Þrettándi september 2009 var svartur dagur í sögu þjóðarinnar.

Þá féll fyrsti Breiðavíkurdrengurinn frá eftir að harmleikurinn í Breiðuvík komst í hámæli.

Og þessi maður féll frá borði óbættur.  Honum hafði engin manngjöld verið greidd fyrir þá vítisvist sem íslensk stjórnvöld höfðu gert honum að afplána í frosnu helvíti órafjarri hans heimili og aðstandendum.

Það er sorglegt því þjóðin skuldaði þessum manni miklar miskabætur.  Hvort þær hefðu dugað til að bjarga lífi hans, veit enginn.  

Í hans tilviki féllu stjórnvöld á tíma.  Og klukka tímans heldur áfram að tifa.  Enginn veit hver fellur næst frá án þess að hljóta sinn skaða bættan á þann táknræna hátt sem miskabætur eru.  

Og hvert fráfall er hneisa fyrir þessa þjóð.

Á meðan hún vissi ekkert, þá var afskiptaleysið skiljanlegt.  En í dag hefur þjóðin enga afsökun.  Og það þýðir ekkert að benda á ráðamenn.  Það erum við sem erum sek.  Því það erum við sem látum smánina viðgangast.

Sanngjarnar miskabætur eru ekki spurning um efni þjóðarinnar, heldur æru.  

Og ærulaus þjóð á litla framtíð fyrir sér, því svona meinsemdir grafa um sig í þjóðarsálinni.  Hvað verður það næst sem við horfum á með blinda auganu.

Hvaða svívirðu látum við næst viðgangast?

Í þessu tiltekna máli, hefur þjóðin ekki efni á því að vera fátæk.  Sumt er þannig vaxið að það verður að gerast.  

Sanngjarnar miskabætur, sem eru unnar í fullu samráði við Breiðavíkursamtökin, eru eitt af því.

Um það eigum við öll að geta vera sammála, þó axir séu á lofti í flestum öðrum málum.

Látum ekki annan dreng falla frá, án þess að hann hafi upplifað, að þjóðin meinti þá afsökunarbeiðni, sem forsætisráherra okkar flutti Breiðavíkurdrengjunum fyrir hönd þjóðarinnar.

Í þessu máli reynir á alla ærlega menn.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Umrenningur

Sæll Ómar.

Þetta er sannarlega þörf ámynning hjá þér og á fullan rétt á sér.

Í guðanna bænum halt þú áfram að rífa kjaft út og suður, það fer þér vel. Þó ekki væri nema fyrir okkar vesælu og ráðavilltu þjóð.

Íslandi allt.

Umrenningur, 29.9.2009 kl. 22:41

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Umrenningur.

Þessi pistill var eiginlega tilgangur dagsins, og hann var lengi í meltingunni.  Ég fann ekki rétta tóninn fyrr en í kvöld.

En næturhúmið er að taka við.  ICEsave landráðin verða samþykkt fyrir vikulok.  Þá er tilgangi þessa bloggs lokið.  Hvort dagar veit ég ekki, sjáum til.  Mér finnst gott að orða hugsanir mínar hér á blogginu, þegar pistill um eitthvað, sem er að angra mig, eða ég er að hugsa um, er frá, þá er sú hugsun farin, og ég get síðan flett upp á henni, þegar þannig æxlast.  En gamla kerfið gat oft endað í ofhleðslu, og síðan gleymsku, þó hausinn sé stór.

En ef dagur rennur upp á ný í bloggheiminum, þá veður bloggið sérviska og skrýtnir útidúrar, svona í anda John Lennons, eða eitthvað álíka sýrupopp.  Og svo er líka gott að fá útrás.  Ég fer til dæmis ekki ofan af því, að reiðiútrás mín gagnvart Árna Pál í vor eftir að ég heyrði manninn, þá formann félagsmálanefndar eða álíka, tala um nútíma skuldafangelsi, sem hefur hlotið nafnið "greiðsluaðlögun", að sú umfjöllun hafi verið, þó skrifuð af fingrum fram, sú besta sem kom um skortinn á mennskunni sem hrjáði alla þá umræðu (he, he, ég get verið langorður).

Ástæða, reiðin var heilög og réttmæt.  Fólk gleymir oft manneskjunni á bak við kerfið.

En hinn möguleikinn er sá að ég haldi hugsunum mínum út af fyrir mig.  Ég veit það ekki.  Það er í eðli mínu að skipta mér ekki að málum nema ég telji vera þörf á því, og þá fyrst og fremst að enginn annar ætli að segja það sem ég tel að þurfi að segjast.  Núna er mikið úrval af góðu fólki sem hefur ICEsave umræðuna á alveg á hreinu og meira að segja Villi Egils er farinn að tala illa um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.  Þannig þetta er alltaf spurning um hvötina, mér hefur aldrei þótt gaman að elta almannaróm eða þannig.

En ég hef gaman að rífa kjaft.  Sérstaklega að fá fólk til að taka mark á mér þegar mér er ekki mikil alvara með það sem ég segi, og þá er ég að tala um hvernig ég áreiti og stríði.  Mér er alltaf alvara þegar ég er í sýrunni með Lennon.  Og mér er alltaf alvara þegar ég hrósa, en kannski ekki alltaf eins þegar ég finn fleti á að vera ekki alveg sammála.  

Það er ekkert gaman af umræðu sem ekki flýtur.  

En kæri Umrenningur.  Ég vildi aðeins útskýra mína fyrirhugaða þögn þar sem við erum andlega skyldir.  Ég svara alltaf kalli skyldunnar, en tel að slíkt kall hvað mig varðar, hverfi við endalok þess málefnis sem haldið hefur þessu bloggi gangandi, núna á fimmta mánuð.  Ég tel að ég hafi staðið mína vakt með sóma og þurfi ekkert að skammast mín þó ég taki ekki strax aftur aðra vakt.

Og þessi athugasemd þín gladdi mig.  Mér finnst það alltaf leiðinlegt þegar enginn tekur eftir því þegar mér er full alvara með það sem ég segi.  

Baráttukveðjur til ykkar allra í þjóðfrelsisbaráttunni.

Ómar.

Ómar Geirsson, 29.9.2009 kl. 23:19

3 Smámynd: Umrenningur

Sæll kæri Ómar.

Svo sannanlega hefur þú staðið þína vakt og mættu margir taka skrif þín og hugsanir til fyrirmyndar (undirritaður meðtalinn). Ég hef orðið var við að þú hefur verið að skima eftir leiðtoga til að taka við eftir hrun stjórnkerfisinns, þegar og ef það brestur á. Mín tilfinning er sú að leiðtoginn sé kominn fram en að hann átti sig bara ekki á því sjálfur og það þurfi einfaldlega að beina tilvonandi leiðtoga sem getur sameinað þjóðina í réttan farveg. Ég hef mínar hugmyndir um hver sá ágæti maður er og er þegar byrjaður að ræða það við valda menn og konur sem gætu haft áhrif í vali á leiðtoganum og eru fylgnari sér í svona málum en undirritaður. Ég held að þú og fleiri hafir grun um hvern ég er að tala um en sért ekki tilbúinn að viðurkenna það með sjálfum þér, þá er bara að reyna að sannfæra þig. 

Hef samband símleiðis fyrir vikulok.

Umrenningur, 30.9.2009 kl. 09:13

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Umrenningur.

Þjóðin vil ekki Davíð aftur, þýðir ekki að reyna það.  Enda var Churchil eldri þegar hann kom til baka.

He, he, smá grín.

En málið er flóknara en svo að við litlut kallarnir höfum eitthvað um það að segja.  Við komust aðeins á spjöld sögunnar þegar okkur verður á að skjóta stórhertoga eða annað slíkt sem hefur óvart meiri áhrif en til var ætlast.

Og ég var kannski full sofandi í gær þegar ég sendi mitt andsvar, enda fór mikil orka í þennan pistil minn sem er mitt stolt þennan mánuðinn.  Ég var svo sem búinn að koma inn á það einhvers staðar í gær að Jóhann væri að sprengja stjórnina með hótun sinni, en setti það í rangt samhengi, eða að minnsta kosti fylgdi því ekki rétt eftir.  ICEsave verður ekki samþykkt.

Stjórnin er fallin, var að blogga um það núna áðan. 

Vissulega þarf hún ekki að falla formlega núna í vikunni, en hún er núna umbúðirnar einar.  Og þær falla í næsta vindi.

Ég bloggaði sama um síðustu stjórn, að hún væri fallin, eftir að Geir lét ekki Davíð víkja, eftir að Davíð sagði það berum orðum að hann hefði aðvarað stjórnina við strax í feb 2008, og fundað þá með honum og Ingibjörgu.  Stjórn sem tók sig alvarlega gat ekki látið embættismann komast upp með þessa uppljóstrun og það samhengi sem Davíð setti hlutina í á fundinum fræga.  Líkið tórði að visu fram yfir áramót, en hún var fallin.

Því hún var ekki varin.

Sama hér, Samfylkingin komst kannski einu sinni upp með það að hóta stjórnarslitum, og þá því aðeins að Steingrími tækist að knésetja Ögmund, en það tókst honum ekki.  Næsta hótun er tilræði við pólitíska framtíð Steingríms, og það verður ekki fyrirgefið af hans hálfu.  Og hann er maðurinn sem hefur haldið þessari stjórn saman.

En fjarvera mín er óumflýjanleg í bili.  Ég þarf að fara að éta grænt ógeð og safaríka hnullunga.  Hausinn er of orkufrekur til að hann þrýfist á slíku ógeði.

Takk kæri Umrenningur fyrir hlý orð, en svona er lífið.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 30.9.2009 kl. 09:57

5 identicon

Nei, Ómar, við getum ekki látið slíka svívirðu gegn neinum manni líðast.  Og getum ekki heldur leyft glæpum gegn mannfólki, og síst börnum, gleymast.   Heiður skaltu hafa fyrir að skrifa pistilinn.   

ElleE (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 22:38

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Elle.  Mig þykir vænt um þessi orð þín.

Kveðja, Ómar

Ómar Geirsson, 30.9.2009 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 379
  • Sl. viku: 5325
  • Frá upphafi: 1338783

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 4694
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband