Eiga lífsviðhorf Sophie Scholl erindi til almennings á Íslandi í dag???

 

Er íslenskt þjóðfélag siðað????

Svarið er mjög einfalt, Já.  

Eru núverandi stjórnvöld siðuð???

Svarið er mjög einfalt, Nei.

 

Ekkert siðað stjórnvald telur það sér til hrós að eyða 2 milljörðum í hækkun vaxtabóta með þeim orðum að ekki sé meira að hafa úr ríkissjóði til aðstoðar skuldugum barnafjölskyldum en á sama tíma standa þau í leynisamningum við erlenda fjárkúgara um að afhenda þeim 507 milljarða af almannafé, af því bara. 

Ekkert siðað stjórnvöld lætur þúsundir manna standa í biðröð eftir mat hjá góðgerðarfélögum í landi sem er umflotið mat og á næga orku til að rækta ógrynni af hollu grænmeti og næga bithaga fyrir allt það kvikfé sem landsmenn geta torgað.

Ekkert siðað stjórnvald stefnir að því að skuldsetja almannasjóð fyrir um 60% af ráðstöfunartekjum sínum.

Slíkt gera aðeins vinnumenn auðræðis og arðræningja og siðblinda og ómennska er sá eiginleiki sem kerfið krefst af stjórnendum sínum.

Og hvort sem fólki líkar það betur eða verr, þá er mennska og mannúð eina vopnið sem auðræðið óttast. 

Að fólk hafi samvisku og samhygð til að þekkja  muninn á réttu og röngu og þrek til að hafna rangindum.  

 

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýndi ljóslega, svo um það verður ekki rifist, hvernig auðræðið lagðist eins og mara yfir þjóðina á árunum uppúr aldamótunum, og hvernig það rændi bankanna og almenning.  Hún sannar algjöran forsendubrest verðtryggingarinnar, kerfi sem var hugsað til vernda nafnvirði lána gegn áhrifum verðbólgu, en ekki kerfi til að færa rán yfir á almenning.

Þegar svikamylla auðræðisins komst í þrot haustið 2008 þá lagði kerfið ekki upp laupanna, það náði að flýja í skjól Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fékk þaðan þann styrk sem þurfti til að endurskapa nýtt auðrán, nýjar misþyrmingar á almenningi.

Pólitískt stóð það höllum fæti en þar sem forhertir snillingar ráða för, þá var mótleikurinn klassískur hjá þeim sem kunna að deila og drottna,  flokkur andófsins var innlimaður í valdið með þeirri gulrót að hann gæti ljáð auðræðinu mannúð einhvers sem leikfléttusmiðirnir ákváðu að kalla "norræna velferðarstjórn".  Álíka gáfulegt innan kerfis auðræðis eins og þegar nasistar gerðu samning við leiðtoga gyðinga í Þýskalandi um mannúðlega útrýmingu, eins og slíkt væri til.  

Um þá samvinnu var gerð átakanlega kvikmynd sem ég man ekki hvað heitir en mér ennþá minnisstætt orð eins "samvinnumannsins" þegar ljóst var að fjölskylda hans skyldi fara á endastöðina, að þá sagði hann"og ég gerði allt sem þið kröfðust".  

 

Það er einu sinni þannig að þeir sem aðhyllast mannúð og mennsku, þeir semja ekki við handbendi ómennskunnar.  Þeir slá ekki af kröfum sínum um að samfélagið eigi að vera réttlátt og sanngjarnt.  Jafnvel þó einhver pólitísk hugsjónarstefna eins og kommúnisminn eða hagfræðileg villutrú eins og auðránið telji slíkt nauðsynlegt

Og lífsviðhorf  Sophie Scholl eru leiðarljós sem geta lýst fólki þegar kemur að glímu við hagfræðileg ómenni sem telja mannfórnir forsenda endurreisnar og hagvaxtar.

Endurreisn samfélags getur aldrei byggst á blóðfórnum barnafólks sem rís ekki undir skuldum sínum.  Hvernig sem þær eru til komnar.

Það skiptir ekki máli hvort hamfarir séu tilkomnar vegna athafna manna eða náttúru, siðuð þjóð aðstoðar þá sem lenda í hremmingum og deilir byrðum og kostnaði réttlátlega á milli sín.  

Siðuð þjóð skilur ekki hluta almennings eftir í skítnum svo restin geti áfram haldið að hafa það gott.  

Siðuð þjóð leiðréttir verðtryggð og gengislán þannig að þau séu réttlát og siðuð þjóð hendir ekki fólki úr húsum sínum vegna skulda eða tekjumissis atvinnuleysisins.

 

Íslendingar eru siðuð þjóð sem hefur staðið saman á erfiðleikatímum.  En eitthvað brast við Hrunið og þjóðina skorti þrek til að andæfa gegn hinum nýju vinnumennum auðræðisins.  Þjóðin lætur auðleppa á fjölmiðlum og í háskólasamfélaginu teyma sig á asnaeyrum með orðaleppum eins og uppgjör við fortíðina, þegar ógnaröfl fortíðarinnar eru á fullu að eyðileggja framtíð okkar.  

Það er eitthvað tóm í siðferðisþreki okkar sem gerir okkur ókleyft að rísa upp gegn óréttlæti og órétti.  Við vitum öll að unga fólkið stendur ekki undir Hrunskuldunum en samt aðhöfumst við ekkert.

Það er eins og við séum hætt að þekkja muninn á réttu og röngu, eða við höfum ekki þrek til að segja satt og standa við sannfæringu okkar.

 

Þess vegna er gott að kynna sér orðræðu Sophie.   Að sjálfsögðu eru svona orð á blaði aðeins dauft endurvarp af þunga þeirra í sjálfri myndinni.  En ég ætla að spinna aðeins út frá þeim og benda á dæmi um hvernig þau eiga við okkar nútíð.  Síðan mun ég í rólegheitum skjóta inn tilvitnunum í Hvítu Rósina.  

Vegna þess að sú klassíska hugsun sem þar kemur fram er lykillinn af því hugarfari sem við þurfum ef við viljum í raun breyta þessu þjóðfélagi úr auðræði í almannaræði það er þjóðfélag sem tilheyrir almenningi, og almenningur, það erum við sjálf.

Svo er annað mál hvort þjóðin hafi áhuga á þeim lyklum, en tómhyggjan breytir ekki neinu.  

Það þarf nýja hugsun, nýjar hugsjónir til að skapa lífvænlega framtíð barna okkar.

Við þurfum að endurheimta sálu okkar.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Ómar minn; æfinlega !

Nei; ágæti drengur. Íslenzkt samfélag; er ósiðað með öllu - og má þakka fyrir, að hanga á neðstu tröppu 5. Heims ríkja, í þeim efnum, Austfirðingur vísi.

Auðvitað; veist þú betur, Ómar - dagleg skemmdarverk missyndislýðs, af stjórnmála ruslsins hálfu - fyrir utan hefðbundna Sjoppu þjófa, og annarrs illgresis, á akri hrörnandi mannlífsins, ágæti drengur.

Með beztu kveðjum; öngvu að síður, austur í fjörðu /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 14:48

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Þar er ég ekki sammála þér Óskar.

Dagsdaglega umgengst ég gott siðað fólk.

Af einhverjum ástæðum þá tókst kerfinu að telja því í trú um að það hefði ekki neitt vit á að móta líf sitt og umhverfi, það væri aðeins á valdi hámenntaðra sérfræðinga, og þá fyrst og fremst hagfræðinga sem óvart eru í þjónustu þess hluta kerfisins sem mestan ávinning hafur af ójöfnuði og ránsskap ýmis konar.

Þess vegna er margt í dag eins og það er en fyrst og síðast er umræða hagfræðinga ósiðleg, þeir ræða um fólk eins og það sé dautt, og megi meðhöndla sem dauðir hlutir.  Ekki skepnur því skepnur eiga sín réttindi, til dæmis hjá ESB.  Og þar með gæti ESB ekki komið fram við Grikki eins og það gerir, svo dæmi sé tekið.

Óskar, það er gott að skamma.

En íslenskt samfélag er siðað samfélag.  

Það lítur eftir börnum og gamalmennum, það gerir venjulegu fólki kleyft að mennta sig, það nýtur góðrar heilsugæslu og ef eitthvað kemur uppá hvað heilsu varðar, þá er öryggisnet sem hjálpar.

Ég veit það Óskar því ég missti heilsuna endanlega á ögurstundu lífs míns, með tvö lítil börn í fanginu, ófær um að standa í lappirnar.

Margt er að Óskar en við eigum ekki að tala það niður sem við eigum.  Slíkt gerir ekkert annað en að skemmta óvininum eina.

Styrkir völd hans og áhrif.

Og slíkt er ekki markmið baráttu okkar fyrir nýjum og betri heimi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.4.2012 kl. 15:20

3 identicon

Heill á ný, fornvinur góður !

Það; sem ég hefði viljað bæta við, fyrir stundu, Ómar minn.

Það eru einmitt; yngstu og elstu kynslóðirnar, sem fá að mæta afgangi hér, á landi - við hin; erum tiltölulega burðugri, að verja okkur, gegn óþverranum, þó örðugt sé, oft á tíðum, fornvinur snjalli.

Verum raunsæjir; Ómar minn - Ísland er; á síðasta snúningi.

Ekki; einn einasti glæpaforkólfa atburðanna, frá Haustinu 2008, hefir verið tekinn af enn, eins og gert væri, í SIÐUÐUM löndum (Íran - Kína, og nærsveitum víða), Ómar minn.

Þar í; liggur höfuðvandinn - og reyndu ekki að mótmæla því, því þar hefi ég rétt fyrir mér, í hvívetna, vitaskuld.

Með; ekki síðri kveðjum - en þeim fyrri /    

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 15:40

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Mótmæli ekki hinu augljósa Óskar.

Bendi aðeins á barnaskapinn þegar fólk sem berst gegn kerfinu, ætlar sér meira en vald þess gerir því kleyft.  

Barnaskapurinn (andófið með BH sem miðjupunkt) fólst í að ætla að kröfur um uppgjör væru næginleg forsenda þess að uppgjör ætti sér stað.  

Þegar spjótum var beint af þeim sem áttu að missa höfuð, þá var ekki reiknað með að þessir menn, að þessi öfl myndu verja hendur sínar líkt og allir sem á höggstokkin er stefnt.

Þess vegna er eina sem lifir er krafan um uppgjör, en uppgjörið átti sér ekki stað.  Því þeir sem búa sér til óvinafagnað, ná aldrei neinu fram.  

Þar sem uppgjör við fortíðina skiptir höfuðmáli í því stríði sem framunda er, þá er þessi barnaskapur birtingarmynd taktleysi þess fólks sem telur sig umkomið að breyta hlutum til betri vegar. Það sklur ekki að orð, þó falleg séu, breyta engu til eða frá, nema þá í víðari merkingu, að orð skapa hugsun sem leiðir af sér hugsun, a la fiðrildaráhrifin svokölluðu.  

Það er aðferðarfræðin sem er forsenda breytinga Óskar, og gagnvart þeim óvini sem við er að glíma þá er aðeins ein aðferðarfræði sem virkar.  Annað er ferðalag út í ógöngur.

Við höfum rætt þessi mál áður Óskar, þá sagðir þú við grunnröksemd minni, "við deyjum hvort sem er öll einhvern tímann".  Þar er ég ekki sammála, ég vil ekki að börnin mín deyi.  Þess vega hafna ég aðferðarfræði ófriðar og hjaðningsvíga, aðferðarfræði sem í besta falli drepur okkur öll, þar á meðal óvininn eina, en líklegast mun hún aðeins valda mannfalli hins venjulega manns en valdið mun ekki einu sinni sjá rispu á hörund sínu.

Nei Óskar, ég fer ekki í stríð nema til að vinna þau.

Og einn daginn munu fleiri ætla sér slíkt hið sama.

Á meðan læt ég mér duga að sjá enn einn titilinn í höfn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.4.2012 kl. 16:10

5 identicon

Þessi pistill hjá þér Ómar segir allt sem segja þarf um þetta ástand hjá okkur í dag. Hafðu þakkir fyrir alla þina pistla og  það er alveg á hreinu, að þeir vekja fók til umhugsunar. Ég held, ásamt fleirum, að það væri auðvelt að hópa saman fólki eins og þér,  til að leggja í nýtt framboð. Hef lesið það á ummælum að margir hafa skorða á þig. Því ekki.??? Færð mitt atkvæði. Og félagi þinn Óskar ætti að íhuga það sömuleiðis. Með bestu kveðjum.

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 16:38

6 identicon

Komið þið sælir; á ný !

Sigurður Kristján !

Ómar Geirsson; mætur Austfirðingurinn, verðskuldar fyllilega, þína umsögn um hann - og fyrir hvað hann stendur, enda,......... er Ómar friðarins maður - ég aftur á móti ófriðarins, sem mótast af Mongólsku blóði mínu, í framættir, á aðra vegu, ágæti drengur.

Í ljósi; allra þeirra aðstæðna, sem hérlendis ríkja - og hafa verið, um all nokkurt skeið, skýrist því heipt mín, sem hefnigirni, Sigurður minn.

Ég er; enginn fyrirgefningar sinni, sem fram er komið, aldeilis.

Ómar; veleðla síðuhafi !

Þakka þér og; drengileg andsvör þín, sem einurð alla, sem jafnan - og ei, við öðru að búast, úr þínum ranni. 

Með; fjarri því síðri kveðjum - en þeim fyrri - og áður /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 16:58

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur Óskar.

Ég náði ekki að spinna alla mína þræði áðan, þurfti líka að vera familymaður svona í tilefni páskanna.

Tók því fyrir aðalatriði málsins, en náði ekki að fylla upp rökfærslu mína.  Ætla að gera það núna svo við útkljáum þennan áherslumun okkar um hvernig best er að standa að afhausun kerfisins.

"í SIÐUÐUM löndum (Íran - Kína, og nærsveitum víða)".

Þú veist mæta vel að tugmilljónir týndu lífi við þvinguð valdaskipti í Kína á fjórða og fimmta áratugnum.  Meginpart fólk sem átti sér engan annan draum æðri en að vakna lifandi á morgni, sæmilega haldið.  Og jú, að börnin þeirra myndu lifa, dafna og vonandi eignast skárra líf en það sjálft.  

Eftir þessi "siðuðu" valdaskipti hafa tugmilljónir látist vegna "siðaðs" viðhorfs valdhafa til hins venjulega manns.  Að hann megi deyja ótímabærum dauða í þágu gloríu þeirra og því miður, duttlunga.  Í dag eftir að þjóðfélagið "afsiðaðist" dálítið og aðeins þúsundir hér og þar eru hnakkaskotnir árlega, sjálfsagt margir sem eiga það skilið en líka margur sem ekkert hefur til saka unnið en að vera fyrir spilltu valdi, að þá kunna Kínverjar samt enga aðra aðferðafræði við valdaskipti en hina "siðuðu", að drepa mann og annan.  Og þau hjaðningsvíg blasa við í þessu þjóðfélagi þrælahalds og misréttis.

Og aftur get ég lofað þér því Óskar að flestir hina föllnu verða úr hópi hins venjulega manns sem á þannig séð ennþá sömu óskina, að vakna lifandi að morgni, og jú að sjá börnin sín vaxa og dafna í betra þjóðfélagi en það sjálft lifði í, sem var samt, þrátt fyrir allt mun betra en áar þeirra lifðu við.

Um hina siðuðu valdahafa Írans ætla ég ekki að hafa mörg orð Óskar, þar grafa menn niður konur upp að hálsi svo mannaumingjar geti grýtt þær.  Og jú, þar er ótímabær dauðsföll hins venjulega manns, sem á sér enga aðra ósk en að vakna lifandi að morgni, og jú að sjá börn sín vaxa og dafna til betra lífs, talin í hundruðum þúsunda, ekki tugmilljóna eins og hjá hinum "siðuðu" valdhöfum Kína.  En það er ekki viljinn til verka sem gerir diffinn, það er mannfjöldinn sem menn hafa í hendi sér til að siðvæða.

Svo ég dragi þetta saman Óskar, þá er það söguleg staðreynd að nýtt stjórnvald sem nær völdum með því að afhausa fyrri valdhafa, er alltaf blóðþyrstara en það gamla.  Og það er fólk eins og ég og kona mín, börn okkar og foreldrar, nágrannar og vinir, sem eru fóðrið í því blóðbaði öllu.

Og ég hinn venjulegi maður er orðinn þreyttur á að vera endalaust sá sem er drepinn í höfðingjanna tafli.  Og skiptir það mig engu þó nýir höfðingjar þykjast ætla að vera betra stjórnvald en það gamla.  

Ég hef dómgreindina til að skilja söguna, til að læra af því sem þegar hefur gerst, það hefur jú aðeins gerst milljón sinnum áður.

En það gerir mig ekki að friðarins manni Óskar.  Og ég er dálítið hissa að þú sem þekkir vel til vígaferla minna í ICEsave skuli halda slíku fram.  Á meðan aðrir muldruðu og tuðuðu um það þetta væri ekki rétt, að þetta væri spilling og rán og eitthvað, þá réðist ég beint að kjarna röksemda andstæðingsins, kallaði hann fjárkúgara og þjóf, og ólikt öðrum, þá vitnaði ég í lagatexta máli mínu til stuðnings.   Ég veit ekki hvað margir mánuðir liðu þar til aðrir bloggarar, sem vildu vera lesnir og teknir mark á, þorðu að nota sama orðalag.  Að krafa breta væri hrein lögleysa.

Á meðan háði ég margar rimmurnar, glímandi við marga andstæðinga samtímis. Ekki talinn húsum hæfur því ég talaði beint um þjófnað, fjárkúgun, landráð, og vogaði mér að rökstyðja það.  

Slíkt gera ekki friðarins menn Óskar, þetta gera vígamenn.  Og ég hélt að þú vissir það.

Ég ítreka að ég fer í stríð til að vinna þau, með þeim ráðum og meðölum sem þarf til þess að sigra þau.  Og ég vil líka sigra friðinn, ekki skapa meiri óskapnað en fyrir var.  Heldur að ná markmiði mínu, um eitthvað Nýtt og betra.

En það er friðsemd í mér, viðurkenni það.  Þess vegna bendi ég kurteislega á af hverju ómarkvisst sverðaglamur er til þess eins fallið að styrkja óvininn.  Pistlar mínir með spádómum mínum eru frá árdaga uppreisnarinnar gegn Helstefnu Nýfrjálshyggjunnar, allt sem ég sagði fyrir, hefur gengið eftir.

Ég teldi því rétt að menn færu að hlusta í stað þess að rífast við mig enn einu sinni.  Það er ef menn hafa manndóm og kjark til að gera eitthvað sjálfir, til að berjast gegn þursum valdsins sem eru langt komnir með að starta eyðingarferli siðmenningarinnar með eitri sínu og mannlegum viðbjóði.

Ég tek það skýrt fram Óskar, ég er ekki að hnýta í þig.  Brýningar þínar hafa skerpt sverð mitt og aukið þunga atlaga minna gegn kerfinu.  Ef þær hefðu ekki komið til þá hefðu þúsundir Íslendinga ekki lesið pistla mína um vaxtaþjófa eða siðleysi þess að styðja fólk sem rænir samlanda sína, eða stuðlar að eða ver þann ránsskap.  Ég var á útleið eins og svo oft áður, nema neisti skrifa minna var kulnaður.   Þegar þú kveiktir í honum aftur.

En þú verður að skilja að stríðsmanni berð þú ekki á brýn að hann vilji ekki stríða, þegar hann neitar að taka þátt í tilgangslausum hjaðningsvígum vegna þess sem liðið er.  Vegna þess að hann vill halda í stríð við hinn raunverulega óvin, og sigra hann.  Að vega hann að hjartarrót í stað þess að höggva endalaust einhvern hausinn eða fálminn sem hann skýtur endalaust út frá búk sínum.

Það felst í orðinu endalaust að ekki er hægt að vega skepnuna með þeirri taktík, það kemur alltaf nýr haus, nýr fálmari í staðinn.  Hjarta hans er hugmyndafræði illskunnar, og gegn henni er aðeins eitt vopn til.

Og stríðsmaður sem ætlar að vinna stríðið, að fella skepnuna, hann notar það vopn.  

En friðarins maður er ég ekki Óskar, og verð aldrei.  

Hins vegar ber ég ekki á móti því að það er ekki í eðli mínu að höggva sigrað fólk, sama hver á í hlut, sama hvað það hefur gert.  Ég er ekki dómari, það er hinn æðri dómur sem dæmir.  Mitt hlutverk er aðeins að gera illyrmin óskaðleg, og sá sem iðrast byrjar alltaf á núlli, fær annað tækifæri.  

Að trúa á mátt fyrirgefningarinnar er að vona að manni sjálfum verði fyrirgefið þegar að þar að kemur.  

En það er bara mín skoðun, mitt lífsviðhorf, það vill bara svo til að það fellur inn í vopnið eina.  

Og ég þarf ekki að taka það fram að ef það gerði það ekki, þá myndi ég ekki heyja stríðið.  Ef illska á að vinna illsku, þá vil ég allavega eiga vonina um að það sé til önnur leið.  

Ég sé nefnilega engan mun á illmenni sem er bara illur og reynir ekki að réttlæta það neitt, eins og þau Óbermi sem níðast á saklausu fólki í dag, um allan heim, og illmenni sem réttlætir illdæði sín með tilvísun í að hann vilji svo vel.

Nema að mér þykir sá seinni verri því hans glæpur, auk illskuverka, er að svívirða vonina um réttlátt sanngjarnt þjóðfélag þar sem lögin eru skrifuð út frá lögmálum mannúðar og mennsku.  Og stjórnað af fólki sem skilur inntak þess.

Það er glæpurinn eini, en það er jú aftur mitt mat Óskar.

En persónulegt mat mitt á leiðinni einu til að vinna stríðið við óvininn eina, það kemur leiðinni ekkert við.

Hún er einfaldlega Leiðin eina.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.4.2012 kl. 19:00

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir hlýleg orð Sigurður.

Allt sem gert er, það er ef tilgangurinn er að gera eitthvað en ekki segjast ætla að gera eitthvað, lítur ákveðnu lögmáli, sem má kalla list hins mögulega.  Nokkuð augljóst þegar menn hlæja að brandaranum um Emil maur sem átti að kirkja fílinn.  

Ekki kannski alveg eins augljóst ef menn ætla að breyta Íslandi til betri vegar.  Hvað þá að taka glímuna við óvininn eina sem engu eirir.  En samt, framúr hinu mögulega fer enginn.

Það sem ég hef í hendi er stílvopnið og ágætur talandi.  

Stílvopnið er til að vekja fólk til umhugsunar, að setja hlutina í annað og stærra samhengi en venjan er í þjóðfélagsumræðu dagsins í dag.  Vissulega sérviska en nú er tími sérviskunnar.  Og akurinn er frjór, mér finnst það mikið afrek að hafa náð því að yfir 200 manns lesi þessa pistla dag eftir dag, því flestir í netheimum eru að leita að velorðuðum skömmum, um "hina" notabene, ekki "sína".

Uppskera mín yrði síðan að þetta hjálpaði fólki að koma fram og leggja áherslur á nýja hugsun.  Þar liggja mín mörk í list hins mögulega.

Talandinn virkar hins vegar þannig að fólk sem vill að ég tali, biður mig um að koma að hitta sig og tala.  Og ef mér er einhver alvara með kenningu minni um að næsta skref er að hver og einn svari spurningunni "Hvað get ég gert??", þá er ljóst að mér ber skylda til að koma og mæta.  

Ég hef fengið eitt svoleiðis fundarboð, og það var hjá Áhugahópi um Norðfjarðargöng, og ég mætti auðvitað og talaði.  Ávinningurinn var allavega sá að hinir sem boðuðu mig á fund, þurftu minna að tala.

Hvað kemur út úr því, má guð einn vita.  Boðskapur minn, að fólk flytji fjöll, hann virkar ekki nema að fólk hefjist handa um slíkt.  Það er tregðan eina sem þarf að yfirvinna til að við sjáum ferli sem mun að lokum breyta samfélagi okkar varanlega.

Og þetta er eitthvað sem ég hef ekkert um að segja.  

En gæti hugsanlega eitthvað hjálpa til.  Samkvæmt takmörkum þeim sem hið mögulega setur raunheimi.

Ég bý ekki í alfaraleið svo ég hef ekki tök á að mæta á fundi í hringiðu atburða.  Og þá fundi þar sem fólk vill fá mig til að spjalla um mína Sýn á byltinguna.  En hús mitt er alltaf opið, ég er alinn upp við að taka kurteislega á móti fólki og veita því þann tíma sem það þarf með erindi sitt.

En að ég gefi út fréttatilkynningu um framboð er eitthvað sem mun ekki virka.  Ástþór á eiginlega þann flöt umræðunnar.

Það er bara svoleiðis Sigurður, það er bara svoleiðis.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.4.2012 kl. 19:25

9 Smámynd: Eggert Guðmundsson

"Back to the beginning"

Það mætti halda að pistill þinn fjalli um sögu Orwells, þ.e. þegar svínin voru búin að ná yfirráðum.

Það var ekki fyrr en völdin komu til " samfélagsins", þegar siðrofs fór að gæta innan samfélagsins. 

Þess vegna segi ég -eins og þú boðar-

Back to the beginning.

Eggert Guðmundsson, 9.4.2012 kl. 21:10

10 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Þrautalaus ganga.

Eggert Guðmundsson, 9.4.2012 kl. 21:11

11 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Og frábær skrif hjá þér ómar.

Eggert Guðmundsson, 9.4.2012 kl. 21:15

12 identicon

Komið þið sælir; sem fyrr !

Ómar minn !

Í öngvu; hugðist ég smækka þátt þinn, einn hinn mikilvægasta allra - í baráttunni við : Breta - Hollendinga og Landsbanka svindlarana, nema síður væri, hvað þá; í öðrum málaflokkum, en Icesave, einum; og sér.

Fjarri fer því; þú ættir að þekkja mig betur, en svo.

Sættumst á það eitt; Ómar, að hugmyndafræðilega, er gjáin - okkar í millum, óbrúanleg á köflum, þó; stuttir séu, sem betur fer, ágæti drengur.

Breytir öngvu; um okkar grunn vináttu, á nokkra vegu, Austfirðingur prúði.

Með; sízt lakari kveðjum - en hinum fyrri / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 23:31

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Chao.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.4.2012 kl. 09:12

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert.

Back til the basic er grunnur af endurreisn samfélaga okkar.

Að grunneiningin, fjölskyldan-heimilin, sé gert sem auðveldast að lifa og dafna.  Að hagur hennar er hagsæld samfélagsins.

Því betri menntun, því betri heilsa, því meiri virðing sem einstaklingnum er sýnd, því öflugri er hann í samfélaginu, í hagkerfinu.  Og þar að leiðir að hagkerfið í heild er öflugra, því það er ekkert annað en summan af hag einstaklinganna.

Þess vegna leggur hagfræði lífsins alla áherslu á að stuðla að grósku og þrótti í samfélaginu.  Stuðlar að menntun og þekkingarleit og skapar umhverfi þar sem þekkingin leitar út í atvinnulífið.  

Hagfræði lífsins skapar ótal græðlinga og útbýr akur þeirra, hagkerfið, á þann hátt að þeir nái til að vaxa og dafna við sem bestu skilyrði.

Hagfræði dauðans, sú sem ræður í dag, hún gerir þveröfugt.  

Brýtur niður einstaklinginn, brýtur niður heimili hans, ógnar fjölskyldunni. 

Það gerir hún með því að skera niður í innviðum samfélaga, með því að einkavæða þá, með því að draga úr öryggi fólks og ýta undir lögmál frumskógarins.  

Hagfræði dauðans hækkar vexti til að kæfa gróskuna.  Hún skattleggur almenning til að borga skuldir fjárbraskara, til að borga tapið af braski þeirra, til að endurreisa kerfi þeirra svo sama braskhringekjan geti aftur farið í gang.

Hagfræði dauðans kæfir, eyðir á meðan hagfræði lífsin byggir upp, stuðlar að grósku og fjölbreyttu mannlífi.

Hagfræði lífsins er hagfræði einstaklingsins, hagfræði dauðans er hagfræði auðræningja, sníkjudýra sem sjúga allan þrótt úr samfélögum fólks.

Fyrir einstaklinginn er valið skýrt.  Fyrir braskarann er valið skýrt.

En við erum bara fleiri.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.4.2012 kl. 09:31

15 identicon

Sæll aftur Ómar og gestir þinir. Ef ekki væri fyrir þín skrif og þinn óeigingjarna tíma sem þú gefur í það að koma hér fram á bloggheimum, þá væru bara bloggheimar ekki til. Skrif þin vekja fólk til umhugsunar og hvatningar um að hægt sé að gera betur. Þess vegna ert þú að fá þessar lesningar á þína síðu. Við viljum fólk með skoðanir og að það standi við þær. Við viljum ekki lengur fá aftur þetta úr sér gengna pólítiska flokkshagsmunarfólk sem kemur fram reglulega til þess eins að ljúga að okkur hvað það ætlar að gera og gerir það svo ekki. Ef Óskar Helgi les þetta núna, þá skil ég skil ég hans heipt  og hefningirni. Besta hefndin væri sú, að vel mæltir menn og hugsuðir eins og þú og Óskar og fleiri hér á bloggheimum,  tækjuð höndum saman og færuð í framboð. Ég veit fyrir víst, að þar myndu þið félagar fá fullt af atkvæðum. Kveðja.

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 10.4.2012 kl. 18:35

16 identicon

Heilir og sælir, sem fyrr !

Sigurður Kristján !

Heilshugar; tek ég undir fölskvalausa áskorun þína, Ómari Geirssyni, vel að komnum,til handa, við þinni hvatningu, öldungis.

En; ALDREI, tæki ég þátt í nokkru stjórnarfari, sem viðheldur þinghaldi, eins og við þekkjum það, Sigurður minn.

Til þess; að geta hafnað því auðveldlega, er stuðningur minn, við Falangisma Francós heitins á Spáni - sem og Gemayel feðga í Líbanon, á mjög styrkum fótum.

Þar um ræðir; hugsjónina, og fámennisstjórn Byltingarvarða vopnaðra - og þar með, hinna beztu manna, úr framleiðslu- og þjónustu greinum landsins, eins og ég hefi margsinnis komið inn á, á minni síðu - sem og annarra, Sgurður Kristján.

Þakka þér samt; trúnaðartraustið, mér til handa, ágæti drengur, enn og aftur.

Með; ekki síðri kveðjum - en öðrum, áður /   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.4.2012 kl. 19:55

17 identicon

Allt sem hér fer fram á þessari síðu, er síðuhafanda  þakkar vert. Ef ekki væri fyrir hans endalausu þolinmæði með sín skrif, þá væru bloggheimar dapurlegir. Hitt er svo annað  mál, hvernig fólk er valið til stjórnar. Ef gamla "líkneskið" ríkisstjórnin,  á að ráða hér för, verður engin breyting hér til batnaðar. Gamla flokksmaskínan ræður hér ennþá. Til þess að ná fram breytingu  þarf menn með hugsjón, hugrekki  og þor. Ég tel að Ómar sé sá maður. Og Óskar, þrátt fyrir þína trú og stuðning við Falangisma Francós heitisins, sem og Gemayel feðga fra Líbanon, þá ættir þú í anda þeirra, að standa upp með íslenskri alþýðu og koma þessari óstjórn frá. Það myndi verða stolt þeirra að vita af því að þeirra er ennþá minnst. Með bestu kveðjum.

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 10.4.2012 kl. 20:58

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaðir félagar og takk fyrir hlý orð í minn garð.  Auðvita skiptir feedback alltaf máli og ekki get ég kvartað yfir því í gegnum tíðina.  Og Sigurður vissulega geri ég mér grein fyrir að tryggur hópur les skrif mín.  Reyndar merkilega margir miðað við að þetta er jaðarblogg sem oft reynir á lesendur vegna óvenjulegra efnistaka í löngu máli.

En segir mér samt bara það Sigurður að það er grundvöllur fyrir hóp fólks sem vill marka sér sérstöðu í þjóðmálaumræðunni, og sú sérstaða er siðleg nálgun á hagfræðileg og pólitísk umfjöllunarefni.  Ég sæi það til dæmis í anda debat þar sem mælskumaður hefðbundinnar umræðu héldi þrumræðu um kostnaðinn við að leiðrétta forsendubrestinn, að þá, í stað þess að halda ræðu um efnislegan ávinning að losa um skuldakreppu heimilanna (sjá til dæmis frétt á Mbl.is um ábendingar AGS), að spyrja viðkomandi, "hver ól þig eiginlega upp vinur???, var þér ekki kenndir góðir siðir í æsku??", og yfirhöndin í umræðunni er komin til framboðs lífsins.  Því hagfræði þess er eina hagfræðin sem á svar við öllu, og hinn nýi tónn sér til þess að debatið er háð á sviði sem Óbermin þekkja ekkert til.  Þeir vita nefnilega ekki hvað siðleg hegðun er.

En forsenda þessarar hugsýnar er hópur fólks sem sameinast um hana og lætur hana verða að veruleika. 

Óhefðbundin leið krefst óhefðbundinna aðferða, það að standa uppá kassa, og segja, "kjósið mig, ég er bestur" er hinsvegar mjög hefðbundið.  

Lykillinn að árangri er hópur fólks sem vill láta gott að sér leiða og hefur sannfæringu fyrir að það geti það.  Ég sé ekki þennan hóp í dag Sigurður, ekki á þeim forsendum sem ég er að tala um.  Ég sé margt gott fólk ræða málin og margir eru á réttri leið.

En hafir þú sannfæringu fyrir þeirri hugmyndafræði sem ég er að reyna að koma orðum að og er til alveg óháð persónu minni, þá veistu að þú ert ekki á réttri leið.  Þú ert leiðin, þú hefur rétt fyrir þér.  

Því hagfræði lífsins er rétt, aðferðafræðin á bak við hana finnur alltaf réttu lausnirnar, og framkvæmir þær á réttan hátt.  

Þegar ég sé eða upplifi hóp fólks með þessa sannfæringu, þá mun ég aðstoða það að fremsta megni, sem einn af hópnum, með mínum kostum og göllum, eins og allir aðrir.  

Ég er starfandi í svona hóp.  Hann er að vísu ekki um hagfræði lífsins, markmiðið er praktískara.  En aðferðafræðin, að trúa á gott málefni og reyna eftir sinni bestu getu að vinna að framgangi þess, það er aðferðafræði lífsins.

Og svona hópar eru starfandi víða um land og vinna að góðum málum.  

Af hverju þeir myndast ekki í landsmálapólitíkinni, ég á ekki svarið.  Það er eitthvað í Hvötinni sem vantar.  Ennþá skiptir argþrasið meira en framtíð barna okkar.

En það er einn góður fylgifiskur trúnni á lífið.  Það er sú vissa að lífið finni sér leið og sú leið mun finnast í íslenskri þjóðmálaumræðu.  Hvernig???, hvar??, veit það ekki en það mun gerast.

Mín vogarskál er þetta blogg en það þarf svo miklu, miklu, miklu meira til og ekkert af því mælist á mínum vogarskálum.

En hreyfiaflið er Hugljómunin, og hún kemur innan frá.  Ekki frá öðrum, sama hversu ágætir þeir eru í að halda fram sínum málstað.

Þess vegna er ég að reyna að vekja athygli á þeirri hugsun að leitandi fólk spyrji sig grunnspurningarinnar, "Hvað get ég gert???".  

Svarið við því gæti verið upphafs hóps sem myndar afl sem að lokum leggur óvininn eina að velli.  Og tryggir þar með framgang lífsins á ögurstundu mannsins.

En ég er bara ég Sigurður, hef mína Hugljómun, en ég ljóma ekki fyrir aðra.

Og það sem meira er, ég er eiginlega búinn að segja allt sem ég hef að segja.  Á aðeins eftir að renna Sannleikspistlunum í gegn.

Ég fékk kall sem ég þarf að sinna eftir bestu samvisku og ég er ekki margra verka maki.  

Vonandi fáið þið líka Kall þarna fyrir sunnan þar sem hringiða umræðunnar er.  Ég myndi heilsa upp á ykkur ef ég gæti.  En í raunheimi á ég heima hér fyrir austan og við erum að fara að bora.

Eftir bestu getu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.4.2012 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 91
  • Sl. viku: 4176
  • Frá upphafi: 1338875

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 3743
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband