Við erum ekki guðir.

Vandi okkar Íslendinga er mjög djúpstæður.  Í hnotskurn er hann sá að hinn gamli hugsunarháttur, að hin gömlu viðmið duga ekki lengur. 

Í dag er frétt um yfirtöku banka á býli 5 manna barnafjölskyldu, harmleikur í röð margra sem yfir okkur eiga eftir að dynja vegna þess að við höfum ekki þann siðferðisþroska sem þarf til að stöðva ógæfuhjólið og byrja upp á nýtt, á nýjum forsendum.  Við skiljum ekki að gömlu aðferðirnar að siga lögmönnum og sýslumanni á fólk í erfiðleikum, eiga ekki við á tímum þegar fjárhagslegar hamfarir ganga yfir heila þjóð, þegar tugþúsundir eiga í erfiðleikum sem þeir ráða ekki við.

Ef við náum ekki til að skilja það, þá mun þjóðfélag okkar gliðna í sundur.  Um það er ekkert val.

Og við náum ekki til að skilja það nema við tökum okkur sjálf taki  og viðurkennum að við séum þroskaðar manneskjur með siðferðiskennd, að við lærum að þekkja muninn á réttu og röngu, og að við lærum að þekkja okkur takmörk um það sem má og má ekki.

 

Í nokkrum pistlum síðastliðin mánudag fjallaði ég um sögu Sophie Scholl, ungrar konu sem lét líf sitt vegna þess að hún trúði því að það væri þess virði að vera manneskja, manneskja sem þekkti muninn á réttu og röngu.  Sjónvarpið sýndi mynd um síðustu daga hennar síðasta sunnudag, og sú mynd snart mig mjög djúpt.  En myndin var ekki bara um mikið hugrekki og mikinn þroska, hún var líka orðræða lífsins yfir þeim öflum sem vilja okkur illt, öflum sem enda alltaf á heljarbraut í uppskafningshætti sínum og ómennsku.  

Og þessi orðræða lífsins er sú orðræða sem við þurfum að öll að íhuga ef einhver framtíð á að vera í þessu landi.  Það er framtíð fyrir aðra en innheimtulögfræðinga og gróðapunga. 

 

Það er engin framtíð á Íslandi nema við greiðum ICEsave skattinn sagði Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi í gær.  Innilega hafði manneskjan rangt fyrir sér og ég ætla að vitna í hluta samtals Sophie Scholl máli mínu til stuðnings um það sem má og má ekki, og af hverju.

 

Sophie:  "Mér ofbauð þegar ég frétti að þjóðernisjafnaðarmenn drápu geðveik börn með gasi og eitri.  Vinkonur móður minnar sögðu frá því.  Börnin voru sótt af hælinu með vörubílum.  Börnin voru sótt af hælinu með vörubílum.   Börnin spurðu hvert bílarnir færu.  "Til himna" var svarað.  Þá fóru börnin syngjandi í bílinn.

Er ég illa upp alinn af því að ég hef samúð með þeim????"

Lögreglumaðurinn:   "Slíkt líf er einskis virði.  Þér eruð lærð fóstra og hafið séð geðsjúklinga.

Sophie:  "Þess vegna veit ég að enginn getur fellt dóm sem Guði einum er ætlaður.  Enginn veit hvað gerist í sál geðsjúklings.  Enginn veit hvað þroska þjáningin veitir.  Allt líf er dýrmætt."

Lögreglumaðurinn:  "Þér verðið að venjast því að nýr tími er runninn upp.  Þetta er fjarri veruleikanum." (hér á hann við að nota siðferðisleg viðmið og vitna í æðri dóm).

Sophie:  "Víst er það raunverulegt.  Þetta snýst um velsæmi, siðferði, Guð.".

 

Við erum ekki guðir sagði Sophie Scholl og það er kjarni ICEsave deilunnar.  ICEsave skatturinn er í eðli sínu rangur.  Það hefur enginn rétt að leggja slíkan skatt á saklausan almenning vegna viðskipta þriðja aðila.

 

Skoðum málið nánar.

Hvað er það sem samfélag okkar snýst um????

Jú, það er sá vettvangur sem maðurinn hefur til að stofna fjölskyldu, sjá henni farboða og tryggja hinu nýja lífi framtíð.  Þannig uppfyllum við okkar einu frumskyldu, að viðhalda lífinu.

Öruggt heimili er grunnur samfélagsins, öll okkar viðleitni miðast við að tryggja öryggi þess.  Og sjá heimilisfólki farboða.  Til þess þurfum við tekjur, og hluta af þessum tekjum notum við til að byggja upp eigur okkar, og ef vel tekst til, þá skilum við af okkur góðu búi þegar kallið kemur.  

Hluti af tekjum okkar fer í samneyslu, hún sér um menntun barna okkar, tryggir öllum heilsugæslu óháð efnahag og tryggir okkur umönnun í ellinni.  Annað mikilvægt hlutverk samneyslunnar er að grípa inn í og hjálpa fólki ef sjúkdómar, atvinnuleysi eða annað gerir fólki ókleyft að sjá sér og fjölskyldu sinni farboða.  Við köllum það velferðarkerfi.

Um þessa samfélagsgerð okkar hefur ríkt sátt í áratugi og hún hefur virkað ágætlega til að viðhalda líf okkar og framtíð.

Vissulega geta komið upp ófyrirséðar aðstæður, stríð, náttúrhamfarir eða annað ófyrirséð sem við ráðum ekki við, og valdið samfélagi okkar skaða.  Við því er slíkt lítið að gera, en á löngum tíma hefur samfélagið þróað það siðferði að við séum öll á sama báti, og við eigum öll í sameiningu að takast á við erfiðleikana og vinna bug á þeim, hluti þess er að skipta tjónbyrðum á milli allra á sanngjarnan hátt.

Þetta kallast siðferði, að þekkja muninn á réttu og röngu.

 

ICEsave er í grundvallaratriðum glæpur gegn öllu því sem samfélag okkar hefur staðið fyrir, og ef það gengur eftir þá er forsendur þess brostnar.  Vegna þess að ef við játumst undir ICEsave skattinn, þá erum við að viðurkenna að stjórnendur þjóðfélagsins geti hvenær sem er skuldbundið þjóðina um hvað sem er, án þess að spyrja hana nokkurs.  

Og í grunninn er það það alvarlegasta sem hægt er að gera samfélaginu.  Það er til lítils að vinna, koma sér upp húsnæði, og byggja upp örugga framtíð barna sinna, þegar hvenær sem er hægt að kollvarpa því með einu pennastriki.  Að hægt sé að tilkynna að nú fari eigur okkar og aflafé í að borga skuldir annarra sem okkur kemur ekkert við.  Að okkur sé tilkynnt að stjórnendur okkar hafi skuldbundið þjóðina ótakmarkað og sú ábyrgð geti gert þjóðfélag okkar gjaldþrota.

Að réttur okkar til lífs og öryggis sé með einu pennastriki brotinn á bak aftur, og við ekki einu sinni spurð hvort við viljum vera annarra manna þrælar.  Að eitt pennastrik þurrki út aldalanga réttindabaráttu hins venjulega manns til lífs og eigna án þess að allt hans strit renni í vasa höfðingja. 

Til hvers var verið að berjast gegn ánauð og þrældómi, ef við samþykkjum síðan þá hugsun sem liggur að baki ICEsave ríkisábyrgðinnni.  Að einhverjir reglumenn, meira segja án þess að stjórnendum okkar væri það kunnugt, hefðu samþykkt skuldbindandi reglur sem hefðu í sér ótakmarkaða ríkisábyrgð vegna starfsemi bankamanna okkar erlendis.  Starfsemi sem við höfðum ekkert að segja um í heimi þar sem allt má, ef af því hlýst gróði gróðapunga.

Að það sé hægt að samþykkja ótakmarkaða ríkisábyrgð sem rústar lífi okkar og lífskilyrðum!!!!!

 

Allt hugsandi fólk með snert af siðferðisvitund, hlýtur að sjá að slík gjörð er ekki á færi nokkurs manns.  Að enginn maður hafi það vald yfir öðru fólki að hann geti eyðilagt líf þess og framtíð. 

Þetta er ekki einu sinni spurning um mannréttindi okkar, þetta eru sjálf grundvallarréttindi okkar sem eru í húfi.

 

Stjórnvöld okkar eru ekki guðir.  Þau mega ekki hvað sem er.

 

Þess vegna er framtíð okkar einmitt kominn undir því að við höfnum ICEsave.  Það skiptir ekki máli þó aðeins 5 milljónir féllu á þjóðina.  Í grunninn er hugsunin á bak við ICEsave röng.  Samþykkjum hana, þá erum við aftur kominn á þann reit sem réttindabarátta okkar var á dögum Rómarveldis þegar höfðingjarnir gátu selt hinn venjulega mann í þrældóm.

Þá samþykkjum við alræði þeirra yfir lífi okkar og limum.  Og það er svo rangt.  Það er í raun ekki til rangari hlutur.  

Það er ekki til rangari hlutur en sá að menn taki sér vald guðs yfir lífi og limum fólks.  

Við erum að tala um sjálfa orðræðu lífsins og þá orðræðu skildi Sophie Scholl.  Og hún var tilbúinn að deyja fyrir hana.

Dauði hennar var sigur lífsins yfir ómennsku og kúgun.  

 

Látum lífið líka vinna sigur í ICEsave deilunni. 

Og einhendum okkur síðan í að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Blessaður Ómar.

Takk fyrir pistil þinn. Hvað munum við svo gera í sumar eða haust þegar búið verður að samþykkja icesave? Allt stefnir í það og það er einbeittur vilji stjórnarinnar að ganga að því sem þar er boðið.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 29.4.2010 kl. 20:02

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Þú bjargaðir alveg deginum hjá mér.

Morgunpistlar mínir tveir voru aðeins hugsaðir sem saklaus byrjun á degi þar sem ég ætlaði að koma frá mér þeirri hugsun sem hér er að ofan.

En það varð allt vitlaus yfir einni setningu vegna þess að ég datt niður á einhvern kjarna sem fólk virkilega upplifir á sama hátt og við.

Það er eitthvað að gerast sem á ekki að gerast, og má ekki gerast í siðuðu manna þjóðfélagi.  Það er ömurlegt að hugsa til þess að 5 manna barnafjölskylda sé sett á gaddinn fyrir það eitt að taka þátt í kerfinu eins og það var uppsett, kolvitlaust og siðblint kvótaskömmtunarkerfi.

En svona hlutir munu gerast aftur og aftur, ef fólk vill ekki setja hlutina í samhengi.  Og skilja að það sem er ekki mönnum bjóðandi, það er að eins boðið upp á í okkar umboði.  Ef krafan um réttlæti og kerfisbreytingu ómaði um allt land, þá myndu framavonarmenn í stjórnmálum bregðast við og setja kúrsinn á að koma til móts við réttlætiskröfu fólksins.,

Ég veit að hún er þarna, en ómurinn af henni er svo lágur.  En ég fékk ekki tæplega 2500 innlit út af grunnpistli mínum, heldur út af því að ég lenti óvart í hringiðu hinnar þöglu byltingar.  Sem segir mér það að hún er þarna úti.  Og nokkrir svona atburðir í viðbót munu kveikja neista sem erfitt er að slökkva.  

Þess vegna held ég að ráðamenn reyni að fyrirbyggja svona atburði fram yfir ICEsave og AGS, svo treysta þeir því að allt verði svo niðurjörfað að allir gefist upp.

Og þá Arinbjörn, og þá þurfum við gömlu mennirnir að hjálpa þeim ungu að gera byltingu.

Og ég er hræddur um að hugmyndafræði hennar verði víðsfjarri þeirri sem ég er að presentera, það verður enginn Gandhi og Mandela stíll á henni.

Þriðja leiðin er til, að vitiborið fólk hvetji til sátta og almennur vilji verði hjá þjóðinni að hlusta á þær raddir.  En það er eins og slíkar raddir finnist ekki lengur.  Elítan okkar er svo kerfislæg í hugsun, að þó allir viti hvað gerðist í Argentínu þegar greiðslubyrðin náði 60%, þá halda menn að eitthvað allt annað gerist hér.  Og hugsaður þér allt þetta mæta fólk sem vill borga ICEsave út af einhverri smán eða því finnst að stjórnvöld hafi brugðist.  Það ætlar sem sagt að hengja almenning út af mistökum örfárra einstaklinga.

Endurreisn er víst nýja orðið yfir slíkar hengingar.

Nei, það verður bylting ef ekkert vitrænt gerist.  Og þá munum við neita ICESave og AGS, jafnvel þó einhverjar undirskriftir ærulaus fólks sé á þeim.

Ég segi bara eins og Ingibjörg, ærulaust fólk í stjórnkerfi Íslands, er ekki þjóðin.

Þjóðin er við og enginn hefur rétt að selja okkur í skuldaánauð, af því bara.  Ekki einu sinni þó þetta bara sé löglegt.  Öll réttindabarátta hins venjulega manns í gegnum aldirnar hefur miðast að einu og aðeins einu, að fella óréttlát lög, og óréttláta stjórnskipan.

Og það munum við gera.

Kveðja að austan.

PS.  Ég kann alveg líka tungutak byltingarmanna.

Ómar Geirsson, 29.4.2010 kl. 20:33

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Blessaður Ómar

Þú kannt tungutakið betur en ég. Þetta er gerðist hjá fólkinu á suðurlandi er rétt forsmekkurinn. Í október næstkomandi brestur "skjaldborgin." Fólk hefur enga trú á að rödd þeirra nái eyrum þessara fyrirbæra sem við köllum stjórnmálamenn. Það heyri ég víða.

Jæja, heyrumst síðar, þarf að sinna drengnum.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 29.4.2010 kl. 21:39

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður.

Ég samdi áðan smá byltingarstúf, athuga hvernig viðbrögð hann fær.

Það gæti eitthvað gerst þarna suður frá.  Kannski verður Sigurður baráttujaxl hetja helgarinnar, það sýður á réttlætiskennd hans.

En okkur vantar þennan sameiginlegan grunn sem fær fólk til að ganga í takt.  Okkur vantar okkar kommúnistaávarp, þar finnst mér vera meinið, enda skýring þess að ég nota hvert tækifæri til að koma dýpri rökunum að.  Dreg fólk að blogginu með orðum sem það vill lesa, og reyni að fá það að lesa orð sem ég tel forsendu breytinga.

Ég fatta ekki af hverju annar hver maður vilji ekki gleyma fortíðinni, þá á ég við fortíð sem íhald eða kommi, krati eða frammi, og einhenda sér í að negla það kerfi sem er að kolsigla öllu.  Og sjá til þess að það komi aldrei aftur.

Aldrei.,

Ég ætla meira að segja að hrópa "áfram Liverpool" á morgun til að sýna að við getum alveg látið okkur líka við forna fjendur, ef markmiðið er nógu göfugt.

Og hvað er göfugra að vilja verða afi, eða Chelsea verði ekki meistari, ég bara spyr?,

En við erum víst bara alltaf andsvar við áræti, þess vegna rís fólk ekki upp nema þegar hörmungar, sem spáð var, eru orðnar og farnar að bíta.  Það er bara svoleiðis. 

Þess vegna er alltaf verið að fresta nauðungarsölum, svo Andstöðunni takist ekki að skipuleggja fjöldamótmæli gegn fyrirhuguðum kerfisbreytingum AGS.  Láta orðinn hlut blasa við þegar fólk loksins springur, og teysta þá á vonleysi örvæntingarinnar, að allt koðni niður.

Að hver hugsi um að bjarga sér og sínum, hvort sem það er að flytja úr landi eða klóra út miskunn hjá bankanum sínum.  Miskunn sem gerir fólk kleyft að skrimta.

Þetta getur allt farið allavega.  En átökin verða heyjast þó lítil von sé um sigur.

Ég ætla mér að verða afi Arinbjörn, þó það kosti mig harðræði og þrengingar þess að þurfa að standa og falla með draumnum um Nýtt og betra Ísland.  En ég er enginn Helgi Hó, hef það ekki í mér að standa einn niður á torgi og boða frelsun heimsins.   Þú frelsar ekki óviljuga, fólk verður að frelsa sig sjálft.

Gerist það?????  Það er efinn, en ef, þá mæti ég.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.4.2010 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 1221
  • Sl. sólarhring: 1484
  • Sl. viku: 3234
  • Frá upphafi: 1324034

Annað

  • Innlit í dag: 1122
  • Innlit sl. viku: 2825
  • Gestir í dag: 1023
  • IP-tölur í dag: 987

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband