17.4.2019 | 08:28
Orkan okkar er auðlind.
Og hvað felst í því að hún sé auðlind??
Því svarar Þórólfur Gíslason svo ekki verður betur gert í þessu viðtali þar sem hann gagnrýnir hugmyndafræðina við þjóðarsjóðinn.
Arðurinn kemur frá samfélaginu, samkeppnishæfni þess og lífskjörum almennings;
"Þórólfur bætir við að nýta þurfi auðlindirnar skynsamlega, og þar með raforkuna því hún þurfi að vega upp á móti öðrum kostnaði sem Íslendingar hafi af vörum og flutningi og slíku. Því finnst mér miklu eðlilegra að fallorkan sé nýtt til að auka samkeppnishæfni samfélagsins og fyrirtækja og auka kaupmátt almennings, frekar en að ríkið sé með orkuna á sínum vegum að gera einhvern sjóð sem ég hef miklar efasemdir um að menn hafi einhverja stjórn á, og ætli að láta verða einhvern öryggissjóð. Ég held að þetta verði bara einhver framkvæmdasjóður. Við höldum ekki kaupmætti uppi í samfélaginu nema samkeppnishæfni samfélagsins sé í lagi, segir Þórólfur.".
Við erum eyja langt frá öllum mörkuðum og við erum fámenn, náum því sjaldnast einhverri stærðarhagkvæmni.
En eyjan okkar er gjöful, hreint vatn, hreint loft, hrein orka. Og þær gjafir eigum við að nýta til hagsældrar allra, ekki aðeins þeirra Örfáu sem hafa fjármuni til að kaupa upp stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka, og fá þá til að setja þessi gæði í einkaeigu, svo hægt sé að mjólka okkur hin fyrir að nýta þessi gæði.
Þá verður byggðabrestur því kostirnir eru farnir en ágallarnir fara ekkert.
Hugmyndin um þjóðarsjóðinn er angi af þeirri hugmyndafræði að orkan sé ekki auðlind, heldur vara, og arðsemi hennar felist í því verði sem hægt er að fá fyrir hana.
Gróska mannlífs, gróska atvinnulífs, velmegun og velsæld fjöldans er ekki mæld þegar sú arðsemi er metin.
Eða sú staðreynd að núverandi fyrirkomulag hefur skilað almenningi hagstæðasta rafmagnsverði miðað við kaupmátt sem þekkist í vestræna heimi.
Nei, það vantar samkeppni, líklegast til að hækka verð til almennings svo hægt sé að bjóða stærri kaupendum lægra verð. Svipað og við sjáum með flutningana þar sem almenningur borgar afslætti stórfyrirtækja með hærri flutningsgjöldum.
Og samkeppni sem lækkar verð á höfuðborgarsvæðinu en hækkar í hinum dreifðu byggðum, er samkeppni sem elur á sundrungu og sundurlyndi.
Svo vitnað sé í iðnaðar og nýsköpunarráðherra í nýlegu útvarpsviðtali;
"Það sem er jákvætt úr þessum orkupakka er að fyrsti og annar orkupakki opnuðu fyrir samkeppni á þessum markaði og ég er almennt hrifinn af samkeppni og nú er það í umræðunni að raforkuverð hafi hækkað, það er ekki rétt. Dreifikostnaður raforku hefur hækkað, það skýrist aðallega að fjárfestingarþörf á dreifingarkostnaði á landsbyggðinni. Það sem gerist með þessu er að það er búið að skilja á milli framleiðslu á rafmagni, flutningi á rafmagni og dreifing á raforku og sala á raforku. Áður var þetta allt í sömu súpu og neytendur vissu ekki hvað kostaði hvað. Núna vitum við hvað kostar að dreifa raforku, hvað kostar að flytja raforku, og hvað raforkan sjálf kostar. Og það er samkeppni hérna í sölu á raforku."
Hún sem landsbyggðarþingmaður er stolt af þeirri hækkun á raforku í hinum dreifðu byggðum sem varð í kjölfar innleiðingar á orkupökkum Evrópusambandsins, og hún vill skerpa á þeirri hækkun.
Hjálpa þannig til að ganga að innlendri matvælaframleiðslu dauðri, allt í nafni gagnsæis og samkeppni.
Hugsar ekki á móti að fyrst við erum ekki ein þjóð í nafni samkeppninnar, að þá þurfa bændur ekki að láta land sitt endurgjaldslaust fyrir raflínur til höfuðborgarsvæðisins, eða við sem framleiðum gjaldeyrinn eigum þá líka að njóta markaðslögmálanna, og fá að ráða því hverjum við afhendum gjaldeyrinn, og á hvaða verði.
Því ef markaðslögmálin ganga í báðar áttir, þá býðst höfuðborgarbúum ekki lág orka, heldur rándýr orka, og grundvöllur verslunar og þjónustu er horfinn, því innspýtingin, gjaldeyririnn verður seldur dýrum dómi.
Það er nefnilega ekki þannig að það sé bara hægt að selja landsbyggðinni allt á samkeppnisverði og hún láti allt í staðinn á kostnaðarverði, frumskógarlögmálin og sérhyggjan gilda þá í báðar áttir.
Af hverju vildu forfeður okkar ekki svoleiðis þjóðfélag??
Ætli það sé ekki það vit að hafa séð hvað kynnti undir ólgu og átök í Evrópu í hundruð ára, og við sjáum víða í Afríku í dag þar sem barist eru um auðlindir. Eða í múrunum í kringum hverfi ríkra í Mið og Suður Ameríku þar sem fólk lifir í stöðugum ótta við þá sem voru skildir eftir í fátækt og örbirgð sérhyggjunnar.
Samkennd og samhygð er nefnilega forsenda velmegunar og velferðar.
Og friðar.
Friðar.
Rjúfum ekki friðinn þó einhverjir auðmenn geti orðið ríkari fyrir vikið.
Þeir eru ekki þjóðin.
Höldum sátt um það sem hefur reynst okkur svo vel.
Annað er ógæfan ein.
Kveðja að austan.
![]() |
Gagnrýnir þjóðarsjóðinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.4.2019 | 18:11
Grundvallarhagsmunir þjóðarinnar.
Er að orkuauðlindir hennar séu sameign þjóðarinnar.
Að þær lúti forræði hennar að fullu.
Og þær séu nýttar til að skapa velmegun og hagsæld innanlands en ekki til að bæta neytendavernd í Þýskalandi eins og eina röksemd Viðreisnar í þessu máli er.
Orkutilskipanir Evrópusambandsins ganga gegn öllum þessum lykilatriðum svo þeir sem berjast fyrir innleiðingu þeirra ganga annarra erinda en þjóðarinnar.
Þeir ganga erinda auðmanna sem ásælast orkufyrirtæki okkar sem og hina óbeisluðu orku.
Þeir ganga erinda Evrópusambandsins sem sárlega vantar græna orku til að bæta kolefnisbókhaldið sitt.
Þeir ganga erinda hræðslunnar og óttans, þeirrar minnimáttarkenndar sem sífellt nagar og segir að við getum ekki ráðið málum okkar sjálf, við getum ekki verið sjálfstæð þjóð.
Og þessir þeir eru stjórnmálastétt þjóðarinnar eins og leggur sig, með heiðvirðum undantekningum eins og Ingu Snæland, formann Flokks fólksins, og Sigmundar Davíðs, formanns Miðflokksins.
Hvað veldur?
Hví getur það verið metnaðarmál stjórnmálanna að rjúfa griðinn við þjóðina, og koma auðlindum hennar undir erlend yfirráð??
Af hverju að rjúfa þá hundrað ára gamla sátt, milli vinstri og hægri, milli ríkra og fátækra, milli höfuðborgar og landsbyggðar, að orkan okkar sé sameign, hún sé auðlind, og til hennar sækjum við hita og rafmagn á sem hagkvæmasta hátt, svo allir, og þá meina ég allir, óháð efnahag, geti kynnt og lýst upp hýbýli sín.
Sama sátt og var um heilsugæslu fyrir alla, óháð efnahag, um menntun fyrir alla, óháð efnahag.
Hvernig ætla þessir sömu stjórnmálamenn að hitta gamla fólkið og tjá því að innan ekki svo margra ára þurfi þeir að bæta neytendavernd í Þýskalandi með því að margfalda orkuverðið og því sé það gott fyrir það að kaupa sér lopa í tíma og prjóna á sig föðurland og lopapeysur.
Því ekki getum við gert eins og Norðmenn í sömu aðstæðum, farið út í skó og höggvið í eldinn.
Hvílík framtíðarsýn í landi ís og kulda að spóla tímann hundrað ár aftur á bak og eyðileggja það sem best er heppnað í landi okkar.
Eða hvað ætla þeir að segja við fólkið sem missir vinnuna þegar orkan verður markaðsvædd, að það sé göfugt að fórna sér fyrir málstaðinn?? Söngla svo bless, bless stóriðja, bless bless gróðurhús, halló innflutningur, halló atvinnuleysi.
Eða eru þeir svo lygnir og ómerkilegir að þeir kannast ekki við afleiðingar gjörða sinna.
Fyrst þeir geta logið því að EES samningurinn sé í hættu ef þjóðin virkjar ákvæði hans um að hafna tilskipunum sem ganga gegn grundvallarhagsmunum hennar, og var sett í þann sama samning einmitt ef svona tilvik kæmu upp í framtíðinni, þá geta þeir örugglega logið að þeir hafi ekki vitað betur.
Tönglast svo á hinum svokölluðum fyrirvörum sem þeir setja, án þess að geta nefnt eitt dæmi að einhliða fyrirvarar hafi haldið þegar regluverk Evrópusambandsins er annars vegar. Enda eitthvað svo augljóst að einn markaður krefst einnar reglu, ef hann á að virka.
En þeir átta sig ekki á því að með því að leggja svona gífurlega áherslu á hina meintu fyrirvara, þá eru þeir í raun að játa markaðsvæðingu orkunnar, einkavæðingu hennar og sölu hennar um sæstreng með tilheyrandi hækkun á rafmagnsverðinu.
Því þú þarft ekki að setja fyrirvara ef ekkert er að óttast.
Það er tímabært að verja hagsmuni Íslands, segir Sigmundur Davíð, og það er kjarni málsins.
En af hverju þurfum við alltaf að verja hagsmuni landsins gagnvart svikuli stjórnmálastétt, sem stöðugt gengur erinda annarra en þjóðarinnar??
Af hverju þessi stöðuga varðstaða gegn henni??
Fyrst skuldaklafar ICEsave samninganna, núna orkan.
Að ekki sé minnst á alla innviðina sem eru látnir grotna án nokkurs sýnilegs tilgangs, öðrum en þeim að valda tjóni og skaða, líklegast til að réttlæta einkavæðingu þeirra seinna meir.
Þegar allt þetta er lagt saman, blasir við einarður illvilji til að ganga af sjálfstæði okkar dauðu, og koma þjóðarauðnum í vasa Örfárra eignamanna og fyrirtækja þeirra.
Um þetta virðist ríkja þverpólitísk sátt því það virðist engu máli skipta hvaða flokka við kjósum í ríkisstjórn, og ef einhverjir flokkar gera sig út fyrir að vera andkerfisflokkar eins og Píratar, þá haga þeir sér eins þegar á reynir.
Sátt genginna kynslóða er rofin, hundrað ára samhent uppbygging á innviðum, menntun og heilsugæslu er í húfi, ekkert virðist skipta máli en hörð markaðslögmál sem þjóna þeim eina tilgangi að færa auð frá þjóð í vasa útvaldra.
Þess vegna hljótum við að spyrja okkur, eru þessir stjórnmálamen okkar þess virði að hljóta atkvæði okkar??
Þeir hafa sýnt vilja til að selja þjóðina, en þó ég viti að enginn vill kaupa, þá má samt spyrja hvort við eigum ekki að gera það sama.
Skipta þeim út sem misbjóða okkur svona.
Skipta þeim út sem ganga erinda annarra en þjóðarinnar.
Munum að í öllum flokkum er gott fólk sem ofbýður þessi framkoma og hegðun forystufólks síns.
Fólk sem er fullfært að taka við keflinu og vinna í þágu lands og þjóðar.
Í þágu velferðar hennar og velmegunar.
Þannig að við skilum af okkur til barna okkar og barnabarna allavega jafngóðu samfélagi og við tókum við frá áum okkar.
Eða viljum halda áfram að standa varðstöðuna??
Hvað gerum við ef hún brestur??
Íhugum það.
Kveðja að austan.
![]() |
Tímabært að verja hagsmuni Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
16.4.2019 | 14:44
Hræðsluáróður eða fáfræði??
Ekkert annað fær skýrt pistil Björns Leví Píratahöfðingja í Mogganum í dag.
Þar útskýrir hann fordæmalausan stuðning Pírata við orkupakka 3, fordæmalausan því sá stuðningur breytir Pírötum úr meinlausum andófsflokki í harðsvíraðan kerfisflokk sem gengur erinda auðs og auðmanna gegn hagsmunum almennings.
Eins og slíkir flokkar hafi ekki verið nægir fyrir á þingi.
Í pistli sínum sem hann kallar "Sundrungarpólitík og vælubíllinn" leggur hann út af Brexit vandræðum breta þar sem embættismannakerfið og stjórnmálaelítan leggur dag við nótt að afskræma niðurstöðu þjóðaratkvæðis um að Bretlandi eigi að segja sig úr Evrópusambandinu.
Ekki sem andófsmaður sem fordæmir slík vinnubrögð, heldur sem kerfiskall sem segir, "sjáið, svona hefst uppúr því að standa á móti vilja okkar".
Og þetta er það sem hann hræðist, eða réttara sagt, hræðir þá kjósendur sína sem ennþá taka eitthvað mark á honum;
"Ef við segjum upp EES-samningnum og orkupökkunum, hvað verður þá? Það er staðan sem Bretar eru í núna, tveimur árum eftir að þeir ákváðu að segja bless við ESB hafa Bretar enn ekki hugmynd um hvernig Brexit endar. Við myndum þurfa að semja um nýjan fríverslunarsamning við Evrópu. Jafnframt myndum við missa aðgang að öllum viðskiptasamningum okkar í gegnum EFTA. Myndum við enda með betri samninga? Myndum við ganga inn í viðskiptasamning til vesturs? ".
Gallinn við þetta er bara sá að þó við samþykkjum ekki orkupakka 3, því hann gengur gegn fullveldi þjóðarinnar að þá gerist fátt annað en að við stöndum utan við hann.
Og ef þingmenn nenna ekki að lesa EES samninginn sem þeir vitna í með svona hræðsluáróður, þá gætu þeir allavega kynnt sér álit þeirra Stefáns Más og Friðriks Árna þar sem segir;
"Það er réttur EES/EFTA-ríkjanna samkvæmt EES-samningnum að neita upptöku gerða í EES-samninginn og eftirfarandi innleiðingu á viðkomandi gerðum á þeim grundvelli, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Slíkt kallar hins vegar á sáttameðferð á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 102. gr. samningsins." EES-samstarfið byggist á þeirri forsendu að EES/EFT A-ríkin innleiði löggjöf Evrópusambandsins i landsrétt sinn á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur til, hvort heldur óbreytta eða með aðlögunum m.a. með hliðsjón af forsendum EES-samningsins og sérstöðu hvers ríkis um sig. Í því ljósi virðist nærtækt að Ísland leiti lausna sem eru fólgnar í því að aðlaga ákvæði þriðja orkupakkans þannig að þau fái samrýmst þeim takmörkunum sem stjórnarskráin setur framsali ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana líkt og ESA. Um slíkar lausnir þyrfti þá að semja á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við málsmeðferð samkvæmt 102. gr. EES- samningsins.".
ESB má vera komið langt frá upprunalegum lýðræðissjónarmiðum sínum ef það telur að umsaminn réttur um að neita upptöku gerða sé ígildi uppsagnar á EES samningnum, og í raun ótrúlegt að halda fram að slík alræðishugsun stjórni sambandinu í dag.
Auðvita mun ESB sýna því skilning að orkan ásamt fiskimiðum okkar er forsenda byggðar og búsetu á Íslandi, og því slíkt grundvallarmál að íslenska þjóðin vilji stjórna þeim málum sjálf.
Nú ef ekki, þá gerist ekkert annað en það að fyrri viðskiptasamningar sem við höfðum gegnum EFTA, sem og við höfum í gegnum Alþjóða viðskiptastofnunina WTO taka gildi, og örugglega mun Ísland ná svipaðri lendingu eins og Sviss, sem er í EFTA, en ekki í EES.
Að halda öðru fram er að halda því fram að ESB sé skrímsli sem engu eirir, og ef það er ekki hræðsluáróður, hvað er þá hræðsluáróður???
Hvað fær hins vegar þingmann til að halda því fram að ef þjóðin neiti að samþykkja orkupakka 3, að þá sé verið að segja upp EES samningnum, og þar með "Jafnframt myndum við missa aðgang að öllum viðskiptasamningum okkar í gegnum EFTA."??
Er þetta fáfræði, að hann viti ekki neitt??
Eða er hann að ljúga??
Ljúga til að hræða??
Hvort sem er, þá hittir hann allavega skottið á sjálfum sér með þessum orðum sínum um sundrungarpólitíkina; "Hún kvartar undan umfjöllun og ræðir ekki hvað er satt og rétt. Sundrungarpólitíkin kastar bara fram hálfsannleik og mistúlkunum sem rýra traust og ýfa upp það óvissuástand sem sundrungin þrífst í.".
Enda erfitt að halda sig við sannleikann þegar á að sannfæra kjósendur sína um að það sé þeim fyrir bestu að vera rændir orkunni.
Með þeim afleiðingum að rafmagnsreikningurinn snarhækkar, og þúsundir missa atvinnuna þegar landið verður tengt við hinn sameiginlega orkumarkað Evrópu.
En þetta er neytendavernd.
Fyrir þýska neytendur.
Það má halda því til haga.
Án þess að ljúga miklu.
Kveðja að austan.
16.4.2019 | 07:03
Málefnafátækt
Er réttnefni ef andstaða þjóðar við stofnanayfirráð ESB yfir orkuauðlindum okkar er látin kristallast í meintum hagsmunum ráðamanna af virkjunum einhverra smálækja hér og þar.
Það er umræða tittlingaskítarins gagnvart risahagsmunum í bráð og lengd.
Ef menn á annað borð vilja skoða hagsmunatengsl þá eiga menn að spyrja hvaða einstaklingar og félög tengd þeim hafa verið að kaupa upp virkjunarleyfi hér og þar, tilbúnir að leggja inn kæru á grundvelli tilskipunarinnar sem bannar markaðsmismun og markaðshindranir svo ESA er nauðbeygt að höfða mál á hendur íslenskum stjórnvöldum um að aflétta markaðshindrunum, og leysa upp Landsvirkjun.
Það er að heimila lagningu sæstrengjar og hluta Landsvirkjun uppí smærri einingar sem verða einkavæddar af hluta eða öllu.
Þar eru fjármunirnir, þar eru hagsmunirnir.
Þar er Engeyingarnir.
En þetta mál snýst ekki um hagsmuni einstakra gróðaafla, eða tengsl stjórnmála við fjármagnið.
Þetta er grundvallarmál, og snýst um hvort við ætlum að hafa landið byggilegt eða ekki.
Hvort við nýtum orkuauðlindir okkar sem þjóð, eða hvort þær séu nýttar að einkaaðilum sem selja þær hæstbjóðanda hverju sinni.
Hvort við höfum yfirráð yfir þeim, eða hvort aðrir hafi yfirráð yfir þeim.
Guðlaugur græðir á umræðu tittlingaskítsins.
Andstæðingar orkupakka 3 tapa á henni.
Svo spurningin er hvaða almannatengill kom henni í loftið?
Hver á hagsmuna að gæta??
Var utanríkisráðherra tilbúinn með svarið niðurskrifað??
Veit ekki en hann grætur allavega ekki umræðuna.
Kveðja að austan.
![]() |
Ber vitni um málefnafátækt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.4.2019 | 17:20
Aðeins ofbeldismenn komast að þeirri niðurstöðu.
Sem Héraðsdómur Reykjavíkur komst að með því að sýkna vegna þess að vitni var hrætt til að breyta framburði sínum.
Þess vegna er full ástæða fyrir ríkislögreglustjóra að hefja rannsókn af meintum brotaferli þeirra dómara sem eiga í hlut.
Ofbeldisslóðin hlýtur að fylgja þeim frá kynþroskaaldri.
Ef það er ekki, þá er greinilegt að þeir finna til samsvörunar við kostunaraðila lögfræðinga, undirheimana sem borga stórfé fyrir að lög og regla láti þá í friði.
Fíkniefnaviðskipti þrífast ekki ef ekki er hægt að treysta á að málatilbúnaður lögreglu haldi ekki fyrir dómi þegar dauð vitni (raunveruleikinn út í hinum stóra heimi), eða hrædd vitni dragi framburð sinn til baka.
Gífurlegir fjármunir eru í húfi, og lögfræðistéttin fær ríflega þóknun fyrir að tryggja að lög nái ekki yfir skipulagða glæpastarfsemi.
Síðasta ömurlega dæmi þar um, órefsað, er þegar glæpaforingi var látinn laus vegna þess að ekki var hægt að sanna að hann hefði valdið dauðahögginu.
Og eitthvert handbendi var ákært.
Það mátti ekki ógna handrukkarastéttinni, sem heldur jú uppi aga í fíkniefnaheiminum, tekjur og þóknanir voru í húfi.
Við sem þjóð látum þetta yfir okkur ganga.
Að skítugt fjármagn stjórni öllu.
Við látum það meira segja yfir okkur ganga að það kaupi upp þjóðkjörna fulltrúa okkar.
Ræni orkuauðlindum okkar án þess að litla fingri sé lyft.
Alls staðar er hið glæpsamlega fest í sessi, með lögum, með mútum, með keyptum þjónum.
En gekk Héraðsdómur Reykjanes ekki of langt í þessum dómi sínum?
Hvað er eftir að réttarkerfi forfeðra okkar ef svona lögleysa og ofbeldi er staðfest með dómi, án eftirmála??
Mega vinnumenn hins skítuga fjármagns allt??
Bara ef þeim er borgað.
Það helst allt í hendur í dag.
Bæði aðförin að þjóðinni sem kennd er við tilskipun ESB um frjálst flæði orku, eða glæpalýðurinn sem selur börnunum okkar dóp er friðhelgur.
Dindill er ríkislögreglustjóri, hann rannsakar ekki neitt.
Það er meira að segja hægt að múta fólki til að brjóta stjórnarskrána til að koma orkuauðlindum þjóðarinnar í vasa auðs og fjármagns.
Eða sleppa ofbeldismönnum því vitnum er ógnað, þaggað niður í þeim.
Sem er aðför að réttarkerfinu og réttlætinu, því ef staðreyndir og sannarlegir áverkir eftir alvarlegt ofbeldi duga ekki til sakfellingar, þá dugar ekkert nema lögfræðingum sé borgað.
Og það keppir enginn við mútufé glæpastarfseminnar.
Viljum við þetta þjóðfélag??
Að skítugt fjármagn kaupi allt, stjórni öllu.
Þetta var ekki svona.
En þetta er orðið svona.
Vegna þess að glæpahyskið keypti sér hvíta skyrtu.
Jakkaföt og skjalatösku.
Og stjórnmálamenn.
Fyrir framan nefið á okkur.
Kveðja að austan.
![]() |
Konan flúði fram af svölunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2019 | 14:21
Þegar sannleikurinn er sagður lýðskrum.
Þá höfum við vaknað uppí alræðisþjóðfélagi eins og Orwell lýsir svo ágætlega í bók sinni 1984, það er árdaga þess áður en almenningur var sviptur öllum lýðréttindum.
Það er staðreynd að regluverk ESB er yfirþjóðlegt og tekur öll völd af einstökum aðildarríkjum, slíkt telur skrifræðið nauðsynlegt til að ná fram markmiðum sínum í orkumálum.
Markmið sem eru hindrunarlaus markaðsviðskipti óháð landamærum, að auka orkuöryggi og hlut grænnar orku af heildarorkuframboði innan efnahagssvæðisins.
Að benda á þetta skrifræðisyfirþjóðvald er kallað lýðskrum.
Það er staðreynd að regluverk ESB líður ekki markaðshindranir, og slíkar markaðshindranir hafa ekki haldið þó upphaflega hefur verið samið um þær eins og nýlegur dómur um frjálsan innflutning á sýklum staðfestir.
Einhliða fyrirvari íslenskra stjórnvalda um að banna sæstreng sem mun tengja landið við hið sameiginlega orkukerfi Evrópu mun því ekki halda. Öll dómafordæmi eru á þá vegu, engin fordæmi til um það gagnstæða enda skrýtið að innleiða reglugerð sem er hugsuð til að stuðla að hindrunarlausum viðskiptum yfir landamæri, að einstök ríki geti undanþegið slíku frjálsu flæði með einhliða fyrirvörum.
En að benda á þetta er kallað lýðskrum.
Ríkisrekin einokunarfyrirtæki eru markaðshindrun í hinu frjálsa flæði, þau hindra samkeppni og einkarekin fyrirtæki keppa ekki við þau á jafnréttisgrundvelli.
Þjóðir sem undirgangast hið sameiginlega regluverk þurfa því að skipta þeim upp og bjóða hluta þeirra til sölu á markaði. Með öðrum að einkavæða þau.
En að benda á þetta er kallað lýðskrum.
Hinir svokallaðir lýðskrumarar vitna í íslensku stjórnarskrána, í lög og reglur Evrópusambandsins, í sögu þess hvernig allt samstarf hefur orðið miðstýrðara undir handleiðslu stofnana sambandsins, um dóma og dómaframkvæmd, máli sínu til stuðnings.
Menn eins og Þorsteinn Víglundsson vitna í fullyrðingar, og lýsa sjálfum sér þegar þeir segja; ", fólk sem er á launum við að kynna sér þessi mál af kostgæfni, fer fram með rök sem er ekki hægt að styðja með einum einustu tilvísunum í regluverk eða staðreyndir málsins.".
En þessi sami Þorsteinn hefur reynt að ræða málin á málefnalegum nótum, ekki með því að hafna hvað felst í reglugerðinni um hið yfirþjóðlega regluvald og hinn sameiginlega orkumarkað. Menn gera verið sammála honum eða ósammála, en hann lýgur ekki, afneitar ekki staðreyndum málsins líkt og stjórnarflokkarnir þrír gera.
Og næst þegar menn lesa fullyrðingar manna eins og Brynjars Níelssonar eða Guðlaugs Þórs þar sem þeir kannast ekki við regluverkið eða hinna sameiginlega orkumarkað, einkavæðinguna eða annað, þá ættu menn að hafa þessi orð Þorsteins í huga;
" Sú ákvörðun Norðmanna að fjárfesta í tengingu við evrópska markaðinn skýrist nefnilega ekki af því að landinu sé stýrt af ótýndum landráðamönnum heldur af því að tengingin skilar Norðmönnum miklum ábata. Hún er skynsamleg. Hún stuðlar að auknu raforkuöryggi og um leið hagnast Norðmenn ágætlega á þessum viðskiptum. Samningsstaða þeirra gagnvart stóriðju styrkist til að mynda. Orkan er ekki lengur "strönduð" eins og það kallast heldur eiga Norðmenn kost á því að flytja hana út ef stóriðjan vill ekki greiða uppsett verð.
Að einblína á möguleg verðlagsáhrif heima fyrir, líkt og lýðskrumarar gera, er álíka gáfulegt og að banna fiskútflutning okkar þar sem verð á ýsu hér heima kunni að vera hærra fyrir vikið. Við seljum um 80% af raforkuframleiðslu okkar til útflutnings í gegnum stóriðjuna. Við höfum miklu meiri hagsmuni af því að hámarka verð á raforku heldur en að halda því niðri. Og það er hægur vandi að vega á móti mögulegri hækkun á raforkuverði. Til dæmis með því að fella niður virðisauka á sölu raforku til heimilisnotkunar. Ræðum kosti þessa og galla en nálgumst ekki málið með heimóttarskap og hræðsluáróðri.". (Feisbók Þorsteins 7. apríl 2019)
Það er vissulega ákveðinn kostur að gamalt fólk hafi ekki efni á að kynda húsin sín á köldustu vetrarmánuðunum, til lengri tíma dregur það úr útgjöldum til heilbrigðiskerfisins því það er bara svo með kulda að hann dregur úr lífslíkum fólks. Og auðvitað var þetta argasti sósíalismi hjá Sjálfstæðisflokknum á fyrri hluta síðustu aldar að beita sér fyrir ódýru rafmagni og hita fyrir alla, í stað þess að markaðsvæða orkuna strax og tryggja hámarks arð fyrir orkufyrirtæki sem áttu auðvitað að vera í einkaeigu.
Og stóriðjan er vissulega ölmusuatvinnuvegur á þjóðinni sem fáu eða engu skilar líkt og Indriði G. Þorláksson hefur ítrekað bent á. Þá borga Þjóðverjarnir hærra rafmagn þegar þeir eru að falsa kolefnisbókhaldið hjá sér, og þeir sem missa vinnuna geta bara flutt til Þýskalands, eða eitthvað.
Síðan vita allir að garðyrkjan og þetta sem nýtir sér ódýra orku, er bara tómstundagaman fólks sem nennir ekki að vinna ærlega vinnu í bönkum eða hjá lögfræðifyrirtækjum. Og gerir ekkert annað en að draga úr hagnaði heildsala.
Aðalatriðið er að málið sé rætt á málefnalegan hátt, og það sé viðurkennt hvað felst í orkutilskipunum Evrópusambandsins, og hvaða afleiðingar það hefur fyrir íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki.
Fólk getur deilt um þessa lykilskoðun hans; "Við höfum miklu meiri hagsmuni af því að hámarka verð á raforku heldur en að halda því niðri.", en það á ekki að rífast um forsendur hennar.
Sem er tilskipun ESB um orkumarkaði, innihald hennar og afleiðingar.
Það á ekki að ljúga að þjóðinni að það verði ekki lagður sæstrengur.
Það á ekki að ljúga að þjóðinni að orkufyrirtæki í almannaeigu verði ekki einkavædd að hluta eða að öllu leiti.
Það á ekki að ljúga að þjóðinni að slíkt muni ekki breyta samfélaginu okkar í grundvallaratriðum, að kuldinn hefji innreið sína á íslensk alþýðuheimili og þúsundir munu missa vinnuna þegar iðnaður sem treystir á ódýra orku deyr drottni sínum.
Og það á ekki að ljúga að þjóðinni að stjórnarskráin heimili yfirþjóðlegt regluvald og dómsvald yfir öllu sem lítur að orkumálum.
Menn eiga að hafa kjarkinn eins og Þorsteinn og segja að það sé sín skoðun að meintur ávinningur vegi uppi skaðann, og að stjórnarskráin eigi ekki að vera markaðshindrun, eða hindra þróun á alþjóðlegu samstarfi okkar við Evrópusambandið.
Því annað er aðför að lýðræðinu.
Aðför að lýðveldinu, miklu verri en sú að afhenda erlendu valdi orkuna okkar.
Því lygin er forsenda alræðisins.
Það var lygin og ógnin sem hélt saman alræðisþjóðfélögum fasista og kommúnista.
Og ef við látum hana viðgangast þá upplifum við í dag árdaga alræðis auðsins.
Ef við viljum það, þegjum við.
Ef við viljum vernda lýðræðið, þá mótmælum við .
Vinnubrögðunum og málflutningnum.
Öll sem eitt, hvort sem við erum sammála samrunanum við orkumarkað Evrópusambandsins, eða ekki.
Og ekki hvað síst, eiga fjölmiðlamenn að standa vaktina hvað þetta varðar.
Þeir eru jú hluti af samfélagi okkar og geta ekki talið það ákjósanlegt að þjóðin sigli hraðbyri inní alræði auðsins.
Regluverkið er skýrt, dómar um hvort að einhliða fyrirvari haldi eru engir, afleiðingarnar eru skýrar, kostir og gallar.
Þess vegna á engin að komast upp með að kalla staðreyndir lýðskrum.
Og það er samsekt að láta einhvern komast upp með slíkt.
Það er mál að linni.
Kveðja að austan.
Þ
![]() |
Það kalla ég ómerkilegt lýðskrum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
11.4.2019 | 22:04
Af þumalskrúfum og keyptum skoðunum.
"Hún snýst nú samt" er ein frægasta setning sögunnar.
Höfð eftir einum frægasta vísindamanni allra tíma, Galíleó Galíleí þegar rannsóknarrétturinn neyddi hann til að afneita sólmiðjukenningunni sem var andstæð kenningum kirkjunnar um að jörðin væri miðja alheimsins og sólin og aðrar plánetur snérust í kringum hana.
Galíleó þurfti ekki að segja þetta til að ítreka að játning hans væri fölsk, knúin fram með þumalskrúfum þess tíma, hann gat alveg þagað, eða fullyrt hundrað þúsund sinnum að jörðin væri flöt, og miðja alheimsins.
Því það voru útreikningar hans sem sönnuðu að sólin væri miðja sólkerfisins, ekki orð hans. Og orð hans um annað breyttu þar engu um.
Þessu einföldu sannindi vilja oft gleymast í orðræðu dagsins.
Að það séu rök og rannsóknir sem leggja grunn að staðreyndum, ekki orð og fullyrðingar, hvað þá að hægt sé að vitna í sannleika þumalskrúfanna eða orð sem borgað er fyrir. Því þumalskrúfurnar eða þrýstingur fær menn til að segja það sem ætlast er til að þeir segi, og fyrir borgun segja menn það sem þeim er borgað fyrir.
Það er oft erfitt að eiga við keypta menn, þeir ljúga sjaldnast, en teygja og toga rök og staðreyndir þar til þær ríma á einhvern hátt við hina fyrirfram ákveðna niðurstöðu sem þeim er borgað fyrir.
Nýlegt dæmi er lögfræðiálit innvígðra sem Guðlaugur Þór vitnar í til að staðfesta að stjórnarskráarbrot hans séu ekki stjórnarskráarbrot, það þarf vissa þekkingu til að sjá rökvilluna, eða finna út hvað staðreyndum er sleppt í rökleiðslunni.
Þess vegna er ágætis þumalputtaregla að hundsa slíkt með öllu, það er vitað að það er logið þegar þess þarf, og það er vitað fyrirfram um niðurstöðuna.
En með því að hundsa, er sá sem þarf að blekkja, neyddur til að leita til hlutlausra sem njóta þess vafa að fyrirfram efast enginn um niðurstöðu þeirra.
Þess vegna leitaði utanríkisráðuneytið líka til okkar helsta sérfræðings á sviði alþjóðréttar, Stefáns Más Stefánssonar prófessors og ásamt Friðriki Árna Friðrikssyni vann hann álitsgerð um hvort samþykkt orkupakka 3 stæðist fullveldisákvæði stjórnarskráarinnar.
Niðurstaða þeirra félaga var eins afdráttarlaus eins og hægt er að ætlast til af lögfræðingum, því þeir passa sig á að hafa alltaf opna undankomuleið ef dómur fellur gegn áliti þeirra;
"Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða höfunda álitsgerðarinnar að verulegur vafi leiki á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009, eins og ráðgert er að taka hana upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, rúmist innan ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. ".
Fyrir þessari niðurstöðu færðu þeir rök sem óþarfi er að rekja hér.
Og hvernig sem Guðlaugur reyndi, hvernig sem ríkisstjórnin reyndi, þá tókst henni ekki að ljúga sig framhjá þessari niðurstöðu Stefáns og Friðriks.
Hvað gera bændur þá??
Það er ekki vitað, og verður ekki vitað, hvaða meðölum var beitt, það er hvers eðlis þumalskrúfan var, en niðurstaðan er alveg í anda þess sem Galíleó sagði þegar hann var neyddur til að draga til baka kenningar sínar um að sólin væri miðjan sem allt snérist um.
Orðum breytt en ekki rökstuðningi, og því náttúrulega stendur fyrri niðurstaða óhögguð.
Utanríkisráðuneytið birti bréf frá þeim félögum þar sem niðurstöðum álitsgerðar þeirra var hafnað, og fullyrt að málsmeðferð ráðherra stæðist stjórnarskrá. Svo ég vitni í hina meintu yfirbót þeirra;
"1. Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu. ".
þá er ljóst að þarna eru orð, ekki röksemdir sem hnekkja fyrri ályktunum.
Þess vegna geta þeir sem ekki eru beittir nútíma þumalskrúfum haldið sig við rök og niðurstöður þeirra félaga sem fram koma í þegar birtri álitsgerð þeirra, og hún verður ekki fölsuð héðan af.
"Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.",
Afdráttarlaus niðurstaða, studd gildum rökum.
Þó þumalskrúfan er á, þá nýta þeir sér vit Guðlaugs og hæða hið meinta vægi hinnar sameiginlegu yfirlýsingu hans og embættismanns ESB og óþarfi að hjálpa Guðlaugi að sjá í gegnum þá hæðni.
Eins er ekki við öðru að búast en að iðrandi syndari geri lítið úr fyrri yfirlýsingu, slíkt var þrautreynt hjá rannsóknarréttinum og Stalín var líka mikill aðdáandi slíkrar iðrunar. Pyntingarmeistarar hans lögðu oft nótt sem nýtan dag við Moskvuréttarhöldin til að fá hinn sanna iðrunartón, iðulega var réttarhöldum frestað og þeir beðnir um að slípa til tóninn, áður en áfram var haldið. Og ekki þarf að taka fram að íslenskir kommúnistar féllu á kné og lofuðu hinn mikla leiðtoga fyrir að hafa komið upp um slíka syndara og svikara.
Hvort Guðlaugur hafi náð slíkum árangri má efast, svona hljómar iðrun Friðriks og Stefáns þar sem þeir fjalla um hvað gerist ef farið er eftir tillögum þeirra;
"5. Þessi leið er hins vegar ekki gallalaus fremur en hin. Þeir ágallar lúta að hinu sérstaka eðli EES-samningsins og samstarfsins. Eins og bent hefur verið á hefur ekki reynt á þessa leið til hlítar í 25 ára sögu samningsins og því margir pólitískir óvissuþættir til staðar varðandi afleiðingarnar. Það kann að reynast torsótt að fá slíkar undanþágur samþykktar.".
Hugur þeirra er hins vegar óbugaður og þeir fífla Guðlaug þegar þeir umsnúast gagnvart afskiptum ESA, treysta því að læst fólk hafi lesið álit þeirra og viti hvílík fjarstæða þetta er, eða er einhver sem trúir að ESA framfylgi ekki tilskipunum ESB, eða það taki íslensk stjórnvöld einhverjum silkihönskum??
"3. Þrátt fyrir að við teljum að þessi leið sé ekki hafin yfir allan lögfræðilegan vafa að þessu leyti þá teljum við mjög ósennilegt að ESA muni gera athugasemdir við þessa leið. Ástæðurnar eru eftirfarandi: a. Viðkomandi reglugerð er tekin upp og innleidd. b. Ákvæði hennar sem varða raforkutengingar milli landa koma ekki til framkvæmda nema slíkri tengingu verði komið á. c. Slíkri tengingu verður ekki komið á nema með samþykki Alþingis, samkvæmt þeim lagalega fyrirvara sem gerður er við innleiðinguna. ".
Þeir efast ekki í greinargerðinni, þar segja þeir meðal annars þetta;
". Þessar meginreglur ganga þó ekki svo langt að þær gefi markaðsaðilum rétt á að krefjast þess að raforkutengingum sé komið á eða þær stækkaðar. Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.".
Svona í ljósi þess að skýr umsaminn fyrirvari í stofnsamningi okkar um verndun búfjárstofna hélt ekki í nýlegum dómi ESA þar sem stjórnvöld er þvinguð að leyfa innflutningi á sýklum, eða að fyrri niðurstaða stofnunarinnar um að íslensk stjórnvöld hefðu innleitt innlánstryggingakerfi sitt samkvæmt ákvæðum tilskipunar ESB þar um, var gerð ómerk þegar bretar kröfðu þjóðina um bakábyrgð, þvert á innihald tilskipunarinnar, þá er ljóst hvað þeir félagar eiga við þegar þeir segja að slík staða gæti reynst Íslandi erfið.
Með öðrum orðum, sagan endurtekur sig.
Vald kúgar þekkinguna, en þekkingin smýgur samt úr höndum þess.
Því það er ekki hægt að kæfa þekkinguna, rökin lifa, staðreyndir lifa.
Orðunum er hægt að breyta, en ekki rökunum sem að baki búa.
Hins vegar ætti fólk að spyrja sig hvaða þumalskrúfum var beitt.
Og það þarf ekki endilega vera utanríkisráðherra sem átti þær.
Orkuauðlindir okkar eru undir, og erlent skítafjármagn ásælist þær.
Útí í Evrópu hafa innviðir verið einkavæddir í stórum stíl, allt í nafni hins frjálsa flæðis, og kaupendurnir að áskriftinni að almenningi hafa meðal annars verið kommúnistapeningar frá Kína, olíupeningar miðaldamanna við Persaflóa, að ekki sé minnst á peningaþvottavél mafíunnar, bæði þeirrar Austur Evrópsku sem og hinnar hefðbundnu við Miðjarðarhafið.
Og þetta skítuga fjármagn ber fé á stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka, og ef það dugar ekki til, þá er gripið til óvandaðra meðala.
Lygarnar og blekkingarnar í þessu máli öllu eru án fordæmis í íslenskri stjórnmálasögu. Og hreint út sagt, fyrir utan hugmyndasviðs innlendra mannvitsbrekkna.
Og við erum ekki lengur einangrað eyland, sama þó við viljum í lengstu lög trúa því.
Vinnubrögðin eru þekkt.
Þumalskrúfurnar eru þekktar.
Niðurstöður þeirra eru þekktar, skyndileg kúvending án skýringa.
Á það við í þessu tilviki??
Veit það ekki.
En það er ekkert eðlilegt við þetta.
Höfum það hugfast.
Kveðja að austan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.4.2019 | 07:07
Hvað er afsal á fullveldinu??
Ef það er ekki að afhenda alþjóðlegu yfirvaldi algjör yfirráð yfir orkuauðlindum landsins??
Hvar eru mörkin já Þorsteini Pálssyni og Birni Bjarnasyni ef þeim finnst þetta eðlilegur hluti af fullveldi þjóðarinnar??
Og hvaða rök færir Björn Bjarnason fyrir sínu máli sem ganga gegn skýru lagaáliti helsta sérfræðings þjóðarinnar í fullveldisrétti, prófessors Stefáns Más Stefánssonar og félaga hans??
Svarið við fyrri spurningunni er ekki þekkt, en við þeirri seinni að rök Björns er lagaálit svipaðra keyptra pésa og sögðu að Stefán og Lárus Blöndal hefðu rangt fyrir sér þegar þeir sýndu fram á það með skýrum rökum og beinum tilvitnum í lagatexta að það stæði hvorki í tilskipun ESB um innlánstryggingar að einstök aðildarríki væru í bakábyrgð fyrir innlánstryggingasjóði sína, eða að sú ábyrgð skapaðist vegna sjálfs samningsins um EES.
Að sjálfsögðu höfðu hinir keyptu rangt fyrir sér því vilhöll stjórnvöld borguðu þeim fyrir ákveðna niðurstöðu. Og sama býr að baki í dag.
Í allri ICEsave deilunni laug Þorsteinn skuldbindingum uppá þjóð sína og núna í öðru máli sem snýst um mikla fjármuni og verðmæti, lýgur Þorsteinn líka; "Hann segir þriðja orkupakkann hluta af regluverki Evrópusambandsins sem okkur beri að innleiða í íslenskan rétt samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES)." b Þetta er einfaldlega rangt, Ísland getur hafnað þessari tilskipan og tekið málið upp í sameiginlegri EES nefndinni líkt og prófessor Stefán Már hefur ítrekað bent á.
Þess vegna er ekki skrýtið að maður sem fer svona ítrekað frjálslega með sannleikann þegar hagsmunir auðs annars vegar og þjóðar hins vegar eiga í hlut, skuli kalla beinar lygar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, kúnstir.
Þorsteinn iðkar sem sagt kúnstir þessa dagana.
En Þorsteinn má eiga að hann styður þjóðina á sinn hátt.
Þegar menn eins og hann eru hálmstrá Guðlaugs Þórs, menn sem fram á síðasta, og lengur en það, beittu öllu sínu afli, og allri sinni málfylgju til að styðja fjárkúgun erlendra ríkja, þá er ljóst úr hvaða ranni allur sá málatilbúnaður er.
Þetta ætti hinn almenni sjálfstæðismaður að hafa í huga áður en tekur afstöðu til þessa gjörninga flokksins.
Það er verið að vega að þjóðinni.
En það lag heppnast ekki ef enginn styður.
Þá dagar það uppi.
Aðeins smánin lifir.
Smán þeirra sem enn einu sinni reyndu að selja þjóð sína.
Kveðja að austan.
![]() |
Kúnstir að baki orkupakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2019 | 23:06
Hvor segir satt??
Ráðherra þegar hann segir að í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar sé "áréttað að innleiðing þeirra gerða sem um ræðir myndi ekki skuldbinda íslenska ríkið til að koma á eða leyfa samtengingu íslensks raforkumarkaðar við önnur ríki Evrópska efnahagssvæðisins.".
Eða Friðrik sjálfur í viðtali við Morgunblaðið í dag þar sem hann segir um sama atriði;
"Hvað lagalega óvissu varðar vegna leiðar ríkisstjórnarinnar segir Friðrik aðspurður til að mynda ekki útilokað að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) teldi ástæðu til þess að höfða samningabrotamál fyrir EFTA-dómstólnum á þeim forsendum að Íslandi beri að innleiða þriðja orkupakkann að fullu í landslög. Það yrði þá gert á þeim grundvelli að Alþingi hefði aflétt stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðja orkupakkans eins og hann hefði verið tekinn upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Mögulegt væri að málið þróaðist með þeim hætti. Eins væri mögulegt að einstaklingar eða lögaðilar höfðuðu skaðabótamál gegn íslenska ríkinu ef þeir teldu að íslensk landslög tryggðu þeim ekki þann rétt sem þeir ættu að njóta samkvæmt EES-samningnum".
Líklegast gæti sjálf álitsgerðin skorið úr um það en þar segir meðal annars;
"Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. gr. EES-samningsins. Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þetta þýðir jafnframt, að taka verður afstöðu til þess nú þegar, hvort 8. gr. reglugerðar nr 713/2009 (og aðrir hlutar orkupakkans, ef því er að skipta), standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður, hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.".
Ef ekki er hægt að hafa þetta rétt eftir, hvað er þá rétt sem ráðherra segir??
Enda getur heilbrigð skynsemi sagt fólki að tilskipanir um sameiginlega markað virka lítt, ef einstök aðildarríki efnahagssvæðisins geti síðan samþykkt fyrirvara og skilyrði sem í raun gera viðkomandi tilskipanir marklausar.
Tilgangur orkupakkans er að koma í veg fyrir markaðshindranir og tryggja orkuviðskipti yfir landamæri eða eins og segir "Í fimmta tölulið forsendna reglugerðarinnar um þriðja orkupakkann kemur fram að aðildarríkin geti í raun ekki gert neina fyrirvara eða sett aðrar lagalegar hindranir: "Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku."" (tekið af bloggi Magnúsar Sigurðarsonar, Popúlismi sjálftökunnar).
Þetta veit Guðlaugur innst inni þó hann kjósi að segja þjóð sinni og kjósendum ósatt.
Hann slær því þann varnagla að vitna í sameiginlega yfirlýsing hans og orkumálastjóra Evrópusambandsins;
"Yfirlýsingin undirstrikar sameiginlegan skilning og er því af hálfu framkvæmdastjórnar ESB viðurkenning á þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar fyrirvörum Íslands við innleiðinguna. Þótt yfirlýsingin sé ekki lagalega bindandi hefur hún lagalega þýðingu gagnvart fyrirvaranum".
Eins og orð embættismanns breyti innihaldi tilskipana ESB.
Eða ICEsave deilan hafi gefið okkur ástæðu til að treysta orðum þeirra.
Ísland hafði meira að segja fengið lof fyrir að innleiða tilskipunina um innlánstryggingar á réttan hátt, þar sem í tilskipunin stóð skýrt að tryggingarkerfið væri bakábyrgð innlána, og ef aðildarríki innleiddu tilskipunina á réttan hátt, þá væru þau ekki í ábyrgð fyrir tryggingarkerfið sitt.
Það breyttist á einni nóttu og þegar hagsmunir stærri fóru gegn hagsmunum minni, þá gilti ekki einu sinni skýr lagatexti, hvað þá fyrri staðfestingar á að rétt hefði verið staðið að málum.
Og núna er látið eins og þessi saga sé ekki til og að við eigum að treysta orðum þessa fólks.
Eiginlega er ekki hægt að leggjast lægra í rökleysinu.
Skömminni skárra þó að ljúga.
Af hverju er ekki hægt að halda sig við staðreyndir málsins líkt og Þorsteinn Víglundsson gerði í feisbókarfærslu sinni þar sem hann viðurkennir að sæstrengur verði lagður, og hann muni hækka raforkuverð til heimila. Hann telur hins vegar að á móti komi hærra verð fyrir orku sem núna fer til stóriðju, og því sé hægt að koma til móts við heimilin með því að afnema til dæmis virðisauka á raforkusölu.
Sjónarmið sem má ræða, sjónarmið byggt á staðreyndum.
Ekki á afneitun, hálfsannleik og beinum lygum.
Lygar stjórnmálamanna eru meinsemd í samfélaginu í dag.
Trekk í trekk fullyrða þeir eitthvað sem stangast alveg á við staðreyndir, eða lofa einhverju sem þeir ætla sér aldrei að efna.
Núna á að samþykkja tilskipun sem afsalar þjóðinni yfirráð yfir orkuauðlindum sínum til yfirþjóðlegrar stofnunar og það má ekki viðurkenna það.
Það er öruggt að í kjölfarið verður sæstrengur lagður því hann er lengi búinn að vera í pípunum hjá Landsvirkjun svo fyrirtækið verði ekki eins háð erlendum stórkaupendum. Og eins og segir í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni að þá mun slíkt leiða til hækkunar á rafmagni.
En talað um ávinning á móti, og hví má ekki vega og meta slíkan ávinning, fá hreinskipta umræðum um kosti og galla.
Hvað er að því að segja satt, og ræða hlutina út frá staðreyndum??
Það ætti að vera lágmarkskrafa til þjóðkjörinna fulltrúa okkar, sama í hvaða flokki þeir eru.
Gerum þá kröfu.
Öll sem eitt.
Kveðja að austan.
![]() |
Innleidd að fullu en gildistöku frestað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2019 | 17:52
Velkomin í hópinn Ólína.
Ég man eftir þér fyrst þegar ég var að móta mínar skoðanir á unglingsárunum, þú varst þá eldrauður kvenskörungur sem trúði á betri heim, og taldir hann þess virði að berjast fyrir.
Svo leið tíminn, ég þroskaðist, og sannfærðist um að mennskan og mannúðin, trúin á jöfnuð og réttlæti, sanngirni og rétt allra til mannsæmandi lífs, væri leiðin, ekki útópíur eins og kommúnisminn, sem tók kerfi fram yfir fólk, og nýtti sömu fjötrana og helsið og yfirstéttir aldanna sem höfðu kúgað og níðst á fólki frá árdaga siðmenningarinnar.
Þá var tónn hins herskáa jafnaðarmanns sem ferskur blær innan um allan róttæklingavaðal sófakommúnismans.
Kommúnisminn dó, en ný Útópía reis á legg.
Kennd við Evrópu og Evrópusamvinnu.
Hugsuð til að koma í veg fyrir ófrið og lagði vissulega áherslu á félagslegt réttlæti, mannréttindi, velferð og margt annað sem átti að gera heiminn betri en hann hafði verið.
En tók kerfið fram yfir fólk, reglur og regluverk fram yfir fjölbreytileika mannlífs og þjóða.
Og hljótt fór að regluverkið var byggt á hugmyndafræði þeirra Friedmans og Hayek.
Frjálshyggja í sinni tærustu mynd, hið frjálsa flæði auðs og fjármagns.
Þú féllst fyrir þessari Útópíu Ólína, og þú studdir hana í ICEsave deilunni.
Taldir þig hafa sama rétt og hinir fornu konungar Germanna, að þú gætir selt hluta þjóðar þinnar í skuldaþrældóm til að gera upp við keisara Rómar.
Gleymdur var hugsjónaeldurinn, gleymdur var eldmóðurinn, gleymd var gagnrýnin á auðvald allra tíma.
Völdin, Útópían, ekkert annað komst að.
Kannski þurfti rýtingsstungu í bakið til að þú vaknaðir af þessum myrka svefni.
Að þú sæir aftur ljósið, að þú skyldir að það skiptir ekki máli hver það er sem níðist á venjulegu fólki, og í nafni hvers það er gert, að það er alltaf rangt að níðast á fólki.
Alltaf rangt að arðræðna, gera það að féþúfu auðs og fjármagns.
Hvað sem það var, þá skiptir það ekki máli.
Aðalatriðið er að þú ert kominn í hópinn.
Hætt að þjóna auðnum, hætt að þjóna frjálshyggjunni.
Blekkir ekki lengur sjálfa þig, hvað þá að þú reynir að blekkja aðra.
Þú ert í góðum hópi.
Við erum hópurinn sem tökum líf fram Útópíur.
Fólk fram yfir fjármagn.
Og við biðjum þess eins að fá að lifa í friði fyrir ásælni þess, í samfélagi þar sem fólkið sjálft ræður hlutskipti sínu og örlögum.
Vinnumenn fjármagnsins kalla okkur lýðskrumara, vitleysinga og eitthvað þaðan af verra.
Við vöndumst þessum ónefnum í ICEsave deilunni, og þau bíta ekki í dag.
Hafa í raun aldrei bitið, aðeins hert þann ásetning að standast atlögur þeirra.
Þú munt léttilega venjast þessu, og þarft ekki að réttlæta þig með einhverjum afsökunarorðum.
Skattyrði þeirra er aðeins hrós fyrir okkur sem eigum ekki annan húsbónda en lífið sjálft.
Við verjum samfélag okkar.
Við verjum auðlindir þess og sjálfstæði.
Rífumst svo um allt hitt, en sem fólk, ekki þrælar.
Það er ekki Útópía.
Það er bara eins og lífið á að vera.
Frjálst, fjölbreytt, margslungið.
Ekkert meira, ekkert minna.
Eins ólík og við erum, þá erum við eitt.
Fólkið sem segir Nei við auðinn.
Þetta er góður hópur.
Kveðja að austan.
![]() |
Hafnar ásökunum um popúlisma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.9.): 187
- Sl. sólarhring: 837
- Sl. viku: 4595
- Frá upphafi: 1489467
Annað
- Innlit í dag: 165
- Innlit sl. viku: 4014
- Gestir í dag: 162
- IP-tölur í dag: 160
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar