Sjálfstæði seðlabanka.

 

Er hornsteinn peningamagnskenningar Friedmans, sem hefur verið ríkjandi efnahagsstefna Vesturlanda undanfarandi áratugi, eða frá valdatöku þeirra Reagans og Thatchers á sínum tíma.

 

Gjaldþrot hennar var gjaldþrot fjármálakerfisins 2008.

Samt var ekki hróflað við henni.

Líklegast vegna þess að eftir fjármálahrunið hefur hún fært ótal milljarðana frá almenningi í vasa auðs og fjármagns.

 

Það þarf því ekki að koma á óvart að flokkur viðskiptaráðs mótmæli nýrri hugsun í þágu almennings og fyrirtækja, en stuðningur Samfylkingarinnar við ránið og ruplið ætti ekki að vera sjálfgefinn. 

Þeir segjast jú vera jafnaðarmenn.

 

En Logi er víst gleyminn, og hefur gleymt því.

Alveg eins og hann hefur gleymt stjórnarárum Jóhönnu Sigurðardóttir þegar almenningur var gerður upp, en auðurinn fékk allt sitt afskrifað.

Sem er aftur skýring þess "eignaójafnaðar" í samfélaginu sem honum er svo tíðrætt um.

 

Auðvitað getur ríkisstjórnin gert betur.

En hún er þó að reyna.

Ekkert slíkt var reynt á árunum 2009-2013.

Árunum sem Samfylkingin réði öllu í stjórn landsins.

Og ef einhver á að þegja í dag, þá er það formaður Samfylkingarinnar.

 

Því í dag er þjóðin að upplifa tímamót.

Nýja hugmyndafræði, nýja samfélagssátt.

Eitthvað sem átti að gera 2009, en var ekki gert.

 

Efndir eiga eftir að koma í ljós, og raunveruleikinn mun bíta.

En það er þannig með Nýjan tón, að eftir að hann hefur verið sleginn, þá hljómar hann.

Og verður ekki kæfður.

 

Sama hvað auðurinn segir, sama hvað frjálshyggjan segir.

Hvað þá ógæfufólkið í Samfylkingunni með tuði sínu.

Fals þess er aðeins falskur tónn sem sker í eyru.

 

Inga Snæland hins vegar þekkir sinn vitjunartíma og hrósar því sem hrósa ber;

"„Það er sýni­legt að með góðum vilja og sam­stöðu er hægt að gera góða hluti. Þess­ir samn­ing­ar eru tíma­móta­samn­ing­ar og ég er mjög glöð með að við skul­um vera búin að ná þess­um áfanga,“ seg­ir Inga Sæ­land, formaður Flokks fólks­ins, um lífs­kjara­samn­ing­ana sem und­ir­ritaðir voru í gær. „Verka­lýðsfor­yst­an á heiður skilið, það er búið að leggja nótt við dag og at­renn­an löng og virki­lega snú­in. Hún á hrós skilið og ég er líka stolt af rík­is­stjórn­inni, hvað hún kom sterk inn á loka­metr­un­um og gerði þetta mögu­legt.“".

 En auðvitað hefur Samfylkingin ekki vit á því.

 

Til þess þarf jú vit.

Kveðja að austan.


mbl.is „Eitt lítið hænuskref af mörgum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Ómar

Þetta eru náttúrulega tímamóta samningar- uppsegjanlegir ef vextir lækka ekki og kauphækkanir í takt við hagvöxt. Eitt hænuskref varðandi verðtrygginguna á lán til húsnæðiskaupa. Þetta skref er mikilvægt, en ég vill burt með verðtryggingu á lán til almennings því þá verður verðbólgustýring Seðlabanka auðveldari með stýrivöxtum sínum.

Eggert Guðmundsson, 4.4.2019 kl. 12:31

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert.

Svona í ljósi þess að aðeins þrír einstaklingar höfðu þessa sýn, og þeir allir í verkalýðshreyfingunni, þá má telja það sem ávannst, hreint kraftaverk.

Og ég minni á að Nýr tónn verður ekki kæfður, nema þá í blóði, og varla þá.

Aðeins svik og fals fá á honum unnið, sbr hvernig kommúnistar snéru draumnum um réttlæti og jöfnuð uppí Útópíu kúgunar og harðstjórnar.

Þess vegna er svo mikilvægt að það sé þaggað niður í mönnum eins og Loga.

Þeir eru skaðvaldar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.4.2019 kl. 13:38

3 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Ómar. Ég gleymdi að hrósa þér fyrir upprifjunina frá gjörðum svikarana eftir hrunið. - Þú hefur verið duglegur að rifja það upp. Það ætti að hefja máls á þeim svikum í öllum færslum og pistlum sem skrifaðar eru í bloggheimi.

Eggert Guðmundsson, 4.4.2019 kl. 13:52

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, þessir kjarasamningar snúast um 10.000 kall og kannski annan fyrir þá lægst launuðu í formi lægri skattbyrði eftir ár, svo má náttúrulega ekki gleyma eingreiðslunni 26.000 kr orlofsuppbótinni. 

Krafan um 425.000 kr lágmarkslaun breyttist í 368.000 kr, og það eftir eftir fjögur ár. Það var bratt farið af stað og óspart vitnað í sjálftökuliðið sem hafði skammtað sér mörghundruð þúsunda launahækkanir hviss bang auk eingreiðslna aftur í tímann. Alþingismenn einir hátt á fjórða hundrað þúsunda að ógleymdu aðstoðarmannastóðinu sem þeir hafa komið sér upp.

Varðandi góð áform um verðtryggingu og vexti er málfarið mun loðnara en nokkur kosningastefnuskrá þeirra stjórnmálflokkana sem hafa setið í ríkisstjórn undanfarin áratug, "huga að og skoða" osfv. eftir 2020, ef mig misminnir ekki voru kosningaloforðin mun meira afgerandi. 

Ég hygg þegar rikið er sest þá hafi verkalýðsforinginn af skaganum hitt naglann á höfuðið þegar hann fór fram á afsökunarbeiðni frá hyskinu. Mér kæmi ekki á óvart að þessir samningar eigi eftir að verða jafn gjaldþrota og WOW og kosta verklýðsforustuna vinnuna.

Með kveðju að ofan.

Magnús Sigurðsson, 4.4.2019 kl. 14:15

5 identicon

Ekki skil ég hví þú hrósar Ingu Sæland.

Hún, líkt og ríkisstjórnin öll, minnist nú ekki einu orði á að bæta skuli hag öryrkja og fátækra aldraðra.  Það er ljóst að hún hefur fljótt fjarlægst uppruna sinn og hreykir sér nú í halelúja samkundu hirðarinnar.

En um gagnrýni þína á Loga og Samfylkinguna tek ég heils hugar undir

og góða og réttmæta athugasemd Magnúsar.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 4.4.2019 kl. 14:32

6 identicon

Talandi um Samfylkinguna - RUV.is lítur út einsog áróðurssnepill frá henni - ekkert um Mathallarsvínerí (Dagur) og bara gagnrýni á að loksins eigi Seðlabankinn að taka tillit til þarfa fólksins í landinu en ekki einhverja íslenskra evru(búro)Krata sem enn eru í fýlu því borguðum ekki IceSave

Grímur (IP-tala skráð) 4.4.2019 kl. 15:46

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaðir félagar Magnús og Símon.

Þar sem þið eruð samtóna þá er hægt að tóna eitt svar til ykkar beggja.

Hvernig sem á þetta er litið þá var sleginn Nýr tónn í þessum samningi.

1. Það náðist samþykki á þá hugsun að flatar prósentuhækkanir auka launamun, þeim lægri í óhag.

2. Krónutala sem brennur upp, er krónutala sem brennur upp.  Þess vegna náðist inn sú hugsun eins og Ragnar Ingólfsson orðaði réttilega, að mikilvægast af öllu er að ná niður kostnaði, að gera fólki kleyft að lifa.  Vissulega hefði mátt taka stærri skref, og losa þjóðina í eitt skipti viði öll við ESB reglufarganið sem blæs upp allt, og í kjölfarið ná þjóðarsátt um stóriðjurafmagn til bænda, en það er bara svo að það var ekki inní umræðunni.

3. Opnað var fyrir atlögu að verðtryggingunni, en eins og Tyrkir vissu svo vel, þá var upphafið af falli Miklagarðs, að rjúfa skarð í hinn óvinnandi varnarmúr, sem þeir gerðu með risafallbyssu sinni.

4. Og ekki hvað síst, vegið var að ófreskjunni sem kallast sjálfstæði peningastefna, og þjónar þeim eina tilgangi að millifæra fjármuni frá almenningi í vasa auðsins.  Það minn kæri Símon, var lykilatriði gagnrýnar minnar á Samfylkingunni, að hún skyldi vera samhljóma gagnrýni Musteris frjálshyggjunnar sem dagsdaglega er kallað Viðskiptaráð, þetta þarna sem vill taka upp ensku sem þjóðarmál, leggja niður sólarstundir, og flytja inn sýkla, svo eitthvað sé nefnt.

5.  Og ekki má gleyma hvernig ríkisstjórnin var svínbeygð frá fyrri tillögum.

Þetta kalla ég kraftaverk, þegar haft er í huga að aflið sem vann það samanstendur af þremur einstaklingum án nokkurs stjórnmálalegs baklands.

Það er Samstaða í verki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.4.2019 kl. 16:26

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Jamm og jæja Grímur, ég held að málið sé aðeins flóknara en það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.4.2019 kl. 16:26

9 identicon

Lilja Mósesdóttir greinir þessa nýgerðu kjarasamninga ágætlega á feisbók í dag:

"Nýgerðir kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins með aðkomu stjórnvalda eru nýstárlegir. Í þeim er nýjum aðferðum beitt til að taka á ýmsum meinsendum íslensks samfélags  og tæknivæðingarinnar. Auðvitað hefði mátt gera mun betur eins og að færa umsamda taxta að greiddum launum og semja um sanngjarnan launamun hæstu og lægstu launa. Ég sakna líka yfirlýsingar um aðgerðir til að bæta kjör við töku lífeyris og örorku.  Að lokum hef ég áhyggjur af því að skattalækkunin verði fjármögnuð með niðurskurði velferðarkerfisins, þar sem ekki á að hækka skatta á tekjur og auð þeirra ríkustu á Íslandi.  

 

Launaauki í takt við hagvöxt er áhugaverð leið til að tryggja að ávinningur tæknivæðingarinnar, þ.e.a.s. framleiðniaukningin skili sér til launafólks. Ég skil þó ekki af hverju sett er þak á launaauka vegna hagvaxtar nema verið sé að reyna að koma til móts við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum. Umhverfisvænni leið að sama markmiði hefði verið að semja um styttingu vinnuvikunnar án launalækkunar í stað aukins vinnutímasveigjanleika.

 

Í samningunum er leitast við að girða fyrir launaskrið með því að refsa þeim sem fá greidd laun umfram taxta með lægri umsamdri launahækkun. Auk þess er  fyrirvari um að laun í opinbera geiranum hækki ekki umfram laun í einkageiranum.  BHM mun því ekki ná fram markmiðum sínum um að laun endurspegli menntun nema að samið verði t.d. um niðurfellingu námslána.

 

Ef íslenska sjálfseignarstefnan á ekki að hrynja við afnám verðtryggðra jafngreiðslulána til 40 ára, verður seðlabankinn að lækka verulega vexti og ríkisstjórnin að innleiða nýtt fasteignalánakerfi fyrir þá tekjulægri.  Ég sakna yfirlýsingar frá ríkisstjórninni um að Seðlabankinn muni ekki aðeins taka tillit til verðbólgu heldur einnig atvinnustigs við ákvörðun stýrivaxta. Það gengur ekki lengur að Seðlabankinn vinni sífellt gegn aðgerðum ríkisins til að sporna við auknu atvinnuleysi."

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 4.4.2019 kl. 16:31

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Ég las og lækaði þessa færslu Lilju í morgun, ætlaði að láta það duga en svo gat ég ekki annað en gert athugasemd við Loga karlinn, sem virðist ekki ráða við sjálfstæða hugsun, ef hún krefst einhvers annars en hrópa upp einhvern frasa.

Ég las líka Styrmi í morgun og fannst hann greina pólitíkina nokkuð vel; "Mannleg samskipti - og um þau snúast kjarasamningar - taka stundum óvænta og ánægjulega stefnu. Allt í einu var ýmislegt hægt, sem ekki var hægt fyrir nokkrum vikum. Afstaða stjórnvalda til skattalækkana er skýrt dæmi um það. Fyrir nokkrum vikum var ekki "svigrúm" fyrir það, sem nú hefur verið samið um.".

Málið er það að þú breytir ekki samfélaginu nema þú hafir sterkt pólitískt bakland, og það er bara svo að fólkið á móti telur það sér til tekna að elta upphrópanir og vitleysisgang, eða styðja kerfisflokka eins og Pírata og Viðreisn, því þeir gagnrýna sko kerfið, eða þannig.

Þetta ætti Lilja að vita manna best.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.4.2019 kl. 16:54

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll aftur Ómar. Það er einmitt þetta orðfæri um "nýja nálgun" og hástemmdar lýsingar á við "lífskjarasamningar" sem vekja mér ugg.

Ég man vel eftir því hvað allir voru samála um tímamótasamningana sem kallaðir voru "þjóðarsátt". Þegar allir sammælast um það að tímamótasamningar hafi verið gerðir, verklýðsforkólfar, SA, sjálftökuliðið hjá ríkisvaldi og bönkum, og medían er svo látin sjá um að básúna blessunina gagnrýnilaust. Þá hringja allar aðvörunarbjöllur.

Ég hygg að þú hafir ekki síðri yfirsýn en ég á hvað hefur gerst á Íslandi eftir "stöðugleiki" hinnar svokölluðu "þjóðarsáttar" gekk í garð. Misskiptingin hefur ná nýjum hæðum.

Þessi niðurstaða er ömurleg í skugga þess að hluti samfélagsins hefur komist upp með að taka sér hundruði þúsunda ef ekki milljónir í launahækkanir á kostnað almennings. Þarna er heykst er á að hækka lægstu laun um rúman hundraðþúsundkall á 4 árum eins og lagt var upp með, það er einfaldlega aumingjaskapur.

Og nú lítur þetta nánast út eins og að samþykki launþega sé fyrir "þjóðarsáttar" misskiptingunni jafnvel þó svo laun tveggja kvenna í bankastjórastöðu hafi verið lækkuð í aðdragandi "lífskjarasamninganna". 

Allt orðalag um vexti og verðtryggingu er einfaldlega moðreykur og rauðu strikin hans Gylfa voru gagnslaus öllum almenningi þegar á reyndi.

Ég hef hvergi rekist á það hvernig á að útfæra skattalækkunina til þeirra lægstlaunuðu, annað en að frumvarp þar um verði lagt fram á haustþingi, þannig að hún kemur varla að neinu leiti til framkvæmdar fyrr en í fyrsta lagi á næst ári. Fram að því kemur tæpur helmingur launhækkunarinnar til með að fara í skatta og gjöld til sjálftökuliðsins.

En svo sannarlega vona ég að þú hafir réttar fyrir þér en mitt hugboð segir til um, og ég er sammála þér hvað varðar "helferðarhyskið" og arfleið þess sem þú leggur út frá í þessum pistli.

Magnús Sigurðsson, 4.4.2019 kl. 17:43

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Vissulega þekki ég söguna en það breytir í engu um það sem ég segi í pistli mínum, og ítreka í samtóna svari mínu til þín og Símon.

Svo ég grípi aftur til samlíkingarinnar, þá var Mikligarður vissulega ekki fallinn þegar skarð var brotinn í múrinn, en hann féll fljótlega á eftir.  En þar réði afl andstæðingsins.

Þegar afl andstæðinga auðræðisins er ekkert, þá er ekki hægt að biðja um meira í þessari lotu.

Skarð var rofið, og ef fólki ber gæfa til að mynda afl um að endurheimta þjóðfélagið úr höndum auðsins, þá er lag.

En það vinnur enginn annar þá vinnu.

Þess vegna ber að þakka, og líta svo í eigin barm.

Því fleiri sem það gera, því líklegra er að orð standi, að önnur og betri fyrirheit verði gefin, sem verða svo efnd.

Því til að ná fram grundvallarbreytingu, þurfum við fyrst að breyta okkur sjálfum, átta okkur á hvað það er sem við viljum, og mynda Samstöðuafl um þann vilja.

Ekkert flókið, en óyfirstíganlegt á meðan bent er á aðra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.4.2019 kl. 19:24

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Og því við má bæta að varðhundar kerfisins munu ráðast gegn þeim tillögum sem snúa að vöxtum og Seðlabankanum, kalla þær arfavitlausar, en finnst fátt vitlaust við að venjulegur íbúðakaupandi borgi um það bil 150% vexti en Jón-inn á Norðurlöndum.

Allt úrtöluvæl er þeirra bandamaður.

Raunveruleikinn er þessi líkt og ég nefni í þessari sviðsmynd minni;

"Efndir eiga eftir að koma í ljós, og raunveruleikinn mun bíta.

En það er þannig með Nýjan tón, að eftir að hann hefur verið sleginn, þá hljómar hann.

Og verður ekki kæfður.".

Það er okkar að tóna, ekki kæfa.

Aðeins þannig verður eitthvað efnt.

Aðeins þannig mun eitthvað breytast.

Það er okkar að skynja fallaskilin, og breyta þeim úr máttlausri bylgju í flóð breytinganna.

Látum varðhundanna um varðstöðuna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.4.2019 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 899
  • Sl. viku: 4099
  • Frá upphafi: 1325550

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 3612
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband