Sólveig, girtu upp brók.

 

Hættu að skríða fyrir valdinu.

 

Fáðu þér frekar göngutúr niðri í brimfjöru í fyrramálið og finndu í sálu þinni styrk formæðra og forfeðra þinna þegar þau lifðu af í þessa harðbýla landi okkar.

Rifjaðu svo upp augnablikið sem Halldór gerði ógleymanlegt í Paradísarheimt þegar íslenskir kotbændur tóku í höndina á Danakóngi og sögðu; "sæll frændi" og vísuðu þar í sameiginlega forfeður frá því á víkingaöld.

 

Eða á ég að minna þig á eina sögn sem föðurbróðir þinn skráði og sagði frá norðfirska sjóaranum sem fór út í heim á farskipum, og þegar hann lenti í því á fyrstu vakt sinni að bátsmaðurinn skipaði honum með þjósti að taka ofan fyrir skipstjóranum á fraktaranum, þá tók hann vissulega ofan, en það var í síðasta sinn því hann þeytti húfunni yfir borðstokkinn, og jafnvel í steikjandi sól miðbaugsins var ekki náð í annað húfulok.

Því hann tók ekki ofan fyrir einum eða neinum af auðmýkt, aðeins þegar hann heilsaði sjálfur, og var heilsað á móti.

 

Þú ert umkringd glefsandi hýenuhjörð sem rífur þig á hol ef þú sýnir hin minnstu veikleikamerki.

Og þó allar gæsir landsins séu sóttar og settar fyrir framan ráðherrabústaðinn, þá, í talgangslausu verki, er líklegra að þær hörfi úr görðum ef þú skvettir á þær vatni en að ráðherra taki mark á sönnum orðum þínum um aðför ríkissáttasemjara.

Ekki vegna þess að meiri líkur en minni er að þeirri aðför er stýrt úr ráðherrabústaðnum heldur ertu að tala við mann sem hefur selt sálu sína fyrir vald, ekki réttlæti.

 

Það er ekki góður ráðgjafi sem hefur ráðlagt þér að fara þessa feigðarför.

Og mundu að vond ráðgjöf afhjúpar yfirleitt hvar hugur liggur í raun.

 

Réttlæti skríður ekki.

Kveðja að austan.


mbl.is Vill hitta Guðmund Inga fyrir fyrirtöku á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve illa er komið fyrir einu samfélagi??

 

Þegar aðeins Sósíalista flokkur Íslands kveikir á perunni hve alvarlegt athæfi meint miðlunartillaga ríkissáttasemjara er að frjálsum kjarasamningum, sem og þeim skaða þegar hlutlaus embættismaður gengur erinda annars aðilans.

Eru það aðeins sósíalistar sem hafa það skynbragð að skilja að embætti ríkissáttasemjara á allt sitt undir gagnkvæmu trausti og trúnaði, jafnt samtaka launafólks sem samtaka atvinnurekenda, og með þessu gönuhlaupi sínu hefur hann í raun eyðilagt það kerfi sem hefur komið í veg fyrir svo mörg skemmandi átök á vinnumarkaðnum á liðnum árum og áratugum??

 

Hvar eru allir gapandi, gólandi flokkar Góða fólksins sem hafa hrópað hátt á Alþingi af minna tilefni??

Og oft af engu tilefni?

Sem og það sem verra er, hvar eru ríkisstjórnarflokkarnir, þessi stjórn var jú stofnuð um stöðugleika og ábyrgð, hví þegja þeir þegar til skamms tíma er reynt að hleypa öllu í bál og brand, til lengri tíma að eyðileggja öll heilbrigð samskipti í Karphúsinu??

 

Sólveig Anna hefur verið gagnrýnd fyrir að vera sósíalisti og eiga sér bakland í Sósíalistaflokknum.

En skilja menn ekki að þegar aðrir bregðast, þá er valkostur láglaunafólks, valkostur láglaunakvenna ekki mikill.

Í raun enginn líkt og hin æpandi þögn hefðbundinna stjórnmálaflokka sannar.

 

Í upphafi skyldu menn endinn skoða, sem og við ættum öll að spyrja okkur, er það eðlilegt að ein hógvær krafa, krafan um að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum, veki þessi harkalegu viðbrögð.

Að sjálfsögðu er ekki bara við atvinnurekendur að sakast, mjög stór hluti þeirra glímir við erfiðleika að láta enda ná saman, líkt og er hjá láglaunafólki.

 

Í raun liggur meginsökin í samfélagsgerð okkar og þeim sið, eða réttara sagt ósið, að telja það sjálfsagt að byggja velferð og velmegun á innflutningi bláfátækra og skammta þeim smánarlaun svo vart er hægt að tala um annað en nútímaþrælahald.

Kerfi sem gengur kannski á meðan endar ná saman, en gengur ekki þegar allt snarhækkar nema launin.

 

Við sem þjóð ættum að staldra við og hlusta, í stað þess að berja niður.

Það væri gæfuspor, og það gæfuspor skilja sósíalistar.

 

Þetta snýst jú allt um sið.

Ekkert annað.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Sósíalistar fordæma framgöngu ríkissáttasemjara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugmæli.

 

Öll embætti, hversu mæt þau annars eru, geta lent í klóm hagsmunaaðila, og hætta því að gegna hlutverki sínu, verða svona Leppar og Skreppar þeirra hagsmuna sem þau þjóna.

 

Í dag er það öfugmæli að kalla Aðalstein Leifsson; ríkissáttasemjara, og tillögu hans; miðlunartillögu.

Aðalsteinn gengur erinda annarra, ekki þess embættis sem honum var trúað fyrir, og meint miðlunartillaga hans er grímulaust tilboð Samtaka Atvinnulífsins sem Efling hafði þegar hafnað.

 

Rök Aðalsteins halda ekki vatni, þau eru vanvirðing við bæði skynsemi sem og hlutverk og tilgang embætti hans.

Hann segir deiluna komna í hnút vegna þess að menn nýttu aðeins mínútu til að spjalla saman.  Ef hann er ekki skyni skroppinn þá veit hann að slíkt er aðeins eðlilegt í átakaferli þegar menn skekja skildi og hrópa ókvæðisorð að hvorum öðrum, svona bara uppá pepp og móralinn.

Efling hefur ekki einu sinni fengið samþykki félagsmanna sinna fyrir takmörkuðu skæruliðaverkfalli sínu, hvað þá að félagið hafið boðað til allsherjarverkfalls.

Sem þjálfaður samningamaður á Aðalsteinn að vita að deilan er ennþá í gerjun, á eftir að springa út, og þá á hún eftir að þroskast, aðeins þá kemur í ljós styrkleiki verkfallshótunar Eflingar sem og vilji atvinnurekanda að standast þá hótun.

 

Auðvita veit Aðalsteinn þetta, hann er enginn heimskingi þó hann kjósi að spila sig slíkan, en þeir sem ganga erinda annarra grípa oft til undarlegra röksemda til að réttlæta erindarekstur sinn.

Öllu alvarlegra er þegar Aðalsteinn missti út úr sér að hann hefði viljað að félagar Eflingar fengju að greiða atkvæði um tilboð Samtaka atvinnulífsins, eins og það væri hans hlutverk að meta slíkt.

 

Þetta er ekki heimska, þetta er aðför, og hann má ekki komast upp með hana.

Ekki frekar en ríkislögreglustjóra að banka upp hjá fólki og leggja undir sig eigur þess í krafti embættis síns, og þegar fólk neitar, þá beiti hann valdboði  til að knýja fram rupl sitt.

 

Í þessu tilbúna dæmi eiga undirmenn ríkislögreglustjóra og dómstólar að neita embættisvaldinu, í hinu raunverulega dæmi á Efling ekki að virða Aðalstein viðlits eftir að ljóst var að hann væri kominn í erindarekstur.

Og væri einhver döngun hjá öðrum í kerfinu þá myndu þeir hundsa beiðnir hans um inngrip lögreglu og dómsstóla.

Umgangast hann eins og Persona non grata eins og hann er í dag.

 

Vilji sá sem Aðalsteinn gengur erinda fyrir að félagsmenn Eflingar greiði atkvæði um lokatilboð Samtaka atvinnulífsins, þá geta viðkomandi sjálfir snúið sér til dómsstóla með þá kröfu sína.

Ekki nota embætti Ríkissáttasemjara sem millilið.

Því annað er í raun aðför að leikreglum sem ætlast er til að allir virði.

Bein eyðilegging á því embætti sem Aðalsteinn Leifsson gegnir.

 

Þó menn telji mikla ógn stafa af þeirri hógværu kröfu Eflingar að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum, þá hljóta þessir sömu menn, þessir sömu hagsmunaaðilar, að hafa önnur úrræði til að brjóta þessa ósvífni á bak aftur en að fórna samningakerfinu á vinnumarkaðnum sem hefur reynst honum svo vel.

Því öfugmæli Aðalsteins ganga af því kerfi dauðu séu þau knúin fram með valdboði.

 

Það er stór fórn til að stöðva eina manneskju.

Jafnvel þó hún berjist fyrir réttlæti.

 

I have a dream.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Launareiknivél ríkissáttasemjara komin í loftið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krókódílatár Starfsgreinasambandsins.

 

Allir vita sem eitthvað hafa komið nálægt verkalýðsbaráttu, sem og reyndar allir sem hafa heilbrigða skynsemi til að bera, jafnvel dugar að vera bara ekki mjög vitlaus, vita að inngrip Ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka Atvinnulífsins er bein aðför að eina vopni verkalýðshreyfingarinnar.

Verkfallsréttinum.

Rétti, sem tók bláfátækt verkafólk síðustu alda áratugi með jafnvel blóðugri baráttu í sumum löndum, að öðlast.

 

Verkalýðshreyfingin gefur þann rétt ekki eftir baráttulaust, ekki nema hún sé ofurliði borin af skriðdrekum og vélbyssum vopnaðra hermanna.

Ætli menn að vega að þessum rétti með krókaleið laganna, þá á verkalýðshreyfingin að mæta þeim ólögum af fullum þunga.

Lýsa því yfir að sátt sé rofin, og hún verði ekki aftur nema að leikreglunnar séu virtar.

 

Sjaldan hef ég skrifað færslu með eins djúpum trega eins og um þessi krókódílatár Starfsgreinasambandsins.

Þetta fólk veit ekki lengur í hvaða liði það er.

Kveðja að austan.


mbl.is Dómstólar skeri úr um lögmæti tillögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grillir í brúðuleikstjórann.

 

Ef Halldór Benjamín er svona viss að Eflingarfélagar vilji SGS samninginn, þá veit hann líka að þeir samþykkja ekki verkfallsboðun samninganefndar félagsins, svo einfalt er það.

Það er ekki hans hlutverk að beita bolabrögðum til að fá þann samning til atkvæðagreiðslu.

Og hann á ekki að vera svo mikill auli að vita ekki að séu leikreglur ekki virtar, þá eru forsendurnar fyrir þeim brostnar, og við tekur vargöld og vígöld.

 

Að fórna Ríkissáttasemjarar voru mikil mistök.

Kveðja að austan.


mbl.is Telur félagsfólk Eflingar vilja SGS-samninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju á Efling að starfa með erindreka??

 

Manni sem lætur nota sig til óhæfuverka??

Ég bara spyr.

 

Aðalsteinn Leifsson hefur vanvirt embætti Ríkissáttasemjara.

Í dag gengur hann erinda atvinnurekanda líkt og ofbeldismennirnir sem bandarískir atvinnurekendurnir nýttu til að lemja á verkamönnum í átökum kreppuáranna á síðustu öld.

Nema hann er aðeins fínni og í stað þess að nota vöðvaaflið, þá misnotar hann lögin um embætti sitt.

 

Með þessum manni á enginn að starfa og verkalýðshreyfingin, ekki bara Efling, á að senda skýr skilaboð til stjórnvalda að embætti Ríkissáttasemjara er dautt þar til Aðalsteinn er látinn víkja.

Allt annað er óeðlilegt, samsinnun eða samdaunun með lagaofbeldi manns sem gengur erinda.

 

Þetta er ekki spurning, þetta er ekki val, þetta er nauðsyn.

Sjálfar leikreglur vinnumarkaðarins eru undir.

 

Þær þarf að verja.

Kveðja að austan.


mbl.is Ekkert bólar á skrá Eflingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikbrúðan.

 

Eitt er að Samtök Atvinnulífsins með öllum sínum kostuðu vinnumönnum og skítadreifurum, í vanheilögum bandalagi með Góða fólkinu, standi fyrir forkastanlegri rógsherferð gegn persónu og forystu Sólveigu Önnu, líkt og allur urgur í vinnandi fólki um alla Evrópu sé henni að kenna en ekki bágum kjörum fólks sem nær ekki endum saman.

Annað er þegar ríkissáttasemjari grípur beint inní atburðarrásina og gengur annað hvort erinda stjórnvalda eða atvinnurekenda til að knésetja kjarabaráttu Eflingar.

Það er eins og menn treysti ekki lengur sínum eigin skítameðulum og því sé ríkissáttasemjara fórnað, trúverðugleik hans og hlutleysi að engu gert, bara ef það tekst að stöðva Sólveigu Önnu og réttlætisbaráttu hennar.

 

Munum, að það er ekki hægt að rífast við þessi orð Sólveigu Önnu; "Það er einkenni siðmenntaðra samfélaga að fólk geti séð fyrir sér með þeirri vinnu sem það ástundar".

Þau er grundvallarforsenda siðmenningarinnar, geirnegld í kristnum siðaboðskap; að verðugur sé verkamaður launa sinna.

 

Það er fölsk þjónusta sem byggist á launum sem ekki er hægt að lifa af mannsæmandi lífi.

Fæði, klæði, húsnæði.

 

Láglaunastefna er eitt, hungurlaunastefna er annað.

Og ef svo er komið í samfélagi okkar að ekki er hægt að veita grunnþjónustu ríkis og sveitarfélaga nema með innflutningi á fátæku fólki sem tekur því sem næst öllum kjörum sem er í boði, því þau eru samt langt um betri en þau sem bjóðast heima fyrir, að þá verðum við að hugsa hlutina uppá nýtt.

Því það er ein birtingarmynd þrælahalds.

 

Og ef heilu atvinnugreinarnar segjast ekki getað rekið sig nema við slíkum innflutningi og slíkri hungurlaunastefnu, þá mega þær einfaldlega missa sig.

Því þá byggist velmegun okkar á svipuðum grunni og auður hvítra plantekrueiganda í Suðurríkjunum í gamla daga.

Gegnrotinn í gegnrotnuðu samfélagi.

 

Að fórna ríkissáttasemjara fær þar engu breytt.

Hið frjálsa flæði Góða fólksins um lægstu laun, um hungurlaun, er komið á Endastöð.

 

Höggvi menn Sólveigu Önnu, þá sprettur aðeins upp ennþá herskárra baráttufólk.

Og þá hafa menn engan hlutlausan aðila sem menn geta treyst.

Jafnvel þó Aðalsteinn víki því embættið sem slíkt er rúið trausti.

 

Er Sólveig Anna virkilega svona skerý??

Kveðja að austan.

 


mbl.is Telur sér stætt áfram óháð niðurstöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverkamaður gíslar Nató.

 

Erdogan Tyrklandsforseti er einræðisherra af nýja skólanum.

 

Hann nýtti sér lýðræðið til að komast til valda, og hann nýtir sér síðan stofnanir þess eins og dómstóla til að halda þeim völdum.

Í stað þess að falsa niðurstöður kosninga líkt og einræðisherrar af gamla skólanum gera sbr Lúkasjenkó forseti Hvíta Rússlands, þá nýtir hann sér dómstóla landsins til að fangelsa þá stjórnmálamenn sem ógnað gætu honum í kosningum.

 

Erdogan varð einræðisherra þegar hann skipulagði sjálfur meinta valdaránstilraun hersins gegn sér, hrekklausir herforingjar voru plataðir til að senda nokkur ungmenni úr hernum út á götur Ankara, þeim sagt að þeir væru að vernda ríkisstjórnina gegn yfirvofandi valdaráni.

Á sama tíma voru síðan sendar flugvélar til að skjóta á dvalarstað hans, en hann ekki sagður heima því Pútín af öllum mönnum hafi átt að hafa varað hann við.

Ótrúverðugari atburðarrás er vart hægt að hugsa sér, en þegar í kjölfarið einhverjum klerki, sem ógnaði völdum Erdogans innan íslamska miðaldaheimsins, og hann hafði hrakið í útlegð til Bandaríkjanna, var kennt um hið meinta valdarán, og í kjölfarið voru tugþúsundir handtekin, þá var ljóst að hið raunverulega valdarán var valdarán Erdogans á lýðræðisstofnunum Tyrklands.

Fólk sem laut ekki valdi hans innan hers, dómstóla, menntastofnana, var handtekið, pyntað og síðan dæmt í sýndarréttarhöldum sem jafnvel Stalín hefði talið vafasöm.

En vestræn ríki létu yfir sig ganga og fjölmiðlar spiluðu með.

 

Tyrkland breyttist úr lýðræðisríki í einræðisríki, og smán saman var ljóst að hryðjuverkamaður stjórnaði því.

Meðal afreka Erdogans var að skipuleggja nokkur mannskæð sprengjutilræði í borgum Tyrklands, einhverjum Kúrdum kennt um, sönnunin átti að vera að við húsleit heima hjá þeim fundust skjöl sem áttu að hafa tengt viðkomandi við stjórnmálasamtök Kúrda. 

Hvað er á milli eyrnanna á fólki, sem trúir að sá sem ætli sér að fremja hryðjuverk skilji eftir nafn og kennitölu meintra stjórnenda sinna, má alveg íhuga, en þegar Erdogan nýtti sér þessar sprengingar til að hefja gjöreyðingarstríð gegn Kúrdum, með sprengjuárásum, morðum, nauðgunum, pyntingum, þá getur enginn verið svo einfaldur að sjá ekki fingraför hans og tilgang.

 

Alvarlegustu glæpir Erdogans eru samt líklegast beinn stuðningur hans við hugmyndafræðilega samherja sína í Ríki Íslams.

Hvernig ráðafólk á Vesturlöndum, þar á meðal núverandi og fyrrverandi utanríkisráðherrar Sjálfstæðisflokksins, gátu setið til borðs og skálað við Erdogan, eftir að ekki var lengur hægt að líta undan þegar ómennska íslamista í Sýrlandi var afhjúpuð, afhjúpun sem þeir sjálfir sáu um að dreifa samviskusamlega á víðáttum alnetsins, er eitt af leyndarmálum mannshugans sem vísindafólk á ennþá eftir að afhjúpa.

En að líða Erdogan að skjóta skjólhúsi yfir leifunum að hersveitum ómennanna, og nýta þær síðan til hefndarinnrásar á yfirráðasvæði Kúrda í Sýrlandi, er óskiljanlegt, á pari við að horfa í hina áttina þegar ljóst var hvað átti sér stað í meintum vinnubúðum nasista.

Reyndar má líka spyrja hvar voru femínistar þessa heims þegar fréttir bárust af misþyrmdum líkum herkonum Kúrda, kynferðislegar misþyrmingar, afskorin brjóst, var meinið kannski að það var allt skjalfest og staðfest, en ekki slúður sem drífur áfram byltingar þeirra í dag??

 

Orðið óskiljanlegt nær hins vegar ekki yfir hvernig þessi hryðjuverkamaður er gerður að hetju þegar hann þóttist hafa milligöngu milli vinar síns Pútíns og umheimsins um að korni yrði skipað út frá höfnum Úkraínu

Eða að hann skuli ennþá sitja til borðs með leiðtogum heimsins í stað þess að gista fangaklefa í Haag bíðandi eftir dómi vegna glæpi gegn mannkyninu.

 

Og að hann og Litli Pútín skulu hafa neitunarvald hjá varnarbandalagi lýðræðisríkja, það getur aðeins vakið upp spurningar um, hvað býr í raun að baki þessa stríðs í Úkraínu??

Hverjum hagsmunum er í raun verið að þjóna??

Því orðum er hægt að stjórna, en gjörðir afhjúpa alltaf.

 

Sagan um Erdogan er dæmisaga þar um.

En hvað segir hún í raun??

 

Efa samt að Hamlet sæi nokkurn efa þar um.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Óvissa uppi um inngönguna í NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju mun Biden svara??

 

Nýja trúnaðarskjalamálið í Washington vindur upp á sig.

Eftir að fleiri staðir sem tengjast Biden í gegnum tíðina eru tékkaðir, þá finnast trúnaðarskjöl, stundum fá, stundum fleiri.

 

Á sama tíma hefur furðuleg þögn grafið um sig hjá fólkinu sem lét sem hæst þegar Trump greyið var staðinn að því að flytja trúnaðarskjöl í sendibílaförmum til híbýla sinna.

Það er eins og mætti halda að það skipti máli hver felur og hver ekki, ekki sé verið að fordæma meintan glæp, heldur að ná höggstað á andstæðing.

Leikreglur lýðræðisins skipti litlu, en kaldar refjar skítugrar valdabaráttu mestu.

 

En það var ekki erindið með þessum fáum orðum mínum.

Heldur spurningin; Hverju mun Biden svara þegar hann verður spurður um nýjasta fundinn?

 

"Ég man það ekki".

Og það munu allir trúa honum.

 

Svo illa er komið  fyrir vestrænni forystu.

Á tímum þegar sjálf framtíðin er undir.

 

Hvernig gat þetta gerst??

Kveðja að austan.

 


mbl.is Fleiri trúnaðarskjöl fundust á heimili forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur, vertu ekki gunga.

 

Segðu núna einu sinni alveg satt, ekki hlut-satt, eða næstum því satt.

Þú varst í ríkisstjórn sem var mesta helfararíkisstjórn á friðartímum í nútímasögu Vesturlanda. Aldrei hafa hlutfallslega fleiri íbúar eins lands verið hraktir af heimilum sínum, eða látnir sæta búsifjum árangurslausra fjármuna en í þeirri ríkisstjórn sem þú sast í.

 

Aðeins ógnarstjórn nasista vó dýpra af þegnum sínum, og það var vegna kynþáttahyggju, og þá voru ógnartíma ófriðar, í Þýskalandi lauk í raun aldrei fyrri heimsstyrjöldinni fyrr en 1945, með ósigri ógnaraflanna.

Almenningur á Íslandi kaus ykkur hinsvegar í burtu í þingkosningunum 2013, og ennþá búa kjósendur Norðurlands Vestra við brennimark hinnar algjöru smánar, að haldið lífi í Samfylkingunni, þegar sá flokkur átti hvergi heima nema á öskuhaugum sögunnar.

 

Þú hins vegar Ögmundur varst um margt sértækur, þú varst eins og norsku andspyrnumennirnir sem þóttust gagna erinda hernámsliðs nasista, en unnu allan tíma í þágu lands og þjóðar, frá fyrsta degi var augljóst að þú vannst gegn hernámi erlendra og innlendra hrægamma, án þín hefði margt orðið verra.

Svo hafði þú manndóm að hefja ferlið sem endaði með réttlæti í Geirfinnsmálinu.

 

Þess vegna Ögmundur Jónasson þolir þú sannleikann.

Allan sannleikann.

Segðu hann.

Kveðja að austan.

 

PS.  Allt ærlegt fólk veit að það var rangt að ákæra Geir, og það hafa þegar margir stuðningsmenn Helfararíkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur viðurkennt og játað sekt sína, og beðist afsökunar, og verið fólk af meiri.


mbl.is Ögmundur: Rangt að ákæra Geir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (5956)
  • Screenshot (5957)
  • Screenshot (5952)
  • Screenshot (5951)
  • Screenshot (5886)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 10
  • Sl. sólarhring: 747
  • Sl. viku: 3559
  • Frá upphafi: 1482897

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 3095
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband