Þegar trúarjátningin eru einu rökin.

 

Þá er málstaðurinn glataður.

 

Við sáum þetta til dæmis þegar Gorbatsjev reyndi að halda Sovétríkjunum á lífi með vísan í allt það góða sem kommúnisminn hafði fært fólki í 70 ár, menntun, heilsugæslu, atvinnu, jöfnuð, tækifæri, frið svo eitthvað sé nefnt sem hann taldi upp.

Þessu tefldi hann gegn vilja fólks til að vera frjálst undan oki kommúnismann.

Og hefði hugsanlega haft betur, því hver vill fórna þessu ef kommúnisminn var eina leiðin til að hafa atvinnu, menntun, heilsugæslu og svo framvegis.

 

Fólk vissi bara betur, það var ekki lengur einangrað, stjórnvöld stjórnuðu ekki lengur upplýsingagjöfinni, og það vissi að út í hinum stóra heimi var fólk sem hafði atvinnu, menntun heilsugæslu, tækifæri á margfalt betri hátt en það sem kommúnisminn bauð uppá.

Og það bjó við raunverulegt frelsi, þar á meðal frelsi til að tjá sig og frelsi til að vera laust við lygar og tilbúning stjórnvalda.

Gorbatsjev bauð upp á möndru síbyljunnar sem stóðst ekki próf raunveruleikans.

 

Börnin á þingi þylja trúarjátninguna um EES samninginn, hvað hann hafi gert fyrir þjóðina og hvernig ástandið væri ef hans hefði ekki notið við.

Það er eins og þau hafi ekki þroska til að skilja að þau stjórna ekki upplýsingagjöfinni, að fólk viti að heimurinn er stærri en hinn sameiginlegi markaður Evrópu, og út í hinum stóra heimi er mannlíf alveg eins og í Evrópu. 

Nema kannski að efnahagur þar er ekki staðnaður heldur hagvöxtur og gróska.

Og þar hefur enginn heyrt um þennan EES samning, samt virðist allt ganga sinn vanagang, alveg eins og hjá okkur. 

 

Og þau hafa ekki þroska til að skilja, að ef þetta eru einu rökin fyrir landsölu þeirra, þá eru þetta engin rök.

Ef það er ekki hægt að selja orkupakka 3 á sínum eigin forsendum, þá er hann ekki söluvara.

Og verður það ennþá síður þegar þau vanvirða baráttu kynslóðanna fyrir sjálfstæði og forræði þjóðarinnar yfir sínum eigin málum og tala um að sú barátta sé sprottin af ótta.

Eða þau börnin viti betur en fullorðið fólk.

 

Það er illa komið fyrir Sjálfstæðisflokknum að lúta svona leiðsögn.

Barna sem fyrirlíta rætur flokksins og líta niður á kjósendur hans.

Barna sem láta almannatengla mata sig á frösum um hugtök og raunveruleika sem þau hafa engan þroska til að skilja.

 

Hvort Sjálfstæðisflokkurinn lifi þessa leiðsögn af á eftir að koma í ljós.

Hinar fyrirlitnu rætur hans eru sterkar og ná langt aftur í sögu þjóðarinnar, eða til sjálfstæðisbaráttu hennar á 19. öldinni.

Hann býr að glæstri sögu, merkri fortíð.

Og það er alltaf þörf fyrir þjóðlegan íhaldsflokk.

 

En það lifir enginn flokkur á sögunni einni saman og það er varhugavert að uppnefna kjósendahóp sinn á tyllidögum.

Ennþá hættulegra er að vanvirða helgustu véin, sem er sjálfstæði einstaklingsins og sjálfstæði þjóðarinnar hjá flokki sem kennir sig við sjálfstæði.

 

Sú vegferð sem forysta flokksins er á í mörgum stórum málum eins og orkupakka málinu og fóstureyðingarmálinu svo eitthvað sé nefnt, ásamt þeirri áráttu að tala endalaust niður til flokksmanna, er ekki líkleg til að flokkurinn haldi stöðu sinni sem stærsti hægri flokkur landsins.

Þó veit maður aldrei, sauðtryggara fólk en íhaldsfólk er vandfundnara, enda er það kennt við íhald.

En þegar því er ofboðið, þá geta strengir brostið sem aldrei verða hnýttir aftur.

 

Flokkurinn á því töluvert undir að orkupakkamálið fari í sáttarferli í sumar, og hann ætti að fagna þessum minni spámönnum sem vefengja vald hans í íslenskum stjórnmálum.

Málþófið gæti bjargað andlitinu ef niðurstaðan yrði ásættanleg fyrir hinn almenna flokksmann.

Það er frestun og sættir.

 

En hann vinnur ekki fylgi með svona málflutningi.

Það eina sem gerist er að Miðflokkurinn sem á ekkert bakland, gæti fengið hluta af baklandi Sjálfstæðisflokksins.

Því öll þessi ónot útí Miðflokkinn eru bara skattyrði út í hinn almenna flokksmann.

 

Börnin skilja þetta ekki.

Þeim finnst bara frasarnir gáfulegir, og jafnvel fyndnir líka.

 

En það er ennþá fullorðið fólk í flokknum.

Og þess tími er runninn upp.

 

Núna, núna.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Minni spámenn breyti efasemdum í ótta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Sem harðasta bláa íhald sögunnar, sauðtryggur mínum flokki frá því mér fór að vaxa grön, verð ég að viðurkenna að það er komið að skilnaði við forystu flokksins míns. Ekki stefnuna, heldur amlóðana í forystunni, alla sem einn.

 Þessi ræða ritarans er svo gjörsamlega út úr kú, enda man hún ekki tímana tvenna, græðandi á daginn, en grillandi humar og lepjandi hvítvín á kvöldin, frá því hún fæddist.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 30.5.2019 kl. 02:58

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar góð greining. Þegar fólk er farið að fimbulfamba um tíma sem það þekkir ekki og leggja sín vog á skálarnir samkvæmt ókunnugleikanum þá er það hrein trúarjátning. Það má segja sem svo að við játumst öll trúna á ókunna fortíð sögunnar, svo sem það að við viljum vera laus við að kringumstæður sem gætu orsakað atburði á við heimstyrjaldir og hungursneiðar.

En Guð minn góður, að trúa því blint að EES samningurinn hafi gert okkur á einhvern hátt betri eða sterkari. Mest allt mitt líf hefur það þótt sjálfsagt að allir hefðu þak yfir höfuðið, í sig og á, þangað til upp á síðkastið, og það sem meira er, hefðu val um hvort þeir leigðu húsnæði af öðrum eða ættu. Það eru margir á því að "hið svokallaða hrun" hefði verið tæknilega útilokað ef ekki væri fyrir EES.

Það má segja að gullaldir Íslandssögunnar hafi verið tvær þjóðveldisöldin og lýðveldisöldin. Við getum lesið Sturlungu til að átta okkur á orsökum þess sem á eftir þjóðveldisöldinni kom, einhver ömurlegasta niðurlæging þjóðarinnar sem stóð yfir í árhundurð. Eftir að moldarkofarnir hrundu þá tók lýðveldisöldin við, með sínu sjálfstæði og almennum framfarhug til sjávar og sveita, en alltaf hafa verið til Sturlungar og eðalbornir Gissurar með gullrassa.

Það má allt eins segja að EES samningurinn sé eitt af stærstu skrefunum sem tekið var til að afnema lýðveldið og þann tíma sem því tilheyrði. Eitt mesta framfaraskeið Íslendinga, jafnvel einhverjar mestu framfarir þjóðar á heimsmælikvarða og þær komu EES samningnum ekkert við, en lýðveldið eins og við sem fædd erum um miðja síðustu öld er horfið út í mósku tímans, því var stolið með EES samningnum.

Þó svo að þjóðveldisöldin hafi verið glæsilegur tími sjálfstæðra höfðingja þá er ekki þar með sagt að maður með mitt minni vildi snúa til baka til þess tíma. En hvað þá gullöld varðar sem ég upplifði á mínu skinni á lýðveldisöldinni er ekki nokkur spurning, ég myndi fórna trúarjátningunni á EES til að losna undan höftum og hörmungum þess samnings.

Með kveðju að ofan.

Magnús Sigurðsson, 30.5.2019 kl. 08:01

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Tek undir það að það er alltaf þörf fyrir þjóðlegan íhaldsflokk, en flokkur með Bjarna Ben og Guðlaug Þór í forustunni fær ekki mitt atkvæði og hef ég þó alla tíð kosið Sjálfstæðisflokkinn.  

 

Hrólfur Þ Hraundal, 30.5.2019 kl. 09:15

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Góðir foringjar uppnefna ekki sína fylgismenn. Þeir hrósa þeim frekar fyrir það sem vel er gert. Sjálfstæðisflokkinn vantar sanna forystusauði (einn traustur alfa-dog myndi þó duga).

Júlíus Valsson, 30.5.2019 kl. 11:01

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið og umræðuna félagar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.5.2019 kl. 12:44

6 identicon

Góður pistill Ómar.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 30.5.2019 kl. 13:21

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir það Símon.

Og góð umræða á þessum drottins dýrðardegi.

Til að bæta hana enn meir er sól úti núna og hitinn í fyrsta skipti í nokkra daga kominn í tveggja stafa tölu.

Væri ekki hérna ef ég væri ekki að bíða eftir símtali, en notaði tímann til að fjalla um aulahúmor.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.5.2019 kl. 14:31

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Og til að fylla uppí góða umræðu langar mig að vísa í þennan pistil Bjarna Jónssonar sem fjallar einmitt um þá villustíga sem ráðafólk okkar fetar, það gerir sér ekki grein fyrir alvöru málsins, hvort það sé lærð síbylja, eða þau hafa annarlega hagsmuna að gæta.

Hér er linkur á Bjarna.

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2235686/

"Einkennandi er skilningur Miðflokksmanna á því, að OP#3 er grundvallarmál og afgreiðsla hans markar ögurstund fyrir fullveldi landsmanna í hefðbundnum skilningi. Hjá stjórnarflokkunum ríkja algerlega öndverð viðhorf.  Í þeim herbúðum og að hálfu sumra stjórnarandstöðuflokka er því haldið fram, að OP#3 snúist ekki um neitt annað en að fullgilda skyldur Íslands gagnvart EES-samninginum.  Þetta er eymdaróður og svo ómálefnalegur, að hann er óboðlegur.  Þessi málflutningur afhjúpar, að viðkomandi botnar hvorki upp né niður í OP#3."

Þegar svo í kjölfarið er hæðst að fólki sem vara við þessum ósköpum, þá er eðlilegt að margir gráir íhaldsmenn sjái vík milli vina þegar þeir og flokkur þeirra er annars vegar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.5.2019 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 283
  • Sl. viku: 1067
  • Frá upphafi: 1321830

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 885
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband