"Vér aumingjar"

Jón Baldvin Hannibalsson skrifaði grein í Morgunblaðið núna á laugardaginn.  Fyrst hélt ég þegar ég leit yfir greinina, að nú væri kallinn að gera yfirbót.  útskýra hvað honum hefði orðið á þegar hann lét þjóð sína innleiða reglur Evrópusambandsins um fjórfrelsið.  Nei, kallinn er ennþá forhertur, ekki vottar fyrir iðrun og yfirbót, heldur skammast hann og rífst á báða bóga.  Allt í þeim tilgangi að boða trúna um Paradís á jörð.  Ég hef oft verið að hugsa af hverju Jón tekur ekki tæknina í sína þjónustu, eins og aðrir trúboðar og lesi boðskap sinn inná YouTube.  Þar er flokkur, sem heitir trúboð og þar yrði Jón í góðum félagsskap bandarískra brennisteinspredikara og síðskeggjaðra Múslima.

En ég hnaut um kaflann um leiðina útúr skuldafangelsinu.  Svo ég vitni í Jón:

"Hin meginástæða fyrir því að megum ekki draga það á langinn að ganga til samninga við Evrópusambandið er sú að greiðslubyrði þeirra skulda sem fyrrverandi ríkisstjórn hefur lagt okkur á herðar, er þyngri en svo að þjóðin fái undir risið ein og óstudd.  Við verðum að semja um skuldirnar, um greiðslutíma og greiðslukjör.  Samningsaðilinn er Evrópusambandið og einstakar aðildarþjóðir þess."

Og seinna segir Jón: 

"........ óskir Íslendinga um sérstaka fyrirgreiðslu vegna þess neyðarástands sem skapast hefur vegna óbærilegrar skuldsetningar þjóðarbúsins."

Þá vitum við það.  Fyrrverandi ríkisstjórn lagði á þjóð sína gífurlega skuldabyrði sem þjóðir Evrópu geta og vilja aflétta ef við bara göngum í klúbbinn.  Þau hafa ekkert annað við sína peninga að gera en hjálpa nauðstaddri þjóð í miðju ballarhafi, sem fékk yfir sig ríkisstjórn vondra manna og kvenna, sem kunnu ekki með peninga að fara.  

En kíkjum að eins á boðskap páfa og athugum hvort það sé einhver heil brú í honum.  

Vissulega er skuldabyrðin orðin óbærileg og hún á ennþá eftir að versna mikið.  En þessi skuldastaða er ekki vegna þess að fyrrverandi ríkisstjórn tók það upp hjá sjálfri sér að leggja þessar skuldir á herðar þjóðarinnar.  Bankakerfið hrundi og við það féll mikið á ríkissjóð.  Bæði endurfjármögnun bankanna og sá herkostnaður, sem þegar hafði hlotist af því að hafa reynt að bjarga þeim.  Sá kostnaður féll til í Seðlabankanum og endurfjármögnun þess fellur á ríkið.  Síðan er það ljóst að bankakerfið þarf að endurfjármagna erlendar skuldir einstakling og fyrirtækja, sem eru gríðarlegar vegna þess hve erlent fjármagn var ódýrt árin þar á undan.  Hvort ríkið geti endurfjármagnað þessar skuldir og hvort einhverjir vilji leggja fé til þess er spurningin og Jón Baldvin bendir á aumingjaleiðina útúr þeim vanda.  Íslenska þjóðin á að koma skríðandi til Brussel og biðja um ölmusur og þá mun allt reddast.  Oft hefur svo sem verið skriðið fyrir minna.

En stöldrum við.  Af hverju ætti ESB að sýna okkur einhverja linkind?  Er ekki verið að tala um sama sambandið sem beitti okkur viðskiptaþvingun og kúgun, til að þjóðin tæki á sig skuldbindingar vegna innlána evrópskra sparifjáreiganda hjá Íslenskum bönkum.  Bönkum, sem voru í einkaeign og störfuðu samkvæmt fjórfrelsis ákvæðum EES samningsins.  Ef þeir höfðu starfsleyfi á Íslandi, þá máttu þeir starfa eins og þeir vildu annars staðar í Evrópu, ef þeir uppfylltu skilyrði viðkomandi heimalands.  Og ESB las ekki einu sinni sína eigin reglugerð, þegar Ísland var kúgað til að taka á sig skuldbindingarnar.    Og þegar Ísland þráaðist við og bað um dómsumfjöllun , sem það átti fullan rétt á samkvæmt samningum Evrópska Efnahagssvæðisins, þá var þeirri beiðni hafnað.  Allar peningagreiðslur til landsins voru stöðvaðar og þegar Ísland snéri sér til Alþjóðagjaldeyrisjóðsins í neyð sinni, þá knúði ESB sjóðinn til að brjóta sín eign lög og reglur og lét hann skilyrða aðstoð sína þeirri þvingun að Ísland borgaði annarra þjóða reikning.  Smáþjóðin átti sem sagt að vera í ábyrgð fyrir innlán stórþjóða, þó að smáþjóðin hefði farið í einu og öllu eftir reglum EES samningsins um stofnun tryggingasjóðs innlána.

Síðan má einnig færa rök fyrir að ef þjóðir Evrópusambandsins hefðu komið Íslandi til hjálpar á neyðarstundu, og veitt þjóðinni hagstæð gjaldeyrislán, á meðan þjóðin endurskipulagði sitt bankakerfi, í stað þess að ógna þjóðinni og beita hana kúgun og ofríki, þá hefði Ísland ekki þurft að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Hlutverk sjóðsins er að aðstoða þjóðir í gjaldeyrisþrengingum en eftir að mannvonska Nýfrjálshyggjunnar skaut þar rótum, þá fylgja aðstoð sjóðsins hörmungar sem ekki eru ábætandi.  Sjóðurinn starfar eftir sömu viðhorfi til björgunar og var hjá skipstjóranum á herskipi í stríðinu, sem kom að löskuðu skipi sem bað um hjálp.  Hann lét skjóta á skipið þannig að það sökk en björgunin fólst í því að henda björgunarhringjum og flekum út til þeirra sjómanna sem svömluðu í ísköldum sjónum.  Sem gefur að skilja voru fáir eftirlifandi eftir þá björgun.  Eins verður það á Íslandi eftir náðarfaðm IFM.

Á lögreglan alltaf að senda konuna heim af kvennaathvarfinu eftir ítrekaðar barsmíðar eiginmanns síns?  Er skynsemi hjá klárnum að leita alltaf þangað sem hann er sárkvaldastur.  Já, segir Jón Baldvin.  Ef við skríðum þá sjá þau aumur á okkur, aumingjunum.  En þá stendur eftir spurningin; Af hverju voru ríki ESB að koma okkur í skítinn upphaflega?  Hefði ekki  verið ódýrara fyrir þau, fyrst þau eru svona aumingjagóð, að  hjálpa okkur upphaflega án þess að rústa því litla sem eftir var til að rústa. 

Spyr sá sem ekki veit.

Kveðja að austan.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Í öllu þessu ESB trúboði virðist enginn vilja horfa fram fyrri nef sér og spyrja: En hvað svo? Hvað þegar kreppan er búin? Við vitum að hún tekur enda, verðum við sátt innan ESB eftir 10 ár eða 15 ár? Það er ekki verið að tjalda til einnar nætur.

Aftur og aftur er talað um inngöngu sem "stefnu í peningamálum".

Í kreppu eru allir kostir vondir. Þó innganga geti hugsanlega stytt kreppuna um eitt ár er það léttvægt í hinu stóra samhengi. Afsal á fullveldi leiðir alltaf til tjóns og við verðum að horfa til hagsmuna komandi kynslóða. Kreppan er tímabundin en tjónið gæti orðið varanlegt.

Haraldur Hansson, 9.2.2009 kl. 12:47

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Haraldur.

Ég held reyndar að kreppan lengist mjög ef við göngum inní ESB með þeim skilmálum að við greiðum ICEsave reikninginn.  Eina sem í því máli er þekkt er upphafleg skuldin og þeir vextir sem  við þurfum að greiða af henni næstu árin.  Hvað fæst mikið uppí getur enginn svarað.  Og ef menn geta það ekki þá eiga menn ekki að fullyrða annað. 

Það er t.d óvíst að breskir dómstólar myndu heimila okkur að láta innlánin sitja fyrir öðrum kröfum.  Eins er það með eigur bankans, í haust var reiknað með mikilli rýrnun.  Hvað verður um þær núna í miðri heimskreppu?  T.d er í dag hægt að fá eitthvað  fyrir eignarhlut Bónusar í bresku verslunarkeðjunum.  En þetta er skuldsettar keðjur og verða þær í rekstri eftir þrjú ár? Hvert verður virði hlutarins þá?

En ég er sammála þér að Íslendingar eiga að taka ákvörðun um inngöngu um aðild að ESB á réttum forsendum.  Þá út frá langtíma hagsmunum þjóðarinnar, áhrif á menningu og  sjálfstæði.  Eins fyrst mér það fullgild röksemd að við sem Evrópuþjóð eigum heima í samfélagi Evrópuþjóða.  Ég hef sjálfur hallast að því en í mínum huga er málið á hreinu í dag.  Þú gengur ekki óvinum þínum á hönd og biður þá um aumingjaframfærslu, ekki nema ef þú ert neyddur til þess með vopnavaldi.  Framkoma Evrópusambandsins við Íslensku þjóðina, í október og nóvember 2008 var þess eðlis að um óvinveittar aðgerðir var að ræða.  Göngum við þeim núna á hönd sjálfviljug, til að auðvelda okkur lífsbaráttuna, þá glötum við um leið okkar sjálfsvirðingu, og Sjálfsvirðing þjóðar er grunnforsenda sjálfstæðis hennar.

Svo er Evrópusambandið á hausnum og hjálpar ekki einum eða neinum.  Við Íslendingar þurfum að læra að standa á eigin fótum.  Eftir 60 ára sjálfstæði er tími til þess kominn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.2.2009 kl. 14:18

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Það gæti líka farið svo að kreppan taki aldrei enda ef við göngum í Evrópusambandið. Ekki nema bara í orði kveðnu. Jafnvel þó IceSave dæmið færi á besta veg. Lítum bara á Finnland.

Um áramótin fór atvinnuleysi á Íslandi í 6,5%, mitt í öllum hörmungunum (og er enn að hækka). Atvinnuleysi í Evrópusambandinu hefur aldrei náð að komast niður í 7% það sem af er þessari öld. Þá erum við að tala um eðlilegt árferði, en ekki kreppu. Góðærin meðtalin.

Ef "stefna í peningamálum" leiðir okkur inn í Evrópusambandið er ákveðin hætta á að evran muni leika okkur grátt. Þó lækkun verðbólgu væri vissulega kostur vitum við að ekkert er ókeypis. Orsakir verðbólgu hverfa ekki eins og fyrir galdur með því að skipta um peningaseðla. Atvinnuleysi og niðurskurður koma í staðinn.

Styrkur evrunnar ákvarðast af hagkerfum stóru iðnríkjanna, sem ekki ríma vel við fámenna fiskveiðiþjóð norður í ballarhafi. Kannsi að Jón Baldvin og Samfylkingarforystan ættu að skrá sig á stutt peninganámskeið hjá Ragnari Önundarsyni, sem skýrði málið ágætlega í Silfrinu á sunnudaginn.

Haraldur Hansson, 9.2.2009 kl. 16:07

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Sammála, Ragnar var góður í Silfrinu.

Kveðja,

Ómar Geirsson, 9.2.2009 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 131
  • Sl. sólarhring: 980
  • Sl. viku: 5617
  • Frá upphafi: 1338504

Annað

  • Innlit í dag: 114
  • Innlit sl. viku: 4948
  • Gestir í dag: 112
  • IP-tölur í dag: 111

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband