Sannleikurinn er sagna bestur.

 

Þegar tekjur heimila og fyrirtækja þorna upp, hverfa á einni nóttu vegna hamfara hvort sem það er af völdum náttúru eða mannfólks, þá eiga þjóðir allt undir að njóta leiðsagnar fólks sem segir satt, og gerir það sem þarf að gera.

 

Það þætti ekki gáfulegt ef jarðskjálfti riði yfir höfuðborgarsvæðið og hátt í 40% húsnæðis væri laskað eða jafnvel rústir einar, að þjóðarleiðtogar litu úti um gluggann og horfðu á þær byggingar sem uppi stæðu og segðu; "ha var eitthvað tjón" og þegar það væri útskýrt fyrir þeim, þá blésu þau til blaðamannafundar með mikilli viðhöfn og tilkynntu neyðarráðstafanir sínar, sem væru annars vegar að lofa frestun á  innheimtu fasteignagjalda, og hins vegar að segja því fólki sem væri atvinnulaust vegna hamfaranna að sækja um atvinnuleysisbætur.

Fullvissa svo fólk um að þetta væri ekki svo alvarlegt, þetta blessaðist allt einhvern veginn, án þess að nokkuð væri gert til að láta það blessast.  Bíta jafnvel höfuð að skömminni með því að bregðast við ákalli um bráðabirgðahúsnæði fyrir veturinn með því að dreifa afsláttarmiðum á tjöldum í Rúmfatalagernum með þeim orðum að veturinn yrði örugglega mildur.

Slíkum þjóðarleiðtogum yrði strax skipt út fyrir fullorðið fólk sem hefði bæði þann styrk að segja satt til um ástandið, og sameina þjóðina um þær nauðsynlegu aðgerðir sem þyrftu til endurreisnar, bæði húsnæðis og atvinnustarfsemi, sem og að tryggja að hamfarirnar keyrðu ekki fjárhag heimila og fyrirtækja í þrot.

Vegna þess að heimilin og fyrirtækin eru grunnstoð samfélagsins, hvorugt getur án annars verið, og ef annað eða bæði eru í rúst, þá er samfélagið líka í rúst.

 

Í dag upplifum við efnahags og samfélagslegar hamfarir vegna drepsóttar sem laumar sér með flensuveiru um heimsbyggðina.

Eina sem dugar á veiruna er að stöðva smitleiðir hennar og það hefur fryst efnahagslíf heimsins meira eða minna síðustu vikur og er fyrirséð að verði framá sumar hið minnsta.

Efnahagsáhrifin eru ekki bara vegna fyrirtækja sem loka eða fólks sem missir vinnuna, heldur líka vegna þess að fólk hættir að neyta, öll eftirspurn þess eftir vöru og þjónustu hverfur, sem síðan hefur þau áhrif að fyrirtæki þurfa að draga saman, eftirspurn þeirra þurrkast líka upp.

Það er þessi hringekja sem keyrir efnahagslífið í dýpstu kreppu nútímasögu og það sér ekki fyrir endann á henni.

 

Við þessar aðstæður geta stjórnvöld aðeins róið lífróður til að hindra fjöldagjaldþrot heimila og fyrirtækja svo hægt sé að endurræsa atvinnulífið þegar veirusýkingin er gengin yfir.

Þau gera það með því að tryggja atvinnulausum framfærslu svo þeir hafi efni á brýnustu lífsnauðsynjum og þau gera það með því að tryggja fyrirtækjum og heimilum skjól fyrir innheimtu sem þau geta ekki greitt. 

Í þessu sambandi verður að hafa í huga að það er engin lausn að skuldsetja tekjuþurrðina á framtíðina, það er aðeins hengingaról sem tryggir að hagkerfi viðkomandi landa nær sér aldrei aftur á strik. 

Það verður að haldast í hendur að þegar tekjustreymi heimila og fyrirtækja þornar, að þá hætti lána og innheimtuklukkan að tifa, enda ekkert til að innheimta.

 

Á Íslandi verður kreppan djúp vegna þess hve þjóðin er háð útflutningi.

Af þremur meginstoðum gjaldeyrisöflunarinnar er ferðaþjónustan horfin, áliðnaðurinn er að upplifa fordæmalausa kreppu og vegna minnkandi eftirspurnar mun verð á sjávarafurðun lækka mjög.

Ef allt fer á versta veg þá gætu útflutningstekjur þjóðarinnar dregist saman um 2/3 frá því sem þær eru í dag.

Síðan bætist við kerfisvandi verðtryggingarinnar sem mælir fall útflutningstekna sem verðbólgu.

Og börn og bjánar stjórna þjóðinni.

 

Það er enginn leiðtogi sem segir þjóðinni satt um ástandið eða skapar samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir.

Og afleiðingin er sundurlyndi og deilur sem bara eiga eftir að magnast.

 

Verkalýðshreyfingin er klofin niðri í rætur en á þann tón sameiginlegan að krefjast þess að kaupmáttur sé varinn og stjórnvöld standi við lífskjarasamningana.

Atvinnurekendur benda vanmáttugir á að það þarf rekstrarhæf sem og fyrirtæki í rekstri til að borga laun og standa undir lífskjörum.

Stjórnmálamenn deila um skattalækkanir eða hvort milljóninni sem betur varið hér eða þar, sveitarfélögin benda á að ef þau eiga að standa undir þjónustustigi þurfi þau tekjur, allir eru sammála um að það þurfi að borga atvinnuleysisbætur og eitthvað þarf að gera fyrir fyrirtækin.

En enginn talar um kjarnann, hvernig ætlum við sem þjóð að komast lifandi út úr þessum hremmingum.  Hvernig ætlun við að tryggja lágmarks lífskjör og halda heimilum og fyrirtækjum gangandi á þessum hamfaratímum.

 

Það er sagt að á Ögurstundu rísi upp leiðtogar eða menn farast ella.

Okkur Íslendingum vantar einn slíkan.

 

Manneskju sem segir okkur satt um ástandið.

Sem segir að á fordæmalausum tímum þurfi að hugsa hlutina upp á nýtt.

ekkert haldist óskert, hvorki fjármagn eða lífskjör, aðeins eitt verði varið.

Þjóðin.

 

Að það verði hvorki gengið að heimilum eða fyrirtækjum á meðan stormurinn gengur yfir og síðan muni aðstæður ráða hvað verður lífvænlegt og hverju verður ekki bjargað.

Um það veit enginn í dag.

 

Til þess verður gjaldmiðlinum beitt til að viðhalda innlendri eftirspurn og gjaldeyrisvarasjóðurinn mun tryggja að ekki komi til greiðsluþrots þjóðarinnar og að hægt sé að fjármagna eðlilegan eða nauðsynlegan innflutning.

Greiðsluskjól krefst endurfjármögnunar og það er ekki flókið hjá þjóð sem ræður yfir sjálfstæðum gjaldmiðli.

Verðtrygginguna þarf að taka úr sambandi, hún er ekki hönnuð til að mæla verðlagsbreytingar við þær aðstæður sem eru núna.

 

Síðan en ekki hvað síst, þá þurfa bæði launþegasamtök og atvinnurekendur að ná samkomulagi um neyðarráðstafanir, það þarf að fresta launahækkunum, hugsanlega að hætta láta hluta launa fara í sjóði því það er enginn sparnaður í samfélagi sem þarf að takast á við hrun útflutningstekna.

Hluti af því samkomulagi er að lækka laun æðstu stjórnenda, jafnt í atvinnulífinu og hjá hinu opinbera, í dag er enginn Ösil, þetta er sameiginlegt verkefni þar sem allir verða að axla byrðarnar.

Við erum öll Víðir.

 

Með þessu mun gengið aðlagast ytri aðstæðum og hækkun vöruverðs endurspegla fall útflutningstekna en ekki eltingarleik innihaldslausra kauphækkana.

Og lífskjör munu batna í takt við aukna framleiðslu og betri nýtingu innlendra aðfanga.

Mesta kjarabótin yrði líklegast að selja matvælaframleiðendum raforkuna á stóriðjuverði, þeir yrðu þá skilgreindir sem ein heild og þar með stórkaupendur.

Aðalatriðið er að það er ekkert val í þessu dæmi, það er annaðhvort lífróðurinn eða að farast, þetta hefst ekki nema að allir séu samtaka, að enginn sé skilinn eftir útundan.

 

Leiðtoginn eða leiðtogarnir þekkjast á því að þeir útskýra þetta fyrir þjóðinni.

Beita sér fyrir samstöðu, einhenda sér í verkefnin sem fyrir liggja.

Þeir hafa neyðarréttinn á bak við sig líkt og allir aðrar þjóðir á þessum hamfaratímum, þeir gera það sem þarf að gera, biðja hvorki ESA eða lögfræðinga fjárúlfa sem þrá að læsa skoltum sínum í almenning, um blessun.

Þjóðarsátt og þjóðarsamstað um björgun er þeirra eina sýn, þeirra eina takmark.

 

Blessuð börnin okkar á þingi eða í ríkisstjórn skilja ekki ákallið, skynja ekki lífsháskann sem er framundan.

Þau bregðast seint við, og þá of lítið, og af hræðslu við fólkið, sem á þau og gerir út, afneita þau þeim lífsnauðsynlegu aðgerðum sem þarf að grípa til, líkt og að frysta verðtrygginguna og eða koma heimilum og fyrirtækjum í skjól undan þeim öflum sem fitna af hörmungum okkar hinna.

Þau virðast ekki skilja hvað algjört hrun útflutningstekna þjóðarinnar þýðir.

Og því miður virðist mikið skorta uppá skynsemi orðræðunnar hjá verkalýðshreyfingunni.

Samt sjá þetta allir innst inni, líka börnin.

 

Það er bara þarna hnútur sem þarf að höggva á.

Það þarf einhver að taka af skarið og boða til fundar hjá fullorðnu fólki og ná samstöðu um aðgerðir og það fólk sem á að leiða þær.

Í raun brennir það mest á þeim sem eiga og reka, þeir tapa mestu á vargöld og vígöld hinna rjúkandi rústa.

Sem og trúnaðarfólks launþega, það er þeirra fólk sem er að missa lífsviðureyri sitt og það étur enginn innistæðulausar ávísanir úr ríkissjóði.

Já og okkur hinum líka, það er okkar að hætta þessu innbyrðis tuði og sameinast um kröfuna um björgun þjóðar og samfélags.

 

Ástandið er vissulega grafalvarlegt eins og alltaf þegar það þarf að róa lífróður, en lífróður mun skila okkur í örugga höfn, þar sem vonin lifir og dafnar, og samkenndin og samhygðin mun fleyta okkur yfir allar keldur og yfirstíga allar hindranir.

Samfélag okkar verður heilbrigðara og lífvænlegar á eftir.

 

Við þurfum bara leiðtogann.

Og sannleikann.

 

Hitt er aðeins verkefni.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Pistill sem segir allt sem segja þarf.

Tek undir hvert einasta orð.

Amen.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 22.4.2020 kl. 15:00

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir það Símon Pétur, við erum sammála sem oft áður.

Ég heyrði í fréttum að það er leitun af fólki, fyrir utan flokkshesta, sem eru ánægðir með þennan pakka.

Ég las svo viðtal við málaliða hrægammanna sem þeir létu kjósa sem forseta ASÍ, hún sagði margt, hefur greinilega ekki heyrt af uppþurrkun útflutningstekna, hvað þá að hún minntist á að verðtryggingin eigi ekki að mæla tekjufall þjóðarbúsins.

En hún þagði líka þegar bretar og hrægammar sameinuðust um að knésetja þjóðina og skuldaþrælka almenning, minnir samt að hún hafi gert ágreining út af kyn eitthvað.

Eftir stendur að enginn formaður stjórnarandstöðunnar, lesist Sigmundur Davíð, tali mannamál.

Leiðtoginn er ekki beint í sjónmáli.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.4.2020 kl. 20:03

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar þessi pistill er líkt og yfirskriftin "sannleikurinn er sagan bestur" lýsandi fyrir þann raunveruleika sem við blasir.

Þú svaraðir mér því til í gær að það þyrfti að halda skipinu á floti, þar væri ekkert val, þetta vissu allir þeir sem lífróður hefðu róið og skilað bát og áhöfn í höfn.

Ég verð að segja það alveg eins og er að mér hreinlega féllust hendur við tilhugsunina að leggjast á þær árar sem togaðar eru af náhirðinni og helferðarhyskinu. 

Varðandi sannleikann; þá er hann frómt frá sagt sá að hver er sér næstur og lítið annað sjálfsþurftarbúskapur í kortunum.

Það er lítil von til þess að maðurinn á gólfinu muni flykkja sér um að róa lífróður ímyndaðri þjóðarskútu til handa.

Það er einfaldlega of stutt síðan að því fleyi var bjargað úr brimgarðinum, sjálftökuliðinu til ráðstöfunar og skipta við  háborð glóbalsins.

Með kveðju að ofan. 

Magnús Sigurðsson, 22.4.2020 kl. 20:39

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðan daginn Magnús.

Allt réttmætt sem þú bendir á og að gefnu tilefni eins og kemur fram í síðustu setningu þinni.

En réttmætt er samt ekki það sama og það sé rétt.

Heild þjóða, hvað sem við svo köllum hana, er ekki ímynduð, heldur blákaldur raunveruleiki tilverunnar og skilningur á því hefur bæði með velferð einstaklingsins að gera sem og stöðu hennar í samkeppni þjóðanna þar sem sá sem sýnir veikleikamerki er étinn og íbúarnir undirokaðir og arðrændir.

Þú hefur ekkert val með lífróðurinn og þú hefur ekkert val um hverjir eru með þér á báti.  Ætli besta saga þar um hafi ég ekki lesið fyrir margt löngu í sagnfræðigrein sem fjallaði um þróun þjóðfélagsstöðu sakamanna í bresku fanganýlendunni sem núna heitir Ástralía.  Þegar eitt fangaskipið strandaði á skerjum fyrir utan ströndina þá neitaði ein hefðarfrúin að fara í björgunarbát með sakakonum (konur og börn fyrst) og lét sig ekki fyrr en skipstjórinn benti henni á að sakakonurnar yrðu ekki skyldar eftir líkt og hún krafðist, heldur hún.

Á sjó skyldu menn þessi sannindi að það væru allir á sama báti á neyðarstundu, þannig kæmust flestir af, oftast.  Vissulega þekkjum við dæmi eins og frá Titanic um þar sem spurt var um stétt og stöðu, en það var fordæmt og ekki framhald á.

Í eftirmálum Hrunsins var spurt um stétt og stöðu og fjáryfirstéttin flaut ofaná en almenningi sendur reikningurinn.  Ekki vegna þess að það væri náttúrulögmál heldur vegna þess að almenningur náði ekki að sameinast um hina sjálfsögðu kröfu neyðarinnar, að allir ættu rétt á björgun, stór skýring þess var að hann lét deila með sig og drottna með röddum sundrungarinnar þar sem ein háværasta röddin var að sakakonurnar neituð að fara í sama björgunarbát og yfirstéttarfrúin, að hún yrði skilin eftir.

Náum við ekki að hemja þessar raddir núna, þá verður reynt að endurtaka leikinn, fjáryfirstéttin veit eins og er að auður hennar er ekki á sömu kennitölu og reksturinn og hún finnur sér bæði leiðir til að endursemja um skuldir sínar, sem og að kaupa eigur almennings fyrir slikk.

Í þessu samhengi skulum við spyrja okkur þeirrar spurningar að fólkið sem var rekið á gaddinn hvort það hefði borgað opinberum sjóðum minni upphæð en gammarnir sem fengu íbúðir þess á slikk og stofnuðu leigufélög, svona í ljósi þess hvað það hefur borgað þessum sömu gömmum í leigu frá Hruni.

Síðan er hver sjálfum sér ekki næstur í siðuðu samfélagi, þess vegna eru þau siðuð. 

Vissulega hafa æðstu prestar hagtrúar þess í neðra talið fólki í trú um þetta með góðum árangri, til að réttlæta ránshendur sínar um samfélög fólks og afneitun þessa kristna hugarfars að þú eigir að líta eftir náunganum sem var forsenda tíundarinnar hjá kaþólskum sem átti að renna til fátækra, en samfélög sem hafa ekki náð að mynda miðstýringu urðu undir í samkeppni þjóðanna og finnast aðeins í þéttum frumskógum og í samfélögum sem þeir hafa náð að brjóta niður samkennd og velferð íbúanna, ríkir vargöld þar sem hin sama yfirstétt lokar sig inni í víggirtum hverfum, lifandi í stöðugum ótta við hina fátæku íbúa sem óðum vopna sig til hefndar og ráns.

Kostnaðurinn vegna heimsfaraldursins er staðreynd og það stefnir í heimskreppu nema fólk og samfélög nái að snúa bökum saman til að vinna sig út úr vandanum.

Yfir öllu vofa fjárúlfar sem sjá þarna tækifæri aldarinnar til að fá eigur almennings (heimili, fyrirtæki) fyrir slikk og skilja samfélagssjóði eftir stórskulduga svo hægt sé að einkavæða almannaþjónustu og ná þannig samfélagsgerðinni aftur til þeirra gósentíma þar sem fátækt fólk át það sem úti fraus.  Eitthvað sem þeir virðast hafa unnið markvisst af frá því að þeir fjármögnuðu útbreiðslu hagtrúarinnar eða hagblekkingarinnar sem kennd er við frjálshyggju en er þess eðlis að hún staðfestir tilvist andskotans.

Þeir hafa mörg vopn í geymslum sínum, útgerð á vanhæfum stjórnmálamönnum líkt og við upplifum hér á Íslandi sem börn og bjálfa, sundrungu sem elur á egóisma og hér á Íslandi sjálft vélvirki andskotans, verðtryggingu sem mælir eðlilegar verðbreytingar sem verðbólgu, og sýgur sjálfkrafa vasa almennings yfir í hirslur auðsins.

Sundrungarraddir þeirra ala á fordómunum um ferðaþjónustu, benda í sífellu á stóru hótelin og skulduga fjárfesta, og er svo ekki allir búnir að fá nóg af ferðamönnum!!!!!!.

Staðreyndin er sú að hinir stóru skipta um kennitölu og fá sínar stóru hótel aftur á slikk, en lausir við skuldir sem falla úti um allt í samfélaginu með tilheyrandi dómínóáhrifum á venjulegt fólk.  Staðreyndin er sú að flest fyrirtækin í ferðaiðnaðinum er trilluútgerð einstaklingsins sem reif hann úr viðjum kaupmanna eða stórbænda, þetta eru fyrirtækin sem verða gerð upp og ævisparnaður fólks tekinn af því eða það fær að lifa sem uppvakningar, síþrælandi fyrir skuldum sem urðu ekki til vegna þeirra gjörða, heldur fordæmalausra aðstæðna sem kenndar eru við hamfarir

Og staðreyndin er sú ferðaiðnaðurinn er þriðja meginstoð velferðar okkar og lífskjara, það er hún sem tryggir að fátækt fólk lifir þó mannsæmandi lífi og velferðarkerfið getur ýmislegt sem það gat ekki áður líkt og öll þessi frábæru hjúkrunarheimili eru vitnisburður um eða sambýli fatlaðra sem eru bylting frá því sem var.

Auðvita er hægt að gefa á annan hátt, að skipuleggja samfélagið öðruvísi, en þú byrjar fyrst að gefa uppá nýtt, eða útfæra nýtt skipulag útfrá hagsmunum fólks en ekki fjáryfirstéttar, en lætur ekki það sem þú átt og hefur fara í rúst því þú ert ósáttur við núverandi fyrirkomulag.

Sjálfsþurftarbúskapur mun efalaust duga mörgum en það munu ofboðslega margir farast í slíkri framtíð, og til hvers??

Vegna þess að við getum ekki snúið bökum saman og varist árásum fjárúlfanna, að við þurfum enn einu sinni að fórna fólki svo auður geti fitnað.

Það hefur ekkert gerst í dag sem er ekki viðráðanlegt.  Tekjutapið er jú staðreynd, en forsendur góðrar framtíðar eru allar til staðar.

Spurningin er Magnús hvort við verndum þær, eða látum tæki auðsins líkt og verðtrygginguna eða neitun á að virkja neyðarréttinn sem skapast við fordæmalausar aðstæður til að mynda greiðsluskjól fyrir fólk og fyrirtæki, rústa þessum forsendum og skilja almenning eftir í svaðinu.

Málið er að þeir komust upp með þetta síðast vegna þess að þeir náðu að deila og drottna með því að gera út á sundurlyndismóra, með því að kaupa upp vinstri hluta stjórnmálanna, og með happdrættisvinningnum stóra, makríl og ferðamönnum.

Í dag er enginn slíkur happdrættisvinningur í sjónmáli svo það er hættuspil fyrir auðinn að fara þessa leið, hætt við að hún endi í útrýmingu hans líkt og sagan segir þegar menn þekkja ekki sinn vitjunartíma á Ögurstundu.  Þetta veit skynsami hluti hans og leggur því við eyra þegar sannleikurinn er sagður og skynsemi boðuð.

Almenningur mun líka hlusta, því það eru ekki bara lífskjörin sem eru í húfi, heldur sjálf framtíðin, velferð barna okkar og barnabarna, sem og umhirða og umhyggja foreldra okkar, afa og amma.

Á móti kemur Tregðan og afleiðingarnar af hinni andlegu drepsótt sem hefur náð að grafa um sig í vestrænum samfélögum og við kennum við frjálshyggju og auðræði.

Að bjarga þjóðfélaginu, að hindra framtíð hinna rjúkandi rústa, snýst ekki um að skattleggja því það er ekkert til að skattleggja.  Heldur snýst þetta um að skilja að peningar eru ekki verðmæti í sjálfu sér, heldur ávísun á verðmæti, og þegar gat myndast í eftirspurn, þá er hægt að nýta þá til að fylla uppí það gat.  Það eru seðlabankar sem fjármagna björgunaraðgerðir og það er ekki gert með því að skuldsetja framtíðina, enda er það ekki hægt. 

Við höfum það til skiptanna sem er framleitt í dag en ekki það sem er framleitt í framtíðinni.  Málið er að hlúa að því, að auka verðmætin og sjá til þess að heimili  og fyrirtæki sé í skjóli á meðan hamfarirnar ganga yfir og í stakk búin að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist þegar þeim slotar og í stað þeirra miða sem hafa horfið þá séu ný fundin.

Þessa gæfu náðu menn að fanga á kreppuárunum, þegar ekkert veiddist (ördeyða á miðunum hérna fyrir austan) og ekkert seldist af því sem veiddist, þá voru víxlar framlengdir en skip og áhafnir ekki settar í þrot, og þess vegna var allt til staðar þegar seinna stríðið opnaði gjöfula ferskfiskmarkaði í Englandi.  Menn hlustuðu nefnilega ekki á vinnumenn andskotans sem vildu gera allt upp og koma framleiðslutækjum á örfáar hendur auðsins, þess vegna erum við sjálfstæð þjóð í dag, og sjálfstætt fólk þannig séð, þó við séum í sífelldu stríði við auðsöfnun hinna Örfáu.

Við hringekju gjaldþrota gerist fátt annað en rafeindir eru færðar á milli bókhaldslykla, gjaldþrot búa ekki til verðmæti, en þau færa eignir á milli. 

Í greiðsluskjóli eru rafeindir líka færðar á milli bókhaldslykla, nema að annar lykillinn endar í Seðlabankanum en eignirnar eru ennþá hjá einstaklingnum og fyrirtækjum hans.  Eignir fara ekki á milli fjárúlfar græða ekki, fólk heldur sparnaði sínum og er tilbúið að takast á við hinn nýja veruleika eftir heimsfaraldurinn.

Í staðinn fyrir vargöld hinna rjúkandi rústa, þá erum við með blómlegt samfélag þar sem tækifærin sem vaxa á hverju strái eru gripin, gróðursett í akur tækifæranna og uppskorin sem atvinna, sem lífskjör, sem velmegun, sem velferð.

Þetta er ekki val Magnús, nema hugsanlega fyrir þá sem dýpst eru sokknir í dauðametal og telja leið þjáninga og hörmunga vera ekki bara sína leið, heldur allra.

En það  þarf að útskýra þetta samhengi fyrir fólki.

Leiðtoginn þekkist á þeirri útskýringu.

Á meðan reyna bjánarnir sitt besta og margt gott hefur verið gert.

En það dugar bara ekki, ef skip er að sökkva vegna leka, þá dugar ekki að þétta suma leka, eða velja úr þá auðveldustu, það þarf að þétta þá sem eru að sökkva því, og koma því í höfn, síðan er allt skipið þétt áður en aftur er haldið á sjó.

Sannleikurinn er sagna bestur, og á Ögurstundu er sjálft lífið undir að hann sé sagður.

Og hver kýs ekki lífið?

Kveðja úr neðra, að austan.

Ómar Geirsson, 23.4.2020 kl. 12:04

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir kjarnyrt og efnismikið svar Ómar. Svo ég svari þér tæpitungulaust þá skal varst að snúa andskotanum upp á ömmu sína með orðagjálfri um sögusagnir frá langtíburtukistan. 

Varðandi ferðaþjónustuna þá er fáum betur ljóst en mér að það var hún sem bjargaði okkur upp úr síðasta hruni og hef ég aldrei farið með það í grafgötur.

Almennar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa fyrst og fremst falist í því, ferðaþjónustunni til handa, að fella niður gistináttagjald og fresta annarri skattlagningu, af því sem ekkert er, það þarfa engar langlokur til að skýra þá stöðu.

Varðandi sjálfsþurftarbúskapinn þá eru engin áform sjáanleg um sjálfbærni í matvælaframleiðslu, af hendi sjálftökuliðs ríkisins, fyrir þjóð þessa lands. Þú verður að skilja hvað sjálfsþurftarbúskapur þýðir áður en þú kastar steini.

Eins og þú hefur skilmerkilega bent á í fyrri pistlum þá er verið að flytja inn sýklalyfjað kjöt til landsins, að óþörfu í óþökk þjóðarinnar. Á þessum tíma kóvítisins hefur ekki komið eitt orð frá ríkisstjórninni sem ætla mætti að snúið verði af þeirri braut, ekki einu sinni til að byggja upp atvinnus á tímum sem 50.000 manns þiggja atvinnuleysisbætur.

Ég þarf ekkert eð segja þér um orkupakkana þú þekkir þá betur en ég, en dettur þér í hug að náhirðin og helferðarhyskið dragi þar í land vegna minnkandi tekna af orkusölu innanlands? Þegar talað er um lífróður þá er ágætt að hafa stefnuna á hreinu.

Þeir sem sífellt slá í og úr varðandi óhæf yfirvöld róa í hringi og ná aldrei landi, ekki einu sinni fyrir börnin sín.

Með sumarkveðju að ofan.

Magnús Sigurðsson, 23.4.2020 kl. 14:17

6 identicon

Hér þurfa bestu synir og dætur okkar lands að bera gæfu til að koma saman og mynda heilstæða framtíðarsýn, allri þjóðinni og hverjum og einum  til hagsbóta.  Það er engri þjóð verra en afskilja einstaklinga og hópa sem utangarðsfólk.

Leiðtoga eigum við enga í sjónmáli, en við eigum nóg af góðum sonum og dætrum sem  virkja þarf til samstöðu um framtíðarsýn og uppbyggingu heilbrigðara atvinnulífs og sanngjarnara hlutskiptis hvers og eins.  Þannig þarf að tryggja friðinn og það til öllum þolanlegra sátta.  Nægar eru auðlindir okkar, landið er fagurt og frítt ... hér ætti öllum að geta liðið vel og lifað glaðir við sitt.  Svo er ekki, því þarf að breyta til hins betra.  Von mín og trú er að svo verði, þjóðin mun vakna, vorið er komið.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 23.4.2020 kl. 14:35

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Það væri nú meira helvítið að hér sé ekki töluð tæpitungan þegar alvaran, sjálf Ögurstundin, er til umræðu, þetta er ekkert kerlingarblogg.

Svo ég leiðrétti það strax, þá misskildi ég þig ekki viljandi þegar þú talaðir um sjálfsþurftarbúskap, hvernig á að túlka þessi orð á annan veg en að þau snúi að viðbrögðum einstaklingsins??

"Varðandi sannleikann; þá er hann frómt frá sagt sá að hver er sér næstur og lítið annað sjálfsþurftarbúskapur í kortunum.

Það er lítil von til þess að maðurinn á gólfinu muni flykkja sér um að róa lífróður ímyndaðri þjóðarskútu til handa.".

Í pistli sem fjallaði um sannleikann og þau viðbrögð sem leiðtogar þjóðarinnar þurfa að grípa til, þá held ég að skoðun þín sé afdráttarlaus um að hver sé sjálfur sér næstur og borin von um að fólk leggist á eitt til að forðast háskann sem blasir við á bakborða sem og stjórnborða en ef ég hefði skilið þig þannig að þú væri að tala um að við sem þjóð þyrftum að vera sjálfum okkur nóg, þá hefði ég hins vegar misskilið þig viljandi.

Því allt þjónar sínum tilgangi og athugasemd þín var mér kærkomið tækifæri til að fylla uppí þá beinagrind sem pistillinn er, og varð óumflýjanlega að vera því ég vildi koma mörgu að en á sama tíma að passa uppá að rökstuðningurinn kæfði ekki innihaldið í lengdinni.  Og ég er ekki klárari en það að það er meira en að segja það að æla svona út úr mér þegar ég tel innihaldið eiga erindi í umræðuna þó ég geri mér grein fyrir að það er ekki mikil eftirspurn eftir svona pistlum.  En þurfa að skrifast engu að síður.

Tækifærið sem þú gafst mér var betra en ekkert og að sjálfsögðu nýtti ég það og ég tel að pistillin ásamt athugasemdum sé sterkur og þarft innlegg inn í það sem þarf að ræðast næstu daga, þó ég efi að hann komist allaleið í Mímisbrunninn.

Nú þó það sé langt uppí Hérað og maður ætli sér tæpan klukkutíma til að komast þangað þá finnst mér full mikið í það lagt að tala um langtíburtukistan, hvað þá að menn sæki þangað orðagjálfur um sögusagnir, allavega ekki eftir að þeir hættu að bjóða þyrstum fjarðabúum uppá kaffi í Húsasmiðjunni, eins og einhver smithætta sé af okkur, það þrífst engin veira til lengdar í næðunni þó eitt og eitt kvikyndi hafi skotið rótum hjá ykkur í efra.

Það er gott Magnús að þú gerir þér grein fyrir gildi ferðaþjónustunnar og það er hárrétt að ríkisstjórnin er með sýndina eina í aðgerðum hvað hana varðar.  Það er rétt að ríkisstjórnin er með lítil áform varðandi sjálfbærni matvælaframleiðslunnar, eitthvað yfirklór sem ég nenni ekki að hafa eftir, til að mæta kröfum þar um, kjarninn að afleggja reglugerðina um innflutning á sýklum og afturkalla raforkuhækkanir orkupakkana eru ekki inní myndinni, ekki frekar en taka gjöreyðingarvopnið sem kennt er við verðtryggingu úr sambandi.

Það er jú þess vegna sem við þurfum leiðtoga, ekki börn og bjána.

Hins vegar veit ég ekki um hvað náhyskið ætlar sér, ég var ekki að senda út ákall um áframhaldandi stjórn þess.

Hvernig þú getur lesið það úr orðum mínum, er mér alveg hulin ráðgáta.

Hvarflar jafnvel að mér að þú hafir misskilið mig viljandi til að hnykkja á þessum punkti þínum.

Og hann er aldrei of oft hnykktur.

Með friðarkveðjum uppí efra, að neðan, að austan.

Ómar Geirsson, 23.4.2020 kl. 18:17

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Segðu Símon.

Maður hefði barist til þrautar með Liljum Vallarins.

En auðvitað er það orðagjálfur að leiðtogar rísi upp á Ögurstundu og þess vegna er ástandið eins og það er, og verður eins og það verður.

Það þarf samt að senda þessa beiðni inn til íhugunar hjá almættinu, er faktískt skylda manns þegar maður hefur gefið sér tíma til að orða alls konar vitleysu af alls konar tilefni.

Maður sefur betur á eftir.

Þannig séð er maður sjálfum sér næstur.

En þetta fer einhvern veginn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.4.2020 kl. 18:22

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar svo um frekari misskilning sé ekki að ræða þá kemstu tæplega lengra "Down Under" en til Ástralíu við að líkja viðmælenda þínum við teboðskellingu, hefur ekkert með Litlu Moskvu að gera.

Það má hver sem er hringla "lífróður" um "glóbalinn" undir orðagjálfri náhirðarinnar og helferðarhyskisins fyrir mér, ég mun ekki leggjast á þær árar. 

Með kveðju úr efra.

Ps. Ég á alltaf kaffi á könnunni fyrir góða nágranna mína í neðra, láttu kóvíts Húsasmiðjuna ekki eyðileggja fyrir þér góðan túr upp í Hérað.

Magnús Sigurðsson, 23.4.2020 kl. 19:07

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Ja, mér skilst að það sé allt á hvolfi þarna Down under, spurning hvort þaðan sé ekki ættaður sá misskilningur að líkja fagni mínu um að hér sé talað tæpitungulaust við samlíkingu við teboðskellingu.

En jafnvel allt á hvolfi, jafnvel hjá Dodda í Undralandi, er ekki samhengi milli þess sem ég er að skrifa og segja, og þessarar yfirlýsingar þinnar; "Það má hver sem er hringla "lífróður" um "glóbalinn" undir orðagjálfri náhirðarinnar og helferðarhyskisins fyrir mér, ég mun ekki leggjast á þær árar.".

Hins vegar þætti mér miður að fólk bjargaði ekki samfélagi sínu, náunga og sjálfu sér, vegna þess að því geðjast ekki að róðrarfélaga sínum, ég held að jafnvel sanntrúaðir úr Betel hafi þegið far með mönnum eins og Gaua Valdasyni þegar þurfti að koma fólki í skjól frá hraunelginum.

En höfum það á hreinu Magnús að ef fólk skynjar ekki sinn vitjunartíma og rær þennan lífróður á þeim forsendum sem ég taldi upp í pistli mínum, þá sitjum við upp með strengjabrúður náhirðarinnar sem hafa þegar sýnt á spil sín.  Verðtryggingin geirnegld, frítt spil fjárúlfa, innheimtuhringekjan trekt upp.  Vissulega munu einhverjar kennitölur falla, en ef það er eitthvað fleira í tölu talið en vötnin í Finnlandi þá er það kennitölur á lager auðmanna, hins vegar munu tugþúsundir falla, bæði þeir sem fjárfestu í góðri trú líkt og fullt af fólki sem ég þekki til, sem og hinir sem falla þegar spírall vanskila breiðist út um þjóðfélagið.

Mér hugnast ekki sú sýn.

Kveðja úr neðra, að austan.

PS. Kaffið í Húsasmiðjan hófst alltaf á þessum orðum; "þarftu ekki að skreppa í Húsasmiðjuna elskan?". og ef svarið var jákvætt, þá var bætt við; "taktu þér bara góðan tíma". Og þá bar það svo við að maður rakst stundum á Héra eða hlustaði á tal þeirra.  Tek það fram að ég hef oftar en einu sinni þakkað þeim herramönnum fyrir sitt góða kaffi, þeir kunna að hella uppá.

Hins vegar held ég að eiginkonan sé ekki tilbúinn að skreppa í kaffispjall til annarra en bróður síns sem er reyndar nýfluttur til ykkar í efra, og er ennþá freðinn þó eitthvað sé farið að grilla í sólina, svilkona mín hins vegar kippir sér ekkert upp við frostið og er mjög ánægð að vera komin nær barnabörnum sínum.

Ómar Geirsson, 23.4.2020 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 369
  • Sl. sólarhring: 709
  • Sl. viku: 5653
  • Frá upphafi: 1327199

Annað

  • Innlit í dag: 333
  • Innlit sl. viku: 5018
  • Gestir í dag: 310
  • IP-tölur í dag: 304

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband