Gylfi í Speglinum. Rökvillan um ICEsave.

Gylfi Zoega sagði að Íslensk stjórnvöld hefðu fullyrt um alla Evrópu þann fáránleika að 300 þúsund manna þjóð myndi og hefði burði til að ábyrgjast innlán hjá 60 milljóna manna þjóð.  Hann sagði að burtséð frá lagalegum skuldbindingum okkar gagnvart EES þá hefðu þessi orð skuldbundið Íslensku þjóðina til að greiða þessar innlánstryggingar. 

En þetta er ekki rétt hjá Gylfa.  Í lýðræðisríkjum eru ekki orð bjána skuldbindandi, hvorki lagalega eða siðferðislega.  Skiptir engu þó um utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra eða annars stjórnvalds sé að ræða.  En svona orð geta stórskaðað samskipti og ímynd ríkja þegar ekki er við þau staðið.   Í lýðræðisríkjum þurfa þjóðþing viðkomandi landa að staðfesta allar skuldbindingar og þær þurfa að standast stjórnarskrána.   ICEsave skuldbindingarnar gera það ekki þó þingmeirihluti hafi samþykkt þær.  Alþingi er bannað að samþykkja upphæðir þar sem upphæð skuldbindinga er ekki þekkt.  Stjórnarskráin kveður skýrt á um það.

En væri Ísland einræðisríki þá gætu ráðamenn skuldbundið þjóð sína eins og þeim listi því það er eðli slíkra stjórnahátta að þjóðin hefur ekkert að segja um gjörðir ráðamanna sinna.    Munurinn á lýðræði og einræði á öllum að vera ljós sem hafa náð grunnskólaprófi og því eiga prófessorar ekki að tala um skuldbindingar í ljósi ummæla ráðamanna.  Hins vegar eiga þeir að gagnrýna harðlega ábyrgðarlaust gaspur og fíflagang ráðamanna í útlöndum og benda á þann skaða sem af getur hlotist.  Hefði utanríkisráðherra Japans á ráðstefnu G-7 ríkjanna lofað að greiða skuldir Japanskra einkafyrirtæja, þá hefði verið hlegið af honum því kallinn var fullur enda var hann rekinn þegar hann kom heim.  Hefði hann verið edrú og sagt þetta þá hefði samt verið hlegið að honum því allir vita að einstaklingur getur ekki skuldbundið lýðræðisríki.  Það er bara svoleiðis.

Ef einhver skammast sín svo mikið að hann vilji bæta fyrir skaðann og borga, þá á hann að gera það í sínu nafni en ekki í nafni sjúkra og öryrkja, barna og aldraða.  Peningarnir, sem yrðu teknir til að greiða fyrir gaspur ráðamanna, yrðu teknir af þessum hópum.  Jakkafatamennirnir, sem vilja ólmir laga skaðann með því að borga, þeir hafa aldrei hugsað sér að borga sjálfir.  Þeir telja að sinn hagur sé öruggur og  kalla því á torgum: Borgum

Einnig eru þeir til sem hafa svo miklar áhyggjur af æru landsins að þeir vilja borga allar kröfur sem á þjóðina eru lagðar.  Þeir sjá ekkert rangt við það að Íslenska þjóðin sé krafin um skuldir einkafyrirtækja.  Fyrst þau eru Íslensk þá eiga Íslendingar að borga.  Útlendingar skiptu því aðeins við Íslensk fyrirtæki að þeir trúðu því að Íslenska þjóðin myndi borga skuldir landa sinna ef illa færi.  Þess vegna var ekkert áhættumat í gangi því allt var baktryggt eða svo sögðu útlendingarnir og það vita allir sem eitthvað vita segja þessir sömu menn að útlendingar hafa alltaf rétt fyrir sér.  Þeir spyrja sig aldrei þeirrar spurningar af hverju sömu útlendingar voru ekki með kröfur á hendur Bandarískum stjórnvöldum vegna bandarískra þrotabúa.  Eða af hverju Frakkar greiða ekki fyrir breta og svo framvegis.  Nei við eigum að borga.  

En við ráðum ekki við skuldirnar segi ég þá á móti.  Ég vil ekki dæma börnin mín til lífstíðar örbirgðar og skuldaáþjánar.  Það er allt í lagi.  Það vita allir að við getu ekki borgað.  Þegar við erum búin að skrifa uppá skuldir einkafyrirtækjanna, þá verður okkur hjálpað.  Þá mun ESB borga skuldirnar okkar eða fella þær niður.  Hvernig vitum við það spyr ég.  Jú þau vita að við getum ekki borgað.

Svona talar borgunarliðið sig í hringi.  Það spyr sig aldrei af því hvað er lagalega og siðferðislega rétt.  Hvað myndu aðrar þjóðir gera i okkar stöðu?  Eru nokkur fordæmi fyrir því að þjóðríki borgi skuldir einstaklinga og fyrirtækja þeirra? Og ef við erum neydd til að löghelga skuldir einkaaðila með því að Íslensk stjórnvöld skrifa uppá skuldabréfin, hvaða tryggingu  höfum við fyrir skuldaniðurfellingu?  Munu skuldareigendur ekki deila og drottna með þjóðina og auðlyndir hennar?  Hvernig er hægt að treysta á góðmennsku þjóða sem beita ólögum og kúgun til að ná fram upphaflegu markmiðum sínum?  Sér enginn siðferðisbrestinn i þessu?

Gylfi Zoega segir að við höfum ekki val því annars verður ekki um eðlileg samskipti að ræða.  Þetta er fullyrðing um óþekkta framtíð.  Argentína t.d rak IFM úr landið  eftir þriggja ára viðveru kennara og hjúkrunarfólks á öskuhaugunum og neitaði að fórna grunstoðum samfélagsins svo hægt væri að borga erlendum spákaupmönnum. Stál í stál en svo var samið um eitthvað sem landið réði við og viti menn, erlendar sjónvarpsstöðvar hættu að sýna myndir frá Argentínu því ekki fundust fleiri menntaðar konur á öskuhaugunum.  Laun þeirra dugðu fyrir framfærslu og þar með gátu þær eytt tíma sínum í að kenna og hjúkra.  Í huga Argentínumanna var leið Gylfa ekki valkostur.  Félagi Gylfa, Jón Daníelsson skrifaði hálærða grein í breskt dagblað þar sem hann sýndi fram á að Ísland gæti ekki greitt skuldir einkabankanna sama hvað hver sagði.  Það væri tölfræðilega ómögulegt.  Til hver er þá leikurinn gerður að þykjast ætla borga en geta það ekki?  

Atvinnulífið hefur ekkert að gera við eðlileg samskipti við erlenda kröfuhafa ef það hefur þann kostnað í för með sér að þjóðin sligast undan skuldabyrðinni.  Það er ekki hægt að leggja niður velferðarkerfið og hoppa aftur á 19. öldina.  Þó það sé draumur Frjálshyggjunar þá sættir sig engin þjóð við það í dag.  Þess vegna er leið Gylfa ófær þó áhyggjur hans séu réttmætar.  Vandinn er illviðráðanlegur en lausnin úr honum verður að vera lausn en ekki leið úr einum vanda í annan sem er enn illskeyttari. 

Það borgar enginn meira en hann getur og það tekur enginn á sig annarra manna skuldir þegar hann ræður ekki við þær.  Gjaldi þjóðin fyrir þessi einföldu sannindi þá verður svo að vera.  Allt er í heimi hverfult og það sem er í dag þarf ekki að vera á morgunn.  Við getum beðið afsökunar á gaspri ráðamanna okkar en við greiðum ekki innantóm loforð þeirra. 

Mörgum svíður það og slíkt er skiljanlegt.  En þeir geta þá ekki gengið um torg og sagt sjúkum og börnum að borga.  Þeir geta borgað með sínum eignum.  Ekki annarra.  Það hefur enginn rétt á því að skuldbinda aðra í þrældóm.  Það aldagamla kerfi var endanlega afnumið á 19. öldinni í hinum vestræna heimi.  Telji menn það ekki nóg að selja eigur sínar og vilja gera betur þá geta þeir haldið til Pakistan og selt sjálfa sig eða börn sín í skuldafjötra því þar telst slíkt ennþá vera góður og gegn siður.  En þeir mega ekki senda samlanda sína þangað af þeim forspurðum.  Göfuglyndi þeirra að borga skuldir annarra verður að takmarkast við þeirra eigin getu og vilja. 

Réttur samlanda þeirra til lífs og framtíðar er tryggður í lögum og stjórnarskrá landsins og orðin ÉG VIL BORGA eru ekki æðri þessum rétti.  Það má aldrei gleymast.

Kveðja að austan.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Stjórnarskrá okkar virðist alveg hafa gleymst í þessu fári eins og þú bendir á. Stjórnvöld eru með þessu að brjóta stjórnarskránna í bak og fyrir og í raun gengisfella öll ákvæði hennar. Merkilegt að engin skuli hafa bent á það fyrr. Reyndar hefur hugur manns hvarflað til ákvæða hennar en svo hefur alltaf eitthvað  beint huga manns frá henni. Góður pistill.

Arinbjörn Kúld, 21.2.2009 kl. 12:31

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir Arinbjörn.  Mig minnir að Miðbæjaríhaldið, Bjarni Kjartansson eða Jón Valur guðfræðingur hafi komið þetta innlegg upphaflega.  Þeir félagar eru heitir andstæðingar ICEsave. 

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.2.2009 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 60
  • Sl. sólarhring: 203
  • Sl. viku: 5377
  • Frá upphafi: 1338835

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 4735
  • Gestir í dag: 49
  • IP-tölur í dag: 49

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband