Þegar blindir fá Sýn þá eignast börnin okkar framtíð.

Vargöld er framundan á Íslandi ef ekkert er að gert.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn heldur íslensku þjóðlífi í heljargreipum.  Almenningur er að sligast undan skuldum sínum en ekkert má gera honum til aðstoðar að boði sjóðsins.  

Hörmungar Kreppunnar eiga að fá að hafa sinn gang.  Annað skaðar ímynd Nýfrjálshyggjustefnu sjóðsins.  Hann er "Boogie man" fátæks fólks um allan heim. 

Á Íslandi er almenningur fátækur því hann á ekki fyrir skuldum sínum.  Og mun aldrei losna úr skuldafjötrum sínum ef Leppar og Skreppar sjóðsins fá einhverju ráðið.  En þjóðfélag skuldaþræla gengur ekki upp ef þrælarnir fá enga vinnu og eftir Leppar sjóðsins í ríkisstjórn Íslands hafa í  7 mánuði farið í einu og öllu eftir efnahagsstefnu sjóðsins, blasir við gjaldþrot atvinnulífsins.

Forseti Alþýðusambandsins spáir nýju Hruni fyrir vetrarbyrjun.  Staða atvinnulífinu er grafalvarleg og því er að blæða út segir framkvæmdarstjóri Samtaka Atvinnulífsins. Starfsskilyrði verslunar geta ekki verið ömurlegri segir framkvæmdarstjóri Samtaka verslunarinnar.

Vargöld er því í vændum ef Lepparnir verða ekki hraktir frá völdum, STRAX.

Eða þeir breytist úr Leppum í skynsamt, upplýst fólk og taki við að gera það sem þarf að gera og þurfti strax að gera í upphafi Kreppunnar.  Það sem aðrar þjóðir eru að gera til að vinna bug á efnahagsþrengingum sínum.  Leiðir sem Jón Daníelsson, doktor í hagfræði, sérmenntarður í efnahagskreppum, lagði til strax á fyrstu vikum Hrunsins.  Og Lilja Mósesdóttir, doktor og alvöruhagfræðingur, kom líka með vel útfærðar tillögur hvernig ætti að takast á við skulda og gjaldeyriskreppuna.

En á þetta unga og velmenntaða fólk var ekki hlustað.  Ekki bara stjórnvöld, heldur líka stærsti hluti þjóðarinnar kaus að leita í smiðju þeirra sem hönnuðu forsendur Hrunsins.  En gallinn var sá að þetta, annars ágæta fólk, hafði ekki fengið Sýn  á sína blindu gagnvart óheftum Kapítalisma og þeirra einu tillögur fólust í því að Gamla Kerfið yrði endurreist útfrá sömu hugmyndafræðinni sem kom þjóðinni í þrot.  

Og til þess var bara ein leið að þeirra mati og hún var að kalla á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.  Minknum var hleypt á saklausar hænur með því fororði að þær sem lifðu af yrðu hraustari á eftir.

En slíkt er aðeins "Fairy tale" og er aðeins efniviður í sigurlög í söngkeppnum.  Allar rannsóknir sýna að minnkar éta hænsn á meðan þeir hafa tækifæri til og að stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins veldur hörmungum fyrir almenning þeirra þjóða sem fyrir verða og efnahagskreppurnar dýpka.  Enda er sjóðurinn fyrst og fremst handrukkari fyrir alþjóðlegt fjármagn og komist upp með hörmungar sínar í skjóli ofríkis vestrænna þjóða sem hafa verið sýktar af þeirri siðblindu sem hefur verið kennd við Friedman og Hayek.

Og handrukkarinn er langt kominn með að skapa forsendur fyrir Sturlungaöld hina síðari sem mun kosta þjóðina hörmungar og lok sjálfstæðis hennar eins og hin fyrri Stulunga gerði.

Nema blindir fái Sýn.

 

Er einhver von til þess??

 

Í því liggur efinn en um leið vonin.  

Það er ljóst að háskólasamfélagið hefur algjörlega brugðist þjóð sinni.  Þar á fólkið að hafa þekkinguna og menntunina til að andhæfa ofríki örfárra hagfræðinga sem öllu ráða í hinni opinberu umræðu.  Fólkið sem hafði rangt fyrir sér í öllum meginatriðum í aðdraganda hrunsins, er fólkið sem auðmagnið notar til að þagga niður allar gagnrýnisraddir þjáðs almennings á opinberum vettvangi, í fjölmiðlum, á Alþingi, í stjórnkerfinu (t.d þöggun á talsmanni neytanda).  

Gott dæmi um heimskuna, sem er látin viðgangast og fær óáreitt að smitast út í samfélagið, er grein Þorvalds Gylfasonar um Vog og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn  (Fréttablaðið 7. maí).  Þorvaldur er fjölhæfur dansari Hrunadansins.  Hann er annar af helstu trúboðum Friedmans á Íslandi, hann hefur menntað flest þau ungmenni sem gengu heimsku Nýfrjálshyggjunnar á hönd og héldu að verðmæti yrðu til við pappírsgerð, og hann er höfuðSkreppur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi.  Kemur alltaf sjóðnum til varnar þegar afleiðingar Óráða hans komast í hámæli og minni Skreppar eins og Steingrímur Joð ná ekki til að þagga niður réttmæta ábendingar aðila vinnumarkaðsins um skaðsemi sjóðsins.

Rökfærsla Þorvalds er þekkt úr sögunni og þrautreynd áróðurstækni talsmanna helstefna 20. aldar.  Hann týnir til augljós mistök í aðdraganda Hrunsins, hann bendir á þá augljósu staðreynd að erfiðra ákvarðana er þörf í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins.  En þessar augljósu staðreyndir tengir hann við Óráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og slævir dómgreind lesanda sinna með því að tengja Óráðin við þekkt minni úr samtímanum.  En hann forðast það eins og heitan eldinn að minnast á allar þær rannsóknir sem sýna framá að Óráðin hafa hvergi virkað, og þau eru ekki að virka á Íslandi, heldur magna þau vanda sem var illviðráðanlegur fyrir.  Og hann skautar algjörlega framhjá því að mun færari hagfræðingar en hann vöruðu við afleiðingum þessa Óráða strax í upphafi.

Og margt ágætisfólk trúir Þorvaldi og notar grein hans sem innblástur til að taka þátt í þöggun á andstöðu hugsandi fólks við Óráðin og eins segir þetta sama fólk við örvæntingarfullt fólk í fjárhagserfiðleikum að það sé eins og alkinn sem neitar að fara á Vog.  "Hættu allri afneitun og feisaðu afleiðingar gjörða þinna.  Þín slæma staða er þér að kenna og hættu að skamma góða fólkið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem vill bara koma lífi þínu á réttan kjöl."   Og svo framvegis í þessum dúr hefur heimskan lekið um Netheima.

En hver meðalsagnfræðingur við Háskóla Íslands hefði getað bent á samsvörun við málflutning Þorvaldar og til dæmis hægri manna á fjórða áratugnum sem mæltu Þjóðernissósíalistum Þýskalands bót með þeim rökum að þó þeir virtu ekki almennar lýðræðisreglur, þá hefðu þeir rifið þýskt  efnahagslíf uppúr hjólförum Kreppunnar með efnahagsstefnu sinni.  Rétt að því marki að sá efnahagsuppgangur var fjármagnaður með ráni á eignum minnihlutahóps gyðinga og síðan átti að ræna nágrannana í austri til að fjármagna áframhaldandi uppgang efnahagslífsins.  Það var sem sagt rétt að það var kreppa og nasistarnir unnu bug á henni en ráðin til þess voru ekki boðleg í siðaðra manna samfélagi.  Eins skautaði Sovét trúboðið alveg framhjá því að uppbygging þungaiðnaðar Stalíns var fjármögnuð með lífi milljóna manna og gat því aldrei verið lausn fyrir siðaðar þjóðir.

En Roosevelt og Keyne fundu leiðir sem dugðu á kreppu án þess að meiða eða skaða milljónir.  Þeirra leið var Ráð, ekki Óráð.

Eins er það með Nýfrjálshyggjuráð  Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Þau eru eins of heilbrigðisstefna einræðisherrans sem vann bug á fuglaflensunni með því að skjóta alla hugsanlega smitbera.  Leið sem siðað samfélag fer ekki.  

Þetta veit Þorvaldur.  Hann er ekki vitlaus maður.  En hann blekkir í einhverjum tilgangi sem mér er hulinn.  En háskólasamfélagið á að afhjúpa hann sem áróðursmeistara, sem notar fræðihjúp og skáldgáfu til að boða villikenningar.  Kenningar sem eru búnar að koma heiminum á heljarþröm því enginn veit hvernig þessi kreppa endar.  Eina sem er víst að hún er ekki að fullu komin fram.  Og algjör óþarfi þegar heimsbyggðinni er ljós skaðsemi hennar, að hún fái að skapa forsendur Vargaldar á Íslandi með tilheyrandi upplausn og þjáningum almennings.  

Þögn háskólasamfélagsins er æpandi

 

En hver er efinn???  Hverjir eru að fá Sýn?

 

Í það fyrsta má nefna að almennir félagsmenn VinstriGrænna eru að átta sig á því að eitthvað kom fyrir Steingrím Joð á fyrsta fundi hans með Samfylkingunni.  Einhverjir þeir gjörningar áttu sér stað sem sviptu manninn sjálfinu og hann hefur talað tungumál Nýfrjálshyggjunnar síðan.  En fallinn foringi er fallinn foringi og Ögmundur er að safna liði og endurreisa félagshyggju flokksins.  Sú félagshyggja á aldrei samleið með Óráðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Og grasrót flokksins hefur tekið undir með almenningi og kynnt tillögur (mjög samhljóða tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna) í skuldamálum sem hjálpa almenningi en ekki hengja.  Ljóst er að þessar tillögur eru algjörlega á skjön við stefnu núverandi ríkisstjórnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun aldrei samþykkja þær.   Þær eru nefnilega Ráð, ekki Óráð.

En í öðru lagi og það var tilefni þessa pistils og mun verða efni í næsta pistil fyrst mér tókst að skrifa þennan án þess að minnast einu orði á tilefni hans, Morgunblaðið er að fá Sýn.

Og sú Sýn getur orðið þau vatnaskil að öll vötn leiti til heilbrigðrar framtíðar barna okkar. 

Morgunblaðið, þessi blindi stuðningsmaður Óráðanna,  er loksins að taka afstöðu með þjóð sinni.  Eftir margra mánaða drullugöngu út í Mýri að eltast við villuljósin sem þar skína, þá gerðist eitthvað afgerandi sem hefur breytt ritstjórnarstefnu blaðsins.  Ljós skynseminnar hefur náð til að snerta ritstjórann þannig að ekki verður aftur snúið.  

Vatnaskilin urðu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  Leiðarinn var beinskeytt ádeila á Óráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Slík skrif hafa aldrei birst áður á þeim vettvangi.  Dómurinn getur ekki verið harðari en þessi:

Háir stýrivextir eiga ekki að þjóna þeim aðilum sem keyptu krónubréf og sitja nú fastir með eignir sínar á Íslandi vegna víðtækra gjaldeyrishafta.  Þeir eiga sjálfir að bera kostnað af eigin áhættutöku en ekki þjóðarbúið í formi hárra stýrisvaxta og vaxtagreiðslna til útlendinga eða erlendra félaga í eigu Íslendinga.  ..........   Þá kemur í ljós hver ræður í raun stýrivaxtastiginu á Íslandi.

En Reykjarvíkurbréfið var snilld.  Mun betra en t.d ræða Obama.  Skýr Sýn á eðli vandans og hvað ber að gera svo börnin okkar eiga lífvænlega framtíð.

Það þarf að endurnýja Sáttmála samfélagsins svo allir þegnar þjóðfélagsins sjái tilgang í að tilheyra því en það er til lítils ef við á sama tíma gerum okkur ekki grein fyrir því að slíkt hið sama þarf að gerast um alla heimsbyggð.  

Tími græðginnar og arðráns á fólki og auðlyndum er liðinn.  Sjálf framtíð mannkyns er í húfi.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Mikið rétt hjá Mogganum. Þess vegna er ég orðin áskrifandi. Ég botna hvorki upp né niður í Þorvaldi Gylfasyni með þessa grein hans. Hafði mikið álit á honum en.......

Ég óttast hins vegar það versta. Mottó mitt þessa daganna er: Er á meðan er og ég tek á sturlungaöldinni hinni síðari þegar að henni kemur og bý mig undir hana á meðan.

Arinbjörn Kúld, 21.5.2009 kl. 04:41

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Segi það sama.  Við þurfum að vera klárir í slaginn.

Ég var reyndar alveg að gefast upp á Ólafi þegar vitið var ekki meira en hjá ungum Susara, en hann átti alltaf góða spretti í mannlega geiranum þannig að ég fyrirgaf honum alltaf.  Drengurinn hefur greinilega fengið "mennskt" uppeldi.  Frjálshyggjan er greinilega að eldast af honum og hinn klassíski íhaldsmaður að stíga fram.

Og stefna IFM er ekki klassísk íhaldsstefna og á Íslandi er hún að rústa borgarastéttinni, og Mogginn=íhald,  þá var þetta vera svipað og stærstu samtök gyðinga á dögum þriðja ríkisins sem aðstoðuðu nasistana við að gera útrýminguna manneskjulega, sbr ekkert andóf=ekki drepnir fyrr en þeir komu úr lestunum. 

Mesta smán gyðinga og um margt kveikjan af þeirri herskáu stefnu sem þeir illu heilli hafa fylgt síðan.  Mogginn og stuðningur hans við IFM, á meðan atvinnulífinu er að blæða út var langleiðina kominn með að vera mesta smán íhaldsmanna í 60 ár.

En núna er þjóðin að eignast bandamann og ekki veitir af.

En Þorvaldur, já hann Þorvaldur.  Eina sem ég veit að forfeður hans í 700 ár eru á snúning á gröfum sínum.  Ótrúlegt að maðurinn skuli ekki sjá hvað er að gerast.  Og það versta er að mætir menn eins og t.d nafni minn Ragnarsson, vitna í hann þegar þeir loka augunum fyrir ástandinu.  Tók eftir umræðunni þegar Ögmundur gat ekki lengur þagað.  

Kjarni málsins er  sá að það er rétt að hagkerfið þjáðist af illskeyttu krabbameini, en lausnin var ekki að senda það til töfralækna á Filippseyjum til að fá ódýran uppskurð án allra áhalda.  Baldur Brjánsson afsannaði þá lækningu.  

Það þarf að skera upp kapítalismann hér og hreinsa út meinið en ekki sjálfan sjúklinginn, þjóðina.  Hún hefur ekkert annað gert af sér annað en það að búa í sama landi og þessir menn.  Og umborið þá.

En það gerist ekkert fyrr en fórnarlömbin sjálf, stíga á stokk og segja "við látum ekki bjóða okkur þetta lengur".  

Og þá verða læti.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.5.2009 kl. 08:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 85
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 5402
  • Frá upphafi: 1338860

Annað

  • Innlit í dag: 64
  • Innlit sl. viku: 4750
  • Gestir í dag: 61
  • IP-tölur í dag: 60

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband