Er til aumara fólk??

 

Með allt niðrum sig, hundsandi í yfir ár alvarlegt ofbeldiseinelti.

Og hve aum erum við í okkar sérfræðingaveldi að við samþykkjum að ábyrgðaraðilar hins grófa eineltis, hinu aumkunarverðu skólastjórnendur Hraunavallaskóla biðja um frið, að þau hafi aldrei reiknað með að aumingjaskapur þeirra myndi komast í kastljós fjölmiðla.

 

Bekennum við það??

Og bekennum við þá leitni sérfræðingaveldisins að gera gerendur að meintum fórnarlömbum??

 

Að þeir eigi svo bágt, að þeir megi níðast á öðrum, beita ofbeldi, jafnt líkamlegu sem og ekki hvað síst, andlegu.

Það er jú atvinnuskapandi, til lengri tíma arðbærari, vekur ekki spurningu um hæfni eða getu, eða hvort nokkur vitglóra sé í hausnum á þessu fólki sem yfirtók ríkispenan, eða kostnaðinn við hið endanlega, kostnað útfarastofa sem hvort sem er er fyrir utan ríkisspenann.

 

Við hin getum spurt, Hvað með ábyrgðina??

Ábyrgð þeirra sem láta eineltið viðgangast, með vísan í alla þá ferla sem þeir hafa samþykkt, allar þær exel skýrslur sem þeir senda hvort öðru, eða ráðuneytinu, sem reglulega stærir sig af innleiðingu ferla, hvort sem þeir eru heildrænir eða annað, allavega á blaði, eða í það minnsta einhvers staðar þarna útí víðáttu alnetsins.

Og spurt, Af hverju gerðu þið ekki eitthvað??

 

Datt ykkur aldrei í hug að láta gerendur sæta ábyrgð??

Að við líðum ekki svona hegðun??

 

Nei, ykkur datt það ekki í hug í öryggi ykkar á ríkisspenanum.

Gleymduð sjálfsagt að biðja um í síðustu kjarasamningum að ykkur bæri skylda til að bregðast við níðingsverkum,

 

Afhjúpuð, biðjið þið svo um frið og svigrúm.

Eftir stendur spurningin, Hvað ef fórnarlambið hefði dáið??

Hefðu þið sent krans undir liðnum "Óvænt útgjöld"??

 

Samt líklegast er til aumara fólk.

Það er fólkið sem mætir í viðtöl, líklegast vegna þess að það þiggur laun af ríkispenanum, eða öðrum spenum, og segir ALLT ANNAÐ en að minnast á ábyrgð.

Á ábyrgð gerenda, á ábyrgð hinna fullorðnu sem láta ofbeldið og eineltið viðgangast.

 

Því þetta snýst jú allt um ÁBYRGÐ.

Að axla hana.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Skólinn tjáir sig ekki og biður um svigrúm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

 Sæll Ómar. Mikið er gott að þú ert aftur kominn á þennan vígvöll eftir nokkurt hlé. Það ætti að hvetja þá sem vilja láta sína sannfæringu ráða og þá sem skortir kjark en hafa eitthvað til málanna að leggja. Þinn stíll finnst mér alveg nauðsynlegur, að skrifa tæpitungulaust og af réttlæti. Það er gott einsog þú gerir, að fjalla um mikilvæg mál.

Mér finnst sérlega napurt að undir eiginlega öllum fréttum af þessu hörmulega máli er minnt á Píeta símann, hjá þeim sem berjast gegn sjálfsvígum, þegar það liggur fyrir að aumingja stelpan sem lenti í þessu var ekki í neinum sjálfsvígshugleiðingum áðuren þetta dundi á henni. Það er alveg augljóst að einhverjar ytri aðstæður valda, og það er ekki ljóst hvað það er, hvort það liggur alveg hjá gerendunum sjálfum eða í einhverju samskiptaferli sem leiddi að eineltinu.

Þetta vekur upp spurningar um hvort fleiri í sjálfsvígshugleiðingum séu það vegna ytri aðstæðna.

Það er líka napurt að svona mál fá að gerast og líðast þar til allt í einu þau komast í fjölmiðla. Það skrifaði kona á mína síðu þegar ég fjallaði um þetta að hún vissi af fleiri svona málum sem ekki er fjallað um. 

Það er víða pottur brotinn, og vonandi að þessu verði fylgt eftir og reynt að fyrirbyggja þetta í framtíðinni, ef hægt er.

Það var einn strákur í mínum bekk sem lagði marga í einelti þegar ég var 6 ára. Ég var ekki nógu félagslyndur og lenti svolítið í honum um skeið, en margir verr. Svo fór ég að slá á móti og lamdi hann víst einusinni þannig að hann lét mig í friði síðar, samkvæmt því sem mamma sagði, ég fékk virðingu eftir það. Eineltishrottar eru ekki endilega þeir merkilegustu þegar á herðir.

En þessar nýlegu sögur af ofbeldi eru mjög yfirdrifnar, þegar samfélagsmiðlarnir eru líka notaðir, orðbragðið er ljótara og fleiri saman. 

Mér finnst bara mjög ljótt þegar krakkar segja öðrum krökkum að drepa sig. Börn eru viðkvæm fyrir þessu. 

Þessi  viðtöl í Kastljósinu á eftir voru frekar yfirborðskennd. Það þarf að gera miklu betur og fylgja þessu eftir og koma með betri skýringar.

 

Ingólfur Sigurðsson, 21.10.2022 kl. 23:46

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Gott ad sjá thig aftur Ómar.

Frábaer pistill og tharfur.

Sigurður Kristján Hjaltested, 22.10.2022 kl. 00:44

3 identicon

Sæll Ómar.

Þú spyrð ,,Datt ykkur aldrei í hug að láta gerendur sæta ábyrgð??" Velti fyrir mér hvaða úrræði þú sérð fyrir þér. Eins merkilega og það hljómar er bannað að vísa börnum úr grunnskóla. Skólaskylda á Íslandi. Hér hefði vissulega átt að vísa stúlkunum úr skóla á meðan væri að vinna í málinu. Heimakennsla sem foreldar sinna ætti að vera úrræði sem skólayfirvöld mættu grípa til. Annað sem er undarlegt, neiti foreldri samvinnu er ekkert hægt að gera. Þá er skólanum vandi á höndum. 

Það er líka undarlegt að margar eineltisáætlanir, í þessu litla landi, finnast í skólum. Þeim ber ekki að samræma aðgerðir. Ekkert fagfólk eða sérmenntaður kennari vinnur innan skólanna að málaflokknum. Vissulega bagalegt. Kalla ætti til fagmanns frá sveitarfélaginu þannig að óháður aðili komi inn frá fyrsta degi þegar um gróft einelti er að ræða. Sveitarfélögin hafa þar valdið.

Ábyrgð foreldra er mikil í þessum málum en vald þeirra sömuleiðis.

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 22.10.2022 kl. 09:24

4 identicon

Tek undir með öðrum hér, hressandi að sjá þig aftur mættan á ritvöllinn.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.10.2022 kl. 14:15

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ingvar.

Núna gerast veður válind, líklegast lifum við einn síðasta vetur siðmenningarinnar eins og við þekkjum hana, eða hún líður undir lok strax í vetur, það eru það mörg hamfaraferli í gangi, og leiðtogar vestrænna landa eru með öllu ófærir að takast á við þau.  Þess vegna var þetta ágætur tímapunktur að athuga hvort það væri ennþá líf í síðu minni, þörfin til að tjá sig getur alltaf kviknað í því umróti öllu saman, reyndar náði lýðskrum Viðreisnar í hinni meintu flóttamannaumræðu að vekja upp njálginn í litlu tánni, og það er bara svo með það kvikindi, það er njálginn, að hann á það til að breiðast út.

En takk fyrir þitt góða og hugsaða innlegg, ef ég má orða það svo, það víkkar út og bætir í skrif mín.

Ég mun fjalla meir um það sem ég kalla að axla ábyrgð í andsvari mínu til Helgu, en ég er mikið sammála þér að það er smán skólakerfisins að það skuli þurfa fjölmiðlaumræðu til að menn skammist sín og geri eitthvað, þó ég vonaðist til að reisnin væri meiri en svo að biðjast vægðar á þeirri umræðu, það er eins og menn gleymi að hún kom að gefnu tilefni, og það voru stjórnendur skólans sem gáfu það tilefni.

Síðan megum við aldrei gleyma að það er líka öxluð ábyrgð, að svona mál eru leyst, oft í fæðingu vegna snöggra viðbragða, eða seinna í ferlinu því menn gefast ekki upp.

Líða ekki slíka hegðun innan veggja skólans, eða neteinelti utan hans.

Í ljósi þess eru hinir aumu, ennþá aumari en ella.

Engin bón um vægð fær því breytt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.10.2022 kl. 14:28

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir það Sigurður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.10.2022 kl. 14:29

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Helga.

Í það fyrsta vil ég þakka þér fyrir málefnalega umræðu, sem starfandi kennari hefur þú sýn og reynslu sem við utanaðkomandi aðilar höfum ekki, ég hef aðeins reynslu sem foreldri, og bý að því í nærumhverfi strákanna minna var tekist strax á öllu einelti áður en það varð að vandamáli, þó ég viti að ekki allir foreldrar í mínum heimbæ myndu taka undir þau orð mín.

Ég skil alveg það sjónarmið að það felist í að axla ábyrgð, að viðkomandi gerendum sé vísað úr skóla vegna hegðunar sinnar, réttindi þeirra hljóta að víkja þegar þeir nýta þau réttindi til að níðast á og valda öðrum skaða. 

En ég var ekki að hugsa dæmið þannig, heldur þá grundvallarreglu að það sé ófrávíkjanlegt að einelti sé ekki liðið, og það sé strax gripið til aðgerða til að stöðva það.  Þar er samvinna við foreldra lykilatriðið, að þeir séu upplýstir og strax fengnir til að hjálpast að við lausn málsins.  En ósamvinnuþýðir foreldrar eiga aldrei að geta stöðvað slíka vinnu, þeir eiga samt að vera boðaðir á fundi, tilkynnt niðurstöður þeirra, og skólinn á síðan að hafa ráð til að bregðast við, hvort sem það er eins og með aðra ofbeldishegðun, þurfi maður á mann, taka viðkomandi út úr tímum, skiptir svo sem engu, því þessi mál leysast þegar gerendur og ósamvinnuþýðir foreldrar átta sig á að skólayfirvöldum er full alvara með viðbrögðum sínum.

Það er ekki svo töff að vera bulli að það sé látið rústa skólagöngu og mannorði viðkomandi.

Síðan má bæta við svona í ljósi hinna alvarlegu eineltismála sem komu upp í Mosfellsbæ, þar sem einhverjir skólastjórnendur virðast hafa lyppast niður gegn frekju og yfirgangi foreldra sem töldu sig hafa "stöðu" innan samfélagsins, og þeir báðu foreldra fórnarlamba að skipta um skóla, því þeir væru ófærir um að takast á við eineltið, að slík bón á að vera brottrekstrasök viðkomandi skólastjórnenda.  En það má aðstoða þá, til dæmis getur það verið eitt af hlutverkum sérsveitarinnar að senda fullvopnaða menn í átakabúning á fund með slíkum foreldrum, kjarklitlum skólastjórnendum til stuðnings.

Kannski ýkt, auðvitað sett fram í þeim tilgangi, en pointið er, aðalatriðið er, að það eru alltaf til ráð.

Önnur ráð en þau að lúffa fyrir ofbeldi.

Annars heldur það áfram endalaust.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.10.2022 kl. 14:53

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Aðeins rumsk Pétur minn, aðeins rumsk.

Reikna fyrr með að Katla gjósi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.10.2022 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 208
  • Sl. sólarhring: 681
  • Sl. viku: 4656
  • Frá upphafi: 1329218

Annað

  • Innlit í dag: 179
  • Innlit sl. viku: 4106
  • Gestir í dag: 174
  • IP-tölur í dag: 173

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband