Sannleikurinn er sagna bestur.

 

Þegar tekjur heimila og fyrirtækja þorna upp, hverfa á einni nóttu vegna hamfara hvort sem það er af völdum náttúru eða mannfólks, þá eiga þjóðir allt undir að njóta leiðsagnar fólks sem segir satt, og gerir það sem þarf að gera.

 

Það þætti ekki gáfulegt ef jarðskjálfti riði yfir höfuðborgarsvæðið og hátt í 40% húsnæðis væri laskað eða jafnvel rústir einar, að þjóðarleiðtogar litu úti um gluggann og horfðu á þær byggingar sem uppi stæðu og segðu; "ha var eitthvað tjón" og þegar það væri útskýrt fyrir þeim, þá blésu þau til blaðamannafundar með mikilli viðhöfn og tilkynntu neyðarráðstafanir sínar, sem væru annars vegar að lofa frestun á  innheimtu fasteignagjalda, og hins vegar að segja því fólki sem væri atvinnulaust vegna hamfaranna að sækja um atvinnuleysisbætur.

Fullvissa svo fólk um að þetta væri ekki svo alvarlegt, þetta blessaðist allt einhvern veginn, án þess að nokkuð væri gert til að láta það blessast.  Bíta jafnvel höfuð að skömminni með því að bregðast við ákalli um bráðabirgðahúsnæði fyrir veturinn með því að dreifa afsláttarmiðum á tjöldum í Rúmfatalagernum með þeim orðum að veturinn yrði örugglega mildur.

Slíkum þjóðarleiðtogum yrði strax skipt út fyrir fullorðið fólk sem hefði bæði þann styrk að segja satt til um ástandið, og sameina þjóðina um þær nauðsynlegu aðgerðir sem þyrftu til endurreisnar, bæði húsnæðis og atvinnustarfsemi, sem og að tryggja að hamfarirnar keyrðu ekki fjárhag heimila og fyrirtækja í þrot.

Vegna þess að heimilin og fyrirtækin eru grunnstoð samfélagsins, hvorugt getur án annars verið, og ef annað eða bæði eru í rúst, þá er samfélagið líka í rúst.

 

Í dag upplifum við efnahags og samfélagslegar hamfarir vegna drepsóttar sem laumar sér með flensuveiru um heimsbyggðina.

Eina sem dugar á veiruna er að stöðva smitleiðir hennar og það hefur fryst efnahagslíf heimsins meira eða minna síðustu vikur og er fyrirséð að verði framá sumar hið minnsta.

Efnahagsáhrifin eru ekki bara vegna fyrirtækja sem loka eða fólks sem missir vinnuna, heldur líka vegna þess að fólk hættir að neyta, öll eftirspurn þess eftir vöru og þjónustu hverfur, sem síðan hefur þau áhrif að fyrirtæki þurfa að draga saman, eftirspurn þeirra þurrkast líka upp.

Það er þessi hringekja sem keyrir efnahagslífið í dýpstu kreppu nútímasögu og það sér ekki fyrir endann á henni.

 

Við þessar aðstæður geta stjórnvöld aðeins róið lífróður til að hindra fjöldagjaldþrot heimila og fyrirtækja svo hægt sé að endurræsa atvinnulífið þegar veirusýkingin er gengin yfir.

Þau gera það með því að tryggja atvinnulausum framfærslu svo þeir hafi efni á brýnustu lífsnauðsynjum og þau gera það með því að tryggja fyrirtækjum og heimilum skjól fyrir innheimtu sem þau geta ekki greitt. 

Í þessu sambandi verður að hafa í huga að það er engin lausn að skuldsetja tekjuþurrðina á framtíðina, það er aðeins hengingaról sem tryggir að hagkerfi viðkomandi landa nær sér aldrei aftur á strik. 

Það verður að haldast í hendur að þegar tekjustreymi heimila og fyrirtækja þornar, að þá hætti lána og innheimtuklukkan að tifa, enda ekkert til að innheimta.

 

Á Íslandi verður kreppan djúp vegna þess hve þjóðin er háð útflutningi.

Af þremur meginstoðum gjaldeyrisöflunarinnar er ferðaþjónustan horfin, áliðnaðurinn er að upplifa fordæmalausa kreppu og vegna minnkandi eftirspurnar mun verð á sjávarafurðun lækka mjög.

Ef allt fer á versta veg þá gætu útflutningstekjur þjóðarinnar dregist saman um 2/3 frá því sem þær eru í dag.

Síðan bætist við kerfisvandi verðtryggingarinnar sem mælir fall útflutningstekna sem verðbólgu.

Og börn og bjánar stjórna þjóðinni.

 

Það er enginn leiðtogi sem segir þjóðinni satt um ástandið eða skapar samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir.

Og afleiðingin er sundurlyndi og deilur sem bara eiga eftir að magnast.

 

Verkalýðshreyfingin er klofin niðri í rætur en á þann tón sameiginlegan að krefjast þess að kaupmáttur sé varinn og stjórnvöld standi við lífskjarasamningana.

Atvinnurekendur benda vanmáttugir á að það þarf rekstrarhæf sem og fyrirtæki í rekstri til að borga laun og standa undir lífskjörum.

Stjórnmálamenn deila um skattalækkanir eða hvort milljóninni sem betur varið hér eða þar, sveitarfélögin benda á að ef þau eiga að standa undir þjónustustigi þurfi þau tekjur, allir eru sammála um að það þurfi að borga atvinnuleysisbætur og eitthvað þarf að gera fyrir fyrirtækin.

En enginn talar um kjarnann, hvernig ætlum við sem þjóð að komast lifandi út úr þessum hremmingum.  Hvernig ætlun við að tryggja lágmarks lífskjör og halda heimilum og fyrirtækjum gangandi á þessum hamfaratímum.

 

Það er sagt að á Ögurstundu rísi upp leiðtogar eða menn farast ella.

Okkur Íslendingum vantar einn slíkan.

 

Manneskju sem segir okkur satt um ástandið.

Sem segir að á fordæmalausum tímum þurfi að hugsa hlutina upp á nýtt.

ekkert haldist óskert, hvorki fjármagn eða lífskjör, aðeins eitt verði varið.

Þjóðin.

 

Að það verði hvorki gengið að heimilum eða fyrirtækjum á meðan stormurinn gengur yfir og síðan muni aðstæður ráða hvað verður lífvænlegt og hverju verður ekki bjargað.

Um það veit enginn í dag.

 

Til þess verður gjaldmiðlinum beitt til að viðhalda innlendri eftirspurn og gjaldeyrisvarasjóðurinn mun tryggja að ekki komi til greiðsluþrots þjóðarinnar og að hægt sé að fjármagna eðlilegan eða nauðsynlegan innflutning.

Greiðsluskjól krefst endurfjármögnunar og það er ekki flókið hjá þjóð sem ræður yfir sjálfstæðum gjaldmiðli.

Verðtrygginguna þarf að taka úr sambandi, hún er ekki hönnuð til að mæla verðlagsbreytingar við þær aðstæður sem eru núna.

 

Síðan en ekki hvað síst, þá þurfa bæði launþegasamtök og atvinnurekendur að ná samkomulagi um neyðarráðstafanir, það þarf að fresta launahækkunum, hugsanlega að hætta láta hluta launa fara í sjóði því það er enginn sparnaður í samfélagi sem þarf að takast á við hrun útflutningstekna.

Hluti af því samkomulagi er að lækka laun æðstu stjórnenda, jafnt í atvinnulífinu og hjá hinu opinbera, í dag er enginn Ösil, þetta er sameiginlegt verkefni þar sem allir verða að axla byrðarnar.

Við erum öll Víðir.

 

Með þessu mun gengið aðlagast ytri aðstæðum og hækkun vöruverðs endurspegla fall útflutningstekna en ekki eltingarleik innihaldslausra kauphækkana.

Og lífskjör munu batna í takt við aukna framleiðslu og betri nýtingu innlendra aðfanga.

Mesta kjarabótin yrði líklegast að selja matvælaframleiðendum raforkuna á stóriðjuverði, þeir yrðu þá skilgreindir sem ein heild og þar með stórkaupendur.

Aðalatriðið er að það er ekkert val í þessu dæmi, það er annaðhvort lífróðurinn eða að farast, þetta hefst ekki nema að allir séu samtaka, að enginn sé skilinn eftir útundan.

 

Leiðtoginn eða leiðtogarnir þekkjast á því að þeir útskýra þetta fyrir þjóðinni.

Beita sér fyrir samstöðu, einhenda sér í verkefnin sem fyrir liggja.

Þeir hafa neyðarréttinn á bak við sig líkt og allir aðrar þjóðir á þessum hamfaratímum, þeir gera það sem þarf að gera, biðja hvorki ESA eða lögfræðinga fjárúlfa sem þrá að læsa skoltum sínum í almenning, um blessun.

Þjóðarsátt og þjóðarsamstað um björgun er þeirra eina sýn, þeirra eina takmark.

 

Blessuð börnin okkar á þingi eða í ríkisstjórn skilja ekki ákallið, skynja ekki lífsháskann sem er framundan.

Þau bregðast seint við, og þá of lítið, og af hræðslu við fólkið, sem á þau og gerir út, afneita þau þeim lífsnauðsynlegu aðgerðum sem þarf að grípa til, líkt og að frysta verðtrygginguna og eða koma heimilum og fyrirtækjum í skjól undan þeim öflum sem fitna af hörmungum okkar hinna.

Þau virðast ekki skilja hvað algjört hrun útflutningstekna þjóðarinnar þýðir.

Og því miður virðist mikið skorta uppá skynsemi orðræðunnar hjá verkalýðshreyfingunni.

Samt sjá þetta allir innst inni, líka börnin.

 

Það er bara þarna hnútur sem þarf að höggva á.

Það þarf einhver að taka af skarið og boða til fundar hjá fullorðnu fólki og ná samstöðu um aðgerðir og það fólk sem á að leiða þær.

Í raun brennir það mest á þeim sem eiga og reka, þeir tapa mestu á vargöld og vígöld hinna rjúkandi rústa.

Sem og trúnaðarfólks launþega, það er þeirra fólk sem er að missa lífsviðureyri sitt og það étur enginn innistæðulausar ávísanir úr ríkissjóði.

Já og okkur hinum líka, það er okkar að hætta þessu innbyrðis tuði og sameinast um kröfuna um björgun þjóðar og samfélags.

 

Ástandið er vissulega grafalvarlegt eins og alltaf þegar það þarf að róa lífróður, en lífróður mun skila okkur í örugga höfn, þar sem vonin lifir og dafnar, og samkenndin og samhygðin mun fleyta okkur yfir allar keldur og yfirstíga allar hindranir.

Samfélag okkar verður heilbrigðara og lífvænlegar á eftir.

 

Við þurfum bara leiðtogann.

Og sannleikann.

 

Hitt er aðeins verkefni.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


Bjánar leiða ekki þjóð á ögurstund.

 

Og með ummælum sínum í dag er ljóst að tími Bjarna Ben sem formanns Sjálfstæðisflokksins er liðinn.

Þjóðin er að fara í gegnum fordæmalausa tíma þar sem aðeins eitt getur bjargað henni.

Að heimili og fyrirtæki landsins séu heil þegar heimsfaraldrinum linnir.

 

Enginn gjaldmiðill heldur verðgildi sínu þegar hátt í 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar hverfa á örfáum vikum.

Að halda öðru fram er ekki lýðskrum, það er heimska af áður óþekktri stærðargráðu.

Hvorki laun eða verðtrygging geta haldið í þetta fyrirsjáanlega fall krónunnar.

Ef það er reynt, þá er hrun efnahagslífsins og gjaldþrot þjóðarinnar öruggt.

 

Þetta er það sem leiðtogi borgarlegs íhaldsflokks bendir á.

Og hafi hann styrk, þá nær hann samstöðu um þessi einföldu sannindi.

Ef ekki þá verður hann að víkja.

Þá er hann ekki hæfur, þá er hans tími liðinn.

 

Og ef hræðslan við kórónuveiruna hefur gert eitthvað gamalmennið svo veruleikafirrt að það taki undir þessi orð Bjarna; "„Það er ein­hver viðtak­andi á hinum end­an­um og það vill þannig til að þar eru líf­eyr­isþegar í land­inu sem fara þar fremst­ir í flokki,“", þá er það þannig að núverandi og verðandi lífeyrisréttindi eru aðeins ávísun á hlutdeild í verðmætasköpun þjóðarinnar.

Og þau þurrkast út á einni nóttu líkt og ferðamannaiðnaðurinn ef verðtryggingin fær að brenna upp heimili og fyrirtæki landsins.

Það býr enginn í rjúkandi rústum, sem og þjóðfélag í rjúkandi rúst skilar engum verðmætum í sjóði, velferðarkerfið, eða samneyslu. 

Það brauðfæðir ekki einu sinni þegna sína.

 

Við erum ennþá svo heppin að lifa Ögurstund.

Það er ennþá von, það er ennþá möguleiki að við sem þjóð sleppum heil og lítt sködduð úr þessu fári sem gengur yfir heimsbyggðina.

 

Ögurstund er hins vegar skammvinn.

Hennar tími líður hratt, og kemur ekki aftur.

Það er oft hægt að bjarga sökkvandi skipi, en sokkið skip er sokkið.

Ekkert flókið við það.

 

Þetta er ekki tími barna eða bjána.

Þetta er tími fullorðins fólks.

 

Tími leiðtoga.

Kveðja að austan.


mbl.is Eitt prósent verðbólga og 15 stiga hiti að jafnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2020
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 527
  • Sl. sólarhring: 612
  • Sl. viku: 692
  • Frá upphafi: 1320535

Annað

  • Innlit í dag: 465
  • Innlit sl. viku: 607
  • Gestir í dag: 432
  • IP-tölur í dag: 428

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband