Hvaðan kemur þessi ljótleiki??

 

Og hvað fær fólk til að tala svona um annað fólk??

 

Þetta er  ekki stjórnmál, þetta er ekki vitrænt, en þetta er raunveruleiki.

Og á sína forsögu.

 

Það er óþarfi að fara aftur á fjórða áratug síðustu aldar til að rifja upp hvernig valdgírugir stjórnmálamenn kynntu undir rasisma til að komast í valdastólana.   Óþarfi að rifja upp hvernig þeir eignuðu heilum þjóðfélagshópum ákveðna dýrslega eiginleika, ómennsku, og allt það lægsta sem hægt var að ætla öðrum einstaklingum.

Við sjáum þetta í dag um alla Evrópu, hvernig ýtt er undir hatur og fordóma, gagnvart innflytjendum, gagnvart hinum meintu óæðri kynþáttum, eða gagnvart heilum starfstéttum eins og ríkisstarfsmönnum, sem eiga að þykja bæði latir, hysknir og óþarfir.

Og við sjáum þetta hér á Íslandi, allan óþverrann frá a til ö.

 

Í frétt Mbl.is um hið ógeðfelda kynþáttaníð sem Frakkar líða í nafni málfrelsis, að rætur þess er rakið til hægri öfgamanna.

Við Íslendingar höfum heyrt talað um þessa hægri öfgamenn, en höfum við hugleitt hvar þeir eru??

Eru þeir með sinn eigin flokk, sitt eigið málgagn, sínar eigin níðsveitir??

Hver er hið meinta últra hægri á Íslandi??

 

Ég fór að hugleiða þetta í morgun eftir að ég las góða status Guðmundar Franklín, formanns Hægri Græna, á feisbókinni, og mig langar að vitna í orð hans, því mér brá mjög þegar ég las þau.

Það er eins og eldingu hafi lostið í huga minn, og ég sá atburði síðustu vikna í skýrara ljósi.  Af hverju ég missti endilega þolinmæði á núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins þegar drengstauli  fékk að tjá sig í þingsal eins og hver annar bjáni, og eldri og vitrari menn létu kjurt liggja.  Ráku hann hvorki úr ræðustól eða settu hann á kné sér og flengdu. 

Áður en ég birti status Guðmundar þá langar mig að geta þess að margir stjórnmálaskýrendur hafa sett flokk hans, HægriGræna til hægri við Sjálfstæðisflokkinn, eins hlálegt það nú er því HægriGrænir kynntu vitræna leið, hina svokallaða Skiptileið, til að aflétta skuldaánauð almennings, á meðan forysta Sjálfstæðisflokksins telur eðlilegt að forsendubrestur verðtryggingarinnar þurrki millistéttina út.

Ég las ekki neitt últra hægri úr status Guðmundar, þvert á móti víðsýni og umburðarlyndi, og einmitt það vakti upp í huga mér spurningar, hvaðan kemur ljótleikinn??

 

En þetta er það sem Guðmundur Franklín sagði; 

 
Á Íslandi er allt öfugt eða á haus. Við berjumst á móti framförum, rannsóknum, hjálp við náungann og öllu sem viðkemur listum. Erum við svona lítil þjóð og vitlaus, eða eru þetta bara fáeinar háværar raddir. Hvað sem það er, þá getum við ekki staðið í þessu endalausa rifrildi um hluti sem flestir vilja og eru stoltir af að hafa og geta boðið uppá.
 

Hverjir eru þetta sem agnúast út í hjálp við náungann, leggja til að framlög til rannsókna og þróunar séu skorin við trog, siga stuðningsmönnum sínum á listir og menningu, níða niður ríkisstarfsmenn eða ástunda almennt rasisma við hið minnsta tækifæri??

 

Í huga mér fór til dæmis það broslega atvik  þegar Vigdís Hauksdóttir óð uppí ræðustól Alþingis og spurði heilbrigðisráðherra hvernig háttað væri læknisþjónustu fólks utan EES svæðisins.  Hvort kostnaður við það félli á ríkið.  Sem formaður fjárlaganefndar átti Vigdís að vita svar ráðherra, og ég hélt að einhverja leiksýningu væri að ræða, en þegar Kristján Þór Júlíusson útskýrði það kurteislega fyrir Vigdísi að þeir greiddu allan sinn kostnað, þá kom Vigdís uppí ræðustól og spurði hvort ekki væri hægt að hækka þann kostnað?!!!.

Eins og það sé hægt að hækka það sem þegar er að fullu greitt, eins og að veikindi fólks væru sérstakur skattstofn sem ríkið mætti hafa tekjur af.  

Og ég hætti að hlæja að Vigdísi, fattaði að að baki lá sá kaldi hugur að efna til ófriðar við fólk sem flokkast undir þann skelfilega hóp, útlendingar.  Og hún hljóp svona á sig þegar hún sá bombu sína renna út í sandinn, hinir meintu útlendingar greiddu fyrir þá þjónustu sem þeir fengu frá ríkinu.

 

Mér var líka hugsað til Ásthildar Friðriksdóttur, þegar hún réðist á þetta voðalega fólk, fólk á bótum.  Vildi bætur þess lækkaðar svo það færi að vinna.

Stimplaði heilan hóp sem ónytjunga, efndi til ófriðar við hann til að tryggja sér betri kosningu í komandi prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Fyrir utan ómerkilegheitin, þá kom þetta úr hörðustu átt því Sjálfstæðisflokkurinn ber meginábyrgð á óförum þessa fólks, hann byggði upp kerfið sem auðmenn nýttu sér, hann spornaði ekkert við ránskap þeirra, þvert á móti, hann kvatt þá áfram.

Í gamla daga þegar fólk var fólk, og viðrini viðrini, þá hét þetta að kunna ekki að skammast sín.

En ef sjálfsæðismenn tóku ekki undir orð Ásthildar, þá þögðu þeir.

Enginn sagði, "svona gera menn ekki", líkt og sagt var við föður hennar forðum.

Hvað segir þetta um móralinn í þeim ágæta flokki??  Er hann fallegur??

 

Þetta virkað sem undantekning þegar þetta gerðist, en ég lít það öðrum augum í dag.

Það er eins og einhver flóðgátt hafi opnast eftir að hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar birti tillögur sínar.

Flóðgátt ljótleika og skítkasts út í heila stétt fólks, sem mér vitanlega er eins misjöfn og almennt gengur og gerist, og ég fullyrði að þeir einstaklingar sem hana skipa, hafa ekki gert öðru fólki eitt eða neitt sem  réttlætir óhróðurinn og illmælin.

 

Ég fékk þessa athugasemd inná blogg mitt í gær, það skiptir ekki máli hver skrifaði hana, og ég vona að hún hafi verið sögð í fljótfærni, og að viðkomandi hafi ætlað sér að segja eitthvað allt annað, en það sem hann sagði.

 
Það skal enginn segja mér að eins og hægst hefu á hagkerfinu að allt það fók sem treður út stofnanir ríkisins hafi eitthvað að gera allann daginn og að þeim megi ekki fækka.
 

Það má endalaust rífast um hlutverk ríkisins, og hvort hinn alltum liggjandi faðmur sé ekki orðinn of þrúgandi, og það á að taka þá umræðu, á öllum tímum, en á faglegum forsendum, ekki á forsendum rasismans.

Það eru stjórnmálamenn sem ákveða kerfið og setja reglurnar, og það er við þá að sakast ef eitthvað má betur fara.  

En að ætla ríkisstarfsmönnum sem hóp að vara latir og hysknir, og í mörgum tilvikum óþarfir því þeir gera ekkert í vinnu sinni, er hreinræktaður rasismi.

Og er ástundaður mjög af mörgum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar í dag.

 

Bætum við ófriðnum gegn listum og menningu, gegn náttúruvernd og umhverfisfólki, gegn útlendingum, gegn öllum þeim sem liggja við höggi á akri fordómanna, og þá blasir við skelfileg mynd.

Ljótleikinn er meinstrím, hann er nýttur í þágu valda og hagsmuna.

Hann hvorki bundinn við últra hægri eitthvað eða á rætur að rekja þangað.

Upptökin eru hjá stærstu stjórnmálaflokkum þjóðarinnar, og þar má finna hljómgrunninn.

 

Þetta eru alvarleg orð, en þetta eru rétt orð.

Þetta er raunveruleikinn eins og hann blasir við í dag.

Og vitiborið fólk í Sjálfstæðisflokknum getur ekki hundsað þennan raunveruleika.

Hin æpandi þögn þess er í besta falli meðvirkni en úr henni er stutt í þögult samþykki.

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður glímt við öfga og óþverra.

Fordómar þjóðernissósíalista bergmáluðu innan flokksins á fjórða áratug síðustu aldar.

Sérstaklega hjá ungliðum hans.

 

Þá bar flokknum gæfa að eiga alvöru menn, sem höfðu manndóm og kjark til að glíma við þessa fordóma, og einangra þá hjá fámennum flokki sérvitringa sem siðað fólk átti engin samskipti við.  Það er á stjórnmálasviðinu.

Fræg er ræða Bjarna Benediktssonar hjá Stúdentafélagi Reykjavíkur, þar sem hann ræðir lýðræði, forsendur þess, og þau gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn byggði stefnu sína á.

Gildi sem fordæmdu ljótleika rasismans, fordæmdi kuldann gegn náunganum, hafnaði öfgum og andsamfélagslegum áróðri (líkt og atlagan af listum og menningu er).

 

Sjálfstæðismenn ættu að finna þessa ræðu Bjarna Ben og lesa hana kvölds og morgna þar til þeir skilja hvað felst í því að vera sjálfstæður maður, gjörandi rétt og ekki þolandi órétt.

Mér er til efs að ljótleikinn myndi þola þann lestur.

 

En ég veit ekki.

Það eru aðrir tímar.

Aðrir forystumenn.

Og hið vitiborna fólk, öldungar flokksins, hafa misst málið.

 

En ræða Bjarna var sterk.

Það vegur á móti.

Sígild, og jafnmikið erindi í dag, og þá.

 

Og hver vill ljótleikann, eins ljótur og hann er

Svari hver fyrir sig, en ég veit samt það svar.

 

En veit ekki hvort aðrir viti það svar.

Kveðja að austan.


mbl.is Kynþáttaníð á forsíðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glataða kynslóðin!!

 

Eru orð sem forystumenn Evrópusambandsins eru farnir að nota um þessi atvinnulausu ungmenni.

Það er ekki þannig að þeir vita ekki af vandanum.

 

Verst er ástandið í Grikklandi og á Spáni.

Þegar ástandið var sem verst í svörtustu Afríku, þá var ástandið samt ekki svona slæmt.  

Orðið "svartasta" vísaði ekki í húðlit íbúa álfunnar heldur ástandið, að það væri svo svart.

Og þetta svarta ástand stafaði af fátækt, vanþróun, spillingu.

 

Í Evrópu er skýringin mun einfaldari, hið svarta ástand er mannanna verk.

Verk þeirra íhaldsmanna sem tóku við völdum í þessum löndum eftir efnahagshrunið 2008.

Þeir áttu það allir sammerkt að boða niðurskurð og skattahækkanir til að mæta minnkandi tekjum ríkissjóðs, halda fast í fastgengi gjaldmiðils, og boða betri tíð þegar tökum væri náð á skuldasöfnun ríkissjóðs.

Og höfðu allir jafnt rangt fyrir sér, hafa steypt þjóðum sínum í glötun.

 

Á Íslandi gagnrýndu andstæðingar Evrópusambandsins þessa efnahagsstefnu harðlega.  

Bentu á ágalla hennar, bentu á afleiðingarnar.

Fremst má telja Morgunblaðið undir ritstjórn Davíðs Oddssonar, Evrópuvakt Styrmis Gunnarssonar og Heimssýn, regnhlífarsamtök Evrópuandstæðinga, lengi undir forystu Ásmundar Daða Einarssonar.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks,  tóku iðulega undir þennan málflutning, með einni undantekningu þó, Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins varði alltaf þessa stefnu kollega sinna í Suður Evrópu, var sammála þeim í öllum meginatriðum.

 

Sjónarmið Bjarna urðu ofaná í Sjálfstæðisflokknum og í kosningabaráttu sinni lagði flokkurinn mikla áherslu á að "ná tökum á ríkisfjármálum", eins og það væri eitthvað að ríkisfjármálum en ekki að það væri rangt að láta ríkissjóð, en ekki Seðlabankann, fjármagna endurreisn bankakerfisins.

Þess má geta að ríkissjóður Bandaríkjanna hefur ekki lagt krónu í sambærilega endurreisn þar í landi, Seðlabanki landsins hefur alfarið séð um það.  Bandarískir skattgreiðendur voru ekki látnir greiða fyrir skuldir óreiðumanna.  Tek þetta fram til að sýna hversu óeðlilega eða hreinlega afbrigðileg þessi skoðun Bjarna Benediktssonar er, andstæð frjálsum viðskiptum í frjálsu markaðsþjóðfélagi.

 

Stefna Sjálfstæðisflokksins varð síðan að stefnu núverandi ríkisstjórnar, þrátt fyrir Keynískar áherslur Framsóknarflokksins í kosningabaráttunni.  

Sjálfstæðisflokkurinn stóð við stefnu sína, Framsóknarflokkurinn sveik allt sem hann sagði.  Þekkt munstur frá síðustu ríkisstjórn þar sem VinstriGrænir voru í hlutverki þess flokks sem sveik.

 

En bregður svo við að hin áður gagnrýnda stefna leiðtoga þeirra ríkja Evrópusambandsins sem áttu í efnahagserfiðleikum, og hefur haft þær skelfilegar afleiðingar að atvinnuleysi ungmenna er verra en var í svörtustu Afríku á sínum tíma, að núna er hún talin skynsamleg og ábyrg af þeim sem áður gagnrýndu hana.

Morgunblaðið undir ritstjórn Davíðs Oddssonar gengur meir að segja svo langt að reyna að telja landsmönnum í trú um að fyrri ríkisstjórnir flokksins hafi sýnt þá lausung í ríkisfjármálum, að hægt sé að spara tugi milljarða í ríkiskerfinu, án þess að það skerði þjónustu ríkisins eða gera stofnunum þess ókleyft að sinna lögboðnu hlutverki sínu.

Aldrei í þekktri stjórnmálasögu hefur stjórnmálamaður kveðið upp eins harðan dóm yfir sjálfum sér eins og Davíð Oddson gerir í leiðurum Morgunblaðsins þessa dagana.  Að það hafi verið blekking ein að hann hafi haft tök á ríkisfjármálum og stjórn á útþenslu kerfisins.  

Eftir samfelldan fjögurra ára niðurskurð Steingríms Joð Sigfússonar sé ennþá hægt að skera niður kerfið sem stjórnmálamaðurinn Davíð Oddsson ber ábyrgð á, um tugi milljarða, án þess að hrófla við lögbundnu hlutverki ríkisins og ríkisstofnana.

 

Sjálfsagt má fær rök fyrir því að Davíð Oddsson viti hvað hann er að segja, hann þekkir jú til.

En það breytir samt ekki þeim hagfræðilegum rökum að niðurskurður á krepputímum eykur kreppuna en dregur ekki úr henni.

Þetta er hagfræðileg staðreynd sem menn þekktu fyrir fjármálahrunið 2008, og þó íhaldsmenn á Spáni og Grikklandi hafi haldið öðru fram, þá breyttu orð þeirra ekki raunveruleikanum.

Þeir hafa eyðilagt heila kynslóð ungmenna, þeir hafa stórskaðað þjóðir sínar, bæði í núi en sérstaklega í framtíð.

Og orð munu heldur ekki fá breytt þessari hagfræðilegu staðreynd á Íslandi.

 

Kreppan mun dýpka og atvinnuleysi aukast fyrir tilverknað núverandi ríkisstjórnar.  

Hún skaðar bæði samfélagið í núinu og skemmir fyrir framtíðinni.

En Evrópuandstæðingar þegja þegar þeirra menn eiga í hlut.

Núna virðist ekki lengur gagnrýni þeirra á Evrópusambandið byggjast á hagfræðilegum rökum, heldur sé ástandið svona slæmt því Evrópusambandið byrjar á E-i og gjaldmiðillinn á E-i.  

Slík samsvörun sé alltaf ávísun á kreppu.

 

Á Íslandi sé hins vegar alltí lagi að halda í verðtryggðan fastgengisgjaldmiðil, því hann heitir króna, og það sé alltílagi að skera niður og hækka skatta, því Ísland heitir Ísland, en ekki eitthvað nafn sem byrjar á E-i.

Eða hvernig á að útskýra þennan viðsnúning, þessa blindu, þessa áunnu heimsku??

Færi ICEsave í gegn í dag, myndu allir þessir fyrrum ICEsave andstæðingar þegja núna þegar þeirra menn eru í ríkisstjórn??  Væri lag fyrir breta að setja á önnur hryðjuverkalög??  Nýjar hótanir, nýjar fjárkúganir??

Hve langt gengur flokksmaðurinn stuðningi við sinn eigin flokk??

 

Ég vona að fólk velti þessu fyrir sér áður en við glötum líka heilli kynslóð.

Eða það sem verra er, glötum öllu, eigum okkar í hendur vogunarsjóða, og sjálfstæði þjóðarinnar til Brussel.  

 

Við höfum ekki langan tíma til að uppgötva vit okkar og skynsemi á ný.

En ég veit að það er þarna, við erum ekki svona vitlaus eins og við þykjumst vera.

 

Og við erum gott fólk, fólk sem vill börnum sínum allt hið besta.

En við þurfum að sýna það í verki.

Núna.

 

Ekki seinna.

Kveðja að austan.

 


mbl.is 7,5 milljón atvinnulaus ungmenni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig slapp þessi vanvitaháttur inná þing??

 

Hvað gerðist eiginlega í Sjálfstæðisflokknum í síðustu kosningum??

Héldu flokksmenn að í kjölfar Suðurlandsskjálfta og síðan Eyjafjallagosins að Ísland hafi  tekið sig til og rekið inní mitt biblíubeltið í USA??

Eigum við næst von á frumvarpi gegn fóstureyðingum eða ríkisvaldið beiti sér gegn vísindum??

 

"Öryggi framar menning!!", hvaða endemis vitleysa er að stilla þessu upp á þennan hátt??

Menning er hluti af hagkerfinu, blómstrandi menning var ein megin viðspyrna þjóðarinnar gegn hönd dauðans, það er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þegar hagræðing Alþjóðagjaldeyrissjóðsins átti að svelta þjóðina til hlýðni.

Vanvitahátturinn eða réttara sagt fábjánahátturinn er þvílíkur að vitiborið fólk innan Sjálfstæðisflokksins hlýtur að grípa í taumana. 

Að stöðva bullið í börnunum áður en varanlegur skaði er unnin á samfélaginu.

 

Þjóðin losaði sig ekki við skötuhjúin Steingrím og Jóhönnu til að uppskera þessa lágkúru frjálshyggjunnar.

Hún vildi stöðugleika og skynsamlega stefnu.

Og reyndar þor og kjark til að takast á við vanda þjóðarinnar.

 

Hún vildi ekki ESB, hvað þá óráðin sem ESB hefur neytt upp á þjóðir sambandsins sem eiga í efnahagserfiðleikum.

Hvað þá að hún vildi stefnu þess lægsta sem bandaríska Teboðshreyfingin hefur fram að færa.

Skynsemi en ekki vanvit.

 

En hún var blekkt.

Höfð að fífli.

 

Uppskar fífl.

Og það er ekki fyndið.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Öryggi framar menningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á krepputímum er hagræðing hagfræði andskotans.

 

Efist menn, þá skulu þeir skoða hagtölur Evrópusambandsins, þar hafa menn reynt að hagræða sig út úr kreppunni í um 5 ár.

Eytt fyrirtækjum, byggðum, samfélögum.

Uppskorið samdrátt, auknar ríkisskuldir, vonleysi, fátækt.

 

Hve einfaldir þurfa sjálfstæðismenn að vera til að hlusta á sömu frasana og þau Jóhanna og Steingrímur buðu þjóð sinni uppá i 4 ár??

Sömu frasana og núverandi forsætisráðherra Spánar notaði  í kosningabaráttu sinni þegar hann hét þjóð sinni endurreisn með niðurskurði og hagræðingu.  

Trúði hinn almenni sjálfstæðismaður ekki sínum eigin orðum þegar hann gagnrýndi þessa vitleysu síðustu ríkisstjórnar. 

Hvað er það sem Steingrímur átti eftir að hagræða??

 

Veit hann ekki að kommúnismi snýst um svona hagræðingar, svona sameiningar, til að skapa risabákn út um allt.

Gegn grósku og gróanda.

Fattar hann ekki muninn á einföldun regluverks til að auka skilvirkni samfélagsins og þess að hagræða öllu saman í risabákn sem mun hvíla sem mara á öllu samfélaginu.

Er báknið ekki nógu mikið fyrir???

 

"Hvað vakir fyrir  fólki?" spyr Guðlaugur Þór í forundran.

Steinhissa að samfélagið er ekki yfirfullt af einfeldningum sem gleypa við öllu.

 

Hefði Guðlaugur haft kjark til að ráðast gegn reglubákninu með því að leggja til að EES samningnum væri sagt upp, þá mætti virða viðleitni hans.

Þá fylgdi alvara orðum, þá væru orðin ekki innantómir frasar til að fífla fólk.

 

En þá væri Guðlaugur ekki í Sjálfstæðisflokknum.

Svo einfalt er það.

Kveðja að austan.


mbl.is „Hvað vakir fyrir fólki?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúður um klúður.

 

Aumingja Framsóknarmenn, flest verður þeim að háðung í dag.

Nú síðast að gera alþingismann að meintum aðstoðarmanni forsætisráðherra.

 

Hér á árum áður hét þetta að menn ynnu náið saman.

Núna heitir þetta að vera aðstoðarmaður, bæði til minnkunar fyrir forsætisráðherra sem og þann unga dreng sem háðungina hlaut.

Líkt og Sigmundur Davíð sé Gnarraður og Ásmundur Einar hafi aðeins verið uppá punt í hagræðingarnefndinni.

Sem hann náttúrulega var, aðeins hugsaður sem blóraböggull að hálfu Sjálfstæðismanna.

 

Það er ótrúlegt að framsóknarmenn hafi ekkert lært af óförum Halldórs Ásgrímssonar.

Hann sat alltaf uppi með skammirnar en Sjálfstæðisflokkurinn með hrósið að hætti góðrar og gildrar frjálshyggju. Sbr. að láta auðfólk hirða hagnaðinn en almenning skuldirnar.

Barnaskapur Halldórs hafði næstum útrýmt flokknum, en honum til tekna í hugum hinna dyggu að þá gerði hann nokkra þeirra ofurríka.

 

Sigmundur Davíð vann mikið afrek við að endurreisa fylgi flokksins, þó hann hefði náð lengra ef hann hefði verið heill í Keynisma sínum.  Keynisminn bjargaði jú Vesturlöndum úr klóm kommúnista og tryggði velsæld í 60 ár.  

En meir er afrek hans að klúðra svo málum að í vetrarlok mun þurfa að nota logandi ljós, og það sterkt, til að finna einhvern sem játar að hafa kosið flokkinn.

Að láta sér detta í hug að forysta Sjálfstæðisflokksins hafi haft nokkurn annan tilgang með ríkisstjórnarþátttöku sinni annan en þann að vera ljónið í vegi réttlætis og framfara.

Það þarf mikla valdablindu til að sjá ekki hið augljósa.

 

En guð minn góður, það afsakar ekki restina.

Rasisma Vigdísar Hauksdóttur, klúðrið með hagræðingarnefnd, ítrekuð frí á ögurstund þjóðarinnar.

Svikin loforð, klaufaskapur í þágu athlægis.

 

Þetta er afrek, mikið afrek.

En ekki í þágu þjóðar, heldur hins svarta fjármagns.

Vogunarsjóðirnir kunna sitt fag.

 

Eftir situr hnípin þjóð í vanda.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is Ásmundur aðstoðar Sigmund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á eftir Landsdóm kom hagræðing.

 

Til að róa lýðinn, láta hann sætta sig við ránið og ruplið eftir Hrun.

Eins gott að Geir Harde hafi sterk bein.

 

Meginhlutverk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var að sjá til þess að erlendir kröfuhafar útrásarvíkinganna fengju sitt með skilum og þar sem útrásarvíkingarnir höfðu komið fjármunum sínum í skjól, þá var féð sótt í vasa íslensks almennings.

Þess vegna var heimilum neitað um réttlæti, þess vegna var atvinnulífinu haldið í helgreipum vaxta og skulda.

Þess vegna var hagrætt og þess vegna var skorið niður.

Ekki króna sett í uppbyggingu og viðspyrnu eins og sjálfstæðar þjóðir gera þegar þegar áföll dynja yfir og þær þurfa að byggja upp á nýtt.  Menn bregðast ekki við fellibyljum með því að skera niður og hagræða.

 

En slíkt arðrán í þágu erlends fjármagns er erfitt í framkvæmd þegar engir eru skriðdrekarnir eins og í Chile forðum daga.

Almenning þarf að fífla, gera hann upptekinn með brauðum og leikum fáfræði og fordóma, svo hann taki ekki upp amboð sín og snúist til varnar.

Þess vegna var skrípaleikurinn um Landsdóm settur á svið við góðar undirtektir og hann hefði dugað ef bretum hefði ekki orðið á að henda rauðri dulu inná þjóðmálasviðið með setningu hryðjuverkalaga sinna.  Seinþreytt fólk til vandræða reis upp, mótmælti ICESave og hótaði byltingu ef ríkissjóður yrði skuldsettur næstu aldir svo hægt væri að skipta út gervikrónum fyrir beinharðan gjaldeyri.

Hryðjuverkalög breta voru hið óvænta strik sem bjargaði þjóðinni.

 

Núna er komin ný ríkisstjórn með sömu markmið.

Að fóðra fjármagn með eigum almennings.

Hún segir annað en verkin tala. 

 

Hún stöðvar ekki Útburð barna og mæðra, hún ræðst ekki á vaxtavitleysu Seðlabankans, hún  svæfir í nefnd loforð sín um réttlæti almenningi til handa.

Á meðan ýlfra hýenur fjármagnsins sinn dauðasöng.  Ekkert má leiðrétta ef almenningur á í hlut, verðtryggingin er bjarg stöðugleikans, við glefsum í alla þá sem taka hag almennings fram yfir hag fjármagns.

 

En það vantar leika, nýja leika.

Og frumleikinn er ekki meir en sá að aftur er sparkað í Geir Harde.

Óráðsía hans sem fjármálaráðherra og síðan forsætisráðherra var það mikil að núna, eftir stanslausan niðurskurð, og eða hagræðingu Steingríms Joð Sigfússonar, er ennþá hægt að spara tugmilljarða svo ég vitni í núverandi formann Sjálfstæðisflokksins án þess að skerða þjónustu svo ég vitni í formann hagræðingarnefndarinnar.

 

Tugmilljarðakróna sparnaður.

Án þess að skerða þjónustu.

Samt eiga stofnanir ríkisins að gegna lögbundnu hlutverki sínu.

 

Heimskan er þvílík og algjör að það þarf mikla fáfræði, og mikla fordóma til að gleypa við henni.

Samt gera Sjálfstæðismenn það í hrönnum, fellandi þann dóm yfir síðustu ríkisstjórnum flokksins, að þær hafi verið vanhæfar og vitlausar og látið kerfið þenjast stjórnlaust út.

Því ekki geta þeir skellt skuldina á böðul Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Steingrím Joð Sigfússon.

 

Jafnvel Davíð sagar af sér fótinn í þágu málstaðarins.  Eins og hann hafi ekki stjórnað landinu í 16 ár á undan Geir Harde.

Mærir Stalínisma samrunans og sameiningarinnar, að hin endalega hagræðing sé fólgin í einu kerfi, einu bákni, einni stofnun.

Mikið hlýtur Brynjólfur Bjarnason glotta þessa dagana, þarna hinum meginn, þegar hann sér tungutak sitt og orðfæri, fá svona endurnýjun lífdaga.

Hann sagði þetta alltaf, stórar einingar, hagræða, spara.

 

Af sem áður var þegar Morgunblaðið var blað frjálslyndis og víðsýnis, uppbyggingu og grósku.

Það dugði að tala illa um ríkið og báknið til að öll skynsemi færi þar út fyrir endamörk jarðar, líkt og jörðin sé ennþá flöt, en ekki hnöttur sem lítur lögmálum eðlis og lífs.

Heimska, fáfræði, fordómar.

 

Gömul saga og ný.

En óþarfi að heyra hana í dag, þegar þjóðin þarf framtak, uppbyggingu, þor.

 

En þeir sem ræna okkur, þeir glotta.

Þeir vita hvað þeir eru að gera.

Kveðja að austan.


mbl.is Tuga milljarða hagræðing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einföldum regluverkið!!

 

Með því að stofna nefnd.

Sem fer yfir málið, vegur og metur, og stofnar nýtt bákn, regluráð sem ætlað er að auka skilvirkni í reglusetningum hins opinbera.

 

Er þetta það eina sem Sjálfstæðisflokkurinn gat lagt til málanna eftir harðvítuga gagnrýni sína á báknið allt síðasta kjörtímabil??

Að berjast við bákn með bákni??

 

Engar hugmyndir, ekkert um eitthvað sem má betur fara, sem má missa sig?

Hvað með regluna sem eykur eldsneytiskostnað þjóðarinnar um áramótin, og hækkar þar að auki verðtryggð lán fólks??  Má hún ekki víkja, má ekki fresta henni með því að stofna nefnd og láta hana vega og meta, og meta og vega??

Hvað með allt eftirlitsbáknið???  Má ekkert missa sig, er engin vitleysa sem blasir við öllum hugsandi mönnum???  Má ekki taka tilliti til neins af því sem fórnarlömb báknsins hafa bent á í gegnum árin???

 

Ekkert, ekkert, ekkert.

Innihaldsleysið afhjúpar stjórnmálamenn sem eru ekkert annað en umbúðir um frasa, og reknir áfram af valdafíkn, en ekki löngun til að gera landi og þjóð gagn.

Ef þeir eru ekki þegar kostuð skrípi hins blóðmjólkandi fjármagns, vogunarsjóða, hin meintra erlendu krónubréfaeiganda, eða hvað sem allt þetta braskaralið heitir.

Fólk sem hefur ekki lengur neitt að selja, ekki einu sinni sálarbrot andskotanum því það hefur þegar selt allt, sem hægt er að selja.  

Er eign hins svarta fjármagns í húð og hár.

 

Svo finnast ennþá einfaldar sálir sem trúa að einhver alvara sé að baki orðum um skuldaleiðréttingu heimilanna.

Eða þetta fólk ætli að hagræða í kerfinu sem það sjálft skóp handa sér og sínum.

Þó allir með sjón sjá hið allsnakta, þá er samt trúað að einhver spjör sé á kroppnum.

 

Ég er ekki talsmaður regluverks, en ég legg samt til að hið nýja regluráð fái það hlutverk að setja reglur um stuðningsmenn fjórflokksins, sem innihalda kröfur um hámark trúgirni eða meðvirkni sem stuðningsmenn mega sýna.

Og ef þeir fara yfir þau mörk, verði þeir sviptir kosningarétti á meðan þeir leita sér hjálpar.  

Það mætti auka skilvirkni SÁÁ til mikilla muna ef samtökin fengi þessa trúgirnisfíkla til meðhöndlunar því samnýta mætti þessa meðferð annarri fíknimeðferð.

Og það væri ekki til hagkvæmari fjárfesting fyrir þjóðina en setja fjármuni í meðhöndlun trúgirnisfíkla fjórflokksins því þeir eru jú forsenda valda hinna síljúgandi stjórnmálamanna.

 

Eitthvað verður allavega að gera.

Þetta gengur ekki lengur.

 

Á allri vitleysu hlýtur að vera endir.

Kveðja að austan.


mbl.is Dregið verði úr reglubyrði atvinnulífsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar sprakk blaðran.

 

Og ekki heyrðist einu sinni;  Búmm, eða flurrssssssss.

Aðeins einn eitt almenna kjaftæðið.

 

Nema jú, það á að fækka störfum á landsbyggðinni, hún er eins og hver önnur nýlenda sem greiðir skatt til hins miðstýrða valds höfuðborgarinnar.

Og það á að skera niður í þróunarmálum.

Sem varla kemur á óvart því Sjálfstæðisflokkurinn ræður þessari ríkisstjórn. 

 

Ný sýn, ný vinnubrögð, ný nálgun.

Jafn fjarlægt eins og HM draumur Íslendinga.

 

Enda við hverju var að búast af flokkunum sem innleiddu EES samninginn og hafa leyft hinu evrópsku skrifræði að taka yfir heilbrigða stjórnsýslu.

Að þeir ynnu gegn sinni eigin stefnu, réðust á sín fyrri verk??

Er ekki EES samningurinn hornsteinn stefnu þessarar ríkisstjórnar, auk þess að skilgreina samningsmarkmið Íslands við ESB??

 

En þó ekkert loft hafi verið í hagræðingarblöðru ríkisstjórnarinnar og fátt sem stenst vitræna skoðun, þá er passað uppá lýðskrumið og frasana, og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar munu taka ofan og þakka pent fyrir sig.

Taka með bros á vör við nýjum og nýjum evrópskum reglugerðum líkt og hækkun eldsneytisverðs um áramótin eða nýjum hindrunum kringum rekstur smáfyrirtækja og einyrkja.

Þeir fá útrás fyrir fordóma sína og það er í raun sem skiptir þá mestu máli.

 

Innlimunin í ESB heldur áfram, verðtryggingin  rænir almenning, Már í Seðlabankanum fer með kjarasamningana.

Allt í góðu.

Við hagræðum þjóðina út úr vandanum með því að skera niður þróunaraðstoð og reka óþurftarríkisstarfsmenn.

Það þarf ekki mikið til að gleðja flokkshestinn.

Kveðja að austan.


mbl.is Hagræða í utanríkisþjónustunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á maður að hlæja??

 

Eða gráta??

Á þessari tölfræðilegri nauðgun á hlutskiptum fátækra á Íslandi.

Ég bara spyr.

 

Ekki að ég hafi ekki lesið svona tölfræði áður.

Neistinn (blað Fylkingarinnar) og Stéttabaráttan (Einingarsamtök kommúnista, skammstafað EIK) birtu iðulega svona tölfræði, Neistinn frá sælunni í Albaníu, en Stéttabaráttan  tók frekar dæmi frá Menningarbyltingu Maó formanns. 

Sammerkt var algjör veruleikafirring á hið raunverulega ástand sem var í viðkomandi löndum.

Heimamenn vissu betur en urðu að sætta sig við lygina.

 

Í dag fáum við svona tölfræði frá Norður Kóreu.

Og Hagstofu Íslands.

Tölfræði sem segir að við höfum það hlutfallslega gott.

Og segir þar með að sætta okkur við ástandið.

 

Göbbel var brautryðjandi þessarar tölfræði.

Hann notaði hana meira að segja í vissum búðum sem voru kenndar við göfgi vinnunnar.  

Tölfræðilega var þar allt í sómanum.

Því tölfræðin þekkir ekki mannleg mörk.  

Í röngum höndum er hún áróðurstæki siðblindra manna.

 

Höfum það bak við eyrað þegar við lesum svona fréttir.

Næsta frétt verður frá formanni Sjálfstæðisflokksins að því miður geti hann ekki staðið við loforð flokksins um aðstoð við skuldara því hann eigi ekki pening til þess.  

Þeir sem hann átti fóru til virkilegra bágstaddra, stórskuldugra auðmanna.

En hann biður almenning um skilning, því tölfræðilega er jöfnuður óvíða meiri en á Íslandi.

 

Allt á sínar skýringar.

Allt þjónar sínum tilgangi.

Kveðja að austan.


mbl.is Jöfnuður óvíða meiri en á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spörkum í fanga.

 

Þetta eru jú fangar, afbrotamenn, eiga ekkert annað betra skilið.

 

En án allrar kaldhæðni og ég tek það fram að á öllum málum eru tvær hliðar og Moggans vegna vona ég að hann leyfi hinni hliðinni að komast að, að þá er þessi umkvörtun þess eðlis að samfélagið verður að leggja við hlustir.

Því framkoma okkar við bandingja segir töluvert um okkur sjálf.

 

Það má færa rök fyrir því að fyrstu mælanleg merki um yfirtöku frjálshyggjunnar í bandarísku samfélagi hafi verið endurupptaka dauðarefsingar í þeim ríkjum sem hægrisinnaðir stjórnmálamenn stjórnuðu.

Sú afsiðun samfélagsins braut múra sem siðleysi flæddi um.

Þegar fólk getur ekki virt fyrsta boðorðið, þá virðir það ekki önnur.

 

Ástæða þess að ég bendi á vítin sem ber að varast er sú að íslensk lögregluyfirvöld hafa sótt mjög í að læra "rétt" vinnubrögð af kollegum sínum í Bandaríkjunum.

Frægasta dæmið er samskipti við lögreglu í ákveðinni sýslu í Flórída, sem hafði helst unnið sér það til frægðar í heimspressunni að handjárna 5 ára gömul leikskólabörn fyrir að ulla framan í leiksskólakennara sinn.  Viðkomandi lögregluyfirvöld skildu ekki athyglina eða gagnrýnina á vinnubrögð sín, viðkomandi krakkar voru jú svartir, og óþægir í þokkabót.

Og ekki hefur þetta pirrað íslenska lögreglumenn því þeir eru jú vanir sögunni af Grýlu og uppeldisaðferðum hennar.

 

Og því miður virðast hin bandarísku vinnubrögð hafa smitast út í fangelsin, harkan sex á þar að leysa öll vandamál.

Sem hún gerir ekki, hún býr aðeins til fleiri vandamál en hún leysir.

Það kennir sagan og menn rífast ekki við hana.

 

Margir rugla saman sparki í fanga við aga.  Halda að spörk og skammir séu einu meðulin sem fangar skilji.  Vísa oft í sérstaka menningu sem tíðkast meðal undirheimalýðs. 

En sú menning er jú skýring þess að þetta fólk gistir reglulega fangaklefa, því samfélaginu telur þessa samskiptahætti ranga.

Og ef þeir er rangir, þá beitir samfélagið ekki slíkum samskiptaháttum.

Það eru ekki rök í málinu að það eigi að koma eins fram við ofbeldismenn eins og þeir koma fram við aðra.

Það eru órök í málinu.

 

Gleymum því heldur aldrei að ofbeldismenn sækja ekki aðeins í störf sem tengjast börnum, þeir sækja líka í lögregluna, og þeir sækja líka í starf fangavarða.

Og þeir þekkjast á starfsaðferðum sínum.

Fórnarlömbin eru til vitnis um þær aðferðir.

 

Munum að Breiðavík var réttlæt á sínum tíma með þeim rökum að þar væru hýstir óknyttadrengir og vandræðaunglingar.  

Sem var engin afsökun þó rétt væri.

Síðan er hlutir aldrei svo einfaldir, það eru margbrotnar ástæður fyrir því að fólk fetar refilstíga, og fæstar hafa með slæmt innræti að gera.  

Vissulega gista nokkrir siðblindingjar fangelsi en flestir hafa fundið sér lögleg fórnarlömb í skjóli frjálshyggjunnar.

Flestir sem fangelsi gista, væru þar ekki ef þeir hefðu fengið rétta aðstoð og hjálp í æsku.

 

Það er heldur engin tilviljun að listaheimurinn geymir margar myndir þar sem listamaðurinn teiknar mynd af Jesús að vitja bandingja í fangelsum, á öllum tímum, hjá öllum kristnum þjóðum.

Það er heldur engin tilviljun að umbætur í fangelsum hins vestræna heims voru knúnar áfram af kristnu hugsjónarfólki sem tók trú sína alvarlega.

Í dag monta sig flestir af því að vera trúlausir, en trúleysi afsakar ekki afsiðun.

 

Gætum að okkur, hlustum á umkvartanir sem berast af Hrauninu.

Lærum af þeim.

Breytum rétt.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Mikil reiði ríkir meðal fanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot (5956)
  • Screenshot (5957)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.10.): 73
  • Sl. sólarhring: 281
  • Sl. viku: 3535
  • Frá upphafi: 1494279

Annað

  • Innlit í dag: 67
  • Innlit sl. viku: 3017
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband