Blóðpeningar.

 

".. en verkefni fyrir erlenda kröfuhafa föllnu bankanna hafa meðal annars vegið þungt í aukinni veltu lögmannsstofunnar á liðnum árum.".

 

Í þessari hógværu setningu kristallast harmur íslensku þjóðarinnar.

Útskýrir af hverju ástandið er eins og það er, sundrunguna, deilur um aukaatriði eins og aðildarviðræður að ESB, svikin kosningaloforð, eymdina sem þúsundir landsmanna búa við.

 

Það eru fleiri en lögmenn sem hafa runnið á blóðslóðina, almannatenglar, hagsmunaverðir, fjölmiðlamenn, hafa þegið stórfé frá kröfuhöfum útrásarinnar til að tryggja sundrað þjóðfélag svo ekki sé hreyft við blóðmjólkun skuldara landsins.

Þetta útskýrir að innanríkisráðherra getur ekki gengið gegn lögvörðum hagsmunum Útburðarins, fólk skal borið út þó lánin séu ólögleg, þetta útskýrir að fjármálaráðherra hefur gleymt nóvember.

Þetta útskýrir af hverju stríðið er um heilbrigðiskerfið en við vogunarsjóðina.

 

Því almenningur og fyrirtæki landsins eru mjólkurkú svokallaðra erlendra kröfuhafa og þeir kaupa sér þann frið sem þeir þurfa til að ekki sé snert við hinni helgu kú.

Á meðan fólk er borið út, fitna hagsmunaverðir.

Á meðan fyrirtæki geta ekki fjárfest, hagnast bankar á áður óþekktum skala.

 

Blóð er næring þessa liðs.

Blóð þjóðarinnar.

 

Blóðið okkar.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Græddu 3 milljarða frá hruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk er heiðarlegt.

 

Það er ekki flóknara en það.

Undantekningarnar hins vegar koma óorði á fólk, líkt og ofdrykkjumaðurinn á okkur drykkjumennina.

Búðaþjófurinn á viðskiptavinina, skattsvikarinn á skattgreiðendur.

 

Undantekningarnar móta síðan viðbrögð okkar.

Við ofreglum samfélagið, tortryggjum einstaklinginn.

Sitjum uppi með reglugerðarbákn sem allt kæfir.

 

Og þetta reglubákn er svo heilagt að það má ekki snerta það.

Allt er skorið, sjúkrahús, skólar, samgöngur, áður en snert er á einni reglu, einu bákni.

Í reynd þenst reglubáknið út á niðurskurðartímum því settar eru reglur, og aukið eftirlit, svo "takmarkaðir" fjármunir nýtist sem best. 

Með þeim afleiðingum að ennþá minna er til ráðstöfunar.

 

Nöturlegasta dæmið var uppgjörið við fórnarlömb "uppeldisstefnu" ríkisins  þar sem ríkið bar ekki á móti siðferðislegri bótaskyldu, en bar við fjárskorti til að hægt væri að gera það á mannsæmandi hátt.

Og þar sem fjármunir voru takmarkaðir, var ekki hægt að bæta jafnt, það yrði að meta meint sálartjón einstaklingsins, eins og það væri yfir höfuð hægt, og upphæð bóta færi eftir matinu á hinu meinta tjóni.

Bæturnar voru smánarlegar en þeir sem mátu sálarástandið höfðu af því góðar tekjur.  Kostnaðurinn við kerfið slagaði hátt uppí það sem sannarleg fórnarlömb uppeldisstefnu ríkisins fengu í bætur fyrir ónýta æsku, skemmda framtíð.

 

Það er í raun engin takmörk fyrir því hvað kerfið og kerfishugsunin getur lagst lágt til að sjúga til sín fjármuni þaðan sem þeirra er þörf.

Það er heldur engin takmörk fyrir hugmyndaflugi þess við að setja lög og reglur sem kæfa alla grósku og athafnasemi.

 

Þrátt fyrir allan niðurskurð síðustu ára hefur ekkert verið hreyft við hinni kerfislægu hugsun.

Á sama tíma og fólki á "vettvangi" fækkar, og fækkar, og á að fækka ennþá meira, þá fjölgar fólkinu á bak við skrifborðin sem vegur og metur, pappíra og blöð.  Ekki vegna þess að það er ekki að gera eitthvað, heldur er flækjustig þjóðfélagsins orðið það mikið að sífellt fleiri þarf til að hlutirnir séu gerðir á "réttan hátt".

Fjölgun starfa í fjármálaeftirlitinu, sökum kröfunnar um aukið eftirlit, er ekki bara kostnaðaraukning fyrir ríkissjóð, heldur líka þurfa fjármálastofnanir að fjölga starfsfólki sem vinnur við pappírsgerð og pappírsskoðun, án nokkurs sjáanlegs tilgangs. Niðurstaðan er það sem kallast á stofnanamáli, "aukinn rekstrarkostnaður".

Samtökin Beint frá býli hafa bent á kæfandi yfirbyggingu og skýrslugerð sem fylgir innleiðingu reglna frá ESB sem eru hugsaðir til að glíma við Nestle og önnur risafyrirtæki matvælaiðnaðarins.  Og svona má lengi, lengi, lengi telja.

 

Fyrir utan kostnaðinn þá hefur hið aukna eftirlit, sem er bein afleiðing EES samningsins, tvennt í för með sér.

Lélegri vöru því ef ekki er hægt að skera niður í pappírsframleiðslu, hvar er þá skorið niður??  Jú í öllu því sem viðkemur framleiðslunni.  

Kæfing, hið smáa sem heldur hagkerfinu gangandi, á æ erfiðara með að uppfylla allar pappírskröfur kerfisins.

Afleiðingarnar eru stöðnun í hagkerfinu, skert þjónusta hins opinbera, einokun eða fákeppni stórfyrirtækja, og svo framvegis.

Eða Evrópusambandið í hnotskurn.

 

Allt vegna þess að við skiljum ekki að fólk er heiðarlegt, og vill vel.

Að náunginn er ágætur, og að  fólk er gott fólk.

 

Í heiðarlegu og góðu samfélagi þarf fáar reglur og skýrar.

Flestir fara eftir þeim og kerfið á að hanna til að glíma við undantekningar, en ekki ganga út frá því að undantekningin sé hið algenga.

 

Þjófar og ræningjar hafa hag af því að telja okkur trú um hið gagnstæða, þeir hafa efni á lögfræðingnum sem fara í kringum reglurnar, sama hvað flóknar og ítarlegar þær eru.

Og þeir hafa efni á að fjármagna stjórnmálamennina sem ná völdum undir kjörorðinu, "Báknið burt", en skera síðan niður grunnþjónustuna á sama tíma þeir auka við reglubáknið.

Þeir kaupa fjölmiðlana og álitsgjafana sem hamra alltaf hinu sama, "skera niður, skera niður", ríkið ber ábyrgð á kreppunni, ekki þjófnaður okkar og arðrán.

 

Núverandi ríkisstjórn gengur erinda þessara hagsmuna, hún hreyfir ekki við bákninu, hreyfir ekki við  vaxtaráninu, hreyfir ekki við sjálftöku fjármálakerfisins.

Eða eins og innanríkisráðherra orðaði svo smekklega, maður gengur ekki gegn "lögvörðum réttindum fjármálafyrirtækja".

Og ekki gengur ríkisstjórnin gegn EES samningnum, reglubákn ESB er innleitt sem aldrei fyrr.

 

Fólk er heiðarlegt, en fólk er trúgjarnt.

Því ránið viðgengst ekki í skjóli skriðdreka, heldur í skjóli lýðræðislegar stofnana, sem við sjálf berum ábyrgð á.

Trúgirni okkar skýrir ástandið í dag.

Og trúgirni okkar skýrir að það mun ekki breytast á morgun eða hinn.

 

En ég veit ekki um daginn þar á eftir.

Því trúgirni á sér endamörk, og heiðarlegt fólk vill heiðarlegt samfélag.

Það eru múrar sem stjórnmálastéttin kemst ekki yfir eða undir.

 

En hún mun reyna.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Heiðarleikakrukkan gaf góða raun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einföld speki hugrakkrar stúlku.

 

Sem bæði Talibanar og Friedmanistar hata.

Gefum Malölu orðið.

 
"Ég sagði við sjálfa mig: „Malala, taktu bara skó og sláðu hann“. En svo hugsaði ég með mér, ef þú lemur talíbana með skó, þá ert þú engu skárri en hann. Þú mátt ekki koma illa fram við aðra og sýna þeim grimmd, þó verður að berjast með friði og með rökræðu og með fræðslu. Svo ég sagði við sjálfa mig að ég myndi bregðast við með því að útskýra fyrir honum hversu mikilvæg menntun er og segja honum að ég myndi vilja að börnin hans fengju líka að mennta sig. Og svo myndi ég segja við hann: „Þetta er minn boðskapur til þín. Gerðu nú það sem þú vilt við mig.““"
 

Eini munurinn er sá að Talibanar nota byssu til að útbreiða hatursboðskap sinn en Friedmanistar niðurskurð.

Niðurstaðan sú sama.

Að lokum.

Kveðja að austan.


mbl.is Malala gerði Jon Stewart orðlausan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju grípur Bjarni ekki líftaugina??

 

Hví reynir hann ljúgandi að réttlæta mistökin sem hann ber ábyrgð á.

Án stuðnings, án nokkurrar samhljómunar út í samfélagið.

 

Þverpólitísk sátt, með Kristján Þór Júlíusson í fararbroddi, náðist um að skera hann niður úr snörunni sem pólitísk kredda kom honum í.

Svo bullar stráksgreyið um að aðhaldsaðgerðir fjárlagafrumvarpsins bitni ekki á Landsspítalanum.

Eins og að hann sé á móti öðru tækifæri í stjórnmálum.

 

Við hvað er Bjarni hræddur??

Að Hannes flengi hann, að Kjartan Gunnarsson verði reiður??

Óttast hann jafnvel að Friedman rísi upp úr gröf sinni og skammi hann fyrir undanlátssemi við velmegun og velferð??

 

 

Hvað er að Bjarna Ben???

Veit það nokkur???

Kveðja að austan.


mbl.is Aðhaldsaðgerðir bitna ekki á LSH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við verðum að gera þetta!!"

 

Segir Brynjar Níelsson, maður að meiri að játa að mistök hafi verið gerði í fjárlagafrumvarpinu.

 

Hvað getur maður sagt??

 

Að þrátt fyrir allt sé Alþingi ekki alls varnað.  Að mennskan hafi sigrað hjátrúna.

Að Fjárlög dauðans séu þrátt fyrir allt ekki fjárlög dauðans.

Að það þjóni tilgangi að rísa upp og mótmæla.

Að eitthvað sé þess virði að berjast fyrir.

 

Nei, mig langar ekki að segja neitt af þessu.

Mig langar aðeins að segja;

Takk.

 

Takk.

Kveðja að austan.


mbl.is Rætt um 3 milljarða til spítalans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf réttlæti að utan??

 

Er stjórnmálastéttin okkar svo heillum horfin að hún getur ekki breytt rétt??

 

Tveir ungir menn hafa gert sig ærulausa með fyrsta fjárlagafrumvarpi sínu.  Fyrir utan að kreddan um hallalaus fjárlög er röng, sannarlega röng samkvæmt dómi sögunnar, þá heykjast þeir við að takast á við grunnvanda þjóðarinnar.

Sem er verðtryggingin og afleiðingar hennar.  Sýndarkrónurnar sem hafa ekki nokkra tilvísun í raunverulega verðmætasköpun, eignaupptaka sem er meiri en jafnvel bolsévikar treystu sér til á fyrstu stjórnarárum Lenín, þjóðfélagslegur óróleiki, efnahagsleg stöðnun.

Endalok þess samfélags sem við þekkjum ef ekki er gripið til rótækra ráðstafana.

 

Frasinn um hallalaus fjárlög er ekki slík ráðstöfun.  Hagheimska sem er langt komin með að leggja lönd Suður Evrópu í rúst, og mun ganga að heilbrigðiskerfinu okkar dauðu innan ekki svo langs tíma.

Og þessi frasi eru einu aðgerðir þessu ungu manna.

 

Stjórnmálastéttin okkar gat ekki að fyrra bragði krafið bankanna um að fara eftir lögum um vexti og verðtryggingar, það þurfti dóm Hæstaréttar til að gengislán yrðu leiðrétt.

Stjórnmálastéttin okkar ætlar ekki að horfast í augun á skaðsemi verðtryggingarinnar svo að von efnahagslífsins felst í að dómur að utan staðfesti ólögmæti hennar miðað við evrópska reglugerð um neytendalán.

Stjórnmálastéttin okkar getur ekki neitt annað en að skipta um hlutverk milli stjórnar og stjórnarandstöðu þar sem sömu ræðurnar eru fluttar aftur og aftur.

 

Engin döngun, ekkert þor, ekkert áræði til að skipta úr einskis nýtum frösum yfir í umræðu um raunhæfar aðgerðir.

Í raun er stjórnmálastétt okkar einskis nýt, og það besta sem hægt er að segja um hana að hún er gjörspillt, peningarnir sem fóðra hana ráða öllum hennar gjörðum.

 

Þjóð sem þarf réttlæti að utan, er ekki þjóð sem ræður við þá ábyrgð sem fylgir sjálfstæði og frelsi.

Hún ræður ekki við að tryggja börnum sínum mannsæmandi framtíð, ef hún þarf utanaðkomandi aðstoð við að tryggja réttlæti og frið.

 

Í dag er Ögurstund þjóðarinnar.

Ef við leyfum litlu strákunum að eyðileggja heilbrigðiskerfi þjóðarinnar þá er allt búið.

Ef við látum óréttlæti stökkbreyttra lána viðgangast þá er allt búið.

Ef við sækjum réttlæti að utan, þá er forsenda sjálfstæðis okkar úr sögunni.

 

Og þó við lokum augunum og ímyndum okkur að allt sé í himna lagi, eða til vara, að allt lagist að sjálfu sér, þá er það ekki svo.

Það er líklegra að við læknum banvænt krabbamein með slíkum tilburðum en að við leysum vanda þjóðarinnar með slíkri aðferðafræði.

Við högum okkur eins og við séum öll steingeld, að við eigum ekki líf sem þarf að vernda.

 

Sem við erum ekki.

Þó við þrífumst í tómi, þá þrífst framtíð barna okkar ekki í tómi.

 

Við eigum ekki að þurfa réttlæti að utan.

Við eigum sjálf að vera réttlát.

Og tryggja náunganum rétt, þó við sjálf höfum ekki skaðast.

 

Við erum öll á sama báti.

Við erum ein þjóð.

 

Við erum við.

Kveðja að austan.


mbl.is Leita álits EFTA-dómstóls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn daginn verður ekki sagt Úlfur, Úlfur.

 

Vegna þess að það verður enginn eftir til að vara okkur við allt sé byrjað að hrynja á Landsspítalanum

Starfsfólkið sem eftir er gefst upp, orkar ekki meir, fer.

 

Við getum ekki hundsað þessi aðvörunarorð Friðbjörns Sigurðssonar; "Ég finn að það er vaxandi órói innan spítalans um að það sé ekkert að fara að gerast, og fyrst og fremst eru gríðarleg vonbrigði varðandi fjárlögin.  ....Væntingar hafi verið uppi um að í þetta sinn yrði bætt í, eftir áralangan niðurskurð."

Það þurfa ekki margir starfsmenn að veikjast, það þurfa ekki mörg tæki að bila, og spítalinn ræður ekki við ástandið.  Því það er ekkert uppá að hlaupa, heldur er gengið á innistæðuna og bráðum verður ekkert eftir.

Það verður að gera eitthvað.

 

Moggabloggið hefur verið vígi íhaldsbloggara af  ýmsum gerðum, sem hafa átt það sammerkt að gagnrýna harðlega stefnu síðustu ríkisstjórnar, þjónkun hennar við erlent braskarafjármagn, niðurskurðarstefnu hennar, skatthækkanir, almenna atlögu að efnahagslífinu og framtíð þjóðarinnar.

Núna þegar þeirra flokkar eru komnir í stjórn, þá annaðhvort mæra þeir stefnu hinna hallalausu fjárlaga, sem var hornstein stefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, eða þeir þegja, þunnu hljóði.

Þekkt ferli stuðningsmanna Steingríms Joð Sigfússonar eftir umpólun hans í ársbyrjun 2009, þegar hann á einni nóttu hætti harðskeyttri gagnrýni sinni á óráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins  og gerðist fjármálaráðherra í ríkisstjórn sem hafði efnahagsstefnu sjóðsins að útgangspunkti.  Og stuðningsmenn hans gleymdu á sömu nótt, æru sinni, sæmd og sóma.

 

Það er sorglegt að sjá sjálfstæða menn svona ósjálfstæða, svona hrædda við sjálfstæða hugsun.

Á því eru þó undantekningar, og mig langar að minnast á eina sem ég las núna rétt áðan hér á Moggablogginu.

Pistillinn heitir "Fresta tekjuskattslækkun - upphæðina í heilbrigðiskerfið"og er eftir Axel Jóhann Axelsson.  

Mig langar að vitna í orð hans; 

 

Tækjakostur Landspítalans er meira og minna úr sér genginn og úreltur og sú sáralitla endurnýjun tækja sem átt hefur sér stað á undanförnum árum hefur komið frá ýmsum félagasamtökum eftir fjársafnanir meðal þjóðarinnar. Ný ríkisstjórn hefur boðað að miðþrep tekjuskatts einstaklinga skuli lækkað um 0,8% og spara launþegum þannig um fimm milljarða króna á næsta ári.  .... Þrátt fyrir að þjóðin sé orðin fullsödd af skattaáþján vinstri stjórnarinnar verður hreinlega að fresta fyrirhugaðri tekjuskattslækkun um eitt ár og láta fimm milljarðana renna til heilbrigðiskerfisins, en með því móti væri hægt að bjarga því frá hruninu sem annars er stórhætta á að verði.;

 

Og á þessu augnabliki hef ég engu við þau að bæta.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Erfitt verk fyrir höndum á lyflækningasviði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarvá af mannavöldum.

 

Krefst rannsóknar, ákæru, dóma.

 

Rök gerandanna, Steingríms og félaga verður að vitna í áunna og/eða meðfædda heimsku, að þeir hafi óvart gefið bankanna, að þeir hafi óvart skrifað undir ríkisábyrgð á uppgjöri Landsbankans við þrotabúið, að þeir hafi óvart gert þjóðina að mjólkurkú vogunarsjóða.

Stuðningsmenn þeirra munu trúa vörn Steingríms og félaga, sjálfir þurftu þeir að kyngja ómældu magni af áunni heimsku til að styðja óráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þó þau gengu gegn lífsskoðunum þeirra og pólitískri sannfæringu.

Eigendur mjólkurstöðvarinnar sem blóðmjólkar þjóðina munu kosta fjölmiðlafár Steingrími og félögum til stuðnings.

Og almenningur mun klóra sér í hausinn og reyna að halda áfram sínu daglegu amstri.

 

En lög og réttur er ekki pólitík, er ekki kostuð fjölmiðlaumræða peningavaldsins, íslenska dómskerfið sannaði sjálfstæði sitt þegar það kvað upp gengisdóm sinn, og EFTA dómurinn kvað upp dóm í ICEsave eftir gildandi lögum en ekki eftir tilmælum Brussel.

Lög og réttur mun rannsaka hagsmunina, og peningastreymið frá þeim til þeirra sem tóku ákvörðun um að selja þjóð sína.

Dómurinn mun síðan taka mið af alvöru málsins.

 

Enginn á að komast upp með að skapa þjóðarvá.

Núnar reynir á ákæruvaldið, sjálfstæði þess gagnvart lögbrotum framkvæmdarvaldsins.

Sjálfstæði sem er hornsteinn lýðræðisins.

Kveðja að austan.


mbl.is Dýrkeypt mistök eftir hrun hafi skapað þjóðarvá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir og eftir kosningar.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gagnrýndi harðlega síðustu ríkisstjórn fyrir stefnu hennar í ríkisfjármálum.

Niðurskurðarstefna hennar og skattahækkanir yllu keðjuverkun sem dýpkaði kreppuna og lengdi þann tíma sem það tæki efnahagslífið að taka við sig.

Sigmundur Davíð benti á afleiðingar slík stefna hefði haft á efnahag evruríkjanna og taldi það víti til að varast en ekki leið til eftirbreytni.

 

Til varnar ríkisstjórninni var Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra sem sagði að "stjórnvöld þurfi að ná tökum á skuldavandanum og vaxtakostnaði ríkissjóðs. „Það verður ekki gert nema með hallalausum fjárlögum,", takist það þá verði aftur hægt að byggja upp grunnþjónustuna.

Að vísu ef tilvitnunin hér að ofan ekki höfð eftir Steingrími Joð, nennti ekki að fletta upp á honum, notaði þess stað varnarræðu Sigmundar Davíðs fyrir þá sömu stefnu og hann gagnrýndi Steingrím svo harðlega fyrir á sínum tíma.

Sömu orð, sama stefna.  

 

Er þetta boðlegt í lýðræðisþjóðfélagi??

Er yfir höfuð lýðræði þegar stjórnmálamenn komast upp með ljúga sig svona til valda???

Ef Sigmundur hefur rétt fyrir sér núna, þá hafði Steingrímur rétt fyrir sér fyrir kosningar, og gagnrýni Sigmundar þar með ómerkilegt bragð til að láta kjósa sig í valdastóla.

Eða einhvers konar valdarán.

 

Eigi lýðræðið að lifa af þarf að setja lög sem bannar "fyrir/eftir" kosningar, þá væri ríkisstjórn Steingríms Joð með hreinan meirihluta og það væri hann sem mælti hin tilvitnuðu orð, að forgangsatriði stjórnvalda sé að ná tökum á skuldavandanum og vaxtakostnaði ríkissjóðs.

Sigmundur Davíð hefði ekki fengið mörg atkvæði því það eina sem hann hefði sagt í kosningabaráttunni, "ég er sammála Steingrími, ég er sammála ríkisstjórninni, kjósið mig til að framfylgja stefnu Steingríms".  Og fólk hefði að sjálfssögðu kosið manninn sem Sigmundur Davíð var svona sammála.

 

Það hefur ekkert breyst í þjóðabúrskapnum sem réttlætir umpólun Sigmundar Davíðs.

Hann er fyrsti forsætisráðherra landsins sem sannarlega hefur logið sig í embættið, og hann á ekki að komast upp með þann gjörning.

Annað ógnar ekki aðeins lýðræðinu.

Það ógnar þjóðinni.

 

Því það lifir engin þjóð af án heilbrigðiskerfis, en eyðing þess er bein afleiðing af lygum Sigmundar.

Það er allt í húfi.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Grunnþjónustan varin með hallalausum fjárlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Efnahagsbatinn hérlendis heldur áfram"

 

Segir Seðlabankinn.

Viðbrögð atvinnurekanda við fjárlagafrumvarpinu var gagnrýni á að stjórnarflokkarnir stóðu ekki við loforð sín um skattalækkanir.  Sérstaklega væri tryggingargjaldið íþyngjandi og það væri skýring á þeirri kyrrstöðu sem ríkti í efnahagslífinu.

Einn talar út á meðan annar talar suður.

 

Það er allavega ljóst að þjóðin lifir á fjárfestingum fyrri ára, og engin teikn eru á lofti um að hún ætli að fjárfesta fyrir framtíðina.

Arðurinn fer allur í vexti og verðbætur, ekkert í útsæðið sem verður uppskera framtíðarinnar.

Stefna sem gengur ekki upp til lengdar eins og hinir hungurdauðu geta borið vitni um.

 

Samt miðar allt í rétta átt segir Seðlabankinn, bankar duglegir að vísa fólki á götuna og yfirtaka fyrirtæki hins sjálfstæða smáatvinnurekanda.

Aðgerðir sem vissulega minnka vanskil en leggja drög að nýjum vanda.

Reiði.

 

Reiði sem er við það að springa.

Og meðan Exelinn mælir bata þá styttist óðum í uppgjör við þá veruleikafirringu sem segir að allt sé í lagi á meðan allt er að hrynja.

Innan frá.

 

Í fyrsta skipti frá Hruni er kominn dagsetning á þessi endamörk þolinmæðinnar.

Dagurinn sem fjárlagafrumvarpið verður samþykkt sker úr um hvort þjóðin losi sig við hina gjörspilltu stjórnmálastétt sem vílar sér ekki við að eyðileggja samfélag okkar að kröfu fjármagnsafla.

Eða hvort hún nái að framlengja líf sitt með því að gefa Landsspítalanum líflínu.

 

Það er mikið í húfi fyrir valdastéttina.

Hvort hún skynji það er annað mál.

 

En hún fær ekki annað tækifæri.

Kveðja að austan. 


mbl.is Vill stilla arðgreiðslum í hóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot (5956)
  • Screenshot (5957)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.10.): 98
  • Sl. sólarhring: 163
  • Sl. viku: 3560
  • Frá upphafi: 1494304

Annað

  • Innlit í dag: 90
  • Innlit sl. viku: 3040
  • Gestir í dag: 87
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband