Hve langt er hægt að toga asnaeyru???

 

Áður en fólk áttar sig á að það er ekki með asnaeyru, enda fólk en ekki asnar, og því ekki hægt að teyma það endalaust með lygum, svikum og undirmálum.  

Að það þurfi að vera ákveðið samræmi milli orða og gjörða.  

 

Pabbi gamli sagði mér frá því þegar Eysteinn Jónsson mætti samviskusamlega fyrir hverja kosningar í Víkina mína fögru og lofaði  gömlu mönnunum (kynslóð afa míns) höfn.  Sem að sjálfsögðu kom aldrei enda vissu menn þá sem ekki er vitað í dag, að það er ekki hægt að reisa höfn á sandi.  En alltaf kom Eysteinn, og alltaf dugði honum að lofa höfn, og alltaf var hann kosinn út á þetta glæsilega loforð.

"Afhverju" létu gömlu mennirnir alltaf spila svona með sig spurði ég Pabba??  "Hefur þú séð Eystein blaka eyrunum" spurði pabbi á móti.   Augljóst samhengi, sá sem gat blakað eyrum, hann gat byggt höfn á sandi, úr sandi.  Tek það fram að þetta var fyrir daga Árna Johnsen, sem hefði byggt höfnina og farið létt með.  

 

Núna þegar ég fylgist með fögnum íbúa míns litla byggðarlags við enn einum loforðum um núna skuli svo ráðist í gerða Norðfjarðarganga, bara þegar við erum búinn með það sem við viljum gera, er mér spurn hvort nýjir eyrnablakameistarar séu fæddir.  Eitthvað hlýtur að útskýra viljann til að trúa hinu margsvikna.

Skoðum nokkrar staðreyndir.  

Þegar orðið Norðfjarðargöng og samgönguáætlun var gúglað saman fyrir nokkrum vikum þá kom upp frétt frá árinu 2008, þar sem ný samgönguáætlun var kynnt.  Þar kom fram að

"gert er ráð fyrir að framkvæmdir við Norðfjarðargöng hefjist 2009. „Veittar eru í það verk 600 mkr. árið 2009 og 1.700 mkr. árið 2010."

Þetta er sami textinn og  notaður er í dag nema að 2009 er orðið að 2013 og upphæðirnar hafa eitthvað hækkað í takt við verðbólgu. 

 

Og þessu fylgir smáaletur sem má lesa um í frétt Ruv; "Tvennum jarðgöngum flýtt".  Þar er haft eftir Ólínu Þorvarðardóttur að  "Forsendan fyrir þessu er auðvitað sú fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin hefur kynnt og það viðbótarfjármagn sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður fái annars vegar með veiðigjaldinu og hins vegar vegna sölu á eigum bankanna.".

Forsenda þessarar gleði íbúa Neskaupstaðar er annars vegar sala á banka sem mun ekki eiga sér stað og aðför að sjávarútveginum sem þeir mótmæltu harðlega á borgarfundir þar sem frasinn, "Hvað höfum við gert ykkur" fékk vængi.  Þessi mótmæli gleymdust um leið og blóðpeningarnir voru gerðir að beitu nýrra jarðganga.  

 

Og hverjar eru líkurnar á því að hinn meinti ofurskattur skili sér í ríkiskassann???  Forsendur hans er besta ár sjávarútvegsins í áratugi þar sem saman fór hagstætt gengi og mjög góð verð á afurðum greinarinnar.  En það þarf mikinn skort á raunveruleikaskyni að framreikna þetta góðæri.  Aðeins fyrir þremur dögum síðan var yfirvofandi heimskreppu frestað þegar Grikkir kusu "rétt".

"Robert Zoellick, framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, er ómyrkur í máli og segir að vandamál Grikkja gætu jafnvel hrundið af stað annarri heimskreppu.".

En aðeins um gálgafrest.  Jafnvel asni með ofsaleg löng eyru veit að hátt afurðaverð og heimskreppa fer ekki saman.

 

Samt fagna menn; blóðpeningum, sviknum loforðum sem þarf ekki einu sinni að umorða, og um leið afneita menn þeirri augljósu staðreynd að loforðin eru reyst á sandi.   

En menn segja ekki orð um gjörðir þeirra manna sem enn einu sinni lofa öllu fögru en á sama tíma tryggðu atkvæðasnapi fjármuni í framkvæmdir strax. 

Ríkisfjármögnun Vaðlaheiðarganga brýtur gegn lögum um ríkisábyrgð, hún sniðgengur stjórnsýslureglur um samgönguframkvæmdir, allur málatilbúnaður byggist á lygi, forsendurnar um meinta arðsemi ganganna eru falsaðar.

Hún er stjórnsýsluspilling af verstu gerð.  

En hún er í hendi, hún er ekki loforð um fjármagn, hún er fjármögnun.  

 

Það er hið hlálega í málinu, það er fagnað vegna einhvers sem á að gerast í framtíðinni og mjög hæpnar forsendur liggja að baki, en það er þagað vegna þess sem er gert.  

Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur aldrei vakið máls á að fyrst það er hægt að fjármagna Vaðlaheiðargöng strax, þá sé það sama hægt vegna jarðganga sem þola ekki bið.  Sé ekki hægt að fjármagna bæði göngin strax, þá hljóta stjórnvöld að láta jarðgöng sem þola ekki bið hafa forgang fram yfir göng sem stytta akstur milli byggða um nokkrar mínútur.   

Sveitarfélagið þagði þegar tillaga um flýtifjármögnun Norðfjarðarganga var lögð fram, það þagði þegar hún var felld af sama fólki og tryggði Vaðlaheiðargöngum ríkisfjármögnun.

Þess vegna hljóta menn að spyrja hvort hér fyrir austan hafi þróast nýt tegund af asnaeyrum sem þola óendanlegt tog eða er hér sorglegt dæmi um leikreglur hins gamla þjóðfélags sem steytti á skeri haustið 2008.  

 

Að það þori enginn að leggjast gegn spillingu þingmanna sinna.

Að hinir gjörspilltu haldi öllu í heljargreipum valds síns með hótunum að ef þið ekki þegið, þá fáið þið aldrei neitt, nema jú auðvita að borga skatta.  Í þessu samhengi skulum við ekki gleyma að fyrirtæki í Fjarðabyggð fjármagna Norðfjarðargöng  með skattgreiðslum sínum.  

 

Þetta litla dæmi um svona stórt mál, sýnir að það skiptir engu hvaða forsendum flokkarnir velja þingmenn sína, það eru sjálfar forsendur flokkanna sem eru rangar.

Tilurð þeirra snýst um að þjóna hagsmunum, þeir þjóna valdi og fjármagni.  

Við þurfum flokka sem þjóna fólki og þjóna samfélögum.  

Þar er meinið, það er vandinn.  Það er ekki gert í dag.

Það er ofsalega auðvelt að skella skuldinni á þingmenn en málið er að asnaeyrun eru ekki góð sem leiðarvísir þegar kemur að því að greiða atkvæði.  

Þingmenn endurspegla okkar viðmið, ekki öfugt. 

 

Þjóðin getur ekki endalaust skellt skuldinni á flokkana.

Hún þarf að líta í eigin barm.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Flokkarnir verði að vanda valið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Ómað það sem er alvaralegast í aðferðarfræði Ríkisstjórnarinnar í dag er að hún er farin að eyða fyrirfram peningum sem hugsanlega gætu komið og ekki komið...

Það er ekki hægt að reka ríkisstjóð svona eins og Ríkisstjórnin er að gera vegna þess að þetta er áhætta beint út í loftið sem mun lenda íllilega á baki skattgreiðenda ef til kæmi og þarf ekki nema tildæmis aflabrestur að verða...

Það er lágmark að sjávaraflinn sé komin í hús og kaupendur að honum í sjónmáli til þess að það sé hægt að tala um aflaverðmæti sem hægt er að eyða og gera ráðstafanir með... 

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 21.6.2012 kl. 08:56

2 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Þetta er alt hið furðulegasta mál, svo ekki sé miera sagt.  Vissulega fagna menn þegar eitthvað er ákveðið en sporinn hræða og ég er nú frekar skeptískur á það að það verði byrjað á þessum göngum alveg í bráð.

Einnig finnst mér það súrt, að þegar tekjur ríkissjóðs af eyrnamerktum sköttum til samgöngumála eru um 30 milljarðar á ári, þá sé veitt 17 milljörðum í samgöngur og samgöngubætur.

Einnig finnst mér forgangsröðin alveg útúr korti (kanski vegakorti) og þegar ég las fyrstu drög að samgönguáætlun, þá var meiru fé veitt í reiðhjóla og göngustíga á suðvestursvæði (væntanlega höfuðborgin og nágrenni) á þessari áætlun en í nýframkvæmdir á landinu öllu fyrstu 4 árin...

Ég tel það vera löngu tímabært að landinn hugsi þessa hluti uppá nýtt, það er talað hér um "dreifbýlisstyrki" og "landsbyggðar ölmusu" í öðru hverju orði þegar minnst er á dýrar samgöngubætur utan "Torfunnar" 

Því er haldið blákalt fram að við landsbyggðarmenn og konur séu afætur og ölmusu þiggendur í íslensku samfélagi, hér verði ekki neitt úr neinu nema til komi fjármagn frá ríkisvaldinu og þeir peningar verði allir til í Reykjavík.. En ekkert er fjarri lagi, við sköpum líka verðmæti og við eigum að njóta góðs af því.

En nú er þessi pistill sem átti að vera hnitmiðaður og stuttur farinn út um víðan völl (eins og svo oft áður) aðalatriðið var að sýna fram á það hversu lítið mál er að "græja" Norfjarðargöng, stæði vilji til þess. 

Því vilji er allt sem þarf.

Hér í þessum tveimur viðhengjum eru vangaveltur mínar um Norfjarðargöng, Vaðlaheiðargöng ásamt minni tillögu að því hvernig fjármagn skiptist á samgönguáætlun.

Ég sendi þessar vangaveltur mínar á alla þingmenn kjördæmisins en ég held að bréfatætarinn hafi haft nóg að gera þegar það ágæta fólk fékk sinn póst frá mér, í það minnsta hefur lítið verið um svör.

http://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/1212336/

http://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/1186786/

Eiður Ragnarsson, 21.6.2012 kl. 09:52

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála ykkur öllum hér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.6.2012 kl. 10:11

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið góða fólk.

Ingibjörg, þetta kallast lýðskrum komandi kosninga, og er tilefni þessa pistils um asnaeyru.  En samgöngur er samt dæmi um þær sjaldgæfu fjárfestingar sem fjármagna sig sjálfar í þeirri merkingu að þær skapa framtíðartekjur.

Eiður, takk kærlega, svona vinnubrögð hafa áhrif, þingmenn lesa rök þó það sjáist ekki alltaf.  En það eru svo margir hagsmunir sem þrýsta á þá.

En ef Fjarðabyggð hefði borið gæfu til að gera slíkt hið sama, þá hefðu þeir ekki komist upp með Vaðlaheiðarstjórnsýsluspillinguna.  

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.6.2012 kl. 21:12

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Dæmigerð vinnubrögð í íslenskri stjórnsýslu.

Takk fyrir pistilinn Ómar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 21.6.2012 kl. 22:11

6 Smámynd: Björn Emilsson

Blessaður Ómar. Þú ferð mikinn og er það vel. En eins og þú veist er það eins og að skvetta vatni á gæs að berjast við þetta fólk sem ræður málum nú og áður. Eina ráðið til að breyta málum er að sameinast um nýtt stjórnmálaafl. Mér líst svo á að það sé Hægri Grænir. Eg hvet menn til að skoða stefnuskrá þeirra.

Björn Emilsson, 21.6.2012 kl. 22:27

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Jakobína.

Já Björn, það þýðir ekki annað en að standa sig.

Hægri Grænir eru flottir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.6.2012 kl. 23:03

8 Smámynd: Björn Emilsson

Stöndum saman. Islandi allt

Björn Emilsson, 22.6.2012 kl. 04:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 711
  • Sl. sólarhring: 1825
  • Sl. viku: 4187
  • Frá upphafi: 1325273

Annað

  • Innlit í dag: 641
  • Innlit sl. viku: 3686
  • Gestir í dag: 615
  • IP-tölur í dag: 598

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband