Ríkisstjórnin féll á prófinu.

 

Höfum eitt á hreinu, vilja menn losna við þennan faraldur þá er ekkert annað í boði en mjög stífar samfélagslegar lokanir í nokkrar vikur, á pari sem var á Spáni eða Ítalíu á sínu tíma, sem og lokun landamæranna með sóttkví allra sem koma til landsins.

Allt annað er sýndarmennska, það er ef menn vilja stöðva þessa veiru.

 

Ríkisstjórnin féll á prófi skynseminnar.

Megindrifkraftur faraldursins eru skólar landsins, þar dreifist smitið á milli barnanna, og berst síðan inná heimili fólks.

Vilji menn hemja þennan faraldur, þá verður það ekki gert nema loka skólum landsins.

Samkomutakmarkanir ná vissulega að hamla skemmtanalíf ungra karla, en mikið fá fólk vera einfalt í sinni ef það heldur að náttúran hverfi og ungt fólk hætti að hittast og skemmta sér.

Heimskast af öllu er síðan að ætla sér að draga faraldurinn á langinn núna þegar virkni þriðju bólusetningarinnar er í hámarki og héðan af mun aðeins draga úr vörnum hennar gegn alvarlegum veikindum.

Aðgerðirnar vinna sem sagt gegn þeim markmiðum heilbrigðisyfirvalda að lágmarka alvarleg veikindi og dauðsföll vegna faraldursins.

 

Ríkisstjórnin féll á prófi þess sem kalla má réttlæting samfélagslegra takmarkana í nafni sóttvarna.

Ef PCR prófin væru ekki til þá vissi enginn að faraldur væri í gangi í þjóðfélaginu, aðeins einangruð tilvik veikinda þar sem mjög fáir þurfa að leggjast inná spítala. Stærsti hlutinn af þessum fáu er óbólusett fólk sem fyrirfram hefur neitað þeim vörnum sem eru í boði til að verjast veirunni.

Aðeins farsótt, sem ekki er hægt að lækna og getur valdið alvarlegum veikindum hjá áhættuhópum, réttlætir samfélagslokanir, og þá aðeins í þann tíma sem tekur að þróa bóluefni og finna lyf sem virka gegn veirusýkingunni. 

Eftir það þá ber stjórnvöldum skylda til að hafa heilbrigðiskerfið það öflugt að það ráði við að bólusetja almenning og geti sinnt þeim undantekningum sem veikjast.

Vanhöld á því réttlætir aldrei að úr klúðrinu sé bætt með því að grípa til samfélagslegra lokana sem lama allt eðlilegt mannlíf.

Hvað þá þegar þjóðin er bólusett, varin gegn alvarlegum veikindum, að slíkt klúður sé talið meginforsenda þess að allt þjóðlíf sé drepið í dróma.

 

Og þar með er komið að lokaprófinu sem ríkisstjórnin féll á.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar fagnar brátt 2 ára afmæli sínu, strax í upphafi var ljóst að hann myndi reyna mjög á heilbrigðiskerfi þjóðarinnar, það yrði því að efla með öllum ráðum.

Öll þau ráð fram að þessu eru í flugumynd, og núna þegar lýst hefur verið yfir hættustigi almannavarna vegna vanbúnaðar heilbrigðiskerfisins, þá þýðir það að menn gera það sem þarf til að auka mönnun og fjölga leguplássum.

Ekkert í lögum og reglum um almannavarnir segja að menn eigi að yppta öxlum, gera fátt annað en að segjast ekki ráða við ástandið, og því sé bara auðveldast að læsa þjóðina inni.

 

Ef almannavarnir væru virkar þá myndu þær setja þessa ríkisstjórn af ef þetta er svarið.

Hvetja forsetann til að skipa neyðarstjórn sem nýtti sér lög og heimildir til að kalla fólk til starfa og beina fjármunum og aðföngum inní gjörgæslukerfið.

Ef óbólusettir eru skýring þess að það er að springa þá má takast á við þann vanda með því að útvista óbólusettum einstaklingum úr hinu opinbera heilbrigðiskerfi, bjóða hjúkrun þeirra út til einkaaðila á evrópska efnahagssvæðinu eða hvað sem mönnum dettur í hug til að uppfylla skyldur sínar gagnvart þeim, en aðalatriðið er að frelsi þeirra til að hafna bólusetningu á ekki að bitna á samfélaginu, frelsi þeirra er ekki því fólgið að aðrir sitji uppi með ábyrgðina. Hvað þá að þeir séu rök fyrir atlögu að samfélaginu í nafni sóttvarna.

 

Allavega, þetta er ekki líðandi.

Þessu bjargleysi heimskunnar verður að linna.

Þurfi til þess nýtt fólk, þá verður svo að vera.

 

Útbrunnið fólk getur ekki komið okkur út úr þessu heimatilbúnu sjálfsskaparvíti.

Heimsfaraldri veirunnar mun linna fyrr eða síðar.

Á meðan þurfum við fólk sem hefur kjarkinn og getuna að halda lífi í samfélaginu en ekki bara smittölum þess.

 

Hér með óska ég eftir slíku fólki.

Kveðja að austan.


mbl.is Hertar aðgerðir „millivegur sóttvarnalæknis“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Vel mælt og kominn tími á nýja nálgun. Ef Þórólfur færi eftir faraldsfræðum þá myndi hann sjá að þetta er byrjað að fara niður og mun lækka mjög hratt. Þá stendur eftir spurningin: Ef smit fara niður fyrir 500 innan viku mun þá verða létt á sóttvörnum?

Rúnar Már Bragason, 14.1.2022 kl. 14:48

2 Smámynd: Hrossabrestur

Sæll Ómar og gleðilegt nýtt ár

Ríkisstjórnin féll á prófinu, það er spurning hvort hún fellur ekki alveg vegna afleiðingann,

það er allvega ekki bjart framundan hjá heilbrigðiskerfinu.

kv. hrossabrestur.

Hrossabrestur, 14.1.2022 kl. 15:40

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

"losna við þennan faraldur" það er því miður bara ekki hægt 
Ríkisstjórnir alsstaðar í heiminum hafa reynt flest allt en ekkert hefur gengið

Grímur Kjartansson, 14.1.2022 kl. 22:00

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Grímur.

Ég hafði nú töluvert að segja annað en þessa upphafssetningu mína en get alveg eytt orðu á hana.

Það að losna við faraldur er ekki það sama að útrýma honum, en þú getur losnað við hann úr samfélaginu með því að skera á allar smitleiðir, og verja síðan landamæri.

Eitthvað sem gekk mæta vel í nokkrum löndum eins og þú veist mæta vel, þar má nefna eftirtektarverðan árangur Kínverja sem náðu að útrýma veirunni úr landi sínu, eitthvað sem maður hélt ekki að væri hægt í svona fjölmennu landi. 

En ef varslan á landamærum er ekki þeim mun öflugri þá kemur hún aftur, alveg rétt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.1.2022 kl. 11:36

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hrossabrestur minn góður og gleðilegt nýtt ár.

Já það er ekki bjart framundan hjá heilbrigðiskerfinu, og var það löngu áður en þessi faraldur kom til. 

Það er ótrúleg skammsýni í bland við ófyrirleitni að reka bráðamóttöku þjóðarinnar í besta falli á 100% afköstum, en alltaf á yfirsnúning ef eitthvað smáálag kemur upp.

Það er það sem þurrkar upp starfsfólk þannig að það gefst upp að lokum, það skýrir starfsmannaveltuna, núverandi faraldur eykur aðeins vandann.

Hvernig var þetta aftur, voru 8 á gjörgæslu í gær??!!!

Hvað er eiginlega að fólki að nota slíkt sem réttlætingu á lokun samfélagsins??

Þetta fólk á eitt sem allt að skammast sín.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.1.2022 kl. 11:43

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Rúnar.

Er eiginlega hættur að skilja Þórólf, held að hann sé freðinn vegna yfirálags undanfarinna ára.

Þess vegna er í engu hægt að spá hvert framhaldið verður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.1.2022 kl. 11:45

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já einmitt. Samfélagslegar lokanir eins og á Spáni og Ítalíu. Faraldurinn semsagt búinn á Spáni og Ítalíu? Það eru nýjar fréttir.

Þorsteinn Siglaugsson, 15.1.2022 kl. 13:30

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Æ láttu ekki svona Þorsteinn, nenni varla að þrasa um svona hártogun. En já Chelsea er slakt og samfélagslokanirnar á Spáni og Ítalíu lokuðu á fyrstu bylgjuna.

En landamærin voru ekki lokuð svo það er augljóst að meðan veiran er á kreiki, þá kemur hún aftur.

Reyndu nú frekar að halda með óvinum óvinum míns, megi Chelsea vinna City, og njótt þess að ég sé að skjóta á heilbrigðisyfirvöld og óska eftir nýju fólki með nýja hugsun.

Koma svo.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.1.2022 kl. 13:35

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Meðan veiran er á kreiki kemur hún aftur. Það er meginatriði málsins. Skiptir engu hvort lokað er í fáeinar vikur. Hún kemur aftur. Sem stendur vill svo til að nýtt afbrigði hennar, nær hættulaust, er á kreiki. Það er engin vissa um að svo verði enn eftir 1-2 mánuði. Þá kynni það að hafa stökkbreyst og orðið skæðara, raunar er eiginlega tölfræðilega útilokað að það gerist ekki. Eina vitið nú væri að láta omicron afbrigðið breiðast hér sem hraðast út og mynda breitt ónæmi í samfélaginu, sem mun þá vernda þá sem smitast af því. Með því að hindra það er aðeins verið að bjóða hættunni heim.

Hvað undirtektir þínar með þeim sorglegu karakterum sem hafa nú fundið sé hóp til að hata og útiloka varðar, þá sting ég fingri niður í kok.

Þorsteinn Siglaugsson, 15.1.2022 kl. 15:21

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn.

Það er aldeilis uppá þér typpið núna, en áður en ég kem að þeim lífsvotti, þá er gott að veið séum ekki að eyða fleiri orðum á inngang pistils míns, sem var vinsamleg ábending ef einhver væri það hrekklaus að halda að þessar nýtilkynntu samfélagslokanir þjónuðu einhverjum öðrum tilgangi en að vera óður til sýndarmennskunnar, að þá er það svo að ef menn vilja ná niður smitum vegna veiru sem er bráðsmitandi og mjög útbreidd, þá þarf til þess miklu strangari ráðstafanir en ríkisstjórnin samþykkti, og já, um leið og slakað er á þeim, þá leitar smitið á ný inní landið, og verður svo um þann aldur og ævi sem viðkomandi veira er landlæg í heiminum, og ekkert bóluefni heldur útbreiðslu hennar í skefjum.

Hvað síðustu línu þína varðar þá kann ég nú það vel við þig að mér þætti það mjög leitt að þú tækir uppá því að kafna eftir að hafa lesið pistla mína, en annars skil ég ekki orð af því sem þú ert að segja.

Þú kannski útskýrir það fyrir mér ef þú hefur lifað af kokgleypu þína.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.1.2022 kl. 16:33

11 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þú verður nú að fara að reyna að kynna þér grundvallaratriði í ónæmisfræðum Ómar. Það á að nota tækifærið og ná ónæmi meðan veiran er væg. Ekki að tefja útbreiðslu og bíða eftir illvígara afbrigði. Hugmynd þín um að loka öllu er heimskuleg, nákvæmlega vegna þess að um leið og opnað er aftur kemur veiran aftur og gæti þá verið orðin verri viðureignar. Það er í það minnsta öruggt að hún verður ekki betri. Nema þú ímyndir þér að hægt sé að loka hér öllu næstu hundrað árin, en aðrar eins furðuhugmyndir hefur maður svo sem séð - það er ekkert á sviði heimskunnar sem kemur á óvart lengur.

Þorsteinn Siglaugsson, 15.1.2022 kl. 22:30

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn.

Þetta kallar maður að svara ekki spurningum, eða útskýra hluti.

Eina sem mér dettur í hug er að þegar þú settir puttann uppí kok þitt, að þá hafir þú skrúfað fyrir súrefnisflæði til heilans, og hafir ekki verið búinn að ná þér þegar þú ritaðir þessi orð þín.  Eða,sem er reyndar mjög ólíklegt, að þú sért Manjú maður og hafir orðið svo miður þín eftir leikinn við Aston Villa að þú talir tungum lengi á eftir.  Það er sko ekki ólíklegt við stuðningsmenn séum með óráði þessa dagana, en mér finnst það bara svo ólíklegt að þú horfir á fótbolta, hvað þá að þú haldir með Liðinu.  Djúpstæð reiði yfir samkomutakmörkunum varði mig hins vegar gagnvart óráði, þær hindruðu mig í að horfa á afkvæmin spila lokal leik við næstu byggð.

Vona samt að þú hafir náð þér og því ætla ég að leggja fyrir þig gátu; Af hverju heldur þú Þorsteinn að maður sem taldi mig hafa kallað sig vitleysing eða bjána fyrir ekki svo löngu, man ekki alveg hvort hann tók það til sín þegar ég talaði um vitleysingahjörð eða bjánahjörð, það er hvort orðið ég notaði, hafi verið fyrstur hér inní athugasemdarkerfið og mælt; Vel mælt.

Eða að við Guðmundur erum næstum búnir að gleyma að við hofum einhvern tímann verið ósammála??

Eða Þorsteinn, ef ég væri eins athyglissjúkur og Bergsteinn rithöfundur, að ég myndi saka þig um ritstuld þegar þú settir inn þessi orð þín hér aðeins ofar; "Meðan veiran er á kreiki kemur hún aftur. Það er meginatriði málsins. Skiptir engu hvort lokað er í fáeinar vikur. Hún kemur aftur. Sem stendur vill svo til að nýtt afbrigði hennar, nær hættulaust, er á kreiki. Það er engin vissa um að svo verði enn eftir 1-2 mánuði. Þá kynni það að hafa stökkbreyst og orðið skæðara, raunar er eiginlega tölfræðilega útilokað að það gerist ekki. Eina vitið nú væri að láta omicron afbrigðið breiðast hér sem hraðast út og mynda breitt ónæmi í samfélaginu, sem mun þá vernda þá sem smitast af því. Með því að hindra það er aðeins verið að bjóða hættunni heim."

Tókstu þessi orð úr nýlegum pistlum mínum eða athugasemdum??

En það var lokasetning þín sem ég skyldi ekki, tók það fram að mér þætti það miður að ég skyldi valda þér þeim miska að þú sæir þig tilneyddan að troða fingri uppí kok þitt, og sagði þér síðan að núna skyldi ég ekki orð, er þó vanur að skilja margt þó ég segi sjálfur frá.

En núna er það fótboltinn, megi Liverpool vinna og gleðja mig í leiðinni, það seinna samt aukaatriði, aðalatriðið er að óvinir óvinar míns eru vinir mínir þessa stundina, og allt þarf að gera til að stöðva City.

Samt ekki að setja þá í sóttkví, þar set ég mörkin.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.1.2022 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 454
  • Sl. sólarhring: 728
  • Sl. viku: 6185
  • Frá upphafi: 1399353

Annað

  • Innlit í dag: 383
  • Innlit sl. viku: 5238
  • Gestir í dag: 352
  • IP-tölur í dag: 347

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband