Af hverju er málið ekki rannsakað??

 

Og þá ég ekki við að rannsakað sé hverjir eiga þessi okurlánafyrirtæki, heldur hver hefur hag af á að láta löggjöfina að vera svo loðna að þessi starfsemi geti þrifist á þann hátt sem hún gerir.

Hver á hagsmuna að gæta?

Hverjum er borgað??

 

Það er svo augljóst að þræðirnir liggja til þeirra sem þjóðin hefur kosið til að fara með völdin, setja lög og reglur, gæta laga og réttar.

Annars væri eitthvað gert til að stöðva þessa starfsemi, það þarf ekki einu sinni að vera viti borinn til að vita það.

Eins og það þarf ekki að vaða í vitinu til að vita að fjármálaráðherra sem talar um ferðatöskur fullar af seðlum, á mörg önnur brýnni áhugamál en að raska ró skattsvikara.

 

Og af hverju er komist upp með þetta??

 

Af minna tilefni hefur Umboðsmaður Alþingis hafið sjálfstæða rannsókn.

En kannski þarf tilefnið að vera "set up" gildra, og ráðrík kona eiga í hlut.

Til að hann stígi fram með sínar sjálfstæðu rannsóknir.

 

En þjóðin þarf að spyrja sig einnar lykilspurningar, fyrr en seinna.

Hve skítugt þarf fjármagn að vera til að það hætti að vera óhult hér á landi?

Mörg lönd í Mið og Suður Ameríku væru í betri málum í dag ef þjóðum þeirra hefði borið gæfu til að spyrja þessara spurningar fyrr en þær gerðu á sínum tíma.

Því sigur á krabbameini næst oftast aðeins á fyrstum stigum þess.

 

Það er tími til kominn að spyrja.

Það er tími til kominn að rannsaka.

 

Við viljum ekki svona þjóðfélag.

Kveðja að austan.


mbl.is Málið gerist enn skrýtnara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyrir svona starfsemi ekki undir FME ?

Það hefur nú verið gerð húsleit fyrir minna !

Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 8.2.2015 kl. 11:40

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Veit ekki meir Birgir, svona utan frá séð virðist svona starfsemi oft spretta upp þar sem enginn telur sig eiga lögsögu.

Oft kallað gráa svæðið, eða holur í löggjöfinni og svo framvegis.

En það gerist ekkert af sjálfu sér og þegar peningar eru annarsvegar þá er ekkert tilviljunum háð.

Á það er ég að benda í þessum pistli.

Hættum að láta umræðuna stjórna okkur, henni er stýrt af peningum og hagsmunum, lærum að sjálf að stjórna umræðunni.

Heimtum opinbera yfirheyrslu þar sem þeir sem völdin og tækin hafa til að stövða svona svívirðu, eru spurðir hreint út af hverju?, og látum þá ekki komast upp með ósvör,líkt og fjármálaráðherrann sem hefur þá bjargföstu skoðun að ferðatöskur séu aðeins hugsaðar til að geyma skítuga sokka og smyglað áfengi.

Rekjum hagsmunina og við fáum svörin.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.2.2015 kl. 12:09

3 identicon

Sæll Ómar.

FME hefur heimild til að stöðva fjármálafyrirtæki ef ekki eru gefnar upplýsingar um eigendur. Ársskýrslur virðast blekking ein og það er Skattrannsóknarstjóri sem á einnig að sinna því. Ekki bara RSK.

Þessa starfssemi á að leggja af og banna með´öllum tiltækum ráðum.

Hvers vegna FME gerir ekkert er mér hulin ráðgáta.

Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.2.2015 kl. 13:41

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hér eru nokkur atriði sem þarfnast nánari skýringar til að fyrirbyggja það að misskilningur komist á kreik.

Þau fyrirtæki sem um ræðir falla ekki undir eftirlit FME, af þeirri einföldu ástæðu að ekki er um að ræða banka. Banki býr til peninga með útlánum, en þessi fyrirtæki mega það ekki, heldur mega aðeins lána út raunverulegt eigið fé. Á þessu tvennu er eðlismunur.

Fjarsala á fjármálaþjónustu fellur undir lög um neytendalán nr. 33/2013 og eftirlit Neytendastofu á grundvelli þeirra laga. Sú stofnun hefur margvíslegar valdheimildir til að bregðast við brotum á þeim lögum. Hún getur lagt á þetta bann, dagsektir, og hefur jafnframt heimild til að höfða sjálf dómsmál til verndar heildarhagsmunum neytenda og getur þannig knúið fram lögbannsúrskurð sem sýslumaður getur framfylgt.

Þannig fer því fjarri að þessi starfsemi þrífist í einhverju "lagalegu tómarúmi" eins sumir hafa reynt að halda fram. Nei, hún er ekki einu sinni á gráu svæði lagalega séð, því þetta er alveg skýrt réttarsvið sem starfsemin fellur undir. Á því réttarsviði eru líka skýrar reglur sem liggur fyrir að verið er að brjóta.

Þess vegna hefur Neytendastofa einmitt brugðist við með því að beita umræddum valdheimildum sínum og þvinga fyrirtækin til þess að hlýða lögum í starfsemi sinni. Það hafa verið kveðnir upp úrskurðir um að óhófleg gjalddtaka þeirri brjóti gegn lögum, þau sektuð, og lagt bann við frekari brotlegri starfsemi. Þessir úrskurðir hafa jafnframt verið staðfestir af áfrýjunarnefnd neytendamála. Samkvæmt upplýsingum sem komu fram í helgarblaði Morgunblaðsins, hefur önnur þeirra tveggja fyrirtækjablokka sem um ræðir ákveðið að hlýða þeim úrskurðum. Hin ætlar ekki að gera það (sem er lögbrot í sjálfu sér líka) heldur ætlar að láta reyna á þetta fyrir dómstólum. Það er á vissan hátt ágætt, því þá kemur dómur í málið sem allir verða að hlýða.

Þetta mál er allt saman í eðlilegu ferli. Vönduð málsmeðferð á stjórsýslustigi tekur aðeins meira en örfáa daga, og fyrir hönd neytenda hljótum við að vilja að sú meðferð sé vönduð svo hún haldi vatni og hrífi á endanum. Þetta getur tekið einhverjar vikur og mánuði frá því að mál hefst, en það er líka ekkert óeðlilegt. Það er ekki heldur óeðlilegt að þá séu virðulegir álitsgjafar í bloggheimum á sama tíma óþolinmóðir, en þessar skýringar verða vonandi til að róa taugarnar.

Varðandi eignarhaldið á þessum fyrirtækjum, þá er það skráð hjá fyrirtækjaskrá RSK sem á jafnframt að hafa eftirlit með því að upplýsingar í fyrirtækjaskrá séu réttar. Skráningum í fyrirtækjaskrá hefur margoft verið hafnað af minna tilefni og í léttvægari tilfellum heldur en þegar allt í einu er til staðar fyrirtæki sem stundar lánaviðskipti og enginn veit hver á það. Það er eitthvað stórkostlega mikið sem hlýtur að hafa farið úrskeiðis þar á bæ, fyrst að það hefur tekist að skapa einmitt það ástand sem lögum um varnir gegn hryðjuverkum og peningaþvætti eiga að hindra: að það geti orðið til fyrirtæki með algjörlega óþekkt og andlitslaust eignarhald sem stundi viðskipi með fjármagnsflutninga og það jafnvel yfir landamæri.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.2.2015 kl. 13:43

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"... fyrirtæki með algjörlega óþekkt og andlitslaust eignarhald sem stundi viðskipi með fjármagnsflutninga og það jafnvel yfir landamæri"

Glöggir lesendur hafa e.t.v. áttað sig á því að það sama á við um eignarhald á tveimur af stóru bönkunum, þ.e. það er alveg ógegnsætt.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.2.2015 kl. 13:47

6 Smámynd: Ómar Geirsson

"Þessa starfssemi á að leggja af og banna með´öllum tiltækum ráðum."

Gæti ekki verið meira sammála Hafþór.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.2.2015 kl. 14:35

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Mér finnst það ekki vönduð stjórnsýsla ef svona starfsemi fái þrifist í réttarríkjum í meira en nokkra daga, maxium 2 - 3 vikur.

Glæpamenn eiga ekki að njóta vafans.

En ég held að þú hafir ekki náð því sem ég var að benda á.

Það er með öllu óþolandi að ýmisleg ólögleg starfsemi geti skotið upp kollinum undir öðrum nöfnum, vændishús heiti dansstaðir, okurlán smálán, dópsala frjáls miðlun upplýsinga um efni, og svo framvegis.

Á þessu eru skýringar, og ekki bara bundnar við Ísland, sem má rekja beint til ávinnings, jafnvel beinna renta af hinni ólöglegu starfsemi. 

Sem leiðir til flókinna reglugerða, flækjustigs, og það sem er kallað hið gráa svæði.

Á meðan er ómældur gróði rakaður í hús, og loks þegar síðasta smuga glæpamannalögfræðinganna er lokuð, þá dúkkar upp önnur starfsemi, af svipuðum toga, undir öðrum nöfnum.

Það er ekkert flókið að stöðva þetta, þetta snýst um vilja, og sá vilji er í besta falli undir áhrifum hins skítuga fjármagns.

Í besta falli.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.2.2015 kl. 14:45

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vissulega bera að stöðva alla slíka starfsemi.

En það verður einnig að líta til þess að á sama tíma og lengur en þessi smálánafyrirtæki hafa verið til staðar, hafa mun stærri og umfangsmeiri lögbrot fengið að viðgangast í stórlánastarfsemi. Þar er auðvitað átt við stóru fjármálafyrirtækin sem þó falla undir eftirlit FME. Það eftirlit hefur hingað til aðallega snúist um að gæta hagsmuna þeirra fyrirtækja sem glæpina stunda og passa upp á velferð þeirra.

Rétt forgangsröð ætti auðvitað að vera sú að stöðva fyrst stóru glæpina, áður en gefinn er gaumur að þeim smærri. Það er fyrst og fremst á færi FME, sem hefur sýnt af sér stórkostlegt sinnuleysi og á köflum beinlínis meðvirkni með stórglæpastarfseminni. Jafnframt hafa sýslumenn gerst beinir þáttakendur í umræddri brotastarfsemi með því að leyfa glæpasamtökum að bjóða upp þúsundir heimila landsmanna.

Til að stöðva þetta þarf að byrja á því að afnema úrskurðarvald sýslumanna með lögum og kveða þess í stað á um að nauðungarsala megi ekki fara fram að geðþótta hans heldur verði kröfuhafi að afla sér heimildar með dómsúrskurði til þess að mega láta fara fram uppboð á heimili neytanda, enda er annars um mannréttindabrot að ræða.

Til þess að knýja á um slíka breytingu getur þurft að höfða dómsmál um álitaefnið og leita í því dómsmáli ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Þar kemur aftur að því sama: slík málaferli hafa í för með sér kostnað, og um leið og einhver gefur sig fram sem er tilbúinn að standa straum af þeim kostnaði, væri hægt að höfða slíkt mál.

Ef það er einhvern þarna úti sem less þetta og er tilbúinn að styðja slíkt verkefni er viðkomandi bent á að setja sig í samband við Hagsmunasamtök heimilanna með tölvupósti á heimilin@heimilin.is.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.2.2015 kl. 15:18

9 identicon

Samkvæmt meðfylgjandi þá virðast Króatar geta lokað svona búllum. Hví þá ekki við. En peningaöflin eru hér við völd og því fer sem fer.

http://m.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/18/neytendavernd_verri_her_en_i_kroatiu/

Toni (IP-tala skráð) 8.2.2015 kl. 15:33

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Sjónarmið Guðmundur.

Og ég skal seint láta bera uppá mig annað en að ég lofi hið fórnfúsa starf ykkar hjá stjórn HH.

En ég er orðinn leiður á hinu sífellda illgresi sem sífellt sprettur, sama hvað mikið er tekið af því.

Þess vegna bendi ég á rótina sem þarf að höggva, og tel að til dæmis umboðsmaður eigi að spyrja ósnertanlega ráðamenn; "af hverju?".

Fréttamenn á beit fjármagnsins gera það ekki þó Mogginn sé stundum að koma manni á óvart með beinskeyttri fréttamennsku, líkt og greinin hér að ofan ber merki um.

Rekjum peninganna, framfylgjum lögum.

Grunnlögum um rétt og rangt, hendum burt flækjunni sem nærir illgresið.

Og setjum ný lög ef þess þarf til að stöðva hártoganir glæpamannalögfræðinganna.

Gleymum því heldur ekki að það sem virðist smátt hjá einum, er risastórt hjá öðrum, til dæmis fórnarlömbum viðkomandi glæpalýðs.

Og allt kemur þetta frá sömu rótinni, þegar höggvið er í hana, og hún jafnvel rifinn upp, þá fellur ekki bara hið smáa, eða hið stóra. 

Það fellur allt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.2.2015 kl. 15:40

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Vísa í þessi orð mín Toni.

"Það er ekkert flókið að stöðva þetta, þetta snýst um vilja, og sá vilji er í besta falli undir áhrifum hins skítuga fjármagns."

Og síðan reyndar smá steinn í götu í viðbót, það er þegar einhver tekur af skarið og bendir á að keisarinn sé nakinn, þá taki aðrir undir.

Því það var hugarblekking hvers og eins sem sá hinn klæðlitla keisara í fötum, ekki ytri ógn frá þeim sem hagsmuna höfðu af að viðhalda blekkingunni.

Og því miður er þessi smásteinn illklifinn hjalli.

Og eina skýring þess að ástandið hefur verið eins og það hefur verið í fjölda, fjölda ára.

Eða svo lengi að fólk er farið að trúa að hugarblekking þess er annað hvort ekki þessa heims, eða hreint náttúrulögmál.

Sem það er ekki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.2.2015 kl. 15:48

12 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þegar lög um fjármálafyrirtæki nr. 161 voru sett árið 2002 féllu úr gildi lög nr.123 frá 1993 sem giltu um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

Í 1.gr.gömlu laganna sagði:

"Lög þessi gilda um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði."

og ennfremur í 2.gr.:

"Með lánastofnun er í lögum þessum átt við félög eða stofnanir sem hafa það að meginverkefni að veita lán í eigin nafni og afla sér í því skyni fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings, sbr. þó 9. gr."

Téð 9.gr. fjallaði síðan um eignaleigufyrirtæki.

Ekki fæst betur séð en að fyrir 2002 hefðu lög nr. 123/1993 náð yfir smálánafyrirtækin hefðu þau verið starfandi þá. Varla var markmið löggjafans með nýjum lögum um fjármálafyrirtæki að gera hverjum sem er kleift að hefja leyfisskylda starfsemi án tilsskyldra leyfa?

Lög um fjármálafyrirtæki tilgreina leyfisskylda starfsemi í 3.gr.:

"3. gr. Leyfisskyld starfsemi.

Eftirtalin starfsemi er starfsleyfisskyld samkvæmt lögum þessum:
   1. Móttaka endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi:
   a. Innlán.
   b. Skuldaviðurkenningar.
   2. Veiting útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi.

Ég fæ ekki skilið með mína menntun á íslensku máli hvers vegna FME hefur ekki gert þessum fyrirtækjum skylt að hafa starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki. En þetta er ekki heldur eina atriðið sem ég ekki skil þegar kemur að starfsemi FME.

Erlingur Alfreð Jónsson, 8.2.2015 kl. 16:10

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Erlingur.

Mér sýnist að þú sért að draga enn einn steininn í þá vörðu sem mér finnst blasa við í þessu máli öllu.

Og öðru sem viðkemur hinu skítuga fjármagni.

Þess vegna þarf að rannsaka málið, hver klæðist silkihönskum kerfisins??

Og hver saumaði þá?

Önnur nálgun umræðunnar er í ætt við þekktan leik hunda, að elta skottið á sjálfum sér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.2.2015 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 76
  • Sl. sólarhring: 145
  • Sl. viku: 5393
  • Frá upphafi: 1338851

Annað

  • Innlit í dag: 57
  • Innlit sl. viku: 4743
  • Gestir í dag: 55
  • IP-tölur í dag: 55

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband