Er botnlaus heimska!

 

Lýðræðislegur réttur þingmanna??

 

Rifjum fyrst upp um hvað meint brot Samherja í Namibíu snúast.

Það er rökstuddur grunur um mútur, og slíkt athæfi varðar allt að 5 ára fangelsi.

Síðan eru uppi grunsemdir um bókhaldsbrot og blekkingar, líklegast til að fela múturnar, og einhver refsirammi gildir þar um, best að spyrja lögfræðinga Samherja um slíkt því varla hafa menn farið í þessa vegferð án þess að vega og meta afleiðingarnar miðað við ávinning.

 

Vitnum svo í háttvirtan talsmann Pírata í þessu máli;

"... rík­is­stjórn­ar sem ætl­ar aug­ljós­lega að glutra niður góðu tæki­færi til þess að ráðast í grund­vall­ar­breyt­ing­ar á fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­inu og því koma auðlind­um í þjóðar­eign með stjórn­ar­skrárá­kvæði.“".

Hvert er vitræna samhengið þarna á milli??

 

Hvað yrði sagt við mann, annað en að hann væri illa haldinn af þjóðrembing eða útlendingahatri, sem segði í kjölfar grunsemda um að búð ein í Reykjavík, í eigu Pólverja, væri notuð sem skálkaskjól eiturlyfjainnflutnings og peningaþvættis, að vegna þessa grunsemda ætti að banna öllum Pólverjum að vera með rekstur á Íslandi.

Hreint út myndi enginn nota orðið útlendingaandúð, valið væri smekksatriði hvort viðkomandi yrði sagður hálfviti eða fáviti, og ekki fleiri orðum eitt á hann.

 

Hvað kemur þetta fiskveiðistjórnarkerfinu við, og af hverju ætla menn að ráðast í grundvallarbreytingu á því??

Gallagripur er það vissulega, og íbúar landsbyggðarinnar hafa fundið á eigin skinni, bæði kostnaðinn við hagræðinguna, sem og upplifað óöryggið þegar kvótinn getur horfið á einn nóttu.

Og hverjum datt í hug að braskvæða þessa atvinnugrein sem er ekki bara lífæð hinna smærri byggða, heldur líka mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar.

 

En þetta eru þekktar staðreyndir og áður spurðar spurningar.

Samherjamálið hefur ekkert með þær að gera sem og þær spurningar snúa ekki að grundvallaratriðum fiskveiðistjórnunar sem er skynsamleg nýting fiskistofna og sjálfbærni veiða og vinnslu.

Og þar erum við í fremstu röð, bæði varðandi tækni og arðsemi.

 

Allar breytingar verða því að vera vel ígrundaðar, sá sem er fremstur, getur vissulega farið framar, en auðveldara er að fara aftur.

Glutra niður grundvellinum sem er forsendur hins góða árangurs.

Í þessu samhengi megum við ekki gleyma að það eru ekki svo mörg ár síðan að flotinn í heild var gamall og úreltur, og nýju skipin okkar voru skip sem aðrar þjóðir voru að skipta út fyrir endurnýjun. 

Tæknin í vinnslunni var líka svona la la, en samt í stöðugri framþróun.

Í dag eru uppsjávarskipin okkar í fremst röð og í dag erum það við sem þróum tæknina í vinnslunni, en erum ekki lengur þiggjendur.

 

Og þá spyr maður sig, hvaða önnur atvinnugrein er í þeirri stöðu í dag, og af hverju sætir hún slíkum árásum stjórnmálamanna??

Hvað veldur??

Ókei, hugsanlega valdabarátta, en af hverju þá þessar árásir á heilbrigða skynsemi??

Og af hverju þessi illvilji gagnvart fólkinu sem á afkomu sína undir stöðugleika, að menn geti treyst því að fyrirtækið sem vinna hjá verði til staðar á morgun.

Er hin sviðna jörð eftir brask fortíðarinnar ekki næg, þó þingmenn bætist ekki í hópinn og svíði enn stærra landsvæði, verði þess valdandi að ný bylgja fólksflutninga hefjist á stórborgarsvæðið??

Skiptir samt ekki máli hvort innvilji knýr þingmenn áfram eða botnlaus heimska, vanhugsaðar kerfisbreytingar með tilheyrandi upplausn og óvissu, hafa ekki bara áhrif á landsbyggðina, blóðmjólkaðar atvinnugreinar skila aldrei arði til lengri tíma.

 

Síðan má spyrja hver er trúverðugleiki þingmanna sem nýbúnir eru að afhenda einni af stofnun Evrópusambandsins full yfirráð yfir orkuauðlindum þjóðarinnar, og innleiða í leiðinni regluverk sem braskaravæðir raforkuframleiðslu þjóðarinnar, og tala síðan um að meintar mútur í Namibíu þýði að núna eigi að breyta stjórnarskránni og setja í hana ákvæði um að auðlindir þjóðarinnar séu þjóðareign.

Marklaust ákvæði hvað varðar orkuna því regluverk Evrópusambandsins er æðra stjórnarskrá landsins á meðan EES samningurinn er í gildi, og í fyrstu grein fiskveiðilaganna er það tekið skýrt fram að fiskurinn sé sameign þjóðarinnar.

Sýndarmennska, heimska??

Fattar þetta fólk ekki hvað það samþykkti nýlega regluverk Evrópusambandsins um skipan raforkumála, veit það ekki að samkvæmt EES samningnum þá víkur stjórnarskrá ef ákvæði hennar skarast á við fjórfrelsisákvæðin, eða er það bara að blekkja, að fífla kjósendur sína.

Og fiskur í stjórnarskrá, jafnvel þó hann væri teiknaður, breytir engu um þær reglur sem leiddu til veðsetningar kvótans.

Þjófar geta ekki sett það í stjórnarskrá að það megi stela.

 

Til hvers þessi sýndarmennska??

Froða eða blekking??

Eða er þetta allt hluti af kostuðu leikriti í þágu annarlegra hagsmuna.

Hverjir hafa hag af upplausn og óáran.

Að heimskan sé fóðruðu, að blekkingar séu ofnar???

 

Ekki þjóðin, það eitt er víst.

Kveðja að austan.


mbl.is „Áframhaldandi plástrapólitík“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Stórgóður pistill Ómar.

 Uppvaðsla sumra þingmanna í ræðustól Alþingis að undanförnu, í populískri vinsældaleit og algerri hugsjónageldingu og tvíræðni, er allt að því grátleg á að horfa. Eins og þú nefnir réttilega í pistlinum, fara þar fremstir, sem nýlega skrifuðu undir ´´namibískt´´afsal orkunnar okkar í hendur erlendra afla. Gapa nú og gala um arðrán hérlends fyrirtækis í fjarlægum löndum, nýbúnir að opna veiðileyfi á slíkt hið sama, gagnvart eigin þjóð. Manni liggur við uppsölum og steinsmugu.

 Hroðalegri verður trauðla spillingarvilji nokkurs þingmanns, eða konu. 

 Hræsnin og fávitaháttur sumra þingmanna og jafnvel ráðherra, hefur náð nýjum hæðum. Sekur, uns sekt er sönnuð, virðist ekki til í orðabók þessara bjálfa, sem strax morguninn eftir kveiksþáttinn görguðu nánast úr ræðustól Alþingis, að nú skyldu eignir frystar og menn dæmdir á Alþingi. Helst fyrir hádegi sama dag!.

 Úff...

 Á sama tíma lætur þetta sama lið viðgangast að stolið sé af eftirlaunaþegum landsins lögbundnum rétti þeirra til lífeyris, oháð stétt eða stöðu. 

 Gott ef görnin gengur ekki niður af manni, við að fylgjast með þessu brambolti þessara kjána. 

 (Vona að orðbragðið hneyksli þig ekki um of, en ef svo er, þá hendirðu þessu bara út eins og hverju öðru rusli. Get svo svarið að mér er farið þyngjast görnin, við það að fylgjast með þessum farsa)

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 19.11.2019 kl. 21:15

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór.

Ég er hræddur um að þá þyrfti ég að fá glersóparana lánaða frá þeim sem grýta úr glerhúsi þessa dagana.

Ég hef mér það þó til afsökunar að ég færi rök fyrir ályktunum mínum.

Og mér finnst einhvern veginn að þú gerir það líka.

Sumt er þess eðlis að það vekur upp þau viðbrögð sem þú lýsir.

Að skammast yfir því er eins og að skamma ælupestina fyrir æluna.

Og það er ekki gáfulegt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.11.2019 kl. 22:56

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Nú er ég lítið hrifinn af því sem þú skrifar:

" 

Rifjum fyrst upp um hvað meint brot Samherja í Namibíu snúast.

Það er rökstuddur grunur um mútur, og slíkt athæfi varðar allt að 5 ára fangelsi.

Síðan eru uppi grunsemdir um bókhaldsbrot og blekkingar, líklegast til að fela múturnar, og einhver refsirammi gildir þar um, best að spyrja lögfræðinga Samherja um slíkt því varla hafa menn farið í þessa vegferð án þess að vega og meta afleiðingarnar miðað við ávinning."

Samherji greiddi reikning fyrir ráðgjöf og húsaleigu frá ákveðnum aðila. Uppljóstrarinn Jóhannes sem var skýrari en aðrir þegar kom að því að vita hvers þyrfti með til að koma til greina við kvótaúthlutun í Namibíu, ráðlagði Samherja að greiða reikninginn eða binda skipið ella og senda áhöfnina í land. Samherji greiddi þennan reikning sem var fyrir ráðgjöf og húsaleigu. Hann fékk svo kvóta. Helga Vala segir að reikningurinn sé ekki fyrir það sem á honum stendur heldur séu þetta mútur. Er það eitthvað líklegra en að þeir hafi verið að greiða fyrir ráð sem dugði til að halda útgerðinni á lífi?

Allskyns kommatittir og atvinnuhræsnarar eins og Helga Vala eru að rakka Þorstein Má niður fyrir að starfa að þvi að reka útgerð og fiskvinnslu SAmherja? Hvað gat hann gert öðruvísi? Hann gerði bara skyldu sína.

Þessi fyrrum vinur hans Jóhannes er greinilega að hefna sín á fyrirtækinu með því að andskotast á því. Hvað vildi hann sem hann fékk ekki?

 

Halldór Jónsson, 20.11.2019 kl. 11:18

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór.

Þegar ég leit lauslega yfir þessa athugasemd þína í póstkerfinu, þá datt mér einna helst í hug að þú hefðir farið í minniháttaraðgerð nýlega, verið svæfður og þá hefði einhver læknarót grætt í þig Píratataug.  Ég held að ég hafi sjaldan hlaðið eins miklu púðri í framhlaðning minn og farið gegn almannarómi og eins og í þessu pistli.

En svo las ég pistil þinn í dag, og sá samhengið, þetta kallast iðrun sökum hinnar óvæntu Pírataveiki sem greip þig í fyrradag.

Hvað viltu að ég segi??

Leiðtogi ykkar borgarlegu íhaldsmanna segir í leiðara sínum á mánudaginn undir fyrirsögninni "Alvarlegt mál" að "Þetta breytir engu um alvöru þess mál sem til umræðu er og nauðsyn þess að komast til botns í því. Stjórn fyrirtækisins virðist taka málið alvarlega, sem er mikilvægt. Þar til bær stjórnvöld verða að sjálfsögðu að gera slíkt hið sama og leiða málið til lykta þannig að yfir vafa sé hafið að komist hafi verið til botns í málinu og að gripið hafi verið til þeirra aðgerða í framhaldinu sem eðlilegar hafi verið.".

Heldurðu virkilega að hann talaði svona Halldór ef ekki lægi fyrir rökstuddur grunur um meint brot, menn taka ekki svona til orða út af órökstuddum ásökunum.

Sértu samt í vafa, þá skaltu finna viðtalið við Björgólf í morgunútvarpinu á mánudagsmorguninn að mig minnir.  Bubbi, minn gamli blakþjálfari hefði aldrei látið Sigmar hirta sig svona nema staðan væri grafalvarleg, að öllu eðlilegu hefði hann skipað Sigmari að fara 50 armbeygjur vegna yfirgangs, en hann lét allt yfir sig ganga.  Vegna þess eins og hann viðurkenndi í viðtalinu að þá er Samherji að róa lífróður þessa dagana, ekki bara vegna þessara ásakana heldur líka vegna niðurlægjandi viðbragða Þorsteins Má við uppljóstrunum.  Það var verri vörn en hjá Stalín fyrstu daga innrásar Þjóðverja inní Sovétríkin, og er hún talin ein sú alversta sem mannkynssagan þekkir.

Tilraun þín til að bera blak af gengur heldur ekki upp.  Við vitum það báðir að það er ekki til einn einstaklingur í allri Afríku sem getur veitt Samherja nokkra ráðgjöf varðandi fiskveiðar og vinnslu, og meint ráðgjöf um innviði stjórnkerfisins var það há að jafnvel þó allir starfsmenn stjórnsýslunnar þar suður frá hefðu verið í fullri vinnu í mánuð, þá myndi rukkun fyrir það ekki vera svona há eða slík vinna vera sífellt í gangi.

Ætli þú sért ekki nær með kjarnann að annað hvort væri borgað eða pakkað saman, og þér að segja þá horfði ég ekki á þennan þátt heldur las helgarblað Moggans ásamt fleiri blöðum, hlustaði aðeins með öðru eyranu.  En ef Kveik hefði tekist að sanna að ekki hefði verið greiddar mútur þá hefði þátturinn náð athygli minni.  Tala ekki um ef þeir hefðu svo í kjölfarið lagst í víking og kannað viðskipti allra annarra evrópskra fyrirtækja í Afríku, jafnt sunnan sem norðan Sahara, og eftir þá ítarlegu rannsókn fundið 5 önnur fyrirtæki sem hefðu líka hreinan skjöld, þá hefðum við upplifað einstakan atburð.

Hvílíkir snillingar ef svo hefði verið.

En hitt er engin frétt, og það er heldur engin frétt að stjórnmálamenn þóttust allir koma ofan af fjöllum, eins og það væri einhver akkur að hafa ímynd einfeldningsins.

En nóg um það að sinni, þú minnist Halldór á kommatitti, er nú hálfmóðgaður því ég hélt að þú sæmdir ekki hvern sem er þeirri heiðursnafnbót, sem og atvinnuhræsnara.

Ef þú hefðir líka lesið fyrirsögn pistils míns, setta hana í samhengi við tilvitnuð orð mín sem einfaldlega lýsa stöðunni eins og hún er í dag, og lesið svo næstu málsgrein sem er þessi; "

"Vitnum svo í háttvirtan talsmann Pírata í þessu máli;

"... ríkisstjórnar sem ætlar augljóslega að glutra niður góðu tækifæri til þess að ráðast í grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og því koma auðlindum í þjóðareign með stjórnarskrárákvæði.“".

Hvert er vitræna samhengið þarna á milli??".

Þá hefðir þú átt að kveikja Halldór að ég er ekki beint að vanda þessum atvinnuhræsnurum og meintum kommatittum kveðjurnar.

Og það er það sem ég er búinn að vera að gera frá því að kviknaði á Kveiknum, því þetta fólk greip gæsina og ákvað að vega að tilveru minni og minna.

Og aðeins aumt fólk snýst ekki til varnar þó ég skal játa að það þarf engar fjöldatakmarkanir í skotgrafir mínar.

Enda snýst þetta ekki um manndóm annarra heldur manns eigin.

Múgæsing er erfiður andstæðingur, en það þarf að mæta henni Halldór.

Megi Pírataveiran halda sér sem lengst frá þér í framtíðinni.

Það er verk að vinna.

Kveðja að austan.

 

Ómar Geirsson, 20.11.2019 kl. 16:49

5 identicon

Sæll Ómar.

"... rík­is­stjórn­ar sem ætl­ar aug­ljós­lega
að glutra niður góðu tæki­færi
til þess að ráðast í grund­vall­ar­breyt­ing­ar
á fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­inu
og því [að] koma auðlind­um í þjóðar­eign með stjórn­ar­skrárá­kvæði.
“

Eru tilvitnuð orð ekki kjarni máls?

Til þess eru refirnir skornir!

(tæpast þurftu menn allar götur og gljúfur til Namibíu
til að finna mútur, meðgjöf, milligjöf eða fyrirgreiðslupólitík!
"Ólög fæðast heima!")

Húsari. (IP-tala skráð) 21.11.2019 kl. 10:21

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Hvað viltu að ég segi Húsari góður, á ég að spyrja þig hvort píratagen hafi verið grætt í þig nýlega eða ertu að grípa gæsina og útskýra fyrir mér að þú sért líka víðáttuvitlaus líkt og góður og gegn Pírati??

Get ekki annað en vísað í rökin um hina botnlausu heimsku og ítrekað fyrirlitningu mína á þeirri frjálshyggju sem býr að baki.

Vísa í pistla mína og athugasemdarkerfið.

Varðandi seinni hlutann þá nenni ég ekki einu sinni að hrista hausinn, í hvaða heimi lifir þú eða ertu einhver geimvera??

Meir að segja Astrid Lindgren gerði sér grein fyrir að stutt væri í mannlegt eðli og Nangiala fór ekki varhluta af því, og til að verða ekki þunglynd þá lét hún ógert að lýsa mannlífinu í næsta áfangastað, skyldi eftir vonina um betri heim.

Útópíur hafa verið skrifaðar, man svona í fljótu bragði eftir Fyrirmyndaríki Platons og eitthvað voru menn að daðra við slíkar  hugmyndir á upplýsingaöld, og örugglega víðar, en guð minn góður, vel kominn i real world.

Spilling hefur fylgt manninum frá örófi alda og mun fylgja honum á meðan hann er til sem tegund.  Að hygla sér og sínum og gjalda greiða með greiða er bara eitt birtingarform að lifa af og komu genum sínum áfram, líkt og það býr engin heimspeki að baki því að karlljón sem sigrar leiðtogann, byrjar á því að drepa hvolpa hans.

Spilling er óhagkvæm fyrir heildina og þess vegna hefur heildin reynt að koma böndum á hana.  Tekist mis vel til.

Fyrirgreiðslupólitík hefur verið samofin íslensku sjálfstjórninni frá upphafi, og þar er enginn flokkur eða engir hagsmunir undanskildir.  Spurningin hefur bara snúist um aðgang að völdum.  Hérna er hún hvorki meiri eða minni en á öðrum Norðurlöndum, Norðurlöndin eru hins vegar í skárri kantinum miðað við önnur ríki í heiminum.

Gjörspillingin er hins vegar annars eðlis, þegar peningarnir náðu að kaupa upp heila stjórnmálastétt.  Þar er engin flokkur undanskilinn, allir hafa gripið gæsina og selt sálu sína um leið og einhver hefur boðið í hana.

Og engin önnur dæmi þekki ég úr nútímasögu að mútaðir stjórnmálamenn hafi selt heila þjóð, sína eigin þjóð.

En það er önnur saga, snýr að hugmyndafræði og viðbjóði, sem einmitt stendur að baki hinnar botnlausu heimsku.

Þú ert ekki í góðum félagsskap þessa dagana Húsari góður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.11.2019 kl. 13:46

7 identicon

Sæll Ómar.

Það er afrek út af fyrir sig
að geta misskilið hvert orð
sem ég skrifaði.

Ég tók einmitt undir málflutning þinn í einu og öllu!

Hnykkti á orðum píratans sem þú vitnaðir til
og gerði því skóna að þar hefði komið fram hver tilgangurinn
hefði raunverulega verið í því upphlaupi sem orðið hefur
í kringum Samherja.

Var það ekki leyfilegt?

Þú verður að fara að gæta að þrýstingnum!!

Húsari. (IP-tala skráð) 21.11.2019 kl. 15:25

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Það er greinilegt félagi Húsari (áður varstu Húsari góður) að þú hefur ekki migið í saltan sjó á smábát fyrir utan Hornið, þar sem slydduhríð sló út radar og lóran (forveri GPS) og eina sem forðaði bráðum háska í straumröst boðans úti fyrir (færa siglingarleiðin var um 500 metra frá klettastálinu, það er miðað við veður og aðstæður) var dýptarmælir.

Þá nefnilega, eins og á það var bætandi, fór áttavitinn í hringi. Hefur kannski verið vanstilltur.

Mér til betrunar hef ég þá afsökun fyrir hringsnúningi mínum að hugurinn var við mætan mann andófsins sem féll í gin frjálshyggjuárans og marserar núna í takt við Steina Páls.

Þú varst sko æfing.

Ekkert að þrýstingnum, það er ekki á hverjum degi sem ég rekst á texta sem er meira troð en þegar mér tekst sem best upp að vera illskiljanlegur eða jafnvel óskiljanlegur, bæði öðrum sem og sjálfum mér.

Reyndar afrek, þó ekki sé það metið til medalía.

Afrek engu að síður.

Nær kemst ég ekki afsökunarbeiðni, okei Húsari minn góður, kann reyndar miklu betra við það ávarp en félagi Húsari.

Kannski er ég bara óforbetranlegur.

Með innilegri kveðju,

að austan.

Ómar Geirsson, 21.11.2019 kl. 16:17

9 identicon

Sæll Ómar!

Nei, óforbetranlegur maður hefði aldrei getað svarað
að þínum hætti nú og kann ég því vel, Austfirðingur góður,
að orðgnótt og tungutak geti verið við 12 vindstigin
ef svo ber undir en skjóti sér fimlega á 3. báru og
slái uppí frekar en ekki, - og mannsbragur að því.

Kv.

Húsari. (IP-tala skráð) 21.11.2019 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 339
  • Sl. viku: 1568
  • Frá upphafi: 1321460

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1334
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband