Dómur er ekki ríki í ríkinu.

 

Hann er ekki æðri en þjóðin, hann getur ekki upphafið sig yfir hagsmuni hennar á neyðarstundu.

Geri hann það þá hefur hann misst grundvöll sinn, tapað réttarstoð sinni.

 

Slíkt gerði Héraðsdómur Reykjavíkur þegar hann tók mannréttindi örfárra að þurfa ekki að virða sóttvarnir á landamærum, fram yfir mannréttindi fjöldans, þjóðarinnar, að fá að lifa í öryggi gagnvart hættulegum smitsjúkdómi, að fá að lifa eðlilegu lífi á tímum heimsfaraldurs.

Að tefla fram þvingaðri sóttkví örfárra sem kusu að ferðast, ferðalög þeirra var ekki nauð sem ríkisvaldið knúði viðkomandi til, gegn öryggi landsmanna sem á ekkert val annað en að búa á þessu landi, er firring sem einna helst má líkja við vitfirringu.

 

Vegna þessa dóms geta hundruð smitast, jafnvel þúsundir ef nýtt bráðsmitandi afbrigði kóvid veirunnar sleppur inní landið vegna þess að sóttkví á landamærum er ekki virt, með þeim afleiðingum að þúsundir neyðast til að fara í sóttkví, ásamt að fjöldinn, þjóðin á ekkert val en að loka á flest mannleg samskipti nema þau sem brýnust eru.

Ástand sem er því miður víða í Evrópu í dag.

Þetta er vitað, þetta eru staðreyndir sem ekki er hægt að rífast um.

 

Hvernig sem á þetta er litið er þessi dómur glæpsamlegur, ekki aðeins aðför að sóttvörnum líkt og Læknafélag Reykjavíkur bendir á, heldur líka aðför að daglegu lífi þjóðarinnar, aðför að heilsu hennar, og jafnvel lífi ef veiran hittir fyrir viðkvæma.

Þó stjórnarskráin tryggi sjálfstæði dómsstóla, þá er hvergi kveðið á i henni að þeir eigi að vera glæpsamlegir, að þeir eigi að vera ríki í ríkinu, sem ógni þjóðinni.

 

Sóttvarnir styðjast við lög, hlutverk þeirra er skýrt, að verja þjóðina gegn smitandi sjúkdómum, með þeim ráðum sem þurfa og virka.

Það liggur í eðli málsins að það er ekki hægt að sjá allt fyrir og telja upp í lagatexta sóttvarnarlaga, hvað þá að fólk sem hefur ekkert vit á sóttvörnum fiktar í þeim líkt og gerðist á þingi í lok síðasta árs.

En það breytir ekki markmiðum þeirra að vernda þjóðina með öllum tiltækum ráðum, og að það þarf að bregðast hratt við ef um bráðsmitandi veirusjúkdóm er að ræða, sem engin lækning er til við.

 

Gegn slíku er aldrei hægt tefla fram þröngri lagatúlkun um hvað má og hvað má ekki, þegar tilgangur aðgerðanna er ljós og er í samræmi við fyrirliggjandi þekkingu á útbreiðslu sjúkdómsins, eðli hans og vitneskju um hvaða aðgerðir virka og hvað ekki.

Lögfræðingar sem vitna í mannréttindaplögg gegn smitvörnum, um rétt einstaklingsins til að skaða fjöldann, eru í hreinskilni sagt, ekki þessa heims, hljóta að vera í einhverju annarlegu ástandi líkt og stjórn Dómarafélags Íslands gerir í þessum orðum; "Stjórnarskrá lýðveldisins og skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði mannréttinda byggjast meðal annars á því að stjórnvöld verði að hafa lagaheimild til að skerða frelsi borgaranna.".

Dómarar eru ekki guðlegar verur, hvað þá að þeir þiggi völd sín frá guði líkt og einvaldskonungar fortíðar héldu fram, þeir eru dauðlegir, mannlegir, og gangi þeir af vitinu, eða dæma eftir annarlegum hagsmunum, þá eru dómar þeirra sjálfkrafa ógildir.

Eins og hver önnur vitleysa sem ekki nokkurt stjórnvald á að hlusta á.

 

Svo mikil er firringin í samfélagi, úrkynjun velmegunarinnar búin að svipta það marga sjálfsbjargarhvötinni, að stjórnvald okkar gerir einmitt það, lætur eins og dómur guðs hafi fallið yfir mönnum og þjóðum, en ekki dómur eins dómara á lægsta dómsstigi þjóðarinnar.

Eðlilegt stjórnvald hefði lýst dóminn ómerkan, og haldið svo áfram að verja þjóðina með því að þétta varnir á landamærunum.

En vissulega beðið Hæstarétt um úrskurð um hvort þjóðin hafi ekki rétt samkvæmt frumlögum að verja sjálfa sig fyrir banvænni veiru.

Með öðrum orðum, sjálfur tilgangur og markmið sóttvarnalaga undir.

Hæstarétt síðan guðvelkomið, því þar er jú rjóminn af lögfræðingum landsins,að koma með ábendingar og leiðbeiningar handa óvitunum á þingi sem töldu sig umkomin að setja lög á tímum heimsfaraldurs, án þess að hafa nokkra hugmynd um hvað þau voru að gera.

 

Í millitíðinni átti náttúrulega reglugerðin um sóttvarnir á landamærum að standa, og í ljósi síðustu hópsýkingarinnar, átti að herða þær varnir.

Að fella reglugerðin úr gildi, að gefa veirunni færi á að smita þjóðina, er geðvilla.

Og aðeins geðvillingar gera slíkt vitandi vits.

 

Það veit enginn EF.

Þetta getur sloppið, en undanlátssemin gagnvart hinum glæpsamlega dómi Héraðsdóms, geta líka verið alvarlegar.

Samfélagssmit, og þar með sóttkví fjöldans, alvarleg veikindi, jafnvel dauði.

Sem er glæpur, en ekki glæpur dómarans, heldur þeirra sem tóku mark á honum.

 

Þetta veit allt vitiborið fólk.

Og yfirklór stjórnar Dómarafélags Íslands er aðeins staðfesting á þeirri vitneskju, fyrirfram tilraun til að þvo hendur sínar af glæpnum.

Eigum við að endurtaka fáviskuna á mannamáli; það má ekki skerða frelsi borgarans til að vernda frelsi þjóðarinnar, það eru mannréttindi að fá að hundsa sóttkví á landamærunum, við eruð ríkið, við vitum best.

Svo er vælt og skælt yfir réttmætri gagnrýni þeirra sem vit og þekkingu hafa á sóttvörnum, að ekki sé minnst á fordæmingu þjóðarinnar.

 

Það er eitt samt sem er rétt í þessari tilraun til réttlætingar á hinu glæpsamlegu athæfi Héraðsdóms, og það má finna i fyrirsögn fréttarinnar sem þessi pistill er tengdur við.

Grafa undan stoðum réttarríkisins.

Nema það gerir þessi dómur ásamt frávísun Landsréttar.

 

En sá gröftur kemur réttarríkinu ekki við, hvorki lögum landsins eða sjálfsstæði dómsstóla.

Heldur þeim einstaklingum í stétt lögfræðinga og dómara sem telja sig æðri þjóðinni.

Eru svo firrtir í sínum fílabeinsturni að þeir tefla pappír gegn banvænum heimsfaraldri kóvidveirunnar.

Veifandi þessum pappír, hrópandi, þetta má ekki, þetta má ekki, og ætlast til þess að mark sé tekið á þeim.

 

Vissulega var það gert.

En það segir allt sem segja þarf um þá sem það gerðu.

 

Fari illa, þá verður þessu fólki aldrei fyrirgefið.

Það verður úrkast samfélagsins.

 

Það brást þegar því var treyst.

Kveðja að austan.


mbl.is „Grafa undan stoðum réttarríkisins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Mannréttindi skipta engu!

Lifi rugludallarnir!

Þorsteinn Siglaugsson, 10.4.2021 kl. 00:27

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðan daginn Þorsteinn á þessum drottins sólríka dýrðardegi.

Það er nú óþarfi hjá þér að uppnefna þig svona þó vissulega eigir til að þrugla dálítið, festast stundum í eintónun, þá áttu nú líka þína spretti, sem og virðingarverða einurð.

Þó mannréttindi þurfi víða að víkja á neyðarstundu eða hættutímum, við hættulegar aðstæður, til að bregðast við yfirvofandi ógn og svo framvegis, þá er ekki gagnályktunin sú að þau skipti engu.

Kommon, tókstu ekki rökkúrs eða stærðfræði sem byggðist á rökfræði áður en þú fékkst skírteinið þitt??

Hins vegar Þorsteinn, eins og við vitum báðir mjög vel, þá er fullt af rugludöllum í skotgröfum þínum, sumir til dæmis sem afneita tilvist farsóttarinnar, kalla hana væga flensu, eða flensu, eða jafnvel þeir sem ganga lengst eftir stigum rugludallanna, afneita að til sé eitthvað sem heitir veira, eða til vara, allavega eitthvað sem heitir kóvid veira.

En hafi einhvers staðar verið vafi um þig, þá skarst þú úr um þann vafa þegar þú tókst undir Barrington yfirlýsinguna, en í henni er ekkert logið til um alvarleik veirunnar, en gerður ágreiningur við ríkjandi sóttvarnastefnu.

Með rökum Þorsteinn, með rökum.

Við skulum hins vegar vona að stjórnarmenn Dómarafélags Íslands hafi verið góðglaðir þegar þeir sömdu þetta yfirklór sitt, því aðeins rugludallar stilla upp mannréttindum gegn helgi mannsins sem við svona dagsdaglega kennum við líf, sbr. mannslíf, og geri pappír á blaði, meint mannréttindi æðri en þessa helgi.

Það á enginn að hafa komist í gegnum skólakerfið án þess að hafa lesið allavega einu sinni að í upphafi skóp guð heiminn og einhverjum dögum seinna, manninn í sinni mynd.

En ekki mannréttindi í sinni mynd.

Þessi forna sögn er grunnhugsun alls siðs og laga í vestrænum samfélögum.  Í henni felst að maðurinn sé helgur, enda að guðakyni, en guðirnir voru þeir fyrstu sem voru helgir hjá mönnum.

Enda fyrsta boðorðið, þú skalt ekki mann deyða, en ekki þú skalt ekki réttindi skerða.

Jafnvel guðlaus maður, verandi í stjórn Dómarafélag Íslands, skilur þessi sannindi.

Þess vegna er yfirlýsing þeirra svo máttlaus, út úr kú við alla heilbrigða skynsemi, ofbýður fólki, grefur óbrúanlegar gjár milli dómara og þjóðar.  Líkt og einhver sértrúarsöfnuður sem hefur grafið um sig í myrkrinu og með einhverjum garúgum vélarbrögðum náð að söðla undir sig dómsstóla þjóðarinnar, og segir Ég er valdið, þið skulið lúta mér.

Nei, við skulum bara fallast á Þorsteinn að þeir hafi bara verið góðglaðir á gleðistundu.

Það virkar miklu mannlegra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.4.2021 kl. 10:05

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hefur veiran afnumið réttarríkið?

Guðmundur Ásgeirsson, 10.4.2021 kl. 13:47

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Guðmundur.

Réttarríkið er ekki ríki í ríkinu sem sérhagsmunir geta stolið, eða einhver sértrúarsöfnuður lagt undir sig.

Réttarkerfið getur þjónað réttarríkinu eða unnið gegn því, og þá er það skylda stjórnvalda að grípa inní.

Eins geta einhver viðrini eða óvitar reynt að eyðileggja réttarríkið innan frá með fikti í lagasetningu, þá náttúrulega er það skylda Hæstaréttar að tukta menn til og leiðbeina, sbr. þessi orð mín hér að ofan; "Hæstarétt síðan guðvelkomið, því þar er jú rjóminn af lögfræðingum landsins,að koma með ábendingar og leiðbeiningar handa óvitunum á þingi sem töldu sig umkomin að setja lög á tímum heimsfaraldurs, án þess að hafa nokkra hugmynd um hvað þau voru að gera.".

Því þetta eru jú allt mannanna verk, og því þurfa margar stoðir að koma að og finna jafnvægi milli laga, réttar og framkvæmdar, og bregðist ein stoðin, þá þurfa hinar að grípa inní.

Vissulega getur komið upp sú staða að fleiri en ein stoð bregðist, en þá er þjóðin í fullum rétti að víkja einstaklingunum frá sem bregðast, því allt slíkt er mannanna verk, og endurreisa stoðir sínar.  Í harðbakkanum getur þjóðin leitað hjálpar erlendis frá, líkt og kólumbísk stjórnvöld gerðu 1998, þegar réttlætinu var komið yfir eiturlyfjabaróna landsins.

Það vantaði ekki að hinir keyptu og gjörspilltu vældu yfir sjálfstæði dómsstóla, en þjóðin var bara búin að fá nóg.

Líkt og dómarar skynja, annars hefðu þeir aldrei gert svona heiðarlega tilraun til að gera sig að fífli í umræðunni.

Aumingja þeir greyin.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.4.2021 kl. 14:47

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Réttarríkið er ekki ríki í ríkinu sem sérhagsmunir geta stolið, eða einhver sértrúarsöfnuður lagt undir sig."

Hárrétt, en því miður virðast ansi margir halda að veira frá fjarlægu landi geti lagt réttarríkið undir sig.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.4.2021 kl. 14:55

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Æ Guðmundur, ég held að þú hafir týnt þér út á túni.

Sá dagur kemur vonandi að mannsandinn kann lækningu við veirusýkingum, en fram að því er eina ráðið að skera á smitleiðir þeirra ef sýkingin er banvæn fjölda fólks.

Það felst í orðinu réttarríki að vernda þegna sína gegn slíkri vá, sem og öðrum, það eru slíkar skyldur sem réttlæta tilvist þess, að þegnarnir afsali sér hluta af frelsi sínu og réttindum og fái í stað þess reglufestu og öryggi.

Að baki er árþúsunda þróun þar sem leið stjórnleysis og lögleysu var fullreynd, ítrekað, aftur og aftur.

Réttarríki byggist á eftirgjöf þegnanna og það virkar aðeins á meðan það er almenn sátt um það og eftirgjöfina.

Slík sátt var um sóttvarnalöggjöf þjóðarinnar, þjóðin taldi að hún veitti henni vernd gegn lífshættulegum smitsjúkdómum.  Og sú sátt ríkir áfram þó blanda af óvitum, þeir sem vita ekki betur líkt og dómsmálaráðherra okkar, og viðrinum, þeir sem töldu sig vita betur, hafi fiktað við löggjöfina og dregið úr henni tennurnar. 

Markmið laganna liggja alltaf skýrt fyrir, fiktið náði ekki til þeirra, og því er það hlutverk fullorðins fólks, í þessu tilveiki í annarri stoð réttarríkisins, dómsvaldsins að leiðbeina óvitunum og viðrinunum í lagasetningu sinni, bregðist sú stoð líka, þá er aðeins ein stoð eftir, og það er framkvæmdarvaldið.

Sem reyndar er að bregðast líka með því að taka ekki af skarið og leiðrétta fiktið með tafarlausum neyðarlögum, fyrst það var hægt í kjaradeilu flugvirkja, þá ætti það vera hægt gagnvart þeirri ógn sem þjóðinni stafar af brestinum í dómskerfinu og löggjafarvaldinu.

Nú ef allar stoðirnar bregðast þá fer það eftir skaphita fólks og alvarleika málsins hvernig þjóðin bregst við. 

En á meðan er sóttvarnir á landamærum lamaðar að hluta, og réttarkerfið lamað.

Það er ekkert flókið við þetta, það er pattstaða í dag á milli þjóðar og þeirra stoða sem brugðust, stoðirnar standa veikt því mikil samstaða er um forsendur sóttvarnalaga, hins vegar eru Íslendingar seinþreyttir til vandræða.

En þessar aðstæður eru kjörlendi nýrra leiðtoga, það eitt er víst.

En að þú skulir hafa getað farið í gegnum lögfræðina án þess að vita að forsendur réttarríkisins er að fólkið, almenningur afsalar sér viss réttindi gegn því að fá öryggi réttarríkisins, það finnst mér dubíus.

Verð að segja það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.4.2021 kl. 15:18

7 identicon

Sæll Ómar. Í tilefni af síðustu ályktun þinni hér að ofan þá er fróðlegt að skoða hvernig stjórnvitringar fyrri tíðar mátu þetta, því þetta er sannarlega hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem menn og þjóðir standa frammi fyrir slíkum vanda. Niðurstaða Benjamíns Franklin var þessi: ,,Þeir sem eru tilbúnir að afsala sér grundvallarfrelsi í skiptum fyrir tímabundið öryggi verðskulda hvorki frelsi né öryggi." Með góðri kveðju, Arnar Þór Jónsson. 

Arnar Þór Jónsson (IP-tala skráð) 10.4.2021 kl. 15:50

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arnar.

Síðast þegar ég vissi þá var þessi umræða afgreidd í vestrænni menningu þegar þjóðflokkur einn, vegvilltur í eyðimörk, ákvað að gangast undir lögmál sem honum var rétt meitlað í steintöflu, með eldloga að ofan.

Þar gengust menn undir lögmál guðs, sem forsenda trúar þeirra og siðs, úr var önnur stoð kristinnar trúar sem við kennum við þá Gömlu.  Það að gangast undir þýðir að menn afsala sér, og þar sem ég er að horfa á fótbolta þá ætla ég að peista hluta af því sem ég að góðsemd minni benti Þorstein á hér að ofan, en á milli mín og Þorsteins ríkir sérstakt pennavinasamband;

"Það á enginn að hafa komist í gegnum skólakerfið án þess að hafa lesið allavega einu sinni að í upphafi skóp guð heiminn og einhverjum dögum seinna, manninn í sinni mynd.

En ekki mannréttindi í sinni mynd.

Þessi forna sögn er grunnhugsun alls siðs og laga í vestrænum samfélögum.  Í henni felst að maðurinn sé helgur, enda að guðakyni, en guðirnir voru þeir fyrstu sem voru helgir hjá mönnum.

Enda fyrsta boðorðið, þú skalt ekki mann deyða, en ekki þú skalt ekki réttindi skerða.

Jafnvel guðlaus maður, verandi í stjórn Dómarafélag Íslands, skilur þessi sannindi.".

Krafa um frelsi gegn þessum sannindum er ekki sönn krafa Arnar.

Og það vissi Benjamín Franklín mæta vel.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.4.2021 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 534
  • Sl. sólarhring: 560
  • Sl. viku: 4377
  • Frá upphafi: 1329908

Annað

  • Innlit í dag: 433
  • Innlit sl. viku: 3802
  • Gestir í dag: 387
  • IP-tölur í dag: 376

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband