ICEsave er ekki þjóðréttarleg skuldbinding íslensku þjóðarinnar.

Þeir sem halda því fram eru annað að tveggja, að blekkja með þeirri fullyrðingu sinni, eða þá þeir vita ekki betur.

Þessi fullyrðing er rökstudd með því svo ég vitna í þekktan meistaranema í lögfræði, að "Ísland sé partur af EES regluverkinu". 

Nú er það þannig að EES samningurinn var samþykktur á Alþingi 1993.  Tilskipun ESB um innlánstryggingar er frá árinu 1994.  Þess vegna er klár lygi að halda því fram að það sem var ekki til 1993, geti verið partur af því regluverki.  Líklegast er verið að vitna í tvennt.  Í fyrsta lagi þá er Ísland, sem aðili að EES, skuldbundið að framfylgja tilskipunum ESB, þar á meðal um innlánstryggingar, og í öðru lagi er líklegast verið að vísa í jafnræðisreglu EES samningsins, þar sem mismun eftir landsvæði eða þjóðerni er bönnuð.

Í þessum pistli ætla ég einn einu sinni að benda á rangindi þeirra sem fullyrða að ICEsave sé ríkistryggt samkvæmt ESB reglum, en í næsta pistli ætla ég að taka jafnræðisregluna fyrir.

 

Hafa íslensk stjórnvöld brotið tilskipanir ESB um innlánstryggingar????  

Ef svo er þá á að liggja fyrir réttmæt kvörtun ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) og dómur EFTA dómsstólsins þar um.  Sé svo ekki þá hefur Ísland enga tilskipun brotið.  Því það þýðir ekki að vitna í EES regluverk og hafna síðan í hinu orðinu þeim leiðum sem sá samningur kveður á um þær réttarfarsleiðir sem gilda ef grunur um brot kemur upp, eða hvaða leið er farin ef til réttarfarslegs ágreinings kemur.  Í gildi er

SAMNINGUR MILLI EFTA-RÍKJANNA UM STOFNUN
EFTIRLITSSTOFNUNAR OG DÓMSTÓLS

 Og þar segir þetta um ESA.

 

1. Eftirlitsstofnun EFTA skal, í samræmi við ákvæði samnings þessa og ákvæði EES-samningsins og til að tryggja góða framkvæmd EES-samningsins:

a) tryggja að EFTA-ríkin standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum og samningi þessum;

b) tryggja beitingu reglna EES-samningsins um samkeppni;

c) hafa eftirlit með beitingu annarra samningsaðila á EES-samningnum.

2. Eftirlitsstofnun EFTA skal í þeim tilgangi:

a) taka ákvarðanir og gera aðrar ráðstafanir í málum sem kveðið er á um í samningi þessum og EES-samningnum;

b) setja fram tilmæli, skila áliti og gefa út auglýsingar eða leiðbeiningar um mál sem EES-samningurinn fjallar um ef sá samningur eða þessi samningur kveða skýrt á um slíkt eða eftirlitsstofnun EFTA álítur slíkt nauðsynlegt;

c) hafa samvinnu, skiptast á upplýsingum og hafa samráð við framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna eins og kveðið er á um í samningi þessum og EES-samningnum;

d) sinna þeim störfum sem leiðir, vegna beitingar á bókun 1 við EES-samninginn, af þeim gerðum sem vísað er til í viðaukunum við þann samning, eins og tilgreint er í bókun 1 við samning þennan.

 

Hlutverk ESA er að " hafa eftirlit með framkvæmd EFTA-ríkjanna á ákvæðum EES-samningsins og samnings þessa."  Skýrar er ekki hægt að orða hlutina.  Og ef ESA hefur ekki gert athugasemd við íslensku lögin um Tryggingasjóð innlána, þá gilda þau.  Og þar er skýrt tekið fram að sjóðurinn er sjálfseignarstofnun, og í lögum um sjálfseignarstofnanir segir að eigandi sjálfseignarstofnunar sé ekki í ábyrgð fyrir skuldbindingum stofnunarinnar.

Um þetta er ekki hægt að deila.

En ef aðilar, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki eða önnur lönd, séu ósáttir við störf ESA eða þeir telja að EFTA ríki hafi ekki framfylgt tilskipunum ESB á réttmætan hátt, þá er til kominn réttarágreiningur, og um slíkan ágreining eru skýrar reglur í EES samningnum.  Honum er vísað til EFTA dómsstólsins.

 

"EFTA-dómstóllinn hefur lögsögu í málum er varða lausn deilumála milli tveggja eða fleiri EFTA-ríkja um túlkun eða beitingu EES-samningsins, samningsins um fastanefnd EFTA eða samnings þessa."

 

EES samningurinn gerir ekki ráð fyrir neinum öðrum vinnugang í sambandi við deilur sem upp koma vegna framkvæmd einstakra ríkja á samningnum.  Allar kröfur á hendur EFTA ríkjum á grundvelli EES samningsins eru því ólöglegar ef þær finna sér annan farveg til fullnustu, til dæmis að beita fyrir sig innlendum Leppum, kúgunum, hótunum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, það skiptir ekki máli.  Hollendingar og bretar geta haft rétt fyrir sér í öllum atriðum, þeir hafa ekki sett kröfu sína í lögbundinn farveg, og því er um ólöglegan gjörning að ræða.

Og hjá fólki sem þekkir til EES samningsins, ráðherrar, þingmenn, embættismenn, lögfræðingar, hagfræðiprófessorar, og fullyrðir að ICEsave ábyrgðin sé þjóðréttarleg skuldbinding íslensku þjóðarinnar þá er um vísvitandi blekkingu að ræða.   Sá sem vitnar í samning um einhverja skyldu, hann hlýtur að þekkja innihald hans, og þar með að vita um þær réttarleiðir sem hér hafa verið raktar.

Sá sem segir að Íslendingar hlaupi frá þjóðréttarlegum skyldum sínum með því að hafna ICEsave, hann lýgur.  Það er ekki flóknara en það.

Og fyrst að bretar og Hollendingar fóru ekki hina lögformlegu leið, þá eru gjörðir þeirra með þeirri kúgun og yfirgangi sem þeir hafa beitt, engu betri en þeirra sem fremja bankarán um hábjartan dag.  

Þeir eru þjófar.

Og af hverju skyldu þessar þjóðir ekki fara hina lögformlegu leið eins og siðað þjóðfélag réttarrikisins krefst?????

Það er vegna þess að tilskipun ESB nr 94/19/EB kveður á stofnun Tryggingakerfis vegna innlána, fjármagnað af fjármálafyrirtækjum, ekki skattgreiðendum.  Og hin endalega viðurkenning þess kom með nýrri tilskipun ESB nr 2009/14/EB en þar er það skýrt tekið fram að ríkissjóður aðildarríkja sé í ábyrgð ef til fjárvöntunar kemur í tryggingasjóðum þeirra.  Ef þetta væri þegar þjóðréttarleg skylda, þá þyrfti ekki þessa lagabreytingu.

Ég vil vitna í stórgóðan pistil Lofts Altice Þorsteinssonar þar sem hann ber þessa nýju tilskipun saman við þá gömlu sem var í gildi þegar íslensku lögin voru samin og hinn meinti ágreiningur er um.  Þar útskýrir Loftur muninn á tryggingakerfi annars vegar og ríkisábyrgðarkerfi hins vegar.

"

Tilskipun 2009/14/EB færir alla ábyrgð af innistæðutryggingunum af innláns-stofnunum og yfir á aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins. Eftirfarandi málsgreinar sýna þessa afdrifaríku breytingu:

 

Samkvæmt tilskipun 2009/14/EB7.1. Aðildarríkin skulu tryggjaað tiltækt fjármagn fyrir samanlögðum innlánum hvers innstæðueiganda sé að minnsta kosti 50 000 EUR, ef innlánin verða ótiltæk. Frá 31. desember 2010 skulu aðildarríkin tryggjaað tiltækt fjármagn, fyrir samanlögðum innlánum hvers innstæðueiganda skuli hækkað í 100 000 EUR, ef innlánin verða ótiltæk. 

 

Samkvæmt tilskipun 94/19/EB: 7.1. Innlánatryggingakerfin skulu tryggjaað samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að 20 000 ECU ef innlánin verða ótiltæk. 

 

Hér liggur því fyrir, að gerðar hafa verið grundvallarbreytingar á innistæðu-trygginga-kerfum Evrópska efnahagssvæðisins. Ábyrgð tryggingakerfanna hefur verið færð af þeim og yfir á aðildarríkin, sem merkir að það er almenningur sem á að bera ábyrgðina. Með þeim gerningi hefur verið gert skýrara en nokkru sinni, að fyrir þessa breytingu var ábyrgðin hjá trygginga-kerfunum. Icesave var því ekki á ábyrgð íslenska ríkisins, eins og allir sæmilega læsir menn vita.

"

Þetta eru grundvallar staðreyndir málsins sem Loftur skýrir á sinn rökfasta hátt.  Þegar horft er til þess að um 1.000 milljarða króna ábyrgð er að ræða, þá er ótrúlegt að allir fjölmiðlar landsins skulu ekki hafa tekið allsherjar viðtal við Loft um ICEsave ríkisábyrgðina, því þar er maður sem notar staðreyndir sem rökstuðning, ekki blekkingar, lygar eða hálfsannleik.

En skýring tómlætis fjölmiðla er mjög einföld, og um hana mun lokapistill minn um Lygaveituna fjalla. 

En hér eru linkar á tvo nýlega pistla eftir Loft þar sem hann tætir í sig málflutning hinna viljugu skuldaþræla.  Skyldulesning fyrir alla þá sem hafa manndóm í sér að verjast kúgun þjóðarinnar.

http://altice.blog.is/blog/altice/entry/984892/

http://altice.blog.is/blog/altice/entry/991686/

Og loks einn þar sem hann kynnir lögin um ríkisábyrgð.

http://altice.blog.is/blog/altice/entry/985353/

Kveðja að austan.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 63
  • Sl. sólarhring: 179
  • Sl. viku: 5380
  • Frá upphafi: 1338838

Annað

  • Innlit í dag: 51
  • Innlit sl. viku: 4737
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband