Orðræða Sophie Scholl er kjarni mennskunnar.

 

Kvikmyndin, Síðustu dagar Sophie Scholl lýsir sálarstyrk ungrar manneskju sem ekki er tilbúin að svíkja hugsjónir sínar fyrir líf i þrældómi og ótta.  Orðræða hennar við lögreglumanninn, fulltrúa kerfisins, er algjör snilld. 

Og sönn.  Bæði sönn í þeirri merkingu að hún fjallar um sannleikann eina, sem og hitt að þessi orð eru til skrifuð á blaði og lýsa ótrúlegum þroska ungrar manneskju á ögurstundu lífs hennar.

Hér á eftir ætla ég að draga fram stuttlega helstu atriði hennar og bið fólk að hafa í huga að hún er aðeins endurvarp þess sem fram kom í myndinni.

 

Eftir langa samræðu um hvort atferli hennar væru föðurlandssvik eður ei, þá spyr lögreglumaðurinn hverju eigi að fylgja öðru en lögunum.

Sophie:  "Samviskunni".

"En hvernig fer ef allir greina rétt og rangt eftir samvisku?",   " glæpsamleg óreiða???"

Sophie:  "Samviskan er vernd gegn gerræði.   ... Við reynum bara að hafa áhrif með orðum".

"Því hættið þér svona miklu eins ung og þér eruð??".

Sophie:  "Vegna samvisku minnar!!".

 

Löggan lýsti "siðferðislegu ábyrgu ríkisvaldi" sem berðist gegn auðvaldi og bolsvéisma.  "Heiður, æra, sæmd".  ............ - "Eitthvað hefur misfarist í uppeldi ykkar".

Sophie lýsti hvernig geðsjúk börn voru flutt í gasklefana og spurði síðan:  "Ef ég illa upp alin af því að ég hef samúð með þeim???".  ...... "Þess vegna veit ég að enginn getur fellt dóm sem Guði einum er ætlaður".  ..."Allt líf er dýrmætt.  Þetta snýst um velsæmi, siðferði og Guð".

 

Löggan benti Sophie á að "líf hennar væri í húfi".  Og hann bað hana að reyna að bjarga sér með því að skella skuldinni á bróðir sinn.  -"Að játa mistök er ekki að svíkja bróðir sinn".

Og svar Sophie er grundvallarsvar:  "En hugsjónina????".  "Ég myndi gera þetta aftur því lífsskoðun yðar er röng.  Ég tel sem fyrr að ég hafi unnið þjóð minni gagn.  Ég iðrast þess ekki og tek afleiðingunum."

Þessi afleiðing var öruggur dauðadómur því alræði nasismans leið ekki sjálfstæða hugsun byggða á mannúð og mennsku.  Og að orða hana svo aðrir læsu var gjörð sem dauðarefsing lá við.

 

Dómforsetinn var þekktur skíthæll og lítilmenni sem naut þess að hæðast að bandingjum kerfisins.  En hann laut gras fyrir siðferðisþroska Sophie og orð hennar brutu hæðni hans á bak aftur.

Sophie:  "Þjóðin vill frið.  Að mannleg reisn verði aftur virt.  Þjóðin vill Guð, samvisku og samkennd".  ... "Það sem við skrifuðum hugsa margir en þora ekki að segja".

Og lokaorð hennar við ómennið var:  "Bráðum standið þér hér þar sem við erum núna".

 

Og síðustu orð hinna dauðdæmdu við hvort annað eru kjarni andstöðu hins smá gegn ofurvaldi kúgunarinnar.

"Þetta var ekki til einskis".

 

 

Um þessa hugsun sem ég reyndi að fanga með þessum útdrætti má hafa mörg orð.  Þetta er kjarni þess sem íslenska þjóðin þarf að skilja, að endurreisn byggð á óréttlæti, er ekki endurreisn,  heldur áframhaldandi niðurlæging og smán.

En lengdarinnar vegna ætla ég aðeins að tæpa á því helsta sem kom í huga mér.  

 

Samviska er æðri ólögum og rangindum.  Það eru ranglát lög sem koma Hrunskuldum auðmanna yfir á almenning með verðtryggingu og ólöglegri gengistryggingu.  Og fólk með samvisku andæfir slíku.  Nú nýleg lét manneskja, sem oft hefur verið kölluð samviska þjóðarinnar,  mæra sig á málþingi sem var sjónvarpað.  Margt gott var sagt, en enginn minntist á sjálft óréttlætið, Hrunskuldir barnafólks.  Enginn minntist á að auðkerfið stefndi að því að gera þjóðina að skuldaþrælum með ICEsave og AGS.  Sjálfsagt hefur það þótt pólitískt, eins og það sé pólitík að hafa samvisku og þekkja muninn á réttu og röngu.

Og samviska þjóðarinnar hlustaði  á Yfirlepp Auðræðisins mæra sig án þess að nota tækifærið til að segja henni að "svona geri maður ekki".  Þar með varð samviskan hol eins og siðferði þjóðar sem fórnar börnum sínum á altari græðgi og sérhyggju fjármagnseiganda.

 

Biskup Íslands er annar sem hefur misst mátt sinnar raddar og núna talar hann um þjóðina eins og hún sé sek, sek við það eitt að vera samlandar manna sem týndu sáli sinni í holtaþoku auðræðisins.  Vissulega hafði þjóðin það gott og lífsgæðakapphlaupið var mikið.  En hver sparar á tímum allsnægta og velmegunar???  Þjóðinni var talin í trú um að hún hefði það gott og hagaði sér eftir því.  En það var engin mannvonska í gangi, mannúðarsamtök urðu ekki var við tómlæti og síauknum tekjum ríkisins var varið í að styrkja velferð og menntun þó alltaf megi deila um hvernig til tókst.  

En það er auðveldara að skamma einstaklinga en kerfið sem rændi þjóðina, sérstaklega þar sem það er ennþá við völd.  Sérstaklega ef menn hafa misst sjónir á þýðingu þessara orða; "Guð, samviska, samkennd".  Þeir sem skilja þau taka slaginn við kerfið sem rændi þjóðina og fórnar  börnum hennar.  

En kirkjan hefur ekki tekið þann slag.

 

Frekar vil ég bíða tjón en fórna hugsjónum mínum sagði Sophie Scholl.  Það viðhorf virðist ekki hrjá órólegu deild VinstriGrænna sem þrátt fyrir fögur orð og fyrirheit viðheldur Leppstjórn Auðræðisins.  Hvar eru öll orðin um skuggahlið alþjóðavæðingarinnar og skítlegt framferði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins????  Var þetta gagnrýni án innri sannfæringar???

Aðeins samviska þessa fólks getur svarað þeirri spurningu.

 

Og lokaorð Sophie til þjóna ómennskunnar eru i fulli gildi í dag.  Atli Gíslason fer fyrir nefnd sem ræðir um Landsdóm og ráðherraábyrgð.  Ljóst er að þeir sem réðu gengu ekki gegn gagnrýni OECD og helstu sérfræðingar landsins mærðu útrásina allt fram á sumarið 2008.  Ef um landráð er að ræða, þá var það af gáleysi, ekki vilja.

En að svíkja þjóð sína í hendur breta er landráð, framkvæmd með fullri vitund og vilja núverandi ráðamanna.  Að reyna að skuldsetja ríkissjóð upp í 60% af ráðstöfunartekjum er landráð, hvernig sem á það er litið.  Að neita barnafólki um aðstoð er ómennska sem eina og sér krefst hörðustu refsingar.

Refsingar sem kallast skömm og fyrirlitning alls ærlegs fólks.

Menn skildu gá að sér áður en þeir kasta steinum úr glerhúsi, eigin tiltekt er forsenda þess að geta gagnrýnt aðra.

 

Okkur væri nær að læra af þeim sem höfðu manndóm til að takast  á við kúgun og ómennsku með orðræðu mennskunnar að vopni.  

Því ekkert þjóðfélag breytist, ef við viljum ekki sjálf breyta okkur.

Og viljinn til þess er hin stóra spurning sem við stöndum öll frammi fyrir.

Höfum við kjark til að hafna rangindum og ómennsku?

Jafnvel þó það kosti okkur að þurfa að segja satt, óháð hagsmunum okkar og stöðu?

Það er spurningin.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Hér er umræðan sem spannst við fyrstu útgáfu þessa pistils.

Takk fyrir innlitið kæra fólk.

Inntak og hugsun þessa pistils er öll komin frá þeirri frábæru bíómynd sem Síðustu dagar Sophie Scholl er.  Ein og sér er hún frábær, en fyrir okkur sem hafa lesið bókina eða á annan hátt kynnt okkur sögu þessara mikilmenna sem þetta unga þýska fólk var, þá var hún, ja ég veit ekki hvernig ég á að orða það, guðdómleg, í þeirri merkingu að hún kom á hárréttum tíma fyrir þjóð okkar. 

Vegna þess að öll þessi saga á erindi við þjóð okkar í dag.  Við þurfum svo mikið á boðskap hennar að halda.  Það er á svona tímum sem maður skynjar alvöru alvörunnar og meðtekur dýpri rök tilveru okkar og forsendur mannlegs samfélags.

Þær forsendur eru ekki gróði og sérhyggja, heldur við öll og líf okkar.  Vonir okkar, þrár, og rétturinn til að vera manneskja.  Enginn höfðingi, ekkert kerfi, getur svipt okkur þessu samfélagi.

Það er bæði einnar messu og einnar orrustu virði.

Og fyrir Sophie var það meira virði en lífið sjálft.

Vandi þjóðar okkar í dag er sá að hún skynjar ekki lífsháska sinn og þá ógn sem að steðjar.  Og hún trúir mönnum sem segja henni að peningar séu meira virði en fólk, að það þurfi að vernda peninga með öllum ráðum, og öllum meðulum, líka meðölum sem eru unnin úr lifi fólks og limum.

En það er fólk sem skapar samfélag, ekki peningar.  Og það er fólk sem býr til peninga, ekki öfugt.

Þess vegna er forgangsröðin alltaf á hreinu, manneskjan fyrst, svo restin á eftir.

Um það snýst mannúð og mennska.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.4.2010 kl. 01:21

5 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Frábærlega orðað hjá þér, ég sem hélt jafnvel að eitthvað væri að minni hugsun varðandi hrunið og öllu sem því fylgir. Ég hef einmitt verið að hugsa hvað sé réttlæti, hvernig á að ganga frá okkar málum við Bretana, það eru barnabörnin ( börn Íslands ) sem fá að þræla fyrir auðvaldið sem kom okkur á hausinn. Það eru barnabörnin okkar sem eru að lenda á götunni því pabbi og mamma ( börnin okkar) eru að gefast upp að borga af fasteignunum, og þegar ég tala um fasteignir þá eru þetta kannski 50 fm.  húsnæði þar sem t.d. 6 manna fjölsk. býr í, en þannig er eitt tilfellið sem ég veit um.

Ómar takk kærlega fyrir frábæran pistil, þetta var talað eins og út frá mínu hjarta.

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 27.4.2010 kl. 14:45

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Guðbjörg, þetta snýst allt um mennskuna.

Í gamla daga hét þetta að vera á sama báti. Til dæmis ef menn lentu í hrakningum, og þurftu allir að fara í björgunarbáta, þá var mati skipt jafnt á milli, í trausti þess að hann dygði þar til hjálp bærist.  

Hagdvergar Íslands skilja ekki slíka hugsun, þeir hefðu strax dæmt þá úr leik, sem sökum slappleika, til dæmis eftir að hafa verið í sjónum, líkamsburða, skipsstöðu eða annars tilbúins kerfis,  væru minna verðugir en aðrir.  Þannig hefðu þeir aukið matarbirgðir elítunnar.

Gallinn við þá hugmyndafræði, fyrir utan að vera siðlaus, er sá að hinir útskúfuðu geta gert uppreisn, og jafnvel fyrirkomið hinum, eða allir myndu farast í átökunum,  eða eitthvað.

Þess vegna er mennskan þrátt fyrir allt skynsamlegust, það eru mestu líkur á að allir bjargist ef allir eru á sama báti, og lúti styrkri stjórn skipstjóra sem er bundinn af þeim eið að koma öllum lífs í land, eða þá að örlög ráði.

Þeir sem skilja ekki þessa fornu hugsun mennskunnar, þeir eru bilaðir.

Núverandi stjórnvöld eru biluð, kallað siðlaus á mannamáli.

Við erum öll á sama báti.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.4.2010 kl. 19:34

7 Smámynd: Árni Þór Björnsson

Þakka þér góðan pistil.   Orð að sönnu. Þjóðin vill Guð, samvisku og samkennd. Smæð þjóðfélagsins og hjarðhegðun hefur leitt okkur á villigötur en þegar syrtir í álinn þarf samstöðu,samvisku,samkennd og Guð. Kannski þarf hamfarir til að þjappa okkur saman. Kirkjunnar menn eru einnig á villigötum .Þeir ættu heldur að fjalla um mannleg gildi og náungakærleik frekar en að ala á sekt og skömm. Af henni höfum við nóg um þessar mundir. Við sjáum að Mammon er lélegur hjáguð. Það reyndi Mídas konungur af Phrygiu, á eigin skinni.Allt sem hann snart breyttist á svipstundu í gull, einnig matur og vín, sem og dóttir hans  Við höfum trúað boðberum peningahyggjunnar: Stjórnmálamönnum, bankastjórum, útrásarauðmönnum og hagfræðingum sem ein hjörð. Nú er hið sanna að koma í ljós. Lygi, svik, samráð, mútur o.s.frv. Ég tek undir að núverandi stjórnvöld er siðlaus. Þau höfum við kosiö til trúnaðarstarfa og þau getum við valið frá einnig. Okkar er valdið og skyldan að gera það sem er rétt. Við sem erum öll á sama báti.

Árni Þór Björnsson, 27.4.2010 kl. 23:38

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Árni.

Vildi aðeins hnykkja á því að það er í sjálfu sér ekki gildismat að halda því fram að stjórnvöld séu siðlaus.

Eins og það orð er skilgreint þá er það alvarleg siðblinda að hafa ekki aðhafst neitt sem skiptir fólk máli í skuldaerfiðleikum þess.  Nú sannar Hrunskýrslan aðför banka að almenningi, og þegjandi samþykki stjórnvalda fyrir þeirri aðför.

Eina gildismat okkar snýr að því hvað við köllum það fólk sem vegna pólitískrar tryggðar afneitar staðreyndum málsins.

Segir ekki satt, svíkur hugsjónir sína og samvisku.

Hvað er það fólk??????

Allavega með snertieinkenni af siðblindu því guð gaf okkur vit til að þekkja rangindi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.4.2012 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 92
  • Sl. viku: 4176
  • Frá upphafi: 1338875

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 3743
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband