Hvaða endalaus heimska er þetta sí og æ í stjórnmálamönnum okkar???

Gaf guð þeim ekkert vit sem þeir geta notað???

Núna ætla þeir að stofna nýja samninganefnd en vita ekki við hverja hún á að tala því "ekkert liggur fyrir um hvort Bretar og Hollendingar eru tilbúnir í nýjar viðræður".

Enn einu sinni ætlar fórnarlamb fjárkúgarans að skríða heim að dyrum hans og biðja hann um að vera ekki alveg svona vondur við sig.

En það gilda lög og reglur.  Stjórnmálamenn vinna við að setja lög.  Skilja þeir ekki hvað það þýðir???  Það þýðir að lög gilda um eitthvað tiltekið atriði og eftir þeim er farið

Stjórnmálamenn gera samninga, suma alþjóðlega.

Enginn alþjóðlegur samningur er gildur samkvæmt alþjóðlögum ef ekki er í honum leiðir til að takast á við ágreining.  Þegar um flókinn milliríkjasamning eins og EES samninginn þá eru þær leiðir bundnar við tilteknar stofnanir sem annarsvegar fara með eftirlit á framkvæmd einstakra aðildarríkja á samningnum og síðan dómstóls sem sker úr um ágreining ef ekki er hægt að leysa hann með samkomulagi.  

Þessar stofnanir heita ESA, Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA dómstóllinn.  Um þær má lesa á EES vefsetrinu, undir lið sem  heitir Samningur milli EFTA ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

Það er lágmark að stjórnmálamenn þekki réttarfarsleiðir stærsta alþjóðlegs samnings sem íslensk stjórnvöld hafa gert og snertir kjarna þeirrar deilu sem þjóðin á við Hollendinga og breta.

Það er skýrt kveðið á um í lögunum um ESA að hún eigi að fylgjast með réttri framkvæmd EFTA ríkja á EES samningnum.  Í því felst meðal annars að fylgjast með að EFTA ríki innleiði tilskipanir ESB á réttan hátt  og framfylgi þeim síðan eins og felst í tilskipunum.

Komi upp ágreiningur um rétta innleiðingu tilskipunar og framkvæmd hennar, þá bera ESA að skera úr um og síðan EFTA dómsins að dæma.  Og sá dómur þarf að byggjast á fordæmum Evrópudómsins  eða þá ef um grundvallarmál, áður ekki dómtekið, þá þarf EFTA dómurinn að leita til Evrópudómsins um ráðgjöf eða sameiginlegan dóm (þetta er nokkurn veginn á mannamáli um það sem stendur í lögunum).

Krafa Hollendinga og breta er ekki á milliríkja basis, krafa þeirra er með beina tilvísun í ákvæði EES samningsins sem skyldur Íslendinga  til að innleiða lög og reglur ESB og fara eftir þeim. 

Þeir tína aðallega þrennt til.

1. Ísland hafi ekki innleitt tilskipun ESB um innlánstryggingar á fullnægjandi hátt því ekki sé til peningur í íslenska tryggingasjóðnum til að greiða út lögbundnar innlánstryggingar.

2. Íslensk stjórnvöld hafi með neyðarlögum sínum tryggt innstæður á Íslandi en ekki gætt jafnræðis þegar innstæður í íslenskum útibúum í viðkomandi löndum voru látnar falla.

3. Ísland hafi brugðist eftirlitshlutverki sínu og sé því í ábyrgð fyrir því tjóni sem íslensku bankarnir ullu.

 Út frá þessum meintum ágöllum gera Hollendingar og bretar kröfur til að Íslendingar greiði öllum innlánseigendum í íslenskum útibúum út lágmarkstryggingu sem kveðið er á í tilskipun ESB nr 94/19, um það bil 20 þúsund evrur.  En í réttarríkjum er það ekki kröfuhafans að skera úr um réttmæti krafna sinna.  Slíkt er dómstóla. 

Og þegar kröfurnar eru gerðar með tilvísun í EES samninginn þá er það réttarleiða EES samningsins að skera úr um lögmæti þeirra.  Enginn annar aðili er til þess réttbær.  Og það er þessa aðila að leita til Evrópudómsins um aðstoð á túlkun þeirra vafaatriða sem valda þessari deilu.  

Engin önnur leið er réttbær samkvæmt lögum.

Hollendingar og bretar fóru ekki þessa leið og því í það fyrsta þá er krafa þeirra ólögleg vegna þess, burtséð frá því hvort hún sé réttmæt eður ei.

Þegar stjórnmálamenn tala um milliríkjadeilu, þörfina á pólitískum samningum eða pólitískri sátt  þá eru það fín orð yfir lögleysu, þeir ætla ekki að fara eftir þeim lögum sem þeir ætlast til að aðrir fari eftir og refsa harðlega fyrir ef svo er ekki gert.

En slíkt geðþóttavald hafa þeir ekki samkvæmt stjórnarskrám Íslands, Bretlands og Hollands, og samkvæmt lögum og reglum EES og Evrópubandalagsins.  Vegna þess að um réttarríki er að ræða og Evrópusambandið er réttarsamfélag, einmitt stofnað gegn yfirgangi og lögleysu.

Og að hundsa leiðir réttarríkisins í þessari deilu er leið skrílræðis og barbarisma.  Og þegar sá barbarismi leiðir hugsanlega til þess að saklaust fólk sé með lögleysu látið taka á sig skuldir óskyldra einkaaðila, þá er um beina aðför að siðmenningunni.

Vegna þess að sú siðmenning sem við höfum í dag byggist á lögum og rétti.  Og sú leið var valin af gefnu tilefni.  Það vill enginn aftur þann tíma miðalda þegar hetjur riðu um héruð og rændu mann og annan.  Eða þá þegar yfirgangssöm ríki í krafti stærðar og hervalds, hertóku og rændu minni nágranna sína.

Blóð u.þ.b. 80 milljóna manna var talin réttlæting þess að fólk sagði aldrei aldrei aftur.  Út frá því þeirri hugsun var réttarsamfélagið Evrópusambandið stofnað.  Til að festa siðmenninguna í sessi í Evrópu, og vonandi líka í heiminum með fordæmi sínu um lýðræði og mannréttindi.

Svo eru einhverjir mega treggáfaðir stjórnmálamenn á Íslandi sem telja sig hafa rétt til að semja sig frá sjálfri siðmenningunni.  Ef þetta væri fótboltaleikur, þá kæmi það mér og mínum ekki við.

En þeirra pólitíska lausn byggist á því að ræna velferðarkerfi okkar, ræna börnin okkar mannsæmandi menntun og tryggja að aldraðir foreldrar okkar fái ekki bestu umönnun eins verið hefur.

Enginn stjórnmálamaður, sama hvað hann þykist vera vel meinandi, hefur þann rétt.

Alþingi Íslendinga ber siðferðisleg skylda, því ber lagaleg skylda til að setja ICEsave deilu Íslendinga við breta og Hollendinga í lögbundinn farveg þar sem úr réttmæti krafna þeirra er skorið.  Falli ábyrgð á íslenska ríkið, þá verður hún gerð upp samkvæmt alþjóðlögum sem meðal annars banna íþyngjandi kvaðir á almenning vegna milliríkjasamninga.  

Tími þrælahalds er nefnilega liðinn.  Og tími villimennsku í samskiptum einstaklinga og þjóða einnig.

Í þessu sambandi skiptir engu hvort bretar og Hollendingar mæti fyrir EFTA dóminn.  Sú forsenda er hvergi til staðar í EES samningnum að sá sem krefjist mæti, það nægir að um ágreining sé að ræða og íslensk stjórnvöld vilji fá úr honum skorið.

Og eftir þeim úrskurð verða deiluaðilar að fara hvort sem þeim líkar það vel eða illa.

Málið er svo augljóst að það er grátlegt að einhver afdalamaður þurfi að hamra á því á lyklaborði sínu við frétt um hina algjöra heimsku.  Það er ótrúlegt að þúsundir íslenskra, og evrópskra lögfræðinga skuli ekki hafa bent á þessar einföldu staðreyndir réttarríkisins og krafist þess að eftir þeim sé farið.

Tími lögleysu stjórnmálamanna er liðinn.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Skipa tvær nefndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Enn einu sinni ætlar fórnarlamb fjárkúgarans að skríða heim að dyrum hans og biðja hann um að vera ekki alveg svona vondur við sig.

Já, er það ekki orðið með MEGA-ólíkindum, Ómar, lærði þetta fólk ekki að ganga, þarf það enn að skríða um???  Og orðið þitt SKRÍLRÆÐI lýsir skrílræðinu vel. 

Snilldar-pistill, Ómar.  Ætla að stela honum og nokkrum öðrum og hann verður í heiðri hafður í  spássíunnni minni með nokkrum öðrum snilldar pistlum.  Þangað til þið segið: Sko, engan þjófnað. -_- 

Elle_, 20.1.2010 kl. 19:02

2 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Góður pistill.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 20.1.2010 kl. 19:36

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle.

Var  að setjast niður við að klára pikkið á Lipietz.  Á svo Hudson eftir.  Allur kjarni ICEsave deilunnar og síðan AGS hörmungana koma þar skýrt fram hjá mönnum sem eru bæði "málsmetandi" og hlutlausir".  Og við erum að ræða um 507 milljarða í ICEsave og um 800 milljarða í AGS ef allt erlent krónufé verður borgað úr landi á yfirverði.

= þjóðargjaldþrot.

Á morgun er hugsun mín að draga fram kjarna ICEsave deilunnar og vinna þá út frá tveimur "frösum" sem koma úr erlendu pressunni.  Síðan ætla ég að taka saman viðbrögð ICEsave stjórnarinnar við því björgunarakkeri sem Hudson og Lipietz hentu til hennar.  Ég er búinn að átta mig á þeim þýðingarvillum sem voru hvatinn af tilkynningu forsætisráðuneytisins og fyrstu viðbrögðum Ólínu.  Sem og gryfjunni sem hann Björn Valur datt ofaní.  Ef einhver stendur nakinn á eftir þá er það ICEsave stjórnin.  

En ég get þá ekki verið með fréttatengt efni, þá drukknar alvaran í því.  Enda virðast töfrar pistla minna vera horfinn, fólk vill greinilega ekki lengur láta ögra sér.  Og eitthvað vitrænt hjá óþekktum manni er ekki lesið, hef margoft reynt það.  Þannig að ég þarf á kynningunni að halda.  Til dæmis þá mistókst mér að ögra í byrjun til að fá lestur á þennan pistil.  Þarf að endursemja hann við fyrsta fréttatengt tækifæri.  

Og ef menn hefðu lesið EES samninginn strax í upphafi og vísað deilunni strax til EFTA dómsins, þá væri þetta mál úr sögunni með algjöri skömm breta og Hollendinga.  Þeir geta ekki gengið gegn áliti EFTA dómsins þó þeir viðurkenni ekki lögsögu hans.  

En það eru jú bara 507 milljarðar sem eru í húfi, ef allt fer á besta veg, 1.000 milljarðar ef allt fer á versta veg.  Og höfum við ekki reynslu að allt sem sagt væri að myndi reddast, að það fór á versta veg.

Og svo eigum við að vera kurteis og ekki tala um landráð þó fólk sé fast í því fúafeni þegar það gengst undir rökblekkingar breta.

En hvað um það, mér þótti vænt um að þú veittir þessum pistli athygli.

Svo ég vitni bara í Liepitz "að þau (bresk stjórnvöld) hefðu tapað málinu fyrir Evrópudómstólnum."  En mín leið er sú rökrétta því Evrópudómstóllinn getur hafnað beiðni okkar nema breta samþykki að mæta líka.  En EFTA dómurinn getur það ekki.

Og það er ótrúlega heimska hjá öllu okkar stjórnkerfi, langskólagengnu fólki eins og lögfræðingum, stjórnmálafræðingum og hagfræðingum, að hafa ekki krafist þess strax að Geir og Ingibjörg skyldu ekki fara þessa leið.  

En Össur er hins vegar, því miður því það er ljótt að segja svona um fólk, alltof heimskur til að skilja það nokkurn tímann.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.1.2010 kl. 19:37

4 Smámynd: Elle_

Eitt, Ómar.  Og Högni.  Okkar stjórnvöld ættu ekkert að vera að ræða um ólöglegar kröfur við einn eða neinn og vegna þess að maður kemur ekkert bara og ólöglega heimtar og innheimtir án dóms og án nokkurra lagaheimilda.  Rök hafa verið færð fyrir að engin lög séu á bak við innheimtuna og ættu stjórnvöld því alfarið að hafna Icesave og þangað til og ef fjendurnir sækja málið fyrir dómi.  Og ég þoli ekki orðið viðsemjendur frá Icesave-stjórninni um kúgara.  Hvílíkir viðsemjendur, eða hitt þó heldur.   Við þurfum ekkert að sækja neitt Icesave-skuldamál nema ef við þurfum að verja okkur.   Hinsvegar ættum við að sækja ræningjana vegna kúgunar og hótana og skemmdarverka.

Elle_, 20.1.2010 kl. 21:00

5 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég er innilega sammála ykkur, Ómar það er vitnað í þennan pistil á nokkrum Faceboock síðum og ég lét hann á mína feisbúkksíðu.

Ég tek líka undir með þér Ómar með að ná til fólks, það virðist þurfa að vera með einhverja mjög ögrandi og eða allt að því hneikslandi fyrirsögn til að vekja áhuga, reyndar fór þessi frétt tiltölulega hratt niður forsíðuna, ég sá vitnað í pistilinn þinn á feisbíkkinu og ákvað að lesa hana, þó kíki ég nokkuð oft á þig. 

Högni Jóhann Sigurjónsson, 20.1.2010 kl. 22:21

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Högni.

Og mér þykir vænt um að frétta að hann hafi farið víðar, ég tel þá hugsun sem fram kemur í honum (aðeins að taka ögranirnar í burtu) sé sú lausn sem gæti sameinað þjóðina.  

Hver getur verið á móti lög og rétti????

Og EFTA dómurinn er sú leið sem enginn getur hindrað okkur í.  Og það er mjög líklegt að hann leiti strax til Evrópudómsins, og það mun verða kveðinn upp tímamótaúrskurður um grundvallarmál.  Vegna þess að Evrópa er vakna upp við þann vonda draum að sjálft réttarríkið Evrópa er í hættu er skýrum lögum er breytt eftir á, og á þann veg að fjármagnsöfl geta lagt ótakmarkaða ábyrgð á almenning í aðildarríkjunum.  

Það er ótækt þó lagaheimild til þess sé skýr.  Engin þjóð, enginn almenningur mun sætta sig við upptöku eigna og skattfjár.  Það er sama og viðurkenna aftur gamla skuldaþrældóm Rómverja.

En ef lagaheimild sem segir "ekki" er túlkuð eftir á sem "ekki ekki" af kröfu peningakalla, það er endalok hinnar siðmenntuðu Evrópu.  

Á það hafa lagaspekingar verið að benda.  Þó allir séu hræddir við að styggja auðmagnsþursinn, til dæmis í sambandi við styrki eða vera settur út í kuldann, þá er það mikið í húfi að menn þegja ekki lengur.

Við þurfum ekki að óttast Evrópudóm.

Kveðja að austan.



Ómar Geirsson, 20.1.2010 kl. 22:48

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle.

Vissulega vildi ég að það væri hægt að ulla framan í bretana og segja þeim að koma ef þeir þora.

En á því er einn mjög stór galli, eiginlega grundvallargalli.  

Það er engin lausn á þeim vanda sem um ræðir.

Vandi þjóðarinnar er tvennskonar.

Í það fyrsta þá er það klofningurinn, og hann er staðreynd, hvort sem okkar sjónarmið verða ofan á eða þeirra sem trúa á ljóta kallinn sem kemur í skjóli nætur og leggur á okkur ísaldarvetur.  Veit að þú last áramótapistil minn, Eigi skal slíta sundur friðinn, en alltí lagi að linka á hann ef fleiri lesa.  http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/998407/.  Þar koma þau rök fram sem fólk þarf að hafa í huga af hverju klofin þjóð getur ekki haldið áfram á örlagatímum án þess að leysast upp. 

Hvorugur aðilinn hefur þann styrk sem þarf til að kúga hinn aðilann til hlýðni.  Og á meðan sekkur landið.

Og lög og réttur er eina leiðin sem er fær.

Og í öðru lagi þá verður aldrei sátt um að sitja og bíða.  Þeir sem trúa á ljóta kallin munu ekki sætta sig við það.  Og á meðan geta fjandmenn okkar, sem eru titlaðir viðsemjendur, gert okkur ýmsa skráveifu. 

Og við megum ekki við þeim skráveifum. 

Það er til lítils að vinna sigur þegar allt annað er glatað.  Það má vel vera að við stöndum ennþá keik eftir 2-3 ár, en við vitum það ekki, og það nægir að stór hluti þjóðarinnar óttist að svo verði ekki.

Þess vegna verður aldrei sátt um að bíða og taka slaginn, ef þá einhver kemur og fer í mál.  Tæki kúgunarinnar eru svo mörg, það þarf enginn að mæta í héraðsdóm.  Það dugar að kúga.

Sú leið sem ég bendi á og er geirnegld í EES samningnum er fljótvirk, og Gordon Brown er eins og hvert annað viðrini ef hann beitir kúgun og hótunum á meðan. 

Og þjóðin á alltaf skjól hjá Nató, hreint ótrúlegt að það skuli ekki hafa verið nýtt fyrr.

En það er eitthvað að heilabúi þeirra sem halda um stjórnartaumana, og ráðgjafa þeirra, það varð skammhlaup, hjá annars ágætu fólki, þann 6. október 2008. 

En þjóðin verður því sjálf að taka í taumana, og krefjast þess að það sé gert sem þarf að gera.  Það sökkva allir á þeim skipum þar sem björgunarbátar eru ekki nýttir sökum taugaáfalls yfirmanna.  Það er ef restin af áhöfn gerir ekki uppreisn og fer samt í bátana.

Elle.  Núna þarf fólk að hætta að tala um hvað það vill.

Lögin, þau sem við samþykktum við undirritun EES samningsins, þau segja til um hvað eigi að gera.

Þau eiga að ráða för.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.1.2010 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 60
  • Sl. sólarhring: 172
  • Sl. viku: 3563
  • Frá upphafi: 1330393

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 3018
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 40

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband