Læra má af lexíum sögunnar.

 

Ef Menningarsjóður skyldi taka uppá því að gefa út nýja, myndskreytta íslenska orðabók, þá er öruggt að með orðinu sauðarleggur myndi ekki birtast mynd af sauði, heldur meðfylgjandi mynd af Guðlaugi Þór þar sem hann tilkynnir framboð sitt.

Þá í samhenginu, að útskýra orðatiltækið; Að koma eins og skrattinn úr sauðarlegg.

 

Því hvað gengur manninum til, þessum stærsta pólitíska ölmusaþega útrásarvíkinganna að fara gegn ættarveldi Engeyinga, sjálfur ættlaus með afbrigðum og hefur örugglega fyrst séð silfurskeið á námsárum sínum þegar hann fór að umgangast sér heldri menn.

Þar fyrir utan nær hann vart að vera hálfdrættingar á við Bjarna varðandi pólitíska útgeislun, rökfestu, að ekki sé minnst á mælsku, eða hæfni til að standa í stafni í miðri orrahríð erfiðra mála.

Og sem umhverfisráðherra hefðu Píratar alveg eins getað skipað hann, svo stefnulaus og fyrirsjáanlegur er hann, fljótandi á öldum sýndarmennsku og hávaða dægurumræðunnar, á tímum þegar dauðans alvara er undir að menn taki þess mál alvarlega.

 

Hvað gengur manninum til annað en persónulegur metnaður taparans??

 

En þá skýrði Ruv málið með plantaðri fréttaskýringu sinni um möguleika Guðlaugs, hann hefði nefnilega unnið að þessu lengi, í kyrrþey-inni, með því að koma sínu fólki inní stjórnir og ráð félaganna, þaðan sem landsnefndarfulltrúar eru valdir.

Og upp rifjaðist fyrir mér skemmtileg grein sem ég las fyrir margt löngu, og útskýrði, afhverju Stalín, ómenntaður, grimmur bóndadurgur, lagði að velli mörg velmenntuð glæsimenni í kjörinu um eftirmann Leníns, hann ótalandi, þeir mælskumenn sem blésu eldmóð í brjóst alþýðunnar, fylktu henni að baki sér í byltingunni, og höfðu sigur á andstæðingum sínum, jafnt innlendum sem erlendum herjum sem réðust inní Rússland til að hindra valdatöku þeirra.

Á meðan sat Stalín í skjóli skrifstofunnar, en nagaði ekki blýanta heldur lagði drög að því að gera menn háða sér, kom sínum menn fyrir í flokkstöðum, og það voru flokksfulltrúarnir sem kusu hinn nýja leiðtoga, ekki stríðsmenn vígvallanna.

 

Söguna þekkjum við síðan, en lærdómur er að hæfni eða forystuhæfileikar skipta ekki máli þegar mestu skiptir dugnaðurinn við að draga menn í dilka, og fjöldinn í dilkunum ræður úrslitum í kjöri.

Á þessa lexíu var fréttaskýring Rúv að benda á, hvort matið á styrk Guðlaugs Þórs er annað mál, vandséð hvernig viðkomandi fréttamaður gat haft nokkra hugmynd þar um, enda hugsunin ekki að segja frétt, heldur var um forkynningu á framboði Guðlaugs Þórs, hugsað til að veikja Bjarna, með því tala niður stöðu hans á sama tíma og stjórnkænska Guðlaugs var upphafin.

Það kannski fyndna er að gengið var út frá því að Stalín væri ennþá hér, að forystumaður eða forystumenn gætu stjórnað fyrirfram atkvæðum fólks, að það hefði engan sjálfstæðan vilja til að leggja mat á hæfni viðkomandi frambjóðenda.

 

Burtséð frá því þá er þetta forvitnileg feigð hjá forystu Sjálfstæðisflokksins.

Að ljá máls á flokkadráttum þegar Samfylkingin lauk loksins áralangri eyðimerkurgöngu sinni og kaus til forystu alvöru leiðtoga.

Með pólitíska útgeislun og styrk sem fæst af forystufólki Sjálfstæðisflokksins hefur.

 

Um slíka feigð kann sagan margar lexíur.

Hvort ný bætist í þann lærdómsbanka um næstu helgi mun tíminn leiða í ljós.

 

En þetta væri talið skrýtið í kýrhausnum.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Guðlaugur Þór býður Bjarna birginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Meðan þú svafst var Menningarsjóður lagður niður árið !992.

Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 30.10.2022 kl. 21:52

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Félagi Esja, fyrst að Stalín getur gengið aftur, gæti Menningarsjóður alveg gert það líka.

Kveðja að austan.

PS. Það hafa greinilega verið fáir kýrhausar í þinni sveit í gamla daga.

Ómar Geirsson, 30.10.2022 kl. 21:56

3 identicon

Ég held einmitt að tilkoma Kristrúnar verði til að Bjarni Ben þurfi að víkja.  Sjálfstæðismenn verða að geta sýnt fram á að flokkurinn sé í alvöru fyrir litla einyrkjann og að sveigurinn frá sósíalismanum þ.e. að lækka skatta og hemja ríkisútgjöld sé fyrir alla.   Ekki bara til að viðhalda áframhaldandi Hrunadansi myrkra fjármálaafla Jóns hins sterka í íslensku fákeppnisumhvefi þar sem Ketill skrækur lífeyrissjóðanna spilar glaður með!

Bjarni Bjarnason (IP-tala skráð) 31.10.2022 kl. 03:23

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Nafni þinn á sér fortíð, og innmúraðri stjórnmálamann inní auð og hagsmuni er erfitt að finna, en Guðlaugur er ekki svarið út frá þeim forsendum sem þú nefnir, hann á sér sína fortíð, er ekki með kjörfylgi í Reykjavík, og jafn innvinklaður í þessa ríkisstjórn og Bjarni, nema Guðlaugur ákvað af einhverjum ástæðum að róa á mið Pírata þegar hann gerðist umhverfisráðherra.

Ef hægri armur Sjálfstæðisflokksins vill svona "ómengaðri" sjálfstæðisstefnu, þá færðu ekki meintan Pírata til þess, heldur alvöru hægri manneskju eins og Sigríði Andersen, sem líka er ein af örfáum innan Sjálfstæðisflokksins sem hefur eitthvað í Kristrúnu að gera.

En þá er flokkurinn í stjórnarandstöðu og verður það um ókomin ár, því maður sér það í Reykjavík að það er sama hvað vitleysingahjörðin gerir, hún heldur alltaf meirihluta sínum.

Í daga hafa stelpurnar ekkert í Kristrúnu að gera, Áslaug líklegast aldrei, spurning með Þórdísi Kolbrúnu, því verður ekki á móti mælt að hún er vaxandi í embætti sínu sem utanríkisráðherra, kannski eftir 5-10 ár, hver veit.

En Guðlaugur breikar hana aldrei, hann er ekki þannig stjórnmálamaður, ekki frekar en Stalín bóndi, þeirra styrkur liggur í öðru en kjörfylgi eða opinberu debati.

Þær breytingar sem þú kallar á Bjarni eru hins vegar ekki í sjónmáli, það er hvorki pólitískur vilji fyrir þeim, eða pólitískur styrkur.

Rebellarnir í verkalýðshreyfingunni kalla á þetta, en þeir eru ekki beint fjöldahreyfing.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.10.2022 kl. 15:08

5 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sammála þér með Sigríði Andersen- hún er sú eina sem hefur bein í nefinu og stendur með sannfæringu sinni. En hvort hún nennir að fara í þennan leðjuslag er annað mál. Drullan er mikil hjá forustunni og hún er ekki há í loftinu.

Eggert Guðmundsson, 1.11.2022 kl. 11:23

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert.

Ég er ekki svona beint aðdáandi Sigríðar Andersen en ef ég er ekki að bögga fólk, þá reyni ég yfirleitt að láta það njóta sannmælis.

Sigríður verður aldrei formaður í dag, og ég tek fram í dag, hjá nema svona 3-8 prósent íhaldsflokki, þó vissulega geti tímar breyst og ákall eftir staðfestu og ómengaðri frjálshyggju í þágu auðs og auðmanna eykst.

Það er mikill misskilningur að Sigríður sé einhver Trump þó þau deili sniðmengi skoðana.  Hvort sem það var viljandi eða óviljandi þá reyndist Trump besti vinur litla mannsins í Bandaríkjunum, en frjálshyggja og frelsiskröfur Sigríðar hafa alltaf verðið í þágu auðs og auðmanna, og fyrirtækja þeirra.

En vitið og styrkinn hefur hún til að kljást við Kristrúnu, um það verður ekki deilt.  Ekki frekar en Bjarni hefur það en hins vegar má stórlega efast um Guðlaug, enda eins og ég hef ítrekað, þá liggur styrkurinn hans í öðru.

Það eru líka snarpir menn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eins og Óli Björn, en þá vantar kjörþokka eða eitthvað.

Kannski liggja öll vötn til Kristrúnar og upprisu Samfylkingarinnar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.11.2022 kl. 17:59

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

...þá liggur styrkurinn hans í öðru.

Baugsveldinu?cool

Theódór Norðkvist, 1.11.2022 kl. 18:03

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Ég er nú meira að vísa í skipulagshæfileika, styrkinn til að fylkja fólki að baki sér og svo beina valdaþorsta, já og eitthvað fleira sem ég taldi upp hér að ofan hjá bóndanum í Kreml.

Þá fortíð sem þú vísar í Theódór afgreiði ég með þessum orðum; "stærsta pólitíska ölmusaþega útrásarvíkinganna",þannig voru tímarnir þá, og prinsipplausasti tækifærisinninn, hann náði náttúrulega toppa auðmannstengslin.

En í sjálfu sér er það ekki málið í dag, hugmyndin af þessum pistli kviknaði þegar fjallað var um vinnubrögð Guðlaugs í fréttatíma Ruv, mér fannst ég hafa heyrt þetta allt áður, eða réttara sagt lesið allt áður.

Guðlaugur er ekki frelsari litla mannsins eða sjálfstæðisstefnunnar, þó það séu miðin sem hann rær á núna, hann rær bara þar sem fiskar.

Hann er einfaldlega bara hann og hans eina markmið er Hann.

Líklegast það fyndnasta í þessari stöðu er að Bjarna er núið um nasir að flokkurinn fiski ekki, en hann gerir það reyndar bærilega, til dæmis í kjördæmi Bjarna, en Svarti Pétur er Reykjavík, og afspyrnuslakir farmboðslistar þar.

Hver skyldi aftur vera fyrsti maðurinn í Reykjavík??

Sem áhugamaður um velferð og framtíð þjóðar okkar þá veit ég að það yrði hroðalegt ef Guðlaugur Þór legði Bjarna, en það yrði ennþá hroðalegra ef Áslaug tæki við af honum, þá er Guðlaugur ekki skárri, heldur valkostur sem Áslaug er aldrei.

Við lifum þannig tíma að það þarf alvöru fólk til að stjórna þjóðinni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.11.2022 kl. 21:19

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þakka svarið, þóttist vita að þú meintir að styrkurinn lægi ekki í Baugsveldinu, enda er það ekki til lengur. Stóðst bara ekki freistinguna að skjóta aðeins á Gulla, hann lá of vel við höggi!

Reyndar ber ég virðingu fyrir Guðlaugi að því leytinu, að hann skuli hafa hangið svona lengi í pólitíkinni og á góða möguleika á að verða formaður. Það krefst úthalds.

Theódór Norðkvist, 1.11.2022 kl. 21:57

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Já Theódór, það krefst úthalds, það má segja.

Mér væri  svo sem sama, og hver hefði trúað því svona fyrstu 55 ár ævi minnar að ég myndi ekki skála, þó sjálfstæðismenn skjóti sig í báða fætur, ekki nema að vitleysingahjörðin þarna í stjórnarandstöðunni, sem er um það bil nítíu og eitthvað prósent í vasanum á auðnum, er þjóðarvá á þeim tímum sem við lifum í dag.

Þess vegna finnst mér egóflibb Gulla ekkert fyndið, svona í ljósi þess að flokkar þurfa að vitvæðast líkt og Samfylkingin virðist ætla að gera.

Þetta er ekki tími Sturlungaaldar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.11.2022 kl. 08:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 301
  • Sl. sólarhring: 413
  • Sl. viku: 4144
  • Frá upphafi: 1329675

Annað

  • Innlit í dag: 258
  • Innlit sl. viku: 3627
  • Gestir í dag: 240
  • IP-tölur í dag: 235

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband