Prentað í þágu hinna ofurríku.

 

Til að magna upp sýndarverð sýndarpappíra.

Molarnir eiga síðan að falla útí hagkerfið og koma hinu raunverulega hagkerfi til góða.

 

Á meðan skortir fé í alla innviði, vestræn þjóðfélag éta upp samfélagsfjárfestingu fyrri kynslóða.

Á meðan býr 20 til 30% fólks við sára fátækt, og er háð matargjöfum hjálparsamtaka.

 

Hin gjörspillta yfirstétt eyðir stórfé í að sannfæra lýðinn um að alltí sé í lagi.

En það er ekkert alltí lagi, postulínsþjóðfélag frjálshyggjunnar riðar til falls.

Og fellur saman innanfrá undan sínum eigin þunga almenningur spyrnir ekki við fótum og kemur af sér sníkjudýrum fjármagnsins.

Þeirra sem ekkert skapa, aðeins sjúga.

 

Reyndar væri Evrópa löngu fallin ef hún ætti sér einhvern óvin, því innra öryggi var það fyrsta sem var postulínshúðað af stjórnmálamönnum frjálshyggjunnar.

Ef ekki væri til kjarnorkuvopn, og Pútín dytti í hug að skreppa í helgarferð til Parísar, með nokkrum skriðdrekum, þá gæti hann það, en hugsanlega þyrfti hann að taka langt helgarfrí, kæmi ekki til Parísar fyrr en á þriðjudegi, ekki vegna sýndarvarna Vestrænna ríkja, heldur sökum fjarlægðar frá rússnesku landamærunum.

Veldi sem áður voru, eru ekki neitt, ekki einu sinni pappírstígrisdýr.

 

Á meðan er prentað og prentað.

Eins og enginn sé gærdagurinn, með sinni reynslu, með sinni sögu, með sínu Hruni.

Og á morgun eða hinn, það er þegar einhver bendir á að engin verðmæti eru að baki hinu háa hlutabréfaverði, þá hrynur allt sýndarhagkerfið, og almenningur verður aftur skuldsettur fyrir þeim kostnaði sem fellur á raunhagkerfið.

 

Nema, nema, hann segi hingað og ekki lengra.

Hugsanlegar, en ekki líklegt.

 

Auðurinn mun sjá til þess.

Kveðja að austan.


mbl.is Prentvélar ræstar við fögnuð fjárfesta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er gaman fyrir frjálshyggjumann að sjá gagnrýni á ágæti ríkiseinokunar á peningaútgáfu. Ég vona að þeirri einokun ljúki sem fyrst og að peninga verði aftur settir á hinn frjálsa markað. 

Geir Ágústsson, 7.3.2015 kl. 22:14

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Og í því samhengi má benda á margt en til dæmis þetta:

https://en.wikipedia.org/wiki/End_the_Fed

"[Ron] Paul contends that the Fed now serves as a cartel where the name of the game is bailout—or otherwise known as privatized profits but socialized losses."

Geir Ágústsson, 7.3.2015 kl. 22:17

3 identicon

Sæll.

Enn veistu ekki hvað frjálshyggja er. Merkilegt :-)

Svona aðgerðir af hálfu seðlabanka eru auðvitað ekkert annað en ríkisafskipti og þau munu ekki virka eins og þú talar réttilega um. Frjálshyggjumenn vilja leggja niður seðlabanka. Ríkisafskipti eru sósíalismi, ekki frjálshyggja. Fyrr eða síðar verður úr þessu verðbólgubál, 70% af öllum 100$ seðlum sem til eru í heiminum eru staðsettir utan USA. Hvað heldur þú að gerist þegar þeir fara heim til sín?

Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar hið opinbera stefnir beinlínis á verðbólgu. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar þeir sem eru fyrirhyggjusamir og spara eru beinlínis rændir af hinu opinbera.  

Vandi Vesturlanda er ekki nema að litlu leyti peningalegs eðlis, hann er að mestu kerfislægur. Þegar komið er í veg fyrir verðmætasköpun með gagnslausum og íþyngjandi reglum og hárri skattbyrði getur það bara endað á einn veg. Við munum verða vitni að því :-(

Ástæða þess að fé skortir í innviði eins og t.d. heilbrigðiskerfið er að hið opinbera er orðið alltof stórt. Fé sem tekið er með valdbeitingu (skattar) af þeim sem skapa verðmæti er iðulega sett í óhagkvæm verkefni sem engu skila. Þannig verður þjóðfélagið/þjóðfélög hægt og rólega fátækari. Þetta heldur ekki endalaust áfram. Það kemur stór skellur innan nokkurra ára og hann skrifast á vinstri menn og þá sem hatast út í kapítalisma.

Hann skrifast líka á fólk sem skilur ekkert í efnahagsmálum sem skrifar af eldmóði um þau og kýs fólk á þing sem veit ekkert um efnahagsmál því það nennir ekki að lesa sér til og/eða skilur ekki það sem það les og reynir alltaf að láta veruleikann falla að fantasíu sinni.  

Helgi (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 08:11

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Gott ef Geir ef þú hafir ekki vakið fyrst athygli mína á þessari prentuðu eignarbólu sýndarviðskiptanna, hef samt aldrei skilið andstöðu þína við hana, því ég veit ekki betur að hún geri harðduglegt, vinnandi fólk, svo ég vitni í skilgreiningu Helga á hinum ofurríku, ennþá loðnari um lófann en það var fyrir.

Skyldi svo sem heldur aldrei andstöðu þína,og þinna í Félagi frjálshyggjumanna, við ICEsave og að skuldir sýndarviðskiptanna yrðu færðar á almenning, sem er líka í þágu hinna harðduglegu sem fóðra frjálshyggjuna.

Hvarflar stundum að mér að þið séuð ekki frjálshyggjumenn inn við beinið, heldur frelsisunnendur, þó vissulega afsakið þið ykkur með að þið séuð prinsippmenn.

En hvað um það, það er ekki hægt að komast hjá því að snertifletir verði með ykkur og okkur, sem teljumst til  frændgarðs Bjarts frá Sumarhúsum, en við eins og kunnugt er viljum ekkert með yfirvald að hafa nema það sé til friðs, en fyrst og fremst er okkur illa við þjóðfélag peningamaddömunnar frá Rauðsmýri sem smíðar hlekki fátæktar, réttleysis og heims án vonar.

Sem gerir það að verkum að þó ég sé á móti peningaprentun í þágu hinna ofurríku, þá er ég ekki á móti peningaprentun sem virkjar ónotaða framleiðsluþætti, eða beinir lítt arðsömum framleiðsluþáttum í arðbærari farveg.  Og ég er ekki sammála því að vont sé bætt með verra.

Kerfið sem þú bendir á mun aldrei ganga að tvennu.

Það ræður ekki við vantraust.

Það hámarkar ekki heildarhag því ef sá hagur fer saman við hagsmuni hinna örfáu sem fá þessa peningaeinokun, þá er slíkt dæmi um tilviljun, sem í besta falli er sjaldgæf, en oftast aðeins fræðileg.

Það er ekki tilviljun Geir að mannkynssagan kann engin dæmi um frelsi fjöldans í frelsisþjóðfélagi hinna örfáu.

Og eðli mannkynssögunnar er að segja frá því sem var, og því sem er, en ekki frá því sem menn vildu og ætti að vera.

Hún lýgur sem sagt aldrei.

Og dæmin eru engin.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.3.2015 kl. 09:11

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Láttu ekki svona Helgi.

Ég hef margoft sagt þér að hugmyndafræði frjálshyggjunnar sé mjög vel lýst hjá Mattheusi, og afleiðingar hennar, í þeim nútíma sem við lifum, er, fá gagngerða úttekt, dregna upp með sterku táknmáli, í riti Jóhannesar sem hann skrifaði á grísku eyjunni Patmos forðum daga.

Ég veit vissulega að hundheiðni hefur hrjáð mjög ykkur frjálshyggjumenn, svo ólíklegt að þú hafir hina góðu bók við höndina, og farir því aftur og aftur með staðleysuna um að ég viti ekki hvað frjálshyggja er, en bættu úr því næst þegar þú skráir þig á hótel, Gídeonar hafa af manngæsku sinni komið þar fyrir bókinni góðu, yfirleitt í neðstu símaskúffunni, eða náttborðsskúffunni.

Það skýrist svo margt óskiljanlegt við lestur.

En takk fyrir innlitið Helgi, þú bregst ekki i málfylgju þinni fyrir trú þína, mættu margur götustrákurinn, nýkominn úr mat frá mömmu sinni, læra þar af.

Þar sem þetta er pistill snertiflatanna, og ég sé að heilir þrír úr ykkar röðum hafa lækað þennan pistil, þá tek ég snertiflötinn úr þínu ágæta innleggi.

"Vandi Vesturlanda er ekki nema að litlu leyti peningalegs eðlis, hann er að mestu kerfislægur".

Gæti ekki verið meira sammála.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.3.2015 kl. 09:31

6 identicon

@5:

Þú ert við sama heygarðshornið, skiptir um umræðuefni og svarar ekki því sem fellur ekki að fantasíu þinni. Maður er orðinn vanur þessu.

Annars veit ég ekki af hverju þú ert að gera mér upp trúleysi?

Ætli velferðarsamfélög Vesturlanda eigi sér kristnar rætur? Er velferðarsamfélag eins og það er prakítíserað á Vesturlöndum kristið? Athugum nú hve vel þú þekkir til hinnar góðu bókar. Þeir eru kristnir sem fara eftir kristnum kennisetningum og þeir eru múslimar sem fara eftir íslömskum kennisetningum. Breivik og McVeigh voru t.a.m. ekki kristnir þó sumir vilji meina svo. Menn eru ekki kristnir eða múslimar þó þeir segist vera það.

Ef þú telur þig vera að mæla fyrir einhvers konar kristnni hagfræði ætla ég hér með að leiðrétta þig. Það eru ansi margir sem lesa hina góðu bók án þess að skilja nokkuð í því sem þeir þar lesa enda mjög flókið að skilja hana.

Þó ég sá yfirleitt að mestu sammála Geir virðist hann vilja öfgarnar í hina áttina, ekkert ríkisvald. Ríkisvald á rétt á sér og er nauðsynlegt, bara margfalt minna að umfangi en það er í dag. Nú ætla ég ekki að gera Geir upp skoðanir en kannski væri réttara að kalla hann stjórnleysingja en frjálshyggjumann. Það er alls ekki hið sama.

Helgi (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 11:02

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Elsku besti Helgi, notaðu núna einu sinni vinstra heilahvelið þegar þú lest andsvör mín.  Þau fylgja alltaf sínum innri þræði, og völlurinn sem ég leiði þau á er kannski völlurinn sem mig langar til að tölta um þessa stundina.

Hvað viltu að ég segi, peisti til þín innslög þar sem ég stafaði hægt allavega fjórar mismunandi skilgreiningar á frjálshyggjunni, þar á meðal þá sem þú lest um í ritum, og ég reikna með að þú aðhyllist.

Eða taki enn eina umræðuna við þig um hagbábiljur frjálshyggjunnar, síðast þegar ég gerði það, ítarlega mjög, þá þagði ég í margar mánuði eftir að ég sá ásýnd þess í neðra, alls ekki hjá þér því þú ert málefnalegur og mannvinur góður, heldur í könnun minni hvað byggi að baki þjóðsögunum og bábiljunum sem þú hefur látið glepjast að.

Síðan hef ég eiginlega spáð í fáu öðru en hvernig hann þarna er kveðinn í kútinn, og því miður eru fræði Sæmundar fróða ekki hjálpleg í þeim efnum.

Þannig að njóttu þess nú bara að rökorð þín fái að standa án þess að lenda í hrærivél minni.

Síðan er það nú bara staðreynd þetta með hundheiðna frjálshyggjumenn, þeir opna varla nú svo munninn hér á þessari síðu án að hafa mörg orð um trúleysi sitt og tómhyggju.

Ekkert persónulega beint að þér, frekar hugsað svona sem tækifæri til að vísa hinum leiðina að bókinni góðu, því mér sýnist að fáir aðrir lesi blogg mitt en frjálshyggjudrengir góðir sem glíma við mikinn innri efa.

Og fá útrás fyrir hann að skammast í mér greyinu þó ég fari ekki rétt með trúarsetningar þeirra.

Varðandi Geir, þá held ég að heimur án ríkisvalds sé ekki alveg hans heimsmynd, og þannig séð aðeins blæbrigðamunur á þér og honum.  Allavega báðir ágætir málfylgjumenn, og haldið ykkur við rök en ekki gífuryrðin.  Oft þótt fróðlegt að lesa blogg hans, þó ég geri minna að því nú orðið.

En það gildir almennt um lestur minn í bloggheimum.

Síðan er hin góða bók ekki flókin, allavega ekki sá hluti hennar sem segir frá kenningum Meistarans frá Nasaret. 

Með örfáum dæmisögum sínum um akuryrkju og sambærileg störf, þá greinir hann skilmerkileg um forsendur Hagfræði lífsins, og þau lögmál sem um hana gildir.

Um kristna hagfræði veit ég hins vegar lítið, veit þó að seinna tíma mönnum hefur gengið misvel að skilja hið einfalda.

Farðu nú og lestu nú aftur Matteus og Jóhannes Helgi minn, og náðu einfaldleikanum.

Þá kemstu að í hvaða félagsskap þú ert.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.3.2015 kl. 12:00

8 identicon

@7:

Þakka þér andsvörin þó rýr í roðinu séu þau. Það hlýtur að vera viljandi hjá þér að sneiða alltaf hjá því að svara málefnalega spurningum sem til þín er beint. Það er heldur ekki málefnalegt að gera mönnum upp skoðanir. 

Ef þú telur auðvelt að skilja bókina góðu er næsta ljóst að þú veist lítið um hana. Þú ert þar í góðum félagsskap.

Þú getur peistað eins og þér dettur í hug skilgreiningar á einhverjum hugtökum en þú skilur ekki hugtakið frjálshyggja enda notar þú það statt og stöðugt rangt. Það er ekki frjálshyggja að prenta peninga, það er ekki frjálshyggja að þenja út ríkisbáknið, það er ekki frjálshyggja að búa til endalaust reglugerðarfargan og það er heldur ekki frjálshyggja að miðstýra efnahagslífinu eins og víða tíðkast í dag bæði hérlendis sem erlendis - svo dæmi séu tekin.

Því miður mun fólk látast vegna þess sósíalisma sem þú lýsir, en kallar frjálshyggju. Staðan er afar myrk.

Ég held við séum meira sammála en virst gæti en það skiptir afar miklu máli að nefna hlutina réttum nöfnum. Á Íslandi í dag er enginn flokkur með mann á þingi sem á nokkuð skylt við frjálshyggju, á þingi eru bara fulltrúar sósíalista sem kalla sig mismunandi nöfnum.

Í því er tragedía þjóðarinnar fólgin - en hún ber ábyrgð á henni sjálf með því að koma bara sósíalistum til valda.

Helgi (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 13:24

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Ekki frekar en það er kommúnismi að þenja út ríkisbáknið, ræna fólk eigum sínum, drepa, það myrða og kúga, koma á alræðiskerfi ríkisins.

Samt er það kallaður kommúnismi því kommúnískir stjórnmálamenn lenda alltaf í þessum farvegi. 

Ég skilgreini frjálshyggjuna Helgi eftir því hvernig stjórnmálamenn frjálshyggjunnar haga sér, fyrir hverja þeir berjast í raun, og hverjir það eru sem græða á gjörðum þeirra.

Ekki eftir útópíunni sem styðst ekki við neinar hagfræðilegar forsendur, heldur líkt og kommúnisminn, á ósönnuðum fullyrðingum sem í rökleiðslunni eru látnar sanna sjálfa sig.

En ég hef rætt þessi mál við þig áður Helgi, og nenni ekki að ræða þau við þig aftur.

Það sem ég nenni að ræða við þig kemur fram hér að ofan.  Þú kýst svo að forðast lestur undir því yfirskini að þér finnst bókin góða svo flókin.

En ég var ekki að biðja þig að lesa hana alla, heldur þær málsgreinar þar sem í fyrsta lagi frjálshyggjunni er lýst, og í öðru lagi, hvað afleiðingar hún mun hafa fyrir lífið.

En ég skil vel að þú tregðast við.

Alltaf leiðinlegt að komast að því hjá hverjum maður er vinnumaður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.3.2015 kl. 14:16

10 identicon

@9:

Þagmælska þín við spurningum mínum er æpandi. 

Hvaða stjórnmálamenn frjálshyggjunnar ertu að tala um? Telur þú Sjálfstæðisflokkinn vera frjálshyggjuflokk? Telur þú Repbúblikaflokkinn í USA vera frjálshyggjuflokk? Telur þú t.d. að David Cameron sé frjálshyggjumaður? Hvað með Merkel? Hvað með Hollande?

Hvar í bókinni góðu er frjálshyggjunni lýst? Kafli og vers, takk. Hvar eru afleiðingum frjálshyggjunnar fyrir lífið lýst? Kafli og vers, takk.

Enn og aftur gerir þú mér upp skoðanir, þú veist ekkert um það hveð ég les. Bókin góða er flóknari en þú heldur en það er eigi að síður sjálfsagt að lesa hana, hvorki þig né aðra let ég til þess. Menn verða hins vegar að þekkja sín takmörk og vita hvað þeir eru með í höndunum þegar þeir eru að lesa texta. Hvers vegna heldur þú að NT hafi verið skrifað á grísku? Veistu það? Hvaða vandamál fylgja því að þýða grísku yfir á t.d. ensku og íslensku? Hvers vegna rataði Tómasarguðspjall ekki inn í NT? Hvers vegna skyldi ég tregðast við að lesa bókina góðu? Fyrst þú telur þig vera svona vel að þér um bókina góðu endurtek ég spurningu mína frá því í nr. 6:"Er velferðarsamfélag eins og það er prakítíserað á Vesturlöndum kristið?" Hvaða vers réttlætir það?

Kommúnismi og sósíalismi eru af allt öðrum meiði en frjálshyggja.

Sparaðu yfirlætið og heilalækningarnar fyrir sunnudagsboðin.

Helgi (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 17:40

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Helgi.

Þú ert ósköp eitthvað hvumpinn núna seinni partinn, dettur einna helst í hug að þú hafir fengið magakveisu eða iðraverki af sunnudagssteikinni, hljómar einhvern veginn þannig.

En hvað viltu að ég segi þér, finnst þér eitthvað ósanngjarnt að ég nenni ekki að svara sömu spurningunni mikið oftar en 10 sinnum??  Ég sagði þér haustið 2013 að ég nennti ekki ræða sömu hlutina aftur og aftur við mann, sem hlypi frá þræði í miðri umræðu.  Játa reyndar að ég gerði svo undantekningu þegar við ræddum kreppustjórn Hardings forseta, en bæði vegna þess að mér þótti umfjöllunarefnið fróðlegt, sem og að ég vildi láta á reyna að þú gætir haldið út eina einfalda umræðu.  Sem þú gerðir vissulega með miklum ágætum, en ég uppskar aftur að sjá framan í þann ljóta sjálfan, er næstum því ennþá skjálfandi á beinunum, svo mikið varð mér um.

Heldurðu að ég steinþegi í næstum því ár að ástæðulausu???

Og hví þetta argaþras þó ég leyfi þér óáreittum að koma hér inn og útlista skoðanir þínar??  Er eitthvað must að ég hræri í þér í hvert skiptið sem þú kíkir hér inn í vinaheimsókn??

Síðan þegar ég kem með einfalt dæmi í andsvar, þá gerir þú þér að leik að þykjast ekki skilja það.  Hvar í ósköpunum hélt ég því fram að kommúnisminn og sósíalismi væru af sama meið og frjálshyggja?  Eða varstu bara kannski að segja mér þetta í óspurðum fréttum?

En ég get svo sem svarað spurningum þínum, fyrst þú beinir þeim svona nákvæmlega til mín, er að vísu að fara að horfa á Landann svo ég verð að láta umræðu um bókina góðu bíða aðeins, en varðandi spurningarnar í fyrstu málsgrein þá eru svörin eftir farandi.

1. Ég er að tala um stjórnmálamenn sem þjóna hinum ofurríku.

2. Já.

3. Já.

4. Já.

5. Já.

6. Já, hann er það þó tunga hans afneiti því.

Heyrumst seinna þegar næðið leyfir.

Á meðan er það hin besta kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.3.2015 kl. 19:40

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Jæja, blessaður aftur Helgi.

Víkjum þá að bókinni góðu og spurningum þínum þar um. 

Fyrst fyrsta málsgrein þín þar um.

Ég get lítið svarað þér í köflum og versum, hef aldrei hvorki skilið svona dulmál eða yfir höfuð verið fyrir dulmál.  En hvað fyrri spurningu þína varðar, þá ætla ég ekki að svipta þig ánægjunni að lesa Matteus, hann er gagnmerkur og góður penni.  Lýsingin kemur snemma fyrir, er hluti af ákveðinni frásögn, og eyðir ekki óþarfa málalengingum í að flækja hið einfalda.  Þér til glöggvunar þá fletti ég uppá þessu og get sagt þér að fyrstu tvö orð fyrstu setningarinnar eru: "Enn tekur ....".

Varðandi seinni hlutann þá byrjar Opinberun Jóhannesar á blaðsíðu 326 í biblíunni sem ég lét hverfa úr fórum móður minnar, hún er JPV útgáfa, eða poppútgáfan eins og kaffigestur minn kallar hana.

Lestu og njóttu, skemmtileg frásögn.  Reyndar ekki gagnorðuð.  En gagnmerk.

Varðandi seinni málsgrein þína, þá skil ég nú ekki alveg hvað þú ert víða að fara, svo ég þarf aðeins að svara almenns eðlis, að hluta, svo ég ætla að skjóta því andsvari á sér innslag.

Á meðan er það kveðja.

Ómar Geirsson, 8.3.2015 kl. 20:33

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Og aftur blessaður.

Ég skil ekki alveg af hverju þú kemur reglulega með einhvern skratta úr sauðarleggnum, um að ég sé að gera þér upp skoðanir, núna að ég þykist vita hvað þú lesir.  Eins og ég sé að vinna hjá einhverri bandarískri öryggisstofnun.  Þar sem tíðni þessa skratta er óregluleg, en samt ekki óalgeng, þó ekki algeng, þá dettur mér einna helst í hug að þetta sé einhver frasi sem er fastur í lykkju í ritvinnslu þinni.  Dúkki reglulega upp án þess að þú getir þurrkað hann út, því þú sérð hann ekki fyrr en innslag þitt er fast á þráðum.

En ef þetta er ekki óvart, heldur frasi sem þú hefur samið og peistað, og viljir alltaf nota hann óreglulega, þá ítreka ég fyrri svör mín, sem eru alltaf samhljóða; Helgi minn, þú ert alveg fullfær um að gera sjálfum þér upp skoðanir. 

Vona nú að þessu sé fullsvarað í eitt skipti fyrir allt.

Varðandi flækjustig hinnar góðu bókar, þá er það sjálfasagt alveg rétt hjá þér, að svo sé, ef fólk veltur sér um of uppúr orðum og túlkunum misviturra manna, sem náðu til að koma sínu efni að hjá ritstjórum bókarinnar.  Í sjálfu sér veit ég ekki annað en aðeins eitt textabrot hafi verið faxað úr efra, en það var ritun boðorðanna tíu, og þau eru í sjálfu sér ekki svo flókin, tekið skýrt fram að þú skulir ekki mann deyða, og svo eru ýmsar leiðbeiningar handa hirðingjum svo þeir hafi reglufestu í lífi sínu. 

Hins vegar hef ég látið mér nægja að vitna í orð Meistarans frá Nasaret, þau sem hafa varðveist, tel hann gáfaðasta mann sem uppi hefur verið, og þó víðar  sé leitað í alheiminum.  Sem og hef ég vísað í Opinberun Jóhannesar postula, og stórfróðlegu lýsingar hans á aðdraganda Ögurstundar mannkyns.  Lýsing sem er vissulega svört á köflum, en vekur hjá manni von um að drengirnir mínir geti orðið afar. 

En ástæða þess að ég vísa svona í Jóhannes, fyrir utan hans ágætu myndlíkingar um frjálshyggjuna, er að spásögn hans virðist öll vera að ganga eftir.  Samsvaranirnar eru alltof þéttar til þess að hægt sé að horfa framhjá því.

En þú mátt alveg flækja þetta mín vegna Helgi, en Jesús var ekki flókinn.  Ooo nei og nei. 

Sönn snilld er aldrei flókin.

Víkjum þá að spurningum þínum.

Játa að ég skil ekki spurningu þína um grískuna, liggur við að ég haldi að þú teljir grísku vera einhvers konar galdramál.  En mér vitanlega var sá hluti biblíunnar sem við kennum við Nýja testamentið ritaður á grísku vegna þess að kristin trú spratt upp í hinum hellenska heimi, og gríska var tungumál hans.  Þú finnur til dæmis gagnmerk frumrit um Búdda á grísku í Mið Asíu, svo langt náði hinn hellenski heimur á tímabili.

Varðandi þýðingarvandamál, þá liggur það í eðli þýðinga að tungumál eru ekki eins, hvorki í hugtakanotkun eða skilgreiningu orða.  En við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því, þau orð Jesús sem hafa varðveist eru hvort sem er höfð eftir næsta manni, það er þau varðveittust í endursögn, svo þá þegar er komin mun meiri ónákvæmni en nokkurn tímann getur orði til við þýðingu á milli ólíkra tungumála.

Eins gott að Jesús var snillingur.

Varðandi Tómarguðspjallið, sem mér skilst að Bubbi Morthens sé ákaflega hrifinn af, þá er það nú bara þannig, að ég þekki ekki til þess.  Hef nú eiginlega látið mér Matteus duga, gafst uppá Markúsi því hann var svo lélegur penni.  En ég veit að þú ætlar að koma með svaka gáfulegt guðfræðilegt svar, en það er bara svo, að það veit enginn hvað sá ágæti keisari sem stjórnaði ritstýringu biblíunnar eftir átakalínum í stjórnmálum Austrómverska keisaradæmisins, var að hugsa.

Hann var allavega með harðlífi, og leysti því ósjaldan deilur með því að láta saga þann í tvennt sem var á móti föðurlegri ritstýringu hans.

Þessa spurningu skil ég ekki; "Hvers vegna skyldi ég tregðast við að lesa bókina góðu?".  Get því ekki svarað henni.

Já, velferðarsamfélag Vesturlanda á sér kristnar rætur.  Þó kratarnir reyni að halda öðru fram, þá skaltu ekki láta þá blekkja þig. 

Kristin siðmenning og kristin lífsviðhorf mótuðu fyrstu skipulögðu andstöðuna við siðleysi frjálshyggjunnar, til að setja núllpunkt þá er gott að setja baráttuna við þrælasöluna í Bretlandi sem hófst á seinni hluta 18. aldar og var drifin áfram að kvekurum. 

Þegar hinar svörtu bækur frjálshyggjunnar voru formlega ritaðar í byrjun 19. aldar, og náðu svo til að móta hagfræðilega réttlætingu á siðleysi og villimennsku, sem kennt er við leisý fer, þá er fleyg setning kristinnar konu sem sagði eitthvað á þá leið að hún vissi ekkert um hin hagfræðileg rök, en hún var kristin.

Og svona geri maður ekki, svo ég vitni reyndar í kristilegan íhaldsmann á seinni hluta 20. aldar.

Bismarck er guðfaðir nútímavelferðarkerfisins, og kristilegir íhaldsflokkar mótuðu það og drifu áfram. 

Orð Krists og kennsla koma ekki fram í einu versi, en grunnkjarni þeirra, sjálf forsenda þess að lífið lifi af villimennsku skriðdýraheilans, er þetta einfalda boð;

Þú skalt gæta bróður þíns.

Þú mátt sjálfur fletta uppá versinu Helgi.

Þá held ég að allt sé búið.

Vona að þú læknist fljótt af iðrakveisu þinni, og mætir hér næst glaður og reifur.

Góðan bata.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.3.2015 kl. 21:18

14 identicon

Sæll.

Það er svolítið merkilegt að þú skulir telja stjórnmálamenn sem sjálfir skilgeina sig sem demókrata eða jafnvel sósíalista vera frjálshyggjumenn. Menn sem komast í valdastöður í kosningum á fyrrnefndum forsendum telur þú vera frjálshyggjumenn. Hvað veist þú sem þetta ágæta fólk veit ekki? Sérðu ekkert mótsagnakennt við þinn málflutning?

Opinberunarbók Jóhannesar snýst ekki um frjálshyggju eða afleiðingar hennar.

Það er ekki að ástæðulausu sem gríska var notuð til að rita NT. Jesús talaði ekki grísku þegar hann var að ræða við lærisveina sína og aðra. Heldur þú að fjallræðan hafi farið fram á grísku?

Spratt kristnin upp í hinum gríska heimi? Ertu alveg viss um það?

Nei, velferðarsamfélög Vesturlanda styðjast ekki við neitt kristið, þó forsprakkar þess segi það kannski.

Þú segir að sönn snilld sé aldrei flókin. Á það við um alla snilld eða kannski bara það sem þú skilgreinir sem snilld?

Fyrst þú veist að Bismark er faðir nútímavelferðarkerfisins ættir þú líka að vita að hann kom því á laggirnar til að kaupa sér frið frá sósíalistum (þú vilt sjálfsagt meina að þeir sósíalistar séu frjálshyggjumenn).

Þú heldur þig enn við læknaleikinn, gott hjá þér.

Helgi (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 22:01

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Humm, læknaleikinn????, hélt að ég hefði hætt honum fljótlega við 10 ára aldurinn.  En ég skal játa að þetta með iðrakveisuna var stolið frá þeim mæta lífsspekingi, Fermin Romero de Torres, sem er í miklu uppáhaldi þessa dagana. 

Og ég get svarið það, þú ert miklu minna hvumpinn núna Helgi. 

Fyrir utan þetta þá rekur minni mitt ekki til að ég hafi fyrr haft áhyggjur af heilsufari þínu, þú hefur alltaf virkað á mig sem ungur og hraustur ákafamaður.

Varðandi annað, þá nærðu þessa einhvern tímann, að orðum er hægt að stýra, en gjörðum verður ekki breytt.  Og það eru gjörðir manna sem ráða bás þeirra í pólitík.

Opinberunarbókin fjallar víst um frjálshyggjuna, ef Kristur sagði að þú skalt gæta bróður þíns, þá er Antikristni hið þveröfuga.

Hvað kemur móðurmál Jesús því við á hvaða tungumáli Nýja Testamentið var skráð??

Og hvar sagði ég að kristni hefði sprottið uppúr hinum gríska heimi??

Síðan afhjúpar þessi fullyrðing þín; "Nei, velferðarsamfélög Vesturlanda styðjast ekki við neitt kristið,", að þú skilur hvorki bofs í orðum Jesús, eða þekkir til þróunar kristinnar siðmenningar.

Varðandi snilldina, þá er þetta auðvita fullyrðing, og mér vitanlega var ekki neinn annar að rita þessa færslu.

Síðan sé ég að þú trúir flökkusögum, vissulega notaði Bismarck nytjarök á fólk sem þekkti ekki til siðar, það gerði sem og annar velferðarsinni, Winston Churchil, en það sem rak þessa menn áfram var siður, nánar til tekið kristinn siður.

Ráðlegg þér Helgi að kynna þér hina merku sögu kristinna íhaldsflokka, hélt satt að segja að ég þyrfti aðeins að taka umræðu um hið merka framlag þeirra til þróun siðmenningarinnar, framlag sem við kennum við vestrænt velferðarkerfi, við sossa og komma, ekki þá sem eru hægra megin við miðju.

En svona er þetta.

Lestu, og þú munt fræðast.

Núna er það heimilisfriðurinn.

Njóttu batans.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.3.2015 kl. 22:23

16 identicon

Sæll.

Í nr. 13 segir þú að kristnin hafi sprottið upp í hinum hellenska heimi. 

Þó einhverjir flokkar segist vera kristnir er ekki þar með sagt að þeir séu kristnir. Er allt í kaþólskunni örugglega kristið?

Hvaðan koma þeir peningar sem velferðarsamfélögin nota í "velferðina"?

Ég ráðlegg þér að skrifa grein í fræðirit um frjálshyggjuna í Opinberunnar bókinni. Þú mátt ekki sitja á þessu alveg einn, þú ættir endilega að fræða aðra um það sem þú ert búinn að uppgötva. 

Hafðu það gott :-)

Helgi (IP-tala skráð) 9.3.2015 kl. 16:53

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Já Helgi, ég sagði að kristnin hefði sprottið upp í hinum hellenska heimi, þar var safnað saman frásögnunum af Jesú Krist og skráðar, og þar voru meginákvarðanirnar teknar um þróun kristindómsins.  Þar voru öll fyrstu kirkjuþingin haldin.

En hellenski heimurinn er ekki það sama og gríski heimurinn, langt í frá. Gríski heimurinn tengist Grikkjum og fólki sem hefur grísku sem móðurmál, en hann var aðeins hluti af hinum hellenska heimi. Hellenski heimurinn tengist nokkurn veginn landvinningum Alexanders mikla, sem og útþenslu eftirmanna hans.  Gríska var hið opinbera mál, og menn skrifuðu á grísku, svona nokkurn veginn.

Gríska var hið opinbera tungumál AustRómverska ríkisins, en hins vegar voru ótal þjóðir innan vébanda þess.

En af hverju varstu að spá í þetta, ætlarðu að nota tækifærið og segja mér að Jesú hafi mælt á semíska tungu, líklegast aramísku?

Varðandi sneið þína að kaþólskunni, þá er kirkja Péturs móðurkirkja hins kristna heims, á rætur sínar til frumkristinnar, en hún er vissulega ekki elsta kirkjudeildin.  En hvort hún túlki kenningar Jesús Krists eitthvað betur en aðrar kirkjudeildi, það má guð vita, legg til að þú leggir inn fyrirspurn til hans um það málefni.  Vona samt að þú sért ekki haldinn þeim hroka að telja þig vita betur en kirkja Péturs.

Peningarnir koma að sjálfsögðu af skattfé, hvar annars staðar??  Varðandi meinloku þína að skattfé sé eignaupptaka þá er það einföld staðreynd sem frjálshyggjumenn skauta algjörlega framhjá í bábiljutrúboði sínu að það er er bein fylgni milli skattheimtu og velmegunar samfélaga, og þá er ég ekki að tala um sníkjudýrasamfélög og þjófasamfélög, lítil eða engin skattheimta er samsem og örbirgð.  Það er að segja ef samfélögin lifa af samkeppni þjóðanna.

Skattlaus samfélög er einna helst að finna í frumskógum Amazon eða Nýju Gíneu, svo er reyndar líka steinaldarþjóðfélag á nokkrum eyjum í Indlandshafi.  Jú, og Sómalar eru einnig líka að reyna að lifa af án ríkisvalds og miðlægrar skattheimtu.

En þessi ábending þín er ákaflega taktlaus, hún kemur þróun kristinnar siðmenningar ekkert við.  Jesús var heldur ekki anarkisti, hann virti leikreglur hins miðstýrða samfélags.  Byltingin sem hann boðaði var inná við en ekki útá við.

Varðandi boðun Opinberunarbókarinnar um kom antikristninnar, þá þarf ekki að skrifa greinar þar um, hún skýrir sig alveg sjálf, og það sem á að vera komið fram á þessum tímapunkti, er komið fram.

Andspyrna kristinna manna er þegar hafin, er ekki páfinn kallaður kommúnisti af frjálshyggjumönnum þar vestra?  Líkt og þeir sem vilja vernda lífið gegn loftlagsvánni. 

Kosturinn við að lifa þessa tíma sem við lifum Helgi er sá að það þarf ekkert að uppgötva, það er búið að því fyrir okkur.

Það er engin tilviljun að Jesús kom fram fyrir 2.000 árum síðan, og það er engin tilviljun að Opinberunarbókin var skrifuð með allri sinni forsögn. Ekki frekar en það sé tilviljun að frjálshyggjan spratt upp og ógnar allri framtíð mannsins.

Uppgjörið við hið dýrslega í okkur, skriðdýraheilann var alltaf fyrirsjáanlegt, og efist menn um æðri mátt, þá ættu menn ekki að gera það ef þeir íhuga til hvers Jesús Kristur kom fram með kenningar sínar og guðstrú.

Í þeim er von mannsins að finna, eina von hans.

Annars mun skriðdýrið útrýma hinum vitiborna manni.

Sem betur fer er fattarinn æðri en við, og hann hefur verið að verki í langan, langan tíma.

Hins vegar held ég að vantrú þín stafi af því að þú hafir séð Scwarcenegger á unga aldri, og eigir því alltaf von á skratta með horn og hala.

En það er bara táknfræði.

Hafðu það sömuleiðis gott Helgi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.3.2015 kl. 18:16

18 identicon

@17:

" . . . .  þá er það einföld staðreynd sem frjálshyggjumenn skauta algjörlega framhjá í bábiljutrúboði sínu að það er er bein fylgni milli skattheimtu og velmegunar samfélaga . . . "

Ef þetta er rétt hlýtur að vera betra að skattleggja tekjur einstaklinga um 30% en 20%. Það hlýtur þá að vera betra að skattleggja tekjur einstaklinga um 50% en 40%. Það hlýtur þá líka að vera betra að skattleggja tekjur einstaklinga um 80% en 50% ef þín lógík heldur vatni. Veldur meiri skattheimta meiri velmegun samfélags?

Skattheimtan endurspeglar getu einkageirans í viðkomandi samfélagi til að skapa verðmæti. Á Vesturlöndum getur einkageirinn orðið skapað veruleg verðmæti og þolir því nokkuð vel óhóflega skattheimtu.

Sérðu ekki hve fráleitt þín fullyrðing er og algerlega úr takti við veruleikann? Himinháir skattar í Evrópu valda því að atvinnuþátttaka þar árið 2013 var einungis 57,5% á meðan hún var 62,7% í sósíalista ríkinu USA (en þar eru skattar mjög háir).

Annars hefur velferðin í Evrópu valdið því að svo dýrt er fyrir venjulegt fólk að lifa að það eignast helst ekki börn. Það er nú meiri velferðin.

Farðu svo endilega að átta þig á því að það sem þú kallar frjálshyggju er í raun sósíaldemókratía.

Helgi (IP-tala skráð) 14.3.2015 kl. 20:43

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Helgi.

Það er svo langt síðan að ég kíkti á þennan þráð að ég var búinn að gleyma um hvað við vorum að ræða.

Þess vegna örstutt.

Það er ekki kratismi að veikja ríkisvaldið, skera niður samfélagsþjónustu og innviði og útbúa skattkerfi sem frýja hina ofurríku því sem næst af öllum skattgreiðslum.  Það er frjálshyggjan í raun, þess vegna fjármagna hinir ofurríku trúboðið. 

Það eru öflugir innviðir sem móta tekjustig þjóða, ekki öfugt. 

Síðan átt þú að gera þér grein yfir að samkeppni þjóða sker úr um hagkvæmni miðstýrð ríkisvalds, og hvað er hagkvæmasta skatthlutfallið.

Og sagan kann engin dæmi um að ríkið með veikt ríkisvald hafi lifað af samkeppni þjóðanna.  Hún kann nokkur dæmi um að miðstýrt vald hafi komist af án öflugrar skattheimtu, en þau dæmi tengjast öll hirðingjasamfélögum sem hafa aflað sér tekna með ránum og rupli. 

Víkingarnir, Mongólarnir, Arabarnir í árdaga útþenslu sinnar.

Að lokum, það er ekkert að marka tölur um atvinnuleysi í USA, eftir að ríkisstjórn Reagans tók upp skapandi tölfræði, síðan skaltu gera þér grein fyrir því að það eru hvergi hærri skattar á byggðu bóli en í USA, þegar tekið er tillit til hvað fólk fær fyrir skattgreiðslur sínar, og síðan þau nauðsynlegu útgjöld sem falla til eins og menntun og heilsugæsla, sem eru að stóru leiti fyrir utan hið almenna kerfi í Bandaríkjunum, en innan kerfisins í velferðarsamfélögum Evrópu.

Hættu svo að trúa bábiljum og farðu að nota heilbrigða skynsemi þína til að sjá hlutina eins og þeir eru, en ekki eins og trúboð Mammons telur þér trú um að séu.

Drífðu þig svo í að lesa Jóhannes.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.3.2015 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 931
  • Sl. sólarhring: 1254
  • Sl. viku: 6405
  • Frá upphafi: 1337105

Annað

  • Innlit í dag: 853
  • Innlit sl. viku: 5581
  • Gestir í dag: 805
  • IP-tölur í dag: 774

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband