Það er verið að fremja glæpinn NÚNA!!!!!!!

Ýmislegt má finna að gjörðum ráðherra ríkisstjórnar Geirs Harde.  Það er óhætt að segja að þeir hafi verið teknir í bólinu.  Líklegast skýringin er sú að þeir hafi ekki trúað á að hið versta myndi gerast.

En það gerðist, og ábyrgð þeirra er mikil.  

En það er ekki hægt að færa rök fyrir að um vísvitandi vanrækslu, eða afglöp hafi verið um að ræða.

Það er ekki hægt að færa rök fyrir að þeir hafi unnið gegn öðrum stjórnmálmönnum, eða þá hreyfingu málsmetandi manna í atvinnulífinu, eða farið gegn sterkum aðvörunarorðum hagfræðinga. 

Hallelúja kórinn var næstum einróma.  Sérfræðingar Hrunsins komu allflestir fram hér á landi eftir að skaðinn var skeður.  Þetta eru mennirnir sem dreymdu um Vestmannaeyjargosið 5 dögum eftir að það var hafið.

Ég er ekki að gera lítið úr ábyrgð fyrrverandi ríkisstjórnar.  En við fáum ekki nýtt og betra þjóðfélag, ef við viðurkennum ekki staðreyndir.

Að læra af því sem miður fór, og vilja eitthvað annað og betra, það er sú leið sem breytir þjóðfélaginu, sú leið sem skapar nýtt og betra Ísland.

 

En það er verið að fremja glæpinn NÚNA.

 

Núverandi ríkisstjórn Íslands er skipuð fólki sem hefur staðfesta vilja til að gera slæmt verra, og það sem er vont, að illu.  Hún er að festa í sessi þjóðfélag misskiptingar, óréttlætis og örbirgðar stórs hluta almennings.

Bankakerfi okkar var vont.  Drifkraftur þess var siðlaus græðgi.  En þetta voru þó innlendir bankar sem þjóðfélagið hafði áhrif á.

Núna er siðblinda ráðamanna orðin slík, að þeir ætla afhenda  hina nýju banka þjóðarinnar amerískum vogunarsjóðum, sjóðum sem er illskan holdi klædd.  Áhersla þeirra á stundargróða, og algjört siðleysi þar að baki, hafa valdið tugmilljónum ótímabæra andláta til dæmis hjá fátækum íbúum Afríku, svo dæmi sé tekin.  Og þessir sjóðir eru drifkrafturinn í öllu því versta í vestrænu efnahagskerfi, í stefnu sem hefur komið heiminum á heljarþröm með skammsýni sinni og siðblindri gróðafíkn.

Bara það að orða þann glæp að afhenda eigur almennings þessum glæpamönnum, ætti eitt og sér að koma allri ríkisstjórn Íslands fyrir Landsdóm.

Og ríkisstjórn sem hefur það að yfirlýstu markmiði að gera slæma skuldastöðu þjóðarbúsins óviðráðanlega, og gerir það með eins litlum þingmeirihluta og hægt er, er ríkisstjórn sem vinnur viljandi og vísvitandi Landráð.

Hún er bæði að fremja skilgreindan glæp, og hún er að fremja hann með fullu viti.  Engar þær þvinganir eru sjáanlegar, engin herskip eða flugvélar óvinaþjóða okkar, sem neyða ríkisstjórn Íslands til að rústa efnahagslífi þjóðarinnar, og eyðileggja lífskjör almennings varanlega ef áform hennar um erlendar lántökur  og ríkisábyrgðina á ICEsave þjófnaðinum ganga eftir.

Árið 2007 var þjóðfélagið það firrt að það kaus flokk til að stjórna landinu, sem mælti því bót og sá ekkert athugavert við þjóðfélag græðgi þar sem einstaka menn höfðu hundruð milljóna á ári í tekur, og þar sem mjög fámenn klíka peningabraskara var búin að sölsa undir sig flest fyrirtæki landsins. 

En jafnvel í því ástandi firringar og veruleikaflótta, töldust 25 milljarðarnir sem áttu að fara í tónlistarhúsið vera miklir peningar.  Og það eru ennþá meiri peningar í dag þegar þjóðarauðurinn hefur skroppið saman og allstaðar blasa við skuldir.  

Samt koma menn fyrir Alþingi, án þess að vera handteknir og settir í spennutreyju eins og hverjir aðrir vitfirringar, og segja að árlegar vaxtagreiðslur upp á 35-40 milljarða vegna ICEsave ábyrgðarinnar séu peningar sem séu auðteknir út úr þjóðfélaginu, hinn væntanlegi mikli hagvöxtur myndi borga það.  Síðan eru aðrar eins vaxtagreiðslur af lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (auk fjandþjóða okkar), fjármálaráðuneytið hefur hækkað áætlað vaxtamat fyrir árið 2010 úr um 90 milljörðum í 162 milljarða.

Við erum að tala um 72 milljarða í vexti á næsta ári í erlendum gjaldeyri vegna hreinnar skemdarstarfsemi ríkisstjórnar Íslands á efnahagslífi landsins.  Og rökin fyrir þessum lántökum eru engin, ég kalla það ekki rök að segja að þetta sé nauðsynlegt skilyrði til að féspámenn geti aftur farið að fífla krónuna.

Þær röksemdarfærslur að væntanlegur hagvöxtur muni greiða þessa skuldir er rök fáráðsins, minna einna helst á hagtölur Hoxa  í kommúnistaríkinu Albaníu, þar sem árlegur hagvöxtur var 10-15% um langt árabil, en samt var asninn þarfast þjónninn.  

En Albanía var einræðisríki, og þjóðin var kúguð með hervaldi.  

Ísland er einræðisríki ef lítill minnihluti stjórnmálaelítu og fámenn klíka braskara getur komið slíkum skuldafjötrum á þjóð sína.  

Það þarf ekki alltaf her til að halda fólki niðri.  Stundum duga hlekkir hugarfarsins.  

Gangi ríkisstjórn Íslands laus eftir ICEsave svikin, þá eru Íslendingar þjóð í hlekkjum hugarfarsins.

Það eru þungbærustu hlekkir sem til eru.  

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Ráðherrar fyrir dóm?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þér sammála hér og þakka fyrir góða grein. Margt má segja slæmt um fyrrverandi ríkisstjórn, reyndar alltof margt, en hún gerði allan þann skandal frekar vegna heimsku heldur en af ásettu ráði. Því miður er núverandi ríkisstjórn ekki einungis heimskari.

Gunnar T. (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 15:20

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Gunnar.

Ég veit að margir vilja láta sverfa til stáls við fortíðina, en ég fer ekki ofan að því, að það þarf ásetning til að um glæp sé að ræða.

Ef það er ekki eitthvað sem við vitum ekki, en Styrmir veit, og ég reikna með að hann sé að skjóta á Samfylkingarráðherra, þó ég viti ekkert um það, þá er engin ástæða til lögformlega aðgerða.  

Mér persónulega dugar afsökunarbeiðni, mælt af einlægni og heilindum.  

En sá sem er endalaust að gera upp fortíðina, hann nær aldrei utan um nútíðina, og hefur engin áhrif á framtíðina.

Og það er framtíðarsýn núverandi ríkisstjórnar Íslands sem skelfir mig.

Og þjóðin þarf að verjast henni með öllum ráðum, þannig að þetta endi bara eins og ljót martröð, skelfileg á meðan hún yfirtekur draumana, en fjarlægur draumur þegar þjóðin vaknar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.11.2009 kl. 18:20

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þú ert dálítið á varhugaverðum línudansi Ómar. Ríkisstjórnin sem er núna er að hreinsa upp skítinn og drulluna eftir léttúð og kæruleysi fyrri ríkisstjórna. Þú mátt ekki blanda saman aðgerðaleysi fyrri ríkisstjórna sem höfðu í hendi sér að  koma í veg fyrir það sem gerðist og þeirrar ríkisstjórnar sem situr uppi með öll vandræðin.

Það er ábyggilega sitthvað að sitja í hásætinu þegar allt virðist vera í góðu lagi en himnarnir eru að hrynja.

Svo kemur ríkisstjórn rústabjörgunar og ætlar þú virkilega að kenna henni um það sem aflaga hefur farið?

Er það ekki að hengja bakara fyrir smið?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 18.11.2009 kl. 19:32

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðjón.

Það eina sem ég er sammála þér í er að ég stunda línudans, og alla þessa hluti mætti segja á annan hátt. 

En lestu pistil minn aftur og íhugaðu málið.

Ef stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins ætlaði að gefa amerískum vogunarsjóðum bankana okkar, í kjölfarið á annarri vinargjöf, og síðan bætti svo í skuldsetninguna að vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru áætlaðar 162 milljarðar á næsta ári, þá myndir þú og þínir á vinstrivæng stjórnmálanna segja ýmislegt.

Þið telduð jafnvel að ég væri orðvar.

Og þér til upplýsingar þá er ég vinstra megin við miðju í stjórnmálaskoðunum mínum, en munurinn á mér og ykkur stuðningsmönnum ICEsave stjórnarinnar, er sá að ég hef ekki skipt um skoðun.  Efnislega segi ég það sama og ég sagði til dæmis í lok árs 2008, og þá voru mjög margir úr röðum VinstriGrænna, og líka Samfylkingarfólk, sammála rökum mínum gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og óhæfu breta og Evrópusambandsins að krefja Ísland um stríðsskaðabætur vegna starfsemi íslenskra banka í Evrópu, sem nota bene var fullkomlega í samræmi við regluverk Evrópusambandsins, sem Evrópusambandi sjálft setti, ekki EFTA þjóðir, hvað þá Ísland.

Og ég trúi því ekki að þetta fólk hafi bara verið sammála mér vegna þess að ég var harðskeyttur úti í Sjálfstæðisflokkinn og frjálshyggjustefnu hans.

Ég hélt að málefni, ekki flokkar réðu afstöðu manna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.11.2009 kl. 20:12

5 identicon

Já, akkúrat Ómar, glæpurinn felst í að fremja voðaverkin með fullu viti og viljandi.  Það þarf að draga stjórnarflokkana fyrir landsdóm.  Ekkkert minna og hvern einasta mann sem samþykkir Icesave-kúgunina viljandi.  Vel skrifaður pistill sem oftar.

ElleE (IP-tala skráð) 19.11.2009 kl. 19:37

6 identicon

Og það er óþolandi að enn skuli fólk verja glæpinn.  Og með útskýringum um að þeir séu nú að moka gamlan skít.  Hvað var Samfylkingin lengi við stjórn, Mosi???  Og hvenær síðast?  Við stofnun Icesave, já.  Fyrir hverja eru þau þá  að moka?

ElleE (IP-tala skráð) 19.11.2009 kl. 19:44

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Elle.

Já, ég vandaði mig við þennan pistil, sá þar upplagðan flöt fyrir frekari rökstuðning á þeim sjónarmiðum sem ég hef lengi haldið á lofti, að ekkert í íslenskri stjórnskipan leyfir þennan gjörning sem ICEsave ábyrgðin er.  

Fyrir utan hina efnahagslegu heimsku líka.

Og þessi umræða er að kvikna, æ fleiri þungavigtarmenn þora að segja hlutina hreint út, grein Sigurðar Líndals eru vatnaskil hvað það varðar (Jón Valur er með tilvísun á hana í dag, ef þú hefur ekki þegar lesið hana).  Og ég er stoltur að kallinn yrkir sína Lilju með svipuðum bragarhætti og ég hef kveðið lengi á þessu bloggi.

Orð eru til alls fyrst Elle, og ef þú hefur kynnt þér blogg mitt aftur í tímann, þá sérðu hvernig ég hef alltaf hert mína gagnrýni, alltof nokkur skref á undan, eftir því sem umræðan sjálf hefur þróast.  Og lokatakmark mitt er að fá fólk til að lesa og samþykkja með sjálfu sér, að bretarnir réðust á landið 6 október í fyrra, og þeir sem taka undir málstað þeirra, hvað þá semja við þá eins og um siðaða þjóð er að ræða, þeir eru föðurlandssvikarar.  

Það skiptir ekki máli, þó föðurlandssvikin séu gerð undir nafni efnahagslegri skynsemi, og svo komi svo og svo miklar eignir á móti, grunnurinn af slíku tali er alltaf föðurlandssvik.  Þú semur ekki við þá sem ráðast á landið þitt, nema þeir aflétti árásum sínum og biðjist afsökunar.  

Þetta er grundvallarprinsipp þess að teljast sjálfstæð þjóð.  

Og þær þjóðir sem ekki skilja þetta prinsipp, þær eru ekki sjálfstæðar til lengdar, aðrir sterkari yfirtaka þær.

En hann Mosi er að íhuga sitt mál, vonandi til bóta.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 19.11.2009 kl. 20:01

8 identicon

Nei, Ómar, ég hafði ekki lesið síðasta pistil Sigurðar Líndal þegar þú skrifaðir svarið næst að ofan og sem ég las fyrst núna.  Þú getur vitað að ég les allt sem bæði þú og Jón skrifið þó ég geri það ekki endilega jafnóðum: Vil ekki missa af ykkar fínu skrifum.  En þið eruð oft svo hrikalega duglegir, eins og þú núna, að ég hef ekki við, er bara ekki svona fljót að lesa.  Smilie  Nú er ég að fara yfir alla misstu pistlana. 

ElleE (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 66
  • Sl. sólarhring: 748
  • Sl. viku: 5274
  • Frá upphafi: 1328087

Annað

  • Innlit í dag: 61
  • Innlit sl. viku: 4733
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 60

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband