Hvenær verður neyðin það mikil að þroskað fólk tekur við stjórninni?

Forsvarsmenn atvinnulífsins tala um yfirvofandi stöðvun atvinnulífsins vegna samdráttar, stóraukinna skulda vegna gengisfalls krónunnar og vegna hæstu raunvaxta í heimi, vaxta sem ekkert atvinnulíf fær staðið undir til lengdar. 

Forseti Alþýðusambandsins sagði í útvarpsviðtali að hrun yrði í sumar ef ekki yrði mörkuð skýr framtíðarsýn.  Burtséð frá því hvernig "skýr framtíðarsýn" skapi viðsnúning atvinnulífsins, þá er ljóst að hann telur stöðu efnahagsmála grafalvarlega. 

Þingmaður VinstriGrænna, nýkominn úr kosningabaráttu, treystir sér ekki lengur til að blekkja þjóðina að ástandið sé að lagast og kallar eftir þjóðstjórn til að hindra þjóðarvá.  Heilbrigðisráðherra sama flokks talar um grafalvarlegt ástand sem kallar á tafarlausar aðgerðir. 

Jóhanna Sigurðardóttir kallar á þjóðarsátt um nauðsynlegar aðgerðir fyrir atvinnulíf og heimili.  Með þeim orðum viðurkennir hún að vandanum hefur aðeins verið frestað en hann sé í raun það alvarlegur að þjóðarsátt þurfi til að leysa hann.

Ljóst er að sátt þarf að nást um Evrópumálin.  Slík sátt getur ekki náðst á annan hátt en að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og síðan verði hugsanlegur aðildarsamningur lagður undir dóm þjóðarinnar.  Og við þann dóm verða allir að una.  Slíkt kallast lýðræði.

En á meðan þarf að gera eitthvað þannig að landið haldist í byggð.  Að leysa skuldavanda heimilanna á þann hátt að fólk almennt ráði ekki við skuldir sínar og upplifi lausn stjórnvalda aðeins sem "lengingu á hengingaról" eins og t.d heilbrigðisráðherra hefur bent á, er ekki lausn.  Fólk á valkosti.  Það er ekki lengur í ánauð eins og á lénstímanum.  Það getur notað fæturna til að flýja.

Við hjálpum þeim sem minnst hafa á milli handanna sagði Jóhanna Sigurðardóttir.  En mér er það til efs að einstæð móðir kunni henni miklar þakkir fyrir hjálpina þegar barn hennar þarf á bráðaaðstoð lækna og hjúkrunarfólks að halda og það fólk er komið til Noregs í vinnu.  Formaður félags lækna benti á að þetta væri raunhæfur möguleiki.  Hans félagar eiga aðra valkosti en þá en að sætta sig við launalækkun og hækkun skulda á sama tíma.  Ég talaði við hjúkrunarfræðing í heimahjúkrun sem þegar hefur þurft að sætta sig við mikla launalækkun og meiri er yfirvofandi því það á að afnema yfirvinnukaup en samt að láta vinna hana.  Sambýlismaðurinn er atvinnulaus smiður og bílalánið er að drepa þau.  Og skilaboðin frá stjórnvöldum er skítkast í hennar huga.  Hví ætti hún að vinna út á ættjarðarástina þegar ástin er ekki gagnkvæm á móti.  Það vantar hjúkrunarfræðinga í Noregi.  Og menntaða verkfræðinga, tölvunarfræðinga og slökkviliðsmenn og kennara og lækna og ........ 

Menntað fólk er eftirsótt fólk víðast hvar í heiminum.  Nema á Íslandi.  Þar vilja stjórnvöld hengja það í  skuldaról vaxtaokurs og verðtryggingar.  En fólk hefur fætur og menntun til að bjarga sér.  Og hvers eigum við þá hin að gjalda.  Við þurfum á þessu fólki að halda.  Við þurfum að sýna vanda þess skilning og hjálpast öll að við að leysa hann.  Þannig verðum við ein þjóð. 

Og við þurfum að hlusta á Jón Daníelsson.

Og við þurfum þroskað fólk til að stjórna landinu.  Fólk sem skammast ekki útí hallann á þjóðarskútunni þegar Titanic er að sökkva.  Fólk sem getur hafið sig upp úr dægurþrasinu og tekist á við þann vanda sem við er að etja. 

Fólk sem er hæft til að skipa Hamfarastjórn.

Kveðja að austan.

 

Og þar sem blogg mitt er á enda runnið, í bili að minnsta kosti, þá vil ég nota minn lokapistil til að endurflytja drápu mína um Guð Blessi Ísland, hvað er til ráða.  Upphafleg hugmynd af Bloggi þessu var að semja bálkinn um Guð Blessi Ísland og síðan ætlaði ég að semja pistil um Frystingu Verðtryggingarinnar.  Hann samdi ég 16. apríl undir fyrirsögninni "Frysting verðtryggingarinnar er ekki val".  Annað sem hefur komið í bloggi þessu er skrifað eftir því hvernig hefur legið á mér.  Aðallega hefur mér verið illa við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ICEsave.  Og flokkarnir sem neyðast til að styðja þau ósköp hafa verið skotspónn gagnrýnar minnar.  En sá á kvölina sem þarf að taka ákvörðunina og ráðamenn Samfylkingarinnar og VinstriGrænna eiga alla mína samúð.   Þeirra hlutskipti er ekki öfundsvert. 

En það er mjög gott fólk í öllum flokkum og ég vona að því beri gæfu til að takast á við þann vanda sem við er að glíma.  Ekki skaðar það að Borgarahreyfingin hefur bæst í hóp þingflokka.  Gott fólk þar innanborðs.  Og ný sýn.

Hvað minn lokapistil varðar þá vil ég ekki breyta honum.  Spáin um 40 % samdrátt er sett í samhengi við hugsanlegt kerfishrun.  Mig minnir að samdrátturinn eftir hrun síldarstofnsins ´68 hafi verið af þeirri stærðargráðunni.  Eins má alltaf vona að heimskreppan verði alltaf minni vegna markvissra aðgerða bandaríska seðlabankastjórans.  Ef einhver maður nær til að bjarga heimskreppunni þá er það hann. 

Ég sá ekki ástæðu til að skrifa yfirlitspistil um þær aðgerðir sem gætu markað okkur sýn út úr vanda þjóðarinnar.  Vil benda á góða grein í Morgunblaðinu eftir þau Lárus Vilhjálmsson, Ósk Vilhjálmsdóttir og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttir.  "Græn Framtíð" er ekki bara okkar framtíð heldur framtíð mannkyns ef það á annað borð vill eiga einhverja framtíð.  Og sú framtíð þarf líka að vera byggð á réttlæti og von öllum til handa um betra líf.  Snýst eitthvað um spekina að vilja öðrum það sem maður vill sjálfum sér.

Við öðlumst virðingu þjóðanna á því að verða virðingarverð og við öðlumst trúverðugleik á því að biðjast afsökunar á mistökum okkar og gera þau ekki aftur.  Trúverðugleiki fæst ekki með því að fórna börnum okkar í skuldánauð útaf skuldbindingum sem eru ekki þeirra.  Sá stjórnmálamaður sem stefnir að þjóðarsátt, án þess að skilja þessi einföldu grunnsannindi, hann mun aldrei öðlast sáttina.  Og hann mun verða léttvægur dæmdur. 

Og fyrir þá sem geta ekki tekist á lífið sem Íslendingur nema sjá fyrir sér einhverja stóriðju, þá mun næsta stóriðja þjóðarinnar verða sú áskorun að gera þjóðina sjálfbæra í orkunotkun.  Við höfum tæknina og þekkinguna en við eigum eftir að útfæra hana og gera hið fræðilega raunhæft.  Þetta er hin stóra áskorun þjóðarinnar og þannig mun hún ná að láta hjólin fara að snúast aftur. 

Stöðnun og höft eru ekki eitthvað sem verður um aldur og ævi ef við temjum okkur sýn framtíðar og framsóknar.  Okurvextir og skuldaánauð er hinsvegar forn arfur Rómverja sem alveg má missa sig núna 16 hundruð árum eftir fall heimsveldis þeirra. 

Trú, von og kærleikur ásamt góðum skammti af heilbrigðri skynsemi er sá vegvísir sem mun koma þessari þjóð út úr vandræðum sínum.

Sæl að sinni.

Ómar Geirsson.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það verður mikil eftrisjá af þér Ómar ef þú hættir að blogga. Sjálfur hef ég verið erlendis í 2 vikur þar sem netsamband var slæmt og ég nennti ekki að slást við það. Hef einnig legið undir feld hvað pælingar á bloggi varðar og hef glímt svolítið við andleysi á þeim vettvangi. Því miður hef ég þá tilfinningu að fljótlega muni bresta á annað efnahagslegt fárvirði af völdum stjórnvalda okkar og andvaraleysi þeirra í bland við miskunarleysi IMF. Þá mun skapast mikil þörf fyrir hugsandi menn eins og þig og jafnvel mig. Augu mín hvarfla æ oftar út fyrir landsteina því ég finn fyrir minnkandi löngun til að taka á mig og mína skuldir bankana sem ég þó kom ekki nálægt rekstri þeirra og sætti mig ekki við að borga skuldir einkafyrirtækja sem bankarnir voru.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 2.5.2009 kl. 16:44

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Veistu það!!!!! Það yljaði mitt hjarta að heyra í þér.  Ég hef áður sagt þér að menn eins og þú eru þyngdar þinnar virði í gulli, því frá ykkur kemur samkenndin og stuðningurinn.

En það eru engar hard fílings í mér út í þjóð mína að hafa ekki uppgötvað spádómsgáfu mína.  Ég hef allan tímann gert mér grein fyrir því að ég er á jaðrinum sökum afstöðu minnar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ICEsave.  En núverandi törn er búinn.  Ég ætlaði að blogga til 5 mai en ákvað að sleppa skammargrein útí frjálshyggjuna.  Læt þá njóta þess að þeir voru eina stjórnmálaaflið sem hafði kjark til að hafna IFM og ICEsave.  Gunnlaugur hans Jóns Steinar skrifaði ágæta grein í Moggann fljótlega upp úr áramótunum þar sem hann benti á fáráð þess að þjóð sem réði ekki við skuldir sínar, bjóðist til að auka þær vegna einhvers samviskubits eða þannig. 

Það var ekki fyrr en Borgarhreyfingin kom á vettvang,  að menn eins og ég áttu einhvern hljómgrunn og ég reyndi mitt besta að launa þeim stefnuna með því að skammast endalaust útí VinstriGræna og Samfylkinguna.  Ekki bara a blogginu, heldur líka á Silfrinu.   Ef ungt fólk skildi að stefna VinstriGrænna rímaði t.d ekki lengur við skoðanir þess á IFM, hvert leitaði það þá??????  Restin var síðan ykkar að sannfæra það um gildi ykkar stefnu.  

En núna þegar orrustan er búinn þá nenni ég ekki lengur að skammast.  Framtíðin verður dálitið að fá að skera úr um hvorir hafi rétt fyrir sér.  Ég vona að við séum ekki sannspáir Arinbjörn, vona það meira að segja heitt og innilega að hafa rangt fyrir mér.  En ég óttast það.  

Ég skil vel hugsanir þínar um landsteinana.  Hef sjálfur hugsað þannig.  Kannski mest vegna þess að ég græt getuleysi mitt til að breyta ástandinu.  Vildi að heilsan væri öðruvísi.  Ef hún væri góð þá væri ég kátur og væri að leita að fólki fyrir næstu orrustu.  Það er bara handavinna að fylkja fólki gegn þessum ósköpum.  Og ég myndi ekki heldur hugsa mig tvisvar um að fylkja mér að baki fólki sem nálgaðist vandann á sömu forsendum eins og ég. Ráðast á kerfið og kveða það í kútinn og byggja upp nýtt á siðræðnum og mannlegum forsendum.  Tel reynda brýna þörf á því eins og ég bendi á í grein minni um Óbermin að núverandi græðgi og tillitleysi gagnvart kjörum og hlutskipti okkar fátæku bræðra gangi ekki lengur.  Það er t.d til lítils að vera öruggur í einhverjum Norskum firði með brjálaðan heim á banaspjótum allt í kring.  Og þannig verður það þar til nógu margir segja það ekki vera valkost að mannkynið útrími sjálfu sér út af heimsku og græðgi.  Nóg er það nú samt.

Hvernig sagði Steinn Steinar það  "Þjáning mín er brot af heimsins harmi" eða eitthvað í þeim dúr.  Ég held að það sé kominn tími á Ömmuspekina sem Halldór lætur gömlu konuna segja við Jón litla í Sjálfstæðu fólki, daginn sem hann fór út í heiminn.  

Og þessi bylting gegn heimskunni og siðleysinu, byrjar hjá hverjum og einum og  þann dag sem nógu margir segja hingað og ekki lengra, þá gerist eitthvað, það eitthvað er eitthvað til betri vegar.  Þetta er flöturinn sem mér finnst sárlega vanta í umræðuna og þetta er flöturinn sem ég væri tilbúinn að fórna mér fyrir.  

En ég er eins og læmingjarnir, ég vil tilheyra hóp þegar ég kasta mér fyrir hamra baráttunnar.  Tel að  kvótinn  sé eitt skipti fyrir hvern einstakling að útslíta sér í baráttunni við að bjarga óviljugum.  Þann kvóta kláraði ég fyrir rúmum 20 árum og hef ekki nennu í að endurtaka þann leik.  En ef Vilmundur heitinn myndi endurfæðast eins og Bobbý í Dallas, þá mætti sko ræða málin hvað mig varðar.

En tæp 10% kusu Borgarahreyfinguna.  Við megum ekki gleyma því.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.5.2009 kl. 22:13

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Hversu oft höfum við ekki óskað þess heitt og innilega að við hefðum rangt fyrir okkur það sem af er liðið af kreppunni? Margoft og ekki orðið að ósk okkar. Undarlegt að í ástandi sem þessu þá óskar maður þess að hafa rangt fyrir sér.

Kannski þarf íslenska þjóðin að fara alveg á botnin, eins og alkinn, til að ná sem bestri viðspyrnu? Kannski þarf hún þess til að læra hlusta? En ég eins og þú finn fyrir ótta í hjarta mínum og mér líkar það ekki. Og takk fyrir hlý orð í minn garð.

kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 3.5.2009 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 129
  • Sl. sólarhring: 1207
  • Sl. viku: 5661
  • Frá upphafi: 1337527

Annað

  • Innlit í dag: 118
  • Innlit sl. viku: 4967
  • Gestir í dag: 118
  • IP-tölur í dag: 118

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband