30.10.2022 | 21:12
Læra má af lexíum sögunnar.
Ef Menningarsjóður skyldi taka uppá því að gefa út nýja, myndskreytta íslenska orðabók, þá er öruggt að með orðinu sauðarleggur myndi ekki birtast mynd af sauði, heldur meðfylgjandi mynd af Guðlaugi Þór þar sem hann tilkynnir framboð sitt.
Þá í samhenginu, að útskýra orðatiltækið; Að koma eins og skrattinn úr sauðarlegg.
Því hvað gengur manninum til, þessum stærsta pólitíska ölmusaþega útrásarvíkinganna að fara gegn ættarveldi Engeyinga, sjálfur ættlaus með afbrigðum og hefur örugglega fyrst séð silfurskeið á námsárum sínum þegar hann fór að umgangast sér heldri menn.
Þar fyrir utan nær hann vart að vera hálfdrættingar á við Bjarna varðandi pólitíska útgeislun, rökfestu, að ekki sé minnst á mælsku, eða hæfni til að standa í stafni í miðri orrahríð erfiðra mála.
Og sem umhverfisráðherra hefðu Píratar alveg eins getað skipað hann, svo stefnulaus og fyrirsjáanlegur er hann, fljótandi á öldum sýndarmennsku og hávaða dægurumræðunnar, á tímum þegar dauðans alvara er undir að menn taki þess mál alvarlega.
Hvað gengur manninum til annað en persónulegur metnaður taparans??
En þá skýrði Ruv málið með plantaðri fréttaskýringu sinni um möguleika Guðlaugs, hann hefði nefnilega unnið að þessu lengi, í kyrrþey-inni, með því að koma sínu fólki inní stjórnir og ráð félaganna, þaðan sem landsnefndarfulltrúar eru valdir.
Og upp rifjaðist fyrir mér skemmtileg grein sem ég las fyrir margt löngu, og útskýrði, afhverju Stalín, ómenntaður, grimmur bóndadurgur, lagði að velli mörg velmenntuð glæsimenni í kjörinu um eftirmann Leníns, hann ótalandi, þeir mælskumenn sem blésu eldmóð í brjóst alþýðunnar, fylktu henni að baki sér í byltingunni, og höfðu sigur á andstæðingum sínum, jafnt innlendum sem erlendum herjum sem réðust inní Rússland til að hindra valdatöku þeirra.
Á meðan sat Stalín í skjóli skrifstofunnar, en nagaði ekki blýanta heldur lagði drög að því að gera menn háða sér, kom sínum menn fyrir í flokkstöðum, og það voru flokksfulltrúarnir sem kusu hinn nýja leiðtoga, ekki stríðsmenn vígvallanna.
Söguna þekkjum við síðan, en lærdómur er að hæfni eða forystuhæfileikar skipta ekki máli þegar mestu skiptir dugnaðurinn við að draga menn í dilka, og fjöldinn í dilkunum ræður úrslitum í kjöri.
Á þessa lexíu var fréttaskýring Rúv að benda á, hvort matið á styrk Guðlaugs Þórs er annað mál, vandséð hvernig viðkomandi fréttamaður gat haft nokkra hugmynd þar um, enda hugsunin ekki að segja frétt, heldur var um forkynningu á framboði Guðlaugs Þórs, hugsað til að veikja Bjarna, með því tala niður stöðu hans á sama tíma og stjórnkænska Guðlaugs var upphafin.
Það kannski fyndna er að gengið var út frá því að Stalín væri ennþá hér, að forystumaður eða forystumenn gætu stjórnað fyrirfram atkvæðum fólks, að það hefði engan sjálfstæðan vilja til að leggja mat á hæfni viðkomandi frambjóðenda.
Burtséð frá því þá er þetta forvitnileg feigð hjá forystu Sjálfstæðisflokksins.
Að ljá máls á flokkadráttum þegar Samfylkingin lauk loksins áralangri eyðimerkurgöngu sinni og kaus til forystu alvöru leiðtoga.
Með pólitíska útgeislun og styrk sem fæst af forystufólki Sjálfstæðisflokksins hefur.
Um slíka feigð kann sagan margar lexíur.
Hvort ný bætist í þann lærdómsbanka um næstu helgi mun tíminn leiða í ljós.
En þetta væri talið skrýtið í kýrhausnum.
Kveðja að austan.
![]() |
Guðlaugur Þór býður Bjarna birginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.10.2022 | 16:33
Eigendurnir bíta frá sér.
Af einhverjum ástæðum, sem ekki nokkur maður skilur, telur háskólafólkið í VG og Samfylkingu sig eiga verkalýðshreyfinguna, vísa þá oft í rætur flokka sinna og tengsl þeirra við verkalýðsbaráttu síðustu aldar.
Eitthvað af þessu háskólafólki segir líka að afi þeirra og amma, og jafnvel langafi og langamma, hafi verið róttækt baráttufólk fyrir bættum kjörum alþýðunnar, yfirráðin séu þá einhvers konar ættargóss, svona eins og óðalsetur í sveitum Englands, eða hlutabréf í Eimskip eða Flugleiðum.
Og svo ég haldi mig við líkinguna um sveitaróðalið, þá sé hlutverk þess að passa uppá lýðinn í verkalýðsfélögunum (sbr að gæta að híbýlum og næringu leiguliða) að honum sé útveguð forysta og leiðsögn hámenntaðs fólks sem kann að semja um kaup og kjör, sem og að drekka kokteila með atvinnurekendum eftir árangursríka samninga.
Það eina sem háskólafólkið ætlast til í staðinn er að verkalýðurinn sé þakklátur, lúti leiðsögn þess, og viðurkenni eignarhald þess.
Ljúf heimsmynd, ljúfur raunveruleiki, eða alveg þar til einhver rebel, skúringarkona, labbaði inná fund hjá Eflingu og sagði, "við lifum ekki af laununum okkar, við þurfum alvöru verkalýðsbaráttu".
Bauð sig svo fram til formanns og sigraði.
Og fór í verkalýðsbaráttu, á forsendum verkafólks, ekki forsendum meintra eiganda, reif kjaft, boðaði til verkfalla, drakk ekki kokteila.
Steininn tók úr þegar hin fyrrverandi skúringarkona boðaði til verkfalls á leikskólum borgarinnar, krafðist þess að ófaglært starfsfólk gæti lifað af launum sínum.
Þarna var ráðist á helgustu vé háskólafólksins í VG og Samfylkingunni, sjálfa stjórn Góða fólksins í Reykjavík, með þeirri ósvífnustu kröfu sem hægt var að ímynda sér; nei, nei ekki kröfuna um mannsæmandi laun, kröfuna um að laun hinna ófaglærðu dygðu fyrir lágmarksframfærslu.
Eitt var að þola rebelnum að lemja á atvinnurekendum, enda flestir borgandi í sjóði Sjálfstæðisflokksins, en að afhjúpa hræsnina, tvöfeldnina sem Góða fólkið hrærist í, það var ófyrirgefanlegt.
Síðan hafa hinir meintu verkalýðsflokkar, VG og Samfylkingin, verið í beinu stríði við Sólveigu Önnu, og þar eru öll vopn leyfileg.
Rógur, níð, skurðgröftur, upphafning nóboddía í meintri andstöðu, jafnt innan Eflingar sem og ASÍ.
Að ekki sé minnst útí samfélaginu, í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum, og alltaf blasa við fingraför hinna þrautæfðu skítadreifara þessara flokka.
Þá sögu ætla ég ekki að rekja hér, samt er gott að hafa í huga aðkomu Rúv af þessari níðherferð allri saman þegar hershöfðingi hinna meintu eiganda fékk að úttala sig í Kastljósi um stríðsaðgerðir sínar og sigra á ný-afstöðnu ASÍ þingi.
Líkleg skýring þess er að hún er kona, nánasti bandamaður fyrrverandi formanns ASÍ, sem líka er kona, en Sólveig Anna er hins vegar skúringarkona.
Á því er reginmunur og spyrli datt ekki í hug að spyrja Höllu um sinn þátt í hjaðningavígunum sem holsærðu Alþýðusambandið, samdi hún til dæmis bréf verkalýðsforingjanna sem var upphafið af níðherferðinni gegn Ragnari Ingólfssyni??
Þessi frétt er um enn eina upphafningu nóboddía.
Þar sem öllum árum er róið undir til að vega að og fella Sólveigu Önnu.
Svona gerist aldrei fyrir tilviljun, þarna er fagfólk að baki sem nýtir sér þörfina fyrir sviðsljósið.
Háskólafólkinu, þessum meintu eigendum verkalýðshreyfingarinnar, er nefnilega alveg sama þó það rústi Alþýðusambandinu, þó það rústi Eflingu.
Þó það rústi verkalýðshreyfingunni eins og hún leggur sig.
Í þeirra huga er yfirráð yfir rústum betra en ekki neitt, betra en að verkafólk ráði ráðum sínum sjálft.
Það og ekkert annað skýrir þennan fund í húsi Þjóðminjasafnsins í dag.
Kveðja að austan.
![]() |
Vilja kljúfa sig frá Eflingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.10.2022 | 18:30
Af hverju fór Landsréttur ekki alla leið??
Hann segir að leigumorðið i Rauðagerði eigi sér ekki hliðstæðu á síðari tímum í íslenskri réttarsögu.
Enda þarf hvorki mikið vit eða gáfur til að benda á að keypt leigumorð sé án forsendu á glæpamarkaði Íslands, fyrri dæmi þar um eru ekki þekkt.
Í því sjónarmiði er það kjarkmikið að fara gegn dómi Héraðsdóms, eða gegn fyrri dómum þar sem augljóst er að skipulögð glæpastarfsemi hefur ítök sem og stjórnar dómum á fyrsta dómsstigi þjóðarinnar.
Við sem höfum aldur til að lesa bók Puzo um Guðfaðirinn, að ekki sé minnst á stórmyndir Coppola, vitum að baki rangra dóma, í þágu glæpamanna, er alltaf, aldrei yfirleitt heldur alltaf, fjármunir eða hagsmunir, sem fara á milli glæpamanna til dómara.
Menn þurfa að vera alveg sérstakir fávitar til að halda að þegar þekkt handbendi sýknaði litháíska glæpamenn sem réðust á og misþyrmdu lögreglumönnum á Laugarveginum með þeim rökum að ekki væri sannað hvað af þessu glæpahyski (vinnumenn mafíunnar voru 6 í þessu tilviki) hefði veitt höggin sem sköðuðu lögreglumennina sem lenti í aðför þeirra, að þá hefðu réttarfarsleg rök legið að baki.
Kannski byrjaði þetta allt þegar ógæfustrákar fengu sama dóm og handbendi Litháísku mafíunnar í Líkfundarmálinu, þá var svo augljóst hvaðan fyrirmælin komu, en aðeins einn maður, héraðsdómari tók þá skýringu trúanlega að viðkomandi handbendi hefði ekki fengið fyrirmæli frá yfirmanni sínum í Litháen, heldur hefði hann hringt í viðkomandi, sem hann sagði að væri frændi sinn, til að fá ráð um bakverki, svona með dauðan mann í höndunum.
Líklegast þá upplifðum við Guðföðurinn á Íslandi.
Fingraförum Guðföðurins hefur aðeins fjölgað síðan.
Látum kjurt liggja að burðardýr séu talin omega og alfa innflutnings á fíkniefnum til landsins, fíkniefnalögreglan er ekki til umfjöllunar í þessum pistli.
Verra var þegar þekktur ofbeldismaður, viðurkenndur yfirmaður handrukkara helstu dópsala þjóðarinnar var sýknaður vegna dráps á fjölskylduföður í Mosfellsbænum, en lítið örverpi var látið taka á sig alla sökina á því drápi.
Fyrir utan augljós fingraför Guðföðurins, þá er það virkilegt rannsóknarefni, að við skattgreiðendur, við sem upplifum harminn af dópinnflutningi Guðfeðra þjóðarinnar, skulum kosta Lagadeild Háskóla Íslands, sem einu faglegu forsendu akademíu þjóðarinnar, og að þar skuli þessi dómur ekki vera kenndur sem dæmi um spillingu og áhrifa skipulagðar glæpastarfsemi á Íslandi.
Samt kannski skiljanlegt því eigi má gleyma að það eru áratugir síðan (aldir) að lögfræðingar fengu einkarétt á allt sem snýr að dómum, dómsmálum, eða annað sem snýr að réttarkerfi vestrænna þjóða.
Og glæpamennirnir, hvort sem þeir eru hvítflibba eða svona alvöru, þeir borga mest.
Langt mál, aðeins snert yfirborð þess kverkataks sem skipulögð glæpastarfsemi hefur á réttarkerfi þjóðarinnar, en nauðsynlegt til að fagna að þrátt fyrir allt er dæmt eftir lögum og reglum á Íslandi.
Hvort sem Guðfaðirinn borgaði ekki nóg, eða hvort dómurum Landsréttar hafi einfaldlega verið nóg boðið, kannski vitandi um vítin sem frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa upplifað eftir að rafeindaskurðhnífur fór ekki á milli dómara og þarlendra glæpamanna sem njóta verndar einokunarstéttar lögfræðinga, ósnertanlegir, fangelsin aðeins full af smáglæpamönnum eða handbendum þeirra sem fá keypt sér frið frá réttarkerfinu.
Þar geta aðeins dómarar Landsrétts útskýrt sitt mál.
Vissulega ber okkur almenningi að fagna að réttarkerfi þjóðarinnar sé ennþá virkt.
Að glæpahyski sé dæmt, að það sæti ábyrgð gjörða sinna.
Eftir stendur samt;
Tvennt.
Afhverju er handbendið í Héraðsdómi ekki sótt til saka.
Af hverju kemst það upp með rangan dóm, sem á sér engar forsendur aðrar en ítök Guðföðurins, hvort sem um beina fjármuni sé að ræða, eða hagsmuni??
Ísland er jú ekki í Suður eða Mið-Ameríku.
Og afhverju fá lögmennirnir ekki sama dóm??
Það er jú enginn munur á þeim og leigumorðingjanum, hvoru tveggja er angi af hinni skipulagðri glæpastarfsemi.
Síðan er stóra spurningin, Hver er Guðfaðirinn??
En það er ekki Landsréttar að svara því.
En lögreglan veit það.
Og hún gengur laus.
Kveðja að austan.
![]() |
Á sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarsögu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.10.2022 | 16:56
Er til aumara fólk??
Með allt niðrum sig, hundsandi í yfir ár alvarlegt ofbeldiseinelti.
Og hve aum erum við í okkar sérfræðingaveldi að við samþykkjum að ábyrgðaraðilar hins grófa eineltis, hinu aumkunarverðu skólastjórnendur Hraunavallaskóla biðja um frið, að þau hafi aldrei reiknað með að aumingjaskapur þeirra myndi komast í kastljós fjölmiðla.
Bekennum við það??
Og bekennum við þá leitni sérfræðingaveldisins að gera gerendur að meintum fórnarlömbum??
Að þeir eigi svo bágt, að þeir megi níðast á öðrum, beita ofbeldi, jafnt líkamlegu sem og ekki hvað síst, andlegu.
Það er jú atvinnuskapandi, til lengri tíma arðbærari, vekur ekki spurningu um hæfni eða getu, eða hvort nokkur vitglóra sé í hausnum á þessu fólki sem yfirtók ríkispenan, eða kostnaðinn við hið endanlega, kostnað útfarastofa sem hvort sem er er fyrir utan ríkisspenann.
Við hin getum spurt, Hvað með ábyrgðina??
Ábyrgð þeirra sem láta eineltið viðgangast, með vísan í alla þá ferla sem þeir hafa samþykkt, allar þær exel skýrslur sem þeir senda hvort öðru, eða ráðuneytinu, sem reglulega stærir sig af innleiðingu ferla, hvort sem þeir eru heildrænir eða annað, allavega á blaði, eða í það minnsta einhvers staðar þarna útí víðáttu alnetsins.
Og spurt, Af hverju gerðu þið ekki eitthvað??
Datt ykkur aldrei í hug að láta gerendur sæta ábyrgð??
Að við líðum ekki svona hegðun??
Nei, ykkur datt það ekki í hug í öryggi ykkar á ríkisspenanum.
Gleymduð sjálfsagt að biðja um í síðustu kjarasamningum að ykkur bæri skylda til að bregðast við níðingsverkum,
Afhjúpuð, biðjið þið svo um frið og svigrúm.
Eftir stendur spurningin, Hvað ef fórnarlambið hefði dáið??
Hefðu þið sent krans undir liðnum "Óvænt útgjöld"??
Samt líklegast er til aumara fólk.
Það er fólkið sem mætir í viðtöl, líklegast vegna þess að það þiggur laun af ríkispenanum, eða öðrum spenum, og segir ALLT ANNAÐ en að minnast á ábyrgð.
Á ábyrgð gerenda, á ábyrgð hinna fullorðnu sem láta ofbeldið og eineltið viðgangast.
Því þetta snýst jú allt um ÁBYRGÐ.
Að axla hana.
Kveðja að austan.
![]() |
Skólinn tjáir sig ekki og biður um svigrúm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.5.): 8
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 45
- Frá upphafi: 1440141
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 42
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar