Stöndum við skuldbindingar okkar í ICEsave ábyrgðinni.

Það gerum við á þrennan hátt.

1. Setjum neyðarlög þar sem kröfur innstæðueiganda eru settar í forgang.  Og þá meina ég kröfur allra innstæðueiganda, óháð því hvort þær falla undir innstæðuvernd eður ei.

Þetta hefur þegar verið gert og er það vel.

2. Fáum alþjóðlega aðstoð til að rekja þá peninga sem fjárglæframönnum var lánað og hafa síðan gufað upp.  Allt illa fengið fé á að skila sér aftur í þrotabúið og koma til útborgunar.  Engar lagaflækjur og endurskoðendaklækir eiga að koma í veg fyrir slíkt.

Skilanefnd Landsbankans er að reyna þetta en hefur ekki fengið neinn alþjóðlegan stuðning við fjárheimtur sínar.  Þarna hefur ríkisstjórn Íslands brugðist sínum skyldum.

3. Dugi þetta ekki til að greiða út allar innstæður að fullu, þá eiga íslensk stjórnvöld að leita eftir aðstoð ríkja EES til að fjármagna það sem upp á vantar.  Aðeins slík gjörð getur tryggt traust Evrópskra sparifjáreiganda á bankakerfi álfunnar.  Ef það er einn markaður þá er aðeins ein aðstoð.  Og Ísland er ekki Evrópa.

Í þessu grundvallaratriði hafa íslensk stjórnvöld brugðist.  Þau hafa ekki leitað eftir aðstoð Evrópska samfélagsins.  

 

Aðeins á þennan hátt, sem að framan er rakinn, stendur íslenska þjóðin við skuldbindingar sínar.  Atriði númer 2 og 3 eru augljós, en atriði númer 1 er umdeilanlegt og þá hvort um mismun á kröfuhöfum sé um að ræða.  En að láta innstæður njóta forgangs, hefur verið viðtekin venja í vestrænum ríkjum í áratugi og vonandi stenst sú ráðstöfun allar reglur og öll lög en það er dómstóla að skera úr um.  Og falli íslensku neyðarlögin þá reynir meira á lið 3, sameiginleg viðbrögð ríkja Evrópu.

Vissulega voru viðbrögð ríkja ESB á annan veg en ég lýsi í þrjú.  En fólk vill alltaf gleyma grunnforsendum málsins, sem er hinn sameiginlegi markaður EES.  Einn markaður þýðir aðeins ein viðbrögð.  Galli regluverks ESB um innlánstryggingar var vissulega sá að gera ekki ráð fyrir einum innlánstryggingasjóð en þegar reynir á galla, þá á að bregðast við þeim.  

Og þau viðbrögð eiga að vera í samræmi við tilefni málsins og eftir þeim reglum og lögum sem gilda.  Misvitrir menn áttuðu sig ekki á þessari grunnstaðreynd, haustið 2008.  Viðbrögð ESB voru í anda þeirrar sundrungar og fjandskapar sem ríkti í álfunni til skamms tíma.  En ESB var einmitt stofnað því menn sögðu eftir hörmungar seinna stríðs, ekki meir, ekki meir

Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor og formaður samtaka Evrópska kvenlögfræðinga, skrifaði mjög góða grein í Fréttablaðið þann 20. júní síðastliðinn.  Þessi grein á að vera skyldulesning öllum þeim sem tjá sig um ICEsave deiluna.  Og Herdís útskýrir svo vel í grein sinni í hverju rangindi misvitra manna innan Evrópusambandsins voru fólgin.  Því þessi viðbrögð vega að rótum sjálfs bandalagsins.  Engin örþjóð, þó út í ballarhafi sé, getur gert eitthvað sem réttlátir þá fórn að hugsjónum bandalagsins sé fórnað.  Allar þær tugmilljónir sem létust í seinna stríði ættu að vera þjóðum Evrópu stöðug áminning hvað "hitt" þýðir.  En gefum Herdísi orðið:

Íslenska ríkið hafði gengið til samstarfs við aðrar Evrópuþjóðir með undirritun EES-samningsins 1993, sannfært um að evrópskt efnahagssvæði myndi stuðla að uppbyggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda eins og segir í inngangsorðum samningsins. Þar áréttuðu þessi ríki náin samskipti sín, sameigin­legt gildismat frá fornu fari og evrópska samkennd.

Bretar og Hollendingar eru stofnaðilar að Evrópuráðinu og ásamt Íslendingum í hópi fyrstu Evrópuþjóðanna til að undirrita Mannréttindasáttmála Evrópu 1950. Á rústum síðari heimsstyrjaldarinnar strengdu þessar þjóðir heit um að virða mannréttindi, lýðræði og réttarríki.

Þegar lagður var grunnurinn að stofnun Evrópuráðsins 1949 sagði Winston Churchill forsætisráðherra Breta að þessi ríki hefðu ekki tekið höndum saman gegn öðrum kynþáttum eða þjóðum heldur gegn kúgun og harðstjórn sem birtist í alls konar dulargervum. „Við verðum að hefja okkur yfir hömlulausar, eigingjarnar hvatir sem hafa sundrað þjóðum Evrópu og breytt þeim í rústir," sagði hann. Nú sextíu árum síðar stöndum við andspænis tveimur voldugum þjóðum sem í bandalagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eru að gera atlögu að íslenskum almenningi, börnum okkar og framtíð. Þær krefjast þess að stjórnvöld geri samninga fyrir hönd barna okkar og barnabarna, samninga sem munu bera fámenna þjóð ofurliði. Bretar eru komnir langan veg frá þeim hugsjónum sem birtast í ræðu Churchills eftir stríð og minna má Hollendinga á óráðsíu og sífelld gjaldþrot Rembrandts. Sem betur fer voru skuldunautarnir ekki utanlands því þá hefðu meistaraverkin verið flutt úr landi.

Er það skylda okkar að greiða fyrir þessa reikninga? Ef svarið er afdráttarlaust já hví hræðast þessar þjóðir dómstólaleiðina eða alþjóðlegan gerðardóm? Hví ganga þessar þjóðir á skjön við þann grunn, sem Evrópusambandið byggir tilverurétt sinn á sem eru hin sameiginlegu gildi Evrópu? Ef þær gera það þá liðast Evrópusambandið í sundur. Evrópusambandið með sinn innri markað og markmið um hagsæld hefur staðfest með breytingum á Rómarsáttmálanum að virðing fyrir grundvallarréttindum er forsenda fyrir því að annað gangi, líka fjármálamarkaðir. Bandalag var lykilorðið í stofnun Evrópubandalagsins.

Minni á orð Roberts Schumans, eins af stofnendum Evrópuráðsins og kola- og stálbandalagsins, forvera Evrópubandalagsins, manns sem skildi út á hvað evrópsk samvinna ætti að ganga, ekki út á „hernaðarbandalag og ekki aðeins út á efnahagslegu einingu heldur fyrst og fremst út á hið siðmenntaða bandalag í víðtækasta skilningi þess orðs." Forystumenn Evrópuríkja sem nota eða nýta sér tengsl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að kúga fámenna þjóð eru komnir svo langt frá þeim stórhuga mönnum sem stofnuðu Evrópuráðið, þeirri siðmenntuðu hugsun sem þar réði för, að þeir eiga meira sameiginlegt með rústunum en hugmyndinni um réttar­ríkið og virðingu fyrir mannréttindum. Sú leið sem hér hefur verið farin sýnir að fleira hefur skemmst í alþjóðavæðingu viðskipta en fjárhagslegir hagsmunir. Forystumenn þessara þjóða eru að koma fram við íslensku þjóðina af fádæma óvirðingu.

 

Snilld orða Herdísar fellst í sannindum þeirra. Verði ICEsave nauðungin samþykkt, þá eru sjálfar grunnforsendur núverandi siðmenningar Evrópu brostnar.

Og sagan segir að slíkt endar alltaf sem dauðans alvara.

Þetta mættu allir foreldrar og allir afar og ömmur hafa í huga.

Siðmenningin er forsenda bjartrar framtíðar barna þeirra. 

Og framtíð barna okkar er einnar Hungurvöku virði.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 9
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 2649
  • Frá upphafi: 1412707

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 2313
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband