Á eftir Landsdóm kom hagræðing.

 

Til að róa lýðinn, láta hann sætta sig við ránið og ruplið eftir Hrun.

Eins gott að Geir Harde hafi sterk bein.

 

Meginhlutverk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var að sjá til þess að erlendir kröfuhafar útrásarvíkinganna fengju sitt með skilum og þar sem útrásarvíkingarnir höfðu komið fjármunum sínum í skjól, þá var féð sótt í vasa íslensks almennings.

Þess vegna var heimilum neitað um réttlæti, þess vegna var atvinnulífinu haldið í helgreipum vaxta og skulda.

Þess vegna var hagrætt og þess vegna var skorið niður.

Ekki króna sett í uppbyggingu og viðspyrnu eins og sjálfstæðar þjóðir gera þegar þegar áföll dynja yfir og þær þurfa að byggja upp á nýtt.  Menn bregðast ekki við fellibyljum með því að skera niður og hagræða.

 

En slíkt arðrán í þágu erlends fjármagns er erfitt í framkvæmd þegar engir eru skriðdrekarnir eins og í Chile forðum daga.

Almenning þarf að fífla, gera hann upptekinn með brauðum og leikum fáfræði og fordóma, svo hann taki ekki upp amboð sín og snúist til varnar.

Þess vegna var skrípaleikurinn um Landsdóm settur á svið við góðar undirtektir og hann hefði dugað ef bretum hefði ekki orðið á að henda rauðri dulu inná þjóðmálasviðið með setningu hryðjuverkalaga sinna.  Seinþreytt fólk til vandræða reis upp, mótmælti ICESave og hótaði byltingu ef ríkissjóður yrði skuldsettur næstu aldir svo hægt væri að skipta út gervikrónum fyrir beinharðan gjaldeyri.

Hryðjuverkalög breta voru hið óvænta strik sem bjargaði þjóðinni.

 

Núna er komin ný ríkisstjórn með sömu markmið.

Að fóðra fjármagn með eigum almennings.

Hún segir annað en verkin tala. 

 

Hún stöðvar ekki Útburð barna og mæðra, hún ræðst ekki á vaxtavitleysu Seðlabankans, hún  svæfir í nefnd loforð sín um réttlæti almenningi til handa.

Á meðan ýlfra hýenur fjármagnsins sinn dauðasöng.  Ekkert má leiðrétta ef almenningur á í hlut, verðtryggingin er bjarg stöðugleikans, við glefsum í alla þá sem taka hag almennings fram yfir hag fjármagns.

 

En það vantar leika, nýja leika.

Og frumleikinn er ekki meir en sá að aftur er sparkað í Geir Harde.

Óráðsía hans sem fjármálaráðherra og síðan forsætisráðherra var það mikil að núna, eftir stanslausan niðurskurð, og eða hagræðingu Steingríms Joð Sigfússonar, er ennþá hægt að spara tugmilljarða svo ég vitni í núverandi formann Sjálfstæðisflokksins án þess að skerða þjónustu svo ég vitni í formann hagræðingarnefndarinnar.

 

Tugmilljarðakróna sparnaður.

Án þess að skerða þjónustu.

Samt eiga stofnanir ríkisins að gegna lögbundnu hlutverki sínu.

 

Heimskan er þvílík og algjör að það þarf mikla fáfræði, og mikla fordóma til að gleypa við henni.

Samt gera Sjálfstæðismenn það í hrönnum, fellandi þann dóm yfir síðustu ríkisstjórnum flokksins, að þær hafi verið vanhæfar og vitlausar og látið kerfið þenjast stjórnlaust út.

Því ekki geta þeir skellt skuldina á böðul Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Steingrím Joð Sigfússon.

 

Jafnvel Davíð sagar af sér fótinn í þágu málstaðarins.  Eins og hann hafi ekki stjórnað landinu í 16 ár á undan Geir Harde.

Mærir Stalínisma samrunans og sameiningarinnar, að hin endalega hagræðing sé fólgin í einu kerfi, einu bákni, einni stofnun.

Mikið hlýtur Brynjólfur Bjarnason glotta þessa dagana, þarna hinum meginn, þegar hann sér tungutak sitt og orðfæri, fá svona endurnýjun lífdaga.

Hann sagði þetta alltaf, stórar einingar, hagræða, spara.

 

Af sem áður var þegar Morgunblaðið var blað frjálslyndis og víðsýnis, uppbyggingu og grósku.

Það dugði að tala illa um ríkið og báknið til að öll skynsemi færi þar út fyrir endamörk jarðar, líkt og jörðin sé ennþá flöt, en ekki hnöttur sem lítur lögmálum eðlis og lífs.

Heimska, fáfræði, fordómar.

 

Gömul saga og ný.

En óþarfi að heyra hana í dag, þegar þjóðin þarf framtak, uppbyggingu, þor.

 

En þeir sem ræna okkur, þeir glotta.

Þeir vita hvað þeir eru að gera.

Kveðja að austan.


mbl.is Tuga milljarða hagræðing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Það verður að skera niður en skera þarf niður á réttum stöðum. Láta á heilbrigðiskerfið t.d. alveg vera og hleypa einkaaðilum að þar. Mín vegna má nánast algerlega leggja opinbera geirann niður en það verður auðvitað aldrei því fólk vill alltaf láta einhvern halda í höndina á sér.

Hvers vegna má ekki leggja niður t.d. landbúnaðarráðuneytið og menntamálaráðuneytið? Halda menn að bændur hætti búskap ef landbúnaðarráðuneytið væri  lagt niður? Hætta allir kennarar landsins að kenna ef menntamálaráðuneytið væri lagt niður? Af hverju þarf að miðstýra þessum geirum?

Leggja þarf af opinberar greiðslur til trúfélaga og því má leggja niður kirkjumálaráðuneytið. Fólk borgar fyrir sína trú.

Af hverju eigum við að borga fyrir aðstoðarmenn þingmanna og ráðherra? Ef þeir sem taka þessi störf að sér treysta sér ekki til að vinna þau án aðstoðarmanna eiga viðkomandi aðilar ekki að bjóða sig fram til að sinna þeim? Eru þessi störf virkilega svona flókin og mikið álag? Nei. Þingmenn hérlendis eru 5x fleiri per íbúa en á Norðurlöndunum þannig að minna álag er á íslenskum þingmönnum en starfsbræðrum þeirra á Norðurlöndunum. Hægt væri að fækka þingmönnum niður í 23 og þá væri fjöldi þingmanna svipaður og hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við. Með hvaða hætti er starf ráðherra öðru vísi en önnur störf þannig að skattborgararnir þurfi að borga bíl og bílstjóra undir ráðherra? 

Þurfum við virkilega alla þessa sendiherra? Þeir eru fjölmargir (margir hér heima). Það er auðvelt að spara í utanríkisþjónustunni og hún á t.d. ekki að vera að reyna að afla markaða fyrir íslensk fyrirtæki.

Sömuleiðis má leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Halda menn að öll viðskipti stoppi ef þetta ráðuneyti yrði lagt niður?

Til hvers þurfum við Seðlabanka sem ekkert gengur að hemja verðbólgu? Af hverju vita einhverjir menn í Seðlabönkum heimsins betur en markaðurinn hvað fjármagn á að kosta? Leggja má SÍ niður.

Ef litið er til bankamarkaðar hérlendis sést að samkeppni þar er hverfandi. Því er ljóst að leggja má samkeppnisyfirvöld algerlega niður því þau fá engu áorkað. Kom eitthvað út úr þessu olíufélagamáli fyrir löngu? Opna þarf íslenskan markað fyrir erlendum aðilum og þar getur hið opinbera komið með hvata. Hvað með FME? Stóð það sig vel í aðdraganda hrunsins? Skuldatryggingaálag á íslensku bankana var aðhald markaðarins. Leggja má FME niður.

Listinn er ansi langur en verið er að kreista fé af almenningi í alls kyns vitleysu sem skilar almenningi ekki nokkrum sköpuðum hlut. Margir eiga í vandræðum með að kaupa sér mat og á sama tíma rífur hið opinbera fé af fólki til að borga aðstoðarmenn undir þingmenn og ráðherra og líka bíla!?

Lækka þarf verulega opinberar álögur á bæði einstaklinga og fyrirtæki enda á hið opinber að vinna fyrir okkur en ekki öfugt! Hið opinbera fer mun verr með fjármuni en einkaaðilar.

Helgi (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 07:45

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Fyrirgefðu Helgi en ég missti þig inn áður en ég kom að fyrstu athugasemd minni, sem átti að fylla upp í pistilinn. En þetta er það sem ég átti eftir að segja.

Fyrir þá sem rugla saman orðskrípinu hagræðing við hið nauðsynlega verk að ná böndum á skrifræðið ættu að lesa þessi orð einyrkja sem lent hefur í regluklóm ESB.  Og að hafa það í hug að hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar ræðst ekki að forsendum báknsins, sem er regluverk um allflest sem lítur að mannlegri hegðun, og gengur út á algjört vantraust á dómgreind og skynsemi fólks, ásamt að gefa sér þá forsendu að fólk sé almennt óheiðarlegt og svikult, heldur ræðst að kerfinu sem á að sinna regluverkinu, svo það verður ennþá óskilvirkara, seinar, tafsamara, með tilheyrandi óþægindum og kostnaði fyrir hinn almenna borgara og fyrirtækja hans.

Stórfyrirtækin hafa efni á að skapa sér skjól fyrir reglum, en einstaklingurinn ekki.

Greinina í heild má lesa í athugasemd við þennan pistil minn, Einföldum regluverkið, en hér er útdráttur úr þessum óð einyrkjans um andrými til að geta sinnt störfum sínum, og haft af þeim lífsafkomu.

Og kemur hér í næstu athugasemd.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 08:05

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Óður einyrkjans eftir Pétur Örn Björnsson, skrifað af gefnu tilefni, gegn skrifræði hins dauða bákns ESB. 

 
 
Nú skal ég segja það hreint og beint, svo allir muni fyrr en síðar heyra, að það var hér áður fyrr ætíð von fyrir lítinn og sjálfstæðan arkitekt að fá til sín verkefni, eins og önnur einyrkja- og smáfyrirtæki, einungis vegna góðs faglegs orðspors, en með tilkomu EES samningsins hefur allt hægt og bítandi orðið verra, enda markvisst verið að drepa hina litlu og smáu á okkar dvergvaxna innanlandsmarkaði. Og nú er embættismanna bíró-teknó-krata-stóðið að uppkokka aðlagaða ESB byggingarreglugerð andskotans. Þar vantar ekki fínu orðin „sjálfbærni“, „vistvænt“, en af hverju í helvítinu fer þetta lið þá ekki í alvöru torfkofa? Nei, það dettur þessu flórstóði ekki í hug. Það röflar um BREEAM og DIN og guð má vita hvað, en megintilgangurinn er alltaf sá sami að efla gróða eftirlitsiðnaðarins, hins ósjálfbærasta og óvistvænasta af öllu og stór-verkfræðinga-graddar fá sér vottunarleyfi og græða á því og bankarnir græða á hækkandi byggingarkostnaði og allir græða … nema hinn sauðsvarti almenningur og þá … meine damen und herren … fer ríkið að lokum á hausinn. Comprendez?
En menn spyrja nú hver annan í hljóðum … hefurðu lesið óskapnaðinn? … Og svörin eru flest þau sömu, nei ekki enn, því menn bíða leiðbeiningarrita við leiðbeiningarritin um reglugerðina ógnarlöngu, sem líkist nú helst orðið ályktunum kaþólskra kirkjuskipana páfans á miðöldum, enda virðist nú stefnt að viðlíka ofur-veldi yfir-bírókrata. Þeir nota boðvald sitt til að reyna að drepa alla lifandi grósku hinna mörgu og smáu. Eigum við þá bara að beygja okkur í duftið og leggjast flatir fyrir ofur-veldi yfir-bírókratanna, sjálfs embættismanna aðalsins, sem bera sjálfir aldrei ábyrgð á einu né neinu af þeirra eigin aumkunarverðu verkum?
Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 08:08

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Og niðurlagið er ákall um Upprisu.

Upprisu fólks gegn hinu kæfandi bákni.

 Nei fjandakornið. Fremur vil ég þá aumur spyrja þess hvort við eigum ekki að mótmæla líkt og Lúther forðum og negla eitt stykki mótmælabréf, sem aumir þrælar, á öll bænhús hins ósjálfbærasta af öllum ósjálfbærum valdhroka eftirlitsiðnaði seinni tíma?
Mál er að linni. Þjóðin fái að segja sitt um ESB aðlögunina – í síðasta lagi fyrir jólin 2012.
Við vitum það öll, að þetta helvíti gengur ekki lengur og við hæfi að enda þetta greinarkorn með ljóði Davíðs Stefánssonar, skáldsins frá Fagraskógi:

Það teygir sig vítt yfir bygðir og borg
og bólgnar af skipulagshroka,
en geigvænt er loftið af gjaldeyrissorg
og grátt eins og Lundúnaþoka.
En borgarinn fálmar sig bugaður inn
og biður um rétt til að lifa,
svo þjónninn, sem hímdi með hönd undir kinn,
má hamast að reikna og skrifa.

En þarna fær borgarinn skjal eftir skjal,
sem skráð er gegn réttlátri borgun,
og honum er vísað sal úr sal
og sagt – að koma á morgun,
og svona gengur það ár eftir ár,
því altaf er nóg að skrifa,
og altaf fær borgarinn skipulagsskrár
og skilríki fyrir að lifa.

Það lætur víst nærri, að þriðji -nú orðið annar- hver þegn
sé þjónn eða skrifstofugreifi,
en flestum er starfið þó mikið um megn
og margur fær siglingaleyfi.
En borgarinn snýst þarna hring eftir hring
og hlýðir í orði og verki,
og loks þegar alt er þar komið í kring
er klínt á hann – stimpilmerki.

Að stofnunin eflist hvern einasta dag
mun afkoma þegnanna sanna,
og auðvitað reikna þeir ríkinu í hag
sem ráðstafa lífi manna.
En varla mun borgarinn blessa þau tákn,
né bætur þeim skriftlærðu mæla,
sem vilja að alt þetta blekiðjubákn
sé bænahús – krjúpandi þræla.

Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 08:10

5 identicon

Sæll.

Ég hef mikla samúð með mönnum eins og PÖB og meðal annars þess vegna er ég mjög á móti opinberum afskiptum. Hið opinbera vill vel en afskiptum þess fylgja alltaf ófyrirséðar afleiðingar.

Regluflóðið sem á okkur og mörgum öðrum löndum dyn er afar skaðlegt og afar dýrt. Set hér aftur inn hlekk sem ég setti inn annars staðar hjá þér:

http://www.cbn.com/cbnnews/finance/2011/September/Staggering-Cost-of-Regulations-Strangling-Economy-/

Þetta er ekki í lagi og ég vona að sem flestir fari að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Auk þess felst í öllum þessum reglum hið ósagða: Fólk veit ekkert í sinn haus og verja þarf það gegn sjálfu sér og öðrum. Ekkert er fjær lagi!! Það er t.d. staðreynd að undanfarna áratugi hafa bílar hægt og rólega eytt minna vegna þess að framleiðendur sáu sér hag í því. Ekki þurfti opinber afskipti til að koma því á - þetta gerist löngu áður en umhverfisvernd verður að tískufyrirbæri.

Helgi (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 08:44

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Helgi.

Missi þig aftur inn, áður en ég kom frá mér athugasemd við fyrra innslag þitt.  En það sem ég vildi sagt hafa og tafðist því ég þurfti að leita að pistlinum sem ég ætlaði að linka, er að það vantar aðeins að þú hafir vitnað í þennan ágæta pistil Geirs Ágústssonar, 

Plástrar á blæðandi svöðusár

Og þá værir þú með þetta allt úr ranni ykkar frjálshyggjupilta.

Ekki ætla ég núna að skattyrðast við ykkur, maður gæti fengið á sig regluverk, vil láta orð ykkar standa sem gagnrýni frá hægri.

Því miður reikna ég ekki með að góður og gegn vinstri maður mæti hér og gagnrýni aumingjaskap hagræðingarnefndarinnar frá vinstri, þeir skilja sneiðina með Landsdóminn.

En við talsmenn lífsins eigum sjónarmið grósku og gróandans sem má lesa um í athugasemdum við þennan pistil minn, sem er sá fyrsti í viðspyrnu minni gegn hinni algjöru heimsku ofreglunarinnar.

Einföldum regluverkið!!

Það er sama hvaðan gott kemur Helgi, skammaðu sjálfstæðismenn eins og best þú getur.

Því þeir eiga að skammast sín.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 09:05

7 Smámynd: Jón Þór Helgason

Sæll Ómar,

Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun þannig að ríkisstjórninn á erfitt með að hrófla við Seðlabankastjóra nema að skipta um þegar skipunartíma hans líkur í ágúst á næsta ári.

Til að upphefja sjálfan sig þurfti að gefa út 10 þús kr. seðill. Gjörsamlega óþarfur.

það lýsir manninum meira en nokkur orð.

Jón Þór Helgason, 12.11.2013 kl. 09:37

8 identicon

Sæll.

Já, læt Sjálfstæðisflokkinn heyra það þegar mér finnst það eiga við. Sá flokkur er ekki flokkur atvinnulífsins þó hann segi það. Hluti af vanda Sjalla er mannvalið þar, það er í bili alveg hörmulegt! Sjálfstæðisflokkurinn er ekki minn flokkur.

Ég sá pistilinn hans Geirs og mér finnst hann góður. Skrifaði athugasemd við ágætan pistil hans. Vandinn er að margir halda að heimurinn farist ef hið opinbera yrði skorið niður við trog. Ekkert er fjær lagi - lífskjör myndu batna verulega og kaupmáttur aukast og fleiri góð störf verða til.

Bæta þarf lífskjör hér og opna fleiri tækifæri. Ein leið til þess er að fækka gagnslausum reglum sem margar hverjar eru í reynd skaðlegar - eins og ágæt frétt Kristján Más á Stöð 2 fyrir ca. 2 árum sýndi greinilega fram á. Maður nokkur, atvinnulaus, ætlaði að rífa sig upp úr volæðinu með því að leggja kaðla í sjó til að rækta krækling og selja. Reglurnar voru  þannig að áður en hann gat byrjað þurfti hann alls kyns leyfi og hundruðir þúsunda í leyfin bara til að byrja. Auðvitað varð ekkert úr framkvæmd hjá honum :-( Gleymi þessari frétt ekki og finn enn til með manninum.

Af hverju eru SA ekki að hamast í málinu? Ætli það sé kannski vegna þess að þau samtök eru gagnslítil? Held það raunar fyrst þau þykjast hafa þörf til starfskrafta Þorgerðar Katrínar.

Helgi (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 09:37

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón Þór.

Þjóð okkar er að sökkva í hafið.

Í sjórétti er það viðurkennt að þegar skipsstjóri grípur ekki til nauðsynlegra aðgerða til að hindra voða, eða það sem verra er, að skipsstjórn hans er orsök voðans, þá ber næstráðanda skilda til að grípa inní, bregðist hann, þá sá næsti, og næsti, eða áhöfnin sjálf.

Slíkt er ekki uppreisn, heldur nauðsyn.

Það afsakar ekkert stjórnvald í dag að gera ekki það sem þarf að gera.

Um leið og það afsakar sig, þá er það hluti af vandanum.

Neyðarlög Geirs Harde, björguðu þjóðinni, laun þjóðarinnar var að leyfa þjónum hins svarta fjármagns að ákæra hann, með velþóknun forystu Sjálfstæðisflokksins.  Vörn hennar fyrir Geir var ámátlegt væl, sem jafnvel kettir hefðu skammast sín fyrir.

Það var ráðist á Geir til að hylma yfir að ekki var gripið til frekari neyðarlaga, þegar umfang vandans lá fyrir.

Það er ennþá verið að ráðast á Geir.  Af sömu ástæðu.

Þess vegna er heiti þessa pistils Á eftir Landsdóm kom hagræðing.

Og tengingin rökstudd.

Og enginn virkur Sjálfstæðismaður hér á Moggablogginu þorir að andmæla því innst inni vita þeir að ég hef rétt fyrir mér, alveg eins og þegar ég ritaði grein mína, Er eitthvað val í ICEsave deilunni?, þegar ég mótmælti áformum Alþingis að selja landið bretum samhljóða í lok ágúst 2009.  

Þá þögðu sjálfstæðismenn, þvert á sannfæringu sína.

En þögðu ekki lengi, og voru hryggjarstykkið í baráttunni gegn fjárkúgun breta.

Það er líka þagað í dag, ekki af sannfæringu, heldur af flokkstryggð.

Eins og Sjálfstæður maður geri slíkt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 10:01

10 Smámynd: Ómar Geirsson

"Reglurnar voru  þannig að áður en hann gat byrjað þurfti hann alls kyns leyfi og hundruðir þúsunda í leyfin bara til að byrja. Auðvitað varð ekkert úr framkvæmd hjá honum ".

Ef þú sérð einhvers staðar skilning á þessu hjá hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar Helgi, þá láttu mig vita.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 10:04

11 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Góður punktur með 10 þúsund kallinn sem er bæði ljótur og allt of langur, svo ekki sé talað um gagnleysi hanns sem er algert! Bruðl sukk svínarí og vitleysa einkennir stjórnun landsins þar sem sjáftökuliðið er varið ofar öllu öðru.

Sigurður Haraldsson, 12.11.2013 kl. 10:28

12 Smámynd: Jón Þór Helgason

Ómar, hvernig getur þú fundið út að neyðarlöginn hafi bjargað okkur?

Það eina sem þau björguðu voru innistæður umfram 10 milljónir. það voru kannski ca 0,5% af innistæðueigenum.

Hefði allt fengið að hrynja og bara einum sparisjóði verið bjargað þá hefði staðan verið verri fyrst en betri eftir það. Greiðslukerfið hefði farið í nýja banka hvort sem er.

hefði krónan fengið að falla hefði hún komið til baka á nokkrum vikum. Neyðarlöginn voru sett til að bjarga þeim sem áttu innistæður engum öðrum.

En það hefði náttúrulega verið smá kás fyrst á eftir. það er betra en 5 ára rugl.

Jón Þór Helgason, 12.11.2013 kl. 11:12

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, hvernig gat ég fundið það út??

Svona líklegast vegna þess að þau gerðu það.

Það sem vantar inní rökfærslu þína er skilningur á stigmögnun upplausnar.

Ávirðingarnar sem þú telur upp kemur neyðarlögunum ekkert við, heldur stjórnarathöfnum í kjölfar neyðarlaganna.

Viðspyrna þjóðarinnar fólst í neyðarlögunum, en hún var illa nýtt.

En það hefði ekki verið nein viðspyrna ef ekkert hefði verið gert og öll veð þjóðarinnar í höndum erlendra kröfuhafa bankanna.

Kaos, glundroði, gjaldþrot.  Rúin þjóð eignum og tekjum.

Nei, Jón Þór þú hefðir ekki viljað það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 12:11

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Sigurður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 12:11

15 Smámynd: Jón Þór Helgason

hefði verið glundroði umfram það sem var? ég held ekki.

Öll veð þjóðarinnar í dag eru í höndum kröfuhafa hvort sem er.

Þegar Toyota var selt og fyrirtæki Magnúsar Kristinssonar fór allt til kröfuhafa.

Villtu fleyrri dæmi?

innistæður voru ekki nema ca 33% af heildarstærð bankakerfisins hvort sem er.

Upplausninn hefði verið hjá Engeyjarættinni og vinum þeirra og bankamönnum.

Krónan hefði fallið og enginn krónuvandi væri í dag.

þeir sem hefðu orðið gjaldþrota v. verðtryggingarinnar urðu það hvort sem er árið 2012-2013.

Jón Þór Helgason, 12.11.2013 kl. 12:16

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei Jón Þór, þau eru það ekki.

Með örfáum undantekningum, líkt og lánsafn Glitnis í sjávarútvegsfyrirtækjum, þá voru þau ekki í höndum  erlendra kröfuhafa.

Þess vegna þurfti hið svarta fjármagn að fjárfesta í glundroða og ringulreið og ein birtingarmynd hennar er sú tenging sem þessi pistill vísar í.

Þú ert að rugla saman veð bankastofnana í rekstri við veð kröfuhafa, og þeir sem hafa reynt hið síðara, þekkja muninn.  

Þjóðir eru gerðar upp ef þær missa tök á veðum sínum.

Þó fátt sé gott á Íslandi í dag, þá er ekki á nokkurn hátt hægt að bera saman hlutskipti okkar og til dæmis Grikkja, eða annarra fórnarlamba AGS í gegnum tíðina.

En það sem fór úrskeiðis er ekki neyðarlögunum að kenna, heldur þeim sem voru keyptir til þjónustu við að klúðra hlutum.

Engeyjarættin, eins ágæt og hún er blessunin, er ekki óvinurinn í dag.

En það hentar mjög hagsmunum hins svarta fjármagns að telja fólki trú um það.

Með ágætum árangri sýnist mér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 14:53

17 Smámynd: Jón Þór Helgason

Nei ég er ekki að segja að engeyjarættinn sé slæm, ég er bara að vísa í að neyðarlöginn hjálpaði fáum, þetta var ekki vel orðað hjá mér.

í dag eru kröfuhafar með tak í þessu öllu. Því miður.

80% að bættum innheimtum bankana renna beint til kröfuhafana.

Jón Þór Helgason, 12.11.2013 kl. 15:16

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Jón Þór.

Ég get ekki annað en ítrekað að þú ert að blanda saman neyðarlögunum og því sem gerðist eftir neyðarlögin.

Ef neyðarlögunum hefði verið fylgt eftir með íslensku stjórnvaldi þá værum við laus við erlenda kröfuhafa, sem og hin íþyngjandi krónubréf.

Við værum langt komin með að endurreisa efnahaginn, vextir væru eins og hjá siðuðum þjóðum, útflutningur blómstraði, heimilin væru búin að ná vopnum sínum, og framtíðin blasti við.

En við gerðum það ekki, kusum að láta spila með okkur.

Því miður.

En við vorum ekki gerð upp, ekki ennþá, þó óðum styttist í það.

Það er ef þjóðin rumskar ekki af óminnissvefni sínum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 15:24

19 identicon

Hagræðingin er engin

12/11/2013 — Punktar

Hagræðingin er nákvæmlega engin hjá Ásmundi, Vigdísi og Guðlaugi. Skýrslan mikla í hundrað liðum snýst um að skoða og kanna. Ekkert er þar, sem hönd á festir. Hvergi er nein tala nefnd. Samt þykist nefndin hagræðinguna spara tugi milljarða. Fjölmiðlar éta þetta auðvitað viðnámslaust upp eftir henni eins og venjulega. Þetta er í stíl núverandi stjórnarfars. Það einkennist af nefndum og sérfræðingahópum, skoðun og könnu mála. Eins og aðalmálið sé að bæta lífskjör nefndakónga. Okkur var sagt, að velt yrði við hverjum steini, en nánast ekkert er litið á tugmiljarðana í styrkjum til landbúnaðarins.

Jónas í hvalnum (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 186
  • Sl. sólarhring: 340
  • Sl. viku: 4029
  • Frá upphafi: 1329560

Annað

  • Innlit í dag: 163
  • Innlit sl. viku: 3532
  • Gestir í dag: 157
  • IP-tölur í dag: 153

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband