Hver er þá vandinn????

Ef enginn réttbær dómstóll innan EFTA/ESB getur dæmt um lögmæti íslensku laganna um Tryggingasjóð innlána, þá standa  íslensku lögin.

Og í íslensku lögunum segir að Tryggingasjóður innlána er sjálfseignastofnun.  Stofnandi sjálfseignarstofnunar ber ekki bakábyrgð á skuldbindingum hennar nema um það sé getið í samþykktum hennar eða þeim lögum sem um hana gilda.

Og í íslensku lögunum er slík bakábyrgð ekki veitt og er það gert í samræmi við tilskipun ESB um innlánstryggingar.

Mér finnst ótrúlegt að ekki sé hægt að fjalla um svona grundvallarmál innan stofnana EES en ef þetta er rétt mat hjá lögfræðingunum þá er ljóst að þeir aðilar sem hafa eitthvað að kvarta yfir íslensku lögunum eða vilja að íslenska ríkið borgi það sem upp á vantar í sjóðinn, að þeir aðilar verða að höfða mál fyrir íslenskum dómstólum.

Og fá dóm í málinu.

Samkvæmt þessu er það deginum ljósara að ef Samfylkingin er svona æst að borga annarra skuldir með peningum ríkisins, þá verður hún fyrst eða ráðherrar hennar að höfða slíkt mál því það er ekki hægt eftir einhverri geðþóttaákvörðun að lána gjaldþrota sjóð fé, jafnvel þó tilgangurinn sé mjög göfugur.  Að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.

Samfylkingin á ekki þessa peninga heldur íslenska þjóðin.  Og þó Lúðvík 14, sólkonungur hafi sagt að "ríkið það er ég" þá getur Samfylkingin ekki sagt "þjóðin það er ég".

Kannski er málið ekki alveg svona einfalt.  ESB er óstarfhætt ef það getur ekki tekist á við ágreining um grundvallarmál.  En við megum aldrei gleyma því að það eru aðrir sem eru að klaga og hóta.

Okkar lög eru skýr.  Og íslensk lög gilda á Íslandi.  

Jafnvel þó það finnist fólk í áhrifastöðum, sem dreymir um annað.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Kannað var hver gæti úrskurðað í Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Standa íslensku lögin segirðu.  En ef ágreingur er um það þá þarf að vera dómstóll sem unnt er að láta skera úr ágreiningi.  Þar liggur vandinn. 

Þetta mál snýst engann veginn um að hafa fá af íslensku þjóðinni eða neitt slíkt. Þetta snýst um að halda áfram að endurreisa íslenskt samfélag.  Ýmis endurfjármögnun okkar byggir á að þetta mál leysist.  Það hljóta allir að vita sem eitthvað fylgjast með.

Jón Halldór Guðmundsson, 25.6.2009 kl. 08:41

2 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Þetta var stutt pása Ómar.

Sem er bara gott mál.  Þú ættir ekki að taka þér pásu fyrr en í næstu viku hið fyrsta.

Axel Þór Kolbeinsson, 25.6.2009 kl. 08:51

3 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Það kemur fram í fréttinni að Bretar verða að samþykkja að fara dómstólaleiðina. Þeir hafa alfarið hafnað því. Það er þessi samningur eða við verðum útskúfuð meðal siðaðra þjóða. Því miður eru ekki fleiri kostir í stöðunni.

Sigurður Haukur Gíslason, 25.6.2009 kl. 09:49

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Axel.

Fyrivarinn var alltaf tengdur stríðnispúkanum.  Og fréttin bauð upp á þetta. 

En sjáum til hvað setur.  

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 09:50

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón og blessaður Sigurður.

Takk fyrir innlitið.  Þar sem þið takið sama pólinn þá ætla ég að spyrða ykkur saman í svari mínum

Já íslensku lögin standast samkvæmt íslenskum rétti.  Ef ESB og EFTA kunna engin ráð (sem ég dreg mjög í efa og sá efi kemur skýrt fram hjá mér, bæði hér og í fyrri bloggum þar sem ég bendi á þau ákvæði EES samningsins sem taka á ágreiningi) til að leysa lagaágreining þá er það augljóst mál að kvörtunaraðili þarf að sækja mál sitt á Íslandi.  Að frátalinni Samfylkingunni, þá er íslenska þjóðin ekki að bjóðast til að borga þessa peninga en bretar og Hollendingar að standa í veginum.  Ef svo væri þá þyrftum við að höfða mál í þeim löndum til að fá að borga.

En ef bretar neita að fara dómstóla  leiðina, hvað þá?  Nú þá borgar íslenski tryggingarsjóðurinn eftir þeim reglum sem honum voru settar.  Og ef einhver vill lána honum, þá er það gott mál en íslenska ríkið má það ekki því hann mun aldrei geta greitt lánið til baka.  Hinsvegar geta Borgunarsinnar hvenær sem er selt eigur sínar og stutt þennan sjóð svo hann geti greitt hærri upphæðir, en þeir hafa engan lagalegan rétt til að  láta aldraða og öryrkja, og öll hin breiðu bök þjóðfélagsins greiða fyrir sig. 

Það þykja ekki góðir mannasiðir að hrópa yfir barinn, ég býð öllum einn umgang og hlaupa síðan út, en barþjónninn situr uppi með kostnaðinn.

Jón, þú talar um endurreisn íslensks samfélags.  Það er skrítin latína sem þú hefur lært að halda að samningur sem gerir íslensku þjóðina gjaldþrota, og eigur hennar aðfarahæfar, sé liður í  endurreisn.  Og gjaldþrota þjóð fær ekki endurfjármögnun.  Ekki mín orð heldur hafa mætir fræðimenn eins og Michael Hudsson bent á þessa einföldu staðreynd, að þá fyrst erum við í skítnum ef við skuldsetjum þjóðina fram yfir greiðslugetu hennar.  Og gættu að því áður en þú hæðist að Hudsson að hann á fleiri tilvísanir í Google en allir íslensku dverghagfræðingarnir, sem telja það endurreisn að gera þjóðina að ölmusufólk fyrst, eiga samanlagt.

Og Sigurður, þú talar um útskúfun meðal siðaðra þjóða.  Þér finnst það sem sagt siðsemi að ráðast á dvergþjóð í vandræðum hennar og keyra hana í þrot.  Og nota til þess meðul sem hafa ekki sést í Evrópu í rúm 60 ár.  Kúgun og hótanir eru ekki leið siðaðra þjóða til að leysa ágreining.  Það eitt er víst.

Og ef niðurstaða þess, að við stöndum á rétti okkar samkvæmt EES samningnum, samkvæmt alþjóðalögum og samkvæmt þeim helga neyðarrétti sem öllum er gefinn, að fá mál sitt metið af réttbærum dómstól, er sú að ráðamenn þjóðarinnar verði að halda sig heima við og vinna í stað þess að vera í kokteilboðum með villimönnum, því hegðun breta er barbarismi, þá er það gott mál.  

Verkefnin eru ærin og það vantar vinnandi hendur á Íslandi.

Og það er ekki valkostur, nema fyrir sjúkan mann, að sjá aðeins reipi eða byssu, lífið er valkostur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 10:17

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir pistilinn. Ég á mjög erfitt með að skilja þessa þrá samfylkingar eftir að fá að kúra í faðmi þeirra sem hafa misþyrmt þeim.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.6.2009 kl. 11:11

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það er eitt, sem gleymist hjá þeim, sem tala gegn þessum samningi og segja að við eigum bara að láta erlenda innistæðueigendum fá það, sem fæst út úr þrotabúinu og tryggingasjóði innistæðueigenda. Það er sú staðreynd að þegar ákveðið var með lögum frá Alþingi að greiða öllum íslenskum innistæðueigendum í topp þá var sá peningur, sem í það fór tekin úr þrotabúinu. Því er það ekkert annað en þjófnaður úr þrotabúi ef við íslendingar greiðum það ekki til baka inn í þrotabúið um leið og við ákveðum að láta erlenda innistæðueigendur einungis fá það, sem þaðan fæst og út tryggingasjóðnum.

Það er hægt að sýna þetta með einföldu dæmi.

Bankinn er með þrjá viðskiptavini, einn íslending og tvo erlenda viðskiptaviðni. Þeir eiga allir 12 milljónir hver inni í bankanum eða samtals 36 milljónir. Nú fer bankinn í þrot og út úr þrotabúini og tryggingasjóði innistæðueigenda fást 18 milljónir eða, sem nemur helmingi innistæðananna.

Ef allir innistæðueigendurnir eru látnir sitja við sama borð þá fá þeir 6 milljónir hver til baka. Það gerist hins vegar ekki vegna þess að Alþingi íslendinga ákvað að íslenski innistæðueigandinn skyldi fá allt sitt. Hann fær því sínar 12 milljónir og þá eru aðeins eftir 6 milljónir fyrir báða útlendingana og fá þeir því 3 milljónir hvor eða helmingi minna en þeir hefðu fengið væru þeir látnir sitja við sama borð og íslenski innistæðueigandinn.

Þar að auki er borin von að íslenskir dómstólar myndu samþykkja þennan þjófnað úr þrotabúinu ef málið myndi enda fyrir þeim. Það mun aldrei standast fyrir íslenskum dómstólum að taka fé af sumum innistæðueigendum til að greiða öðrum í topp.

Ef við látum þetta fara svona eins og margir vilja láta gera þá er þetta ekkert annað en þjófnaður úr þrotabúi. Þarna er íslenska innistæðueigandanum gefnar 6 milljónir og það fjármagnað með þjófnaði frá erlendu innistæðueigendunum. Ef Alþingi ákveður að gera þetta þá gera þeir okkur íslendinga, sem þjóð að ómerkilegum þjófum. Það er þess vegna, sem við þurfum að klára þetta mál til að geta enn talist til siðaðra þjóða veraldar.

Sigurður M Grétarsson, 25.6.2009 kl. 11:27

8 Smámynd: Elfur Logadóttir

Icesave málið snýst ekki um að það vanti dóm á lögmæti íslensku laganna. Málið snýst um túlkun á ákvæðum tilskipunarninnar um ábyrgð íslenska ríkisins á því sem sett var á stofn með íslensku lögunum. Þetta er þjóðréttarágreiningur, ekki landsréttarágreiningur, og þar af leiðandi skipta íslensku lögin engu máli í þessu deiluefni. Röksemdarfærslan um að höfða eigi málið fyrir íslenskum dómstólum eftir íslenskum lögum gildir þar af leiðandi ekki.

Ef málið snerist einvörðungu um lögmæti íslensku laganna þá mætti afgreiða það mál fyrir EFTA dómstólnum. ESA gæti þannig höfðað mál gegn Íslandi fyrir óeðlilega innleiðingu tilskipunar, ef það er það sem þú átt við með "lögmæti íslensku laganna".

Þess vegna er það ekki heldur þannig að ESB sé óstarfhæft þó svo það geti ekki "tekist á við ágreining um grundvallarmál" þar sem vettvangurinn er EES en ekki ESB. Ef við værum innan ESB þá væri þetta ekkert vandamál og Icesave klúðrið hefði aldrei orðið með þessum hætti hefðum við verið komin inn í ESB fyrir nokkrum árum síðan.

Ég veit að þú hefur yfirlýstan tilgang þinn með þessu bloggi að vera með áróður gegn Icesave skuldbindingum og gegn ESB aðildaráhuga Samfylkingarinnar og þú hefur sjálfur sagt að þú viljir og munir beita hvaða aðferðum sem er í þeim áróðri þínum ... en þú verður samt að færa rök fyrir máli þínu sem halda, ekki setja saman setningar úr forsendum og fullyrðingum sem ganga ekki upp frá lögfræðilegum sjónarmiðum :)

Elfur Logadóttir, 25.6.2009 kl. 11:44

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurður.

Mikið sammála þér að neyðarlögin eru á mörkum þess að vera siðleg.  En þannig séð er það löglegt samkvæmt þjóðarrétti að vernda fjármálastarfsemi innanlands, en þjófnaður er það ekki.  Ef hægt er að skipta út innlenda hlutanum, með eignum og skuldum, þá standast þessi lög samkvæmt alþjóðarétti, en hví ætti breskur dómstóll að taka tillit til þess????

Falli neyðarlögin þá getum við ekki ráðstafað eigum Landsbankans í Bretlandi til greiðslu ICEsave.

Þ'u segir að þau falli.  Hversvegna í ands. viltu þá samþykkja núverandi ICEsave samkomulag?  Eina réttlæting þeirra er sú fullyrðing að eignir Landsbankans komi á móti.  Ég trúi því ekki að þú sért einn af þeim sem skrifi upp á hvaða skuldbindingu sem er, án þess að ætla að borga hana. 

Og standist ekki neyðarlögin þá er ljóst að Alþingi þarf að setja ný lög sem standast.  En neyðarlögin breyta ekki ábyrgð íslensku þjóðarinnar, hún er ekki til staðar í þessu máli.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 11:53

10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ómar. Það er ekki löglegt samkvæmt neinum rétti, hvorki þjóðarrétti né öðrum að taka fé frá innistæðueigendum í erlendum útibúum Landsbankans til að greiða innistæðueigendum í íslenskum útibúum í topp. Það er þjófnaður hvernig, sem á það er litið og það er því hvergi löglegt.

Ef við færum út í það að skipta upp íslenska hlutanum og erlenda hlutanum þá yrðum við að gera það þannig að hlutfall milli eigna og skulda væri það sama í báðum hlutunum. Það stenst hvorki lög né siðgæði að láta eignir mæta skuldum að fullu á íslenska hlutanum og láta þannig allan mismunin á milli eigna og skulda falla á erlenda hlutann.

Hvað varðar væntanlegar málshöfðanir til að fá neyðarlögunum hnekkt þá snúast þær ekki um innistæðurnar í bönkunum heldur um aðrar kröfur í bankana, sem voru settar aftan við innistæður í forgangsröð eftir að ljóst var að raunveruleg hætta var á að bankarnir færu í þrot. Þó bankarnir hafi ekki verið formlega komnir í þrot þegar neyðarlögun voru sett þá var þegar orðið nokkuð ljóst hvert stefndi og því vilja eigendur þessara krafna meina að þarna hafi forgangi krafna í raun verið breytt eftirá. Slíkt stenst ekki.

Verði fallist á kröfur þessara aðila fyrir dómi þá fer mun lægra hlutfall inneinga Landsbankans til greiðslu Icesave heldur en verði slíkt ekki gert því þá verða þær kröfum íslenska ríkisins í þrotabúið jafnréttháar öðrum kröfum í það. Það er hins vegar skellur, sem við fáum hvort eð er óháð því hvort við skrifum undir Icesave samkomulagið eða ekki vegna þess að þá ber íslenska ríkið bótaábyrgð gagnvart þessum kröfuhöfum fyrir að hafa með ólögmætum hætti sett kröfur þeirra aftar í forgangsröðina en hún var fyrir.

Þú segir að neyðarlögin breyti ekki ábyrgð íslensku þjóðarinnar en þá er því til að svara að ef neyðarlögin falla fyrir dómi þá ber íslenska ríkið ábyrgð á því að hafa greitt innistæðueigendum í íslenskum útibúum bankanna að fullu og að hafa fjármagnað það með fé úr þrotabúinu. Þá ber íslenska ríkið einnig kostnaðinn af því að hafa látið erlenda innistæðueigendur fara framar í forgang úr þrotabúinu án þess að hafa til þess heimild. Með öðrum orðum þá þarf íslenska ríkið að greiða öðrum kröfuhöfum tap þeirra af því að hafa með ólögmætum hættis sett þá aftar í forgangsröðina en þeir voru fyrir. Þá þarf íslenska ríkið að greiða þeim mismunin á því, sem þeir hefðu fengið úr þrotabúinu ef þeir hefðu verið látnir sitja við sama borð og innistæðueigendur og því, sem þeir fengu úr þrotabúinu eftir að forgangsröðinni hafði verið breytt með ólögmætum hætti.

Sigurður M Grétarsson, 25.6.2009 kl. 12:16

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurður.

Mikið sammála þér með þetta:

Það er ekki löglegt samkvæmt neinum rétti, hvorki þjóðarrétti né öðrum að taka fé frá innistæðueigendum í erlendum útibúum Landsbankans til að greiða innistæðueigendum í íslenskum útibúum í topp. Það er þjófnaður hvernig, sem á það er litið og það er því hvergi löglegt.

Hárrétt og  þetta er það sem íslensk stjórnvöld sögðust ekki vera gera með neyðarlögunum.  Og þú verður að athuga, að ef rétt er, þá skerðir þetta ekki bara rétt innistæðueiganda, heldur líka annarra kröfuhafa.  Og þar sem dómstóllinn er breskur sem mun skera úr um, þá er það vísdómur í ætt við fáráð að fullyrða að eignir komi á móti ICEsave ábyrgðunum. 

Gott hjá þér að hamra á þessu en ég hélt að ég hefði samsinnt þessu í síðasta innslagi.

En þegar þú segir að skellurinn sé sá sami þá er það mjög óljóst.  Ef neyðarlögin verða dæmd ógild þá falla þau niður og hugsanleg bótakrafa getur aldrei verið hærri en sem nemur því tjóni sem kröfuhafi varð fyrir vegna gjörða íslenska ríkisins.  Og ennþá hefur ekkert tjón orðið af hálfu Íslendinga en bretar gerðu hinsvegar mikinn skurk með hryðjuverkalögum sínum

Eða með öðrum orðum þá ert þú að gefa þér ranga forsendu þegar þú segir að þetta komi á sama stað niður.  Og ég hreinlega skil ekki þessi rökafglöp þín, því þú færir mjög góð og gild rök fyrir að neyðarlögin eru vafasöm í meira lagi.  Og eina eðlilega ályktun þinna raka er sú að það eru fáráð að vitna í hugsanlegar eigur Landsbankans sem mótvægi  og það er rökvilla hjá þér að íslenska ríkið fái skaðabótakröfur upp á sömu upphæð.  

Og síðasta málsgrein þín er ein allsherjar rökfærsla fyrir því hvað gerist ef við semjum um ICEsave á þeim forsendum að hirða eigur Landsbankans upp í þá kröfur sem okkur eru þóknanlegar.  En ennþá hefur það ekki verið gert.  

Og hvað varðar að íslenska ríkið hafi greitt út innlán að fullu þá er mér ekki kunnugt að það hafi verið gert.  Íslenska ríkið gaf út einhverja viljayfirlýsingu og síðan stofnaði að nýja banka sem áttu að halda um íslenska fjármálakerfið.  Það er fullkomlega heimilt samkvæmt alþjóðarétti en vinnubrögðin þurfa að vera í samræmi við það sem þú segir.  Sjálfur hef ég oft og mörgum sinum bent á það sama.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 12:52

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Jakobína.

Já, masókisminn er útbreiddari en maður gerir sér grein fyrir.

Kveðja að austan

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 13:03

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elfur.

Þú ert skemmtileg núna, og jarðar við að vera heilög í vandlætingu þinni.  Og mér þykir það elja hjá þér að skrönglast í gegnum 39 athugasemdir við minn saklausa pistil í gær til að uppgötva að ég er í áróðursstríði, en svo við höldum öllu til haga þá er hinn skotspónn minn Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, ekki "ESB áhugi Samfylkingarinnar".  Ef mér verður á að setja út á ESB drauminn, þá er það vegna áhuga Samfylkingarinnar á að setja þjóðina á hausinn í ICEsave deilunni og tengingin er klár illkvittni, játa það.

Þá er það áhyggjur þínar af rökleysu minni.  Takk fyrir hana, umhyggja er alltaf vel þegin.  Ég vona að þú virðir mér það til vorkunnar að stuttur pistill getur ekki innihaldið nákvæma lögfræði en hann má vonandi innihalda skoðanir.  Til þess er ég jú að dunda mér við þetta blogg, að tjá skoðanir.  En ég er með opið fyrir athugasemdir og gef mér tíma eftir bestu getu að skiptast á skoðunum við fólk.

Og ég er læs, skil til dæmis ekki eftir hluta úr setningum til að ljá þeim aðra merkingu, hvað þá að ég skilji eftir hluta af pistli til að ljá viðmælanda mínum aðra skoðun.

Ef þú hefur lesið tenginguna þá er ég að vísa í frétt þar sem áróðursdeild Morgunblaðsins, fékk þá snilldarhugdettu að endursegja gamla frétt frá því í haust um lögfræðiálit nafnkunnra lögfræðinga sem telja að dómstólinn vanti til að dæma um ágreining af þessu tagi. 

Af því tilefni spyr ég hver er vandinn.  Og rökstyð þá skoðun.  Ef EES samningurinn er svo gallaður, sem ég dreg stórlega í efa, að það sé ekki hægt að fjalla um grundvallar ágreiningsmál , sem er eins og þú réttilega segir "Þetta er þjóðréttarágreiningur, ekki landsréttarágreiningur", þá gilda auðvita þau lög sem í gildi eru um málið.  Og varnarþing þeirra laga er á Íslandi.  Það erum ekki við sem erum að kvarta.

Í máli mínu hér að ofan blasir við að ég er að tala um EES samninginn og þú ert nú frekar leiðinleg að hengja mig fyrir mitt tímahrak þegar ég í síðustu setningunni sló inn B í stað S.  En hvað um það.

Það eru skýr ákvæði í EES samningnum hvernig á að takast á um ágreining (að mínum dómi) og ég er búinn að peista þau svo oft að ég nenni því ekki lengur.  En kjósi menn að hengja sig við einhverja hundaþúfuna og þykjast ekki sjá réttarfarsleiðirnar, þá þeir um það.

Á meðan ríkir réttaróvissa um EES samninginn, en sú óvissa er ekki til staðar í þeim lögum sem Tryggingarsjóður innlána starfar eftir.

Hafir þú einhverjar athugasemdir við þá fullyrðingu mína Elfur, þá skaltu rökstyðja þær athugasemdir, því ekki er ég lögfræðingurinn.  Þú verður þá að segja mér hvaða athugasemdir ESB/EFTA gerðu við þessi lög, innan hvaða tímamarka þær komu, hvernig íslensk stjórnvöld brugðust við þeim athugasemdum, og síðan hver endaleg afgreiðsla ESA/EFTA dómstólsins var á viðbrögðum íslenskra stjórnvalda.  Við megum aldrei gleyma því að EES samningurinn bannar að lög aðildarríkja gangi gegn tilskipunum ESB, eða uppfylli þær aðeins að hluta.  Og ESA og EFTA dómstóllinn gegna því hlutverki að takast á við slík brot.

En umhyggja er alltaf vel þeginn.

Kveðja að austan

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 13:53

14 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Flottur Ómar. Stórmerkilegt hve margir vilja taka á sig þá ábyrgð að standa að baki bankakerfi Evrópu. Íslendingar eru greinilega góðir bakhjarlar þannig að orðspor okkar erlendis hefur greinilega engan hnekki beðið.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 25.6.2009 kl. 17:18

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Arinbjörn.

Það er þá einhver sem kann að meta staðleysur mínar og "áróður".  

Já, erum við ekki öll, meira eða minna komin af Skallagrími Kveldúlfssyni?  Var hann ekki af tröllaættum??? Það hljóta því að vera sterk í okkur beinin.  Og bakið, sérstaklega hjá "breiðu bökunum".

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 17:39

16 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól. Þessu hafa aðildarríki Evrópusambandsins alfarið hafnað. Afstaða þeirra byggist ekki síst á því að þau telja það mjög varhugavert að gefa með einhverjum hætti til kynna að vafi kunni að leika á um gildissvið þess innlánstryggingakerfis sem liggur til grundvallar innlánastarfsemi í Evrópu, þar sem ótvírætt gildi tilskipunarinnar sé forsenda þess að innstæðueigendur treysti bönkum fyrir sparifé sínu. Réttaróvissa kynni að valda ófyrirséðum afleiðingum í evrópsku bankakerfi.

Kveðja úr Kópavoginum

Sigurður Haukur Gíslason, 25.6.2009 kl. 18:29

17 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Blessaður Sigurður sem og aðrir borgunarsinnar. Ég og mín fjölskylda tókum aldrei lán í London eða Amsterdam. Vissum ekki einu sinni af þessu icesave dæmi fyrr en í haust. Hvernig er þá hægt að gera mig og mína ásamt 300 þúsund öðrum íslendingum ábyrga fyrir viðskiptum einkabanka í London og Amsterdam? Hvernig í veröldinni getur samfylkingin, VG, ESB, AGS, og fleiri sk vinaþjóðir ímyndað sér að 300 þúsund manns geti staðið á bak við slíkar drápsklyfjar? Innlánstryggingakerfi það sem ESB skipaði að yrði komið á fót í ESB og EES var og er hugsað til þess að grípa inní ef einn, nb, einn banki lendir í erfiðleikum, það var ekki og taktu eftir EKKI hugsað til þess að standa undir alsherjar hruni fjármálakerfis einnar þjóðar, jafnvel bretar og hollendingar gætu ekki staðið undir slíku. Svo bendi ég að rök Ómars hvað dómstólaleiðina varðar, það er engu við hana að bæta.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 25.6.2009 kl. 19:59

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurður.

Já, vissulega stóð hnífurinn þar í kúnni, en það var í vitlausri kú.  Það sem okkar ágætu ráðamenn gleymdu var að krafan um dómsúrskurð átti og á að koma frá þeim sem eru ósáttir.

En stjórnvöld voru í nauðvörn, síðastliðið haust og brugðust svona við.  

En nauðvörnin er ekki til staðar í dag.  Greiðslukerfið er komið í gang og líka er ljóst að við höfum ekkert við frekari lán að gera.  Eigum nóg með það sem við höfum tekið síðustu árin.  Og genginu verður ekki fleytt í bráð, sama hvað Vilhjálmur óskar þess heitt.  Vilji menn fljótandi gengi, þá göngum við inní gjaldmiðlabandalag sem er nógu öflugt til að þola áhlaup spákaupmennskunnar, það er staðreynd, sama hvað menn loka augunum fyrir henni.

Þannig að hvað er í húfi???  Lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins???? Ef við notum það þá getum við ekki greitt það til baka, og þar með verðum ofurseld frjálshyggju sjóðsins.  Ef þeir fara í fýlu, þá er það enginn skaði, nema að Svíanum sem er aðstoða stjórnvöld við endurskipulagningu bankakerfisins.  En á móti kemur siðlegt vaxtastig.

En ein sterkustu rökin gegn núverandi ICEsave samkomulagi komu í innslögum þínum hér að framan.  Mér fannst það hæpið, en núna er ég dauðhræddur um að neyðarlögin haldi ekki eins og málin hafa þróast.  Og þá er ICEsave skuldbindingin allt að 1000 milljarðar með vöxtum.  Og þann gjaldeyrir eigum við ekki, nema menn vilji stjórnarhætti sem stundaðir voru í Rúmeníu á níunda áratugnum.  Svelta þjóðina svo hægt sé að standa í skilum með erlend lán.

En er það valkostur???

Kveðja að austan til ykkar í Kópavogi.  

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 20:05

19 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Af hverju er ég borgunarsinni? Ertu þú þá anarkisti Arinbjörn? Ég hef engan áhuga að borga þetta en ef það er samt betra heldur að enda í þjóðargjaldþroti þá er það á endanum hagkvæmara. Það væri því nær að kalla þá sem ekki vilja borga Icesave borgunarsinna.

Þó svo að þú hafir ekki vitað af Icesave þá vissi "ríkið" af því og það er því "ríkið" sem borgar.

Ég er drullufúll yfir því að lánið mitt á íbúðinni minni hefur snarhækkað uppá síðkastið. Það er ekki mér að kenna en samt þarf ég að borga af láninu. Ef ég geri það ekki þá hefur það enn verri afleiðingar til lengri tíma.

Og varðandi dómstólaleiðina bendi ég á þetta.

Sigurður Haukur Gíslason, 25.6.2009 kl. 20:10

20 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Þetta er kjarni málsins.  Það stendur ekkert innlánskerfi, og engin þjóð undir bakábyrgð á slíku kerfi ef til kerfishruns kemur.  

Borgunarsinnar gleyma líka einu þegar þeir snúa út úr skýrum lagatexta um að aðildarríki beri ekki á ábyrgð og það er sú einfalda staðreynd, að sama hvað sagt er um skriffinna ESB, þá eru þeir ekki hálfvitar.  Þeir segja það hreint út ef aðildarríki er í ábyrgð.  Og þá er ekki um tryggingu að ræða því til dæmis gætu sænskir bankar í skattahagræðingarskini fært höfuðstöðvar sínar (að nafninu til) til Lettlands og væri þá Lettland í ábyrgð fyrir sænska bankakerfið.  Eða þýskur banki í Lichenstein.  Þrjátíuþúsund manns í ábyrgð fyrir kannski 20 milljónir Þjóðverja.  Hvaða ábyrgð er það????'

Þá segja menn eins og Jón Baldvin að þá á að banna bönkum smáríkja að starfa í stærri ríkjum, en til hvers eru þau þá á markaðssvæðinu???? Ef fjórfrelsið gildir aðeins um stærri ríki?  Og hvar eru mörkin?  Pólland hefur ekki fjármuni til að ábyrgjast þýsk innlán þó er landið stórt, eða Slóvenía fyrir Austurríki.

Og hvað hefði Borgunarfólkið sagt ef Hrunið hefði átt sér stað í vor og ICEsave skuldin verið 2.500 milljarðar?  Nógu mikið átti að þenja kerfið út.

Það er ekki vitglóra í þessum lagaskilningi og það er einmitt þeirra höfuðrökvilla.  Innlánskerfið er rökrétt og reglugerðarmeistarar Evrópusambandsins eru ekki hálfvitar.  Þess vegna tóku þeir það skýrt fram að aðildarríki eru ekki í  bakábyrgð.

Og það er pólitík að gera ágreining um þann skilning.  

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 20:20

21 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur Sigurður.

Ætla ekki að blanda mér í umræðu þína við Arinbjörn.  Vil bara benda þér á að þetta "þetta" er fréttin sem upphaflega blogg mitt spratt af.  

Sé ekki rökin við að benda sífellt á rangar gjörðir ríkisstjórnar Geirs Harde.  Það er til lítils að gera stjórnarbyltingar ef ný stjórn er alltaf bundin af vitleysu þeirrar gömlu. 

Bendi þér bara aftur á það sem ég sagði við þig áðan:  Það sem okkar ágætu ráðamenn gleymdu var að krafan um dómsúrskurð átti og á að koma frá þeim sem eru ósáttir.  Og ég endurtek þá skoðun mína, sem þú til dæmis hefur sannfært mig ennþá betur um með ágætum rökum þínum um neyðarlögin, að Ísland verður fyrst gjaldþrota ef það semur um ICEsave.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 20:32

22 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Ef stefnir í gjaldþrot út af Icesave þá eru endurskoðunarákvæði í samningnum.

Að borga ekki er ávísun á þjóðargjaldþrot innan árs.

Sigurður Haukur Gíslason, 25.6.2009 kl. 20:51

23 identicon

Og... hvað með þetta?

Umræðan um efnisatriði svokallaðra Icesave samninga er farin einkennast af þeim ljóta leik að spila á ótta fólks og óöryggi með rangtúlkunum og villandi upplýsingum. Andstæðingar aðildarumsóknar til Evrópusambandins beita sér líka hart í því að blanda þessum samningi við umræðu um aðild þótt þessi mál séu með öllu ótengd og óskyld. Sjálfskipaðir sérfræðingar í alþjóðasamningum afhjúpa hver á fætur öðrum að þeir hafa aldrei séð lánasamning milli ríkja fyrr og skilja ekki efni þeirra. Vegna þessa er afar brýnt að sem flestir haldi á lofti réttum efnisatriðum málsins hvar sem því verður við komið. Þessi póstur er nokkuð ítarlegur enda margt sem fara þarf yfir:
 
 
Um afsal friðhelgi fullveldisréttar og íslenskar eigur að veði
 
Mikið veður hefur verið gert út af ákvæði um að Ísland afsali sér friðhelgi vegna fullveldisréttar og fullyrt að þar með geti bresk stjórnvöld gengið að hvaða eigum sem er. Staðreyndin er sú að svona ákvæði um "waiver of sovereign immunity" er regla í lánasamningum milli ríkja og tíðkast m.a. í öðrum lánasamningum sem Ísland hefur gert eða er að vinna að. Ástæðan er sú að þetta er eina leiðin sem lánveitandi hefur til að koma ágreiningi vegna endurgreiðslu fyrir dómstóla. Án þessa ákvæðis er lántökuríkið ónæmt og varið á bak við fullveldisrétt sinn og sá sem afhent hefur fjármuni á engin úrræði því eitt ríki dregur ekki annað ríki fyrir dóm nema með samþykki beggja aðila.
Sú fullyrðing að með þessu séu allar íslenskar eigur undir án takmarkana er sömuleiðis röng. Jafnvel þótt ákvæðið sjálft innihaldi ekki takmarkanir þá leiða þær bæði af alþjóðasáttmálum og íslenskum lögum og stjórnarskrá auk þess sem enginn dómstóll myndi gefa lánveitanda sjálfdæmi um eignir upp í skuld. Þá fylgja samningum gjarnan ítarlegra bréf eða fylgiskjal um friðhelgi.
 
 
Um lögsögu breskra dómstóla í málinu 

Venjan í alþjóðlegum lánasamningum hefur verið sú að miða við lögsögu lánveitanda eða þriðja ríkis og þá helst Bandaríkjanna eða Bretlands. Sem dæmi má taka að samkvæmt fréttum er gert ráð fyrir því að mál vegna lána hinna Norðurlandaþjóðanna verði rekin fyrir dómstólum hvers og eins þeirra. 


 
Um einhliða íþyngjandi ákvæði í samningnum 

Þessi túlkun er afar sérkennileg í ljósi þess að um lánasamning er að ræða þar sem skyldur annars aðilans eru afar einfaldar og felast í því að lána tiltekna upphæð. Samningurinn sem slíkur fjallar því óhjákvæmilega ítarlega um tvennt: Skyldur lántakanda við að endurgreiða og leiðir til að lánveitandi hafi úrræði til að fá endurgreitt. Þegar um er að ræða tvær fullvalda þjóðir er staðan í upphafi sú að lánveitandi sem hefur afhent öðru fullvalda ríki fjármuni er í mjög veikri stöðu til að sækja nokkurn rétt og getur t.d. ekki dregið ríki fyrir dómstóla. Vegna hins sterka fullveldisréttar eru ákvæði í lánasamningum milli ríkja yfirleitt afar ítarleg og lúta að því að skapa lánveitanda einhverja réttarstöðu. Skiljanlegt er að fólk sem ekki hefur almennt lesið alþjóðlega lánasamninga eða þekkir hefðbundið efni þeirra bregði við að sjá í fyrst sinn dæmigerðan samningstexta. Sérfræðingar í alþjóðarétti og alþjóðlegum lánsfjármörkuðum segja aftur á móti að ekkert í efni þessa samnings komi á óvart eða sé frábrugðið því sem almennt tíðkast. 


 
Um óhjákvæmileg áhrif á lánshæfismat Íslands
 
Matsfyrirtækin byggja ekki einkunnagjöf sína á einum samningi heldur mörgum þáttum svo ekkert er hægt að gefa sér um niðurstöðuna. Skuldbindingin vegna Icesave hefur einnig verið þekkt frá því bankarnir hrundu sl. haust og var m.a. inni í Viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Matsfyrirtækin hafa því þekkt þessa skuldbindingu.
Þau áföll sem íslenska ríkið hefur orðið fyrir hafa óhjákvæmilega haft slæm áhrif á lánshæfismat ríkisins. IceSave er þó einungis einn af nokkrum þáttum þar og raunar ekki sá sem vegur þyngst. Skuldasöfnun ríkisins vegna fyrirsjáanlegs fjárlagahalla áranna 2009-2012 hefur meiri áhrif. Einnig vegur tap ríkisins vegna lána Seðlabanka Íslands til íslenskra fjármálafyrirtækja þungt. En samningurinn við Breta og Hollendinga tryggir að íslenska ríkið þarf ekki að greiða neitt vegna IceSave á næstu sjö árum og að það sem þá stendur út af verður greitt á næstu átta árum þar á eftir. Þetta þýðir bæði að ekki reynir á lausafjárstöðu eða greiðsluhæfi ríkisins vegna IceSave á meðan mestu erfiðleikarnir í efnahagsmálum ganga yfir og að árleg greiðslubyrði verður fyrirsjáanlega vel innan þeirra marka sem ríkið ræður við.
Miklu skiptir að verið er að eyða óvissu sem hefur neikvæð áhrif á lánshæfismat. Samningarnir um IceSave eyða mikilli óvissu. Margt annað mun skýrast á næstu vikum, m.a. fæst niðurstaða í samninga við hin Norðurlöndin um lán, gengið verður frá skilunum á milli gamla og nýja bankakerfins, línur lagðar í fjármálum ríkisins til næstu ára og tekin ákvörðun um það hvort sótt verður um aðild að ESB. Langtímahorfur fyrir Ísland munu því skýrast mjög á næstunni. Það ætti að styrkja trú manna, bæði hér innanlands og utan, á íslensku efnahagslífi og m.a. skila sér í betra lánshæfismati þegar fram í sækir.
 
 
Um yfirvofandi gjaldþrot íslenska ríkisins vegna samningsins 

Ekkert gefur ástæðu til að ætla að íslenska ríkið komist í greiðsluþrot á næstu árum. Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lánin sem verið er að ganga frá í tengslum við þá áætlun tryggja íslenska ríkinu verulega sjóði á næstu árum, á meðan mestu erfiðleikarnir ganga yfir.
Skuldir íslenska ríkisins munu einungis í tiltölulega stuttan tíma fara yfir 100% af landsframleiðslu en verða þegar til lengdar lætur vel innan við landsframleiðslu eins árs. Skuldir íslenska ríkisins verða þá í lægri kantinum í samanburði við önnur Vesturlönd en skuldir flestra þeirra hafa vaxið talsvert undanfarið vegna aðgerða til að bjarga fjármálafyrirtækjum og munu fyrirsjáanlega halda áfram að vaxa á næstu árum vegna mikils fjárlagahalla.
Langtímahorfur í ríkisfjármálum eru ágætar, þótt óneitanlega þurfi að grípa til afar erfiðra aðgerða á næstu árum. Hér skiptir m.a. miklu að allar líkur eru á því að skattstofnar landsmanna jafni sig smám saman þegar mesti samdrátturinn gengur til baka. Þá er einnig mikilvægt að Íslendingar búa við nánast fullfjármagnað lífeyriskerfi, ólíkt flestum öðrum löndum. Það og hagstæð aldursskipting þjóðarinnar þýðir að ekki er útlit fyrir að íslenska ríkið verði fyrir verulegum útgjöldum vegna öldrunar þjóðarinnar, ólíkt flestum Vesturlöndum. Raunar er íslenska ríkið í þeirri öfundsverðu stöðu að eiga von á verulegum skatttekjum þegar greiðslur úr lífeyrissjóðum aukast á næstu áratugum. Það er allt önnur staða en uppi er í flestum nágrannaríkja okkar. 
 
 
Um viðurkenningu ábyrgðar vegna Icesave reikninganna
 
Sú fullyrðing að Íslendingar séu með þessum samningi að viðurkenna skuldbindingu sína vegna Icesave reikninganna er röng því  samkomulagið við Breta og Hollendinga snýst aðeins um uppgjör ábyrgðar íslenska ríkisins vegna lágmarkstryggingar innstæðna á ESS svæðinu. Þrátt fyrir að önnur sjónarmið hafi heyrst í umræðunni hér innanlands í kjölfar hruns bankanna hefur í reynd verið gengið út frá þessari ábyrgð frá upphafi í öllum áætlunum og yfirlýsingum íslenskra stjórnvalda:
Í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til framkvæmdastjórnar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins frá því í nóvember 2008 er gert ráð fyrir að áætluð fjármögnunarþörf íslenska ríkisins vegna lágmarksinnstæðutrygginga sé hluti af þeim lánum sem taka þarf. Þetta kemur m.a. fram í lið 12 í áætluninni og skýringum með honum. Á upplýsingavef forsætisráðuneytisins um áætlunina er þessi skilningur á fjármögnunarþörfinni ítrekaður í liðnum „spurt og svarað“ en þar segir m.a.: „Í lið 12 er því einnig gert ráð fyrir að inni í áætlaðri lánsfjárþörf ríkisins vegna bankakreppunnar séu lán til að mæta erlendum kostnaði við innstæðutryggingar í samræmi við ákvæði EES samningsins.“
Þessi liður í efnahagsáætluninni er í samræmi við þann ítrekaða skilning íslenskra stjórnvalda að ábyrgðir á sparifé á reikningum í útibúum íslensku bankanna takmarkist ekki við þá fjármuni sem til voru í Tryggingarsjóði innstæðueigenda heldur muni ríkissjóður þvert á móti styðja sjóðinn.
Í yfirlýsingu forsætisráðherra frá 8. október 2008 segir orðrétt: „Ríkisstjórnin ítrekar að ríkissjóður mun styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár.“
Í bréfi frá íslenska viðskiptaráðuneytinu til Clive Maxwell HM Treasury, dagsettu 20. ágúst 2008, segir orðrétt: „In the, in our view unlikely, event that the Board of Directors of the Depositors' and Investors' Guarantee Fund could not raise necessary funds on the financial markets, we would assure you that the Icelandic Government would do everything that any responsible government would do in such a situation, including assisting the Fund in raising the necessary funds, so that the Fund would be able to meet the minimum compensation limits.“
Þessi afstaða íslenskra stjórnvalda gagnvart Innstæðutryggingasjóði var svo enn ítrekuð í bréf viðskiptaráðuneytis til breska fjármálaráðuneytisins 5. október 2008. Þar segir m.a. orðrétt: „If needed the Icelandic Government will support the Depositors' and Investors' Guarantee Fund in raising the necessary funds, so that the Fund would be able to meet the minimum compensation limits in the event of a failure of Landsbanki and its UK branch.“
Í símtali fjármálaráðherra Íslands og Bretlands þann 7. október er þessi sami skilningur enn á ný staðfestur af Íslands hálfu og vísað í stuðning stjórnvalda við Innstæðutryggingasjóðinn, sbr. útskrift á samtalinu. Þar sagði fjármálaráðherra Íslands: „We have the [deposit] insurance fund according to the directive and how that works is explained in this letter [from Iceland's Trade Ministry to Britain's Treasury] and the pledge of support from the [Icelandic] Government to the fund.“
Þann 11. október 2008 gerðu íslensk stjórnvöld samkomulag við Hollendinga. Í tilkynningu forsætisráðuneytisins um samkomulagið segir m.a.: „Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur“.

 

 

Um niðurstöðu núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins

 

Í ljósi alls þessa er ekki að undra þótt Bjarni Benediktsson, þáverandi fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis og núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafi komist að afdráttarlausri niðurstöðu við umræður um samkomulag um Icesave á Alþingi 29. nóvember 2008:

 

"Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum. [...]
Þegar heildarmyndin er skoðuð tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli."

 
Efni samningsins og skýringar á www.island.is

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 21:18

24 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurður.

Jæja, nú erum við komnir á endapunkt, það hafa verið færð sterk rök fyrir því að endurskoðunarákvæði samningsins séu einskis virði, því þau eru háð mati gagnaðilans og velvild.  Þú hefur fært sterk rök fyrir því að neyðarlögin haldi ekki, en þau gera það ekki heldur þó við semjum um ICEsave skuldina.

Ef þú trúir því að við verðum gjaldþrota innan árs, þá er lítið við því að gera.  Ég trúi því ekki.

En hvað um það, það var gaman að ræða við þig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 21:38

25 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gísli.

Gaman að fá þig inn og fróðleg samantekt.  En ég vísa í þá félaga Stefán og Lárus þegar þeir bentu á þá einfalda staðreynd að orð og yfirlýsingar framkvæmdavaldsins séu ekki ígildi laga.  En þau geta vissulega gert okkur að fíflum.  

Ein að stóra ástæða þess að stór hluti þjóðarinnar kallaði á nýja stjórn í vetur var sú að fólk var búið að fá nóg af vanhæfni og getuleysi fyrri stjórnar.  Samantekt þín varpar skýru ljósi á það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 21:41

26 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ómar,

bættu fréttum dagsins af vinnu Stefáns Más sl. haust inn í fréttir af skoðunum SMS á Icesave málum, svona fyrir heildarmyndina.

Elfur Logadóttir, 25.6.2009 kl. 23:04

27 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elfur.

Gaman að heyra í þér aftur.  En eins og ég reyndi nú mjög kurteislega að útskýra fyrir þér í andsvari mínu til þín, fyrr í dag, þá var ég einmitt að blogga um þessa frétt.  En hún kemur lögum um ábyrgð ríkisins ekkert við.  

Og ég ber ekki á móti því að í haust þegar ég heyrði um þetta álit, þá var mér hugsað, "and......", en núna er ég hæstánægður.  Fyrst að EES samningurinn er svona ófullkominn að ESB ríki geta ekki sótt til saka meint brot EFTA ríkja, þá gott og vel.  Málið er úr sögunni.

En djóklaust, þá er það ekki þannig að EES samningurinn hafi ekki réttarúrræði.  En vilji ESB ríkin ekki nota þau, þá þau um það.  Það heldur ekki vöku fyrir mér.  

Góða nótt, og takk fyrir spjallið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.6.2009 kl. 23:21

28 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Arinbjörn. Þú segir að þú og þín fjölskylda hafið ekki tekið lán út í London. Það má deila um það því íslensku bankarnir tóku meðal annars lán út í London til að fjármagna lánastarfsemi hér á landi. Peningarnir komu því hingað.

Hitt er annað mál að það var Alþingi Íslendinga, sem ákvað að innistæðueigendum á Íslandi fengju sínar innistæður greiddar upp í topp. Þess vegna þarft þú, sem skattgreiðandi á Íslandi að borga kostnaðinn við þá ákvörðun. Það hefur íslenska ríkið ekki enn gert heldur hefur það verið fjármagnað úr þrotabúi bankans og þar með á kostnað annarra kröfuhafa í þrotabúið.

Ómar. Ef neyðarlögin verða dæmd ógild þá hefur allavega orðið það tjón annarra kröfuhafa en innistæðueigenda að það hefur verið tekið fé úr þrotabúinu til að greiða innistæðueigendum vegna þess að þeir voru settir framar í forgangsröðina heldur en aðrir kröfuhafar með neyðarlögunum. Það fé, sem þeir fengu þannig umfram það, sem þeir hefðu fengið ef neyðarlögin hefðu ekki verið sett verður ekki aftur tekið af þeim þó neyðarlögin verði dæmd ógild og þar með hefur hlutur annarra kröfuhafa skerst, sem því nemur. Þar með munu íslensk stjórnvöld allataf þurfa að greiða munin á því, sem innistæðueigendur fengu vegna neyðarlaganna umfram það, sem þeir hefðu fengið hefðu þau ekki verið sett. Sú ábyrgð ríkisins verði neyðarlögunum hnekkt er óháð því hvort við samþykkjum Icesave samningin eða ekki.

Sigurður M Grétarsson, 26.6.2009 kl. 10:42

29 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurður.

Íslensku neyðarlögin standa hvað varðar íslenska hluta bankakerfisins.  Ef lögin eru ekki nógu skýr með tilvísun í neyðarrétt þjóða, þá verða þau einfaldlega endursamin. dæmi íslenskur dómstóll þeim í óhag, þá fær hann á sig lög.  Það er eðli neyðarlaga að þau eru æðri venjulegum lögum, jú vegna neyðar.

En standist þau ekki fyrir breskum dómi, þá þurfum við að skila því sem við tókum, rétt er það.

En hvernig losnum við þá kvöð??????????????????????

Aðeins ein leið er örugg, og hún er að láta eignir Landsbankans í Bretlandi í friði.  Okkur kemur þær ekkert við.

Þess vegna er ótrúlegt, og hrein mótsögn í þínum málflutningi, að þú styðjir ICEsave samkomulagið.   Það er eina leiðin til að setja íslenska ríkið í þá stöðu sem þú talar um. 

Það að greiða ekki ICEsave með eignum bankans, útilokar alla hættu á málssókn og þrotabú bankans í Bretlandi, er gert upp á þann hátt sem lög kveða á um.

En vertu ekki að blanda ICEsave við yfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands um innlánstryggingu til sparifjáreiganda á Íslandi, þetta eru tvo aðskilin mál.  Það er ekkert ákvæði í EES samningnum eða samþykktum Evrópusambandsins, sem bannar þjóðum að grípa til neyðarréttar, enda stæðist slíkt ákvæði ekki alþjóðalög.

Þú mátt keyra yfir á rauðu ljósi ef aðstæður krefjast þess.

Kveðja að austan

Ómar Geirsson, 26.6.2009 kl. 13:31

30 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þetta er flott og góð umræða. Nei, ég er ekki anarkisti Sigurður. Taki íslenskt einkafyrirtæki lán erlendis til að fjármagna starfsemi sína hérlendis og fari svo á hausinn þá lendir það að öllu jöfnu ekki á íslenskum skattgreiðendum, það fer bara á hausinn og erlendu lánardrottnanir gera einfaldlega sína kröfu í þrotabúið. That´s it!

Sé hins vegar allt regluverk í kringum starfsemi einkafyrirtækja sem sækja sér lánsfé á erlendri grund gallað þá eiga menn að einhenda sér í að laga það - ekki að láta eina litla þjóð í langtíburtuistan gjalda þess þó fyrirtæki þaðan nýti sér þau réttindi og frelsi sem EES samningurinn felur í sér. Þegar ég tek lán í íslenskum banka þá er ég ekkert að kynna mér hvaðan hann fær sitt fé til að stunda lánastarfsemi. Ef ég myndi reyna kynna mér það fengi ég líklega engin svör önnur en þau að mér kæmi það ekki við.

Nýtt alþingi á hins vegar eftir að samþykkja icesave samninginn, það er ekki búið að því. Fyrri stjórn og alþingi samþykkti hins vegar undir þvingunum að leita eftir samningum sem hið nýja alþingi þarf að samþykkja og íslenski lög mæla svo fyrir að eigi megi samþykkja neitt það er vegur alvarlega að undirstöðum íslensks samfélags og stefni efnahag landsins í verulega hættu, það eru einfaldlega landráð.

Pistill Gísla hér að ofan er fræðandi en breytir engu um það óréttlæti sem verið er að beita okkur. Kjarni málsins er sá að regluverkið var meingallað og ekki til þess hugsað að taka á alherjarhruni og að ríki og þjóðir geta ekki og eiga ekki að axla ábyrgð á starfsemi einkafyrirtækja hvort sem það eru bankar eða sjoppur. Þessar aðstæður eru einstæðar í sögunni og við ásamt öðrum þjóðum eigum því að taka á málinu sem slíkum en ekki refsa þessari örþjóð fyrir galla á regluverki sem örríkið kom ekki nálægt að hanna og hafði engin áhrif á. 

Kær kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 26.6.2009 kl. 13:41

31 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Verð að fá að segja það,

Amen!!

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.6.2009 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 37
  • Sl. sólarhring: 663
  • Sl. viku: 5321
  • Frá upphafi: 1326867

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 4721
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband