Meira um Raddir óvinarins á Ögurstundu.

Síðastliðinn fimmtudag skrifaði ég pistil um að Andstaðan þyrfti að gera upp goðsagnir sínar.  Og þá var ég að reyna að takast á við þá lensku hluta Andstöðunnar að reyna að splundra vörnum þjóðarinnar innan frá vegna þess að hluti af varnarliðinu á sér fortíð.   Tilefni þessa pistils var erindi Láru Hönnu ofurandstöðu konu í morgunútvarpinu á Rás 2.  Og ég taldi ástæðu til að ræða orð hennar, ekki bara vegna þess að hún er í hópnum sem fer gegn AGS og orð hennar hafa vigt, heldur vegna þess að í þeim kemur fram sú holdsveiki Andstöðunnar sem eyðir öllum hennar þrótti.

Þessari holdsveiki má lýsa í tveimur setningum.  "Ég er verðugur en ekki þið", og "Ég er á móti ICEsave, EN......... )

Og þetta EN hefur víða heyrst áður í sögunni.  Ég hef í pistlum mínum oft vitnað í Seinna stríð, því þar má finna svo klassík dæmi um kúgun og ofríki gagnvart smærri og veikburða þjóðum, og þar má líka finna dæmi um það sem þurfti að gera til að sigrast á kúgun, sem í illsku sinni og hamsleysi virtist virtist ósigrandi þegar hin veikburða Andstaða tók upp varnir.  En þó fyrsta skrefið hafi verið veikt, þá sigraði Andstaðan, sjálf siðmenningin að lokum.  Og ef við ætlum að sigra okkar ógnaröfl, þá þurfum við að þekkja þessar samsvaranir, því vopn kúgunarinnar eru alltaf þau sömu, og Raddir hennar svipaðar.

Og ég ætla að týna til þrjú EN dæmi.

Finnar eiga mjög gott dæmi um svona EN.    Á fundi í finnsku verkalýðsfélagi þá tók til máls gamall kommúnisti og mikill baráttuhundur fyrir bættum kjörum verkfólks, hafði sem ungur maður tekið þátt í finnsku borgarstyrjöldinni fyrir Rauðliða sem urðu undir.   Hann mælti á þann veg (eftir minni því það eru áratugir sem ég las þessa sorgarsögu) "Félagar, vissulega var rangt hjá Rauða hernum að ráðast inn í föðurland okkar.  En félagar, auðvaldskipulagið stjórnar landi okkar, og við þurfum hjálp hins Sovéska verklýðs til að losna undan klóm þess,......"  Rökin voru þau að innrásin var röng, en það þurfti að moka flórinn eftir íhaldið, og endurreisa nýtt og betra Finnland, jafnvel þó það væri gert með blóði finnskra borgara sem féllu í loftárásum Rauða hersins.  Og í stað málþófs, þá lagði hann til að menn legðu niður vopn, baráttan væri byggð á rangindum auðvaldsskipulagsins (íhaldsins) og hún væri hvort sem er vonlaus. 

EN Finnar hlustuðu ekki á þennan mann, vissulega vildi hann vel, en orð hans voru landráð.

Frakkar eiga 2 svona EN-dæmi.  Þegar Bretar reyndu í upphafi hernáms Þjóðverja að fylkja frönskum hægrimönnum á bak við De Gaulle, þá lá hollusta flestra hjá Leppstjórn Þjóðverja í Vichy.  Vissulega var rangt að lúta erlendu valdi EN við töpuðum stríðinu vegna innri sundrungar og spillingar (hljómar ekki kunnuglega) og alþjóðlegar reglur krefjast þess að við stöndum við okkar friðarsamning sem löglega kjörið franskt stjórnvöld (Vichy stjórnin) gerði við þýsk yfirvöld.  Það var ekki fyrr en synir þeirra og dætur tóku sjálf upp baráttuna því þau töldu það betri kost en að enda í þýskum verksmiðjum vegna greiðslna á ICEsave skuld Vichy stjórnarinnar, að þetta sorglega EN gleymdist.

Hitt EN dæmi Frakka er afstaða kommúnista i Andspyrnunni við Þjóðverja.  Jú, þeir voru á móti hernámi Þjóðverja EN þetta var stríð tveggja auðvaldsríkja, sem kom ekki alþjóðlega sinnuðum verkmönnum við.  "Látum auðvaldið drepa hvora aðra", en um leið og Þjóðverjar réðust á húsbónda þeirra í Kreml, þá var Andspyrnan um leið orðin að frelsisstríði verkamanna, en þetta EN kostaði eitt ár í aðgerðarleysi vegna þess að kommúnistar börðust ekki við hlið óverðuga.

 

En víkjum nú að nútíðinni.  Og ég skal útskýra betur þessa tengingar við það erindi sem ég heyrði síðastliðinn föstudag.

 

Hópurinn ( þingmenn stjórnarandstöðunnar) heldur uppi málþófi sólarhringum saman með því að blaðra um ekki neitt og tefur uppbyggingu og önnur brýn mál sem brenna á þrautpíndum almenningi.

Sjálfstæðisflokkurinn ber mesta ábyrgð allra flokka á hruninu, eins og fram kom í erindi Ólafs  Þ. Harðarsonar, prófessors í stjórnmálafræði, sem hann flutti á fullveldisdaginn. Engu að síður eru það þingmenn hans sem ganga harðast fram í að hindra endurreisn samfélagsins.

 

Ég er á móti ICEsave EN..... .

Við skulum íhuga vel um hvað ICEsave snýst um.  Það snýst um að nota skatttekjur 75 þúsund Íslendinga til að greiða ólöglegar fjárkröfur breta og Hollendinga.  Þeir sem tala gegn málþófinu á Alþingi, sem er nota bene eina "löglega" vopn stjórnarandstöðunnar gegn þeim þrælagjörningi, láta eins og þessir skattpeningar 75 þúsund einstaklinga hafi ekki skipt máli á undanförnum árum, þó að um tæplega helming skattgreiðanda sé að ræða.  En ég og fleiri í ICEsave Andstöðunni telja að án þeirra hrynji velferðarkerfið, því aðrar greiðslur ríkisins, ásamt stórfelldu tekjutapi í kjölfar Hrunsins, geri þjóðinni ókleyft að standa undir þessum þjófnaði án beinna mannfórna.  Við megum ekki gleyma því að eina skýring þess að hér er rekið okkar gamla velferðarkerfi, er rúmlega hundrað milljarða króna halli á hinu opinbera, og sá halli á að þurrkast út á næstu tveimur árum. 

Að segja síðan að ofan á þann niðurskurð sé 100 milljónir á dag í vaxtagreiðslur til þjófa, eitthvað sem þjóðin eigi að borga og ráði við, það er eitthvað að ætt vitfirringar, eða þá að annarlegir hagsmunir búi að baki, og minna ég þá á orð Júlíusar Björnssonar sem ég vitnaði í í minni fyrri Radda grein., "mútur og undirróður".

 

Og síðan skulum við athuga hvað liggur í þeirri fullyrðingu að stjórnarandstöðuflokkarnir séu með innihaldslausu málþófi að hindra "endurreisn samfélagsins".   Íhugum vel hvað felst í þessum orðum.  Þó þau séu tekin upp úr þessum pistli Láru Hönnu, þá er hún að endurróma eitt algengasta stef sem bylur á hlustun landsmanna í gegnum ljósvakamiðla, og þetta stef á sinn stærsta þátt í að ICEsave verður að lögum, þrátt fyrir þögla andstöðu meirihluta þjóðarinnar. 

Hver vill aðstoða Hrunflokkanna í að hindra "endurreisn þjóðarinnar"???  Voru ekki VinstriGrænir blásaklausir af þessu Hruni, og þeir eru að moka flórinn, taka til eftir áratuga Nýfrjálshyggju Sjálfstæðisflokks og Framsóknar??

 

Í það fyrsta skulum við athuga í hverju þessi svokallaða Endurreisn er fólgin.  Hún fer í einu og öllu eftir fyrirmælum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er stofnun sem er sama athvarf Nýfrjálshyggjunnar og Ku Klux Klan er fyrir kynþáttahatur.  Enda drýpur óþefur Nýfrjálshyggjunnar af hverri einustu tillögu sjóðsins.  Hver og ein er tilræði við grundvöll þjóðarinnar sem er sjálfstæði, velmegun og jafnræði þegnanna.

1. Ríkisstjórninni er bannað að aðstoða heimili landsins.  Aðeins er lengt í skuldasnörunni því Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sá ekki kaupanda af öllum þeim eignum sem myndi losna ef heil kynslóð fólks yrði borin út úr húsum sínum.  Aðeins mikil mannvonska útskýrir núverandi stjórnarstefnu í málefnum skuldugra fjölskyldna.

2. Hávaxtastefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sýgur upp fjármagn frá heimilum, fyrirtækjum og hinu opinbera.  Aðeins hinir svokölluðu "fjárfestar" hafa allt sitt á þurru meðan undirstöður samfélagsins blæða.  Svona stefna er óðs manns æði fyrir alla nema þá sem hugsa sér að versla eigur almennings og fyrirtækja ódýrt.

3. Lánapakka Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að halda uppi óraunhæfu gegni á meðan er að borga erlenda fjárfesta út úr hagkerfinu.  Þessi skuldasnara AGS er kennd við Argentínu og olli ómældum hörmungum þar á meðan ríkissjóður landsins eyddi æ stærri hluta ráðstöfunartekna sinna við að greiða af þessum erlendum lánum.  Hjá siðuðum þjóðum er þetta spáfé skattlagt ef það heldur sér ekki kjurrt á meðan kreppur ganga fyrir.  Ríkisvaldið á að gæta hagsmuna almennings, ekki spákaupmanna. 

4. Að greiða bretum og Hollendingum 1.000 milljarða upp í ólöglegar fjárkröfur vegna ICEsave reikninganna.  Engin lagarök eru í málinu, bara "af því bara rök, eins og annars verða allir svo vondir við okkur, eða það sem má ekki segja, okkur var greitt fyrir þjófsaðstoðina.  En samþykki Alþingi þessar fjárkröfur, þá komust við Íslendingar loksins á spjöld veraldarsögunnar, aldrei hefur stærri þjófnaður verið framinn af lýðræðiskjörinni stjórn á sínum eigin þegnum.  Hingað til hefur þurft erlenda ránsmenn til að framkvæma þjófnaði af þessari stærðargráðu.

Þetta er féleg endurreisn eða hitt þó heldur.  Ef hún gengur eftir, þá þarf ekki lengur að ræða um íslenska þjóð.  Og ef hið svokallaða málþóf Hrunflokkanna hindrar hana, þá væri besta fjárfesting íslensku þjóðarinnar að þeir töluðu fram að næstu kosningum, eða þar til þjóðin getur aftur kosið sér ríkisstjórn skipaða íslensku fólki, ekki mútuþegum og Leppum erlendra handrukkara hins siðlausa alþjóðlega auðmagns, sem hefur tekist það á 20 árum sem varla Svarta dauða tókst á sínum tíma, en það er að leggja fjármálalíf heimsins í rúst.

Því Hrunflokkar okkar gerðu ekkert annað en ryðja braut stefnu sem þegar hafði lagt undir sig hinn vestræna heim.  Einkavæðingin hér fylgdi aðeins í kjölfar einkavæðingu banka um allan heim, og frelsið til að gera það sem mönnum datt í hug, var fólgið í fjórfrelsi EES samningsins.  Enda féllu bankar og fjármálastofnanir allsstaðar.  En aðeins á Íslandi var heimóttarskapurinn og minnimáttarkenndin það mikil, að áróðursmeistarar erlendra handrukkara, komust upp með að skella skuldinni af þessu mikla kerfishruni vestræns fjármálalífs á þjóð sína. 

Það er enginn erlendur her sem fær ríkisstjórn okkar til að leggja þetta skuldahelsi á þjóð sína, það erum við sjálf, hvað sem rekur okkur til þess.

En að átta sig ekki á þeim staðreyndum sem ég rakti hér að ofan, og vinna með brosi á vor af framgangi árásaráætlunar þess sem Micahel Hudson kallar"fjármálaárás" erlendra skuldunauta landsins, það er óskiljanlegt.  Í raun er það skárra að vera keypt leiguþý en nytsamur sakleysingi í þeim hráskinsleik, en eins staðreynd liggur fyrir, að á meðan hrynja varnir þjóðarinnar.

Þetta stóra EN sem ég rakti hér að framan, er holdsveiki Andstöðunnar. 

Og hana þarf að lækna.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 220
  • Sl. sólarhring: 356
  • Sl. viku: 4063
  • Frá upphafi: 1329594

Annað

  • Innlit í dag: 196
  • Innlit sl. viku: 3565
  • Gestir í dag: 186
  • IP-tölur í dag: 181

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband