Getur það staðist að smáþjóð ábyrgist innlán stærri ríkja???

 

Svona út frá heilbrigðri skynsemi???

"Já", segja þeir sem vilja loka sjúkrahúsum og skera niður menntun barna okkar, "það stenst alveg, og við verðum að semja áður en við fáum á okkur hrikalegan dóm".  Þá er eins gott að rökin séu góð, því að misþyrma samborgurum sínum vegna misskilnings, það er eitthvað sem mun fylgja orðstír þessa fólks um aldir og ævi.  Það á eftir að kreppa meira að, starfsfólk í skólum og heilbrigðisstofnunum mun missa vinnuna sína.  

Og á sama tíma rennur skattfé þjóðarinnar í breska ríkiskassann.

 

Áður en til þeirra ógæfu kemur ættu þingmenn að íhuga hvernig innlánstryggingar eru tilkomnar, hvað rök liggja að baki, og hvernig þeir þróuðust.  Og til hvers þær eru.

 

Innlánstryggingar voru taldar eftir Kreppuna miklu nauðsynlegar til að tryggja fjármálastöðugleika og taldar réttlætanlegar vegna hagsmuna samfélagsins sem yrði fyrir miklu tjóni ef fjármálakerfi þess myndi bresta. Og þegar þær voru teknar upp þá voru flestar þjóðir með sinn eigin gjaldmiðil og því talið kleyft að þær gætu ábyrgst innlán þar sem Seðlabankar viðkomandi þjóða myndi í raun koma bönkum í vanda til aðstoðar. Ekki var sem sagt um beinar skattaálögur að ræða heldur mátti frekar tala um útþynningu á gjaldmiðli, líkt og átti sér stað í Bandaríkjunum eftir Kreppuna miklu.

Fram til ársins 1994 datt engum heilvita manni, hvað þá hálfvita manni, í hug að innlánstryggingar einstakra þjóðríkja giltu í öðrum þjóðríkum, þó að bankar í viðkomandi landi störfuðu þar. Ef þeir höfðu leyfi til starfsemi þar, þá voru þeir á ábyrgð viðkomandi ríkis, og starfsemi þeirra féll undir fjármálastöðugleika þess. Ef einhver hefði sagt að bandarísk stjórnvöld bæru ábyrgð á innlánum þarlendra banka í Bretlandi, þá hefði hinn sami verið lagður inn á Klepp, svo fáránlegt hefði það sjónarmið þótt.

 

Evrópusambandið skar á þessi tengsl með reglugerð sinni nr 19 frá árinu 1994. Þar var stofnað kerfi þar sem ríki urðu að stofna innlánstryggingasjóði, fjármagnaða af fjármálastofnunum, og í það kerfi áttu allar fjármálastofnanir að greiða. Og ef þær höfðu starfsemi í öðrum löndum þá var innlánstryggingin í heimalandi þeirra. Skýrt var tekið fram að þetta var kerfi fjármagnað af fjármálafyrirtækjum, ekki ríkissjóðum viðkomandi landa. Enda hefði það aldrei gengið upp, skattgreiðendur í Lúxemborg hefðu til dæmis aldrei getað bakkað upp starfsemi banka í Þýskalandi ef þeir hefðu náð stórri markaðshlutdeild þar í landi.

Og slík lög hefðu aldrei verið samþykkt, reglumeistararnir höfðu aldrei neina lagaheimild til að leggja slíkar íþyngjandi kvaðir á smáríki, og smáríki aldrei samþykkt regluverk sem slíkar kvaðir í för með sér.

En slík andmæli komu aldrei fram vegna eðli tryggingakerfisins, það var hugsað til að tryggja eðlilega samkeppni á hinum innri markaði, og beint gegn hinum ríkistryggðum innlánskerfum einstakra aðildarríkja. Og þess vegna var það fjármagnað af bankakerfinu sjálfu.

 

Þegar fjármálakerfið á Íslandi hrundi þá reyndi á eðli og tilgang þessara laga. Íslensku þjóðinni var talið í trú um að það gilti ríkisábyrgð samkvæmt tilskipun ESB og vegna EES samningsins yrðum við að hlíta því. ICEsavesinnar fóru mikinn í Netheimum til að útbreiða þá lygi. Þegar þeim var sýnt fram á með beinum lagarökum að þeir hefðu rangt fyrir sér þá fundu þeir upp flóttaleið sem hét „aðeins aumingjar sýna ekki samábyrgð“, „villimenn sem skilja ekki forsendur siðaðs þjóðfélags“.

Lög og regla eru forsendur siðmenntaðs þjóðfélags. Hagsmunatengslum íslenskra skattgreiðanda við erlenda sparifjáreigendur var komið á með ákveðnum lögum og reglum, í þeim reglum var skýrt kveðið á um skyldur þjóðarinnar, þær voru að koma á fót kerfi sem virkaði á ákveðinn hátt. Hvergi var inn í lögunum að þau hefðu í för með sér óbærilega skattbyrði á einstakar þjóðir ef illa færi. Hefðu þessi lög ekki verið sett, þá hefði ástandið verið eins og það var fyrir setningu þeirra árið 1994, hvert land bar ábyrgð á sínu fólki, og ekki um það deilt.

 

Þess vegna er það siðblinda að fara framhjá lögunum og segja að það sé siðferðisleg skylda íslensku þjóðarinnar að greiða skuldir einkaaðila. Þá lifum við í þjóðfélagi þar sem það þjónar engum tilgangi fyrir fólk að mennta sig og koma sér upp heimili og skapa fjölskyldu sinni örugg skjól því á hvaða tíma sem er getur komið frá stjórnvöldum fyrirmæli um nýja skatta sem fara í að borga skulda samlanda okkar út í hinum stóra heimi. Eða eins og ICEsavesinninn sagði „Maður ber ekki einungis ábyrgð á sjálfum sér heldur einnig á meðreiðasveinum sínum er einn af grunnsteinunum í hverju siðuðu samfélagi.“

Í minni vitund var slík ábyrgð að sinna þörfum þeirra sem höllum fæti standa, tryggja að allir fái fæði og klæði og húsaskjól, og einnig menntun og heilsugæslu og umönnun í ellinni, óháð ytri aðstæðum og efnahag.

Nei, nei í huga ICEsavesinna er slíku öllu fórnandi fyrir samábyrgð með skuldum auðmanna. Að þær eigi að greiða þó við höfum ekki haft neitt með tilurð þeirra að gera eða það kerfi sem þeir störfuðu í. Við eigum að loka elliheimilum, loka sjúkrahúsum, svo við uppfyllum samábyrgð okkar gagnvart skuldum einkaaðila.

 

Munurinn á vitund minni til samábyrgðar, og hvað það er sem stjórnvöld mega, og mega ekki, og þess sem ICEsavesinninn skilgreinir hana, er kjarni ICEsave deilunnar. Því þrátt fyrir allt snýst þetta ekki um lög og reglur, heldur sjálfa kjarna siðmenningarinnar, hvað má gera saklausu fólki, og hvað má ekki gera þó ólögin séu sett í einhvern lagabúning.

Og það samfélag þjóða, sem útskúfar smáþjóð sem stendur á rétti sínum gagnvart höfðingjunum, er ekki samfélag „siðaðra þjóða“. Orðið villimennska nær varla yfir slíka siðblindu og yfirgang.

 

Enda mun það aldrei gerast, þó embættismenn Evrópusambandsins hóti öllu illu, þá er þetta einangruð valdaklíka sem almenningur Evrópu hefur megnustu skömm á.  Því fjármálakreppan hefur afhjúpað að þetta fólk vinnur ekki í þágu fjöldans, heldur auðmanna og auðfélaga.

Almenningur í Evrópu styður varnarbaráttu íslensku þjóðarinnar.  Í Evrópu er líka verið að skera niður menntun og heilsugæslu vegna ríkisvæðingu á skuldum fjármálakerfisins.  Og almenningur í Evrópu veit að þetta er aðeins byrjunin.

 

Þess vegna vonar hann að íslensk þjóð standi á rétti sínu.  

Og segi Nei við skuldum einkabanka.

 

Ég segi, við skulum virða lögin, bæði lög lagabókanna og líka hin æðri lög.  Sumt einfaldlega má ekki.

Að samþykkja ICEsave er eitt af því.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Atkvæði um Icesave í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála

www.kjosum.is

Kári (IP-tala skráð) 16.2.2011 kl. 09:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 205
  • Sl. sólarhring: 1090
  • Sl. viku: 2218
  • Frá upphafi: 1323018

Annað

  • Innlit í dag: 189
  • Innlit sl. viku: 1892
  • Gestir í dag: 188
  • IP-tölur í dag: 187

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband