Er siðblinda smitsjúkdómur??

 

Eða hvernig á að útskýra að gegnheilir íhaldsmenn, sem ekki mega vamm sitt vita, og hafa aldrei náð æðstu metorðum innan flokksins vegna þess, reyna að verja hið óverjanlega.

Sigríður Andersen er föst í kviksyndi geðþóttans, eftirá röksemdir hennar halda ekki vatni, og hún hefur fengið á sig dóm fyrir embættisafglöp.

Og ekki í smámáli, heldur grundvallarmáli.

 

Í hvert skipti sem hún opnar munninn, þá stækkar nefið hennar. 

Hún játaði í gær að hafa ekki lesið ábendingar helstu sérfræðinga ráðuneytisins, þar sem henni var kurteislega bent á að hún fremdi lögbrot með geðþótta sínum.

Á sama tíma kveðst hún hafa skoðað málið faglega, og komist að faglegri niðurstöðu.

Þegar það er afhjúpað, þá ber hún við tímaskorti, að samkvæmt lögum hefði hún aðeins haft tvær vikur til að vega og meta niðurstöður matsnefndar, og sá tími hefði verið of knappur til að hún sjálf hefði getað lagt faglegt mat á umsækjendur.

Eins blessuð manneskjan hafi haldið að hún væri matsnefndin, en matsnefndin umræðuhópur á feisbók.

 

Það ömurlegast við þetta mál allt saman, er að Alþingi hafði loksins reynt að setja reglur um faglegan vinnugang, til að losa dómsstólana við þá endalausu tortryggni að dómarar þeirra væru flokksskipaðir, en ekki fagskipaðir.  

Hverjum þjónar sá sem þiggur bitling??

Hvernig hagar sér sá sem veit að hann fær ekki frama, nema að skríða fyrir flokkspólitísku valdi??

En hrokafullur ráðherrann þurfti að sýna vald sitt, að eyðileggja þessa viðleitni til að ná sátt um dómskerfið, til að ná embættisveitingum uppúr hjólförum stjórnmálaspillingarinnar.

 

Og þessi ósköp reyna menn að verja.

Með órökum og hártogunum.

Órökum sem segja að ráðherra hafi rökstutt ákvörðun sína með því að vísa í dómarareynslu, þegar ljóst var að út fór maður með meiri dómarareynslu en flokksgæðingurinn, eða vísa í einhvern kynjakvóta þegar ljóst var að sú meinta faglega röksemd var ekki ein af þeim sem matsnefndin átti að hafa til viðmiðunar.

Hártogunum með því að segja að málið þurfi ekki að rannsaka frekar því öll rök málsins liggja þegar fyrir, og því eigi ekki að gera neitt, að láta ráðherrann komast upp með stjórnsýsluspillingu sína. 

 

Fyrir utan hina ótrúlegu sjálfseyðingarhvöt sem þessi afstaða lýsir, hinn einbeitta vilja til að koma fylgi Sjálfstæðisflokksins niður fyrir 20%, þá er þessi hártogun einfaldlega röng.

Það liggja ekkert allar upplýsingar fyrir, gögnum er haldið leyndum.

Því það dettur nefnilega engum manni í hug að heimska hafi ráðið gerðum Sigríðar Andersen.

Sigríður er enginn Trump.

Og það er þannig að þegar um óútskýranlega stjórnsýsluákvörðun er að ræða, að þá liggur eitthvað að baki.

 

Og það er rannsakað.

Slíkar rannsóknir hafa fellt forseta í Suður Ameríku, fellt forseta í Suður Kóreu.

Því alls staðar er ákall um siðvæðingu stjórnmála, hið gamla gjörspillta er ekki liðið meir.

 

Ekki meir, ekki meir.

Og Ísland á ekki að vera þar undantekning.

Ekki lengur.

Þeir sem berjast gegn því daga uppi sem nátttröll nútímans, leysa af hólmi hin gömlu steintröll sem hurfu við kristintökuna.

 

Þess vegna eiga vammlausir íhaldsmenn að skunda uppí heilsugæslu, og fá sprautu við siðblindu.

Því aðeins siðblindur maður reynir að verja hið óverjanlega, að verja gjörspillingu gagnvart þjóð sem hefur fengið nóg.

Þjóð sem segir, ekki meir, ekki meir.

 

Og þó siðblinda sé smitandi, þá er til bóluefni gegn henni.

Bóluefni sem heitir óttinn við að missa völdin.

Óttinn við að missa þingsætið.

 

Sá ótti læknar flest.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is Pólitískur hávaði og skrípaleikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Siðblinda er ekki smitsjúkdómur, en meðvirkni er það.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.1.2018 kl. 17:55

2 Smámynd: Hólmgeir Guðmundsson

Þvílíkur endemis þvættingur. Þetta mál snýst um það hvort dómaraklíkan eigi að fá að taka sér völd sem hún ekki hefur. Augljóslega ætlar æðstaráðið að sýna hverjum þeim kjörnum fulltrúa í tvo heima sem vogar sér að vefengja alræði þess. Og auðvitað mátti bóka að Samfóratar hlypu á vagninn, þeir styðja öll arfavitlaus sjónarmið.

Eitt sinn kyrjuðu bolsévikar austur í Rússlandi: „Öll völd til ráðanna!" Ætli Samfóratar mæti á sameiginlega hvatningafundi og æpi í kór: „Öll völd til ókjörinna embættismanna!" ?

Þetta mál staðfestir að Sigríður er öflugur stjórnmálamaður sem stendur í lappirnar í helstu hagsmunamálum þjóðarinnar og lúffar ekki fyrir síbylju fjölmiðla í þeirri von að fá hrós eða amk þögn í „Útvarpi allra landsmanna". Einmitt það að gjörvöll Samfóratahjörðin skuli rísa upp á afturlappirnar og orga af vandlætingu sýnir að hún er á réttri leið.

Hólmgeir Guðmundsson, 23.1.2018 kl. 18:13

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Ég lenti í keyrslu með afkomendurna á æfingu og setti því inn pistilinn án þess að fjalla almennilega um spurninguna í fyrirsögninni.

Núna hef ég klárað dæmið, og mín niðurstaða er svona sú nálgun, að ef hún er smitandi, þá er hægt að fá bólusetningu við henni.

Hins vegar held ég að valdamenn Sjálfstæðisflokksins séu ekki meðvirkir, þeir eru aðeins í vondum málum, og þora greinilega ekki gegn hægriöfgum flokksins.

Flokksmenn sem verja ósköpin eru hins vegar meðvirkir, og eiga það sameiginlegt með öðrum flokkshestum þjóðarinnar.

Það sem er rangt, er aðeins rangt þegar hinir svokölluðu "Hinir" eiga í hlut.

Eða hvað heldurðu að væri sagt hér á Moggablogginu ef blessunin hún Jóhanna hefði reynt svona skjólshús yfir óverjandi embættisafglöp??

Þessi meðvirkni er í raun einn alvarlegasti vandi þjóðarinnar í dag, það er næstum því allt varið þegar flokkshagsmunir krefjast svo.

Og skiptir engu hvaða flokkur á í hlut.

Og á meðan breytist fátt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2018 kl. 18:15

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hólmgeir.

Þú vekur upp gamlar minningar, ég man hreinlega ekki hvenær ég fékk síðast svona flokkspólitískt innslag sem innihélt svona mikinn þvætting eins og flokksvörn þín blæs út i putta þína.

En þér til upplýsingar, þá var alræði einvaldanna afnumin í flestum Evrópuríkjum á nítjándu öld, og alræði öreiganna leið undir lok á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.

Síðan hefur Evrópa stuðst við lög og reglur, ekki geðþótta.

Og mikið máttu vera einfaldur ef þú heldur að einhver dómaraklíka setji lög á Íslandi.

Það er eins og Trump blási mönnum andann í brjóst þarna uppí Valhöll.

Og þá er fokið í mörg skjól.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2018 kl. 18:23

5 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Hvernig stendur á því í öllum þessum hamagangi gegn dómsmálaráðherra að ekki er að finna eitt hnjóðsyrði í garð þingsins, sem þó ber alla ábyrgiðina enda samþykkti þingið valið á dómurunum í Landsrétt sem ráðherrann lagði til? Sérstaka athygli vekur einnig að forseti lýðveldisins ritaði ekki undir fyrr en hann hafði fengið staðfestingu á því að þingið hefði í ferlinu í hvívetna  farið að lögum í málinu. Mér sýnist augljóst að dólgslætin og brígslyrðin í garð dómsmálaráðherra stafi ekki af betri siðgæðisvitund heldur miklu fremur af einhvers konar óþoli, sem ég tel því miður að ekki sé til neitt bóluefni við. Ég held að siðblinda sú sem þú og fleiri saka aðra um þessa dagana eigi efitir að hitta ykkur sjálfa fyrir ef svo heldur fram sem horfir.

Daníel Sigurðsson, 23.1.2018 kl. 21:02

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Daníel.

Ég get mér þess til miðað við orð þín, að þú teljir vörn Sigríðar felast í hinu fornkveðna, að þú getur bætt böl með því að benda á annað verra og ályktir sem svo, að fyrst það er til verra böl, þá skuli öll böl liggja óbætt hjá garði.

Ekki veit ég hvort skýring þess að ég fjalla ekki um ábyrgð þingsins sé sú að ég er frekar takmarkaður, og einbeiti mér að fáu í einu, læt mér duga að skammast í Sigríði og Trump, svona til skiptis, eða að ég er ekki það grænn að trúa að þó sjálfstæðismenn læknist af þeirri siðblindu að verja hið óverjanlega, að þá leiti þeir sér í kjölfarið þeirrar sáluhjálpar að segja af sér þingmennsku, og í kjölfarið leggi niður stjórnmálastarfsemi flokksins, en einbeiti sér þess í stað alfarið að hagsmunagæslu.

Hitt veit ég þó annað fornkveðið, að eitt leiði af öðru, og eftir afsögn Sigríðar, því hún er aðeins tímaspursmál, að taki Alþingi sig í naflaskoðun, og íhugi sína ábyrgð. 

En sú ábyrgð breytir í engu ábyrgð Sigríðar á geðþóttarákvörðun sinni, eða þeirri staðreynd, að hún er með dóm á bakinu, en ekki Alþingi Íslendinga.  Og ill þykir mér sú málsvörn, það er ef ég hrjáðist af þeirri siðblindu að reyna verja hið óverjanlega, að eina vörnin er að finna sér skálkaskjólið, að engin beri ábyrgð því ráðherraræðið knýr alltaf fram samþykkt Alþingis.

Ég veit að þú ólst uppí slíku þjóðfélagi Daníel, ég reyndar líka.  En það þjóðfélag fór á hausinn haustið 2008 og ég er ekki sú mannleysa að kyngja því þegjandi að synir mínir munu líka alast upp í slíku þjóðfélagi því þjóðin hafði ekki manndóm í að koma í veg fyrir endurreisn þess.

Að krefjast lýðræðis, að krefjast að það sé gert upp við geðþótta og gjörspillingu, er ekki dólgslæti Daníel, og það voru ekki ástunduð brigslyrði við Nurnberg réttarhöldin þegar ákærur voru lesnar upp.  Innihald þeirra var vissulega svart, en satt, lýsti því sem var, sem hafði gerst.

Ef þú hefðir getað bent mér hvar ég fór rangt með, þá hefðir þú gert það Daníel.  Og þú veist hvað sá er sem sakar aðra um brigslyrði, án þess að geta fært rök fyrir máli sínu.

Varðandi framtíð mína veit ég ekki, en ef þú munt upplifa mig verja hið óverjanlega, þá mátt þú minna mig á spádóm þinn.

Þangað til skaltu íhuga forsendur skilgreiningar minnar, að það væri siðblinda að verja hið óverjanlega.  Sem þarf alls ekki að vera rétt, hlutirnir eru nú yfirleitt flóknari en það.  En þú meðtókst hana, gerðir enga athugasemd, eins og að þú hafir fundið sök bíta sekan.  Eina andsvar þitt var að segja, þú líka, kannski.

Einhvern tímann.

En huggaðu þig við það Daníel, það er ekki hægt að verja hið óverjanlega.

Þess vegna tókst þér ekki betur upp.

Þess vegna sit ég í friðarsæti og skrifa pistla mína um embættisafglöp dómsmálaráðherra, og afhverju afsögn hennar sé líflína ríkisstjórnarinnar.

Það er nú það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2018 kl. 22:39

7 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Því fer fjarri að ég telji  “vörn Sigríðar felast  í hinu fornkveðna, að þú getur bætt  böl með því að benda á annað verra og.........“,    eins og þú getur þér til.

Skv. lögum varðandi Lansdóm, sem var fyrir nokkrum misserum breytt, er það ekki dómsmálaráðherra sem tekur ákvörðun um skipun dómaranna heldur Alþingi. Það liggur fyrir að bæði dómsmálaráðherrann og Alþingi hafi í öllum megin atriðum staðið rétt að málum varðandi val og skipan á dómurunum. Undirréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hafi að öllu leyti staðið rétt að málum.  Hæstiréttur var að öllu leyti sammála undirrétti nema að einu smásmugulegu leyti, þess efnis að hann (hún) hefði þrátt fyrir knappan tíma átt að rannsaka hæfni betur og það þrátt fyrir að í nýju lögunum sé hvergi minnst á slíka skyldu en hins vegar skýrt tekið fram í lögunum að ráðherra sé ekki bundinn af tillögu nefndarinnar.  Hæstiréttur verður ekki við kröfu kærenda að þeir fái skaðabætur en dæmir þeim smá misskabætur eins og til að sefa heimtufreka krakka.  Ég tel að það sé hrein óskhyggja hjá þér og sumra skoðanabræðra þinna að það sé aðeins tímaspursmál að Sigríður dómsmálaráðherra segi af sér. Vonandi situr hún sem lengst þjóðinni til heilla.

Það er ekki rétt hjá þér að þjóðfélagið hafi farið á hausinn 2008.  Það var samt reynt og hefði líklega tekist ef við sem börðumst gegn Icesave hefðum ekki hrinnt aðförinni af höndum þjóðarinnar. Ég skil vel að þú viljir ekki að synir þínir alist upp í tíðarandanum (hrunþjóðfélaginu) fyrir hrun en ég tel að þú sért á villigötum í þess máli og að þín afstaða og  skrif að þessu sinni séu síst til þess fallin að bæta siðgæðið í landinu. Þú og þínir skoðanabræður í þessu máli látið ens og ráðherra hafi orðið á stórfelld embættisafglöp. Því fer auðvitað víðs fjarri. Ráðherran hafði kjark til að nýta sinn lagalega rétt til að skipta út einstaklingum sem nefndin hafði lagt til, enda hafði hann (hún) fengið það staðfest að sá listi hefði aldrei fengið náð fyrir meirihluta þingheims. Hvernig má það líka vera að einn af þeim sem nefndin hafði velþóknun á, en  sem ráðherrann skipti út, hefur alls enga dómarareynslu og í ofanálag með einna minnstu menntunina. En Exelskjalið sem nefndin hannaði og raðaði hinum 15 útvöldu “vitringum“ á var svo kostulega hannað að sá einstaklingur fékk eigi að síður gott heildarskor út úr þessum óbermingi sem skjalið augljóslega er þegar það er skoðað.

“Ef þú hefðir getað bent mér hvar ég fór rangt með, þá hefðir þú gert það Daníel“ , segir þú,

Nú, fyrst þú telur að svo sé þá ætla ég að bæta úr því hér:

Þú brigslar Sigríði dómsmálaráðherra um að hafa játað að hafa ekki lesið ábendingar helstu sérfræðinga ráðuneytisins. Þetta eru brigslyrði því þú skautar fram hjá þeirri staðreynd að þetta voru ábendingar í tölvupóstum á milli hinna ýmsu starfsmanna (embættismanna) ráðuneytisins og þar með starfsmanna sem voru í sjálfri nefndinni sem vitaskuld vildu að ráðherrann færi í einu og öllu eftir tilnefningu þeirra sjálfra og myndi ekki nýta sér sinn lögboðna rétt. Að sjálfsögðu bar honum engin skylda til að lesa tölvupósta sem ekki voru stílaðir á hann (hana) sem ráðherra.

Og þú skrifar, “Sigríður Andersen er föst í kviksyndi geðþóttans“.  Þetta er dólgsháttur að mínu mati að taka svona til orða út af dómi sem nánast má líta á sem góðfúslega ábendingu þess efnis að vanda enn betur til verka.

Þú talar um “enbættisafglöp“.  “Og það ekki í smámáli, heldur grundvallarmáli“.  Þetta eru að mínu mati líka brigslyrði. þar sem ráðherrann fót að  öllu í meginatriðum tétt að við tillögugerð til Alþingis um skipan í Landsdóminn.

Þú talar um að það eigi ekki að “láta ráðherrann komast upp með stjórnsýsluspillingu sína“.  Þetta eru að mínu mati líka brigslyrði enda engin innistæða fyrir þessum gífuryrðum í dómnum.

Ég tel að þú, velgerði  hæfileikamaðurinn, ættir að eyða orku þinni og pennalipurð í eitthvað brýnna en velgerðan, vel meinandi, samviskusaman og heiðvirðan ráðherra, að nafni Sigríður Á. Andersen.

Með baráttu kveðju,

Daníel

Daníel Sigurðsson, 24.1.2018 kl. 02:37

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Daníel.

Það er ekki mér að kenna að málsvörn þín fyrir hönd Sigríðar fólst í því að benda á eitthvað annað og meira böl, sem var ráðherraræðið gagnvart Alþingi.  Ef þú hefðir reynt að verja Sigríði efnislega, þá hefði ég ekki góðfúslega bent þér á þetta.  Núna hins vegar reynir þú það, og ég ætla að víkja af þeirri vörn þinni, en ræða fyrst við þig önnur efnisatriði andsvars þíns.

Í það fyrsta þá ætla ég ekki að elta ólar við um hvort Ísland hafi farið á hausinn haustið 2008 eður ei. Þegar fjármálakerfi heillar þjóðar hrynur, og skilur eftir sig skuldaslóða um allan heim, meir en helmingur landsmanna settur í hengingaról stökkbreyttra lána, sem endaði þannig að á þriðja tug þúsunda var hrakinn af heimilum sínum, þegar stærstu fyrirtækjasamsteypur þjóðarinnar hrundu eins og spilaborg, og stökkbreytt lán þurrkuð út eigið fé alltaf 70% fyrirtækja landsins, þjóðin sett í gjörgæslu alþjóða gjaldeyrissjóðsins, og landsfeðurnir semja hraksamning um skuldaánauð þjóðarinnar, þá kalla ég það að þjóð fari á hausinn.  Þú mátt kalla það annað, mér er nokk sama.

Í öðru lagi þá er það ekki dólgsháttur að benda á að Sigríður er stödd í miðju kviksyndi vegna geðþóttarákvörðunar (ákvörðun án rökstuðnings er geðþótti samkvæmt íslensku máli)þar sem framtíð hennar í embætti er í mikilli óvissu.  Ekki bara vegna þess að hún er brotamanneskja sem er rúin öllu trausti, heldur líka vegna þess að hún er Svarti Pétur ríkisstjórnarinnar.  Sama hvað þessi ágæta ríkisstjórn reynir að gera að viti, fólk mun bara sjá Sigríði á meðan hún situr.  Það voru ekki dólgslæti hjá manninum sem tók utan um Nixon á sínum tíma og sagði honum að hann væri staddur í kviksyndi yfirhylmingarinnar og honum væri ekki stætt í embætti.  Ég held að Nixon sjálfur hafi gert sér grein fyrir því.

Og í þriðja lagi kemur seinna, núna er það barnalánið og snjómoksturinn, og ráterinn minn á það til að aftengja sig svo allt sem ég hef slegið inn frýs.

Hendi þessu því inn núna.

Með stundarkveðju að austan.

Ómar Geirsson, 24.1.2018 kl. 07:15

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Jæja Daníel, þá er næst að fjalla um þegar þú ert að skemmta skrattanum með málsvörn þinni, ekki Sigríði, þegar þú fjallar um meint brigslyrði mín.

Tökum þau efnislega fyrir.

1. "Þú brigslar Sigríði dómsmálaráðherra um að hafa játað að hafa ekki lesið ábendingar helstu sérfræðinga ráðuneytisins. Þetta eru brigslyrði því þú skautar fram hjá þeirri staðreynd að þetta voru ábendingar í tölvupóstum á milli hinna ýmsu starfsmanna (embættismanna) ráðuneytisins og þar með starfsmanna sem voru í sjálfri nefndinni sem vitaskuld vildu að ráðherrann færi í einu og öllu eftir tilnefningu þeirra sjálfra og myndi ekki nýta sér sinn lögboðna rétt. Að sjálfsögðu bar honum engin skylda til að lesa tölvupósta sem ekki voru stílaðir á hann (hana) sem ráðherra.".

Í frétt Morgunblaðsins í gær má þetta lesa; "Þetta eru tölvu­póst­ar sem mér bár­ust aldrei enda var ég ekki í þess­um sam­skipt­um,“ seg­ir Sig­ríður,", staðfestir þar með að hún hafi ekki lesið þá, þó orðalagið um að játa sé mitt.  Um hvað erum við þá að rífast, hún las þá ekki en þú tekur undir að henni hafi ekki borið að kynna sér efni þeirra því hún er ráðherra og má taka geðþóttaákvörðun. 

Látum ósmekklega aðdróttun þína um þessa sérfræðinga ráðuneytisins liggja milli hluta, eðli málsins vegna var þeim falið að vinna fyrir nefndina, vonandi eftir bestu samvisku og samkvæmt þeirri starfslýsingu sem fyrir lá.  Enda dettur Sigríði ekki í hug að véfengja trúverðugleika þeirra, segist ekki hafa lesið þá en kannist við þau sjónarmið sem þar koma fram.

Málið var að henni bar skylda til að kynna sér þessi sjónarmið, og hún fékk efnislega póst þar um frá lögfræðingi ráðuneytisins; svo ég vitni í Vísi.is: "Sigríður Á. Andersen ákvað að gera fjórar breytingar á listanum og sendi uppkast að bréfi sínu til Alþingis á Helga Valberg og Snædísi Ósk. Bað hún þau um að renna yfir bréfið og gera athugasemdir. Sem þau gerðu. „Aðalábendingin lítur að því að ef það á að taka einhverja út af lista dómnefndar og setja aðra inn, þá þarf að rökstyðja það sérstaklega með vísan til hæfni þeirra og starfsferils,“ segir í svari Snædísar.".  Enda gat Snædís ekki gert annað, lögin eru skýr;

"Lögum samkvæmt þarf ráðherra að leita álits ráðuneytis síns til að tryggja að ákvarðanir og athafnir hans séu lögum samkvæmt.

„Starfsmenn ráðuneyta skulu í samræmi við stöðu sína og hlutverk veita ráðherra réttar upplýsingar og ráðgjöf sem byggist á staðreyndum og faglegu mati á valkostum þannig að hann geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og stefnumótun,“ segir í 20. grein laga um Stjórnarráð." (http://www.visir.is/g/2018180129790).

Ef ráðherra hefði reynt að vinna þetta mál faglega, þá hefði hún kynnt sér efni þessara tölvupósta, og miðað við frétt Vísi.is þá bað hún um álit, og fékk það.  Hún hlustaði bara ekki á það. 

Þetta eru öll brigslin hvað þessa setningu varðar, eðli málsins vegna þá er margt sagt í svona pistli, hver setning vísar á ákveðna umfjöllun og fréttaflutning, en framsetningin þjónar þeim tilgangi að falla inní heildarmyndina, og ná fram ákveðnum hugáhrifum.  Þú upplifir þau sem brigsl, ég nota þær til að benda á ákveðnar staðreyndir, og fátt meir um það að segja.

2. "Þú talar um “embættisafglöp“.  “Og það ekki í smámáli, heldur grundvallarmáli“.  Þetta eru að mínu mati líka brigslyrði. þar sem ráðherrann fót að  öllu í meginatriðum rétt að við tillögugerð til Alþingis um skipan í Landsdóminn."

Sigríður er dæmd fyrir embættisafglöp, þetta eru glöp því hún var vöruð við; "Minnir Helgi á næstu skref í málinu, kjósi ráðherra að breyta útaf tillögu nefndarinnar.„Ef ráðherra ætlar að leggja þetta breytt fyrir þingið, þá þarf ráðherra að leggja sjálfstætt mat á alla umsækjendur, út frá þeim sjónarmiðum sem hún leggur til grundvallar. Í því gæti falist að kalla eftir upplýsingum frá öllum umsækjendum, auk þess að upplýsa þá,“ segir í bréfinu.".  Ábending sem Sigríður sagðist hafa kannast við, ábending sem er í samræmi við stjórnsýslulög sbr. hér að ofan, og efnislega í samræmi við svo endanlegan dóm Hæstaréttar.

Þetta er síðan grundvallarmál því þetta snýr að trúverðugleika hins nýja dómstigs, og að um það ríki friður, ekki ófriður. 

En að þínu mati eru bæði þessi orð, sem eru útlegging á ákveðnum staðreyndum, brigsl, ekki vegna þess að þú gerir efnislegar athugasemdir við þessa orðanotkun út frá þekktum staðreynum málsins, heldur vegna þess að þú metur að svo sé ekki því "ráðherrann fór að  öllu í meginatriðum rétt að við tillögugerð til Alþingis um skipan í Landsdóminn".  Hvað kemur það málinu við, eru það sem sagt ekki fjöldamorð, ef ég skýt aðeins tíu af hundrað manna hópi??  Stundum Daníel er gott að lesa orð sín, áður en maður setur þau frá sér.  Trúðu mér, ég hef oft rekið mig á það þegar ég hendi inn ögrandi pistlum án þess að lesa þá yfir fyrir utan yfirborðskennda stafsetningar og orðalags leiðréttingu.  Ég hef reyndar gaman að því að taka slaginn, og finnst ekkert verra að vera neyddur til að éta ofaní mig hitt og þetta.  En ég passa mig samt á því að falla í augljósustu gryfjur rökvillunnar.

Þú gerir ekkert málstað Sigríðar betri með því að afneita staðreyndum.

3."Þú talar um að það eigi ekki að “láta ráðherrann komast upp með stjórnsýsluspillingu sína“.  Þetta eru að mínu mati líka brigslyrði enda engin innistæða fyrir þessum gífuryrðum í dómnum. "  Og núna er ég orðlaus, hver eru gífuryrðin??, sem þar fyrir utan hafa gífuryrði ekkert með brigsl að gera, nema þau séu notuð við hin meintu brigsl.  Sem þú rökstyður ekki en vísar í að orðanotkunin sé af ætt gífuryrða.

Hvert er þá málið??  Á að láta ráðherra komast upp með stjórnsýsluspillingu, og þá hvers vegna??  Að hún sé vel meinandi og hæf að öðru leiti??  Eða þér líkar við hana, eða hún sé að öðru leiti að gera góða hluti??  Hvar liggja mörkin??, eiga þau  að vera matskennd, og þá eftir pólitískum línum, eða eru til einhver önnur viðmið, sem eru fyrir utan og ofan hið pólitíska þras??  Ég get ekki svarað þessu ef ég veit ekki við hvað þú ætlar að miða.

Allavega vona ég ekki Daníel að þú teljir þá gjörð að fara gegn rökstuddu áliti matsnefndar, sem var skipuð til að leggja mat á umsækjendur, án nokkurs rökstuðnings, gegn lögum og reglum (ekki gleyma að hún er dæmdur brotamaður í þessu máli), til að kippa út óæskilegum einstakling, eða einstaklingum, sé eitthvað annað en stjórnsýsluspilling.

Þú veist að þetta er fasismi Daníel, svona viðhorf þeirra til leikreglna sem hentaði þeim ekki, leiddi til afnáms lýðræðis í þeim löndum þar sem þeir voru upphaflega kosnir til valda eftir leikreglum lýðræðisins. Nema náttúrulega Franco kallinn, hann skaut sig til valda.

Röksemdirnar segja rosalega mikið um manninn Daníel, og ég er ekki fasisti.

Og ég brigsla ekki með staðreyndir, en orð mín sem mynda pistla mína, eru vopn, það er önnur saga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.1.2018 kl. 09:17

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Víkjum þá að málsvörn þinni fyrir hönd Sigríðar, núna þegar ég hef þurft að drekka 3 kaffibolla við að svara efnislegri gagnrýni þinni á skrif mín.  Þar sem ég lagaði aðeins 4 þá er ég heppinn að hún fjallar að mestu um það sem ekki nokkur maður er að rífast um, gagnrýna eða dæma.

Það er rétt að Alþingi gat ekki tekið ráðherraræði út úr lögum sínum, því til betrunar skyldi maður ætla að ráðherra hafi verið hugsaður sem svona öryggisventill ef matsnefndin hefði eingöngu farið eftir félagatali Frímúrareglunnar, eða lagt út frá félagsstörfum á námsárum, til dæmis fyrir Vöku eða SuS.  En ráðherraræðið er samt bundið lögum og reglum, og þar gerði Sigríður stór mistök, hroki hennar var það mikill að hún taldi sig hafinn yfir eðlilega stjórnsýslu.

Hún fékk dóm um grundvallaratriði, ekki aukaatriði, það þarf ekkert að rífast um það, rökin tala sínu máli, og þegar vísað er í dóm undirréttar, þá er það bara enn einu sinni dæmi hvernig undirréttur dæmir í þágu flokks og framkvæmdavalds.  Svo ég vísa í mál sem þú þekkir vel Daníel, þá þorðu hvorki Steingrímur eða Jóhanna að réttlæta ógjörðir sínar þegar dómur Hæstaréttar féll varðandi ólögmæti gengisviðmiðunar á lánum, að vísa í að kjarklaus héraðsdómur þorði ekki að dæma gegn hagsmunum fjármálamafíunnar.  Og framkvæmdavaldsins sem vann Snatavinnuna fyrir hana.

En glæpur hennar felst ekki í embættisafglöpunum, hann var sá sami fyrir það.

Glæpur hennar felst í ófriðnum, gerræði naums meirihluta þjóðarinnar til að stjórna án þess að taka á nokkurn hátt tillit til hins hluta þjóðarinnar, eða til annarra sjónarmiða en mitt er valdið, og ég skipa mitt fólk. 

Ég ræð, ég ræð, ég ræð.

Ófriðurinn er að sliga þetta þjóðfélag, og meiri að segja ófriðarseggur eins og ég, sem mun aldrei getað fyrirgefið svik Steingríms Joð, og klíkunnar í kringum hann, við grundvallarhugsjónir sínar, við grundvallahugsjónir félagshyggju og jafnaðarmennsku, slíðraði sverðin, og ákvað að gefa þessari ríkisstjórn tækifæri. 

Ekki tækifæri til óbreyttra stjórnarhátta, heldur tækifæri til að sýna í verki vilja til breytinga.

Eitthvað sem þau ná aldrei til að gera, á meðan stjórnmálamenn eins og Sigríður Andersen komast upp með stjórnarhætti liðinna tíma.

Það er grundvallarglæpur hennar, og sá er vinur sem til vamms segir.

Ég hef þegar sagt þér að samþykkt Alþingis breytir engu í þessu máli, það sínir aðeins annars vegar ráðherraræðið, sem og aumingjaskap þeirra þingmanna Bjartrar framtíðar og Viðreisnar sem réttlættu ákvörðun sína með órökum.  Því það eru órök að vísa í tilbúnar eftiráskýringar.  Eitthvað sem Sigríður gerir sér grein fyrir, enda hef ég aldrei haldið öðru fram en að hún sé vel gefin og greind manneskja, annað væri einföld staðleysa, þegar hún segir "Mönn­um ber ekki skylda til að rök­styðja sér­stak­lega, ákvörðun eða til­lögu um ákvörðun um að skipa ein­hvern ekki í embætti. Það er aldrei gert hér á landi. Rök­stuðning­ur­inn er bund­inn ákvörðun­inni sjálfri en ekki ákvörðun sem er ekki tek­in,". Verst að það skuli ekki vera til tímavél, Lúðvík 14. vantaði einmitt svona rök til að útskýra orð sín, "Ríkið, það er ég".

Beinskeyttari lýsing á geðþótta hef ég sjaldan lesið.

Síðan Daníel vil ég benda þér á að þegar þú hnýtir í umsögn matsnefndarinnar að þú ert ekki krakkagrey sem átt eftir að taka út þroska, eða flokkshestur eins og Hólmgeir sem kom hér inn að ofan.  Flokkshesturinn notar ekki rök, hann hugsar ekki, hann aðeins réttlætir.  Ef Sigríður hefði fengið hænuheilkennið, og farið að gagga, og skipað þrjár hænur í Landsrétt, þá sæi flokkshesturinn ekkert athugavert, hvorki við gaggið eða skipan hænsnfugla í dómarasæti, ekki ef hann teldi að völd flokks hans og ríkisstjórnarseta væri í húfi.

Það er bara svo en þú hins vegar Daníel ert að reyna að færa rök fyrir þínu máli.  Og þú veist, alveg eins og ég, alveg eins og allir sem eru komnir til vits og ára, að mat á umsækjendum, er mat á umsækjendum.  Engin geimvísindi, engin stærðfræðiformúla sem hægt er að reikna sig út frá. Í vitrænni rökræðu þá lítillækkar þú þig með því að gera grín að Exel skjalinu, það er aðeins myndræn framsetning á því meinta faglegu mati sem fagnefndin vann út frá.  Hins vegar í pólitískum áróðri og vopnaskaki þá er það gott og gilt að nota Exel til að skapa einhver hughrif.  En þú komst hér inn sem vandlætari rökhugsunarinnar, og þá verður þú að haga þér sem slíkur.

Matsnefndin hafði hitt og þetta til viðmiðunar, og það er eftirá skýring að upphefja hina svokallaða dómarareynslu.  Líklegast höfðu röksemdir Davíðs Oddssonar síast inní þankaganginn þegar hann benti á að fleiri gætu orðið góðir dómarar en fræðimenn akademíunnar.  Enda getur ekki nokkur maður borið á móti því að Jón Steinar Gunnlaugsson átti fullt erindi í Hæstarétt.  Það er á faglegum forsendum.

Það var sem sagt ekki bara dómarareynsla sem var metin, og þú veist, eða átt að vita, að Sigríður henti út manni með meiri dómarareynslu en einn af þeim sem hún setti inní staðinn.  Sem þýðir að það er vanvirðing við vitsmuni sjálfstæðisfólks, að réttlæta geðþótta hennar með þeim rökum. 

Það eru einnig órök að segja að Sigríður að "fengið það staðfest að sá listi hefði aldrei fengið náð fyrir meirihluta þingheims".  Þetta eru bara orð, tilbúningur.  Afstaða þingheims kemur fram við umræður, og síðan atkvæðagreiðslu.  Og þó kannski sjálfstæðismenn viti það ekki, þá eru það ekki fagleg rök að tefla fram gegn áliti stjórnskipaðar matsnefndar að Ástráður Haraldsson sé gamall kommi, og jafnvel fyrrverandi tengdasonur Svavars Gestsonar.  Þann geðþótta missti þingheimur þegar hann samdi lögin um hina faglegu matsnefnd.

Þetta er bull Daníel, og þó það gangi í fólk sem getur ekki hugsað eina línulega rökhugsun, þá breytir það ekki neinu um innihald þess eða eðli.

Þú getur bullað til að hafa áhrif á skoðanamyndun fólks, en þú bullar ekki í rökræðum.  Og ótrúlegt að fjölmiðlafólk skuli hafa látið Sigríði komast upp með svona bull í viðtölum.  Einhver takmörk hljóta að vera á vitleysunni.

Hvað sem öðru líður Daníel, þá er ég alltaf virkilega ánægður með hrósyrði, það er bara svoleiðis með okkur sveitamennina, enda hafa borgarbúar löngu spilað á þann hégóma okkar.  Skemmst er að minnast falls Steingríms Joð, sveitapiltsins frá Þystilfirði.

En ég sem faðir hef ekki efni á að styðja ferlana sem leiða til Heljar, þó skjallaður sé.

Það er nefnilega frumskylda mín að vernda lífið sem ég ól.

Og ég veit ekki annað en sú skylda hvíli líka á ykkur íhaldsmönnum.

En takk samt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.1.2018 kl. 10:16

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Hvað sem líður dómum og annað (dómarar að dæma í máli er snýr að ráðningu dómara) þá finnst mér sá punktur mega vega meira að dómarar skipi ekki dómara, hvorki beint né í gegnum nefndir mannaðar dómurum. Hér má segja að framkvæmdavaldið og löggjafavaldið hafi í sameiningu reynt að hnekkja valdi dómsvaldsins, en að dómsvaldið svari nú fyrir sig með því að dæma það allt ólöglegt.

Hvað sem líður þessu embættisverki þá finnst mér að menn mættu almennt vera tortryggnari á dómara og þeirra meinta faglega hlutleysi. 

Geir Ágústsson, 24.1.2018 kl. 12:05

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Geir.

Þetta er vitrænt sjónarmið inní umræðuna. Það er að láta dómara ekki koma nálægt skipan dómara enda held ég að þeir geri það ekki.  Það er svona frekar verið að tryggja einokun lögfræðistéttarinnar á dómsvaldinu, ekki bara með því að verja, sækja og dæma, heldur einnig með því að velja þá sem dæma.

En þú veist að þessi fullyrðing þin er röng; "Hér má segja að framkvæmdavaldið og löggjafavaldið hafi í sameiningu reynt að hnekkja valdi dómsvaldsins, en að dómsvaldið svari nú fyrir sig með því að dæma það allt ólöglegt.".

Dómarar settu ekki lögin, það var Alþingi. 

Og Alþingi var líklegast að bregðast við ákalli úr samfélaginu um minni pólitísk afskipti, og aukin fagleg vinnubrögð.  Þrátt fyrir allt er dómsvaldið einn af hornsteinum lýðræðisins, og það er réttmæt ábending hjá Ragnhildi Helgadóttur, lagaprófessor, að það gangi ekki að ráðherrar brjóti ítrekað lög við skipun dómara.  Ekki að það dragi úr trúverðugleika ráherra, hann hefur vart verið mælanlegur lengi, heldur út trúverðugleika dómsstóla.  Og slíkt er atlaga að sjálfstæði þeirra.

Dómarar dæma hins vegar eftir settum lögum.  Það er eina aðkoma þeirra í þessu máli.

Kjósi menn annað ferli, þá verða menn fyrst að setja lögin.

Ekki brjóta þau sem fyrir eru.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.1.2018 kl. 13:30

13 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Það er óskhyggja hjá þér og þínum skoðanasystkinum að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sé rúin öllu trausti.  Þvert á móti hefur hún vaxið við þau gjörningaveður sem hún hefur óverðskuldað þurft að takast á við á ferlinum.  Þú til að mynda uppskerð ekki mörg Like við skrif þín gegn henni. Vitaskuld er það  enginn gildur mælikvarði hvað þá algildur en vísbending í öllu falli.   

Að öðru leyti ætla ég ekki að elta ólar við langhunda þína hér að ofan en minna þig á að embættismenn ráðaneytisins, ásamt nefndinni í heild sinni, er ábyrgðarlaus að lögum en það er dómsmálaráðherrann ekki.  Heldur er það einmitt hann og Alþingi sem ber ábyrgðina á endanlegum lista sem samþykktur er en þar eru einstaklingar að langmestu leyti inni sem nefndin lagði til.  Það er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hver staða ráðherrans væri ef kæra hefði borist frá einstaklingi sem sótti um en fékk ekki náð fyrir augum nefndarinnar og /eða Exelskjal-óbermisins og Hæstiréttur hefði fallist á rök kæranda og dæmt dósmálaráðherra fyrir yfirsjón en nefndið slyppi stikkfrí.   Hvernig myndi sú niðurstaða snúa að þinni réttlætishugsun og líðræðisást? Myndir þú ryðjast fram á ritvöllinn og lýsa því yfir að ráðherra hafi orðið á stórfeld embættisafglöp að fara að tillögu nefndarinnar?

Daníel Sigurðsson, 24.1.2018 kl. 15:39

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Daníel.

Enda er það ekki hollt fyrir þig að eltast við langhunda mína, þú gerðir þau mistök að reyna að færa rök fyrir því sem ekki er hægt að verja.  Og sem gamall viðskiptafræðingur, þá veistu að vitleysa krefst ekki langs máls, en því miður krefst það lengri texta að sýna fram í hverju vitleysan er fólgin.

Þess vegna tóku prófin 4 tíma, en ekki 5 mínútur í den.

Og þar sem við erum báðir eldri en tvívetra, þá vitum við að rökþrot er alltaf tjáð á þann hátt sem þú gerir.

Varðandi lækin, þá yrði mér illa brugðið ef ég skrifaði á þann hátt á íhaldsbloggi, að ég fengi mörg læk.  Ég skrifa nefnilega ekki fyrir viðhlæjendur, þeir hafa úr nógu fóðri að moða.  Ég skrifa meir að segja ekki fyrir IP tölur, nema þegar ég er í beinum áróðri, þá sæki ég mér lestur.  Reyndar skrifa ég líka til þess eins að þrauka í viku, bara svona til að sjá hvar ég er á topp tíu listanum.

En aðallega skrifa ég til að segja það sem þarf að segja, á Moggablogginu sem  mér þykir svo vænt um, því hér er margt góðra manna.  Sem í augnablikinu er ég að pirra, en völd eru fallvölt, og áður en varir verða aðrir flokkar fyrir spjótum mínum.  Því ég á nefnilega líf sem þarf að vernda Daníel, og skrifa því alltaf út frá sömu prinsippunum.  Svo er ég náttúrulega vinur sem vamm segir.

Varðandi Sigríði, þá efa ég ekki að hægra villta vestrið samfylki sig um hana, og er það vel, hún er röggsöm og fylgin sér.  En villta vestrið er útkjálki, og vegna hennar mun fylgi Sjálfstæðisflokksins hægt og rólega síga niður fyrir 20%, sem ég hefði ekki grátið til ekki svo mjög skamms tíma, en vandi minn er sá að mér geðjast ekki of vel af því sem við fáum í staðinn.  Sem sagt á vissan hátt sameiginlegt vandamál.

En ef Píratar hafa kjarkinn, þá mun Sigríður ekki standa af sér óháða rannsóknarnefnd, sem Alþingi verður að skipa, ef grunur um óeðlilega stjórnsýsluspillingu á sér stað.  En þeir eru svo sem kjarklausir, kunna fátt annað en að tala, eins og einhver stríð hafi verið unnin með kjaftæði.  Þess vegna veður pattstaða, en öll umræða mun hringsnúast um Sigríði, svo það skiptir ekki máli hve ríkisstjórninni tekst vel til að öðru leiti, í hvert skipti sem Sigríði bregður fyrir á skjánum, þá mun fjöldinn tengja ríkisstjórnina við gjörspillingu.

Og það er ekki þannig að Bjarni Ben sé heimskur, hann er fyrir löngu búinn að átta sig á að það þýðir lítt að skora hátt í almennum lífskjörum og þjóðhagsbata, ekki á meðan þjóðmálaumræðan snýst sífellt um spillingu Sjálfstæðisflokksins og forystufólks hans.

Þess vegna fór hann í þessa ríkisstjórn, tilgangurinn var að breyta um ímynd, að breyta um ásýnd. 

En líkið í farteskinu sér til þess að það er andvana fædd tilraun.

Varðandi enn eitt hnútukast þitt út í grandvara embættismenn, að þá veistu að svona skrif dæma sig sjálf.  Nema að þú hafir náttúrulega rök gegn rökum þeirra.  Sem þú hefur ekki, og Sigríður reyndar ekki heldur, þó hún hafi nú haft vit á að vega ekki að þeim.

Ef nefndin hefði fengið á sig dóm, hvað viltu að ég segi??  Líklegast hefði ég hlegið mig máttlausan.  Allavega líklegra en að ég hefði í forundran reynt að ganga í gegnum þykkan steinvegg, sem er líka fræðilegur möguleiki, og álíka líklegur.

Að öðru leiti hefði það ekki skipt mig miklu máli Daníel.  Enda af hverju ætti það að vera svo??

Mundu að Sigríður greip ekki svona hálmstrá, hennar vörn var frumleg, reyndar óborganleg.  Og henni til heiðurs, þá ætla ég að peista hana aftur, svona sem mín lokaorð.

" "Mönn­um ber ekki skylda til að rök­styðja sér­stak­lega, ákvörðun eða til­lögu um ákvörðun um að skipa ein­hvern ekki í embætti. Það er aldrei gert hér á landi. Rök­stuðning­ur­inn er bund­inn ákvörðun­inni sjálfri en ekki ákvörðun sem er ekki tek­in,"".

Geri aðrir betur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.1.2018 kl. 16:54

15 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Smá athugasemd:  Ég er ekki viðskiptafræðingur eins og þú skrifar.  Ég er vélvirki og véltæknifræðingur.

Þú virðist fallinn í sömu rökleysuna og þú vænir mig um og vil ég aðeins nefna eitt í því sambandi:

Þú skrifar: Varðandi enn eitt hnútukast þitt út í grandvara embættismenn, að þá veistu að svona skrif dæma sig sjálf.  Eru þetta einhver rök? Nei, þetta er gott dæmi um rökleysu.

Grandvara embættismenn, heyra á endemi! Það er eins og þú haldir að þeir séu alfullkomnir og eigi vera stikkfríir ekki bara ábyrgðarlausir gagnvart tillögum sínum og vinnubrögðum heldur einnig gagnvart sérhverri gagnnýni.  Ég held að þú hafir ekki litið á, eða a.m.k. ekki skoðað grannt , fúskkennt Exelskjalið sem nefndin prjónaði án nokkurs sýnilegs rökstuðnings svo sem á gildi hlutfallstalna dálkanna og sem hæfni umsækjendanna var vegin á.  Í raun er þetta Exelskjal hin mesta furðusmíð.

Þú fyrirgefur mér, en mér finnst eins og þú teljir að einhverjir (og jafnvel þú sjálfur, en það er nú líklega vitleysa í mér) séu handhafar sannleikans og jafnvel viskunnar líka.

Mig langar til að gauka að þér eftirfarandi arabísku spakmæli:

Sá sem leitar viskunnar má teljast vitur en telji hann sig hafa fundið hana er hann auli.

Kveðja,

Daníel

Daníel Sigurðsson, 24.1.2018 kl. 18:45

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Fyrirgefðu misminni mitt Daníel, ég man fyrst eftir þér í árdaga ICEsave baráttunnar þar sem þú skrifaðir efnislega grein gegn ICEsave samningnum, á tímum þar sem fáir þorðu að opna munninn gegn honum.  Og þá festist í minni mér að þú værir viðskiptafræðingur.  En það er ekkert verra að vera vélvirki og véltæknifræðingur, þeir mættu meir að segja vera fleiri, en viðskipafræðingarnir færri.

Orðalagið "grandvar" embættismaður er eitthvað sem maður tekur upp eftir að maður hefur lesið Davíð í einhverja áratugi, hann notar þetta orð mjög oft.  Yfirleitt til að aðgreina þá frá pólitísku þrasi.

Og þú heldur áfram að hnýta í þá, en varðandi að ég hafi bent á þá staðreynd áðan án raka, að þá benti ég þér á að þú tekst á við rök þeirra með rökum, en ekki einhverju persónulegu áliti.  Ábyrgð eða ábyrgðaleysi kemur störfum þeirra ekkert við. Þeir eru metnir eftir hæfni, hvort þeir séu hæfir versus vanhæfir, og allt þar á milli.  Þeir voru vinnumenn nefndarinnar, ekki nefndin sjálf.  En gagnvart ráðherra er hlutverk þeirra samkvæmt stjórnsýslulögum;

"„Starfsmenn ráðuneyta skulu í samræmi við stöðu sína og hlutverk veita ráðherra réttar upplýsingar og ráðgjöf sem byggist á staðreyndum og faglegu mati á valkostum þannig að hann geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og stefnumótun,“ segir í 20. grein laga um Stjórnarráð.".

Það þarf einhvern stórfurðulegan þankagang til að gera þá að einhverju issjúi í málinu, og ef þú skilur ekki að þú ert að hnýta í þá, þá skaltu bara lesa skrif þín um þá aftur.  Og aftur og aftur, ef þess þarf.

Varðandi vinnu nefndarinnar, að hún sé aðeins Exel skjal án rökstuðnings, þá er það í besta falli barnaleg nálgun, sem byggist á algjöri vanþekkingu á störfum hennar.  Um þá vinnu segir Sigríður, og vitnar í sjálfan Hæstarétt; "„Þess vegna taldi ég rétt og skylt að byggja á vinnu nefnd­ar­inn­ar,“ seg­ir Sig­ríður. Í þessu sam­hengi bend­ir hún á að Hæstirétt­ur hafi kom­ist að því að störf nefnd­ar­inn­ar hafi verið óaðfinn­an­leg.".

Varðandi arabíska máltækið þitt, þá held ég að sá sem segði það í Arabíu í dag, yrði tafarlaust hálshöggvinn fyrir guðlast, því þar er það almenn trú að Muhameð hafi fundið hana, enda talin fullgild menntun að nema orð hans.

Síðan held ég að þú yrðir talinn lélegur verjandi ef eina vörn þín þegar lögreglumaður segði fyrir rétti "að þegar sakborningurinn sagðist vera heima hjá sér að horfa á sjónvarpið, þá er sannleikurinn sá að hann fór heim að húsi B, braut þar upp glugga og stal öllu verðmæti úr húsinu, það staðfesta bæði vitni sem og upptaka úr öryggismyndavél", að þá myndir þú hrópa, "hver er sannleikurinn, hver þykist vera handhafi sannleikans?".

Þegar er verið að fjalla um einfaldar staðreyndir. 

Og viska getur falist í mörgu, en seint í því að benda á staðreyndir, að fletta uppá staðreyndum eða annað sem kemur notkun staðreynda við.  Þarf vissulega lágmarks vit til þess, en ekkert þar umfram.  Að afneita þeim er hinsvegar önnur ella, og það má spyrja af hverju menn falla reglulega í þann fúla pytt, svona jafn reglulega og pólitískir flokkar þeirra þurfa á þeirri afneitun að halda.  Öll rök í þessu máli sem þú þykist ekki skilja Daníel, þú myndir skilja þau ef við værum á spjalli um embættisafglöp Jóhönnu Sigurðardóttir og hann Sigurður M. okkar kæmi með sínar þaulæfðu varnir í að réttlæta hið óverjanlega.

En svo við drögum þetta saman, þá kemur niðurstaða hæfninefndarinnar málinu ekkert við.  Henni var falið sitt hlutverk með lögum, hún var skipuð samkvæmt lögum, og vann verk sitt eftir ákveðnum forsendum.  Hvort almennt hlutkesti hefði skilað betri niðurstöðu, má vel vera.  Samt líklegast ekki verri ef allt þetta fólk sem sótti um hafi verið hæft til starfans.

Það þurfti bara að velja og hafna eftir ákveðinni forskrift, svona til að gefa fyrirfram gefnum skoðunum matsmanna ákveðið faglegt yfirbragð.  Hefðu aðrir skipað nefndina, þá er frekar ólíklegt að þeir hefðu komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu, þó hún í meginatriðum hefði verið eins.  Allavega ef þessir aðrir hefðu komið út stétt lögfræðinga.  Hefðu til dæmis siðfræðingar og heimspekingar lagt mat á hæfni umsækjenda, þá hefði hugsanlega einhver frávik orðið.

Skiptir ekki máli, eina hugsunin á bak við lögin var losna við togstreitu hinna pólitísku afskipta, að skapa frið um það sem alltaf hefur ríkt ófriður.  Eða því sem næst. 

Sigríður gekk gegn þeirri hugsun, þrátt fyrir eindregnar aðvaranir undirmanna sinna, sem gerðu ekkert annað en að benda henni á hvað stæði í lagbókstafnum, en ekki að hún persónulega gæti ekki komist að jafngóðri niðurstöðu eða betri.  Og Sigríður var það mikill afglapi að hún hundsaði ráðin, og braut lög við geðþóttaákvörðun sína.  Magnaði upp ófriðarbál og gerði hið nýja dómstig tortryggilegt með flokkskipuðum dómurum.

Þetta eru staðreyndir málsins, og það þarf engan Platón til að finna hinn dýpri sannleik sem í því gæti verið fólginn.

Því miður Daníel, þú ert að verja hið óverjanlega. 

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.1.2018 kl. 20:37

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Varðandi tilgátu mína um að hlutkesti hefði ekki komist að verri niðurstöðu en nefndin, og hugsanlega betri, því hlutkesti þjáist ekki að gildismati eða fyrirfram gefnum skoðunum að þá langar mig að vitna í þessa frétt Mbl.is þar sem Haukur Örn Birgisson fjallar einmitt um Exel vinnubrögðin og hvað þau eru matskennd.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/01/24/mat_nefndarinnar_ekki_oskeikult/

Ég persónulega mæli með hlutkestinu, eða að fjölbreyttur hópur komi að matinu, til dæmis siðfræðingar, heimspekingar og vélfræðingar.

En aðalatriðið er að það þarf einhvera sátt, það þarf frið, og að önnur atriði komi til greina en pólitísk tengsl eða vinarhygli.  Að fyrirfram komi hæft fólk til greina án þess að þurfa að vera tengt inní stjórnmálaflokka, hvort sem það er með starfi eða fjölskyldutengslum.

Pólitísk spilling á að vera history.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.1.2018 kl. 20:54

18 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Mikið óskaplega geta sumir verið miklir bullukollar og yfirgengilega óheiðarlegir í málflutningi sínum.

Þorsteinn Siglaugsson, 24.1.2018 kl. 22:45

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Og ósköp ert þú duglegur að leggja á þig fyrirhöfnina að láta vita af því Þorsteinn.

Hvort er það siðblindan að verja hið óverjanlega að hræðslan við að bullugangurinn dæmi sig ekki sjálfur sem rekur þig til þess?

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.1.2018 kl. 06:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 43
  • Sl. sólarhring: 320
  • Sl. viku: 1104
  • Frá upphafi: 1321867

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 917
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband