Af hverju ?????

Í fyrri pistlum mínum um Uppvakninga, náhirða og 1.000 milljarða svikin hef ég velt því fyrir mér hvað fær venjulegt fólk, sem á engra sýnilegra hagsmuna að gæta, til að svíkja þjóð sína.  Það fer hamförum á netinu og það dómerar umræðuna í fjölmiðlum.  Sigurður Líndal, í netpistli sínum á Pressunni 27. ágúst síðastliðinn, veltir því fyrir sér hvað reki Jón Baldvin áfram í þjóðníði sínu.

Áður en lengra er haldið þá er linkurinn hér fyrir þá sem vilja kynna sér grein Sigurðar: http://www.pressan.is/pressupennar/lesa_Sigurd_Lindal/ur-thrasheimi-stjornmalamanns

En svona orðaði Sigurður sína spurningu.  Og þeir sem hafa fylgst með skrifum Sigurðar í gegnum árin, vita að svona tekur sá aldni heiðursmaður ekki til orða að ástæðulausu.

En Jón Baldvin hefur kosið að taka sér stöðu með harðsvíruðustu öflum í Bretlandi, með Brown forsætisráðherra og Darling fjármálaráðherra í fremstu röð, sem láta einskis ófreistað að knésetja íslenzku þjóðina. Og þetta gerir hann af slíkum ákafa að hann skirrist ekki við að styðja mál sitt við uppspuna og ósannindi málstað þeirra til stuðnings. Hér verður að hafa í huga að maðurinn er fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands og sendiherra sem hafði þá æðstu starfsskyldu að gæta hagsmuna Íslands.

Í grein sinni rekur Sigurður órök Jóns í ICEsave deilunni og hrekur þau lið fyrir lið.  En Jón Jónsson frá Krummastöðum í Krummaskuðsfirði hefði alveg eins getað skrifað þessa grein.  Innihald hennar komst ekki inn í megin umræðuna, hvað sem veldur.   Þó blasa rökleysur og hreinar rangfærslur Jóns við öllum sem aðeins staldra við og íhuga hvað maðurinn er að segja.  Lítum á þrennt til upprifjunar auk þess sem Sigurður tekur fyrir í grein sinni.

1. Þegar Jean-Claude Trichet bankastjóri Seðlabanka Evrópu kemst að þeirri niðurstöðu að innlánstryggingakerfið sem ESB skuldbatt aðildarríki EES til að koma á fót, að það dygði ekki gegn allsherjar kerfishruni, og þá þyrfti meira að koma til t.d aðstoð Seðlabanka eða ríkisvalds, þá notaði Jón Baldvin þetta sem röksemd fyrir því að aðildarríki væru í bakábyrgð, því annars væru innlán ekki tryggð.  Og þetta gleyptu þáttastjórnendur og aðrir á fjölmiðlum hrátt.  Þetta er sama rökleysa eins og hjá manninum sem hélt því fram að Sundabrú væri til, því sko hann las það í skýrslu umferðardeildar að Gullinbrú annaði ekki þá umferð sem kæmi úr Grafavoginum á álagstímum eins og til var ætlast, og því þyrfti að byggja Sundabrú til að anna aukinni umferð. 

Rökleysa??  Auðvita er það rökleysa að þörf á einhverju geri það til, en Jón Baldvin lagði það út frá orðum Trichet að þörfin á ríkisábyrgð (einn af mörgum möguleikum sem hann benti á) gerði ríkisábyrgð afturvirka.  Vissulega voru gömlu lögin gölluð, en lausnin á þeim vanda getur ekki orðið afturvirk.  Sundabrú verður ekki til þó Gullinbrú anni ekki umferð.  Það þarf að smíða hana fyrst og þú bætir úr gallaðri reglugerð með því að semja aðra sem tekst á við þann vanda sem upp kom.

2. Jón  Baldvin heldur því blákalt fram að neyðarlögin íslensku skapi mismunun eftir þjóðerni, en ekki landsvæði eins og blasir við, en út frá því fullyrði hann að þar með séu íslensk stjórnvöld skylduð til að greiða ICEsave og það sé raunar góðverk að þau séu ekki rukkuð fyrir allri upphæðinni, því þau ábyrgist öll innlán á Íslandi.

Burtséð frá því að þetta er mjög hæpin túlkun, þá veit Jón Baldvin og hefur enga afsökun sem gamall þingmaður og ráðherra, að engin ríkisábyrgð á innlánum hefur verið samþykkt á Alþingi, aðeins er um yfirlýsingar ráðamanna að ræða.  Og þær eru ekki skuldbindandi fyrir einn eða neinn, ekki einu sinni þann ráðherra sem gaf út þá yfirlýsingu.  Það er rangt farið með að í sjálfum neyðarlögunum hefðu íslensk innlán verið ríkistryggð, þau voru aðeins flutt í banka í eigu ríkisins, og þessir bankar eru hlutafélög.

3.  Jón Baldvin hefur margoft lýst því yfir til að koma höggi á sína gömlu pólitíska andstæðinga að þeir hefðu átt að koma í veg fyrir að Landsbankinn hefði rekið ICesave reikninga sína í útibúum, þeir hefðu átt að sjá til þess að þau hefðu verið vistuð hjá dótturfyrirtækjum í viðkomandi löndum.  Og ég er svo sem alveg sammála honum í því, að slíkt hefði betur átt sér stað.

En sögnin að hafa er ekki sú sama og sögnin að verða.  Og það er grundvallarmunur þar á í lagasetningu.  Þó þeir hefðu betur gert það, þá voru þeir ekki skyldugir til þess og stjórnvöld höfðu engin bein tæki til að knýja þá til þess.  Þeir urðu ekki að reka reikningana í dótturfélögunum ef þeir töldu það skynsamlegra að gera það í útibúum.  Og það er markaðurinn sem sker úr réttmæti slíkra ákvarðana.  Ekki stjórnvöld, nema þau hefðu til þess lagaheimild, en það höfðu þau ekki.

Hollenska fjármáleftirlitið bendir réttilega á að ef það hefði gert eitthvað sem hefði síðan haft í för með sér bankaáhlaup, þá hefðu þau verið í ábyrgð gagnvart hluthöfum og öðrum þeim sem hefðu tapað pening á því áhlaupi.  Lagaforsendurnar vantaði til að banna þessa netreikninga, og það sama gilti um íslenska fjármálaeftirlitið, lögin heimiluðu þetta.

Lög snúast ekki um hefði.  En samt átti eitthvað að gera og það er sorglegt að það var ekki gert, en slíkt aðgerðarleysi skapar ekki íslenskum skattgreiðendum bótaábyrgð eins og Jón Baldvin heldur fram, en ólöglegar aðgerðir hefðu getað gert það.

Það var sjálft lagaverkið sem var gallað eins og Ögmundur Jónasson margbenti á.  Hið svokallaða fjórfrelsi var og er skrímsli því það felur í  sér frelsi án ábyrgðar.

 

Öll þessi dæmi sem ég rakti hér að ofan eru dæmi um málflutning manns sem tekur hagsmuni annarra ríkja fram yfir hagsmuni sinnar eigin þjóðar.  Og öll sjálfstæð ríki eiga orð yfir slíkan gjörning.  Ég ætla ekki að svara spurningum Sigurðar um hvað rekur manninn áfram, hef fært rök fyrir því að þetta sé óráðshjal elliærs manns, sem vill vera sekur.  En það er reyndar háð hjá mér.  Ég á ekki svar við þessari spurningu ef ég ætti að svara henni í fullri alvöru.

Landráðin eru svo augljós að það er ekki fullnægjandi skýring. 

Og hvað rekur það fólk áfram sem tekur undir þennan málflutning Jóns, bæði í fjölmiðlum og í Netheimum.  Hvað gengur stöllunum til sem skrifuðu grein í Morgunblaðið fyrir stuttu og sögðu það hreint út að allar kröfur breta og Hollendinga væru réttmætar og íslenska þjóðin ætti að gangast undir sína skuldahlekki möglunarlaust.  Þær áttu það á hættu að Hæstiréttur hefði skipað ríkislögreglustjóra að loka þær inni ævilangt fyrir landráð af svæsnustu gerð.  Svona ef við værum alvöru þjóð.

Hvað gengur þáttastjórnendum til sem láta þetta fólk vaða á súðum án þess að rökstyðja í neinu sínar fullyrðingar.  Og þá er ég að meina rök sem vísa í lög, ekki almannaróm.  Það mun margir þjást í skuldahlekkjum bretanna, og allir eiga jú vini og ættingja sem málið snertir?

Hvað gengur þeim fjölmiðlamönnum til sem ítrekað eru staðnir að fara rangt með staðreyndir mála, og ítrekað nota aðstöðu sína til að koma röngum málflutningi á framfæri, núna síðast bullið með að hörmungar komandi vetrar séu Ögmundi Jónassyni að kenna.  Tilhneigingin er svo sterk að þessi bábilja var meginstef um stöðu efnahagsmála í úttekt Morgunblaðsins í gær.  Þó töldu menn að landráðamálflutningi yrði úthýst í blaðinu, eftir að Davíð Oddssyni var boðin þar ritstjórnarstaða.

En hann á kannski aðeins að sjá um teiknimyndasögurnar.

En ég ítreka að ég tel ekki að þetta fólk hafi landráð í huga þegar það syngur sinn landráðasöng, en lagið og textinn eru samt velþekkt og var til dæmis mikið sungið af Kvislingum í Noregi á sínum tíma.  En var rangt að dæma það söngfólk landráðafólk???  Voru þetta ekki bara trúgjarnir einfeldningar???

En ég ítreka að ég veit ekki svarið.  Eina sem ég veit að ég vill að þessi söngur þagni.  Hann er bæði falskur og ömurlegur í alla staði, þegar hugsað er til hvað áhrif hann mun hafa á framtíð þjóðarinnar.

Það væri til dæmis ákaflega gott að Davíð Oddsson tæki tappana úr eyrunum og stöðvaði þau óhljóð sem berast úr Móunum.  Og Páll Magnússon mætti alveg minnast uppruna síns og íhuga hvað þessi söngur er að gera fólkinu sem hann ólst upp með.  Og þagga niður í honum í Efstaleitinu.

Þessir miðlar segjast jú báðir ástunda hlutlausa fréttamennsku.

Og það mættu þeir gera.

Kveðja að austan.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 137
  • Sl. sólarhring: 1791
  • Sl. viku: 3613
  • Frá upphafi: 1324699

Annað

  • Innlit í dag: 118
  • Innlit sl. viku: 3163
  • Gestir í dag: 118
  • IP-tölur í dag: 118

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband