Er botnlaus heimska!

 

Lýðræðislegur réttur þingmanna??

 

Rifjum fyrst upp um hvað meint brot Samherja í Namibíu snúast.

Það er rökstuddur grunur um mútur, og slíkt athæfi varðar allt að 5 ára fangelsi.

Síðan eru uppi grunsemdir um bókhaldsbrot og blekkingar, líklegast til að fela múturnar, og einhver refsirammi gildir þar um, best að spyrja lögfræðinga Samherja um slíkt því varla hafa menn farið í þessa vegferð án þess að vega og meta afleiðingarnar miðað við ávinning.

 

Vitnum svo í háttvirtan talsmann Pírata í þessu máli;

"... rík­is­stjórn­ar sem ætl­ar aug­ljós­lega að glutra niður góðu tæki­færi til þess að ráðast í grund­vall­ar­breyt­ing­ar á fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­inu og því koma auðlind­um í þjóðar­eign með stjórn­ar­skrárá­kvæði.“".

Hvert er vitræna samhengið þarna á milli??

 

Hvað yrði sagt við mann, annað en að hann væri illa haldinn af þjóðrembing eða útlendingahatri, sem segði í kjölfar grunsemda um að búð ein í Reykjavík, í eigu Pólverja, væri notuð sem skálkaskjól eiturlyfjainnflutnings og peningaþvættis, að vegna þessa grunsemda ætti að banna öllum Pólverjum að vera með rekstur á Íslandi.

Hreint út myndi enginn nota orðið útlendingaandúð, valið væri smekksatriði hvort viðkomandi yrði sagður hálfviti eða fáviti, og ekki fleiri orðum eitt á hann.

 

Hvað kemur þetta fiskveiðistjórnarkerfinu við, og af hverju ætla menn að ráðast í grundvallarbreytingu á því??

Gallagripur er það vissulega, og íbúar landsbyggðarinnar hafa fundið á eigin skinni, bæði kostnaðinn við hagræðinguna, sem og upplifað óöryggið þegar kvótinn getur horfið á einn nóttu.

Og hverjum datt í hug að braskvæða þessa atvinnugrein sem er ekki bara lífæð hinna smærri byggða, heldur líka mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar.

 

En þetta eru þekktar staðreyndir og áður spurðar spurningar.

Samherjamálið hefur ekkert með þær að gera sem og þær spurningar snúa ekki að grundvallaratriðum fiskveiðistjórnunar sem er skynsamleg nýting fiskistofna og sjálfbærni veiða og vinnslu.

Og þar erum við í fremstu röð, bæði varðandi tækni og arðsemi.

 

Allar breytingar verða því að vera vel ígrundaðar, sá sem er fremstur, getur vissulega farið framar, en auðveldara er að fara aftur.

Glutra niður grundvellinum sem er forsendur hins góða árangurs.

Í þessu samhengi megum við ekki gleyma að það eru ekki svo mörg ár síðan að flotinn í heild var gamall og úreltur, og nýju skipin okkar voru skip sem aðrar þjóðir voru að skipta út fyrir endurnýjun. 

Tæknin í vinnslunni var líka svona la la, en samt í stöðugri framþróun.

Í dag eru uppsjávarskipin okkar í fremst röð og í dag erum það við sem þróum tæknina í vinnslunni, en erum ekki lengur þiggjendur.

 

Og þá spyr maður sig, hvaða önnur atvinnugrein er í þeirri stöðu í dag, og af hverju sætir hún slíkum árásum stjórnmálamanna??

Hvað veldur??

Ókei, hugsanlega valdabarátta, en af hverju þá þessar árásir á heilbrigða skynsemi??

Og af hverju þessi illvilji gagnvart fólkinu sem á afkomu sína undir stöðugleika, að menn geti treyst því að fyrirtækið sem vinna hjá verði til staðar á morgun.

Er hin sviðna jörð eftir brask fortíðarinnar ekki næg, þó þingmenn bætist ekki í hópinn og svíði enn stærra landsvæði, verði þess valdandi að ný bylgja fólksflutninga hefjist á stórborgarsvæðið??

Skiptir samt ekki máli hvort innvilji knýr þingmenn áfram eða botnlaus heimska, vanhugsaðar kerfisbreytingar með tilheyrandi upplausn og óvissu, hafa ekki bara áhrif á landsbyggðina, blóðmjólkaðar atvinnugreinar skila aldrei arði til lengri tíma.

 

Síðan má spyrja hver er trúverðugleiki þingmanna sem nýbúnir eru að afhenda einni af stofnun Evrópusambandsins full yfirráð yfir orkuauðlindum þjóðarinnar, og innleiða í leiðinni regluverk sem braskaravæðir raforkuframleiðslu þjóðarinnar, og tala síðan um að meintar mútur í Namibíu þýði að núna eigi að breyta stjórnarskránni og setja í hana ákvæði um að auðlindir þjóðarinnar séu þjóðareign.

Marklaust ákvæði hvað varðar orkuna því regluverk Evrópusambandsins er æðra stjórnarskrá landsins á meðan EES samningurinn er í gildi, og í fyrstu grein fiskveiðilaganna er það tekið skýrt fram að fiskurinn sé sameign þjóðarinnar.

Sýndarmennska, heimska??

Fattar þetta fólk ekki hvað það samþykkti nýlega regluverk Evrópusambandsins um skipan raforkumála, veit það ekki að samkvæmt EES samningnum þá víkur stjórnarskrá ef ákvæði hennar skarast á við fjórfrelsisákvæðin, eða er það bara að blekkja, að fífla kjósendur sína.

Og fiskur í stjórnarskrá, jafnvel þó hann væri teiknaður, breytir engu um þær reglur sem leiddu til veðsetningar kvótans.

Þjófar geta ekki sett það í stjórnarskrá að það megi stela.

 

Til hvers þessi sýndarmennska??

Froða eða blekking??

Eða er þetta allt hluti af kostuðu leikriti í þágu annarlegra hagsmuna.

Hverjir hafa hag af upplausn og óáran.

Að heimskan sé fóðruðu, að blekkingar séu ofnar???

 

Ekki þjóðin, það eitt er víst.

Kveðja að austan.


mbl.is „Áframhaldandi plástrapólitík“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syndaaflausn.

 

En vonandi ekki sú síðasta því þegar ég las þetta og leit til hliðar á hana Míu mína, sem er kattþrifin, þá var eins og ég sæi hana þrífa sig alla.  En hún er reyndar sofandi.

 

Tökum fyrst brandarann; "Sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra mun hafa frum­kvæði að því að Alþjóðamat­væla­stofn­un­in (FAO) vinni út­tekt á viðskipta­hátt­um út­gerða sem stunda veiðar og eiga í viðskipt­um með afla­heim­ild­ir, þar á meðal í þró­un­ar­lönd­um."  Afsakið en þetta er einfaldlega hlægilegt, bæði í ljósi þess sem gerðist, í ljósi þess sem er að gerast um allan heim, að ekki sé minnst á að framferði stórútgerða í fjarlægari löndum hafa veið í deiglunni í mörg, mörg ár, og öruggt er að síðbúið samviskubit íslenskra stjórnvalda breytir engu þar um.

Íslensk stjórnvöldum væri nær að biðjast formlegrar afsökunar á þeim ófögnuði sem sendur var suður til Namibíu.

Besta kvótakerfi í heimi, þar sem aflaheimildir eru seldar hæstbjóðanda, er ekki samfélagslegt ábyrgt, það ýtir undir rányrkju og vonda meðferð auðlindarinnar, og hjálpar heimamönnum ekki á einn eða neinn hátt að byggja upp sinn eigin sjávarútveg.

Í raun mega Namibíumenn þakka fyrir að það vöru ekki verri gaurar en Samherjamenn sem komu og gaukuðu aur að ráðamönnum.

 

Ekki síðri brandari er krafan um aukið gagnsæi, og þá vísað í reglur kauphallarinnar.

Voru ekki mörg fyrirtæki útrásarinnar í Kauphöllinni, og óð ekki uppi á sama tíma leynimakk þar sem skattaskjól og aflandsreikningar komu við sögu??

Þetta er orðavaðall sem tekur ekki á einn eða neinn hátt á meinsemdinni sem skattaskjól og leynifélög eru.

Það á bara banna feluleik, flóknara er það ekki.

 

Minni enn og aftur á orð Lilju Mósesdóttur.

"... að verður ekki komið í veg fyrir undanskot og peningaþvætti fyrr en auður, sem nýtur verndar í gegnum falið eignarhald á fyrirtækjum og reikningum í skattaskjólum, verður skattlagður! Fyrsta skrefið í þá átt er að skattyfirvöld fái víðtækar heimildir og fjármagn til að rannsaka sölu og leigu á kvóta aftur í tímann með það fyrir augum að afhjúpa og sekta skattaundanskot. Næsta skref er að innleiða í lög ákvæði um að gefa verði upp nöfn eigenda fyrirtækja og reikninga í skattaskjólum, þegar fjármagn er fært frá Íslandi inn á þessa reikninga. Jafnframt þarf að vinna að því alþjóðlega að banna fjármagnsfærslur til þekktra skattaskjólslanda."

Ekkert flókið, aðgerðir sem virka.

Aðgerðir sem eru ekki kattarþvottur eða tilraun til að kasta málum á dreif.

 

Og að lokum eitt, ef núverandi stjórnvöldum er einhver alvara, byrja þau á að láta rannsaka sín eigin tengsl við skattaskjól og leynifélög, þar á meðal tengsl vina, venslamanna auk kostunaraðila.

Aðeins þá er þvotturinn ekki kattarþvottur, heldur alvöru bað sem hreinsar upp stóran hluta af þeirri spillingu sem hér hefur grasserað alltof lengi.

 

Menn byrja nefnilega að líta í eigin barm.

Kveðja að austan.


mbl.is Sjö aðgerðir til að auka traust á atvinnulífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við höfum ekkert að fela.

 

Segir Samherji.

 

Málið er að sá sem notar aflandsreikninga, skattaskjól og önnur leikföng hins frjálsa flæðis, hefur eitthvað að fela.

Annars væri hann ekki í feluleik.

 

Þess vegna minni ég enn og aftur á orð Lilju Mósesdóttur;

"... að verður ekki komið í veg fyrir undanskot og peningaþvætti fyrr en auður, sem nýtur verndar í gegnum falið eignarhald á fyrirtækjum og reikningum í skattaskjólum, verður skattlagður! Fyrsta skrefið í þá átt er að skattyfirvöld fái víðtækar heimildir og fjármagn til að rannsaka sölu og leigu á kvóta aftur í tímann með það fyrir augum að afhjúpa og sekta skattaundanskot. Næsta skref er að innleiða í lög ákvæði um að gefa verði upp nöfn eigenda fyrirtækja og reikninga í skattaskjólum, þegar fjármagn er fært frá Íslandi inn á þessa reikninga. Jafnframt þarf að vinna að því alþjóðlega að banna fjármagnsfærslur til þekktra skattaskjólslanda.".

 

Við skulum taka eftir hvaða stjórnmálamenn taka undir þau.

Því þeir sem gera það ekki, hafa mikið að fela.

 

Til dæmis tengsl sín við þá sem ástunda feluleik.

Að ekki sé minnst á tengsl þeirra við hrægamma og efnahagsböðla.

 

Það er ekki að ástæðulausu að það glymur hátt í tómum tunnum.

Í íslenska andófinu, í íslensku stjórnarandstöðunni.

Það er eitthvað verið að fela.

 

Og hin æpandi þögn stjórnflokkanna sem vilja allt gera annað en það sem þarf að gera.

Segir líka allt um tengslin.

Þeir hafa eitthvað að fela.

 

Aðeins hið feluleikur skýrir að hið augljósa er ekki sagt.

Að meinsemdin, skattaskjól og gervieignarhald sé liðið.

 

Og það eru stjórnmálamenn sem setja reglurnar.

Ekki fyrirtækin sem nýta sér þær.

 

Þeirra er ábyrgðin.

Þeir eiga að svara til saka.

 

Af hverju, af hverju??!!??

Kveðja að austan.

 

Þ


mbl.is Bankar skoða Samherja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. nóvember 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 640
  • Sl. viku: 4655
  • Frá upphafi: 1326186

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 4108
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband