hennar og hún mun að lokum bresta.

Lilja er að lýsa því hamfaraflóði, þjóðin þolir ekki einbeitt áform valdastéttarinnar að semja við vogunarsjóðina.  Þeir eru banvænt krabbameinsæxli sem þarf að fjarlægja, ef þjóðin á að eiga minnstu von um að komast út úr núverandi hremmingum sínum.

Það er ekkert seinna, það þarf að hindra atlögu þeirra núna.

 

Stjórnmálastéttin sem samdi við AGS, sem samdi við breta, mun ekki verja framtíð  barna okkar, ekki verja framtíð þjóðar okkar.

Gangi niðurstaða skoðanakannana eftir þá er þetta búið.

Þá verður fljótlega eins komið fyrir okkur og Grikkjum í dag, við verðum þjóð án framtíðar, rænd og svívirt af blóðþyrstu fjármagni.  Náttúruauðlindir okkar, hvort sem það er til sjávar eða sveita, landið eða miðin, orkan í fallvötnum eða iðrum jarðar, verða yfirteknar á hrakvirði af alþjóðlegum stórfyrirtækjum, erlendu fjármagni.  

Við verðum ekki einu sinni leiguliðar í eigin landi, ánauð mun lýsa hlutskipti þeirra sem ekki forða sér.

 

Þessi lýsing þótti mönnum fjarri lagi í upphafi fjármálakreppunnar haustið 2008.

Þetta er það sem hefur gerst í Evrópu hjá þeim þjóðum sem lent hafa í hramminum á hinu dauða fjármagni.  

Og við erum aðeins stödd í upphafi þess sem koma skal.

Seinna stríð hófst ekki með kjarnorkuárásinni á Japan, eða eyðingu þýskra borga.  Auswitch var ekki upphaf gyðingaofsóknanna.

 

Fólkið sem dó í þessum hildarleik, hafði ekkert til þess unnið, vildi aðeins fá að lifa lífi sínu í friði, fá að koma börnum sínum á legg, fá að byggja upp fyrir framtíðina.  En það dó vegna þess að ofstopaöflum var sleppt lausum, þau voru ekki stöðvuð í upphafi, þegar þau voru ennþá það vanmáttug að það var hægt.

Það var ekki gert vegna þess að hinn venjulegi maður sat hjá, sinnti ekki hættumerkjunum, gerði ekki ráðstafanir til að vernda líf sitt og sinna.  Horfði þegjandi á þegar annað fólk var pínt og kvalið, skyldi ekki að næst kæmi röðin að honum.

 

Við sem þjóð höfum horft þegjandi á aðfarir banka og fjármálstofnana að náunga okkar.  

Þúsundir á þúsundir ofan hafa verið svipt heimilum sínum, enn fleiri lifa lifa í skuldaánauð, eygja enga von, enga framtíð.

Við hlustum ekki þegar starfsfólk heilbrigðiskerfisins senda okkur hvert neyðarkallið á fætur öðru, ætlumst aðeins til að börnin okkar fái aðhlynningu eða foreldrar okkar umönnun.  

Og viðhorf okkar gagnvart vogunarsjóðunum er eins og hjá danskinum forðum þegar fréttir bárust að skipum Tyrkja við strendur landsins.  Við gerum ekkert, verjum ekki þjóðina, verjum ekki landið.

Látum verkfæri þeirra stjórna vörnum okkar.  

 

Niðurstaðan er framboð hinna ótal framboða.

Framboð sundrungar og óeiningar.

Tapað stríð áður en lagt er til orrustu.

 

Það má vera rétt hjá stjórn Samstöðu að fólk eigi að forðast eftirlíkingar og þeir sem bjóða fram eiga hafa þekkingu á þeim málum sem þeir tjá sig um.

En vart getur það talist lausn að bjóða ekki fram, að gera ekki neitt.

Að bíða með hendur í skauti eftir hinu óumflýjanlega.

 

Hvorki Samstaða né nokkurt annað framboð hefur sent út ákall til þjóðarinnar um að standa saman.

Enginn hefur boðað til fundar þar sem framboðið eina, Samstaða um lífið er tilkynnt.

Enginn hefur treyst þjóð sinni að svara kalli um samstöðu, um réttlæti, um von, um framtíð.

 

Við höfum viku núna til að ná sátt um slíka herhvöt.

Það mun takast ef fólk spyr sig hvað það er sem skiptir það mestu máli í lífinu.

Og svarar því á heiðarlegan hátt, að það er ekki egóismi, frami þess, hégómi eða stolt.  Heldur sjálft lífið, líf barna þess og barnabarna.  Það góða sem við eigum sameiginlega, það góða samfélag sem við viljum ala börn okkar uppí.

Þetta mun takast ef einhver stígur fyrsta skrefið.  

Hindrunin er ekki stærri en það.

 

Vonandi verður það skref stigið, vonandi látum við lífið njóta vafans.  

Ef ekki þá er lítið við því að gera, þá er þetta allt búið.

 

Og aldrei þessu vant, þá er ekki annað tækifæri.

 

Þar sem þessi pistill minn er þegar orðinn langur, og ég leiður orðinn á að pistla um hið augljósa.  Þá ætla ég að endurbirta hluta af pistli mínum um Framboð um réttlæti.

Hann kemur inn strax á eftir þessum.

Það má orða herkallið á margan hátt, en það verður að innihalda þessi atriði.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Beiti blekkingum til að afla stuðnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon


 saman.jpg

? (IP-tala skráð) 24.3.2013 kl. 17:28

2 identicon

"... vart getur það talist lausn að bjóða ekki fram, að gera ekki neitt.

Að bíða með hendur í skauti eftir hinu óumflýjanlega."

? (IP-tala skráð) 24.3.2013 kl. 17:32

3 identicon

Förum bara aftur heim til Noregs....þeir rauðhærðu eiga samt að fara til Írlands...

Egill Skallagríms (IP-tala skráð) 24.3.2013 kl. 17:39

4 identicon

Að gefnu tilefni vill stjórn SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar taka fram að flokkurinn mun hvorki bjóða fram í komandi kosningum né lýsa yfir stuðningi við önnur framboð.  Stjórn SAMSTÖÐU harmar hvernig frambjóðendur annarra flokka beita blekkingum til að ná til sín stuðningsfólki, stefnu og lausnum flokka eins og SAMSTÖÐU.

Undir þetta rita:

Lilja Mósesdóttir

Rakel Sigurgeirsdóttir

Jón Kr. Arnarson

Jónas P. Hreinsson

Eiríkur Ingi Garðarsson

Hallgeir Jónsson

Helga Garðarsdóttir

Orðið á götunni er að líklega hafi sjálfhverfari yfirlýsing ekki verið send út í annan tíma á vegum íslenskra stjórnmálasamtaka. Skilaboðin eru skýr: Við ætlum ekki að bjóða fram, við munum ekki standa að stuðningsyfirlýsingum við önnur framboð eða flokka og við viljum heldur ekki að nokkur tali fyrir þeirri stefnu eða lausnum sem við höfum bent á.

Þetta þýðir hreinlega að Lilja Mósesdóttir, sem hefur talað að undanförnu fyrir ýmsum lausnum á skuldamálum heimilanna, vill ekki að þær lausnir komi til álita þjóðinni til heilla. Þar með væri verið að beita blekkingum til að ná stuðningsfólki frá Samstöðu.

Síðast þegar fréttist ákvað stjórn Samstöðu að bjóða ekki fram af því að ekki væri nægur stuðningur við framboðið. Nú eru önnur framboð sökuð um að reyna að stela stuðningsmönnum framboðsins! En hvað eiga þeir fáu stuðningsmenn að gera, þegar ljóst er að flokkurinn býður ekki fram? Eiga þeir að skila auðu, taka ekki þátt í kosningunum? Væri það samstaðan sem Lilja Mósesdóttir óskar sér helst?

Ætti Kvennalistinn kannski að senda frá sér yfirlýsingu þar sem hann harmar aukinn hlut kvenna á framboðslistum annarra flokka?

Nýskeð sagði gjörvöll stjórn Samstöðu (allir nema Lilja Mósesdóttir) af sér vegna samskiptaörðugleika. Samstaða virðist þó hafa náðst um yfirlýsinguna frá í morgun. Það var miður.

Ertu ekki að grínast, Lilja?

Orðið á götunni (IP-tala skráð) 24.3.2013 kl. 18:39

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Egill Skallagríms.

Ætli þú hafir ekki hitt naglann á höfuðið.

Flóttamenn byggðu Ísland, eðli þeirra lifir enn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.3.2013 kl. 20:17

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Vissulega má það viðurkennast Orðið á götunni, að oft hefur meining komist betur til skila en tókst til hjá núverandi stjórn Samstöðu.

En per se held ég að það sem ég skrifa hér að ofan hafi verið kjarni þess sem hún vildi sagt  hafa.

Að það er vá fyrir dyrum, og fólk almennt geri sér ekki grein fyrir því hvað hún er alvarleg.

Ef ég nýtti puttafimi mína í bland við meinhæðni til að bögga einhvern sem lesendum bloggsins er í nöp við, þá fengi ég sterk viðbrögð við pistlinum, bæði í athugasemdum og lækum.  Að því gefnu að ég hafi ekki verið nýbúinn að bögga viðkomandi lesendahóp áður.

En þegar ég sleppi öllu slíku, og skrifa um alvöru lífsins, vána sem blasir við, og einu leiðina sem þjóðin til varnar.

Samstöðu.

Þá vek ég ekki viðbrögð.

Ekki frekar en aðrir sem reyna slíkt.  

Sem segir manni aðeins eitt, fólk er almennt ekki tilbúið að horfa í augun á alvöru lífsins.

Sem er svo sem gömul saga.

Það segir hins vegar mikið um karekter þeirra sem hæðast að þessum mistökum Lilju, að geta ekki komið meiningu sinni skýrt til skila, að þeir sögðu ekki orð.

Ekki eitt orð.

Þegar þessi orð voru höfð eftir henni.

 "Þjóðarbúið getur ekki að óbreyttu aflað útflutningstekna til að leyfa útstreymi snjóhengjunnar,“ segir Lilja. ,,Snjóhengjuna verður að skrifa alla niður en hún samanstendur af aflandskrónum, krónukröfum erlendra aðila í þrotabú gömlu bankanna, eignarhlutum kröfuhafa í nýju bönkunum og erlenda skuldabréfi Landsbankans til gamla Landsbankans. Um 75% niðurskrift til að undanskilja erlenda skuldabréf Landsbankans mun ekki duga til".

Segir allt sem segja þarf um ógæfu barna okkar að eiga okkur fyrir foreldri.

Við getum ekki varið okkur nema á forsendum neikvæðninnar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.3.2013 kl. 20:29

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður mitt ágæta spurningarmerki.

Þar sem þetta er síðasti frumsamdi pistill minn í bili því bloggið er að fara í páskafrí, og veit ekki alveg hvenær ég nenni að byrja aftur eftir páska þá get ég alveg viðurkennt að nokkuð lengi hef ég haft litla trú á að fólk nái saman um verja sig og sína.

Og héðan af er lítið annað hægt að gera en að reyna gera gott úr því jákvæða sem má finna í hinum ótal framboðum.

Af hverju þetta fór svona veit ég ekki, skil þetta ekki þó ég þykist skilja margt.  

Læt mér duga að vita að skýringin lítur ekki lögmálum þessa heims.

En það er ekki þannig að allt þetta streð hafi verið til einskis, margt jákvætt hefur gerst, og hvað mig varðar situr eftir kynni af mörgu góðu fólki sem vill vel og er að reyna gera vel.

Menn ná kannski ekki saman í dag, en morgundagurinn er ókomin eins og liggur í eðli hans.

Og ég held að margt gott fólk eigi eftir að ná saman þvert á fyrri pólitískar skoðanir, það fari meir eftir svona innri lífsýn og trúnni á manninn, og von um framtíð hans.  

Ég held að einn daginn verði ekki mikið hlegið af þeim sem brúka orðin mannúð og mennska sem útgangspunkt hagfræðilegra og þjóðfélagslegra vandamála.

Við megum ekki gleyma því að Titanic þurfti að sökkva til að gildi björgunarbáta yrði almennt viðurkennt. 

Það þarf réttar aðstæður til að hægt sé að taka common sens á hlutina.

Ég held að hinn venjulegi maður eigi eftir að stíga fram og láta brjóstvit sitt og heilbrigða skynsemi ráða gjörðum sínum en ekki hinar viðteknu fyrirfram mótaðar skoðanir hefðbundinna stjórnmála. 

Ég hitti Lilju Mósesdóttur fyrst þegar hún kom austur og sýndi okkur í Áhugahóp um Norðfjarðargöng þann stuðning að taka baráttumál okkar um þessi brýnu samgöngubót upp á Alþingi, sem gjörbreytti stöðunni okkur í vil.  Okkur átti að lofa en fyrir norðan átti að framkvæma, en það plott gekk ekki eftir þegar spjótin stóðu öll á hinum gjörspilltu.  Mótleikur þeirra var að lofa uppí ermina á sér með að göngunum okkar yrði flýtt.

Ég hélt að ég væri löngu vaxinn uppúr því að hrífast af stjórnmálamönnum, en Lilja hreif mig með látlausri framkomu og heiðarleika sem skein af málflutningi hennar.  

Maður er svo samdauna frösunum sem hver étur upp eftir öðrum, að manni hálfpartinn bregður þegar maður hitt manneskju sem bæði vissi hvað hún var að segja, og meinti það líka.  

Eitthvað sem fer því miður ákaflega sjaldan sama hjá stjórnmálamönnum í dag.

Ástæða þess að ég segi frá þessu er að ég tel að einhvern veginn höfum við öll í andófinu klúðrað málum á þann hátt að við höfum ekki náð að sjá hjá hvort öðru það sem sameinar, aðeins fundið það sem við vildum að aðrir hefðu, en höfðu ekki.

Eins og tregðan sem öllu vill sundra hafi haft sjálfstæðan vilja gegn okkur, að  hún hafi látið vegferð okkar vera eins og ferð í skriðu, að einu skrefi uppá við, fylgi tvö skref niður á við.

Og að það þurfi að gera sér grein fyrir að við séum í skriðu, og við lögmál skriðunnar er ekki rifist.  

Þá fyrst þegar maður sættir sig við þau, þá eygir maður von um að komast út úr henni.

Ekki það að ég viti hvernig maður kemst út úr þessari skriðu, hef þá bjargföstu skoðun að til þess þurfi aðeins einn að stíga fyrsta skrefið fram á við, en þar sem enginn deilir þeirri skoðun með  mér, þá hlýtur hún að vera röng nálgun.

Og þegar maður veit ekki næsta skrefið, þá þegir maður.

Aðrir þurfa að fá frið til að finna rétta skrefið.

Á meðan getur maður dundað sér við að níðast á minnimáttar, VG er ekki ennþá komið í 5 prósentin.

Það má hjálpa þeim til þess.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 24.3.2013 kl. 21:19

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ómar, þú segir:

„Það má vera rétt hjá stjórn Samstöðu að fólk eigi að forðast eftirlíkingar og þeir sem bjóða fram eiga hafa þekkingu á þeim málum sem þeir tjá sig um.“

Svarið við þessu er: Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við það að það sé stuðst við lausnir SAMSTÖÐU en það er tvennt sem þarf að hafa í huga í því sambandi:

1) Geta heimilda.
2) Það þarf sérfræðing til að hrinda lausnum SAMSTÖÐU í efnahagmálum í framkvæmd rétt eins og það þarf skurðlækni til að framkvæma skurðaðgerð.

Það væri því nær að þessi framboð hefðu lýst yfir stuðningi við lausnir SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar á sínum tíma heldur en vinna að því fyrst leynt og ljóst að grafa undan því að SAMSTAÐA gæti boðið fram og sölsa síðan undir sig stefnuna án þess að geta þess hvaðan hún er upprunninn.

Þá segir þú:

„En vart getur það talist lausn að bjóða ekki fram, að gera ekki neitt.

Að bíða með hendur í skauti eftir hinu óumflýjanlega.““

Þetta er í versta falli ómaklegt ef þessu er beint að þeim örfáu sem lögðu nótt við nýtan dag til að vinna að framgangi SAMSTÖÐU allt sl. ár. Það mátti heita ljóst hverjum þeim sem vildi horfast í augu við staðreyndir að þar sem stefnumál SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar náðu ekki eða höfðuðu ekki til kjósenda þá var vonlaust að fara fram með framboð. Þetta sáu þeir félagsmenn sem mættu á félagsfund SAMSTÖÐU á eins árs afmæli flokkins þann 15. janúar sl. og ákváðu að vísa þeirri ákvörðun til landsfundar hvort flokkurinn stefndi fjávana, fylgis- og stuðningslaus til framboðs.

Þrátt fyrir þetta þá er langt frá því, að þeir örfáu sem alla tíð hafa unnið að því að reyna að vekja kjósendur til meðvitundar um þær lausnir sem SAMSTAÐA setti fram í sinni stefnuskrá, hafi setið með hendur í skauti frá því þessi ákvörðun var tekin. Ég hefði haldið að heimasíða SAMSTÖÐU væri besti vitnisburðurinn um það.

Svo langar mig til að gera athugasemd við þetta:

„Hvorki Samstaða né nokkurt annað framboð hefur sent út ákall til þjóðarinnar um að standa saman.

Enginn hefur boðað til fundar þar sem framboðið eina, Samstaða um lífið er tilkynnt.“

Sem félagsmaður í SAMSTÖÐU ættir þú að vita betur. Fyrsta stjórn SAMSTÖÐU hélt fundi víða um land á ótrúlega stuttum tíma í febrúar á síðasta ári og formaður SAMSTÖÐU-Reykjavík ferðaðist fór hringinn sl. sumar sem hann undirbjó með því að kalla félagsmenn saman til fundar við sig. Útkoman var því miður tiltölulega lítill áhugi kjósenda. Sú stjórn sem gekk frá borði áður en kjörtímabili hennar var lokið um miðjan janúar sl. var ætlað að ferðast um landið líka en engin í stjórninni sýndi þann lit að láta af slíku verða.

Auk þess hafa þó nokkrar greinar verið skrifaðar þar sem hvatt hefur verið til samstöðu og þar lágu nokkrir þeirra sem tilheyrðu síðustu stjórn langt frá því á liði sínu. Allt kom fyrir ekki.

Að lokum má benda aftur á heimasíðu SAMSTÖÐU og fésbókarsíðu flokksins ásamt fréttabréf hans. Þessir vettvangar hafa allir verið notaðir til að freista þess að hreyfa við bæði félagsmönnum og kjósendum til meiri virkni til stuðnings við flokkinn. Þetta hefur ekki skilað þeim árangri sem vonir stóðu til. Þar af leiðandi er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að kjósendum hugnist ekki þær áherslur sem Lilja Mósesdóttir hefur átt langmestan þátt í að móta og voru settar fram sem stefnuskrá SAMSTÖÐU.

Það er a.m.k. ljóst að þær höfðuðu ekki til kjósenda sem stefnumál SAMSTÖÐU en það má vera að þær skili sér betur þegar þær hafa verið settar fram sem stefnumál þeirra flokka sem tóku þátt í því með beinum eða óbeinum hætti að grafa undan SAMSTÖÐU. Fulltrúar þessara flokka mættu þóhuga að trúverðugleika sínum og sýna kjósendum sínum þá virðingu að geta þess hvaðan stefnan er komin.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.3.2013 kl. 21:40

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Rakel.

Ekki veit ég af hverju þú ert ómaka þig við að gera ágreining við þennan punkt minn yfir i-ið.

Efnislega er ég að færa rök fyrir af hverju menn eigi að forðast eftirlíkingar og af hverju það er svo mikilvægt að framboð bjóði ekki fram frasa heldur þekkingu.

Því það er mikil vá fyrir dyrum.

Varðandi þann raunveruleika sem þú ert að lýsa, þá gerði ég upp við hann strax þegar ákvörðun Samstöðu lá fyrir, í pistli mínum, "o brother eitthvað".  

Sagði þar efnislega að ég skildi mjög vel ákvörðun ykkar að feisa staðreyndir, en um leið benti ég lesendum bloggs míns að það væri ekki valkostur að gefast upp.

Menn gefast ekki upp fyrir eyðingunni og auðninni á meðan þeir eiga líf sem þarf að vernda.

Og ég hef bent á hvað þarf að gera, og er nákvæmlega einn um þá skoðun.  Þess vegna fæ ég ekki skilið hvað það pirrar þig að ég hafi hana, skoðun mín er ekki beint að stela fylgi frá öðrum skoðunum og viðhorfum.

Sem og ég skil ekki pirringin yfir því að það vaði eftirlíkingar uppi á kjósendamarkaðnum, allar eiga það sammerkt að höfða til um eða innan við 1% kjósenda.

Hvort skýringin sé þessi eða hin, skiptir engu máli, raunveruleikinn er sá að okkur mistókst.  Okkur öllum sem dreymdi um nýtt og betra Ísland.

Ég er ekki á nokkurn hátt að hnýta í ykkur Samstöðu fólk, ég veit að vinna ykkar er og var ómæld.

Hef það meira að segja fram yfir marga aðra að ég hef pistlað um það.  

En það er samt þannig Rakel, að um sumt er ekki hægt að rífast, ekki ef fólk ætlar að halda sig í raunheimi.  Eitt af því er að gegn skriðdrekum óvinarins duga ekki orð, þess vegna á óvinurinn sigur vísan.  

Fólk mætti honum ekki sameinað með þeim ráðum sem þurfti og það hafði tök á.  

Og hver sem skýringin er, þá er það bara þannig.

Því miður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.3.2013 kl. 22:59

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ómar, það var ekki ætlunin að vekja upp einhvern ágreining við þig. Hins vegar notaði ég tækifærið til að koma þessu að á bloggi þínu sem við vitum bæði að er mikið lesið. Ég valdi þessa punkta af því að þeir þjónuðu því sem ég sá að var tækifæri til að koma að hér hjá þér við þessa færslu og setja í samhengi við það sem mátti skilja að væri ekki tekið með í reikninginn. Í sjálfu sér notaði ég vafann sem mér sýndist að þessi orð gætu vakið til að hnykkja á ýmsum atriðum sem mér fannst skipta máli að kæmu fram. Ekki endilega við þig heldur lesendur þína miklu frekar.

Mér þykir það leitt að þú skulir hafa upplifað það af lestri innleggsins mína að ég væri að fá útrás fyrir einhvern pirring gagnvart þér.

Ég las það sem þú skrifaðir og síðan athugasemdirnar við pistilinn og ákvað svo að þar sem þetta er ekki einkabréf heldur miðill að velja þetta úr í þeirri trú að í besta falli myndu orð mín þjóna þeim tilgangi að hnykkja á því sem þú vildir koma á framfæri með þessum og fleiri pistlum. Ég gerði mér þó grein fyrir að í versta falli þá gætir þú tekið innleggi mínu sem beinni árás á þig en ég tók áhættuna en vona að mér hafi tekist að gera þannig grein fyrir fyrirætlun minni að þú unir sáttur við.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.3.2013 kl. 00:17

11 identicon

Ég get ekkert annað sagt en að ég vonast til þess að Dymbilvikan muni fá þær góðu konur Lilju og Rakel

til að íhuga það alvarlega hvort þeim hugnist ekki að mæla með einhverjum þeim flokki sem býður nú fram? 

Það væri vel þegið að þær tækju afstöðu nú fyrir þessar kosningar, enda þótt SAMSTAÐA bjóði ekki fram.

Það myndi gleðja einn páskaunga mikið. 

Á páskadag mun ég brjóta skurnina og skrifa feis tú feis hugvekju um málið.

Enn veit ég ekkert hvernig sú hugvekja verður, hún mótast af því hvað gerist í Dymbilvikunni. 

Kannski verður hún þrjú orð kannski verður hún þrjú þúsund orð.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.3.2013 kl. 00:35

12 identicon

En ég "séra" pistli Ómars á feis-síðu mína ... núna :-)

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.3.2013 kl. 02:26

13 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Fyrst gengu þeir að þeim sem ekki stóðu í skilum með bílalánin, en þar sem ég var ekki með bílalán varðaði mig ekkert um það.

Svo gengu þeir að þeim sem ekki réðu við húsnæðislánin en þar sem ég réði við mitt snerti það mig ekki.

Sæll Ómar, þessi pistill þinn minnti mig á frasa sem ég var iðin við að birta á mínu bloggi í upphafi kreppu og ég átti til að klína við blogg annarra. Því miður hefur frasinn gengið eftir en eins og þú bendir á er ennþá smá von svo framarlega sem þeir sem telja sig eiga lausnirnar njörfa þær ekki niður í einkaréttar ákvæðum. En eins og þú bendir á er enn smá von fram að krossfestingu.

Svo gengu þeir að þeim sem höfðu misst vinnuna og gátu ekki staðið í skilum með skuldir sínar, en þar sem ég hafði vinnu kom mér það ekki við.

Svo fóru þeir fram á að ég léti svo stóran hluta tekna minna í skatta að ég var verr settur en þrællinn, þá var enginn eftir til að verja mig.

Með kveðju frá Noregi.

Magnús Sigurðsson, 25.3.2013 kl. 05:56

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Ég held að þú lýsir í hnotskurn ógæfu íslensks almennings eftir Hrun, hann var of sjálfhverfur til að setja sín örlög og sitt hlutskipti í samhengi við hlutskipti og örlög annarra.  

Ekki það að þetta sundrunareinkenni er sammannlegt og allir sem reyna að hópa fólki saman í vörn gegn ógnarafli þurfa að glíma við.

Þetta er svona faktur sem maður þarf að átta sig á og sætta sig við, ef maður ætlar að ná árangri í baráttu þar sem samstaða fólks er forsenda árangurs. 

Yfirleitt duga ekki sameiginlegir hagsmunir, helst þarf líka að vera til staðar sameiginlegur óvinur sem fólki er í nöp við, og því er hægt að nota hann sem pepp til að þjappa liði saman.  

Þess vegna held ég að það hafi gengið svona illa að ná fólki saman um andófið gegn hinum stökkbreyttu skuldum, valdinu dugði alltaf að stinga dúsu hér og þar til að sundra  heildarhópnum, hlutlausa suma eða egna einum uppá móti öðrum.

Til viðbótar voru talsmenn heimilanna ákaflega bernskir í taktík, héldu að þetta snérist um rök og málefni, en ekki beina hagsmuni þar sem sá sem á kröfuna gefur ekkert eftir fyrr en hann er neyddur til þess, og þá alltaf út frá reglunni að gefa sem minnst eftir og meira var gefið eftir, þá var það eingöngu vegna óttans við að annars léti ennþá meir undan ef þrýstingurinn héldi áfram að aukast.

Ég hef oft verið að spá í hvort gengislánadómurinn hafi ekki verið fyrirfram ákveðinn af hagsmunaöflum valdsins því að blákalt mat sagði að það þyrfti hvort sem er að afskrifa stærsta hluta lánanna.  Nýta svo tregðuna gegn öllum leiðréttingum.  Það þarf enginn að segja mér að menn hafi ekki vitað um ólögmæti Árna laganna, en þau töfðu, og bjuggu til tilbúinn ásteytingarstein.

Voru svona sýndarárás á meðan varnir voru skipulagðar.  

Við megum ekki gleyma að ef ekki hefði komið til algjör aulaskapur HH haustið 2010 þá hefðu söguleg svik Sjálfstæðismanna ekki dugað til að hindra valdarán almennings.  

Ríkisstjórnin átti innan við viku eftir þegar Marínó og félagar ákváðu að reyna samningaleiðina, einmitt þegar þeir áttu aðeins eftir að greiða náðarhöggið.

Í ICEsave var hins vegar til staðar illskeyttur óvinur sem var Lárusar Welding útlitið á Darling og bolabítaframkomu Brown.  Ég held að framganga þeirra eftir hryðjuverkalögin hafi kveikt meir í fólki en sjál hryðjuverkalögin.  Allavega jókst alltaf hitinn í hvert skipti sem Ruv reyndi að mæra málstað þeirra.

Síðan var andstaðan einbeitt og skipulögð.  

Bæði í bloggheimum sem og í beinum aðgerðum. 

Kennslubókardæmi um hvernig á að þjappa fólki saman og sigra valdið.  

Samt stjórnaði enginn einn aðili vörninni, hinir einstöku hópar vissu vel sitt hlutverk, þó það hefði aldrei verið skilgreint, og þeir unnu vel saman þegar þess þurfti.  

Varðandi vonina fram að krossfestingu, þá ætla ég einmitt að fara að ræða hana við þau Pétur og Rakel.

Reyna enn einu sinni að útskýra fyrir þeim hið sögulega hlutverk sem rás tímans ætlar þeim, sérstaklega núna fram að Upprisunni.

Takk fyrir innlitið Magnús.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2013 kl. 08:43

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Rakel, og blessaður Pétur.

Þar sem það sem ég ætla að segja, í framhaldi af þessum pistli, á erindi við ykkur bæði, þá beini ég þessu innslagi til ykkar beggja.

Fyrst smá ábendingar í fullri vinsemd.

Pétur.  Maður ber aðeins ábyrgð á eigin gjörðum, ekki annarra.  Maður getur ekki ætlast til þess að aðrir geri það sem þarf að gera, ef maður er ekki tilbúinn til þess sjálfur.  Ef allir eru nóbody þegar á reynir og frýja sig þannig að svara Kalli, þá gerist ekki neitt.  Alla vega ekki hjá alvöru fólkinu þó margt sé gert hjá þeim sem meta alvöru egóismans meir en alvöru alvörunnar.

Rakel.  Það er eitt að hætta í stjórnmálum, og það er eitt að hætta við að bjóða fram, en það er annað að nýta tímann eftir þá ákvörðun að standa vörð um þá sem tóku EKKI þá ákvörðun.  Hvað sem þeir gera, þá eru þeir örugglega að reyna sitt besta á sínum forsendum.  Stjórnmál eru ekki akademískur vettvangur þar sem akademísk vinnubrögð eru í hávegum höfð.  Stjórnmál eru grímulaus barátta hagsmuna þar sem menn móta sín eigin örlög og sitt eigið hlutskipti.

Ógnir þú miklum hagsmunum, þá verja þeir hagsmunir sig með öllum tiltækum ráðum, þeir grafa undan, þeir beita vopni sundrungarinnar, þeir ógna, þeir múta, þeir skemma og þeir eyðileggja.  Það eina sem er öruggt að þeir gera  ekki er að þeir aðstoði þig á einhvern hátt við að ógna þeim. Ef faglegar lausnir málefnalegrar umræðu ógna hagsmunum valdsins, þá eru þær þaggaðar, rægðar, einangraðar. 

Valdið gefur aldrei eftir nema það neyðist til þess, vegna þess að það telur sig vera að vernda stærri hagsmuni þegar það gefur eftir þá minni.  

Og þegar um grundvallar hagsmuni er að ræða, þá er það aðeins óttinn við fallexina sem fær það til að gefa eftir.

Til ykkar beggja.

Og það kemur í næsta innslagi.

Ómar Geirsson, 25.3.2013 kl. 10:08

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Þegar ég lít yfir sögu Samstöðu það sem af er þá get ég ekki annað ályktað en að Macbeth hafi ekki þurft að kvarta svo mjög yfir sínum örlaganornum, leiksoppur þeirra gat verið verri. 

En aldrei þessu vant ætla ég ekki að rekja það sem er ekki einleikið til þeirra sem sérhæfa sig í slíkri atburðarrás, ég held að dýpri lógík sé þar að baki.  Svona smá kennsla og síðan próf sem allir þeir sem ætla sér að leiða baráttu lífsins þurfa að ganga í gegnum áður en örlögin útskrifa þá sem hæfa til að kveikja von. 

Því von þýðir ekki að kveikja, nema henni sé fylgt eftir af getu og styrk.

Af fólki sem áttar sig á því að það á ekki val, það getur ekki flúið skyldu sína, að því beri að gera skyldu sína.

Því það er eitthvað í þessu lífi sem skiptir það meira máli en það sjálft.  

Þetta og aðeins þetta skýrir þrautagöngu Samstöðu og þess ágæta fólks sem þar hópaðist saman undir merkjum réttlætis og vonar.

Við þrjú, og mjög margt annað gott fólk skiljum nákvæmlega hvað felst í þeirri tilvitnun sem ég hóf þennan pistil á, og vitum að það sem á eftir kemur er aðeins hnykking á þeirri alvöru.

Þið tvö, og líklegast einhverjir aðrir vitið líka nákvæmlega undir hvaða formerkjum ég kom suður síðasta vor.  Það var útaf þessari alvöru, og þeirri alvöru lífsins sem ég orðaði á þann hátt að við værum aðeins einu ári frá þriðja og þar með síðasta heimsstríðinu.  Árið er táknræn tilvísun í aðdraganda þess sem við köllum seinna stríð og þá hvar við erum stödd í atburðarrásinni.  Það er lengra í mannárum en þó styttra en margan grunar.  Ég spáði að við hefðum 4-5 ár til að bregðast við, líklegast er það ofmetið.  Ég benti líka á að ennþá gæti "fallega" fólkið haft áhrif á atburðarrásina en ef það sæti hjá, þá væri öruggt að ofbeldisfólkið myndi koma öllu í bál og brand.

Ég veit að fólk tók hóflega mark á mér, en hvað hefur gerst síðan?  Og þá er ég ekki að vísa í hin ótal framboð.

Ég hlustaði nýlega á viðtal í Speglinum við grískan öfgamann sem boðaði ofbeldi og dauða.  Fylgi við hann hefur margfaldast meðal ungra reiðra karla, sem hafa verið rændir framtíð sinni. Þetta er aðeins það sem koma skal um alla Evrópu.

Alþjóða Rauði krossinn hefur síðan staðfest mat mitt á ástandinu, Evrópa stefnir í að vera beint átakasvæði.  Rauði krossinn byggir þetta mat sitt á skýrslum þúsunda fulltrúa sinna sem eru á vettvangi, þar sem reiðin og örvæntingin eru við það að brjótast út í mannskæðum átökum.

Alvara lífsins er alvarleg, það þarf ekki að rífast um það lengur.

Spurningin er bara hvort þið eruð tilbúin að útskrifast eða ætlið ennþá að rífast við örlögin.

Það er ykkar að svara því.  Ekki fyrir hönd annarra, heldur ykkar eigin. 

Tími bendinganna á aðra er liðinn.

Fortíðin er liðin.

Aðeins einni spurningu er ósvarað, hvað ætlar maður sjálfur að gera.

Og það er ekki gilt svar að ákveða gera eitthvað til þess að gera eitthvað til að geta sagst hafa gert eitthvað.

Það er aðeins eitt svar, og þó ég sé einn um þá skoðun, þá er sú skoðun rétt.

Það þarf að gera það sem þarf að gera.

Og ef maður gerir ekki það sem þarf að gera, þá er sú ákvörðun aðeins á milli mann sjálfs og samviskunnar.

Maður sjálfkrafa dæmir sig úr leik við að setja út á aðra.

Maður stóð frammi fyrir prófi, og maður treysti sér ekki í það.

Og maður verður að lifa með því.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2013 kl. 10:52

17 identicon

Ég bið þig Ómar Geirsson að útskýra betur orð þín er þú beinir að mér.  Þú veist það best sjálfur að ég lagði allan minn kraft og ríflega það í baráttu fyrir Samstöðu, en mín ráð voru ætíð hunsuð.  Það gildir því um mig sem þig hvað Samstöðu varðar.  Þar voru önnur ráð brugguð en við lögðum til.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.3.2013 kl. 11:36

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Fundurinn Pétur minn með Ákalli um Samstöðu um lífið var aldrei haldinn.

Á meðan geta allir bent á aðra.

Örlagahjólin geta ekki spunnið sinn þráð á meðan fólk þráast við að hjálpa þeim.  Það gefur tregðunni frítt spil með sinn hildarleik.

Þennan fund þarf að halda núna í dymbilvikunni, þó hann skili ekki neinu, þá skilar hann leiðarvísi þegar hin ótal framboð reka sig á hindranir sínar hvert á fætur öðru.

Engin staða er það glötuð að í henni felist ekki tækifæri um næsta leik.

Það er aðeins þegar enginn stígur fyrsta skrefið sem engin skriða atburða fer af stað.

Höfum rætt þetta Pétur, en öll rök heimsins koma ekki í staðinn fyrir trúna sem kemur innan frá.

Trúna að þetta sé hægt.

Rökin eru hér að ofan, og víðar, stefnuskráin í pistlinum um framboð réttlætisins og víðar, mælskan býr í skáldinu og hvergi annars staðar.

Trúna finnur svo maður í hjarta sínu.

Flóttanum líkur svo þegar sá fyrsti stígur fram.

Aðeins þá og þegar er hægt að spyrja aðra um þeirra skref.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2013 kl. 14:48

19 identicon

Sæll Ómar Hefur þú hugmyndir um hvaða framboð gætu sameinast í eitt stórt?

Ásdís Bragadóttir (IP-tala skráð) 25.3.2013 kl. 18:41

20 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Samstaða fékk ekki sömu möguleika til að heyja kosningabaráttu í fjölmiðlum bankaræningjanna, eins og aðrir!

Það eru bestu meðmæli sem nokkurt stjórnmálaafl getur fengið, að selja ekki hugsjón sína til glæpaklíku-þjóna.

Sannleikurinn kemur í ljós að lokum.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.3.2013 kl. 18:58

21 Smámynd: Ómar Geirsson

Ákaflega er ég mikið sammála þér Anna.

Það er betra að bjóða ekki fram en að semja við málsvara andskotans.

Og sannleikurinn mun koma fram, þau aðvörunarorð sem ég vísa í upphafi þessa pistils, eru ekki ofmæld. 

Hrægammana þarf að hrekja frá ströndum landsins án þess að þeir nái að lesta skip sín með blóðpeninga verðtryggingarinnar, með gulli landsmanna.

Annars mun þjóðfélag okkar hrynja, því innviðir þess eru að hruni komin.

Takk fyrir innlitið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2013 kl. 21:48

22 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Ásdís.

Þetta snýst ekki bara um framboð, heldur líka það fólk sem tilheyrir gamla fjórflokknum og þykir vænna um börnin sín en vanan, þann vana sem núna leiðir fólk að færiböndum vogunarsjóðanna, þaðan sem engin þjóð á afturkvæmt.  

Það er ekki sem þjóð sem hefur stjórn á sínum eigin málum, eða ræður yfir auðlindum sínum og efnahag.

Varðandi hin ótal framboð þá er það ljóst að þau sem eru ekki beint gerð út af valdinu, eins og til dæmis Björt framtíð, þau eiga samleið.  

Það má kannski setja spurningu við Lýðræðisvaktina, sökum þess að þar eru margir stuðningsmenn ICEsave fjárkúgunarinnar í fremstu víglínu.  Á móti kemur um margt góð og skynsamleg stefnuskrá.

En svona ákall sem ég tala um er nauðsynlegt, mun skera úr um hvort fólk er að þessu fyrir sinn eigin metnað, eða fyrir þjóðina.  

Þetta er svona sigti á egóistana sem er því miður ekki treystandi. 

Svona þá sem reyna að troða sér fremst í röðina þegar skortur er á björgunarbátum í stað þess að reyna hjálpa við að bjarga sem flestum.

Það eina sem ég veit er að það að bjarga þjóð sinni er alveg óháð pólitík eins og við höfum þekkt hana undanfarna áratugi, þetta er alveg óháð hægri eða vinstri, heldur er þetta spurning um innihald, og þá hvað býr innra með fólki.

Hvort það sé meira en frasarnir eða skelin tóm.

Og lækin við þennan pistil hafa nákvæmlega tvöfaldast á einu sólarhring sem segir mér að þarna úti eru þó einhverjir sem skilja alvöru lífsins.

Það mun fólk mæta á þennan fund, og seinna meir verður ekki spurt hverjir komu, heldur hverjir komu ekki.

Allt merkilegt á sér upphaf sem er ekki stórt í sniðum.

Annað er shortcut  þar sem feigðin hefur boðið sér með í för.

En verði ekki boðað til þessa fundar þá er ljóst að fólkið sem þykist vera á móti, er líka á móti framtíðinni, voninni, réttlætinu.

Því það uppsker enginn án þess að sá til þess fyrst.

Staðreynd sem orðaglamur fær ekki breytt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2013 kl. 22:07

23 identicon

Sæll Ómar. 

Takk fyrir svarið.  Mér sýnist ákall um réttlæti vera rökrétt ályktun ef aðeins er litið til niðurstöðu þjóðfundarins og Rannsóknarskýrslu Alþingis og hvernig unnið var úr henni.  Hverjir vilja raunverulegar úrbætur í þjóðfélaginu í samræmi við fyrrnefnda niðurstöðu og hverjir ekki?  Það er ekki flóknara en það eða er það?  Svari hver fyrir sig.                        

Bestu kveðjur, Ásdís

Ásdís Bragadóttir (IP-tala skráð) 26.3.2013 kl. 12:41

24 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Ásdís.

Ég held, að þó þeir, sem hagsmuni hafi af ráni og rupli fjármagns hinna ofurríku, reyni að telja okkur trú um annað, þá sé fólk í eðli sínu réttlátt, og já, gott.

Það er sama hvað samfélög eru oft rifin niður af þessum mini mini hluta ofríkis og ofbeldismanna (stríð, átök, arðrán, rán, kúgun, ofbeldi), þá leita þau alltaf aftur uppá við, í að verða betri og réttlátari en þau voru fyrir.  

Í öllum menningarsamfélögum er talað um réttláta stjórnendur, nafn þeirra lifir, en ofríkisstjórnendurnir renna út í eitt, engum minnisstæðir eftir dauða sinn.

Við þurfum réttlátt samfélag, og við þurfum kannski ekki síður að finna réttláta aðferð til að gera upp misgjörðir þeirra sem rændu og rupluðu, og ætla að ræna og rupla eftir kosningarnar.  

Vísvitandi skuldaánauð þjóða er glæpur, glæpur gegn mannkyni, og mun innan skamms verða trakteraður sem slíkur.  

Arðrán er glæpssamlegt, þó menn kaupi stjórnmálamenn til að setja hagfellda löggjöf fyrir slíka iðju.  

Og svo framvegis.

Krafan um slíkt mun aðeins hljóma hærra og hærra, eftir því sem fleiri lenda í kvörn hins skítuga fjármagns.  

Það þarf að stöðva það, fyrr en seinna.

Og við gerum það aðeins sameinuð.

Það veit hið skítuga fjármagn, framboðin óteljandi er þeirra svar til að hindra slíka samstöðu.

Það eina sem við vitum er að ef menn ná ekki saman, ef menn reyna ekki að ná saman, er að þessi framboð eru ekki hugsuð sem ógn við fjármagnið.  

En gæti hugsanlega útvegað einhverjum þægilega vinnu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.3.2013 kl. 13:56

25 identicon

Já, Ómar. Það góða nýtist öllum alltaf best.  "Við þurfum réttlátt samfélag, og við þurfum kannski ekki síður að finna réttláta aðferð til að gera upp misgjörðir þeirra sem rændu og rupluðu, og ætla að ræna og rupla eftir kosningarnar."  Viðleitni stjórnvalda eftir síðustu Alþingiskosningar  var að rannsaka hvað olli kollsteypunni í þjóðfélaginu.  Í rannsóknarskýrslunni er að finna "lærdóma" sem má draga af því sem fór úrskeiðis í hinum ýmsu stofnunum samfélagsins.  Tek undir með þér að sameiginlegt verkefni þeirra sem vilja réttlátt samfélag er að finna aðferð sem allir gætu sammælst um - í uppgjörinu framundan.  Það yrði góður byrjunarreitur.       

Ásdís Bragadóttir (IP-tala skráð) 26.3.2013 kl. 18:02

26 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Ásdís.

Ég veit hvað þú ert að vísa í með hina meintu viðleitni stjórnvalda og margt þarft kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Og sem slíkur var vilji þjóðfundarins augljós, krafa um gott samfélag.  Réttlátt og heiðarlegt.

En vandinn var samt sá að stjórnvöld meintu ekki orð með þessu starfi.

Þau unnu eftir aðgerðaplani AGS sem var fínt orð yfir markvissa áætlun um hvernig lánardrottnar útrásarinnar yfirtækju efnahagslíf og eignir þjóðarinnar.

Þetta var ryk í  augu fólks svo það gáði ekki að sér fyrr en þjóðin væri föst í skuldaánauð um ókomna tíð.  Eitthvað sem við sjáum svo áþreifanlega vera að gerast út í Evrópu í dag.

Baráttan fyrir réttlátu þjóðfélagi er um leið uppgjör við þessi öfl arðráns og niðurrifs.  Leppar þess geta aldrei leitt heiðarlegt uppgjör við rán og rupl fortíðar, vegna þess að slíkt er aðeins liður í að auðvelda núverandi rupl og rán.

Hrunið var ekki lok neins, aðeins millikafli áður en kné var látinn fylgja kviði.

Við erum nefnilega komin í miðja Öreigaæsku eftir Stein Steinar, sama aflið, sami illviljinn, sömu Óbermin.  

Nema núna verður fólk að skilja að lausnin á kúgun fortíðar er ekki nýtt kúgunarkerfi, þó það sé undir fallegum merkjum, fallegum fyrirheitum.  

Hinu svarta fjármagni þarf að mæta af fyllstu hörku, og það þarf að sigra það í eitt skipti fyrir allt, ekki aðeins verkfærum þess eins og gert var í síðasta stríði, núna þarf að fjarlæga sjálfa rótina, og gera arðrán og kúgun útlæga úr mannlegu samfélagi í eitt skipti fyrir allt.

En miskunn og réttlæti eiga að vera leiðarstef uppgjörsins, aðeins þannig komum við í veg fyrir ný hjaðningavíg í nánustu framtíð.

Ég tók saman helstu bloggpistla mína um þessa hugsun á sérstaka bloggsíðu sem heitir Hreyfing Lífsins; 

 
og einhvern daginn þegar fólk fer virkilega að spá í hvort það sé eitthvað náttúrulögmál að örfáir karlar geti endalaust komið öllu í bál og brand, og þá núna í síðasta bálið og brandinn, að þá mun fólk lesa svona pistla sér til íhugunar ef svo má orða.
 
En í millitíðinni þarf eitthvað að gera, og þessi hvatning mín um Framboðið eina er mitt framlag til nauðsynlegrar varnar þjóðarinnar.
 
Hvað sem öðru líður, og hvernig sem fólk lítur á málið, þá er ljóst að öflin sem hér hafa bankað upp, eru ekki góð, ekki mennsk, þau eru ill, og ættuð úr hugmyndaheimi þess sem við kennum við þann í neðra.
 
Ég pistlaði í upphafi bloggferils míns um Óbermin, og ætla að láta þann pistil fljóta með í næstu athugasemd.  
 
Ég upplifa þetta fólk sem djöfla í mannsmynd og í mínum huga koma samningar eða samstarf við það aldrei til greina.
 
Pistillinn er um innheimtustofnun hins skítuga fjármagns, AGS.
 
Takk fyrir spjallið Ásdís.
 
Kveðja að austan.
 
 

Ómar Geirsson, 26.3.2013 kl. 21:45

27 Smámynd: Ómar Geirsson

ÓBERMI.

Er orðið sem kom fyrst upp í hug minn þegar ég las um hve Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fór illa með almenning Zambíu, þegar sjóðurinn var beðinn um að veita landinu aðstoð og ráð við efnahagsvanda þess.  Og síðan hef ég átt mjög erfitt með að fjalla um þessa heiðursmenn án þess að skammast út í þá í leiðinni.

Þetta eru Óbermi.  Zambía er fátækt land, en ríkt að náttúruauðlyndum.  Vandi þess í hnotskurn er sá að alltaf þegar einhver umbótavilji hefur komið fram þá hefur hann verið kæfður með mútum og hótunum vestrænna stórfyrirtækja, sem hafa viljað arðræna landsmenn með sem minnstum tilkostnaði.  

Harmleikur Afríku í hnotskurn.

Þrátt fyrir óstjórn í efnahagsmálum og almenna vanþróun í landbúnaði þá flutti Zambía út matvæli og hafði að því tekjur.  Eftir frjálshyggjutrúboð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og misráðinnar einkavæðingu í landbúnaðarkerfinu, þá neyðist Zambía til að nota dýmætan gjaldeyri til að flytja inn stóran hluta af þeim matvælum sem landið notar.

Og hvað þýðir það fyrir fátækan almenning?  Peningar sem eru notaðir að óþörfu við að flytja inn matvæli, eru ekki notaðir til að flytja inn lyf og annan búnað til heilsugæslu landsmanna.  Í landi þar sem alnæmi er mjög útbreitt.  Með öðrum orðum er verið að drepa saklaust fólk sem hefur það eitt sér til saka unnið að vera fátækt.

Upp í huga minn kom mynd af gamalli konu sem bar ein ábyrgð á hópi barnabarna sinna.  Foreldrar þeirra höfðu látist úr alnæmi.  Gamla konan vonaði að hún myndi lifa nógu lengi til að elstu börnin gætu séð um þau yngri.  Aðra hjálp var ekki að fá.  Í heimildarmyndinni var líka tekið viðtal við unga konu sem var dauðvona af alnæmi.  Það sem henni þótti verst var að barnið hennar (sirka 3 ára) var líka smitað af alnæmi, hafði fengið smitið í móðurkviði.  Þessa unga móðir vissi ekki hvað yrði um barnið sitt.

Í sömu mynd var sagt frá hjálparstarfi alþjóðlegra samtaka við að aðstoða þetta fátæka fólk.  Og frá baráttunni við alþjóðleg lyfjafyrirtæki sem neituðu að selja lyf á verði sem fátæk ríki Afríku réðu við.  Í þeirri baráttu hafa margir stórir sigrar unnist og ástandið er allt annað í dag en það var fyrir nokkrum árum síðan.

Og svo fær maður fréttir af hvernig jakkafataklædd illmenni leika þessi sömu lönd.  Bláfátækur almenningur er látin blæða fyrir skuldir yfirstéttar sem eru aðallega tilkomnar útaf vopnaskaki og hóglífi hennar.   Þessar skuldir eru greiddar fyrir þann pening sem annars hefði getað farið í heilsugæslu og menntun almennings.  Með öðrum orðum þá eru þær greiddar með blóði almennings en ekki eigum þeirrar yfirstéttar sem tók lánin á sínum tíma.

Og ofaná þetta er sjálfsbjörg fátæks fólks eyðilögð með vanhugsaðri einkavæðingu.

Menn sem gera svona eru Óbermi.  Blóðslóðin eftir þá er ekki styttri en eftir önnur illmenni 20 aldar.

 

En hvað kemur okkur það við hvernig Alþjóðagjaldeyrisjóðurinn hagar sér í fátækari löndum heims?

 

Svona fyrir utan þá staðreynd að íslenska velferðarkerfið er næsta fórnarlamb sjóðsins.

Og fyrir utan þá staðreynd að "hvert einstakt líf, það biður um samhjálp þína" eins og Bertold Brect orðaði það í ágætu kvæði um ungfrú Maríu Farrar.  Og við eigum að gæta okkar minnsta bróður eins og stendur í Biblíunni.

Og fátækar þjóðir sem biðja um aðstoð velferðarsamfélaga Vesturlanda eiga mannúð og velferð skilið en ekki græðgi og mannvonsku Óberma.

Jú okkur kemur það við vegna þess að heimurinn er orðinn ein heild og það er ekki lengur hægt að níðast og fara illa með fátækt fólk án þess að það komi að lokum niður á börnum okkar.  Hatrið og heiftin útí okkur mun að lokum leiða til mótspyrnu sem snertir okkur öll.  Og þá getur verið of seint að iðrast fyrir þá sem kjósa að byggja lífskjör sín á arðráni og þrælkun fátæks fólks í þriðja heiminum.

Hvað er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í augum þriðja heimsins?

 

Það er fróðleg lesning að Googla  á "World Social Forum" og bæta IFM inní leitarskilyrði.  Sú lesning gæti dugað út árið ef fólk vill kynna sér hvurslags drullusokkar þetta fólk er.  En ég ætla að vitna í Lula da Silva, forseta Brasilíu og orð sem eru höfð eftir honum í Guardian.  Kaldhæðnin segir margt um þau sárindi sem ennþá eru til staðar í Suður Ameríku útí hroka okkar Vesturlandabúa.

Latin America still winces at the painful humiliation of the World Bank and International Monetary Fund ordering austerity measures in the 1980s and 90s. "Now, I expect the IMF to go to [the US president, Barack] Obama and tell him how to fix the economy," said Lula.

Þjóðir þriðja heimsins líta á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem bæði Intrum og Arnþór hins vestræna heims.  Brýn fjárhagsaðstoð hefur verið skilyrt ýmsum skilyrðum eins og einkavæðingu og sölu almannaeigna og svo að samningar náist við erlenda banka og fjármálastofnanir.  Skiptir engu þó almenningur viðkomandi landa blæði fyrir strangar og oft ómanneskjulegar afborganir af lánum sem hann var aldrei í neinni aðstöðu til að segja til um hvort lánin væru tekin eður ei.  En almenningur var og er látinn borga með þeim peningum sem annars hefðu getað farið í að byggja upp heilbrigðiskerfið og menntakerfi viðkomandi landa.  Og án slíkra grunnstoða er ekki minnsti möguleiki á framþróun.

Og vogi menn sér að stugga við framferði vestrænna stórfyrirtækja þá er skrúfað umsvifalaust fyrir aðstoðina.  Og löndin sett á einhvern svarta lista.  Talinn jafnvel verri en byltingarstjórn Kúbu.

Þjóðverjar kusu nasismann á sínum tíma vegna þess að hann lofaði þjóðinni velmegun á kostnað "óæðri" þjóða.  Nýfrjálshyggjan lofaði þjóðum Vesturlanda velmegun með alþjóðavæðingunni sem er fínt orð yfir þrælahald og nýlendukúgun.

Skömm  beggja er mikil.

 

En er þetta ekki óhjákvæmilegur fylgifiskur "raunveruleikans"?

 

Og svarið er mjög stutt.  NEI.

Fyrir rúmum fjörtíu árum síðan var eitt fátækasta land þriðja heimsins gert að "velferðarsamfélagi" í þeirri merkingu að heilsugæsla og menntun á heimsmælikvarða var gerð aðgengileg öllum þegnum landsins óháð efnahag.  Þetta afrekaði maður með mikilmennskubrjálæði á Kúbu, í óþökk voldugs nágranna síns.

Og síðan er okkur talið í trú um að kapítalisminn með sinn frjálsa markað og sitt frjálsa stjórnkerfi geti ekki afrekað sama á 40 árum sem Castro gerði á 10 árum.  

Meikar ekki sens að halda slíkri vitleysu fram.

Málið er að hagsmunir örfárra stórfyrirtækja hafa ráðið gjörðum Vesturlanda í áratugi.  Einhvern veginn tókst þeim að telja almenningi í trú um að velferð hans væri komin undir arðráni fátæks fólks í fjarlægum löndum.  Og þessu arðráni hefur verið viðhaldið með stuðningi við spillta einræðisherra, undirróðri gegn framförum (besta dæmið er Chile og bylting CIA gegn Alliende), borgarastyrjöldum (Angóla og Líbería meðal annars) og svo kúgun Alþjóðagjaldeyrisjóðsins þegar hin ráðin dugðu ekki.

En velmegun okkar og viðskipti væru ekkert síðri þó við litum á mannkynið sem eina fjölskyldu sem hefði sama rétt til lífs, velferðar og menntunar og við íbúar á Vesturlöndum.  Líklegast þá gengi okkur ennþá betur að selja vörur okkar því aukinn kaupmáttur heimsins er allra hagur.

Jesú var nefnilega mikill hagfræðingur.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 26.3.2013 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 402
  • Sl. sólarhring: 463
  • Sl. viku: 4245
  • Frá upphafi: 1329776

Annað

  • Innlit í dag: 329
  • Innlit sl. viku: 3698
  • Gestir í dag: 303
  • IP-tölur í dag: 297

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband