Þrælahaldarar njóta vafans.

 

Hjá Héraðsdómi Reykjavíkur á því herrans ári 2019.

Og ef það hvarflar að einhverjum að Héraðsdómur sé einn og einangraður í afstöðu sinni, þá er það algjörlega rangt.

 

Strax upp í hugann kemur dæmið um þrælaskipið Zong sem lenti í smá basli með farminn, vatnsbirgðir voru ekki nægar, eða eitthvað, og því tók skipstjórinn þá ákvörðun að henda fyrir borð hluta af farminum.

Útgerðin krafði svo tryggingarfélagið sitt um bætur fyrir skaðann, og það var ekki glatt að borga, taldi að áhöfnin hefði valdið hinum meinta skaða, og því ætti útgerðin að sitja uppi með tjónið.

Kíkti á þetta mál núna á Wikipediu, og sá að vafinn snérist um að það rigndi fljótlega eftir fyrsta brottkastið, og því var ekki hægt að réttlæta það seinna, og já, tvisvar var ákveðið að fækka í lestum skipsins, enda eins og kviðdómur benti réttilega á, þá er enginn munur að henda þrælum fyrir borð eða hestum.

 

Ótrúlegt að Héraðsdómur skyldi ekki sækja rökin í þetta mál.

Þá hefði allt verið kristaltært, vafinn er alltaf þeirra sem halda þræla.

Og í raun er hann sterkari í dag því hið frjálsa flæða góða fólksins í ESB gerir ráð fyrir nútíma þrælahaldi, ef lélegasti launataxtinn þykir fullgóður, þá má alltaf ráða þrælana, fyrirgefið vinnuaflið, á forsendum þjónustutilskipanarinnar, en hún þekkir engin neðri mörk á kjörum.

 

Þess vegna skilur maður ekki að Héraðsdómur sé að fara í eitthvað þras um sönnunarbyrði, eða annað sem má hártoga.

Eins og nútímaþrælahald sé eitthvað öðruvísi en það gamla.

 

Nei, ASÍ á bara að skammast sín að vera tuða eitthvað svona.

Það veit að það bara sóun á fjármunum hreyfingarinnarm, það er alltaf tapað mál að segja sannleikann.

Ef sannleikurinn snertir hið frjálsa flæði, skipulagða glæpastarfsemi eins og eiturlyfjasölu eða handrukkun.

Að ekki sé minnst á hegðun hvítflibbagangstera.

 

Þannig er bara kerfið sem hið skítuga fjármagn keypti upp á níunda og tíunda áratugnum.

Ef gróði er af glæpum, þá fellur allur vafi með þeim sem græða.

Ef almenningu brýtur, þá er eins gott að hann hafi efni á dýrum lögfræðingi, annars er hann fyrirfram með tapað mál.

 

Er einhver það gamall að muna eftir því að einhver hafi verið dæmdur fyrir innflutning á eiturlyfjum, annar en burðadýr??

Jú, kannski einn og einn utangarðs sem reyndi að koma sér nýr inná markað, og löggan fékk ábendinu, örugglega samt ekki frá þeim sem áttu markaðinn, heldur frá spámiðli eða beint frá kristalkúlu, en svona alvöru gangster, að ekki sé minnst á þá hönd sem fjármagnar innflutninginn??

Og má núna ekki drepa fólk fyrir allra augum, bara ef þú passar þig á að vera yfirhandrukkari, og lætur handlangara játa á sig síðasta höggið?

Og er ekki reglulegar verið að hafa síðustu krónuna af blaðamönnum í allskonar meiðyrðamálum, vegna þess að þeir sögðu satt, en voru ekki innan undir hjá bandarískri lögmannsstofu sem gat varið þá.

 

Raunveruleikinn er ekki leyndó, hann er fyrir opnum tjöldum.

Og mikið mega þau hjá ASÍ vera navý ef þau sjá hann ekki.

 

Vafinn er aldrei þeirra sem berjast fyrir betri heimi gegn sígráðugu fjármagni sem nýtur sér leikreglur hins frjálsa flæðis.

Kerfið er hannað til að mergsjúga okkur.

Það er hannað til að brjóta niður kaup og kjör, það er hannað til að þjappa saman eignarhaldi og framleiðslu, og að eftir því stærri sem þú ert, þá fjölgar leiðunum til að koma tekjum og eignum í skjól.

Að ekki sé minnst á glóbalið, þar sem framleiðsla vestrænna ríkja er markvisst útvist í þrælabúðir fátækustu landanna.

 

Svona er þetta bara.

Svona er evrópska regluverkið.

Svona er raunveruleikinn þar sem fjölmiðlar, stjórnmálamenn og réttarkerfið er í vasa hins skítuga fjármagns.

Og ekkert fær því breytt á meðan þeir sem þykjast vera á móti, bjóða uppá lausnir sem eru úr ranni hugmyndafræði hins skítuga fjármagns, eða eru á launalista þess.

 

Forseti ASÍ sagðist ætla að berjast áfram gegn þrælahaldi.

Ég veit ekki til þess að hún hafi lagt til að EES samningnum verði sagt upp.

 

Sem segir aðeins eitt.

Hún er í valdabaráttu, að komast ofar í valdapíramídanum.

Í raun er henni sama.

 

Spyrjið bara þá sem hrægammarnir sendu á vergang.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Ummæli starfsmanns ASÍ um Menn í vinnu dæmd dauð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar hvíti maðurinn leikur guð.

 

Hefur ekki allt alltaf farið vel.

 

Horfum bara yfir nútímann, hvert tæknin hefur leitt okkur.

Það er samkeppni í dag um hvort loftslagið, drápsvopnin, útrýming skordýra, manngerðar ofurveirur, eða tilgangsleysi mannsandans eftir að við veltum guði úr sessi, og sögðum, við þurfum engan guð, við erum guðir, gangi fyrst af mannkyninu dauðu.

 

Allt þetta á sínar skýringar, líklegast sú stærsta að við áttuðum ekki okkur á að þegar okkur var sagt að hrokinn væri dauðasynd, að þá þýðir það að hann er dauðasynd.

Sem og guðleysið sem er líklegast sú stærsta.

 

En birtingarmynd hroka okkar er margskonar, og þá er ég ekki að vísa í hvernig við drápum guð, hjarðir vísundana í Norður Ameríku, eða menningu frumbyggja yfir höfuð í Ameríku, jafnt þeirri í suðri, norðri eða miðri.

Eða hvernig við voguðum okkur að láta hið skítuga fjármagn kaupa upp idolin okkar í fótboltanum, eða við létum mútur miðaldafólks kaupa HM 2022, keppni sem er þegar mörkuð í blóði tuga fátækra farandverkamanna að ekki sé minnst á hið nútímaþrælahald sem býr að baki hinum glæsilegu mannvirkjum í Katar.

Eða hvernig við látum illmenni í skjóli peninga hins svarta fjármagns flytja árlega inn tugþúsundir, eða jafnvel tali í hundruð, fátækra kvenna til velmegunarríkja okkar og þræla þar til að svala fýsum okkar.

 

Og ekki er ég að tala um keypta byssumorðingja sem drápu jafnt karla, konur og börn í Tasmaníu þar til enginn af ætt frumbyggja var eftir.

Eða þann hroka að skilja börn frá foreldrum sínum á Grænlandi svo þau gætu lært góða siði hins stórmerkilega fyrirmyndarfólks, Dana.

Sami hroki og fjarlægði þúsundir frumbyggjabarna frá fjölskyldum sínum í Ástralíu og skar á öll menningartengsl, sem fjölskyldutengsl svo þau gætu lært hætti hvíta mannsins.

Eða að í velmegunarborginni Osló skuli vera flestir heróínneytendur í Evrópu miðaði við höfðatölu.

Að þunglyndi, depurð og ótti sé að verða fararnesti fleiri en færri barna okkar í dag.

 

Hvað getum við kennt hinum svokölluðum frumstæðum þjóðum eða hvaða rétt höfum við að fordæma menningu þeirra og hefðir??

Höfum við sjálf gengið það vel götuna til góðs að við sé til þess bær að setja niður við annað fólk, aðra menningu, sem er ekki eins og við??

 

Við þekkjum sögu nýlendutímans í Afríku.

Þar var ekki verst arðránið, eða hvernig innlend samfélög voru markvisst brotin niður og reist upp aftur sem uppspretta gæða eins og málma eða hráefna frá Móður jörð.

Hvernig landamæri skáru sundur þjóðir, eða allt sem fyrir var var annað hvort eytt, eða aðlagað að arðráninu, eins og samgöngukerfið var aðeins byggt upp til að flytja hráefni frá innlandi til sjávar, og þar skipað út fyrir lítinn auri, en selt með miklum hagnaði á mörkuðum heimshagkerfisins.

 

Verst var hrokinn og yfirdrepsskapurinn, hvernig við þóttumst vera betri.

Þóttumst vera æðri.

 

Frumstæðast af öllu þótti okkur nektin eða hálfnektin, af hverju klæddist þetta fólk ekki fötum, buxum, skyrtu og jakka, eða kjólum og undirfötum, í hitanum og rakanum, líkt og siðað fólk hafði þróað með sér í kaldara loftslagi.

Í Namibíu útrýmdu Þjóðverjar næstum því Herúlfum, sem þeir kölluðu Hottintotta eða Búskmenn, skutu þá af færi eða lögðu þá sem eftir lifðu í bönd og þrælkun, sökin var nekt þeirra og meint frumstæð hegðun. 

Samt hefði þýskur maður ekki lifað vikuna af upp á eigin spýtur í eyðimörkinni, en þetta fólk hafði lifað þar á annað þúsund ár, eða frá því að Banton ættflokkar úr norðri hröktu þá af löndum sínum út í eyðimörkina.

 

Hvar sem fæti var stungið niður í Afríku, trú og siðir, menning og mannlíf, allt lét undan hroka okkar og yfirgangi.

Við höfðum réttinn, við voru ekki aðeins betri, við vorum æðri.

Svo æðri að við töldum okkur geta leikið guð.

 

Eitthvað vatn hefur runnið til sjávar síðan.

Og fréttir hafa borist af því að gömlu nýlenduveldin sjái eftir sumu, og jafnvel iðrist annars.

Jafnvel Belgar eru farnir að viðurkenna að hluti af velmegun þeirra í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. eigi rætur að rekja í viðurstyggð ómennskunnar, vegur arðránsins var lagður af þrælkun, limlestingum og drápum.

 

Og þá sagði einhver á Íslandi.

Shit maður, nú fer hver að verða síðastur að leika guð.

 

Og guð var leikinn.

Hrokinn það mikill að það var viðurkennt.

 

Kristinn Hrafnsson sagði í fréttaviðtali að Rúv og Wikileki hefðu ekki getað beðið eftir vandaðri umfjöllun Al Jazeera því það þyrfti að upplýsa um meinar mútugreiðslur Samherja fyrir kosningarnar sem núna hafa farið fram.

Eins og hann eða Helgi Seljan, eða allir hinir litlu guðirnir væru þess megnugir að ákveða hverjir ættu að stýra Namibíu næstu árin.

Í hverra þágu var það, og hver segir að þeir sem græddu á því væru eitthvað betri en þeir sem átti að hrekja frá völdum?

Ef saga Afríku þekkir eina staðreynd öðrum álfum betur, þá er það sú sorg að sá sem hefur það eina sér til ágætis að gagnrýna spillingu, hefur þó þann hæfileika að vera ennþá spilltari en sá sem fyrir var.

 

Hvernig fólk í eyju norður við ballarhaf, þar sem almenningur hefur marga fjöruna sopið, sá eftir stjórnmálastétt sinni í svarthol gjörspillingarinnar, getur talið sig uppkomið að ráðskast með líf og örlög fólks í öðru landi, fjarlægu landi, er illskiljanlegt, jafnvel óskiljanlegt.

Er þetta rasismi í bland við hroka sem fær það að réttlæta hegðun sína og inngrip.

Eru þau sæl í sínu sinni eins og trúboðarnir forðum sem sögðu sögur að frumstæðu fólki sem þyrfti að kristna og siða.

Eða er þeim nákvæmlega sama.

Bara það að geta leikið guð sé alveg nóg.

 

Ég veit það ekki.

En ef ég hefði verið spurður fyrir ekki þó nokkrum árum síðan hvort ég teldi góða fólkið á Íslandi vera upphafna rasista, að það myndi í hroka sínum taka upp beina samkeppni við Seif og Óðinn, þá hefði ég svarað eins og er.

Að ég gæti ekki ímyndað mér það.

Vissulega vann það með bresku fjárkúgurunum í ICEsave stríðinu, og vissulega gekk margt af því í þjónustu hrægammanna sem höfðu keypt sér veiðileyfi á íslenskan almenning.

 

En á öllu er mörk, jafnvel takmörk.

Og að leika guð í fjarlægum löndum, þó fátæk séu og fólk með annan húðlit en við, það var eitthvað sem heilbrigð skynsemi sagði mér að ég gæti aldrei logið upp á þetta vel meinandi góða fólk.

Ekki bara vegna þess að ég tryði ekki slíku athæfi uppá það, því slíkt athæfi væri í dag eitthvað sem sagan geymdi og myndi, líkt og ég rakti lauslega hér að ofan, heldur líka hreinlega vegna þess, að ég hefði ekki hugmyndaflug til að ímynda mér slíkt.

Þó víðáttur þess séu miklar og dreifi jafnvel úr sér þannig að reyni á óendanleikann, þá er slíkt handan við hann.

Því þannig er ekki Ísland í dag, þannig erum við ekki á 21. öldinni.

 

Eða það hefði ég haldið.

En hef mér það til afsökunar á lítt spámannshæfileikum mínum, að ég var aldrei spurður þessarar spurningar.

Það hafði bara enginn hugmyndaflug til þess.

Og ég þori að veðja síðustu jólabjórsflöskunni minni um að slík spurning var aldrei spurð.

 

Og er heldur ekki spurð í dag.

Því það er ekki spurt um það sem þegar hefur verið svarað.

 

Guð er kannski dauður.

En það eru guðir meðal vor.

 

Ég myndi ekki tilbiðja þá.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Kvarta undan kosningasvindli í Namibíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftaka í boði skattgreiðanda??

 

Þegar fjölmiðill heldur sig ekki við staðreyndir, eða setur hlutina upp á mjög villandi hátt, þá er ljóst að markmiðið er að skaða þann aðila sem fjallað er um.

Fjölmiðillin er þá orðinn áróðurstæki í þágu einhverra hagsmuna, hvort sem þeir eru duldir eða blasa við út frá eignarhaldi fjölmiðilsins.

Nú vill svo til að almenningur á ríkisútvarpið og vandséð hvernig það er í þágu almennings að taka stærsta sjávarútvegsfyrirtæki þjóðarinnar af lífi.

 

Hugsanlega getur það verið í þágu þeirra sem vilja fá íslenskan fisk lítt unnin eða óunnin í vinnslu sína erlendis, sbr. að Samherji er að byggja fullkomnasta vinnsluhús í heimi en það eru ekki hagsmunir almennings.

Eins gæti það hentað öflum sem vilja koma þjóðinni í Evrópusambandið að veikja forsendur sjálfstæðis hennar og miðað við árásarnir á sjávarútveginn strax eftir fyrstu fréttir um meintar mútugreiðslur Samherja, þá er það svo sem ekki ólíkleg tilgáta.

 

Allavega eitthvað er það.

Helgi skaut sig í fótinn þegar hann vísaði í grein í namibísku dagblaði  sem átti að sanna að um þúsund störf áttu að hafa glatast í Namibíu í kjölfar kvótaviðskipta Samherja, Samherji var þar ekkert til umfjöllunar, svo eftir stendur að annað hvort laug Helgi eða hann veit ekki betur.  Að hann skilur ekki það sem hann er að fjalla um.

Samherji er núna að tæta í sig restina af yfirlýsingu Rakelar fréttastjóra frá því í gær.

Ef Rakel á ekki þeim mun sterkari svör, þá er ljóst að hún er bara fúskari líka.  Sem er fallegt íslenskt orð yfir vanhæfni.

Kannski er skýringin ekki flóknari en það að þetta fólk hjá Ruv er ekki starfi sínu vaxið.

 

Nú eða að það sé að vinna fyrir einhvern í aukavinnu.

Svona líkt og það var að gera í orkupakkaumræðunni, það býr eitthvað að baki þegar ríkisfjölmiðill lætur stjórnvöld og raunar næstum stjórnamálastéttina eins og leggur sig, komast upp með vísvitandi blekkingar og lygar í máli sem bæði braut stjórnarskrána, og það ákvæði hegningarlaga sem bannar að erlendu valdi sé afhent sameiginlegu gæði landsmanna.

Þar sást beint í andlit hins skítuga fjármagns sem keypti upp Fréttablaðið til að tryggja rangan fréttaflutning og einelti gagnvart þeim aðilum sem reyndu að halda fram hlut þjóðarinnar í öllu því sorgarmáli.

 

Kannski er þetta skítuga fjármagn líka á sveimi uppí Efstaleiti.

Það er aur í kvótanum alveg eins og það er aur í orkunni.

 

Allavega blikka rauð aðvörunarljós.

Ruv þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum.

 

Og eitthvað innanhús líka.

Kveðja að austan.


mbl.is Samherji sakar Rúv. um áróður gegn sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og ríkisútvarpið geltir á móti.

 

Rök takast á og ekkert nema gott um það að segja.

Þau skera úr um hvað rétt er eða rangt í þessum deilum um Cape fyrirtækið.

 

En ég hjó eftir ósvari Rakelar fréttastjóra gagnvart varnarræðu Samherja þar sem fyrirtækið sver af sér að þúsund störf hafi tapast vegna starfsemi Samherja í Namibíu.

Helgi vitnaði í grein sem sagði ekki neitt, og núna kýs Rakel að svara á þann hátt að endurtaka fullyrðingar, sem hafa verið vefengdar.

",,Upp­spuni í Rík­is­út­varp­inu“ skal það áréttað að um­mæli Helga Selj­an frétta­manns Kveiks um störf sem hafi tap­ast í Wal­vis Bay í Namib­íu eru bein til­vitn­un í þátt Kveiks um Sam­herja­málið þann 12.nóv­em­ber sl. Í þætt­in­um er að finna frá­sögn Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar fyrr­ver­andi starfs­manns Sam­herja um þau þúsund störf sem hafi tap­ast og aðrar heim­ild­ir Kveiks styðja þá frá­sögn. Þar á meðal skrif namib­ískra fjöl­miðla.".

 

Mikið hefði ég viljað að þessi aðferðafræði hefði dugað á stærðfræðiprófinu í gamla daga, að maður hefði getað sagt við Bjössa Magg, að dæmið sem hann gaf rangt fyrir, væri rétt, ég hefði reiknað það aftur og aftur komist að sömu niðurstöðu.

 

Fullyrðingar verða ekki réttar þó Jóhannes hafi sagt þær í viðtali, jafnvel þó hann væri skírari í hjáverkum.

Og það þarf að upplýsa um þessar aðrar heimildir til að styðja við frásögn hans.

Sbr. þó Trump sé ágætur og kunni að tísta, meira en ég kann, þá verða meintar staðleysur hans, sem eru víst algengari en að hann fari rétt með, ekki réttar þó hann tísti þeim aftur og aftur, sem andsvar við að þær séu staðleysur.

 

Ef vitið er ekki meira en þetta, þá setur maður efasemdir við hitt.

Og það er ekki árásir á fréttamann þegar bent er á að hann fari rangt með.

 

Trump sér alveg um þá hlið.

Að upplifa sig fórnarlamb þegar hann er leiðréttur.

 

Enda stjórnmálamaður en ekki fréttamiðill.

Hvað þá ríkisfjölmiðill.

 

Staðan er ennþá eitt núll fyrir Samherja.

Kveðja að austan.


mbl.is Fráleitar ásakanir Samherja um ósannindi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samherji bítur frá sér.

 

Leiðréttir rangfærslur og staðleysur.

 

Helgi Seljan afhjúpaði sig í gær sem bullukoll þegar hann svaraði efnislegri gagnrýni Samherja með því að vísa í blaðagrein sem fjallaði um margt í namibískum sjávarútvegi, en ekkert sem við kom rangfærslum Helga.

Fréttastofa Rúv er núna á bláþræði, ef hún tekur Helga á málið þá er ljóst hundurinn Lúkas er afturgenginn.

Hann reyndar dó aldrei þó múgurinn hefði næstum því aflífað meinta drápara hans.

 

Sem minnir á beina sök Morgunblaðsins þegar lapið var upp frétt hjá ríkisútvarpinu um að framkvæmdarstjóri Síldvarvinnslunnar hefði staðið fyrir beinum blekkingum til að svo ég vitni í varnarræðu Síldarvinnslunnar; "hvernig blekkja mætti Grænlendinga til að komast yfir veiðiheimildir og kvóta.".

Og í beinu framhaldi " Þessi frétt er algjörlega röng og í reyndinni merkilegt hvernig blaðamaður getur lesið þetta út úr þeim tölvupósti sem vitnað er til.".

Varnarræðu sem var ekki svarað, sem segir aðeins eitt, svörin voru engin, um gönuhlaup var að ræða.

 

Það ætlast enginn til að málaliðar hrægammanna á ríkisútvarpinu biðjist afsökunar, þeir eru jú bara í vinnunni, en Morgunblaðið gefur sig ennþá út fyrir að vera fjölmiðill.

Og gönuhlaup blaðamanna eru á ábyrgð ritstjóra þess.

 

Sem og ríkisútvarpið ber ábyrgð gagnvart almenningi, kostunaraðila þess.

Breytir engu þó einstakir blaðamenn þess, eða jafnvel stofnunin í heild hafi kosið að þjóna öflum sem vilja sjálfstæði þjóðarinnar dautt og að auðlindir þjóðarinnar verði samlagaðar hinu frjálsa flæði auðsins, markaðsvæddar og auðurinn renni í vasa hins alþjóðlega fjármagns sem er hafið yfir landamæri eða lögsögu einstakra ríkja.

Frá því fjármagni streyma kannski mútur eða einstaklingsmiðaðar kostunargreiðslur, en það er samt almenningur sem fjármagnar ríkisútvarpið, og ætlast til þess að laun einstakra fréttamanna komi frá ríkissjóði samkvæmt þeim kjarasamningum sem gilda um stofnunina.

Og almenningur ætlast ekki til þess að ríkisútvarpið ljúgi eða blekki í fréttaflutningi sínum, hvað þá þegar kostað markmið er að taka niður einstök fyrirtæki eða stjórnmálamenn.

 

Almenningur ætlast til þess að Ruv svari efnislega þessari leiðréttingu Samherja, að rök komi á mótum rökum.

Hann ætlast ekki til þess að Helgi Seljan sé tekinn á málið.

 

Núna reynir á staðreyndir.

Séu þær ekki til staðar, þá er allt málið fallið.

Því sá sem hefur vísvitandi rangt fyrir sér í einu, honum er ekki treystandi fyrir öðru.

 

Því þegar upp er staðið snýst þetta allt um traust.

Allavega þegar ríkisfjölmiðill á í hlut.

Kveðja að austan.

 

PS. Eftir að pistill var sleginn inn, þá var Mbl lesið í botn og þar rakst ég á frétt þar sem Kveikur svarar Samherja.

Ekki ætla ég að leggja dóm á það svar, vonast aðeins að rök takist á, en hvorugur aðili taki Helga á málið.

Sbr, "núna reynir á staðreyndir"

Því það er svo mikilvægt að mótrök komi fram, og þau séu vegin og metin.

Eitthvað sem ríkisútvarpið forðast ákaflega þegar það er í vinnumennsku fyrir auðinn eða erlend kúgunaröfl, hrægamma eða önnur slík kvikyndi.

Síðast hræða sporin úr orkupakkaumræðunni þar sem einn dagskrágerðarmaður, í einum Kastljósþætti, leyfði sjónarmiðum þjóðarinnar að koma fram.

Versus margir dagskrárgerðarmenn í næstum því ótal þáttum gerðu það ekki.

En fortíð er aðeins vísbending, þó hún sé tilefni þess hvassa tóns sem skín í gegn í skrifum mínum um Ruv.  Það lengir lífið að vera batnandi, og morgundagurinn mun reyna á þann bata Ruv, Samherji mun svara, og vonandi verður honum svarað.

Eftir stendur umræða sem upplýsir, en múgæsir ekki.

Og það er ekkert að því.

Aftur er það kveðjan.


mbl.is Á ekki og hefur aldrei átt Cape Cod FS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brandari hinna rétttrúuðu.

 

Að gangast undir aðferðafræði frjálshyggjunnar að skattleggja hina fátæku svo þeim sé gert ókleyft að taka þátt í nútímasamfélagi, er gegnum gangandi í hugmyndafræði góða fólksins.

 

Það eru fátæklingarnir sem menga með því að keyra gamla bíla, þeirra er því kolefnaskatturinn, það er utanlandsferð þeirra, þessi eina sem safnað er fyrir á árinu, eða þegar börnin eru mörg og tekjur bara venjulegar launatekjur, þá er þessi eina farin á nokkurra ára fresti,það er hún sem mengar í háaloftunum.

Góða fólkið sem hefur efni á skattleysi rafmangsbílanna, eða telur það sjálfsögð mannréttindi að fara 5-10 í utanlandsferð á ári, og ekki skaðar ef vinnan kallar á nokkrar slíkar í viðbót til að ræða við viðbrögð við manngerðum loftslagsbreytingum, það veit eins og er að fátæklingarnir eru ekki bara fjölmennir, heldur liggja þeir við höggi, að flatur skattur á samgöngur, er skattur sem dregur úr mengun hinna fátæku.

Góða fólkið er ekki heimskt, það veit frjálshyggjan hafði alveg rétt fyrir sér að komugjöld í heilbrigðisþjónustunni drógu úr álagi á kerfið, sá sem hefur ekki efni á að borga, hann leitar ekki eftir þjónustunni.

 

Góða fólkið er heldur ekki á nokkurn hátt það heimskt að það trúi að fátæklingarnir mengi, en en það er svo gott fyrir tölfræðina að slá á fjöldann sem er hluti af nútíma samfélagi.

Þá líður því betur, trúir að það sé að gera eitthvað.

 

Góða fólkið er hins vegar svo heimskt að það trúir að meint kolefnisjöfnun þess, að borga fyrir plöntun trjáa, hafi eitthvað með loftslag að gera.

Það er bara svo, að hærri meðalhiti, ásamt auknu magni koltvísýrings í andrúmslofti, eykur styrkleika gróðurþekjunnar, fyrir hvert tré sem plantað er, sér náttúran um að ótal fjöldi fræja nær að spíra og verða að trjám. 

Nærtækasta dæmið er Skeiðarársandur, þar sem enginn plantaði, en kolefnisjafnaði ótal flugferðir góða fólksins, bara þess vegna getur það margfaldað notkun sína á einkabílum, því góða fólkið fer ekki í strætó, slíkt gera bara aðeins fátæklingarnir, að ekki sé minnst allar ferðarnar á loftslagsráðstefnur ýmiskonar.

 

Góða fólkið er nefnilega mjög hlynnt því að berjast fyrir hönd annarra, en ekki eins hrifið af því að axla ábyrgð sjálft.

Það talar um svifryksmengun, en það dreifir salti og sandi á götur og torg, en salt og sandur er fóðrið í slíkri mengun.

Það talar um útblástur, sem mengar, en vinnur markvisst að því að fjölga umferðarhnútum, hægja á umferð, og annað sem ýtir undir hægagang bílaflotans, en slíkt er bein ávísun á aukinn útblástur og þar með aukna mengun.

 

Góða fólkið gerir nefnilega ekki greinarmun á orðum, og athöfnum.

Það er gott vegna þess að það segist vilja vel.

 

Athafnir þess eru sjaldnast í takt við orðin.

En í huga þess er slíkt ekki einu sinni aukaatriði.

Það er ekkert atriði.

 

Þess vegna er vegið að innlendri framleiðslu sem nýtir endurnýjanlega orku, hún annað hvort hrakin úr landi, eða í náðarfaðm brennsluorkugjafa.

Þess vegna eru skattar á nýja bíla ekki lækkaðir til að flýta fyrir endurnýjun bílaflotans.

Þess vegna eru allar manngerðu umferðartafirnar í Reykjavík.

 

Eitthvað sem í raun skiptir ekki máli, vissulega fyrir mengun, en ekki fyrir staðfestu góða fólksins.

Það nefnilega nýtir skattinn á fátæka fólkið til að stofna sjóð, Loftslagssjóð.

Og eyðir einhverjum milljónum í kynningu og kynningarefni þar um.

 

Þar með er kátt í höllinni.

Það þarf ekki meira til.

Kveðja að austan.


mbl.is Loftslagssjóður úthlutar 500 milljónum á fimm árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bullandi, ruglandi og frjálshyggjan.

 

Það er aur í frjálshyggjunni, hún er hagtrú, sem játar Mammon æðsta guða, og hún er hugmyndafræði þeirra sem vilja gefa auðnum veiðileyfi á almenning.

Afmennska hann, breyta honum úr manneskju í kostnað.

Bein afleiðing er óhófleg auðsöfnun Örfárra þar til því markmiði er náð að örfá þúsund eiga megnið að auðævum heimsins, nokkrar tugir milljóna lifa síðan góðu lífi að þjóna hinum Örfáum, restin lepur mismikinn dauða úr skel.

 

Það er langt síðan, á þriðja áratug að auðurinn samlagaði stjórnmál vestrænna ríkja, gjörspillingin hélt innreið sína á þann hátt að í reynd ganga jafnt hefðbundnir borgaraflokkar sem og hefðbundnir jafnaðarmannaflokkar erinda frjálshyggjunnar þó í orði sé öðru haldið fram.

Lokahnykkurinn varð síðan ljós eftir fjármálahrunið 2008 þegar flokkarnir vinstra megin við jafnaðarmenn gengu harðast fram jafnt í níðingshætti gagnvart almenningi sem og hagsmunagæslu fyrir auðmagnið.

 

Allt þetta var ljóst þegar Andrés hinn ungi bauð sig fram í prófkjöri VinstriGrænna, og jafnvel næmustu njósnatæki Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna hafa ekki numið annað en hann væri sáttur við þessi umskipti, að hann vissi og gerði sér grein fyrir hverjum í raun VG þjónar líkt og systurflokkarnir á Norðurlöndum gera.

Allt hið meinta andóf með tilvísun í róttækni, hugsjónir eða stefnu flokksins er því ekkert annað en sá egóismi sem heitir frami og völd Andrésar Inga Jónssonar.

Eitthvað sem Mammon guð kann vel að meta.

 

Auðsöfnun Örfárra er samfélagsleg meinsemd sem ógnar velferð og velmegun fjöldans.

Slítur í sundur þá sátt sem borgarstéttin náði við verkalýðinn á fyrri hluta 20. aldar, sátt sem batt enda á samfélagsátök liðinna alda.

Og eðlilega snýst fjöldinn til varnar.

Sem kallar á kostnað og útgjöld til að tryggja óbreytt kerfi.

 

Ruglandi og bullandi dagsins í dag er ekki sjálfsprottið fyrirbrigði.

Það er enginn svona gefinn frá náttúrunnar hendi líkt og ætla mætti út frá hinni botnlausu heimsku sem tröllríður umræðu múgæsingarinnar.

Ruglið og bullandi er fjármagnaður, markmiðið er að hindra að fólk nái að sameinast um kröfuna um réttlátt og sanngjarnt samfélag.

 

Um mannúðina og mennskuna.

Nái að sameinast í afli sem brýtur skurðgoðið Mammon af stalli.

 

Auðnum er nákvæmlega sama hver stjórnar á meðan Mammon er þjónað.

Á meðan kerfinu er ekki ógnað, á meðan hið frjálsa flæði er æðra lögum guðs og manna.

 

Þegar fjöldinn er reiður þá skiptir miklu að bjóða uppá valkost sem breytir fólki í múg.

Sem hægt er að stjórna með ruglanda og bullanda.

Eitthvað sem við upplifum svo sterkt á Íslandi í dag.

Og slíkan valkost þarf að manna.

 

Píratarnir eru góðir til síns brúks.

Framboð rebellanna í verkalýðshreyfingunni um breytingar á forsendum frjálshyggjunnar er annað dæmi þar um.

 

Eftir stendur fólkið sem þykist hafa hugsjónir.

Fólkið, sem sveik ekki þegar mestu manngerðar hörmungar í nútíma vestrænni sögu gengu yfir almenning.

Fólkið sem þolir eiginlega allt nema samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

 

Það er rekald í dag.

Svona óplægður akur sem má sá í.

Þess virði að fjárfesta í.

 

Eitthvað fyrir unga menn á uppleið.

Sem eiga sjálfan sig sem sína einu hugsjón.

Vantar bakhjarl svo akurinn sé þeirra.

 

Útgjöld, kostnaður.

Hégómi, metnaður.

Fjárfesting sem klikkar ekki.

 

Auðurinn veit sínu viti.

Það ógnar honum ekkert í dag.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Andrés segir sig úr þingflokki VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fremst meðal jafningja í peningaþvætti!".

 

Þessi tilvitnuð orð úr eldmessu formanns VR á dögunum er lýsandi fyrir það andrúmsloft múgæsingar, og þó ljóst sé að segja það, botnlausa heimsku sem tröllríður  umræðu Andófsins í dag.

Tilefnið orðanna, held ég, er sú staðreynd að norskur banki hafði milligöngu fyrir meintar mútugreiðslur Samherja til ráðamanna í Namibíu í gegnum þekkt skattaskjól undir skjólvæng regluverks Evrópusambandsins, Kýpur.

Ég beið eftir að leggja út frá þeim þangað til ég hefði frétt um peningaþvætti Skandínavísks banka til að tengja við.  Vissi að sú frétt kæmi á næstu dögum því slík mál þar sem norrænir bankar eru berir að peningaþvætti dúkka reglulega upp.

 

En ef ég hefði ákveðið að bíða eftir frétt um íslenskan banka, sem væri þá tilefni þessarar fullyrðingar, þá vissi ég að ég þyrfti að bíða lengi, því ennþá hafa svona mál ekki komið upp á Íslandi, og ekkert sem bendir til þess að svo verði.

Íslenskir bankar hafa hins vegar verið duglegir að tilkynna grunsemdir um peningaþvætti, erlendum glæpahópum til lítillar gleði.

 

Samt erum við sögð fremst meðal jafningja og fólk trúir þessum þvættingi, lepur hann upp og deilir á samfélagsmiðlum.

Hugsanlega er stífur áróður málaliða auðsins þar um einhver afsökun.

 

Ríkisútvarpið náði að gera frétt um peningaþvætti þar sem norskur sérfræðingur var fenginn til að kommentera á hið meinta hjá Samherja. Og þessi sérfræðingur fjallaði vel og ítarlega um ábyrgð hins norska banka og kvað slíka þjónustu vera meinsemd meðal norrænna banka.

Meðal norrænna banka og jafnvel gáfnaljósin hjá Ruv föttuðu að hún var ekki að tala um íslenska banka, eða að Íslendingar á einhvern hátt þjónuðustu peningaþvætti..

Bleik brugðið, misheppnað níð, og því var næst náð í rússneskan sérfræðing sem sagði "you ain´t see nothing yet" og var þá ekki að vísa í sögu sýrurokksins.  Heldur reynslu sína af spillingu þarlendra og hvernig mafían þar í landi starfaði.

 

Hvað kom það Íslandi eða raunveruleikanum á Íslandi nokkuð við??

 

Svo hristum við hausinn yfir fáfróðu sveitarfólki á Indlandi sem þarf aðeins að lesa gróusögu á samskiptaforriti til að misþyrma eða drepa fólk fyrir einhverja meinta glæpi þess.

En svipað álit virðist hið skítuga fjármagn hafa á okkur fyrst hann gerir út fjölmiðla eins og Ruv, Stundina eða Kjarnann til að æsa hér upp múgæsingu ruglandans og forheimskunnar.

Þar sem gengið er út frá að ef eitthvað er nógu heimskt, þá er það lapið upp, og endar yfirleitt á Austurvelli, jafnt þar fyrir innan sem utan.

 

Í því erum við kannski fremst meðal jafningja.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Sænskur banki bendlaður við peningaþvætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi og sannleikurinn.

 

Sem og þessi frétt á Mbl.is vekur upp alvarlegar efasemdir um vitsmunalegt atgervi íslenskra blaðamanna.

 

Hvar erum við stödd þegar blaðamaður sem staðinn er af ósannindum og rangfærslum, komist upp með þá hártogun að vitna í grein sem fjallar almennt um ástandið sem besta kvótakerfi í heimi hefur leitt yfir namibískt samfélag.

Samherji er ekki til umfjöllunar í þessari grein, það er ekkert sem kemur fram í henni sem bendir til þess að Samherji beri neina ábyrgð á þróun sjávarútvegsins í Namibíu frá því að landið fékk sjálfstæði.

Blaðamaðurinn sem staðinn er að rangfærslum er einfaldlega að kasta málum á dreif, og aðrir blaðamenn hafa ekki vitsmuni til að átta sig á því.  Eða eru þeir búnir að dæma fyrirfram, eða eru þeir hluti af hráskinsleiknum??

 

Við Íslendingar berum hins vegar mikla ábyrgð, því það vorum við sem sendum ófögnuðinn suður eftir í nafni þróunaraðstoðar.

Í pistli þar um vitnaði ég í Sighvat Björgvinsson, ábyrgðaraðila og ágætt að rifja upp þau orð.

"Í þessu samhengi verðum að hafa í huga hvers eðlis fiskveiðikerfið er í Namibíu. Vitnum í Sighvat Björgvinsson, fyrrum framkvæmdarstjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, en hann kom mjög að málum í Namibíu.

"Auk þess hafi namibískum stjórnvöldum verið útvegaður sjávarútvegsráðgjafi, sem Sighvatur segir að hafi í raun teiknað upp kvótakerfi fyrir Namibíumenn. „Hann býr til það sem við kratarnir dreymdum alltaf um og komum ekki einu sinni í gegn á Íslandi: Markaðsverð á kvóta.“". Og í útvarpsviðtali heyrði ég Sighvat segja að ólíkt hér á Íslandi hefði veiðirétturinn verið seldur hæstbjóðanda.

Hvernig sem þessi orð Sighvats eru lesin, eða annað sem hann hefur sagt um þetta mál, þá er hvergi minnst á að íslenska ráðgjöfin, sem Namibíumenn fóru eftir, hefði falið í sér einhverja samfélags ábyrgð, eða skilyrta samvinnu við heimamenn. "Markaðsverð á kvóta", þýðir einfaldlega markaðsverð á kvóta, og ef í því felst eitthvað arðrán, þá er allavega ekki ljóst að það er ekki við þau fyrirtæki að sakast sem bjóða í kvótann.".

Það er í eðli þessa kerfis hinna svörtu frjálshyggju að brjóta niður byggðir og kæfa vaxtasprota heimamanna.  Sá fær sem býður best, sem hefur bestan aðgang að fjármagni og ef alþjóðleg stórfyrirtæki mega vera með, þá sjúga þau allt til sín.

Þetta eru þekktar staðreyndir sögunnar, þetta er bein afleiðing af kerfi sem ætlar að hámarka arðsemi gegnum uppboð.  Slík arðsemi hefur aldrei neitt  með arðsemi þeirra samfélaga sem eiga allt sitt undir auðlindinni að gera.

Auðnin, arðránið, þrælahaldið er þeirra hlutskipti.

Segir sagan.

 

Hlálegast er að þeir sem hafa hæst núna í árásum sínum á íslenskan sjávarútveg, vilja böl bæta með því að leggja til þetta kerfi þrælahalds og arðráns.

Kratar, verkalýðsleiðtogar og gjammarar.

Svo þeir stjórnmálamenn frjálshyggjunnar sem hafa safnast saman í Viðreisn, geta setið hjá á hliðarlínunni og glott.

 

Þeirra bestu vinnumenn eru þeir sem hafa hæst og hrópa mest.

Gegn frjálshyggju, arðráni, samþjöppun auðs á afar fáar hendur.

 

Svona er Ísland í dag.

Kveðja að austan.


mbl.is Helgi bendir Samherja á auðlesið efni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er manneskjan undir áhrifum í þingsal??

 

Var það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las þessi orð þingmanns Pírata.

En svo mundi ég að Píratar eru kostaður flokkur til að fóðra heimsku í þjóðfélagsumræðunni svo íslenska Andófið verði aldrei annað en gjammið eitt.

Eina spurningin er hvaða kröfu kostunaraðilinn gerir til þingmanna Pírata varðandi trúverðugleika heimskunnar.

 

Við Íslendingar ættum að taka Namibíu okkur til fyrirmyndar segir þingmaðurinn, og líklegast er hún þá ekki að vísa í að við ættum að taka upp þeirra siði við úthlutun kvóta, en þar hefur þóknun til valdaelítunnar verið skilyrði fyrir jákvæðri niðurstöðu í kvótauppboðum.

Eitthvað sem hefur legið fyrir í mörg ár og fyrir framan nefið á öllum.

En upp komst um strákinn Tuma og ekki var lengur hægt að horfa í hina áttina.

Sjálf völdin í húfi og snöfurmannlega tekið á málum.

 

Nei, þingmaðurinn útskýrir í hverju fyrirmyndin liggur, vegna spillingarmála segi ráðherrar af sér og eru jafnvel handteknir, enda "Namibía er þó ljós­ár­um á und­an okk­ur í laga­leg­um og stofnana­leg­um vörn­um gegn spill­ingu.“".

Þessi ljósár sem hún talar um er að þrátt fyrir að Ísland skori ekki sérstaklega hátt á lista yfir óspillt ríki, er í 14. sæti, að þá er Namibía metin í 53 sæti á þeim sama lista.  Sem reyndar er mjög gott hjá hinu unga lýðveldi, það er í þriðja sæti Afríkuríkja á spillingarlistanum.

Að því gefnu að þingmaðurinn er ekki þeim mun heimskari það er átti sig hvorki á hugtökum eins og ljósárum og spillingu, þá er ljóst að hún er að ljúga.

Er að spila með kjósendur sína.

Já ég held að hún sé ekki undir áhrifum.

 

Og með lygi sinni vegur hún að æru íslenska stjórnkerfisins.

Því svona fullyrðing er ekki sett fram, án þess að tína til dæmi, rökstyðja meint spillingarmál sem tengjast ráðherrum sem ætti að fangelsa, og krefjast síðan rannsóknar.

Þú berð ekki saman solid dæmi um spillingu í öðrum löndum þar sem ráðherrar hafa sagt af sér og verið síðan fangelsaðir, og talar síðan almennt um ráðherra í eigin landi, og gefur ekki í skyn, heldur fullyrðir að hér séu þeir miklu verri.

Hvað þá að þú berir það uppá réttarkerfið að það heykist á að rannsaka slík mál komi þau uppá yfirborðið.

 

Jafnvel þó þú sért þingmaður Pírata, jafnvel þó þú gerir út á heimsku kjósenda þinna.

Jafnvel þó þú sért kostaður til að fóðra múgæsingu fjöldans.

 

Á öllu er mörk.

Þau mörk voru rofin með fordæmalausri umræðu Pírata og Samfylkingarinnar í gær um meintar ávirðingar fjármálaráðherra.

En þetta rof er ljósárum stærra.

Hvernig sem það reyndar er hægt.

 

Fólk sem kemst upp með svona bull í þingsölum, er ógn við lýðræðið.

Það er ekkert flóknara en það.

Kveðja að austan.


mbl.is Ættum að taka Namibíu til fyrirmyndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot (5956)
  • Screenshot (5957)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.9.): 257
  • Sl. sólarhring: 317
  • Sl. viku: 5071
  • Frá upphafi: 1488577

Annað

  • Innlit í dag: 224
  • Innlit sl. viku: 4394
  • Gestir í dag: 212
  • IP-tölur í dag: 207

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband