23.2.2021 | 23:22
Á hvaða öld lifum við??
Er það ekki á þeirri 21. þar sem vestræn samfélög súpa seyðið af frjálshyggju síð 20. aldarinnar, einkavæðingu grunngæða, sjálftöku fjármálamarkaðarins með þekktum afleiðingum, útvistun grunnframleiðslu til Kína svo ekki stendur steinn eftir í áður óvinnandi múrum iðnaðar okkar og velmegunar.
Hnignun innviða svo til hamfara horfir, niðurbrot velferðar svo gjáin milli þeirra sem eiga og hafa góða vinnu, sem og allra hinna, er að verða óbrúanleg með tilheyrandi ólgu sem líklegast mun enda í borgarstríði líkt og allt bendir til að muni verða í Bandaríkjunum.
Undirrótin er sú hugmyndafræði sem taldi sjálftöku auðs og auðmanna vera forsenda framþróunar og velferðar, hið frjálsa flæði frjálshyggjunnar.
Eða eigum við að rifja upp lok þeirrar 18. og byrjun þeirra 19. þar sem stórríkin töldu grunnþjónustu eins og póstflutninga vera límið sem héldi saman samfélögum, þess vegna kostaði það sama seinna meir að senda bréf frá París til Lyon, eða um hálfan hnöttinn til Tahití í Kyrrahafinu, því eitt ríki, sama þjónusta.
Útjaðrar áttu að hafa sama hag og kjarninn að tilheyra alríkinu, sömu bönd, sömu hagsmunir.
Sama hugsun, sama aðferðafræði og gerði Ísland byggilegt í nútímanum, hinar dreifðu byggðir framleiðslunnar nutu sömu verðlagningar og þéttbýlið í Reykjavík, flutningskostnaður var jafnaður út, vegakerfið, dreifikerfi rafmangs, símalínur, allt tekið úr sama potti og fjármagnað.
Ein þjóð í einu landi.
Svo kom Davíð og frjálshyggjan.
Svo kom Evrópusambandið og frjálshyggjan.
Landsbyggðin hefur goldið fámennisins, en hefur ekki snúist til varnar og krafið þéttbýlið um arðinn af orkunni eða fiskauðlindinni, þar sem landfræðilega aðeins núll komma eitthvað tilheyrir suðvestur horni landsins.
Því við erum ein þjóð í einu landi.
Svo kemur svona viðrinisfrétt um einhvern sjálfstæðismann sem enginn veit hvað heitir, sem ætlar að slá sig til riddara í prófkjöri flokksins á suðvestur horninu.
Og blaðamaðurinn nýtir sér að það er ekki runnið af öllum eftir Klaustursumblið.
Afhjúpar líklegast að Sigmundur Davíð hefur litla stjórn á sínu fólki, enda framboð hans til í fljótheitum og varð að nýta það sem bauðst.
Eftir stendur, hver er stefna Sjálfstæðisflokksins?
Hvaða skilaboð er varaformaður samgöngunefndar að flytja út til hinna dreifðu byggða??
Sundrungu og ósætti??
Er það leiðin til að einhver sem enginn veit hvað heitir, fái fylgi og kjör ofarlega á lista flokksins í þéttbýlinu??
Vill flokkurinn virkilega þessa umræðu í aðdraganda kosninganna??
Eða er þetta tilbúin frétt hönnuð af hagsmunum eiganda blaðsins sem fjárfestu í póstdreifingafyrirtæki og vilja samnýta fjárfestingu sína til að bæta rekstrargrundvöll samstæðunnar.
Mogginn sé svona eins og fjölnota sendibíll sem dreifir bæði blaði og pósti, ekki sjálfstæður fjölmiðill sem á aðeins eina eign, trúverðugleika sinn, sem byggist á áratuga langri fagmennsku og hlutleysi hvað fréttaflutning varðar.
Já, bjóðum út.
Bjóðum út, bjóðum út.
Árið er 1991, útboð og einkavæðing lofar gulli og grænum skógum.
Reyndin varð bara önnur.
Og við erum ennþá að súpa seyðið.
Sem er beiskt, án næringar, líkt og svala þorsta með söltum sjó.
Árið er 2021, sjálfstæði og velmegun þjóðar er í húfi.
Forræði orkunnar er komin til Brussel, í æ ríkari mæli víkja innlend lög fyrir tilskipun skriffinna þess.
Verði ekki snúist til varnar, þá er engin vörn þegar næst verður kosið 2025.
Um annað á ekki að ræða.
Og allra síst að láta tímaskekkju fallinna hugmyndafræði eða innihaldslausra slagorða afvegleiða þá umræðu.
Því tilgangur þess er aðeins einn.
Afvegleiða, að láta umræðuna snúast um annað en það sem skiptir máli.
Árið er 2021.
Árið sem við þurfum að verja sjálfstæði okkar og framtíð.
Árið er 2021.
Kveðja að austan.
Sammála um að bjóða ætti út póstþjónustu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 202
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 168
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.