4.11.2013 | 18:52
Á hvaða leið er Morgunblaðið á hundrað ára afmæli sínu??
Er það borgarlegt íhaldsblað sem á rætur sínar í kristilegri íhaldsstefnu eða er það pestarsnepill frjálshyggjunnar??
Sækir það styrk sinn til almennings eða til gjörspilltrar klíku auðmanna sem rændu þjóð sína öllu steini léttara, en létu hana sitja uppi með skuldir sínar.
Morgunblaðið verður að fara að gera það upp við sig því á allri fávisku eru takmörk.
Fyrir nokkrum dögum síðan las ég umfjöllun stráklings í viðskiptakálfi Morgunblaðsins þar sem hann taldi sig umkominn til að setja ofan í Alan Greenspan í tilefni af nýkominni bók hans sem fjallaði um upplifun Greenspan á fjármálahruninu haustið 2008, orsakir þess og afleiðingar. Stráksi fann það út að Greenspan væri ólesinn í peningafræðum, þekkti ekki algengastar kenningar um vexti og áhrif þeirra.
Mistök sem öllum stráklingum getur orðið á, að afhjúpa vanþekkingu sína og reynsluleysi, og fá þá í kjölfarið hirtingu frá sér eldri og reyndari mönnum. Sem nóg er af á viðskiptablaði Morgunblaðsins.
En þessi frétt sýnir að ekki var um mistök að ræða.
Trúboð í þágu hinna ofurríku hefur yfirtekið blaðið.
Það má endalaust deila um kosti og galla hárra skatta.
Ég persónulega tek undir með Göran Person, fyrrum fjármálaráðherra og síðan forsætisráðherra Svíþjóðar þar sem hann lækkaði hæstu skattprósentuna með þeim orðum að þjóðin hefði meira uppúr að nýta hæfileika ungs vel menntað fólks í þágu atvinnusköpunar en ekki í þágu skattaundanskota auðmanna.
Of há skattprósenta gagnast í raun mest þeim sem hafa efni á annars vegar að fá stjórnmálamenn til að setja lög um allskonar undanþágur, sem og að nýta sér þjónustu skattalögfræðinga, skattaendurskoðanda eða hvað sem þeir heita sem sérhæfa sig í löglegum skattsvikum.
En það er mín skoðun sem svo sem engin fræðileg úttekt liggur að baki.
En það er ekki sama hvernig sjónarmið eru sett fram.
Ef að baki er bull og bábiljur, þá setur fjölmiðill niður við að lepja vitleysuna hráa upp.
Sem Morgunblaðið sannarlega gerir í þessari frétt með tilvitnun sínum í þetta kostaða fyrirbrigði sem Cato stofnunin er.
Jafnvel maður sem myndi sérmennta sig í fávitafræðum myndi ekki láta þessi orð út úr sér.
"Ríkisútgjöld, í flestum tilvikum, draga úr hagvexti. Flestar rannsóknir sýna að ríkisútgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eigi að vera í kringum 20% en mín persónulega skoðun er sú að hlutfallið ætti að vera enn lægra,".
Því jafnvel hvaða fáviti sem er sæi að ef þetta væri satt að þá væru þau þjóðfélög sem juku ríkisútgjöld sín umfram 20% löngu liðin undir lok.
Samkeppni þjóðanna sæi til þess.
Þetta er of heimskt til að alvöru blaðamenn á Morgunblaðinu geti setið þegjandi undir þessu trúboði.
Æra þeirra og starfsheiður er í húfi.
Auk þess að þetta eyðileggur Moggann minn, blaðið sem ég hef núna lesið í rúmlega 40 ár.
Hvar er Styrmir, hvar er Matthías??
Núna er tími til kominn að hirta þann sem ábyrgðina ber.
Ritstjórann sjálfann.
Sumt einfaldlega má ekki.
Kveðja að austan.
![]() |
Háir skattar á ríkt fólk skaðlegir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.11.2013 | 18:14
Er Sigmundur Davíð að blekkja??
Liggur hjarta hans í raun hjá kröfuhöfum???
Hið víðáttumikla gap á milli orða og efnda ætti að kveikja á rauðum ljósum.
Velferðarkerfi auðmanna í boði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar Ísland, færir erlendum kröfuhöfum tugi milljarða í vexti svo þeir hafa engan hvata til að semja sig út úr stöðunni.
Þeir eru fyrir löngu búnir að fá fyrir harkvirðið sem þeir keyptu kröfur sínar á, og fá núna árlega senda ávísun sem er hreinn gróði af hinni upphaflegu fjárfestingu.
Til hvers ættu þeir að semja??
Ef orð væri að marka Sigmund, þá hefði hann strax gripið til aðgerða gegn þessu velferðarkerfi.
En hans fyrsta verk var að siga Vigdísi Hauksdóttir á ríkisstarfsmenn undir merkjum hagræðingarstefnu Steingríms Joð Sigfússonar.
Hagræðingarstefnu sem Sigmundur Davíð gaf beina falleinkunn á meðan hann var í stjórnarandstöðu.
Hvað veldur??
Sigmundi Davíð mælist vel.
En það er það eina.
Kveðja að austan.
![]() |
Búið of vel að kröfuhöfum bankanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.11.2013 | 14:52
Frjálshyggjupestin grefur um sig hjá Framsókn.
Fjósalyktin finnst ekki lengur, öll sveitalykt víðs fjarri.
Aðeins ódaunn frjálshyggjunnar.
Í anda hennar er ráðist á ríkisstarfsmenn eins og þeir séu afætur og ómagar á þjóðfélaginu.
Svo þeir ofurríku geti orðið ennþá ríkari, enda eiga þeir ekki ennþá allt.
Framsóknarflokkurinn lofaði mennsku og mannúð.
Vísaði í gömul gildi flokksins, gildi sem hann hafði gleymt eftir að hirðin kringum Halldór Ásgrímsson fann peningalyktina sem gaus upp við einkavæðingu ríkisbankanna.
Og flokkurinn var kosinn vegna þessara gilda, og vegna þess að hann snérist gegn skrímslahagfræðinni sem kennd er við auðrán og auðþjófa.
Sagt er að sumir séu ennþá hlæjandi á flokksskrifstofu Framsóknar, og yfirleitt er ekki fundafært á þingfundum flokksins vegna ósjálfráðra hláturkasta.
Það reyndist svo auðvelt að plata vonina, að fífla þjóðina.
Úrslit næstu kosninga skipta engu, pyngjur flokksmanna verða allar fullar áður.
Fullar af blóðpeningum.
Hverjum er ekki focking sama um kosningaloforðin.
Forkastanleg segir formaður SFR.
Og það er ekki of sterkt að orði komist.
Kveðja að austan.
![]() |
Ummæli Vigdísar forkastanleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.11.2013 | 01:28
Hver styður lygina??
Ég bara spyr.
Ekki fólkið sem gagnrýndi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir.
Núverandi ríkisstjórn hefur í einu og öllu framfylgt hennar stefnu.
Í þágu auðs og fjármagns.
Aðeins tvennt vekur furðu.
Annað er ekki fylgi Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Ben hlaut þennan stuðning í ICEsave svikum sínum.
Gamalt fólk, siðblint fólk, fólk auðs og valda studdi þá svikasamninga.
Það studdi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir, og styður enn, þá kjóli hafi verið skipt út fyrir jakkaföt.
Það sem vekur furðu er að Framsóknarflokkurinn mælist ennþá með fylgi.
Hvað þarf oft að ljúga til að lygi hætti að virka??
Dugar ekki ein hagræðingarnefnd, þarf aðra til?????
Hitt sem vekur furðu er fylgi eldri borgara landsins við stjórn eyðingar og hörmungar.
Hverjir gjalda fyrst óskadraums frjálshyggjunnar??
Er það ekki fólkið sem ekki er hagkvæmt að hjúkra??
Afar okkar og ömmur, eða ef við erum eldri en börn Frjálshyggjunnar??, feður okkar og mæður.
Tæplega 30% þjóðarinnar kýs yfir sig auðn og eyðileggingu.
Þar að eru ríkir um það bil 2% þjóðarinnar.
Hvað er að hinu fólkinu.
Fólkinu sem var á móti Steingrími og Jóhönnu??
Var rangt rétt þegar hið ranga sagði að nú myndi þeirra fólk fremja hervirkin???
Hvar er allt hið góða fólk sem barðist gegn AGS og ICEsave??
Útí þjóðfélaginu og hér á Moggablogginu??
Hvar er Davíð Oddsson???
Vill hann alltíeinu ESB maður vegna þess að Bjarni Ben yngri sagði að það væri í þágu auðs og fjármagns???
Hvar er sjálfstæðisbaráttan??, hvar er manndómurinn???
Dugði að skipta um ógæfufólkið eða var eina skilyrði Morgunblaðsins að þeir sem seldu landið , hétu Bjarni og væru synir Benedikts??
Þjóðin gaf rauða spjaldið í síðustu kosningum.
Mogginn hélt uppá hundrað ára afmæli sitt með því að ljúga.
Að ICEsave væri rétt, að aðild að ESB væri lausnin.
Að fjármagn sigraði sannfæringu, að Útgefandinn sigraði Ritstjórann.
Að Davíð væri ekki Steingeit.
Að lygin sigraði allt.
Nema kannski sannleikann??
Kveðja að austan.
![]() |
Ríkisstjórnin aldrei óvinsælli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.10.2013 | 10:03
Heimili in memorium.
Verður grafarskrift ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Báðir ríkisstjórnarflokkarnir höfðu metnaðarfullar áætlanir um aðgerðir í þágu heimilanna.
Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði með ýmsum tilfæringum úr ríkissjóði að lækka höfuðstól lána um allt að 20% og Framsóknarflokkurinn ætlaði að ná sama árangri með því að semja við kröfuhafa þrotabúa gömlu bankanna um að þeir létu hluta af krónueign sinni í sjóð sem yrði nýttur til að lækka verðtryggð lán fólks.
Efndirnar reyndust síðan þær að skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins þýddu 20% lækkun á greiðslubyrði lána manns með 800 þúsund í mánaðarlaun, ef greiðslubyrði hans nam 20 þúsund á mánuði. Það fylgdi ekki sögunni hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði auglýst eftir viðkomandi manni, líklegast hefur hann ekki verið til.
Fjögur þúsund krónur í skattalækkun af 800 þúsund króna mánaðartekjum var allt sem Sjálfstæðisflokkurinn gat boðið uppí sín stóru kosningaloforð.
Og þar með eru efndir ríkisstjórnarinnar upptaldar.
Blæðandi heimili komu henni til valda, blæðandi heimili munu ekki endurtaka þann leik.
Ekki vegna þess að útilokað sé að þau láti ekki aftur platast, heldur vegna þess að þeim hefur blætt út.
Hrakfarir Framsóknarflokksins í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hafa verið með þeim þvílíkum endemum að í raun er ekki einleikið.
Tónninn var sleginn með stofnun Hagræðingarnefndarinnar svokölluðu, svipu Vigdísar Hauksdóttur á meinta ofsækjendur sína, nefndar sem ekki var minnst orði á í kosningabaráttunni en átti að halda áfram þar sem Steingrímur varð að gefast upp við að skera niður í ríkisrekstri. Eins og svarið við Steingrími væri ýkt útgáfa af Steingrími.
Síðan var skipuð nefnd til að koma með tillögur um skuldaleiðréttingar heimilanna, og þar með viðurkennt að engin innistæða hefði verið að baki kosningaloforða flokksins, menn hefðu ekki haft græna glóru hvernig ætti að framkvæma þau. Til þeirrar nefndar hefur ekki spurst síðan, nema hún er sögð vera skoða allar tillögur, ítarlega, vandlega, ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardótturlega.
Loks var uppgjöf flokksins staðfest þegar forysta flokksins sagði ekki orð þegar formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því yfir að ekkert væri í hendi í viðræðum við kröfuhafa, enda hefðu engar viðræður farið fram. Seinna kannski seinna, en seinna er ekki lækning handa þeim sem er að blæða út.
Endemin eru með þvílíkum endum að þau eru ekki einleikin.
Og fólkið sem barist hefur fyrir nýju og betra Íslandi þarf að fara að íhuga það.
Ríkisstjórnin fékk tækifæri og frið frá almenningi, og stjórnarandstöðu til að setja fram tillögur til lausnar á helstu vandamálum þjóðarinnar. Hún var sannarlega ekki bögguð á fyrstu mánuðina eftir að hún tók við.
Það er því athyglisvert að þegar fólki fór að lengja eftir aðgerðum, eða þó væri ekki nema tillögur að aðgerðum, að þá reyndist forsætisráðherra staddur í Kanada skálandi við þarlenda Íslendinga og það næsta sem heyrðist í honum var viðtal í erlendri fréttaveitu þar sem hann í anda Jóhönnu Sigurðardóttur mærði íslensku endurreisnina og þann árangur sem hefði nást undir dyggri leiðsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ekki nýtt ef aðeins er horft á embættið "forsætisráðherra Íslands", en nýtt fyrir þann einstakling sem þarna tjáði sig, því Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði verið einn harðskeyttasti gagnrýnandi á fullyrðingar fyrirrennara sína um árangur stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Ennþá athyglisverðara er að þegar fjármálaráðherra flutti líkræðu á Alþingi yfir loforðum Framsóknarflokksins í skuldamálum heimilanna að þá var forsætisráðherra í fríi á Flórída. Það fyrra gat verið tilviljun, en endurtekningin ekki.
Það er enginn svona mikill auli.
Ef við hefðum verið stödd í einhverju ríki Suður Ameríku á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar, þá vissum við svarið. Enn einn keypti Gosinn hefði afhjúpað sig, ríkari á kostnað þjóðarinnar sem hann sveik, í þágu þeirra sem maka krókinn á spillingu og óráðssíu.
En hið augljósa er ekki alltaf augljóst á Íslandi.
Það sannar hinn almenni sjálfstæðismaður sem gegnst núna með bros á vör undir stefnu Steingríms Joð Sigfússonar eins og enginn hafi verið gærdagurinn með allri fordæmingunni á hinni sömu stefnu.
Það sannar ritstjóri Morgunblaðsins sem í ótal leiðurum hélt því fram að skattahækkanir síðustu ríkisstjórnar hefðu kæft allan vöxt og viðgang í efnahagslífinu en kallar núna núll komma eitthvað prósent skattalækkun upphaf af endurreisn. Ef það seinna er rétt þá var hið fyrra rangt því hin meinta skattpíning hefur ekki verið dregin til baka.
Það sannar hið íslenska andóf sem núna nær að sameinast um hatrið á Sjálfstæðisflokknum líkt og hann hafi verið í síðustu ríkisstjórn og bæri ábyrgð á öllu því sem hefði verið gert eftir Hrun.
Svo það þarf ekki að vera að Framsóknarflokkurinn hafi verið svar vogunarsjóðanna við kröfu heimilanna um skuldaleiðréttingu, skýringin á því sem er ekki einleikið, getur verið hreinn aulaskapur, vanhæfs fólks sem veit ekki hvað það er að gera.
Sem skiptir ekki máli, það er verið að þrælka þjóðina í dag.
Fyrirtæki og heimili eru rúin eigin fé, allar umfram tekjur þeirra fara í vexti og afborganir á tilbúnum hækkunum lána.
Og stjórnmálastéttin ætlar ekkert að gera í því.
Hvort sem hún er keypt eða algjörlega vanhæf.
Hún mun engu breyta, hún fékk sitt tækifæri í síðustu kosningum, hún fékk meðbyr til aðgerða, en hún þorði ekki gegn valdi fjármagnsins yfir íslensku þjóðlífi.
Það eina sem eftir stendur er vonin um Nýtt og Betra Ísland.
Sú von lifir í hjörtum okkar flestra, líka hjá þeim sem í afneitun halda að flokkarnir þeirra munu eitthvað gera, einhverju breyta.
Við erum í raun samherjar, ekki andstæðingar.
Við erum þjóðin sem vill gott samfélag, manneskjulegt samfélag.
Við vorum alin þannig upp, þannig ölum við börnin okkar upp.
Mistök voru gerð, mistök hafa verið gerð.
Við fáum því ekki breytt.
Það eina sem við sjálf fáum breytt, er viðhorfum okkar gagnvart því sem þarf að gera.
Hvort við stígum fram og reynum sjálf, eða hvort við höldum okkur til hlés og treystum á aðra.
Annað er ekki á okkar valdi.
Við höfum veturinn í vetur til að gera upp við okkur hvort við trúum á vonina, eða hvort við sættum okkur við vonleysið, að það fari eins og það fari.
Það er þetta eina litla orð; "TRÚ", sem á milli ber.
Ef við höfum ekki Trú á lífið og framtíðina, munum við ekkert gera.
Því trúlaus maður fær engu breytt.
Það er auðvelt að gagnrýna, það er erfitt að trúa.
Þar er efinn sem við þurfum öll að takast á við.
Og framtíð barna okkar veltur á þeirri glímu.
En því miður er engin önnur lausn.
Kveðja að austan.
19.10.2013 | 07:42
Aukin þekking skilar arði.
Sannað mál eins og sveitungur minn Sigurjón Arason bendir réttilega á í þessari frétt.
Án þekkingaröflunar, og þróun aðferða til að nýta þá þekkingu, eru engar framfarir, er enginn vöxtur, er engin velmegun.
Aðeins stöðnun og afturför.
Litlu börnin okkar sem af einhverjum ástæðum tókst að ljúga sig inní stjórnarráðið leggja mikla áherslu í ræðum sínum og stefnuyfirlýsingum á uppbyggingu, viðreisn, endurreisn, sóknir framá við eða hvað orð það er sem ræðuskrifari þeirra leggur þeim í hvað og hvað sinnið.
En að hætti lítilla barna þá skilja þau ekki merkingu þessara orða, og þar með þær forsendur sem að baki búa þessum orðum.
Sem aftur skýrir að þau geta kinnroðalaust lýst fjárlagafrumvarpi sínu sem upphaf endurreisnar þó það sé markað feigðinni.
Feigð heilbrigðiskerfisins, feigð rannsókna, feigð vaxtasprota, feigð grósku.
Það er það fyndna við núverandi ríkisstjórn.
Hún skilur ekki sína eigin stefnu.
Kveðja að austan.
![]() |
Aukin þekking skilar arði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.10.2013 | 08:49
Fallegt fólk.
Á Stöðvarfirði trúir á lífið, trúir á framtíðina.
Það skapar, það býr til, það skilur hvað felst í gróandanum.
Og grósku.
Sköpun, menntun, áræðni, mynda frjósaman jarðveg fyrir nýjar hugmyndir, sem aftur er forsenda framfara og velmegunar.
Mannsandinn er upphaf og endir alls mannlífs, dafni hann, þá dafnar mannlífið.
Ljóta fólkið sem ræður landinu, trúir á fjármagnið, og stuðlar að vöxt þess og viðgangi.
Að fjármagnið skapi forsendur velmegunar og vaxtar.
Þess vegna hlúir það að fjármagninu, prentar peninga til að greiða því vexti, hrekur konur og börn á vergang svo það fái blóð til að nærast á, sker niður vaxtarsprota og gróskuna, ræðst að menntun og heilbrigðiskerfinu, svo allur arður og afrakstur verðmætasköpunar renni í æðar fjármagnsplöntunar sem ættuð er úr Litlu Hryllingsbúðinni.
Því meira blóð úr samfélaginu, því öflugri er fjármagnið, og að lokum lifir það sjálfstæðu lífi, telur sig komast af án samfélags.
Orrustan um Ísland er átök milli fallega fólksins og ljóta fólksins.
Ljóta fólkið ræður, en fallega fólkið ræktar vonina.
Græðir þar sem krumlur fjármagnsins hafa eytt.
Ljóta fólkið ræður vegna þess að því tókst að telja okkur í trú um að við værum líka ljót, gráðug og án samúðar. Og að lífsbjörg okkar væri háð blóði sem nærði fjármagnsófrekjuna.
Samt erum við falleg, alveg satt.
Við gætum ekki alið af okkur þessi fallegu börn ef við værum ekki sjálf falleg.
Þá staðreynd getur ljótleikinn aldrei skyggt á.
Spurningin er því, af hverju látum við platast??
Af hverju látum við ljótleikann sjúga allt blóð úr samfélaginu??
Af hverju látum við ljótleikann gera spegilmynd okkar ljóta??
Það er nú það.
Kveðja að austan.
![]() |
Brjálæði á einhvern hátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.10.2013 | 17:37
Stjórn hinna sviknu loforða.
Verður eftirmæli þessarar ríkisstjórnar sem mun ekki halda út þetta kjörtímabil.
Öll stefna hennar í efnahagsmálum er sannprófuð mistök Evrópusambandsins, kennd við hagræðingu og hallalaus fjárlög.
Mistök sem hafa leikið lönd Evrópusambandsins grátt og munu leika sama leikinn hér.
Rótin er sú meinloka að líta á gjaldmiðil sem verðmæti í stað viðskiptavaka sem hann er.
Evrópa hefur ekki séð viðlíka fátækt og ömurleika í 80 ár, og ef ekki nyti til matargjafa Rauða Krossins og annarra hjálparsamtaka, þá væri hungursneyð í fátækrarhverfum álfunnar.
Og þegar efnahagsstefnan er sannarlega sannað klúður, sannað af sögunni og ekkert lýðskrum og bull stjórnmálamanna fær því breytt, þá reynir á trúverðugleika ríkisstjórnarinnar.
Að almenningur gefi henni tækifæri til að reyna, til að bæta úr.
Viðleytni til að standa við stór kosningaloforð hefur þar mikið að segja.
Sjálfstæðisflokkurinn lofaði auknum vaxtabótum og skattaafslætti þannig að húsnæðislán lækkuðu í raun um 20%.
Þetta fullyrti varaformaður flokksins í kosningabaráttunni, bæði í sjónvarpinu og í grein í Morgunblaðinu. Aðrir flokksmenn tóku undir þetta loforð þó enginn gæti útskýrt með vitrænum hætti hvernig slík útgjöld færu saman við kröfuna um hallalaus fjárlög.
Og þetta loforð breytti úrslitum kosninganna, fylgi Framsóknarflokksins drógst saman, og Sjálfstæðisflokkurinn fór fram úr honum á lokamínútunum.
Þar sem flokkurinn hefur ekki gert tilraun til að standa við þetta loforð sitt þá er ljóst að bein lygi kom honum til valda.
Og þessi lygi hefur líka kæft stefnu Framsóknarflokksins gagnvart skuldamálum heimilanna.
Það liggur við að grunur vakni að fjarvera Sigmundar Davíðs sé ekki fjarvera, heldur hafi hann flúið land, að hann þori ekki lengur að láta sjá sig meðal þjóðarinnar.
Því það var Sigmundur Davíð sem vakti væntingar, og það var hann sem sagðist ætla að gera.
Seinna en hann ætlaði, en samt átti að tilkynna aðgerðir ríkisstjórnarinnar í nóvember, sem nálgast óðfluga.
Svik á svik ofan eru gjörðir þessara ungu manna sem létu fagurgalann svífa með sig í stjórnarráðið.
Svik að hætti ómerkilegustu lýðskrumara.
Svik sem vega að lýðræðinu og lýðveldinu.
Íslenska þjóðin er ekki þjóð prinsippa og gæti kyngt þessum svikum ef buddan legði það til.
En ekki er líklegt að efnahagsstefna Evrópusambandsins virki öðruvísi hér en í öðrum löndum.
Veturinn verður því erfiður fyrir Stjórn hinna sviknu loforða.
Það verður sótt að henni úr öllum áttum.
Tími hefndar er runnin upp hjá vinstrimönnum, aðþrengdur almenningur mun krefjast aðgerða.
Og ríkisstjórnin mun ekki standast það álag. Undanhald verður á öllum vígstöðvum.
Hvort hún springi eða verður lifandi lík eins og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er önnur saga.
Fer eftir því hvað hentar húsbændum hennar.
Mönnunum sem eiga eftir að flytja öll verðmæti úr landi.
Skýrist en skiptir engu.
Ríkisstjórnin hefur misst allan trúverðugleik.
Aðeins hörðustu flokkshestar munu verja hana.
En þjóðin mun fyrirlíta hana.
Ríkisstjórn sem sveik.
Kveðja að austan.
![]() |
Skuldamálin ekki kláruð fyrir jól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.10.2013 | 09:28
Rússnesk rúlletta leikin í Washington.
Sem segir tvennt um ástand mála í þessum fyrrum forysturíki hins vestræna heims.
Það fyrra afhjúpar sjúkt ástand í stjórnkerfinu, því rússnesk rúlletta er ekki ástunduð af heilbrigðu fólki.
Það seinna felst í eðli rúllettunnar, því oftar sem hún er leikinn, því meiri líkur eru á hinu banvæna skoti.
Eftir 30 ára Friedmanisma eru Vesturlönd á heljarþröm, siðferðislega, fjárhagslega.
Misskipting, ójöfnuður, skuldadíki, veikluð framleiðsla
Yfirvofandi eru stéttarátök og uppgjör.
Það lætur enginn níðast á sér til lengdar, ekki einu sinni þrællinn.
Enginn hefði spáð þessu fyrir 30 árum síðan.
Að vísu voru til áhugamenn um heimsendaspár, sem vitnuðu í forna spádóma, jafnt Nostradamus sem og Opinberunarbókina. En mér er til efs að nokkur hafi tekið mark á þeim, hvorki þeir eða aðrir.
Samt er besta lýsingin á Fjármálahruninu mikla haustið 2008 skrifuð að Nostradamusi á fyrri hluta 16. aldar.
Ef hagkreddan er tekin út úr Friedmanismanum, stendur eftir siðferðisleg auðn sem samsvarar mjög lýsingum Opinberunarbókarinnar á þeim óskapnaði sem hermt er uppá þann í neðra.
Það er sláandi hvernig fornar skræður ná að lýsa atburðum líðandi stundar.
Það liggur við að þær taki fram draumspökum Íslendingum.
Og þær greina hina undirliggjandi strauma mun betur en fréttaskýrendur nútímans, sem lýsa atburðum, en ekki þeim forsendum sem knýja þá áfram.
Þeir lýsa rúllettunni í Washington sem deilum um fjárlög, um skuldir, um völd, en átta sig ekki á hinni undirliggjandi úrkynjun sem býr að baki hugmyndaheimi þeirra sem hóta heimsbyggðinni fjárhagslegum hamförum ef löglega kjörin stjórnvöld láta ekki af vilja þeirra um að afturkalla skyldutryggingar fyrir fátæka samborgara þeirra.
Þessi siðferðislega úrkynjun var síðast færð til tals af hópi manna í Mið Evrópu sem sannfærðu stóran hóp samlanda sinna um að kjósa sig því þeir ætluðu að byggja velmegun þjóðarinnar á undirokun "frumstæðra" nágrannaþjóða þar sem það átti að útrýma helmingnum en þrælka hinn.
Heimurinn tók það ekki alvarlega en það en hann hélt Ólympíuleika í höfuðborg viðkomandi ríkis.
Síðan fóru hlutirnir eins og þeir fóru.
Hvort hlutirnir fari eins núna, veit tíminn einn.
Sem og hinar gömlu skræður, það er ef þær grísast áfram að segja þokkalega rétt fyrir um atburðarrásina.
Hvort það eigi að trúa þeim er önnur saga.
En hver hefði trúað því fyrir um 30 árum síðan að íslenska þjóðin kysi yfir sig vanþroskuð börn, gerð út af fólkinu sem sannarlega rændi landið okkar, og þeirra helsta takmark í lífinu væri að eyðileggja endanlega heilbrigðiskerfið sem áar okkar voru svo stoltir af, enda forgangur í hundrað ár.
Hver hefði trúað því að við leyfðum þjófum að bera út börn í þúsunda tali án þess að lyfta litla fingri þeim til varnar. Og létum innanríkisráðherra komast upp með að vísa í lögvörð réttindi fjármálastofnanna, svona í ljósi fyrri gjörða viðkomandi stofnanna, hvort sem það eru hin ólöglegu lán eða búsifjarnar sem þau ollu þjóðinni með vitfirrtri útþenslu sinni.
Hver hefði trúað því að Steingrímur Joð Sigfússon færi í fararbroddi félagshyggjufólks við að vinna skítverkin fyrir innheimtustofnun hins alþjóðlega braskarafjármagns, AGS, og að hann myndi ekki víla sér við að setja þjóð sína skuldahlekki ICESave og erlendra krónueigna. Og nyti til þess stuðnings mannkynsfrelsara vinstri elítunnar.
Engu að þessu hefði maður trúað fyrir nokkrum árum síðan. Aðeins hrósað viðkomandi fyrir mikið hugmyndaflug og farið síðan að ræða við hann um Skottur og Móra.
En það sem var svo ólíklegt, að það var ekki einu sinni ólíklegt, heldur algjör fjarstæða, gerðist samt.
Sem aftur gerir það að verkum að ég er hættur að hlæja að hinum gömlu skræðum, vona aðeins að þær lýsi ekki því sem koma skal.
Það er mikill munur á að vona, og að brosa að einhverju.
Það eru alvarleg teikn á lofti, og ef ekki er brugðist við í tíma, þá verður orðið heljarþröm ekki lengur notað til að lýsa ástandinu á Vesturlöndum.
Eða í heiminum öllum.
Ógnaröfl haturs og vonsku hafa lausan taum.
Hvort sem þau ógna Landsspítalanum eða þau neita fátækum fólki um heilbrigðisþjónustu í voldugasta ríki heims.
Eða friði og stöðugleika í Evrópu með verndun evrunnar á kostnað samfélaga.
Í dag er ástandið þannig á Íslandi að litli fingur er orðinn þyngri en bjarg, fólk fær honum ekki bifað.
Fólk verndar ekki samfélag sitt eða framtíð barna sinna.
Skilur ekki gildi samstöðu eða samfélagslegra gilda.
Áttar sig ekki á að við erum öll á sama báti, en ekki á mörgum fleyjum þar sem hvert og eitt keppist við að komast af, ef ekki á kostnað hinna, þá án þess að leiða hugann að örlögum þeirra sem eru í neyð, eða hafa þegar horfið undir yfirborð glundroðans.
Í ólgusjó kemst slíkur bátur ekki að landi.
Ef ekki er reynt að bjarga öllum, þá farast allir.
Því örlög okkar eru samtvinnuð.
Vogunarsjóðirnir voma yfir.
Þeirra menn stjórna.
Rússneskri rúllettu um framtíð barna okkar.
Og við náum ekki að hreyfa litla fingur.
Kveðja að austan.
![]() |
Lögin samþykkt og staðfest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.10.2013 | 13:55
Hatrið.
Gegnsýrir bandarísk stjórnmál.
Hatur út í allt sem viðkemur jöfnuði, réttlæti, bræðralagi.
Hatur útí hina kristnu lífspeki, að þú eigir að gæta bróður þíns.
Hundheiðið fólk, dýrkendur skurðgoðsins Mammons, sídansandi kringum gullkálfinn, heldur bandarísku þjóðinni í heljargreipum.
Hótar henni gjaldþroti ef stjórnvöld voga sér að tryggja fátæku fólki læknisþjónustu.
Yfirskinið er að það gæti minnkað aurinn í fjárhirslum hinna ofurríku, en það yfirskin er aðeins þunn silkiklæði yfir rauðglóandi heiftina að stjórnvöld skuli voga sér að reyna að uppfylla skyldur siðaðs stjórnvalds.
Að líta eftir þeim sem minna mega sín.
Deilan, sem kölluð er deilan um skuldaþakið, afhjúpar hina raunverulegu deilu, hin raunveruleg átök sem eiga sér stað í heiminum.
Átökin um sjálfa siðmenninguna. Átökin milli lífs og taumlausrar græðgi. Átökin milli mennsku og mannvonsku.
Átökin sem varða sjálfa framtíð mannsins hér á jörð.
Átök sem eru á milli þeirra sem trúa að þeir eigi að gæta bróður síns, og þeirra sem segja að þú eigir ekki að gæta bróður þíns, gæti hann sín ekki sjálfur, þá megi hann deyja drottni sínum.
Deilan um skuldaþakið mun leysast á einhvern hátt.
Hún er aðeins upphitun, hún er aðeins hugsuð til að fylkja liði.
En niðurbrot samfélaga, niðurbrot velferðar og velmegunar heldur áfram, af sívaxandi skriðþunga.
Ginnungagapið, sem við sjáum í aukinni fátækt, vaxandi matarbiðröðum, einkavæðingu velferðarþjónustu, síaukinni hlutdeild þrælabúða í framleiðslunni, sýgur alltaf meira og meira af forsendum friðar og stöðugleika til sín, þar til ekkert er eftir en skjaldarenndur og spjótaglamur .
Líkt og í Sýrlandi í dag.
Sýrland er ekki eyland.
Sýrland er það sem mun verða.
Óhjákvæmileg afleiðing af yfirráðum Mammonsdýrkenda yfir vestrænum samfélögum.
Og Sýrland er við sjóndeildarhringinn ef horft er til hafs.
Tímaglasið er að renna út.
Nóvember er týndur.
Lögvarðir hagsmunir fjármálafyrirtækja er stefna stjórnvalda.
Stefna haturs og Útburðar.
Sem endar í vargöld, vígöld.
Það er sú framtíð sem við kusum börnum okkar.
Vænna en það þykir okkur ekki um þau.
Kveðja að austan.
![]() |
Hættir ríkissjóður að borga? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.10.): 89
- Sl. sólarhring: 220
- Sl. viku: 3551
- Frá upphafi: 1494295
Annað
- Innlit í dag: 82
- Innlit sl. viku: 3032
- Gestir í dag: 80
- IP-tölur í dag: 78
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar