Helstu lög og reglur varðandi Tryggingasjóðs innlána og ICEsave ábyrgðirnar.

Í lögunum um Tryggingasjóð innlána sem hægt er að nálgast á slóðinni http://www.althingi.is/altext/125/s/0025.html kemur eftirfarandi fram :

Með tryggingar samkvæmt lögum þessum fer sérstök stofnun er nefnist Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, hér eftir nefndur sjóðurinn. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun.

Um ábyrgð sjálfseignarstofnana segir þetta í lögum:

Með sjálfseignarstofnanir skal fara sem félög með takmarkaðri ábyrgð eftir því sem við á.

Það þýðir ein og má lesa á vefnum island.is að

Hvorki stofnendur né stjórnin ber ábyrgð á skuldbindingum.

Þetta þýðir að stofnandinn, íslenska ríkið ber enga ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins.  Til þess að svo væri þá þyrfti að taka það skýrt fram í lögunum.  En það er ekki gert eins og fólk getur kynnt sér ef það smellir á linkinn hér að ofan.  Og fari sjóðurinn á hausinn, þ.e. á ekki fyrir sínum skuldbindingum, þá er sagt í lögunum að :

 

Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.

Um fjármögnun sjóðsins kemur skýrt fram að hann sé fjármagnaður að þeim fjármálastofnunum sem eru aðilar að sjóðnum.  Um þetta er hægt að lesa í II. kafla laganna.

Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að:

 Frumvarp þetta er samið í tengslum við tilskipun Evrópusambandsins um tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 97/9/EC. Tilskipunin kveður á um samræmdar reglur um lágmarksvernd fyrir fjárfesta sem eiga kröfu á hendur fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og lánastofnanir í tengslum við viðskipti með verðbréf gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. 
Tilskipunin kemur í framhaldi af tilskipun um innstæðutryggingar, nr. 94/19/EC, sem sett var árið 1994. Sú tilskipun tryggir innstæðueigendur upp að vissu marki gegn greiðsluerfiðleikum viðskiptabanka og sparisjóða.

Tilskipuni 94/19/EC er hægt að lesa í íslenskri þýðingu stjórnartíðinda EB og linkurinn er hér.

http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/pages/2E9317F82E04988100256700004E1234/$file/394l0019.pdf

Þeir sem hafa efast um lagakunnáttu þeirra sem sömdu íslensku lögin (sem nota bene gilda um þennan sjóð) geta til dæmis kíkt á þessa málsgrein:

Það er ekki bráðnauðsynlegt í þessari tilskipun að sam-ræma leiðirnar við fjármögnun kerfa sem tryggja innlánineða lánastofnanirnar sjálfar, meðal annars vegna þess aðlánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa og einnig vegna þess að fjárhagsleggeta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingaskuldbindingarnar. Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu.

Og þessi málsgrein er einnig fróðleg.

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfir-völd þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafaséð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndumaf stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnarsjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og trygg-ingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

Skýrar er ekki hægt að orða eina tilskipun um að aðildarríkin eru ekki ábyrg gagnvart innistæðueigendum.  Og tilskipun 97/9 EC er um fjárfesta og er því sem næst samhljóða.

En um margt má víst deila og þó ekki sé minnst á bakábyrgð ríkisins í íslensku lögunum og tilskipun ESB þá er ekki heldur minnst á það einu orði hvað á að gera ef til kerfishruns kemur.  Sumir vilja meina að þá eigi hin svokallaður andi laganna að gilda að innistæðueigendur eigi að fá sína lágmarksupphæð. 

En hver segir að aðildarríkið sé þá í ábyrgð.  Er þetta ekki eins vandi alls efnahagssvæðisins því ljóst er að það er engin trygging að vísa á aðildarríki sem glímir við bankahrun.  Til dæmis gæti ICesave ábyrgðin verið 6.500 milljarðar en ekki 650 milljarðar.  Hvaða ábyrgð fellst í því að vísa á aðildarríki sem fyrirsjáanlega getur ekki staðið við skuldbindingar sínar?

En komi upp ágreiningur þá ber að leysa hann eftir fyrirfram skráðum reglu EES samningsins.  Um eftirlitsstofnanir hans og dómstóla má vísa í þennan link.

http://www.utanrikisraduneyti.is/samningar/ees/EESSamningur/nr/1141

Þar er meðal annars fjallað um lausn deilumála, gerðadóma, Eftirlitsstofnun EFTA ,   EFTA dómstólinn og fleira.  Þar má meðal annars lesa þetta:

Telji eftirlitsstofnun EFTA að EFTA-ríki hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum eða samningi þessum skal hún, nema kveðið sé á um annað í samningi þessum, leggja fram rökstutt álit sitt um málið eftir að hafa gefið viðkomandi ríki tækifæri til að gera grein fyrir máli sínu.

Ef viðkomandi ríki breytir ekki í samræmi við álitið innan þess frests sem eftirlitsstofnun EFTA setur getur hún vísað málinu til EFTA-dómstólsins.

Sbr. 166. gr. Rs

32. gr.


EFTA-dómstóllinn hefur lögsögu í málum er varða lausn deilumála milli tveggja eða fleiri EFTA-ríkja um túlkun eða beitingu EES-samningsins, samningsins um fastanefnd EFTA eða samnings þessa.

Sbr. 170. gr. Rs

33. gr.


Hlutaðeigandi EFTA-ríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að framfylgja dómum EFTA-dómstólsins.

 

 Leturbreytingarnar eru tölvunnar en lesmálið er skýrt.  Í ákvæðum EES samnings eru fyrirmæli hvernig á að höndla ágreining.  Ef íslensku lögin um innlánstryggingar hafi verið ófullkomin þá áttu viðkomandi Eftirlitsstofnun EFTA að gera athugasemdir og krefjast úrbóta, ella vísa málinu til EFTA dómstólsins. 

Það var ekki gert.  Og því stenst það ekki að sækja Ísland núna til saka vegna ófullkominna laga.  Ábyrgðin er því öll ESB eða EFTA, eftir því sem menn geta rifist um.  Um þetta hafa þeir félagar Lárus og Stefán fjallað í greinum sínum.

Að kúga Ísland til samninga er andstætt EES samningnum eins og hver maður getur kynnt sér á linknum hér að ofan.  Og það er líka andstætt alþjóðlögum.  Ég vil vitna í Björg Thorarensen máli mínu til stuðnings en hún er forseti lagadeildar Háskóla Íslands.  En Björg segir:

Takmörkuð vernd

Björg benti einnig á að íslenska ríkið sæti nú uppi með allt að 640 milljarða króna ábyrgð fyrir Tryggingasjóð innstæðueigenda, vegna útibúa Landsbankans erlendis. Þetta kæmi til af því að Evrópusambandið segði að það væri ríkisábyrgð á innstæðum íslenskra banka erlendis samkvæmt Evróputilskipun um innlánatryggingakerfi, þótt tilskipunin sjálf segði að hún gæti ekki gert aðildarríki eða stjórnvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa komið á kerfi til að ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfrar og þessi kerfi tryggja að innstæðueigendur fái bætur í samræmi við skilmála tilskipunarinnar. Síðan sagði hún.

„Íslensk stjórnvöld hafa fylgt tilmælum um innleiðingu tilskipunarinnar og skilmálum hennar, án athugasemda og komið á fót með lögum Tryggingasjóði innstæðueigenda. Með þessu er komið á innlánstryggingakerfi í sjálfseignarstofnun sem ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með því fjármagni sem þar finnst. Samkvæmt tilskipuninni skal heildareign innstæðudeildar sjóðsins nema að lágmarki 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á undanliðnu ári. Hins vegar blasir við að þegar þrjár stærstu innlánsstofnanir eins ríkis hrynja á einni nóttu, að enginn Tryggingasjóður neins Evrópusambandsríkis gæti staðið undir þeirri skuldbindingu að uppfylla allt að 20 þúsund evra tryggingu á hverjum innlánsreikningi. Sjóðnum er ætlað að takast á við örðugleika af viðráðanlegri gráðu en ekki allsherjar bankahrun. Þannig veitir Evróputilskipunin innstæðueigendum ekki betri vernd en þetta.“

Ógildanlegir nauðungarsamningar

 

„En á þessi rök hefur einfaldlega ekki verið hlustað,“ sagði Björg. „ESB-ríkin voru ófáanleg til að fallast á að úr þessum ágreiningi yrði skorið eftir löglegum leiðum. Augljóslega hefði málið vakið óróa innan Evrópusambandsríkjanna og vakið athygli allra á því að engar Evrópureglur eru til sem mæla fyrir um ríkisábyrgð á bankainnstæðum. Í ofanálag voru skilyrði fyrir aðstoð alþjóðagjaldeyrisjóðsins spyrt saman við þessar deilur um ríkisábyrgð innstæðna, svo íslensk stjórnvöld áttu engra kosta völ. Það var ekki um annað að ræða að gangast undir þá þvingun að taka lán, sem rennur að hluta til þess að ábyrgjast greiðslur tryggingasjóðsins, nokkuð sem ríkinu ber engin lagalega skylda til, hvorki eftir Evróputilskipun né öðrum þjóðréttarreglum. Samningar af þessum toga eru á lögfræðimáli kallaðir nauðungarsamningar. Ekki aðeins í okkar lögum heldur einnig í þjóðaréttinum – og slíkir samningar eru raunar ógildanlegir.“

Og þá liggur málið skýrt fyrir frá a til ö.  Núverandi ICEsave samningur er nauðungarsamningur sem á sér hvergi stoð í lögum en er knúinn í gegn með hótunum og þvingunum.

Slík samskipti milli Evrópuþjóða áttu sér síðast stað á árunum fyrir seinni heimsstyrjöld.  Sagan hefur dæmt þá hart sem stóðu þá fyrir kúgun og ógnun og hún mun líka dæma þá hart sem núna kúga og hóta.

Lögin og rétturinn er okkar meginn.

Kveðja að austan.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 32
  • Sl. sólarhring: 960
  • Sl. viku: 5518
  • Frá upphafi: 1338405

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 4865
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband