16.3.2020 | 07:48
368 dánir á Ítalíu í gær.
Fórnarlömb lungnasjúkdóms sem kæfir fólk.
Fórnarlömb sérfræðinga sem ætluðu að stýra dreifingu veirunnar.
Fórnarlömb sérfræðinga sem löttu stjórnvöld að grípa til aðgerða sem dugðu.
Að skera á smitleiðir þegar ljóst var hverslags ógnarsjúkdómur var á ferðinni.
Sömu sérfræðingar riðu röftum í fjölmiðlum, sögðu að miðað við smittölur frá Hubei héraði í Kína, væri þetta ekki mjög smitandi og alls ekki bráðdrepandi, og fólk trúði þeim á meðan veiran virtist meinlaus, flestir sem smituðust með væg flensueinkenni.
Fólk sem dó var hvort sem er á leiðinni að deyja.
Eða þannig.
Svo liðu dagarnir, hátt í þrjár vikur, og veiran sprakk út, heilt samfélag var að sýkjast og þeir dóu ekki bara sem voru hvort sem er á leiðinni að deyja.
Og við dánartölur bætast fljótlega við þeir sem hefðu fengið lækningu við lífshættulegum sjúkdómum, það er ef þeir eru ekki meðhöndlaðir rétt, en fá hana ekki því heilbrigðiskerfið er sprungið.
Í dag vogar enginn sérfræðingur á Ítalíu sér að vitna í dánatölur Hubei héraðs, enda myndi enginn fjölmiðlamaður láta þá komast upp með slíkt tal.
Í Hubei var gripið til sóttvarna sem dugðu, tölur þaðan, hvort sem þær eru falsaðar eða ekki, því í engu sambærilegar við tölur frá landi þar sem veiran fékk að breiða úr sér stjórnlaust, þó sérfræðingarnir segðu að henni væri stýrt.
Og veiran stökkbreytt, miklu skæðari en þegar hún smitaði fyrst í Kína.
Þetta útskýrir hið svokallað panik í Evrópu í dag.
Stjórnvöld sem brugðust of seint við, eru að reyna að bæta úr afglöpum sínum.
Höfum þetta í huga næst þegar við hlustum á sérfræðinga hér heima.
Talandi sömu tungur og dró allt þetta fólk að óþörfu til dauða á Ítalíu.
Við erum með sömu veiruna, sömu tímalínu, en vissulega harðari sóttvarnir.
En hver er munurinn á dauðaveiru sem dreifir sér undir kontról og dauðaveiru sem dreifir sér stjórnlaust?
Enginn fyrir þann sem féll.
Höfum það í huga.
Kveðja að austan.
![]() |
368 dauðsföll á Ítalíu á einum degi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.3.2020 | 19:02
Við getum ekki stöðvað útbreiðslu veirunnar.
Segir sóttvarnalæknir og hæðir þar með þjóðir sem hafa gert það.
Milljónaþjóðir sem fengu veiruna á fyrstu stigum og hafa náð tökum á útbreiðslu hennar.
Besta dæmið er Kína með sína 1,4 milljarða sem er með skráð 25 nýsmit meðan íslenska þjóðin undir öruggri stjórn sóttvarnarlæknis er með 10 nýsmit.
Þeim fer fækkandi í Kína, en fjölgandi hjá okkur, meinið er að við erum aðeins 360 þúsund.
Taivan er með 24 milljónir íbúa, nýsmit 6, Singapúr er 5,9 milljónir, nýsmit 14, Japan 126 milljónir, nýsmit 35, allt lönd sem lokuðu í tíma á innflutningi á smiti.
Og slógust svo líkt og íslensk sóttvarnaryfirvöld, en náðu stjórn á útbreiðslunni því hugarfarið var, eitt smit er einu smiti of mikið.
Fólkið þarna austur frá er jafn vel menntað, í það minnsta og okkar fólk, það kaus einfaldlega að sætta sig ekki við útbreiðslu veirunnar, vill gera allt til að hindra mannfall.
Og árangur þess er á skjön við fullyrðingar sóttvarnarlæknis, það hefur stöðvað útbreiðslu veirunnar.
Það hefur stöðvað útbreiðslu veirunnar.
Annars vegar orð, hins vegar staðreynd.
En rétt er það að þessi aðferðafræði, að loka á innflutningi á smiti, sem við gerðum ekki, en Japanir, Suður Kóreumenn, Taivanar og Singapúrar gerðu, dugar ekki þegar veiran er farin að lifa sjálfstæðu lífi, þá dugar aðeins allsherjarlokun.
Útgöngubann líkt og Kínverjar gripu til.
Og það er kaldhæðni að einræðisríki, kommúnistaríki hafi kosið að fara þá leið, að bjarga fólki á kostnað efnahags.
Þeir sem ætla að stjórna útbreiðslu veirunnar, líta hins vegar á mannfall áhættuhópa sem óhjákvæmilegan fórnarkostnað, það sé leiðin svo við hin getum fljótlega farið að lifa aftur eðlilegu lífi.
Áhættan sem þau taka er gífurleg, engin veit hvernig veiran stökkbreytir sér, það er engin trygging að hún finni ekki leiðir framhjá varnarviðbrögðum hinna yngri og heilbrigðari, hefur þegar náð árangri í þá átt á Ítalíu. Og hún er aðeins rétt að byrja.
Síðan vita menn ekkert um dánartölur þar sem hún fær að smita heilu samfélögin, það er rangt að vitna í tölur frá Kína, þar var gripið til sóttvarna til að hindra slíka dreifingu.
Nærtækar er að vitna í dánartölur frá Ítalíu.
Þar er dánarhlutfallið um 7% af skráðum fjölda smitaðra, um 77% þegar fjöldi dauðsfalla er borinn saman við fjölda þeirra sem hafa náð bata.
Ekkert lýðræðisríki þolir slíkt mannfall án þess að snúast til varnar.
Kínverska leiðin, að loka á allt mannlíf á smituðum svæðum, sem er nota bene öll Ítalía, var loks valin, hætt var við að reyna að stýra útbreiðslu veirunnar.
Spánn er að fara svipaða leið, aðeins dagaspursmál hvenær Frakkland og Þýskaland grípa til sömu aðgerða.
Hérna á Íslandi er reynt að telja okkur í trú um að þetta sé pólitík, ekki sóttvörn.
Forsendan er þá að afneita staðreyndum um árangur þeirra þjóða sem kusu að slást við útbreiðslu veirunnar frá fyrsta degi.
Afneita árangri kínverska stjórnvalda í að stöðva nýsmit frá Hubei héraði, sem og smit innan héraðsins.
Að fólkið þarna austur frá séu molbúar, en við sérfræðingarnir viti betur.
Þetta kallast að leika rússneska rúllettu með líf og limi samlanda sinna.
Það er alls ekki hægt að útiloka að það takist að halda smiti frá áhættuhópum, en hvernig??
Heilsugæslan í Mosfellsbæ tilkynnir lokun því einn starfsmaður greindist með smit.
Hvernig með alla aðra starfsmenn í heilbrigðiskerfinu, á það bara að reka sig sjálft án starfsfólks þegar allir eru komnir í sóttkví??
Hver á að þrífa, hver á að gefa mat, hver sér um umönnun að ekki sé minnst á hjúkrun og lækningar??
Ef þjóðin á að sýkjast hægt og hljótt, en samt öllu lokað þegar fyrsta smit greinist, hvernig á þá þjóðlífið að ganga þegar smitið er orðið útbreitt??
Þessi aðferðafræði er full af mótsögnum þar sem hvert rekur sig á annað.
Að halda að það sé hægt að leyfa þjóðinni að sýkjast, án þess að smit beristi til áhættuhópa er ekki óraunhæft, það er ekki hægt.
Ekki nema að veiran sé miklu mildari hér en annars staðar í heiminum.
Sé ekki eins smitandi, sé ekki eins banvæn.
Tapi sóttvarnaryfirvöld þessari rúllettu, hver er þá ábyrgð þeirra??
Hver er ábyrgð stjórnvalda sem gripu ekki inni??
Munum að þetta er ekki geimvísindi, þetta eru ekki fávísir aular sem reyna að hindra smit á milli fólks, og láta þannig veiruna deyja út.
Það hefur skilað árangri án teljandi mannfalls hjá miklu fjölmennari þjóðum en okkar.
Stýrð útbreiðsla endaði í stjórnlausu mannfalli á Norður-Ítalíu, þar sem heilbrigðiskerfið er ekki síðra en okkar.
Veiran var einfaldlega öflugri og banvænni en þarlendir sérfræðingar reiknuðu með.
Segjum við þá bara Úps, sorrý Stína.
Eða látum við menn sæta ábyrgð??
Eða getur ábyrgðin orðið alvarlegri en sú sem menn sitja uppi með á Ítalíu??
Veit ekki.
Veit bara að menn eiga ekki að spila rússneska rúllettu.
Hvorki með sitt líf eða annarra.
Hvað þá með þjóð sína.
Kveðja að austan.
![]() |
60% þurfa að smitast til að mynda hjarðónæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.3.2020 | 13:06
Við erum ekki fallin á tíma.
Ef niðurstöður íslenskra erfðagreiningar eru nærri lagi um útbreiðslu veirunnar, þá er ljóst að faraldurinn er ennþá innan þeirra marka að það sé hægt að ráða við hann, hindra þannig frekari útbreiðslu og láta þannig vírusinn deyja hægt og rólega út vegna þess að hann fær ekki nýja hýsla til að sýkja.
Valið stendur í raun um að drepa vírusinn eða hann fái að drepa samborgara okkar, veikja fólk alvarlega þannig það býður þess aldrei bætur og svo framvegis.
Veirur fjölga sér með veldishraða og þó varnaraðgerðir íslenskra sóttvarnaryfirvalda hafi hægt á útbreiðslu hennar, það er lækkað veldisstuðulinn, þá er ljóst að útbreiðsla hennar er komin á þau mörk, að alltí einu verði sprenging á fjölda smitaðra og faraldurinn verði stjórnlaus með tilheyrandi hruni heilbrigðiskerfisins.
Og mannfelli.
Í fróðlegu viðtali sem Viljinn endurbirti við Michael Osterholm, einn þekktasta vírusfræðing heims, sem ítrekað hefur varað við skelfingu heimsfaralda af völdum vírussjúkdóma, má hlusta á lýsingu hans á smitberum, sem virka einkennalausir, en eru með lungun full af veirunni, og smita út frá sér án þess að nokkur verði þess var.
Eitt prósent í dag er 5 prósent innan ekki svo langs tíma.
Osterholm er höfundur bókar, "Deadliest Enemy: Our War Against Killer Germs", þar lýsir hann áhrifum svona heimsfaralda, afleiðingum þeirra á heilbrigðiskerfið, mannfell og svo framvegis, og hann bendir á að heimsbyggðin sé algjörlega óviðbúin svona heimsfaraldri. Í viðtalinu segir hann að "faraldurinn nú sé rétt að byrja. Hann geti orðið tíu til fimmtán sinnum skæðari en hefðbundin árstíðabundin inflúensa með tilliti til fjölda sýktra og látinna í heiminum og flest ríki heims séu vanmáttug til að takast á við afleiðingar þess sem koma skal.".
Allt sem hann spáði er því miður að rætast,
En það er hægt að berjast við þessa vírusa með því að loka á samskipti fólks þar til mögulegur smittími veirunnar er liðinn.
Það virkar.
Þessi leið er ennþá í boði fyrir okkur Íslendinga, sem betur fer, smitið er ekki ennþá það útbreitt.
Í grein Tomas Pueyo, Why you must act now, er útskýrt hvað felst í mótvægisaðgerðum þar sem skorið er á samskipti fólks útí samfélaginu.
Þar má meðal annars lesa þetta, svona til að gera sér einhverja hugmyndu um hve drastísk aðgerð slíkt er;
"Mitigation.
Mitigation requires heavy social distancing. People need to stop hanging out to drop the transmission rate (R), from the R=~23 that the virus follows without measures, to below 1, so that it eventually dies out.
These measures require closing companies, shops, mass transit, schools, enforcing lockdowns The worse your situation, the worse the social distancing. The earlier you impose heavy measures, the less time you need to keep them, the easier it is to identify brewing cases, and the fewer people get infected. This is what Wuhan had to do.
This is what Italy was forced to accept. Because when the virus is rampant, the only measure is to lock down all the infected areas to stop spreading it at once.
With thousands of official cases and tens of thousands of true ones this is what countries like Iran, France, Spain, Germany, Switzerland or the US need to do. ".
Og hann ítrekar að það þarf að fara alla leið; "One approach is to gradually increase measures. Unfortunately, that gives precious time for the virus to spread. If you want to be safe, do it Wuhan style. People might complain now, but theyll thank you later.".
Þetta er hægt og verður gert hérna fyrr eða síðar.
Það óskiljanlega er biðin, hikið, sem kostar einfaldlega bara mannslíf.
Hvort sökin er sóttvarnaryfirvalda, stjórnvalda sem draga lappirnar, eða hvoru tveggja, mun tíminn leiða í ljós.
Munum að fyrst var okkur sagt að sýkin myndi ekki breiðast svona hratt út. Það var rangt.
Svo var okkur sagt að það væri óhætt að ferðast til svæða á Ítalíu sem væru utan sóttkvíar. Það var rangt.
Svo var okkur sagt að sýkin væri bundin við áhættuhópa, eldri borgara og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Það er rangt, yngra fólk tekur hana líka á Ítalíu, og á líf sitt að þakka læknum sem reyna að bjarga því á meðan foreldrar þess eða afar og ömmur eru látnar deyja án nauðsynlegrar læknishjálpar.
Síðan var okkur sagt að aðeins einræðisstjórnir lokuðu á ferðalög fólks til sýktra svæða. Rangt, það er lýðræði í Taivan, Singapúr eða Japan, og núna hafa lönd eins og Danmörk og Noregur bæst við.
En stærsta lygin, stærsta rangfærslan var að það væri ekki hægt að loka á samskipti fólks í lýðræðisríkjum líkt og gert var í Hubei héraði í Kína. Það er það sem Ítalir neyddust til að gera, alltof seint, en gerðu samt. Núna í morgun bárust fréttir frá Spáni að slíku samskiptabanni yrði líka komi á þar í landi. Áður höfðu Norðmenn gripið til strangra ráðstafana og fyrirsjáanlegt að Danir munu gera slíkt fljótlega.
Rangt, rangt, rangt, rangt, rangt.
Og hjarðhegðun heimskunnar sér ekkert athugavert við þessar rangfærslur, heldur þakkar sífellt fyrir þessa leiðsögn.
Hæðist að þeim sem benda á staðreyndir sóttvarna, hæðist að þeim sem benda á hvað gert hefur verið í öðrum löndum og virkar.
Hæðist að þeim sem benda á að það yrði aðeins tímaspursmál hvenær sýkt nágrannalönd myndu grípa til nauðsynlegra aðgerða.
Í raun er leitun að meiri heimsku á dauðans alvöru tímum, höfum það bak við eyrað næst þegar við lesum enn einn fíflastatusinn um Sjálfskipaða Internetsérfræðinga.
Hættum svo að hlægja af læmingjum sem marsera í takt á eftir forystudýrum sínum fyrir björg.
Það er öruggt að það verði gripið of seint til nauðsynlegra aðgerða.
Veiran mun fá að dreifa sér út um allt áður það verður gert.
Það er líka öruggt að á blaðamannafundinum á eftir munu menn byrja að þakka hvorum öðrum fyrir góð störf, og gestir sem fá stundarathyglina munu þakka fyrir líkt og Formaður sambands eldri borgara gerði í gær. Þó er hún fulltrúi þess hóps sem á að fórna vísvitandi því það má ekki láta þjóðina horfast í augu við alvarleik þessa heimsfaraldurs.
Það eina sem frestun á nauðsynlegum aðgerðum hefur í för með sér, er meira mannfall, meira fjárhagslegt tjón, að ekki sé minnst á að lokunin mun vara margfalt lengur en þyrfti ef strax hefði verið gripið til aðgerða.
Á hættutímum gegna lykilfjölmiðlar mikilvægu hlutverki.
Þeir hafa brugðist í dag, þeir eru hluti af hjarðhegðun heimskunnar.
Það eru þúsundir ferðalangar strandaglópar á ferðamannastöðu Evrópu í dag.
Allt fyrirsjáanlegt, en fólki samt leyft að ana útí ófærurnar og til skamms tíma breiða út smit til samborgara sína.
Þetta var fyrirsjáanlegt því það er ekki til önnur leið en að loka á samskipti þegar smitandi veirusjúkdómur breiðist út um heimsbyggðina.
Spurningin snérist aðeins um vanhæfni vestrænna ríkisstjórna, hve lengi gætu þau haldið niður sér andanum í sandholu sinni til þess að þykjast ekki sjá hættuna sem bar að ströndum Evrópu.
Henni hefur verið svarað, þau eru farin að grípa til nauðsynlegra varnarviðbragða.
Nema hér á Íslandi.
Af einhverjum ástæðum.
Sem eru óskiljanlegar.
En við þurfum ekki að sætta okkur við það.
Þetta er jú okkar líf sem er í húfi.
Kveðja að austan.
![]() |
Skimun ÍE bendir til að 1% landsmanna beri veiruna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.3.2020 | 19:30
Heimskt er heimaalið barn.
En Gulla greyið tekst jafnvel að gera þau gáfuleg.
Brandarinn um Emil og fílinn, þar sem hinir maurarnir kölluðu á Emil að kyrkja fílinn fékk nýja merkingu þegar Gulli tilkynnti að hann myndi taka bandarísk stjórnvöld á teppið fyrst að þau voguðu sér að setja Íslendinga í farbann, þjóð sem er hlutfallslega sýktust í heiminum í dag.
Og hann er hluti af blessaða barnaláninu sem hélt blaðamannafund með lúðraþyt þar sem tilkynnt var að ríkisstjórnin ætlað að bregðast við fordæmalausu ástandi í efnahagslífinu með því að fresta hörðum innheimtuaðgerðum á skatta og gjöld í vanskilum.
En á öllu eru takmörk, aðrar þjóðir líta ekki á það sem eftirbreytni að vitandi vits var kórónavírusnum látinn dreifa sér óhindrað inní landið þannig að á innan við tveimur vikum slógum við Kína út í hlutfallslega fjölda smita.
Ef einhver ríkisstjórn á að gera varið þjóð sína, þá er það eyland sem hefur engin bein landamæri við önnur ríki.
Í dag eru þjóðir í Austur Asíu eins og Singapúr og Taívan öfundaðar.
Þær höfðu kjark til að stöðva aðstreymi ferðalanga frá sýktum svæðum, um leið og menn gerðu sér grein fyrir alvarleik veirunnar.
Singapúr er til dæmis borgríki með 5,6 milljóna íbúa, á landsvæði sem er vel innan við 1000 ferkílómetra, með efnahag sem á mikið undir aðstreymi fólks, samt lokuðu þeir á Kína og settu þá sem þaðan komu í 14 daga sóttkví, og þegar önnur lönd bættust við eins og Íran, Suður Kórea eða Norður Ítalía, þá var ekki hikað við að loka.
"On 3 March, Singapore announced a ban on visitors arriving from South Korea, Iran and northern Italy from 4 March, with Singapore citizens, permanent residents and long-term pass holders returning from these places to be issued Stay-Home Notices (SHN) lasting 14 days. In addition, all travellers entering Singapore with fever or signs of respiratory illness will be required to undergo swab tests, with penalties for refusal. The travel advisory was expanded to include Iran, northern Italy, Japan and South Korea".
Í dag er Singapúr með skráð 212 smit, ekkert dauðsfall.
Ekkert dauðsfall.
5,6 milljónir, 726 ferkílómetrar, ekkert dauðsfall.
Hefði okkur borið gæfu til þess að loka strax á smituð svæði, þá var landið ekki eins smitað og það er í dag, og þá hugsanlega ættu orð Guðlaugs Þórs sér stoð í raunveruleikanum.
Í dag eru þjóðir að loka landamærum sínum þrátt fyrir að staðfest smit séu aðeins brot af útbreiðslu kórónaveirunnar hér á landi.
Vegna þess að ábyrg stjórnvöld gera allt sem hægt er að gera til að hindra ótímabært andlát náungans, þó hann sé bara gamall eða veikur fyrir.
Hér er bara reynt að hafa stjórn á mannfallinu, ekki reynt að koma í veg fyrir það.
Þó hjarðhegðun heimskunnar sé það mikil að fólk almennt telji að við séum mest og best, þá erum við ein um þá skoðun.
Vissulega eru til yfirvöld eins og í Svíþjóð, sem vilja fara sömu leið og við Íslendingar, en þeim fækkar með hverjum deginum.
Og á meðan dauðsföllum hjá hinum aðgerðalausu fjölgar, og á sama tíma berast fréttir um árangur í stríðinu við drepsóttina hjá þeim þjóðum sem sættu sig ekki fyrirfram við að afskrifa samlanda sína, þá er öllu vitbornu fólki ljóst hvor leiðin er rétt.
Enda er það einföld staðreynd að veira lifir ekki án hýsils.
Ef smitleiðir eru stöðvaðar þá deyr hún út.
Hér er linkur á grein sem nú þegar tugmilljóna hefur deilt á samfélagsmiðlum þar sem farið er yfir staðreyndir mála.
https://medium.com/@tomaspueyo/coronavirus-act-today-or-people-will-die-f4d3d9cd99ca
Yfirskrift hennar er, Why you must act now.
Meðal margra annarra fróðlegra upplýsinga er stærðfræðin sem menn geta notað til að reikna út líklega útbreiðslu smita aftur í tímann út frá fjölda dauðsfalla.
Sú stærðfræði sýndi fram á að fjöldi smitaðra á Norður Ítalíu var miklu meiri en opinberar tölur gáfu upp og þess vegna var vítavert að leyfa frjáls ferðalög þangað eftir að fólk fór þar að deyja.
Eins var sláandi að sjá línuritið sem sýndi hækkun á fjölda látinna í bandarískum borgum vegna inflúensufaraldursins sem kenndur er við spænsku veikina, eftir viðbragðshraðanum að banna mannfagnaði og fjöldasamkomur.
Því seinna sem brugðist var við, því fleiri dóu.
Og það er kjarni málsins, því seinna sem brugðist er við, því fleiri deyja.
Singapúr bannaði ferðalög til Norður Ítalíu 3. mars, hefðu við gripið til þeirra aðgerða þá, og bannað síðan skíðaferðir til Alpanna nokkrum dögum seinna, þá værum við ekki svo smituð í dag.
Í dag er bannað að ferðast til sýktra svæða, og lönd eins og Þýskaland og Frakkland komin á válista.
En af hverju var þetta ekki gert strax þegar ljóst var í hvað stefndi??
Hikið eða kjarkleysið mun kosta mannslíf.
Ótímabær andlát samborgara okkar.
Að það sé eftirbreytni fyrir aðrar þjóðir er þvílík fáráð að maður efast meir að segja um að hægt sé að afsaka heimskuna með skorti á þroska.
Að blessað barnalánið sé ekki skýring.
Heldur algjör veruleikafirring fólks sem getur aldrei tekið rétta ákvörðun þegar á reynir.
Fólks sem vísvitandi skemmir það sem þó er í lagi eins og sóttvarnir þjóðarinnar gagnvart innflutning á fjölónæmum sýklum eða hættulegum búfjársjúkdómum.
Að þetta séu ekki börn heldur hreinræktuð fífl.
Það er ljótt að segja þetta, en þetta virkar þannig.
Því hinn möguleikinn, að hin skynlausa skepna sem metur mannslíf einskis í gróðafíkn sinni, stjórni blessaða barnaláninu, er eitthvað sem maður getur ekki trúað fyrr en allt annað hefur verið útilokað.
Ég trúi því einfaldlega ekki uppá barnalánið.
Ég trúi því í alvöru að þetta fólk vilji vel.
En það er bara ekki hæft.
Eiginlega algjörlega vanhæft.
En það hreykir sér.
Já, það hreykir sér.
Kveðja að austan.
![]() |
Aðrar þjóðir líti til viðbragða Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.3.2020 | 09:20
Hann er bara ferðamaður.
Ef eitthvað getur útskýrt þau fáráð sem sóttvarnaráætlun almannavarnarráðs og ríkisstjórnar Íslands, þá er það farsinn með Birki Bjarnason.
Hann fer í sóttkví ef hann er innlendur, en má valsa um alla kroppagrund ef hann er ferðamaður.
Ferðamenn sýkja ekki, aðeins innlendir.
Ísland er smitað í dag eingöngu vegna þessara fáráða.
Fólk fær að valsa inn og út úr landinu að vild, jafnt frá smituðum svæðum sem öðrum.
Menn hafa ekki hugmynd um smitdreifinguna, veiran virðist taka það rólega þar til allt springur út.
Sem bendir til þess að það eru einkennalausir sem eru að smita.
Menn hafa ekki heldur hugmynd um endanlega dánartölur, þekkingin byggist á tölum frá Kína, þar sem í fyrsta lagi var gripið til harkalegra aðgerða til að hindra útbreiðslu hennar, sem og að allar líkur benda til að uppgefnar tölur þaðan eru falsaðar.
Menn eiga að hafa þá lágmarksdómgreind að fatta að einræðisstjórn lamar ekki mikilvægasta iðnaðarsvæði sitt vegna promil dauðsfalla. Það er bara ekki svo.
Hafi menn ekki þessa dómgreind þá eiga menn ekki að koma nálægt stjórnun og vörnum þjóðarinnar.
Ítalía er opið land.
Bæði fyrir útbreiðslu drepsóttarinnar sem og upplýsingum.
Þar eru læknar á bráðamóttökum að senda út neyðarkall.
Við erum hættir að ráða við þetta, við sinnum engu öðru, við erum komnir í þá stöðu að þurfa velja hverja við látum deyja, og hverja við reynum að bjarga.
Bráðadeildir okkar eru fullar af illa veiku ungu fólki sem aðeins súrefnisgjöf heldur á lífi.
Við erum að verða uppiskroppa með birgðir, við erum sjálf að veikjast.
Það eina sem vantar, er Mayday, mayday
Hvernig geta menn fullyrt að dánarhlutfallið sé svona og svona, eða drepsóttin felli aðeins eldra fólk, og látið svo skína á milli línanna að það deyi hvort sem er.
Þegar menn vita í raun ekkert annað en að þetta er skelfilegt.
Blessað barnalánið okkar segir, látum þetta ganga yfir á 8-12 vikum.
Þannig ráðum við við þetta.
En er það svo??
Hvernig er þetta öðruvísi hér en á Ítalíu??
Þetta er jú sami vírusinn og þar er hann illvígur.
Og hann er ekki bara ferðamaður.
Kveðja að austan.
![]() |
Stöðvaður á síðustu stundu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.3.2020 | 22:35
Heimsfaraldur.
Alvarlegra verður það ekki.
Ef veirusýking er ekki stöðvuð strax í upphafi útbreiðslu sinnar, þá breiðist hún út með veldishraða þar til ekkert verður við ráðið
Þetta vita allir sem sáu þá stórgóðu mynd 12 Monkeys á sínum tíma með harðhausnum Brús Willis og sjarmörnum Brad Pitt.
Þetta vissu líka Kínverjar, og þeir standa best þjóða í dag.
Þeir gerðu það sem þurfti að gera.
Tímanlega.
Evrópa gerði það ekki, og á því eru skýringar.
Ástæðan er svo ég vitni í yfirmann WHO; "vegna ógnvekjandi skorts á aðgerðum".
Það er í þennan ógnvekjandi skort á aðgerðum sem blessað barnalán okkar vitnar í þegar það segir "Við erum að grípa til mjög harðra aðgerða á Íslandi miðað við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur."
Það þarf ekki mikið til að aðgerðir séu harðari en hjá þeim sem fá þá umsögn, "ógnvekjandi skort á aðgerðum". Og sitja núna uppi með stjórnlausa útbreiðslu veirunnar.
Það er aðeins einn mælikvarði á aðgerðir, og það er hvort þær dugi.
Og þú stöðvar ekki veirusýkingu með því að hafa landið galopið fyrir innflutningi á smiti þó allt annað sé rétt gert eftir bókinni.
Þetta er raunveruleiki, og aðeins fífl rífast við hann.
Sem og blessuð fávísu börnin sem fatta hann ekki.
Heimsfaraldur, er þetta ekki bara væg flensa??
Gefur yfirmanni WHO aftur orði; "ógnvekjandi mikillar útbreiðslu og alvarleika".
Alvarleikinn er hin banvæna lungabólga sem hluti sýktra fær.
Það er hún sem er að drepa, og miklu fleiri væru fallnir ef ekki kæmi til súrefnisgjöf auk annarrar læknishjálpar.
Eldra fólk stráfellur á Ítalíu og engin veit hvar sú tala mun enda, þúsundir, tugþúsundir, fer eftir útbreiðslu og hvort síðustu neyðarráðstafanir nái að hægja á útbreiðslu hennar.
En ungt fólk er líka að veikjast.
Í fyrri pistli dagsins vitnaði ég í frétt þar sem það kom fram að fyrsti skráði sjúklingurinn á Ítalíu með kórónuveiruna, gæti núna andað hjálpalaust, eftir þriggja vikna veikindi.
Hann var fullhraustur 35 ára gamall karlmaður.
Á vef K-100 sem Mbl.is birtir má lesa þetta í viðtali sem tekið var við Julia Charlotte de Rossi sem er íslensk að hálfu og að hálfu ítölsk. Það sem hún segir er hreint út skelfilegt;
"Staðan hérna er hræðileg. Við vissum öll að það væri komin veira en það var samt enginn að pæla í þessu. Enginn vissi að þetta væri orðið svo útbreitt, segir Julia í viðtali við K100 sem sjá má og heyra í spilaranum hér fyrir ofan. Hún segir að skólinn sem hún er í sé lokaður og öllum sé ráðlagt að dvelja heima til 3. apríl. Ég fékk send skilaboð frá starfsfólki á spítala. Það hvetur fólk til að vera heima og að það eigi að taka þetta mjög alvarlega. Það er fólk á mínum aldri sem er mjög veikt núna inni á spítala. Það er ekki nógu mikið pláss fyrir alla. Starfsfólkið á spítölum er komið á þann stað að það þarf að velja hver fær að lifa og hver að deyja. ".
Læknar þurfa að velja hverjum þeir bjarga, og eðli málsins vegna bjarga þeir frekar yngra fólki en eldra, en einn daginn hafa þeir ekki nóg súrefni, eða eru sjálfir orðnir veikir, og þá er enga hjálp að hafa á spítölum, og fólk kafnar, líka það unga.
Þetta er grafalvarlegt, ógnvekjandi svo ég vitna í Thedros yfirmann Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Samt hefur blessað barnalánið dregið lappirnar í að loka á innflutning á smiti, og það ber í raun ábyrgð á megninu af því smiti sem þegar hefur greinst.
Og netheimar eru ennþá fullir af fólki sem gerir lítið úr alvarleikanum, talar um kvef eða væga flensu, eða það er svo siðblint að gefa í skyn að það þurfi ekki að grípa til harkalegra aðgerða því þetta drepur hvort sem er bara eldra fólk.
Í morgun las ég þráð á feisbók þar sem fólk ræddi sóttina af fullri alvöru og þá kom íslenskur Dani inn og þusaði um að þetta væri meiri móðursýkin hérna heima á Íslandi, annað væri í Danmörku enda fá smit og allt undir kontról. Í kvöld bárust fréttir um að skólum í Danmörku verð lokað næstu daga, sem sagt dönsk stjórnvöld eru loksins farin að skilja þennan ógnvekjandi skort á aðgerðum.
Svona póstar hafa líka komið frá Svíþjóð og Noregi, allt í góðu þar, eða hitt þó heldur.
Og ekki má gleyma afglöpum Mbl.is að vitna athugasemdarlaust í norskan prófessor sem gerði lítið úr alvarleikanum.
Það er allt svona sem dregur kjarkinn úr ráðamönnum að grípa til nauðsynlegra aðgerða í tíma, fíflin eru svo hávær.
Og kjarklitlir eða kjarklausir stjórnmálamenn þora ekki gegn þeim.
Það er mál að linni.
Þetta er heimsfaraldur.
Hann er ógnvænlegur.
Hann drepur.
Og það veit enginn hvað hann drepur marga áður en yfir líkur.
Það er að hluta ófyrirséð, og að hluta undir okkur komið.
Við eigum í stríð segir landlæknir.
Feisum það.
Það er tími til kominn að senda börnin uppí sveit.
Allavega þau sem stjórna landinu.
Það er kominn tími á fullorðið fólk.
Kveðja að austan.
![]() |
WHO lýsir yfir heimsfaraldri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Og Víðir hefði getað bætt við að fyrri smit gerðu það líka.
Ennþá hefur enginn fallið, en þegar einhver fellur, þá er það mannfall á ábyrgð þeirra sem þverkölluðust við að loka á ferðalög til hinna sýktu skíðasvæða, sem og fólksins sem var svo ábyrgðarlaust að fara þangað, og hafa dauðans alvöru í flimtingum.
Gerum okkur grein fyrir hvernig aðstæður voru á þessum skíðasvæðum, vitna í fífl sem Ríkisútvarpi tók viðtal við eftir heimkomu farsóttarflugvélarinnar frá Veróna, undir fyrirsöginni, "Engin taugaveiklun í gangi".
"Nei. Við erum búin að vera á þessu svæði í viku og það er fullt af fólki í kringum okkur á þessu svæði sem maður finnur í raun og veru að er veikt. Það eru miklu fleiri veikir þarna, og út um alla Evrópu, fólk sem fer ekki í neinar greiningar. Það finnur einhver lítil einkenni, er heima hjá sér og verður hressara.".
Þetta skýrir útbreiðsluna á Ítalíu, og smitið sem fólk fékk þegar það ferðaðist þangað. Menn voru veikir, smituðu aðra og öllum var slétt sama.
Þetta fólk hafði svo sóttkvína í flimtingum þegar það kom heim til að sýkja samalanda sína.
"En óttastu að vera smitaður af COVID-19? Í raun og veru ekki. Ég er bara slakur gagnvart þessu. Þetta er komið og verður áfram. Og við vitum að þessar aðgerðir núna eru til þess að hindra dreifinguna svo að heilbrigðiskerfið ráði betur við þetta. Það er ekki eins og það hafi ekki komið flensa hérna áður. Fólk deyr úr flensum,".
Já fólk deyr úr flensum, hvaða stress er þetta??
Kannski gæti viðtal sem Þóra Arnórsdóttir tók við ítalskan veirufræðing útskýrt af hverju, og að núna sé fullorðið fólk komið með uppí kok á fíflunum;
".. þá varð honum svo heitt í hamsi að það skaðaði allt hljóð og við þurftum að byrja upp á nýtt og endurstilla allt, sagði Þóra. Því hann hrópaði: Krakkar druslist til þess að vera heima hjá ykkur. Afar ykkar og ömmur og forfeður ykkar fóru í stríð og hafa þurft að leggja ýmislegt á sig fyrir þessa þjóð. Það eina sem við biðjum ykkur um er að drullast til að vera heima. Sitjið á rassgatinu heima hjá ykkur og lokið dyrunum og ekki opna fyrr en við segjum að þið megið koma út eftir nokkrar vikur. Þetta var eldmessa. Þessi maður er með mjög veika einstaklinga inni á deild hjá sér og er að verja sitt starfsfólk líka,".
Í annarri frétt frá Ítalíu má lesa um lækna sem þurfa að dæma eldra fólk til dauða því það er ekki til nóg súrefni til að bjarga öllum.
Nöturleiki veirunnar er sá að þeir sem fá lungnaafbrigði hennar, þeir anda ekki án hjálpar, og það gildir líka um fullfrískt fólk.
".. the disease caused by the coronavirus, is a viral respiratory infection that takes hold in the lungs. Many patients require intubation and cannot breathe without respiratorsmore respirators than most public-health systems have. Italys patient one, an otherwise healthy 38-year-old who fell ill with the virus in January, is now breathing on his own, after nearly three weeks on a respirator.".
Já, sem smitaðist fyrst var 38 ára gamall karlmaður við góða heilsu, hann á súrefnisgjöf lífi sínu að þakka.
En þegar faraldurinn verður óviðráðanlegur, þá munu fæstir fá súrefni, og þá deyja ekki bara gamalmenni.
Þetta er alvarleiki þessarar kórónuveirunnar, þetta er heimsfaraldurinn sem vestræn ríki buðu heim til sín án þess að gera nokkrar ráðstafanir til að hindra útbreiðslu hans, nema að uppfæra nokkur Exel skilaboð.
Það er Ítalía í dag, það er Frakkland og Þýskaland á morgun, og ekki innan svo langs tíma munu Bandaríkjamenn uppgötva að þeir eru þriðjaheimsríki þar sem heilsugæsla fer eftir efnahag.
Þetta er ekki veirunni að kenna, þetta er heimsku mannanna að kenna.
Manna sem tóku trúarbrögð hins frjálsa flæðis á ferðum fólks fram yfir líf og heilsu samlanda sinna.
Aðeins stigsmunur, ekki eðlismunur, á þeim og fólkinu sem taldi hluta samborga sinna ekki hafa rétt til lífs, og smöluðu þeim í útrýmingarbúðir.
Það eru engar rökréttar skýringar á því að veirunni var leyft að dreifast stjórnlaust um hinn vestræna heim.
Og það er ekkert sem réttlætir að henni var leyft að dreifa sér óhindrað frá skíðasvæðum Ítalíu.
Og þeir sem leyfðu það hafa ekki heimsku eða vanþekkingu sér til afsökunar.
Hugmyndafræði spurning??
Kjarkleysi líklegast.
En þegar dauðans alvara er annars vegar þá eru það klén afsakanir.
Og enginn á að komast upp með þær.
Kveðja að austan.
![]() |
85 smit staðfest hér á landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.3.2020 | 17:44
Ég lifi í draumi.
Myndi Bjarni kyrja ef einhver bæði hann að taka lagið á skemmtunum sem ekki eru haldnar í dag.
Faraldurinn er rétt að byrja, allt er að stöðvast, og hann heldur að þetta sé aðeins tímabundið.
Það þurfi bara að hjálpa fyrirtækjum að brúa bilið.
Og bilið ekki stærra en það að það dugi að slaka á innheimtu gjalda.
Hvernig er með launagreiðslur??
Hvernig er með afborganir á lánum??
Og hver er svo víðáttuvitlaus að halda að þetta snerti aðeins ferðamannaiðnaðinn??
"Allt blásið af og starfsemin lömuð" segir í fyrirsögn í annarri frétt á Mbl.is.
Lýsir nöturleikanum í afþreyingar og skemmtiiðnaðinum í dag.
Á morgun verður svipuð frétt frá þeim atvinnugreinum sem þjónusta bæði ferðamannaiðnaðinn og afþreyingariðnaðinn, þar verður líka allt blásið af.
Og svo koll af kolli.
Það er ekki að ástæðulausu sem fullorðið fólk bendir ríkisstjórninni á þessa staðreynd;
"Í þeim aðgerðum sem kynntar voru undir yfirskriftinni Lífæðin varin er ekki að finna stafkrók um viðbrögð til að mæta þeim stóra hópi fólks sem misst hefur atvinnuna á síðustu mánuðum og ástæða er til að óttast að fari stækkandi á næstunni. Engar aðgerðir voru kynntar til að efla hin félagslegu stuðningskerfi og treysta öryggi launafólks t.d. með myndalegri innspýtingu til Vinnumálastofnunar til að efla þjónustu og úrræði til stuðnings atvinnuleitendum,".
Fólk er að missa vinnuna umvörpum, og þar verður sprenging þegar fyrirtæki fatta að þau geti ekki greitt laun.
Í raun er það eina sem hugsanlega getur bjargað mörgum fyrirtækjum frá gjaldþroti er að stöðva allar launargreiðslur strax í dag, því tekjuflæðið dugar vart fyrir föstum kostnaði, hvað þá að greiða af lánum.
Þetta er katastrófa og hún fer aðeins versnandi.
Efnahagslíf heimsins stendur nú þegar frammi fyrir fordæmalausri kreppu, og farsóttin er rétt að springa út.
Hvernig verður þetta eftir tvær vikur??, tvo mánuði??
Að stöðva allt mannlíf er að stöðva alla atvinnustarfsemi, það er ekkert flóknara en það.
Í heimi þar sem hið frjálsa flæði á braski hefur magnað upp skuldir langt umfram raunframleiðslu, þá er slíkt bein ávísun á hrun fjármálamarkaða þegar loftið fer úr eignabólunni.
Efnahagsfaraldur mun geysa ekki síður en veirufaraldur.
Það er ekkert land framundan, aðeins lífróður til að halda þjóðarskútunni á floti.
Fávísu börnin sjá þetta ekki.
Og sjálfsagt tveir eða þrír stuðningsmenn þeirra líka.
En raunveruleikinn sér þetta.
Hann ræður.
Hann lifir ekki í draumi.
Hann segir, á stríðstímum eiga börnin að vera í sveitinni.
Ekki í ráðuneytum.
Og þú rífst ekki við raunveruleikann.
Kveðja að austan.
![]() |
Hefur trú á að um tímabundið ástand sé að ræða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
10.3.2020 | 13:52
Að pissa í skóinn sinn.
Kallast sú snilld að selja kuldagallann sinn uppá fjöllum, og halda svo á sér hita með því að senda volga bunu niður eftir lærinu.
Virkar ekki, en veldur vissulega skammtíma áhrifum.
Blessuð börnin átta sig ekki á alvarleik málanna.
Það blasir við.
Það er eins og þau fatti ekki hvað heimskreppa þýðir.
Það er eins og þau fatti ekki hvað það þýðir að þriðjungur gjaldeyristekna þjóðarinnar getur gufað upp út um gluggann án þess að útgjöld aðlagi sig að þeim kalda raunveruleika.
Það er eins og þau fatti ekki að þetta snýst ekki um íþyngjandi opinber gjöld, heldur algjört tekjufall með tilheyrandi greiðsluþroti, atvinnumissi og tekjutapi ríkissjóðs.
Það er eins og þau séu í sínum eigin heim og haldi að plástur dugi til að stöðva blæðingu holdsára. Ekki bráðaaðgerð á bráðamóttöku.
Fullorðinn maður skrifaði grein í Morgunblaðið í gær.
Börn tilkynntu aðgerðir sínar í dag.
Það blasir við af hverju börn eru send uppí sveit á stríðstímum.
En ekki látin stjórna.
Þar er himinn og haf á milli.
Kveðja að austan.
![]() |
Innspýting í hagkerfið og lengri greiðslufrestur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.3.2020 | 23:16
Blessað barnalánið.
Í hvert skipti sem ráðamaður er spurður um af hverju innflutningur á smiti sé ekki stöðvaður kemur alltaf sama svarið; "Við erum að grípa til mjög harðra aðgerða á Íslandi miðað við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur.".
Svo ég endurtaki, mjög harðar aðgerðir miðað við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur.
Eins og það sé eitthvað svar.
Aðgerðirnar í löndunum í kringum okkar duga ekki, réttlætir það eitthvað dugleysi okkar??
Að við höfum leyft innflutning á smiti frá sýktum svæðum frá fyrsta degi, og erum alltaf seinni til í aðgerðum okkar en veiran að dreifa sér.
Við værum ekki í þessum vanda í dag ef við hefðum strax lokað á skíðaferðalög til Ítalíu, værum hugsanlega með 3-5 smit tengd ákveðnum skíðasvæði í Austurríki, en ekki sögunni meir, því að sjálfsögðu hefði verið lokað á það svæði líka.
Síðan skýrar reglur, 14 daga sóttkví fyrir alla sem koma frá veirusvæðum.
Óþægindi??, vissulega, en óþægindi fyrir þá sem tóku áhættuna af ferðalögum, ekki fyrir saklaust fólk sem virti varúðarreglur og hélt sig heima fyrir.
Ábyrgðarleysi örfárra er látin bitna á fjöldanum, í stað þess að hún bitni á þeim sjálfum.
Og forheimskan er svo mikil að daginn eftir fjálglegar yfirlýsingar um mikilvægi að halda stóru spítölunum okkar gangandi, þeir væru slagæð heilbrigðiskerfisins, þá labbar hjúkrunarfræðingur þar inn, nýkominn frá smitsvæðum, og smitar.
Og höfuð bitið af skömminni að reyna réttlæta það sem aldrei átti að gerast með þeim rökum að viðkomandi hafi ekki komið frá skilgreindu hættusvæði.
Nágrannalönd okkar hafa ekkert staðið sig betur og munu uppskera sinn faraldur, en er það réttlæting á okkar??
Svona þegar mannslíf eru í húfi, og það mörg miðað við drápstölurnar frá Ítalíu.
Vita menn ekki að héðan af skiptir engu hvað Ítalir gera, þeir gripu of seint til nauðsynlegra aðgerða, þær munu ekki duga til að hemja faraldurinn.
Aðgerðirnar eru í raun sýndarmennska, eitthvað sem á að sýna að það séu ennþá stjórnvöld í landinu.
Við Íslendingar höfum hugsanlega ennþá tíma til að bjarga því sem hægt er að bjarga.
Smitið er ekki ennþá það útbreitt í þjóðfélaginu, eða vonum það.
En þá þarf að stöðva innflutning á nýsmiti, ekki seinna en í gær.
En þá er það blessað barnalánið.
Hikið, fumið og fátið sem fylgir því er bara ekki sú leiðsögn sem þjóðin þarf í dag.
Hvorki til að bjarga mannslífum eða bjargað því sem bjargað verður í efnahagslífi þjóðarinnar.
Það er táknrænt, fyrir forheimskuna og fávitaháttinn, að daginn sem almannavarnir voru virkjaðar, þá kom lítil klausa á Mbl.isum að skynlausar skepnur hefðu fengið leyfi til að flytja sýkla sem ógna bæði bústofnum sem og lýðheilsu þjóðarinnar, þvert gegn ráðleggingu okkar helstu vísindamanna þar um.
Það er eins og vitið sé ekkert, eða þroskinn þá ekki til staðar.
Algjörlega ósnortin af alvarleik lífsins.
Samtalið við þjóðina ekkert, fyrir utan örfáa statusa á feisbók.
Við eigum í stríði sagði landlæknir.
Réttilega.
En í stríðum eru börn send út í sveitir, í skjól.
Þau eru ekki látin leiða baráttuna, enda slíkt bein ávísun á ósigur.
Samt er þetta raunveruleikinn á Íslandi í dag.
Að börnin eru látin stjórna í stað þess að vera send upp í sveit.
En það er ekki börnunum að kenna.
Höfum það á hreinu.
Þar þurfum við að líta okkur nær.
Kveðja að austan.
![]() |
Erum að grípa til mjög harðra aðgerða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.3.2020 kl. 07:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.9.): 50
- Sl. sólarhring: 805
- Sl. viku: 4841
- Frá upphafi: 1487728
Annað
- Innlit í dag: 45
- Innlit sl. viku: 4173
- Gestir í dag: 45
- IP-tölur í dag: 45
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar