Útdráttur úr fyrsta dreifbréfi Hvítu Rósarinnar.

Áður en ég tek saman þennan útdrátt þá vil ég benda á að ekki er ég að líkja saman því ástandi sem var á dögum þýska nasismans og þess ástands sem hér ríkir.  Það er af og frá, hér óttast enginn um líf sitt og limi, ekki nema þá á þann óbeina hátt sem vonleysi og örvænting hefur í för með sér.  Áfengismisnotkun, dópneysla, niðurbrot fjölskyldunnar, þunglyndi og almenn uppgjöf fórnarlamba Hrunsins.

Líkindin felast í að það er verið að gera þjóð okkar mjög alvarlegan hlut.  Það er verið að eyðileggja hana innan frá.  Með löglegum ránum verð og gengistryggingar og afskiptaleysi samfélagsins gagnvart þeim sem sitja í skuldasúpu Hrunsins.  Og hið eitraða samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn mun eyðileggja innviði samfélagsins, ef öll þau áform ganga eftir.  

Og líkindin felast í því þrekleysi að það skuli ekki þurfa vopnaða hermenn til að vernda stjórnvöld ómennskunnar.  Að þjóðin skuli í sinnuleysi sínu hafa kosið þessa ógæfu yfir sig, og sætta sig við hana, þó hún geti ekki ennþá kyngt landráðasamningunum við breta, þá er það það eina sem hún hefur risið upp gegn.

 

En að  rísa upp og krefjast réttlætis handa skuldugum íbúum landsins hefur hún ekki gert.  Hún lætur ljúga því í sig að framtíð hennar krefjist blóðfórna skuldara svo hið nýja fjármálakerfi megi dafna og hún treður bómull í eyrun svo hún heyrir ekki neyðaróp skuldara.  Og hún sættir sig við að vesalingar i fjölmiðlastétt stjórni allri umræðu í þágu þess siðlausa auðræðis sem rændi hana og svívirti.  

Þar liggja líkindin og þess vegna er hvatning Hvítu Rósarinnar til þýsku þjóðarinnar líka okkar hvatning.  Þetta er orðræðan um hvað mennska og manndómur þýða svo samfélag okkar sé sanngjarnt og réttlátt.  

Ísland í dag er hvorki sanngjarnt eða réttlátt og það er í okkar boði.  Ekkert hervald þvingar okkur til að sýna háttsemi mannleysunnar, engin nauðung réttlætir skuldaáþján þess fólks sem elur upp framtíðarkynslóðir þjóðarinnar.

Sökin er okkar.

Kveðja að austan.

 

Dreifibréf Hvítu Rósarinnar.

 

Ekkert sæmir verr menningarþjóð en að gefa sig mótþróarlaust á vald einræðisklíku og myrkrasveitum hennar.  Er ekki svo komið, að hvðer sannur Þjóðverji skammast sín fyrir stjórn sína, og öll skynjum við hve mikil smán okkar og barna okkar verður, þegar hreistrið fellur af augum okkar, og glæpir svo hryllilegir að slíks hafa engin dæmi þekkst áður, verða baðaðir dagsljósi?  Sé þýska þjóðin þegar svo spillt og sundruð dýpst í sinni , að án þess að hreyfa hönd sína, slegin blindu trausti á hæpin lögmál um gang sögunnar, leggi hún í sölurnar hið æðsta sem menn eiga, og skilur þá frá öðrum lifandi verum - fórni frjálsri hugsun, frjálsri lífsskoðun - í von um að fá að grípa í hjól veraldarsögunnar, og stjórna því að eigin geðþótta? - séu Þjóðverjar svo gjörsamlega firrtir öllu sjálfstæði, og þegar orðnir að kjarklausum og andlausum múgi, þá, já þá verðskulda þeir einungis tortímingu.  Goethe lýsir Þjóðverjum sem þjóð sorgarinnar, líkt og Grikkjum og Gyðingum.  Nú virðist ásýnd þjóðarinnar fremur bera vitni um grunnhyggna og viljalausa hjörð, sem innsti mergur hefur verið soginn úr, og fús er að láta teyma sig í glötun. 

Þannig virðist vera komið fyrir þjóðinni - en samt er það ekki svo; hins vegar hefur sérhverjum Þjóðverja hægt, skipulega og með blekkingum og ofbeldi verið stungið í andlegt fangelsi; og fyrst er þeir lágu þar hlekkjaðir, urðu þeim ljós örlög sín.  Fáir skynjuðu nálægð glötunarinnar, og laun þeirra fyrir hugdjarfa viðvörun til þjóðar sinnar, var dauðinn.  Um örlög þessara manna verður áfram rætt; þau gleymast ekki.

Ef hver og einn bíður eftir frumkvæði annars, munu sendisveinar refsinornanna herða tök sín jafnt og þétt, uns síðasta fórnarlambið engist hjálparvana i gini meinvættarinnar.  Hver sá sem gerir sér ljósa ábyrgð sína sem þegns í þjóðfélagi kristinnar menningar, verður að berjast til hinstu stundar.  Berjast af alefli gegn refsivöndum mannkyns, gegn nasisma, gegn hvers konar alræðishyggju.  Veitið mótspyrnu - mótspyrnu -  hvar sem þið eru, hindrið framgang þessara guðlausu stríðsmanna, áður en það verður um seinan; áður en borgir landsins verða rústir einar líkt og Köln; og áður en æsku landsins hefur blætt út vegna drambsemi vitfirrings.  Gleymið því ekki, að þá stjórn hlýtur þjóðin að launum, sem hún sjálf veitir brautargengi.

............

Ríkið sjálft er aldrei markmið, það er aðeins mikilvægt sem skilyrði fyrir því að markmið mannkynsins náist.  Þetta markmið mannkyns er það eitt að virkja alla krafta manna og sókn í átt til betra og fegra lífs.  Ef stjórnarskrá ríkis (eða lög um verðtryggingu, "innskot mitt") kemur í veg fyrir að allur sá kraftur, sem býr í mönnunum fái útrás, hindrar hún framsókn andans og er óhæf og skaðleg.  Hún getur þrátt fyrir það verið jafn þaulhugsuð og á sinn hátt jafn fullkomin.  Varanleikinn færir henni fremur last en gengi - hún er þá orðin að meini sem vinna verður á, og því lengur sem hún endist, því skaðlegri verður hún.

..... Á kostnað allra siðferðilegra tilfinninga og sjónarmiða voru pólitískir sigrar unnir; og hæfnin til sigranna fengin.  Í lögbók Spörtu var hin hættulega regla gerð að boði, að nota mennina sem verkfæri en ekki markmið - á þann hátt voru lögmál náttúrunnar og siðfræðinnar lítilsvirt með lögum.   .... ríkið gat aðeins enst með því skilyrði að þjóðarandinn bærði ekki á sér; hann gat aðeins á þann hátt viðhaldið ríki sínu, að það kastaði frá sér æðsta og eina markmiði sínu.

Úr Epímenides vaknar eftir Goethe, fjórða þætti, fjórða atriði.

Lágoð:

Með djörfung upp úr djúpi stígur

til dáða búinn viljans kraftur

og getur sigrað hálfan heiminn, 

en hnígur þó í djúpið aftur.

Senn vekur ógn sá voðinn mikli

sem verður ei á móti staðið;

og öllum sem af alhug fylgja

er einnig þar í valköst hlaðið.

 

Von:

Mína fúsu fylginauta

finn ég nú á óttuþingi

til að þegja, en þó ei sofa;

þessu góða orði: frelsi

verður hvíslað hljótt og stamað,

unz um framtíð eigi þekkta

óma skal af hofsins þrepum

orðið fagra og fagnaðaríka:

 

Frelsi! Frelsi!

 

Hér lýkur þessu fyrsta dreifibréfi Hvítu Rósarinnar, það þarf ekki að taka það fram að þjóð í skuldaánauð býr ekki við frelsi, og að heil kynslóð í skuldahlekkjum býr ekki við frelsi.

Og aðeins ólög leyfa þá svívirðu að verðtryggingin og gengistryggingin séu ennþá í gildi eftir Hrunið.  Nóg voru áföllin samt, þó ránsskapur auðníðinga kæmi þannig ekki aftan að saklausu fólki.

Þjóð án sálar og mannúðar, á að lesa þetta dreifibréf aftur og aftur þar til hún skilur inntak þess.

Og þá mun hún grípa til þeirra athafna sem færa henni aftur sál sína og mannúð.

Grunnforsendur mennskunnar eru nefnilega ekki flóknir, það er að gera það sem rétt er af sanngirni og réttlæti þannig að allir megi sáttir una.

 

Skriða réttlætisins virkar nefnilega þannig að það þarf ekki nema einn að skrifa, og annar að lesa, og svo koll af kolli.  Í þeirri skriðu skiptum við öll máli.  

Að við segjum Nei við óréttlæti, Nei við rangindum og Já við framtíð barna okkar.  

Vilji fjármálamenn og fjármagnseigendur tilheyra þeirri framtíð, þá taka þeir undir kröfur okkar um réttlæti.  Ef ekki þá getum við alveg lifað góðu lífi án þeirra því það er auðlegð lands og þjóðar sem skapar lífskjör okkar og velmegun.  

En án okkar eiga þeir sér enga framtíð.

Í því liggur munurinn, þess vegna er valdið okkar. 

Það erum við sem setjum leikreglunnar.  

Við, þjóðin.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 4178
  • Frá upphafi: 1338877

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 3745
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband