Verkfall Eflingar er réttmætt, það er réttlátt.

 

Ögurstund er runnin upp í íslensku samfélagi, á vígvöll verkalýðsbaráttunnar er kominn leiðtogi sem segir einfaldlega; Hingað og ekki lengra, við rekum þetta þjóðfélag á lágmarkslaunum sem ekki er hægt að lifa mannsæmandi lífi á.

Við erum rík þjóð, eins og sagt var í gamla daga, þá drýpur smjörið af hverju strái, við búum að auðlindum, menntun, tækni, þekkingu.

Ef stjórnkerfið, ef atvinnulífið, ef efnahagskerfið ræður ekki við að dreifa gæðum þjóðarinnar á þann hátt að allir í okkar fámennu þjóð geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum, þá er það vanhæft, ef það er sagt að slíkt sé ekki hægt, þá er það siðlaust.

 

Það eru vissulega erfiðir tíma og kannski atvinnuþref ekki á bætandi, Evrópa glímir við orkukreppu og dýrtíð, í stórum hluta heimsins býr fólk við hörmungar náttúruhamfara, fæðuskorts eða aðra óáran.  Síðan er stríð sem ógnar heimsfriðnum, framtíðin er því óviss og meintir skynsamir kjarasamningar, varnarsamningar til að verja þau lífskjör sem hægt er að verja, eini valkostur jafnt launþega sem atvinnurekanda.

Allt mikið rétt, nema þá þurfa allir að geta lifað, haft efni á fæði, klæðum og húsnæði sem er ekki reyndin fyrir alltof stóran hóp launafólks.

Fyrir hönd þessa fólks er Sólveig Anna að boða til verkalla, yfirlýsing hennar er stutt og skorinorð; það verður enginn skilinn eftir út undan, sem þjóð þurfum við núna að standa saman.

Ef siðleysið, ef vanhæfnin er það mikil að ráðafólk þjóðar okkar skilur þetta ekki, þá verður svo að vera.

 

Þá verður verkfall.

Réttmætt verkfall.

Réttlátt verkfall.

 

Því stundum er baráttan eina úrræðið.

Þess vegna var ekki gefist upp í London 1940.

Þó aðrir hafi gefist upp.

 

Þessi einföldu sannindi eru forsenda siðmenningarinnar.

Skýring þess að göturnar eru ekki fullar af fólki rífandi hvort annað á hol.

 

Þetta er nefnilega svo miklu meira en bara verkfall.

Kveðja að austan.


mbl.is Efling undirbýr verkfallsboðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær og einn albesti pistill sem þú hefur skrifað, kæri vinur.  Kjarnyrt og skorinort. Tek heils hugar undir með þér.

Og hafðu góðar þakkir fyrir.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.1.2023 kl. 16:17

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Það fer alltaf hrollur um mig þegar ég fæ þetta hrós frá þér, við erum næstum alltaf tveir um þá skoðun, og já ég er ánægður með þennan pistil, hafði miklar áhyggjur af hvernig mér tækist til og greip til óvenjulegra ráða núna í morgun til að hita upp mínar gömlu og þreyttu heilasellur (tók snerru við góðan mann á feisbókarsíðu hans, eins og mér kæmi eitthvað við hvað hann setti fram og trúði á), og ég er ánægður með árangurinn, aldrei þessu vant tókst mér að segja það sem ég vildi segja, og það ekki í svo alltof mörgum orðum.

Þessi pistill var jú alltaf tilgangur þessa síðbúna lífs míns hér á blogginu, og það er allavega einn, jafnvel tveir pistlar eftir um afhverju það skiptir máli það sem Sólveig Anna er að gera, hennar barátta er gjöf til æru okkar og sóma sem samfélags siðaðs fólks.

Svo shit með IP teljarann, ég næ víst ekki nafna mínum í þetta skiptið, ég get alltaf velorðað skammir sem hífa upp teljarann á ný.

Það gleður mig Pétur að við séum sammála núna, frá A til Ö, þó ég sé kannski ekki alltaf klár á stafrófinu þar á milli, megi fólk skilja mikilvægi þess sem Efling er að gera.

Og megi ráðafólki okkar bera gæfu til að ná sáttum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.1.2023 kl. 17:07

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Gaman væri nú að sja útreikninga á hvað launþegar hafa "grætt" á því að fara í verkfall gegnum tíðina
Stefán Ólafsson mundi sjálfsagt geta fengið út mikinn hagnað fyrir launþega vegna verkfallsaðgerða
en ég man ekki eftir öðru en vonbrigðum hjá fólki þegar heimilisbókhaldið var gert upp næstu mánaðamótin eftir að verkfalli lauk

Grímur Kjartansson, 10.1.2023 kl. 17:19

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Amen.

Magnús Sigurðsson, 10.1.2023 kl. 17:43

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Grímur.

Ég held að þú sért ekki alveg að ná konseptinu hjá mér. Þetta verkfall snýst ekki um meintan hagnað eða tap, þetta snýst um réttlæti, að til sé verkalýðsforingi sem segir hingað og ekki lengra.

Fyrst að ég vitnaði í forystu mannsins með vindilinn, þá er eitt á hreinu, það var hvorki vitglóra eða einhverjir hagnaðarútreikningar sem fékk hann til að hvetja þjóð sína til að kvika hvergi, og vart taldist það raunsætt að ætla sér að mæta innrásarlið "Glóbalauðmagns" þess tíma með heygöflum og kvíslum þó þeim ætti að beita á hæðum og hólum.

En hann sagði þetta samt og allir vita hvernig fór. Vegna þess að hinn siðaði heimur upplifði "réttmæta" baráttu, "réttláta" vörn gegn siðblindu og mannvonsku.

Siðblinda og mannvonska hinna sígráðugu útskýrir gjána sem er óbrúanleg í Reykjavík í dag, fólk getur ekki fjármagnað Þak sitt yfir höfuð, það er ekkert eftir þegar okurleigan hefur verið greidd.

Þetta er verkfall fólks Grímur sem hefur engu að tapa, þú notar ekki skynsemisrök á það, aðeins réttlætisrök.

Í kjarna er þetta andóf mennskunnar gegn Heli Hagfræði andskotans, og trúðu mér Grímur, að lokum þurfa allir að heyja þetta stríð.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.1.2023 kl. 20:18

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Núna er ég endanlega sannfærður, það munu ekki mörg læk hitta þennan pistil.

En í stað þess fékk hann það sem skiptir máli; Amen.

Það er vigt í því.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.1.2023 kl. 20:20

7 identicon

Búinn að setja læk á pistilinn og eins þann um Villa, en þau eru horfin þegar ég kíkka aftur á pistlana.  Set þau þá enn og aftur en þau hverfa.

Held að nú séu pistlar þínir búnir að ná þeirri slagþyngd að lækin yfir á feisbókina hverfi ... séu látin hverfa.

Það er hið mesta hrós hverjum að læk á skrif hans séu fjarlægð, látin hverfs.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.1.2023 kl. 23:58

8 identicon

IP tölurnar eru hins vegar á hraðri uppleið.  Það eitt skiptir máli að sem flestir lesi, enda fjöldi IP talnanna merki þess að svo sé.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.1.2023 kl. 00:00

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðan daginn Pétur.

Ég var nú bara að djóka, brá mér í gervi rithöfundarins sem hafði framfærslu af því að skrifa löggusögur, en varð alltaf sár þegar enginn las "alvöru" skáldsögur hans, fyrst að Thor heitinn fattaði það að lokum að til þess að vera lesinn, þá þurfti hann að skrifa bækur sem fólk vildi lesa, þá hljótum við minni spámennirnir geta skilið það líka.

Í sanni þótti mér mjög vænt um orð þín Pétur, næmni þín skynjaði að ég var að reyna eitthvað sem er mér erfitt, og þú lést mig því vita að við værum allavega tveir sem væru ánægðir með afraksturinn, því ég hefði ekki sent svona pistil út í kosmóið nema ég teldi hann ætti erindi þangað.  Kæringurinn er svo annar hlutur, eitthvað sem mannfræðingar framtíðarinnar eiga eftir að rannsaka í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu hvort hann sé genabundinn í okkur þorpurunum.

Fróðlegt sem þú sagðir mér um lækin en hver sem skýringin er, þá tengist hún ekki okkar Stóra bróðir.  Kosturinn við fjallavígin og gömlu framhlaðningana er sá að þau eru svo út úr alfaraleið að enginn slagkraftur er lagður í að þagga niður framhlaðningunum, enda vita allir sem vit hafa að ef þeir eru ofnotaðir, þá bræðir hlaupið úr sér með tilheyrandi hvelli og svörtum púðurblettum á andliti skyttunnar.  Hvað hefur maður séð þetta oft í grínmyndum í gegnum tíðina.

En núna er það Samstaðan Pétur, og á meðan er það kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2023 kl. 08:37

10 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Góðan daginn Ómar. Mig langar að koma með sjónarmið varðandi það sem hann Grímur Kjartansson setur fram. Þar setur hann fram spurningu um þvað  verkafólk hafi grætt á verkföllum. Ég spyr. Hvar væri mannskapurinn staddur ef aldrei væri farið í vinnustöðvun? Sem betur fer á Efling eitthvað í sjóði sem félagið getur stutt við bakið á fólki svo það verði ekki bjargarlaust.

Það er eitthvað verið að nefna Stefáns Ólafssonar gæti reiknað út hagnað fyrir launþega að aðhafast ekkert. og hann hafi sést einhversstaðar. Held að Stefán sé að vinna fyrir Eflingu svona til að hafa haldbær gögn sem hægt er að tefla framm framvæmdastjóri atvinnulífsins hefur undrast að einhverjir hafi sést sem ekki eru félagsmenn í Eflingu og hvort það sé Halldór sem er halda fram er ég ekk viss En Stfán er ráðuntur þarna á vettvangi.

Amma nín barðist fyrir því að fólk fengi kaffistofur, en þyrfti ekki að norpa á steinum niður í fjöru. Ósk hennar hneysli marga á þeirra tíð. Einnig að þvottavatnið yrði haldið heiu og ekki þyrfti að brjóta ísinn af þeim á morgnana. Amma var einu sinni rekinn úr vekalýðsfálaginu Baldri á Ísafirði ásamt nokkrum félögum sínum fyrir að rífa kjaft og vinnurétturinn tekinn af þeim. En hún og einhver annar voru svo tekinn aftur í félagið.

Villi reiknar tapið eins og  atvinnurekandi. Það var fallegur atburður þegar þjóðarsáttin var gerð. Verðlagsgrundvöllur landbúnaðarins hafði var vísitölubundin og var færður upp 

ársfjórðungs lega og allta var spanað upp. En laun eru ekki vísitölubundin núna og því er dagleg hætta á að fólk nái ekki endum saman. Það er lítið um aðgerðir hjá ríkisvaldinu að kom með

enhverjum hætti að þessu máli eða útspil en ekki hef ég séð nein merki þess. Bara jóreykur.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 11.1.2023 kl. 08:42

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðan daginn Þorsteinn og takk fyrir þitt góða innlegg.

Ég skil alveg sjónarmið Gríms, og þetta er svipað sjónarmið og móðir mín, rétt að verða níræð, reifaði við mig þegar Sólveig Anna kom til tals.

En eins og þú segir réttilega, og vitnar skemmtilega í ömmu þína, að þá þarf bara stundum að berjast, annars hnikumst við ekkert fram á við og ég held að ástandið í Reykjavík verði svona eldfimt þar til menn ná tökum á húsnæðismarkaðnum.  Það er eins og þeir félagarnir þarna á landsbyggðinni skilji ekki að það er allt annar raunveruleiki í Reykjavík, það eru svo margir sem komast ekki í gegnum greiðslumat og eru því ofurseldir villimennsku húsaleigumarkaðarins. 

Þegar leigan hækkar um 50 til 100 þúsund á mánuði, hvað duga þá 35 þúsund krónur uppí þá hít, og síðan eru allar hinar kostnaðarhækkanir, hvort sem það eru opinber gjöld eða bara brýnustu lífsnauðsynjar.

Og þetta þarf fólk að skilja, sérstaklega ráðafólk okkar.

Þess vegna tala ég um réttlátt verkfall.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2023 kl. 08:55

12 identicon

Hingað streymir fólk frá útlandinu í leit að vinnu og betra lífi og tekur þá í flestum tilvikhm að sér launalægst störfin.  Samt getur það ekki dregið fram lífið samkvæmt dramatískum sófakommum.  Gaman að þessu.

Bjarni (IP-tala skráð) 11.1.2023 kl. 18:07

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Skil ekki alveg lógíkana hjá þér, fyrir utan að skilja að Góða fólkið er mjög hrifið af innstreymi flóttafólks, fyrir utan að skapa mörgum vel launaða vinnu að gæta meintra réttinda þess, þá er það vissulega rétt, að maður í neyð, tekur það sem býðst, og þar með heldur hann niðri launum, og dregur úr þrótti verkafólks að sækja sér kjarabætur.

Hvað þetta kemur fyrirhugaðri verkfallsboðun Eflingar er mér fyrirmunað að skilja.

Sorry.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2023 kl. 18:44

14 identicon

Ég er ekki að tala um flóttafólk heldur innflytjendur sem þurfa hvorki dvalarleyfi né atvinnuleyfi. Þeir eru hérna tugir þúsunda  og margir þeirra eru eimitt í Eflingu.  Þeir koma hingað í leit að vinna og völdu Ísland umfram öll hin löndin í Schengen,væntanlega vegna þess að hér buðust vinna og kjör betri en annars staða.  Varla var það veðrið sem dróg það hingað.

Bjarni (IP-tala skráð) 11.1.2023 kl. 20:35

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, já, ég skil þig alveg en tel þá varla vera talda í tugum þúsunda.  En hvað kemur það þessu verkfalli við??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2023 kl. 22:41

16 identicon

Það eru 58.000 innflytjedur búsettir á Íslandi, þar af meira en 20.000 pólverjar. Þetta fólk kemur til Íslands í leit að betra lífi og til að vinna, tímabundið eða til langframa.  Af hverju?  Af því það telur hag sinn betri hér en á öðrum stöðum sem það hefur aðgang að.

Bjarni (IP-tala skráð) 12.1.2023 kl. 00:13

17 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég skal vera síðasti maðurinn til að mótmæla að það þurfi að hækka launin, en er þetta rétti tíminn til þess? Orkukreppa, húsnæðiskreppa og atvinnulífið að stórum hluta enn laskað eftir þrjú ár næstum því af farsóttarkreppu.

Eru það réttlátar kröfur hjá Eflingu að launþegar á höfuðborgarsvæðinu fái hærri laun en landsbyggðin, eða restin af landinu? Eru sumir jafnari en aðrir í augum Sólveigar, rétt eins og sagt var um ákveðinn vinstri flokk sem réði eitt sinn ríkjum á austurhveli jarðar?

Ég segi kröfur Eflingar, en mér sýnist að þetta séu aðallega kröfur Sólveigar, sem er búin að stunda hreinsanir á þeim sem eru ósammála henni. Ekki alveg í anda Stalíns, andlegs leiðtoga föður hennar (blessuð sé minning Jóns Múla, hafði alltaf gaman að honum) en hreinsanir samt.

Að lokum þá gleymir Sólveig / Efling að atvinnufyrirtækin á höfuðborgarsvæðinu þurfa líka að borga hærri leigu, eða hærri lán séu þau að kaupa atvinnuhúsnæði. Þau þurfa líka að borga sama verð fyrir eldsneyti og önnur aðföng.

Theódór Norðkvist, 12.1.2023 kl. 01:05

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Núna ertu orðinn nákvæmari, frjálst flæði til landsins í gegnum EES samninginn og útþenslu ferðaþjónustunnar er talinn í tugum þúsunda, en þessar tugi þúsunda eru ekki flóttamenn eins og þú skelltir fram í hér að ofan, þeir eru aðeins brot af þessum fjölda.

Og já, þeir eru að leita að betri lífskjörum en hvað kemur það efni þessa pistils við??

Það er sú lógík sem ég fatta ekki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.1.2023 kl. 08:54

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Theódór.

Ég sé að þú hefur lent í undirróðursmanninum á Morgunblaðinu sem ég fjalla lítillega um í pistli dagsins sem ég var rétt að klára við að henda inn.  Þar bendi ég líka á að atvinnurekandinn þarf líka að ná endum saman, svo ekki hef ég nú gleymt því.

Við þig nenni ég ekki að elta ólar við bullumsullið sem undirróðurinn matar fólk á, ætla bara hrósa þér fyrir að hafa ekki látið blekkjast í Úkraínudeilunni líkt og svo margir hægri menn hafa gert, þetta er alls staðar sama tæknin, kóvid, Úkraína, hamfarahlýnunin, tilgangurinn alltaf að afvegleiða og blekkja.

En spurning þín um hvort þetta sé tíminn, jafnvel má spyrja hvaða tilgangi það þjónar að koma mörgum smærri fyrirtækjum í þrot.  Ég eiginlega svara henni hér að ofan;

"Það eru vissulega erfiðir tíma og kannski atvinnuþref ekki á bætandi, Evrópa glímir við orkukreppu og dýrtíð, í stórum hluta heimsins býr fólk við hörmungar náttúruhamfara, fæðuskorts eða aðra óáran.  Síðan er stríð sem ógnar heimsfriðnum, framtíðin er því óviss og meintir skynsamir kjarasamningar, varnarsamningar til að verja þau lífskjör sem hægt er að verja, eini valkostur jafnt launþega sem atvinnurekanda.

Allt mikið rétt, nema þá þurfa allir að geta lifað, haft efni á fæði, klæðum og húsnæði sem er ekki reyndin fyrir alltof stóran hóp launafólks."

Það þurfa allir að geta lifað Theódór og þjóðfélagið okkar er nógu auðugt til þess.  Beri ráðafólki okkar ekki gæfu til að tryggja öllum lágmarks lífskjör, þá endar þetta svona.  Það er engin skynsemi í því, ekki frekar en hjá þeim mæðrum sem bökuðu moldarkökur til að seðja sárasta hungur barna sinna.

Sá sem á ekkert, sá sem hefur engu að tapa, hann fer í verkfall á svona tímum, því það er þegar kreppir að sem það litla sem fólk hafði umfram, hverfur, og fólk getur ekki framfleytt sér.

Vilji menn ekki gera þá kerfisbreytingu sem þarf á húsnæðismarkaðnum, þá tekur láglaunafólk aðra með sér í sínu frjálsa falli þar til krassið verður.

En ábyrgðin er ekki þess, heldur þeirra sem ráða, þeirra sem hafa völdin til að sátt náist í samfélaginu.

Fólk er að rísa upp um alla Evrópu, það gátu menn sagt sér þegar menn slepptu skepnunni,hinu frjálsa flæði, lausri á launafólk og samfélag þess.

Uppreisnin er bara rétt að byrja Theódór, og svipa þrælahaldarana, evran mun ekki duga til að halda aftur af þeirri kröfu vinnandi fólks að geta lifað af launum sínum.

Við erum hins vegar það rík og það fámenn, að við eigum að geta náð sáttum áður en mjög illa fer.

Fyrsta skrefið til þess er að hætta að skjóta á sendiboðann.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.1.2023 kl. 09:19

20 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þakka svarið Ómar, met það við þig að þú svarar athugasemdum ólíkt sumum öðrum bloggurum. Kíki á nýju færsluna þína og tjái mig kannski frekar þar.

Theódór Norðkvist, 12.1.2023 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 61
  • Sl. sólarhring: 178
  • Sl. viku: 5378
  • Frá upphafi: 1338836

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 4736
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband